11. janúar 2019

93. ÞESSI ÞUNGU HÖGG

Það hefur verið svolítið í umræðunni, undanfarna mánuði og jafnvel ár, höfuðhögg íþróttafólks og alvarleiki þeirra. Fyrir ekki svo mörgum vikum las SVEPPAGREIFINN einmitt frétt og viðtal við knattspyrnumanninn Hólmbert Friðjónsson sem upplýsti um það að á undanförnum árum hefði hann fengið að minnsta kosti fimm sinnum þung höfuðhögg sem leitt höfðu til heilahristings. Við hvert skipti hafi það tekið hann sífellt lengri tíma að jafna sig og ýmisleg leiðinleg einkenni höfðu fylgt og hrellt hann í kjölfarið. Hólmbert er ekki sá eini sem hefur þurft að glíma við afleiðingar heilahristings því dæmi eru um það að fólk hafi ekki aðeins þurft að taka sér hlé frá æfingum og keppni heldur hefur það jafnvel þurft að hætta alfarið iðkun íþrótta. En það var reyndar ekki ætlunin að fjalla hér, á myndasöguvefnum Hrakförum og heimskupörum, um þennan hættulega fylgifisk marga íþróttagreina. Það er gert á öðrum, alvarlegri og sérhæfari vettvöngum.
En í kjölfar viðtalsins við Hólmbert fór SVEPPAGREIFINN að velta aðeins fyrir sér öllum þeim höfuðhöggum (og þá í flestum tilfellum rothöggum) sem margar af hetjum teiknimyndasagnanna þurfa að fást við. Það er nefnilega ekki tekið út með sældinni einni að vera myndasöguhetja. Margar þeirra eru í eilífri baráttu við ýmsar tegundir bófa og glæpamanna og sú manntegund vílar sér ekki við það að beita ofbeldi eftir þörfum. Það er nánast daglegt brauð (alla vega fyrir þá sem lesa teiknimyndasögur daglega) að hetjurnar þurfi að glíma við ofbeldisfull illmenni þar sem margvíslegar tegundir af höfuðhöggum koma ítrekað við sögu. Við þekkjum það vel að Svalur og Valur og Tinni lenda tiltölulega oft í slíkum aðstæðum en aðrir sleppa reyndar betur. Sögupersónurnar í Lukku Láka fá svolítið að kenna á því og sömu sögu má einnig segja um Samma og Hinrik og Hagbarð. Hjá Viggó viðutan lenda persónurnar líka oft í höfuðmeiðslum en þær þurfa þó sjaldnast að kljást við glæpamenn. Í bókunum um Steina sterka lendir aðalsöguhetjan þó sjálf aldrei í þeim vanda. Hann er auðvitað bara barn og í myndasögunum um hann eru það yfirleitt glæpamennirnir sem verða frekar fyrir barðinu á Steina. Hann sjálfur þarf í versta falli að lúta í gras fyrir smávægilegu kvefi. Svipaða sögu má segja um Ástríks bækurnar en í þeim sögum fá líklega óvinir aðalsöguhetjanna hvað verst á baukinn. Myndasögurnar um Steina sterka og Ástrík eru bara þess eðlis að hetjurnar sleppa aðeins betur þó bækurnar séu reyndar tæknilega alveg troðfullar af ofbeldi.
