18. janúar 2019

94. EILÍTIÐ UM HIN FJÖGUR FRÆKNU

Það hefur sennilega seint hvarflað að SVEPPAGREIFANUM að hann ætti eftir að skrifa mikið um hinar drepleiðinlegu teiknimyndasögur Hin fjögur fræknu en líklega var bara kominn tími á þá færslu. Það er þá alla vega ekki eftir. Eitthvað hefur hann þó áður minnst lítillega (neikvætt) á seríuna og þá aðallega í tengslum við annað skylt efni. Þó SVEPPAGREIFINN sé á því að leiðindin séu allsráðandi í bókunum þá má víst ekki gleyma sér við að leyfa tilfinningunum að ráða för. Því þótt undarlegt megi virðast þá fann SVEPPAGREIFINN nokkrar staðreyndir um þennan bókaflokk sem eru jafnvel alveg þess virði að fórna eins og einni færslu í. Það er reyndar mjög ólíklegt að viðhorf hans til seríunnar breytist á einhvern hátt við þær upplýsingar en í það minnsta mun hann líta bækurnar aðeins öðrum augum í framtíðinni.
Flestar sögurnar um Hin fjögur fræknu eru eftir belgíska listamanninn Francois Craenhals og franska handritshöfundinn Georges Chaulet en saman sendu þeir frá sér 39 bækur sem gefnar voru út hjá Casterman útgáfunni á árunum 1964 - 2002. Áður hafði reyndar Chaulet skrifað sex skáldsögur, á árunum 1957-62, sem fjölluðu um sama hóp en þær tilheyra auðvitað ekki myndasöguseríunni. En teiknimyndasögur sem byggðar eru á skáldsögum eru mjög óvenjulegar í fransk/belgíska myndasöguumhverfinu. SVEPPAGREIFINN á svo sem ekki auðvelt með að sjá fyrir sér þessar sögur sem skáldsögur. En ef mið er tekið af þeim bókakápum og teikningum sem finna mátti í þessum bókum ætti ekki að vera óeðlilegt að áætla að efni þeirra hafi verið sambærilegt við barnabækurnar eftir breska rithöfundinn Enid Blyton. En líklega er það þó alveg út í hött.
40. söguna gerði Craenhals einn síns liðs árið 2003 en eftir að hann lést árið 2004 tók Chaulet aftur við og gerði handrit að tveimur sögum í viðbót, með teiknaranum Jacques Debruyne, áður en hann yfirgaf seríuna endanlega. Það var síðan árið 2007 sem Sergio Salma og Alain Maury gerðu saman eina sögu sem var þá sú 43ja í bókaröðinni. En síðan hafa ekki komið út fleiri bækur um Hin fjögur fræknu. 26 þessara bóka komu út á íslensku, hjá bókaútgáfunni Iðunni, á árunum 1977-89 og nutu nokkurra vinsælda - alla vega til að byrja með. Iðunn var nokkuð þolinmóð og umburðarlynd gagnvart seríunni og sendi frá sér, eins og áður segir, 26 bækur en til samanburðar má geta þess að aðeins voru gefnar út 13 sögur úr bókaflokknum á dönsku, 5 á finnsku og 9 á sænsku og spænsku. Þá má líka geta þess að 23 sögur um Hin fjögur fræknu hafa komið út á hollensku og allar 43 bækurnar voru gefnar út á þýsku á sínum tíma. Til gamans má einmitt geta að í Þýskalandi heita söguhetjurnar; Valentin (Lastik), Inge (Dína), Ergo (Doksi) og Rolli (Búffi). Sögurnar hafa ekki verið gefnar út í fleiri löndum en þessum átta sem hér hafa verið talin upp.

