15. mars 2019

102. HIN STUTTA SAGA FROSTA OG FRIKKA Á ÍSLANDI

Þegar SVEPPAGREIFINN var barn og allt fram á unglingsaldur hans var útgáfa myndasagna í hvað mestum blóma á Íslandi. Þetta var að mestu leyti á seinni hluta áttunda áratugar 20. aldarinnar og töluvert fram á þann níunda en útgáfa teiknimyndasagna hjá íslensku útgáfufyrirtækjunum lognaðist síðan smátt og smátt útaf upp úr árinu 1990. Þá var SVEPPAGREIFINN reyndar orðinn rúmlega tvítugur og eiginlega löngu búinn að missa áhugann á myndasögum bernskunnar. En sá áhugi kviknaði reyndar aftur mörgum árum seinna með auknum þroska. Þó hann hafi kannski verið tiltölulega áhugalaus um þær teiknimyndasögur sem voru enn var verið að gefa út eftir 1985 þá var hann samt alltaf meðvitaður um það sem var að koma út. Fylgdist með því svona út undan sér en var samt ekkert að eltast við þær enda þá orðinn renglulegur og bólugrafinn unglingur sem hafði nóg annað til að hugsa um á þessum árum. Síðustu myndasögurnar sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér með þeim Sval og Val voru kannski þær sem vöktu helstu eftirtektina. Hins vegar voru þær nýju seríur sem voru að detta inn í besta falli forvitnilegar. Á þessum árum voru til dæmis að byrja að koma út á íslensku myndasögur um Gorm, Litla Sval, Yoko Tsúnó og seinni bækurnar um Samma. En svo voru líka aðrar síðri bækur sem SVEPPAGREIFINN leyfði eiginlega alveg að fara fram hjá sér. Kannski voru þessar lakari seríur einmitt hluti af hnignun myndasöguútgáfunnar á Íslandi en skömmu síðar lagðist hún nánast alveg útaf hér á landi - í bili.
En það var fyrir jólin árið 1987 sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér tvær teiknimyndasögur úr nýrri seríu, sem fjallaði um ævintýri þeirra Frosta og Frikka, sem hafði ekki komið út hér á landi áður. Þessar sögur voru sennilega ekkert mjög áberandi í jólabókaflóðinu það ár og það var líklega ekki fyrr en fimmtán til tuttugu árum seinna sem SVEPPAGREIFINN áttaði sig almennilega á tilvist þeirra. Bækurnar tvær nefndust Óðagot á æðri stöðum og Arfur ræningjans og voru þýddar af hinum kunna myndasöguþýðanda Bjarna Frímanni Karlssyni en ári seinna kom svo út þriðja sagan Guli njósnarinn. Þessar þrjár bækur voru þær einu sem komu út í bókaflokknum á íslensku en sú fyrsta, Óðagot á æðri stöðum, var líka sú fyrsta úr upprunalegu röðinni. Arfur ræningjans er bók númer fjögur og Guli njósnarinn númer ellefu. Í fréttatilkynningu frá Iðunni sem send var fjölmiðlum þegar fyrri bækurnar tvær komu út mátti meðal annars lesa eftirfarandi texta: Bækur þessar eru eftir Bob de Moor, sem í rúm 30 ár starfaði hjá Hergé, föður Tinna bókanna, og þykja þessar sögur ekki ósvipaðar sögunum um Tinna. Ekki er nú SVEPPAGREIFINN reyndar alveg sammála þeirri fullyrðingu að sögurnar líkist Tinna bókunum en þó er ákveðinn stíll yfir þeim sem minnir töluvert á verk Hergé.
Þeir félagar Frosti og Frikki nefnast á frummálinu Johan og Stephan en sögurnar fjalla um margvísleg ævintýri þeirra þar sem þeir þvælast um með Sigmari frænda. Reyndar heitir upprunalega serían Oncle Zigomar eða Les Aventures de l'oncle Zigomar sem myndi þá líklega útleggjast sem Sigmar frændi eða Ævintýri Sigmars frænda. Af flestum er bókaflokkurinn þó einfaldlega nefndur Les Aventures de Johan et Stefan, þ.e. Ævintýri Frosta og Frikka. Hugmyndin að nöfnum aðalsöguhetjanna kemur beint frá tveimur sonum höfundarins en annar þeirra, Johan De Moor, fetaði seinna í fótspor föður síns og starfaði einnig lengi hjá Hergé Studios.
Alls komu út 15 bækur í seríunni en elsta sagan La grande pagaille (Óðagot á æðri stöðum) birtist fyrst í belgíska dagblaðinu Nieuws van de Dag seint á árinu 1951. Hún var þó ekki gefin út lituð og í bókarformi fyrr en árið 1987 en það var því í raun sama ár og bókin kom út á íslensku. Allar sögurnar fimmtán voru upphaflega teiknaðar á árunum 1951-56 og birtust mest í belgísku dagblöðunum Nieuws van de Dag og Die Neuwe Gids en einnig eitthvað í öðrum blöðum í Belgíu. Arfur ræningjans (Le trésor du brigand) er til dæmis frá árinu 1952 og Guli njósnarinn (L'espion jaune) birtist fyrst árið 1954 en engin af þessum fimmtán myndasögum voru gefnar út í bókaformi í kjölfar birtinga þeirra, í áðurnefndum dagblöðum, eins og oft var