Eins og fyrr segir eru það aðalsöguhetjurnar úr bókunum um Tinna og Sval og Val sem helst þyrftu að fjárfesta í einhverri tegund af rotvarnarefni. SVEPPAGREIFANUM lék eilítilli forvitni á að vita hvernig þessi höfuðhöggafaraldur myndasöguhetjanna kæmi út á tölfræðilegu nótunum og gerði því snöggsoðna og óvísindalega könnun á því. Einhvern veginn hefur hann nefnilega grun um, ef allt væri eðlilegt, að sumar af þessum myndasögupersónum þyrftu að glíma við langvarandi afleiðingar reglulegra höfuðhögga. Svo virðist þó nefnilega alls ekki vera. Í langflestum tilfella liggja viðkomandi steinrotaðir í litla stund, hrista það af sér og eru komnir á fullt aksjón aftur innan tíðar. Í Tinna bókinni Leynivopnið er til dæmis dæmi um að Tinni er sleginn niður með rothöggi í hnakkann og aðeins örfáum mínútum seinna er hann farinn að fljúga þyrlu eins og ekkert hafi í skorist! Man einhver eftir því að Tinni hafi nokkurn tímann kvartað yfir hausverk í bókunum? SVEPPAGREIFINN fór því á stjá til að kanna gróflega þann fjölda höfuðhögga sem hetjurnar úr teiknimyndasögunum hafa orðið fyrir og þá í kjölfarið að velta fyrir sér verstu hugsanlegum afleiðingunum sem þessar hetjur gætu þurft að kljást við. Það er nefnilega spurning hvort að hjá flestum þeirra séu ekki um að ræða töluvert miklar og varanlegar afleiðingar? Jafnvel alvarlegar heilaskemmdir? Og niðurstöðurnar úr þessari fljótfærnislegu talningu voru virkilega ... öh... sláandi. Allt að því algjört rothögg!
Ef við skoðum Tinna aðeins betur er ljóst að þar er óvenju sterkbyggður einstaklingur á ferðinni hvað höfuðhögg varðar. Í fyrstu fjórum bókunum (Tinna í Sovétríkjunum, Tinna í Kongó, Tinna í Ameríku og Vindlar Faraós) reiknast SVEPPAGREIFANUM í fljótu bragði svo til að þau rothögg sem Tinni verður fyrir séu á bilinu sextán til átján talsins. Og af þeim má til dæmis tala um þrjú rothögg á átta blaðsíðna kafla snemma í bókinni um Tinna í Ameríku. Sagan um Tinna í Sovétríkjunum er reyndar svo óljós á köflum að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því hvað telst rothögg. En af þessum sextán til átján höfuðhöggum er aðeins tekið tillit til þeirra högga þar sem hann rotast virkilega en inni þeirri tölu eru reyndar einnig önnur atvik (eins og þar sem hann verður fyrir eiturgasárás) sem leiða til tímabundins meðvitundarleysis. Þarna er ekki tekið tillit til annara högga sem hann verður fyrir til dæmis í slagsmálum eða atviki (í Tinna í Ameríku) þar sem hann verður fyrir alvarlegum súrefnisskorti vegna ... uh... hengingar.
Heldur róast Tinni upp úr þessu og höfuðhöggstilfellum hans í seríunni fer um leið fækkandi. Í Bláa lótusnum má tala um tvö atvik, þrjú í Skurðgoðinu með skarð í eyra og fjögur í Svaðilför í Surtsey. Eftir það má telja þau tilfelli, sem Tinni verður fyrir rothöggum, eðlileg. Hvað sem nú telst eðlilegt. Núll til eitt höfuðhögg eru viðvarandi næstu bækurnar en í Svarta gullinu verður Tinni fyrir einhvers konar ofbeldissprengju og þarf að sætta sig við heil fjögur höfuðhögg. Aftur róast rothöggabylgjan og í lok seríunnar er orðið fátt um fína drætti. Í heildina reiknast SVEPPAGREIFANUM því til að Tinni hljóti um það bil 40 höfuðhögg í öllum bókaflokknum sem leiða til meðvitundarleysis og þá væntanlega um leið til heilahristings. Miðað við þær stórkostlegu tölur hefði heilsu Tinna átt að mjög mikilli hættu búin fyrir löngu síðan - eiginlega strax í fyrstu bókinni um Tinna í Sovétríkjunum.
Eitt er mjög áberandi fyrir bófaflóru Tinna bókanna. Það er nefnilega einkennandi fyrir þá glæpamenn sem Tinni þarf að kljást við hve oft þeir eru vopnaðir kylfum. Það skýrir vel þennan óhugnanlega höfuðhöggafjölda Tinna. Kylfur eru einhvers konar staðalbúnaður bófanna í seríunni og meira og minna allir eru þeir einnig vel búnir skammbyssum. Gildir þá einu hvort um er að ræða peningafalsara, eiturlyfjasmyglara, mannræningja, njósnara eða bara venjulega smáglæpamenn. Af hverju eru peningafalsarar vopnaðir skammbyssum? Og svo má einnig geta, þessari óformlegu úttekt reyndar aðeins skylt, að þrisvar sinnum í seríunni verður Tinni fyrir byssukúlu. Í bókunum um Sval og Val er þessu hins vegar töluvert öðruvísi háttað. Í þeim sögum eru bófarnir reyndar oft ágætlega vopnum búnir en rothöggin, sem aðalsöguhetjurnar verða fyrir, teljast til algjörar undantekningar. Að sjálfsögðu rotast þeir einstaka sinnum í bókaflokknum en almennt eru þau ekkert sérstaklega mörg þau tilfelli sem þeir Svalur og Valur verða fyrir hættulegum höfuðhöggum. 
