6. september 2019

127. ENN BÆTT Í MYNDASÖGUHILLURNAR

SVEPPAGREIFINN er búinn að vera á faraldsfæti undanfarnar vikurnar, í kringum heimaslóðir betri helmings síns, og staldrað víða við á nokkrum menningarkimum meginlands Evrópu. Ítalía og Sviss voru helstu áfangastaðir ferðalanganna að þessu sinni og SVEPPAGREIFA-fjölskyldan naut gestrisni heimamanna í báðum þessum löndum til hins ítrasta. En líkt og venjulega, þegar SVEPPAGREIFINN hefur verið á þvælingi í útlöndum, viðaði hann að sér fáeinum teiknimyndasögum eins og hans er von og vísa. Hann vildi gjarnan geta stært sig af því að hafa verið hógvær í þeim bókakaupum en svo var líklega ekki alveg. Eins og svo oft áður keypti hann myndasögur sem hægt er að telja í tugum eintaka. Það er því við hæfi að fórna færslu dagsins í að minnast aðeins á þær bækur (og fleira tengt þeim) sem komst í eigu hans að þessu sinni. En SVEPPAGREIFINN tók því reyndar rólega til að byrja með og fyrsta vikan fór eingöngu í afslöppun á sundlaugarbakka í Ticino við Maggiore vatnið. Á risamarkaði (líklega einum þeim stærsta og þekktasta í allri Evrópu) í Luino á Ítalíu rakst hann þó á útskorna Tinna tréstyttu í afrískum stíl.
Sambærilegan kostagrip hafði hann einnig séð á litlum markaði í Locarno, sem er á svipuðum slóðum, fjórum árum áður en fyrir einhvern fádæma klaufaskap misst af að kaupa. Eftir það hefur SVEPPAGREIFINN kíkt eftir slíkri handgerð á öllum þeim mögulegu mörkuðum sem hann hefur heimsótt erlendis en lítt orðið ágengt fyrr en nú. Í örvæntingu sinni hafði það jafnvel hvarflað að honum að ráðast sjálfur í þess konar handavinnu en til þess hefði ekki þurft annað en sæmilega efnilegan viðardrumb, hamar, gott sporjárn og eðlilega blandaða akrílmálningu með réttum peysulit Tinna. Reyndar kæmi sér örugglega líka ágætlega að vera með minna en tólf þumalputta en stundum er þó hægt að komast nokkuð langt á viljanum einum. En á þá lífsreynslu reyndi þó aldrei. Líklega á SVEPPAGREIFINN samt eftir að dunda sér við það í ellinni að tálga út þess konar fígúrur líkt og Emil litli í Kattholti gerði í sinni bernsku. Í Luino mátti líka finna sambærilegar styttur með bæði Sköftunum og prófessor Vandráði en ekki gat SVEPPAGREIFINN séð Kolbein kaftein þar á boðstólum. Flestar voru um 30 sentimetra háar en einnig var hægt að finna Tinna sem var rúmlega metri á hæð og annan sem var líklega um 180 sentimetrar. Ætli fleirum afrískum fígúrum Tinna bókanna eigi ekki eftir að fjölga á heimili SVEPPAGREIFANS á næstu árum.
En það var síðan í Zurich, á leiðinni til tengdarmömmu SVEPPAGREIFANS í Júra fjallgarðinum, sem fyrstu myndasögurnar komust í höfn. GREIFINN hafði aðeins gúgglað fyrirfram helstu myndasöguverslanir borgarinnar og vissi því af einni slíkri í gamla miðbænum. Sú heitir einfaldlega Comics-Shop og fyrir þá sem gaman hafa af belgísk/fransk-ættuðum teiknimyndasögum er þessi verslun auðvitað algjör draumur. Búðin er reyndar pínulítil, þó hún sé á tveimur hæðum, en úrvalið samt aldeilis frábært. Þarna keypti SVEPPAGREIFINN sér tvær af þeim þeim þremur bókum sem hann vantaði úr seríunni um Sérstök ævintýri um Sval ... (Série Le Spirou de…) og lét sér það nægja að þessu sinni. Comics-Shop í Zurich verður klárlega heimsótt aftur við fyrsta tækifæri og verslunin þá skönnuð mun ítarlegar. En bækurnar sem SVEPPAGREIFINN verslaði að þessu sinni voru þýsku útgáfurnar af Le Groom Vert-de-Gris (Operation Fledermaus) eftir Schwartz og Yann og La Grosse tête (Ein Grosser Kopf) eftir þá Tehem, Makyo og Toldac. Fyrrnefndu söguna kannast margir eflaust við sem Á valdi kakkalakkanna úr myndasögutímaritinu NeoBlek en um seríuna sjálfa (Sérstök ævintýri um Sval ...) má lesa hér.