Þó SVEPPAGREIFANUM finnist bækurnar um Hin fjögur fræknu ekki merkilegar segir útgáfufjöldi þeirra í Frakklandi töluvert um vinsældir bókaflokksins. Þær seldust mjög vel í hinum frönskumælandi löndum og einhvers staðar hefur til dæmis komið fram að fyrstu tíu sögurnar í upprunalegu seríunni hafi ekki verið alslæmar. Þessar fyrstu tíu bækur hafa raunar allar komið út á íslensku og eru eftirfarandi:
  1. Les 4 As et le Serpent de mer - 1964 (Hin fjögur fræknu og sæslangan - 1981)
  2. Les 4 As et l'Aéroglisseur - 1964 (Hin fjögur fræknu og loftfarið - 1981)
  3. Les 4 As et la Vache sacrée - 1964 (Hin fjögur fræknu og Búkolla - 1981)
  4. Les 4 As et le Visiteur de minuit - 1965 (Hin fjögur fræknu og vofan - 1977)
  5. Les 4 As et le Couroucou - 1966 (Hin fjögur fræknu og þrumugaukurinn - 1980)
  6. Les 4 As et la Coupe d'or - 1967 (Hin fjögur fræknu og gullbikarinn - 1979)
  7. Les 4 As et le Dragon des neiges - 1968 (Hin fjögur fræknu og snjódrekinn - 1979)
  8. Les 4 As et le Rallye olympique - 1969 (Hin fjögur fræknu og kappaksturinn mikli - 1977)
  9. Les 4 As et l'Île du Robinson - 1970 (Hin fjögur fræknu og Róbinson - 1978)
  10. Les 4 As et le Tyran - 1971 (Hin fjögur fræknu og harðstjórinn - 1979)
Upp úr þessu fóru sögurnar heldur að dofna, næstu bækur á eftir þóttu síðri og leiðin lá eiginlega bara hægt og sígandi niður á við. Næstu 16 bækur í seríunni komu líka allar út á íslensku og bækurnar 26 sem komu út hér á landi eru því fyrstu 26 sögurnar úr upprunalega bókaflokknum þó þær hafi ekki komið út í sömu röð. Þannig komu síðustu 5 til 6 íslensku bækurnar út nánast samhliða upprunalegu seríunni en engin bók með Hinum fjóru fræknum hefur komið út á íslensku síðan árið 1990. Þá gaf Iðunn út bókina Hin fjögur fræknu og geimskutlan (Les 4 As et la Navette spatiale) en hún hafði komið út í Frakklandi árið á undan. Það má því segja að síðustu 30 bækur bókaflokksins hafi verið óttalega þunnur þrettándi og (að mati SVEPPAGREIFANS) í rauninni bara samhengislaus steypa. 
Eins og áður segir voru bækurnar í þessum myndasöguflokki alls 43 og þá síðustu gerðu þeir Sergio Salma og Alain Maury árið 2007. Sú bók nefndist Les 4 as -  La balade des 4 as en íslenska útgáfan fengi líklega titilinn Hin fjögur fræknu - Ballaðan um hin fjögur fræknu. Handritshöfundurinn Sergio Salma er nokkuð kunnur í fransk/belgíska myndasöguheiminum og er til dæmis höfundur þekktrar seríu um unglingsstelpuna Nathalie sem naut nokkurra vinsælda í kringum aldamótin síðustu. Listamaðurinn Alain Maury hefur komið enn víðar við og á heldur kunnuglegri slóðum fyrir okkur þau sem lásum teiknimyndasögur á íslensku í bernsku. Báðir hafa þeir starfað fyrir SPIROU tímaritið en Maury hefur til að mynda unnið mikið með Thierry Culliford (syni Peyo) að seinni tíma bókunum um Strumpana og Hinrik og Hagbarð en einnig var hann viðriðinn eina sögu um Frank. En bókin Les 4 as -  La balade des 4 as kom algjörlega með nýja nálgun á þessa seríu. Líklega var þessari bók alltaf ætlað að stokka upp og hugsanlega að setja endapunktinn á bókaflokkinn en ef ekki þá varð sagan samt banabiti hennar. Í það minnsta hefur engin bók komið út í seríunni síðan. Bókin fjallar um ekki neitt. Ekkert ævintýri, engar hættur og engir bófar. Einungis einfalt sumarfrí um fjóra venjulega vini þar sem kemur í ljós að öll þeirra ævintýri voru bara draumar eða hugarburður Lastiks. Afskaplega undarlegt allt saman.
