22. nóvember 2019

138. TRÖPPUGANGUR MEÐ LUKKU LÁKA

Í hjarta bæjarins Blois, í miðhluta Frakklands, má finna háar tröppur sem staðsettar eru við Denis-Papin torgið í miðbænum. Alls eru þessar tröppur rúmlega 120 talsins en framan á þær, utan á uppstigið, hefur undanfarin ár verið settar risastórar myndir af þekktum fyrirbærum til kynningar ýmsum viðburðum bæjarins. Í mars síðastliðnum var þar til dæmis sett hin fræga mynd af Mónu Lísu og hún sló algjörlega í gegn. Myndir af þessum tröppum hafa verið alveg sérstaklega vinsælar af Instagram og Twitter notendum enda vettvangurinn einstaklega myndrænn fyrir slíkar myndir. Það eru starfsmenn fyrirtækisins Imprinova, sem staðsett er í Contres, sem hafa veg og vanda að því að koma þessum merkingum fyrir á tröppunum en núna í byrjun nóvember hófu þeir vinnu sína við að fjarlægja myndina af Mónu Lísu og jafnóðum að setja þar nýja mynd í staðinn. 
Móna Lísa vék því smán saman fyrir mynd af Lukku Láka en verkið er unnið á þann hátt að sérstakur renningur með mjórri myndrönd af heildarmyndinni er límdur framan á hverja einustu tröppu. Því næst er hann hitaður með hitabyssu svo hann leggst alveg að steininum og aðlagar sig þannig að múrnum framan á hverri tröppu. Uppröðunin á renningunum er ekki ólík því sem sjá má á auglýsingaflettiskiltum þeim sem staðsett eru á víð og dreif hér um höfuðborgarsvæðið.
Smátt og smátt birtist þar því risastór mynd af þeim Lukku Láka og Léttfeta en auk þeirra má einnig sjá þá Rattata og Jobba Daltón neðst á myndinni. Þegar allir renningarnir hafa verið límdir á sinn stað má þannig sjá heildarmyndina þegar staðið er á réttum stað. En þessir myndarenningar er þannig staðsettar á tröppunum að ekki er hægt að sjá heildarmyndina nema úr nokkurri fjarlægð og í raun alls ekki ofan frá. Þeir sem ekki þekkja til og eru að ganga niður tröppurnar hafa til dæmis ekki hugmynd um tilvist myndarinnar við fætur sér. 
Útkoman er óneitanlega glæsileg en hugmyndin, með þessari risavöxnu Lukku Láka mynd, er að kynna hina árlegu myndasöguhátíð bd BOUM Festival sem hefst í borginni í dag, föstudaginn 22. nóvember, og haldin er núna yfir helgina. Hátíðin er ein sú stærsta sinnar tegundar í Frakklandi en á þessa þriggja daga veislu mæta yfirleitt á milli 20 og 30 þúsund gestir ár hvert. Fyrir nokkrum árum var risamynd af myndasöguhetjunum Boule og Bill sett í sama tilgangi á tröppurnar en ætlunin er að Lukku Láka myndin fái að standa á tröppunum fram yfir áramót ef veður leyfir.
Sú hugmynd rataði í fjölmiðla snemma á árinu að Akureyrarbær væri að kanna þann möguleika að láta setja upp styttu af Tinna við Torfanesbryggju í bænum. Tinni og Kolbeinn kafteinn komu í fjögurra blaðsíðna heimsókn til Akureyrar, í bókinni um Dularfullu stjörnuna, og margir hafa viljað halda því varanlega til haga með minnisvarða af einhverju tagi en ekkert hefur þó enn gerst í þeim málum. SVEPPAGREIFINN veltir því fyrir sér hvort ekki sé hægt að nota þessa tröppulausn þarna norðan heiða. Hann gerir það hér með að tillögu sinni að Akureyrarbær grípi hugmyndina á lofti og setji einhverja fína mynd af Tinna og félögum hans, úr Dularfullu stjörnunni, á kirkjutröppurnar undir Akureyrarkirkju.

Eða ... nei, líklega henta þær tröppur ekki ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!