Næsta dag renndi fjölskyldan á gamalkunnugan flóamarkað í Biel en þar hefur SVEPPAGREIFINN oft áður gert góð kaup á notuðum og forvitnilegum myndasögum. Í það minnsta var hann vel sáttur við afrakstur sinn þar að þessu sinni. Á fyrsta viðkomustað sínum á flóamarkaðnum rakst hann á Viggó bók númer 11 (Gaston - Spaß muß sein) úr þýsku Carlsen seríunni (gul-doppóttu seríunni sem margir kannast örugglega við), eina bók með Fláráði stórvezír (númer 2) úr þýsku útgáfuröðinni og sjö innbundin tölublöð af Le Journal de Tintin í einum pakka frá árinu 1975. SVEPPAGREIFINN var sérstaklega ánægður með að hafa loksins eignast nokkur eintök af Tinna tímaritinu og tilfinningin við að handfjatla þessi sögulegu tímarit er auðvitað skemmtilega notaleg. Þessum blöðum, ásamt SPIROU tímaritinu og fleirum, var iðulega safnað saman í þykkt hefti og þau þannig seld innbundin í bókaformi nokkrum sinnum á ári.
Á næsta viðkomustað flóamarkaðsins kippti SVEPPAGREIFINN með sér tveimur bókum (númer 7 - Des gags de Boule et Bill og númer 9 - Une vie de chien) úr bókaflokknum um þá Boule og Bill. En þessar myndasögur eru byggðar á einnar síðu bröndurum, úr SPIROU blöðunum, um strákinn Boule og hundinn hans Bill og uppátækjum þeirra. Í bókahillum SVEPPAGREIFANS má nú þegar orðið finna fimm bækur úr þessari seríu og eitthvað minnist hann þess að hafa nefnt þær myndasögur hér á Hrakförum og heimskupörum áður. En síðan voru keyptar tvær stakar bækur úr seríunni um Achille Talon eftir Greg en íslenskir myndasögulesendur kannast eflaust við kappann sem hinn sjálfsumglaða Alla Kalla. Fjölva útgáfan sendi frá sér eina bók um hann, sem hét Alli Kalli í eldlínunni, árið 1980 en ekki varð meira úr útgáfu þeirrar seríu hér á landi. En þessar myndasögur sem SVEPPAGREIFINN keypti heita Achille Talon - Aggrave son cas! og Le sort s'acharne sur Achille Talon en bækurnar eru byggðar á eins til tveggja síðna bröndurum sem birtust í myndasögutímaritinu Pilote. Þessi sería naut töluverðra vinsælda og bækurnar voru að koma út eitthvað fram á 21. öldina en alls voru 48 bækur gefnar út í seríunni. SVEPPAGREIFINN minnist þess ekki að eiga eða hafa lesið Alla Kalla í eldlínunni en hlakkar til að glugga svolítið betur í þessar bækur þegar um hægist og tími gefst til. Hann hafði engan veginn gert sér grein fyrir að Alli Kalli í eldlínunni væri eftir Greg. Og að síðustu má auðvitað ekki gleyma þykku SPIROU safnhefti (MEGA-SPIROU) sem hann fann einnig á flóamarkaðnum. Þessi hefti eru gefin út reglulega, aðallega í auglýsingaskyni, til að kynna þær bækur sem Dupuis er að senda frá sér hverju sinni. Þar er safnað saman byrjunum á þeim sögum sem eru að koma út en þær hafa þá allar verið birtar í SPIROU tímaritinu einhverjum vikum áður. Í gegnum tíðina hefur SVEPPAGREIFINN sankað að sér þremur til fjórum slíkum heftum en þau eru yfirleitt um tveggja sentimetra þykk og í mjúku broti. Alls borgaði hann ekki nema 22 franka fyrir þessar átta bækur en það munu vera um andvirði um það bil tveggja notaðra myndasagna úr Góða hirðinum eða einnar nýrrar myndasögu heima á Íslandi.
