Í dag er bóndadagurinn alræmdi og hinn íslenski vetur að nálgast hámark ósvífninnar með sínum lítt geðslegu þorrasiðum. Það er því algjörlega við hæfi að Fótboltafélagið Falur eigi stóran hlut í færslu dagsins og færi okkur færandi hendi hina stórkostlegu útfærslu sína á laginu Nú er frost á Fróni. Ef SVEPPAGREIFANN misminnir ekki hét kvæðið reyndar réttu nafni Þorraþræll 1866 í hinum bláu Skólaljóðum æskunnar en það kvalræðisrit þótti honum jafnvel enn leiðinlegra en SG-hljómplatan um Jólin hennar ömmu. Það sem sat eftir úr bókinni, hjá SVEPPAGREIFANUM, var að þetta sígilda ljóð var eftir Kristján Fjallaskáld og öll 17 erindin voru jafn torlærð. Það var því huggun harmi gegn þegar Fótboltafélagið Falur gerði lagið að sínu, með dyggri aðstoð þýðandans Ólafs Garðarssonar, í bókinni Falur í Argentínu. SVEPPAGREIFINN hefði alla vega miklu fremur kosið að þessi útgáfa kvæðisins hefði ratað í bláu bókina og um leið hefði verið gaman að sjá hvernig listamaðurinn Halldór Pétursson hefði túlkað hina myndrænu hlið þess. En hér er snilldin. Gleðilegan þorra!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!