Þessi nálgun minnir því óneitanlega svolítið á Dallas þættina þegar handritshöfundar þeirra þátta voru komnir út í ógöngur með söguþráðinn. Bobby Ewing dó í einum þáttanna, áhorf þeirra snarminnkaði strax í kjölfarið og nokkrum þáttum seinna var hann lifnaður aftur við. Þá kom auðvitað á daginn að Pamelu konu hans hafði bara dreymt dauða hans. Þessi bók La balade des 4 as fékk alveg ágæta dóma og þykir mun þroskaðri, raunsærri og nútímalegri að öllu leyti en fyrirrennarar hennar 42 úr Hin fjögur fræknu seríunni. Jafnvel svo að myndasögufræðingar vilja meina að hún hæfi jafnvel mun eldri markhópi en gömlu sögurnar. Stíllinn er nýr og miklu fallegri, með eðlilegum bakgrunns teikningum, mildara litavali og sagan öll miklu ferskari en lesendur höfðu áður kynnst. Hin fjögur fræknu voru skyndilega komin í nútímann. Eins og áður var getið er í þessari sögu varpað ljósi á hvernig fyrstu 42 bækurnar snerust bara um draumfarir Lastik. Þessi bók er því sú fyrsta úr seríunni sem ekki er draumur. Henni var líklega ætlað að leiðrétta hina barnalegu ímynd sem allar gömlu bækurnar höfðu boðið upp á 43 árin á undan. Þarna eru allt í einu komnir fjórir nýjir og eðlilegir einstaklingar sem eru í rauninni ekkert annað en venjulegir unglingar. Þau búa öll hvert fyrir sig hjá foreldrum sínum og við sjáum jafnvel bakhlutann á móður Lastiks í eldhúsinu í blokkinni þeirra. 
Sögurnar um Hin fjögur fræknu höfðu fram að þessu verið barnalegar, gamaldags og ótrúverðugar. Þarna var um að ræða hóp ungs fólks sem bjó saman í stóru húsi og án nokkurra fullorðinna, þau höfðu engar tekjur, ferðuðust út um allan heim og jafnvel út í geiminn en áttu samt ekki neitt. Fjórmenningunum var stillt upp sem einföldum stereótýpum sem voru allar fyrir löngu orðnar börn síns tíma. Þó aldur þeirra hafi aldrei komið sérstaklega fram (fyrr en kom að síðustu bókinni) þá hafa líklega flestir lesendur staðið í þeirri meiningu að hópurinn væri um það bil á aldrinum 17-22 ára. En í bókinni Les 4 as -  La balade des 4 as kemur annað í ljós. Hin fjögur fræknu eru mun yngri en flestir hefðu líklega reiknað með og ýmislegt fleira um fjórmenningana kemur einnig í ljós í sögunni.
Ef við byrjum á Lastik þá er það reyndar aðeins gælunafn hans því að í rauninni heitir hann Marco og er 16 ára gamall. Búffi er 15 ára (bráðum 15 og hálfs) en hann heitir réttu nafni Jean-Louis og er haldinn lotugræðgi. Sem þýðir að hann tekur einhvers konar átköst, borðar og borðar en ælir síðan þeim mat. Foreldrar hans koma báðir fyrir í bókinni. Dína er líka 15 ára en alveg að verða 16 og læknissonurinn Doksi er 17. En Doksi heitir í raun Théodore. Foreldrar hans eru mjög ríkir og það er víst hann sem á hundinn Óskar. Öll eru þau vinirnir búin flestum þeim eiginleikum sem eldri bækurnar segja til um en þeir eiginleikar eru þó vel ýktir þar. Ja ... eins og gengur og gerist í draumförum. Lastik er flínkur með vélar og tæki og er laginn í höndunum en hann getur samt ekki smíðað flugvél. Dína er bara ósköp eðlileg unglingsstelpa en ekki einföld og treggáfuð stelpa sem er endalaust að hugsa um föt eða útlit. Og Búffi og Doksi eru á sama hátt að mestu leyti ósköp venjulegir strákar. Doksi er klár og Búffa finnst gott að borða. Eitt atriði kemur einnig vel fram í La balade des 4 as sem skilar sér ekki endilega í hinum bókunum. En það er hversu nánir og góðir vinir þau eru.
SVEPPAGREIFINN hefur verið nokkuð duglegur við að tuða yfir þessum bókum í gegnum tíðina, hvort sem um er að ræða hér á Hrakförum og heimskupörum eða á öðrum vettvangi. Eftir snöggt yfirlit í gegnum myndasöguhillur heimilisins reiknast honum svo til að þrátt fyrir allt þá eigi hann 23 af þeim 26 bókum sem komu út á íslensku á sínum tíma. Og eins og flestir hafa nú líklega grun um er það ekki af aðdáun sinni á bókunum að þakka heldur frekar þeirri eðlilegu þörf hins íslenska myndasöguáhugamanns að þurfa að eiga helst allt af þeim teiknimyndasögum sem komið hefur út hér á landi. Það kom honum jafnvel aðeins á óvart að vera ekki búinn að eignast þær allar. SVEPPAGREIFINN hefur margsinnis rekist á þessar bækur á ferðum sínum um hin frönskumælandi svæði eiginkonu sinnar en aldrei nokkurn tímann dottið í hug að fjárfesta í þessum sögum. Fyrr en nú. Það er að segja þessa síðustu bók, La balade des 4 as. Líklega hefur hann margsinnis séð hana en það var ekki fyrr en hann var að vinna að þessari færslu sem hann áttaði sig á því að hún gæti hugsanlega verið áhugaverð. Það er því augljóslega kominn tími á að versla nýja bók með Hinum fjóru fræknum til að setja í myndasöguhillurnar.