Á rölti sínu um miðbæ Biel, seinna um daginn, rakst fjölskyldan síðan á sölubás úti á miðju torgi með hundruði myndasögutitla í boði. Þarna greip SVEPPAGREIFINN með sér tvær bækur í viðbót en hér var um að ræða Viggó bókina Lagaffe mérite des baffes, sem er bók númer 13 úr upprunalega franska bókaflokknum, og Blake og Mortimer söguna Le secret de l'espadon (La poursuite fantastique) en hún er sú fyrsta úr upprunalegu seríunni frá árinu 1957. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins verið að sanka að sér sögunum um Blake og Mortimer og á nú orðið fimm bækur úr þeim bókaflokki.
Annars hefði verið auðvelt að freistast til að kaupa tugi teiknimyndasagna á slíkum veisluborðum en svolítill vottur af skynsemi SVEPPAGREIFANS náði þó yfirhöndinni áður en til þess kom. Þarna voru til dæmis fáein stök tölublöð af tímaritinu Le Journal de Tintin frá árinu 1973 á boðstólum en SVEPPAGREIFINN lét freistingarnar ekki ná yfirhöndinni. Hann er því augljóslega með sjálfsaga úr stáli. En annars voru allar þær notuðu bækur dagsins, sem hann verslaði sér, á frönsku (nema þessar tvær fyrst nefndu) og litu út eins og nýjar.
Á þessum slóðum í nágrenni Biel dvaldi fjölskyldan næstu dagana og það varð því ekki hjá því komist að ráfa aðeins öðru hvoru inn í borgina til að slæpast. Fáeinum dögum seinna kippti SVEPPAGREIFINN tveimur myndasögum með sér úr 8 franka tilboðsrekka stórmarkaðsins Manor og í þetta sinn voru það annars vegar bók með Litla Sval (Le petit Spirou) en hin með Bláfrökkunum (Les Tuniques Bleues) sem bættust í safnið. Reyndar vill SVEPPAGREIFINN  kenna fimm ára dóttur sinni um þessi kaup. Honum fannst (örugglega á einhvern hátt) fullkomlega réttlætanlegt að grípa þessar ódýru myndasögur með sér eftir að hafa þurft að eyða rúmlega klukkutíma með henni í Playmo-deild Manor verslunarinnar. En þetta voru Litla Svals bókin Le petit Spirou présente mon super grand-papy frá árinu 2009 en hún er ein af sjö safnbókum með úrvali brandara úr upprunalegu seríunni um Litla Sval. Greinilega ýmislegt gert til mjólka allt sem hægt er þar. Hún er að sjálfsögðu eftir þá Tome og Janry eins og aðrar bækur um kappann. Íslenskir lesendur kannast auðvitað aðeins við þann bókaflokk eftir að tvær fyrstu bækurnar úr seríunni kom út hér á landi fyrir næstum því 30 árum. Bláfrakka bókin heitir hins vegar Des Bleus dans le brouillard og er hvorki meira né minna en 52. sagan í þeirri bókaröð. Sú gríðarlega vinsæla sería er því orðin ansi rótgróin en alls eru nú komnar út 62 bækur í útgáfuröðinni og sú nýjasta kom út í nóvember á síðasta ári. Hinn afkastamikli handritshöfundur Raoul Cauvin (sem íslenskir lesendur muna einnig eftir sem höfundi Samma bókanna og þriggja sagna um Sval og Val) hefur samið hverja einustu sögu seríunnar (frá árinu 1968) og listamaðurinn Willy Lambil hefur teiknað þær allar nema fimm. Annars hlýtur að vera farið að hægjast á þeim félögunum því báðir eru þeir komnir á níræðisaldurinn og Lambil er reyndar kominn vel á sitt 84. aldursár.