venjan. Það gerðist ekki fyrr en einhverjum áratugum seinna. Sex af þessum fimmtán sögum komu fyrst út í bókaformi ólitaðar hjá Bédéscope útgáfunni á árunum 1979 og 80 en fimm í viðbót voru fullunnar á árunum 1987-94. Síðustu fjórar af sögunum fimmtán komu ekki út í bókaformi fyrr en undir lok ársins 2017 og sú yngsta La canne parlante frá árinu 1956 virðist ekki einu sinni hafa verið lituð þegar hún var þá loksins gefin út í bók. Það er því ósköp lítið samræmi í útgáfu þessarar myndasöguseríu þar sem sögurnar hafa fengið misjafnlega mikla uppfærslu á mismunandi tímum. Bækurnar virðast því ekki vera til í einni heildarútgáfu hjá neinni bókaútgáfu.
SVEPPAGREIFINN gluggaði aðeins í þessar þrjár bækur, sem komu út á íslensku, fyrir um þremur eða fjórum árum og las þær svo aftur núna fyrir þessa færslu auk tveggja annarra bóka úr seríunni sem hann á en hafa ekki komið út hér á landi. Og óttalega fannst honum lítið til þeirra koma miðað við að nokkuð virðist þó hafa verið lagt í vinnu þeirra. Það er alla vega ljóst að sögurnar um Frosta og Frikka eru engin meistaraverk. Þær eru óttalega þunnar en teiknistíll bókanna er þó nokkuð vandaður og að mörgu leyti í anda Hergés. Atburðarás sagnanna er frekar samhengislaus og ruglingsleg á köflum og ber þess augljóslega svolítið merki að hafa verið samdar nánast jafnóðum og þær voru teiknaðar og birtar. Kannski svolítið í anda Tinna í Sovétríkjunum. Litaval Bob de Moor er þó töluvert öðruvísi en hjá Hergé í Tinnabókunum og kannski meira í ætt við brandarana um Palla og Togga eða jafnvel sögurnar um Alla, Siggu og Simbó sem einnig eru eftir Hergé.
Bob De Moor var Belgíumaður sem hét fullu nafni Robert Frans Marie De Moor og var lengi hægri hönd Hergés á vinnustofu þess síðarnefnda á Hergé Studios. Þar hóf hann störf árið 1951 en áður hafði hann meðal annars unnið með Willy Vandersteen að sögunum um Suske og Wiske í myndasögutímaritinu Kuifje sem var hollensk/flæmska útgáfan af Tinna tímaritinu. Við íslenskir lesendur myndasagnanna þekkjum þá seríu auðvitað undir heitinu Ævintýri Sigga og Viggu en SVEPPAGREIFINN fjallaði nýverið aðeins um þann bókaflokk. Áhrif Vandersteen í Ævintýrunum um Frosta og Frikka eru nokkur því persónusköpun höfundarins minna mjög á bækurnar um Sigga og Viggu en einnig einfaldleikinn, húmorinn og óraunsæið. Grunnhugmyndin í báðum bókaflokkunum byggir á sögum um tvö börn sem lenda í ýmsum hættum og fullorðinn frænda eða frænku sem fylgja þeim í ævintýrunum. Reyndar hefur SVEPPAGREIFINN ekki enn rekist á neitt sem segir til um hvort að þeir Frosti og Frikki séu bræður, frændur eða bara vinir.
De Moor starfaði eins og áður segir í rúm þrjátíu ár hjá Hergé Studios og margir vilja meina að þessi fjölhæfi listamaður hafi svolítið fórnað einstökum hæfileikum sínum þar. Sú kunnátta fólst að miklu leyti í því hversu auðvelt hann átti með að skipta á milli teiknistíla og tileinka sér þannig ný vinnubrögð. Hann vann að bakgrunnsteikningum í mörgum af bestu Tinna bókunum hjá Hergé Studios og með tímanum tileinkaði hann sér þannig stíl Hergés. Þann stíl má að miklu leyti sjá í bakgrunnsmyndum í Ævintýrum Frosta og Frikka eins og minnst var á fyrr í þessari færslu. Nafn Bob de Moor fór ekki hátt á sínum tíma og lítt kunnir hæfileikar hans runnu sjálfkrafa inn í verk Hergés og óafvitandi hafa lesendur Tinna bókanna um alla veröld því í rauninni verið að dást að þeim verkum Bob De Moor sem Hergé var skrifaður fyrir. Í dag vita hins vegar allir hver Bob De Moor var. Myndasögurnar um ævintýri þeirra Frosta og Frikka skapaði de Moor hins vegar frá grunni sjálfur mjög snemma á sínum ferli og þær gefa því líklega ekki alveg rétta mynd af einstökum hæfileikum hans.
Eftir dauða Hergé árið 1983 sýndi hann mikinn áhuga á að fá að ljúka ókláruðu verki hans Tintin et l'Alph-Art en ekkja Hergés og rétthafi verksins (Fanny Rodwell) kom í veg fyrir það eftir langa umhugsun. Líklega hefði þó enginn annar getað klárað þá vinnu betur en Bob De Moor en hann lést árið 1992.

2 ummæli:

  1. Takk. Alltaf gaman að lesa þessa pistla þína.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér og sömuleiðis, takk fyrir að vera svona duglegur að hrósa þessum pistlum :)

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!