8 ummæli:

  1. Mèr finnst Hin fjögur fræknu einmitt svo skemmtileg þvì ađ þau sýna okkur mennskuna og breyskleika okkar á svo skemmtilegan hátt t.d. Hin fjögur fræknu og hryllingshöllin. Sù bók sýnir þrautseigju þeirra fjögurra og vináttu.

    SvaraEyða
  2. Ég á einmitt Hin fjögur fræknu og hryllingshöllina einhvers staðar í myndasöguhillunum en verð að viðurkenna að ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann lesið þá bók. Það er því augljóslega kominn tími á að lesa hana.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Ég er búin að safna Hin fjögur fræknu bókum í mörg ár og var loksins að komast uppí að eiga 6 (það bættust 3 í safnið mitt í fyrradag). Ég er ekki myndasöguaðdáandi en ég elska þessar bækur, þær eru svo fyndnar (þetta er stórbrotinn húmor um mannlegt eðli og tilveruna alla og á mjög vel við enn í dag). Mikið er það ósanngjarnt að þú eigir 23 og ég bara 6, hvar áttu heima og hvenær ferðu næst út og gleymir að læsa?... (ég var einmitt að lesa Hin fjögur fræknu og hryllingshöllin í vinnunni í dag - ég á hana ekki en vinn á bókasafni - skemmtileg tilviljun)

    SvaraEyða
  4. Það er vel af sér vikið að vera búin að safna þessum bókum í mörg ár og eiga orðið heilar 6!

    Þessar sögur finnst mér mjög misjafnar en heilt yfir eiginlega alveg hræðilegar. Almennt þykja elstu sögurnar þó skárstar og ég er sammála því. Finnst til dæmis Hin fjögur fræknu og vofan, Hin fjögur fræknu og snjódrekinn og Hin fjögur fræknu og kappaksturinn mikli alveg lesanlegar. Mér finnst þessi sería bara eitthvað svo hroðvirknislega unnin.