Þegar SVEPPAGREIFINN kom aftur heim á hótel tengdó beið hans hins vegar óvæntur glaðningur. Á meðan hann hafði verið að ráfa um PlaymoBiel með dóttur sinni hafði Greifynjan, eiginkona hans, skroppið í dagsferð til Basel og kom þaðan færandi hendi með ansi eigulega gripi handa sínum heittelskaða. Hún hefur undanfarin ár gert það að vana sínum að koma við í uppáhalds verslun SVEPPAGREIFANS í Basel, COMIX SHOP og verslað þar eins og eina litla fígúru (ca. 6-7 sentimetra háa) úr Tinna bókunum til að gefa honum. Í maí síðastliðnum hafði hún keypt Tinna og Tobba í geimbúningum sínum frá ævintýrum þeirra á tunglinu og að þessu sinni bætti hún Kolbeini við í samskonar múnderingu. En það var ekki allt. Einnig keypti hún stórglæsilegan og sígildan 12 sentimetra háan Tinna til að gefa SVEPPAGREIFANUM sínum. Enn á ný fékk sá síðarnefndi því staðfestingu á því hversu vel hann er giftur - en hann vissi það svo sem fyrir.
Nokkrum dögum seinna var höfuðborgin Bern skönnuð aðeins meira með almennu miðbæjarölti og meðfylgjandi menningarápi en auðvitað var líka villst aðeins inn í bókabúðir borgarinnar. Strax á lestarstöðinni kippti SVEPPAGREIFINN reyndar með sér þá einu bók sem enn vantaði úr Sérstökum ævintýrum um Sval ... og þá eru allar þær sögur nú loksins komnar í hús. Þetta var bókin Fondation Z úr þýsku Spezial seríunni en þar kallast hún Stiftung Z. Enn á ný var SVEPPAGREIFINN reyndar aðeins óheppinn með ferðir sínar varðandi útgáfu allra nýjustu bókarinnar úr Série Le Spirou de… . Ný bók í þessum frábæra bókaflokki, eftir Émile Bravo, er nefnilega væntanleg í búðir nú í september en það gerist nánast árlega að Greifinn fari fáeina daga á mis við þær bækur sem hann veit að eru á leið í verslanir. Þessi 15. bók seríunnar, L'espoir malgré tout, sem er þriðji hluti framhaldssögu Bravo, verður því að bíða þar til SVEPPAGREIFINN verður næst á ferðinni og hugsanlega fær hann þá einnig tækifæri til að versla 16. söguna, sem er líka eftir Bravo. En reyndar er ekki enn komin endanleg tímasetning á útgáfu þeirrar bókar. Í Bern keypti hann einnig 8. safnhefti heildarútgáfu Franquins með Sval og Val á þýsku og á því orðið öll fyrstu átta bindin nema eitt. Enn á hann eftir að verða sér úti um 7. bindi. Þetta safn með heildarútgáfu Svals og Vals sagnanna er ákaflega vandað og eigulegt með fullt af stórskemmtilegu aukaefni og fróðleik. Og dýrt eftir því. Hvert bindi þessa safns er á þriðja hundrað blaðsíður og þar má finna hverja einustu sögu André Franquins sem birtist í SPIROU tímaritinu, jafnt örstuttar smásögur í jólablöðum sem hvað annað með þeim félögunum. Í 9. bindi heildarsafnsins og næstu bókum á eftir er efni Fourniers um Sval og Val svo tekið fyrir, síðan Nic og Cauvin og svo framvegis. Það hlýtur að vera markmið SVEPPAGREIFANS að eignast meira en bara þessi fyrstu átta bindi, með efni og sögum Franquin, en fyrir þá sem hafa áhuga á þessum bókum er einnig verið að gefa út þessa safnútgáfu á dönsku. 