Þarna er væntanlega frekar við höfunda bókanna að sakast heldur en slælegu handverki ofbeldismannanna. Auðvitað verða þeir Svalur og Valur fyrir einhverju hnjaski eða byltum öðru hvoru enda oftar en ekki í eilífri baráttu við ýmsar tegundir misyndismanna. Bækurnar eru jú orðnar 55 talsins. Raunar standa þeir nokkuð reglulega í ýmiskonar líkamlegu stappi í bókunum en þar er þá oftast um að ræða svona venjuleg, gamaldags og hallærisleg slagsmál. Sjaldnast er þar þó um að ræða ofbeldi sem veldur meðvitundarleysi af einhverju tagi. Ef um slíkt er að ræða þá tengist það ekki mjög oft höfuðhöggum. Báðir fá þeir til dæmis sinn skammt af zorgeislum í bókinni um Svaðilför til Sveppaborgar og í Gullgerðarmanninum fær Svalur vænt raflost sem vankar hann töluvert um stund. Þá fá þeir einnig báðir reglulega væna skammta af svefnlyfjum, klóróformi og auðvitað sveppagasi og í bókinni Seinheppinn syndaselur missir Svalur meðvitund af súrefnisskorti og er nánast drukknaður. Síðan má heldur alls ekki gleyma öðrum slysum sem þeir félagar verða fyrir. Þannig er Valur venjulega óheppni helmingur tvíeykisins. Í Dal útlaganna er það til dæmis hann sem verður fyrir biti mýflugunnar sem breiðir út haturssótt.
Það er líka yfirleitt Valur sem lendir í smáslysunum og leiðinlegu óhöppunum. Við þekkjum það einmitt líka úr bókunum um Viggó að oft eru þessi slys Vals eitthvað sem tengist stjórnleysi á skapi hans. En ef rothögg þeirra Svals og Vals eru tekin saman þá komast þau ekki í hálfkvist við það sem Tinni greyið þarf að þola. Svalur og Valur yrðu því líklega ekki settir í sama áhættuflokk og Tinni hvað varðar langvarandi afleiðingar af heilahristingi. Þegar um rothögg er að ræða, í bókunum um Sval og Val, er það oft Gormur sem þar á hlut að máli. Það skal þó tekið fram að ekki eru það sjálfar aðalsöguhetjurnar sem verða fyrir barðinu á honum. Hinn guli vinur þeirra félaga er nefnilega ansi duglegur við að lúskra á þeim bófum (og reyndar öðrum líka) sem beita ofbeldi og hann hikar ekki við að verja þá Sval og Val með hnitmiðuðum höggum sínum. Jafnvel þannig að Svalur og Valur þurfi allt að því að halda aftur af honum til að verja illmennin fyrir höggum hans. Aðferðir Gorms eru einfaldar. Hann hnoðar saman endanum á rófunni sinni í einhvers konar hnefa og kýlir henni síðan af öllu afli í það fórnarlamb sem fyrir á að verða. Oftar en ekki í andlitið svo viðkomandi steinrotast enda hefur hann yfir að ráða gríðarlegan höggþunga. Þá hefur Gormur bæði rotað górilluapa og risaeðlu í bókunum en til þess notaði hann reyndar aðrar aðferðir.
Það er því alveg óhætt að segja að höfundar bókanna um Sval og Val hafi farið heldur mannúðlegar með aðalsögupersónur sínar heldur en Hergé með hann Tinna sinn. Ætli endanleg niðurstaðan sé þá ekki sú að Tinna bækurnar teljist á meðal þeirra ofbeldisfyllstu af teiknimyndasögunum sem verið var að gefa út hér á landi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!