8. nóvember 2019

136. ZORGLÚBB KEMUR VÍÐA VIÐ

SVEPPAGREIFINN á sína letidaga og einn þeirra ku víst vera þennan föstudaginn. Diggir lesendur Hrakfara og heimskupara vita eflaust hvað það þýðir en fyrir þá hina, sem ekki eru jafn kunnugir háttum síðuhafa, er rétt að upplýsa um að það þýðir að færsla dagsins er bæði í styttri og ódýrari kantinum. En forsaga hennar snýst sem sagt um það að dóttir SVEPPAGREIFANS er í fimleikum í fimleikasal Glímufélagsins Ármanns í Laugardalnum á laugardagsmorgnum og Greifynjan móðir hennar fylgir henni þar jafnan eftir í gegnum súrt og sætt. Helsta aðkoma SVEPPAGREIFANS að þeim efnum er hins vegar að vera til taks og sækja þær mæðgur eftir æfingu er veður gerast válynd. Sú varð einmitt raunin í eitt sinn nú í haust og á meðan krílahópurinn var að klára sínar stórglæsilegu og tignarlegu æfingar, niðri á gólfinu í fimleikasalnum, ráfaði sá gamli um ganga félagsheimilisins og skoðaði meðal annars veggi byggingarinnar. Á þeim mátti bæði sjá myndir af fræknum fimleikahetjum glímufélagsins og skápa með fornum verðlaunagripum en einnig hafði gömlum fimleikabúningum verið stillt þar upp í þartilgerðum sýningarkössum. Einn þessara kassa skar sig svolítið úr og vakti sérstaka athygli SVEPPAGREIFANS.
Ekki fæst betur séð en að hinn dularfulli vísindamaður Zorglúbb hafi þarna átt einhvern hlut að máli þó ólíklegt megi reyndar teljast að hann hafi sjálfur einhvern tímann klæðst þessari múnderingu. Hans eiginn fatastíll er ólíkt látlausari og efnismeiri eins og við þekkjum auðvitað öll. SVEPPAGREIFINN er þess þó fullviss um að Zorglúbb hafi að einhverju leyti komið að ötulu starfi fimleikadeildar Glímufélagsins Ármanns í Laugardalnum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!