Næstu innkaup SVEPPAGREIFANS í þessari ferð komu síðan úr nokkuð óvæntri átt. En svo vildi til að í litla svissneska fjallaþorpinu, þar sem fjölskyldan dvaldi síðustu vikuna og áðurnefnd tengdamamma býr, var haldin bæjarhátíð eina helgina í ágúst með tilheyrandi húllumhæjum og látum. Við Íslendingar þekkjum orðið vel sambærilegar hátíðir enda varla orðið hægt að þverfóta fyrir slíkum mannfögnuðum í íslenskum bæjarfélögum seinni part sumars. Þessa sömu helgi var Menningarnótt til dæmis einmitt haldin hátíðleg í Reykjavík. Sá svissneski var kannski ekki alveg eins og við þekkjum þá en grunnhugmyndin þó líklega að mestu leyti sú sama. Þarna voru bændur og búalið að kynna, gefa og selja sínar helstu afurðir og á boðstólum voru auðvitað ostar, ávextir, brauð, ýmsar tegundir hráskinka og í raun allt það sem svissneskar sveitir hafa upp á að bjóða. Þar var einnig boðið upp á grill og bjór, strandpartíhorn, fjölleikasýningaatriði, pínulítið tívólí og lifandi tónlist - allt í rúmlega 30 stiga hita. Mestu athygli SVEPPAGREIFANS fengu þó líklega bændurnir sjálfir sem voru af ýmsum sauðahúsum og margir hverjir býsna athyglisverðir. SVEPPAGREIFINN gæti eflaust skrifað langa færslu um þá eina en því miður færu Hrakfarir og heimskupör þá töluvert langt út fyrir sitt upphaflega verksvið. En svo hann reyni nú aðeins að halda sig við efnið þá var lítill flóamarkaður starfræktur á bæjarhátíðinni þar sem börn voru aðallega að selja gamalt dót frá sér. Þarna var þó bókasafn bæjarins einnig að losa sig við lítt slitnar bækur sem þorpsbúar voru hættir að lesa og meðal þess efnis var heilt borð af myndasögum á boðstólum. Bækurnar voru allar gefins þó gestum bæjarhátíðarinnar væri reyndar gefinn kostur á að styrkja framtakið með frjálsum framlögum en SVEPPAGREIFINN hefði auðveldlega getað hreinsað upp borðið til að taka með sér heim. Hann lét sér þó nægja að henda tíu svissneskum frönkum í bauk og grípa með sér fimm óslitnar teiknimyndasögur með Rattata (Rantanplan) og Litla Sval (Le petit Spirou) á frönsku. Þetta var Rattata sagan Le grand voyage og bækur númer 13 (Fais de beaux rêves!), 14 (Bien fait pour toi!), 15 (Tiens-toi droit!) og 16 (T'es gonflé!) með Litla Sval. En líklega voru um sjö eða átta bækur í viðbót úr seríunni í boði. Þá voru að minnsta kosti tvær Sval og Val bækur á borðinu, nokkrar með Titeuf, Bláfrökkunum, Alex og Strumpunum svo eitthvað sé nefnt.
En líkt og svo oft áður eyddi SVEPPAGREIFINN síðustu dögunum í Basel með fjölskyldunni og rétt fyrir brottför heim rakst hann á bókina Asterix und seine Freunde. Hér er mun að ræða glænýtt afmælishefti, til heiðurs Albert Uderzo, í tilefni af 80 ára afmæli hans. Þarna leiða saman hesta sína þrjátíu þekktir en ólíkir listamenn (eða teymi) sem heiðra Uderzo á þessum tímamótum. Í myndasögunum þrjátíu sýna listamennirnir hver á sinn hátt hvernig þeir sjá fyrir sér sögupersónurnar úr Ástríks bókunum og í mörgum þeirra koma persónur þeirra sjálfra einnig við sögu. Þessar þrjátíu örsögur eru allt frá einni og upp í fjórar blaðsíður að lengd og í brandaraformi. Meðal þeirra listamanna sem koma við sögu má nefna þá; Batem (þann sem teiknar Gorm), Achdé og Gerra (núverandi og fyrrverandi höfunda Lukku Láka), Walthéry (sem teiknar flugfreyjuna Nathöschu) og meira að segja Jidéhem sjálfan. Þá má einnig nefna að bæði Titeuf (Tittur) og Andrés önd koma fyrir í þessu afmælisriti. SVEPPAGREIFINN á líklega eftir að kryfja þessa bók vel og fjalla jafnvel eitthvað um hana hér á næstu mánuðum.
Alls bættust því í bókahillur SVEPPAGREIFANS tuttugu og tvær nýjar teiknimyndasögur og ljóst að á næstu mánuðum verði af nægu að taka við að skoða og innbyrða í svartasta skammdeginu. Svo margar myndasögur minnist hann ekki að hafa verslað áður í útlöndum og ólíklegt má telja að annar eins fjöldi verði keyptur seinna í einni ferð. Reyndar var plássið í töskunum yfirdrifið nóg og stór hluti myndasagnanna fékkst ódýrt en ekki er þó alltaf hægt að ganga að slíku gefnu. Ekki er ólíklegt að eitthvað af þessum myndasögum eigi eftir að nýtast, alla vega að einhverju leyti, sem efniviður fyrir færslur á Hrakförum og heimskupörum næstu misserin.

1 ummæli:

Út með sprokið!