    Sjálfur er ég aðallega aðdáandi þeirra myndasagna sem voru að koma út hér á landi seinni hluta 20. aldarinnar en lít samt ekki á mig sem safnara - þó ég eigi þær eiginlega allar :D Nú er komið rúmlega ár síðan þessi færsla var skrifuð og bækurnar eru víst orðnar 25. Sú eina sem vantar núna í hillurnar er Hin fjögur fræknu og pylsan fljúgandi.

    Ef þú átt leið um Góða hirðinn þá má alltaf nálgast þessar bækur þar - svona af því að þú ert svona óður safnari! Sá þar örugglega 5 - 6 bækur í dag tildæmis.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  5. Ég væri sko daglegur gestur í Góða hirðinum ef ég byggi í Reykjavík!!! Fékk þessar þrjár nýjustu einmitt á nytjamarkaðnum þar sem ég bý, en þetta sýnir hvað fólk heldur greinilega fast í þessar gersemar, að þær hafa ekki ennþá borist þangað (þessar þrjár nýjustu komu alla leið frá hinum hluta landsins). Ég er ofursafnari á bókum og á alveg nokkur þúsund, en teiknimyndasögur hafa fallið á milli hluta. Ég las reyndar Preacher bækurnar einu sinni og ætla að kaupa þær um leið og ég verð rík :)

    SvaraEyða
  6. Pylsan fljúgandi er til á bókasafninu þar sem ég vinn (er að leysa af) - ég mun lesa hana næst ;)

    SvaraEyða
  7. Mæli með Góða hirðinum ef þú ert á ferðinni til höfuðborgarinnar, kalla hana alltaf bestu bókabúðina í bænum!

    Mikið af því fólki sem hefur gaman af myndasögum hér á landi er nú að nálgast miðjan aldur (úff!) og tilheyrir þeim kynslóðum sem lásu þessar bækur þegar þær komu út hér á árum áður. Þetta blogg fjallar að mestu leyti um það efni allt.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  8. Það er margt gott í blogginu þínu. Ég vona að þú skrifir sem mest, þetta er fjársjóður upplýsinga. Sífellt er hægt að kafa dýpra og endurmeta það sem áður þótti lélegt. Ég er aftur farinn að njóta myndasagna eftir hlé eins og margir. Ég vil benda þér á áhugaverða fróðleiksmola um Hin fjögur fræknu. Tvær bækur eru með handrit eftir teiknarann François Craenhals, Tasmaníuúlfurinn frá 2003 og Mikla yfirvaldið frá 2004. Þessar bækur á ég á frummálinu. Handritin að sögunum sem flest eru eftir Georges Chaulet liggja mitt á milli þess að vera barnaskapur og vísindasöguskáldskapur, en eru yfirleitt þunn í roðinu. Allar bækurnar eru samt vel teiknaðar.

    Nú er það rétt að bækurnar um Tinna, Sval og Val og Ástrík eru meiri skáldskapur og merkilegri en þessar, en ef við tökum þann vinkil á bækurnar um Hin fjögur fræknu að þar sé á ferðinni vísindaskáldskapur eða ævintýrasagnaskáldskapur (fantasíur) þá getur maður sagt að þær séu skárri sem slíkar. Síðan er það annað sem má telja þeim til tekna, mikill fróðleikur liggur þarna til grundvallar, ýmsar vísanir en það sem ég þoli verst eru skúrkarnir Gautrekur höfuðsmaður og dr. Harðlín, skúrkarnir ofnotuðu og leiðinlegu.

    Sumar bækur um Hin fjögur fræknu eru reyndar finnst mér nokkurnveginn alveg misheppnaðar og glataðar, handritslega, en alls ekki allar. Jafnvel sumar nýlegri sögur eru áhugaverðar, fjalla um eitthvað sem hægt er að tengja við dulspeki og eru því fróðlegar og fyndnar á köflum.

    SvaraEyða

Út með sprokið!