15. nóvember 2019

137. HÖRÐUR STÝRIMAÐUR - ÆVIÁGRIP

Þó að SVEPPAGREIFINN lifi kannski ekki eingöngu og hrærist í heimi hinna stórskemmtilegu teiknimyndasagna barnæsku sinnar þá er ekki laust við það að þessar bækur poppi ennþá aðeins upp í hausnum á honum stöku sinnum. Hann heldur jú einu sinni úti þessu myndasögubloggi sínu. Hugmyndir um færslu vikunnar detta inn á hinum ólíklegustu augnablikum utan dagskrár og þá þarf hann að vera duglegur að punkta hjá sér þau inngrip svo þau ekki gleymist. Margar af þessum hugmyndum koma upp úr engu og stundum þarf honum ekki nema að detta í hug einhver ómerkileg sögupersóna úr bókunum til að komið sé efni í færslu. Ein er sú persónan, úr myndasöguhillum heimilisins, sem búin er að vera SVEPPAGREIFANUM eitthvað hugleikin síðustu vikurnar og hann hefur nú þörf fyrir að deila hér. Hver sé ástæða þessarar hugleikni er reyndar ekki alveg fullkomlega ljós en eitthvað poppaði þessi sögupersóna upp í huga hans nú á haustmánuðum. Hörður heitir þessi fígúra og er kunnur sem stýrimaður úr Tinna bókunum. Að öðru leyti er Hörður ekki þekktur af neinu öðru en illmennsku og óþverraskap af flestum toga.
Hörður stýrimaður birtist fyrst í sögunni Vindlum Faraós en alls kemur hann fyrir í einum fjórum Tinna bókum. Hann er ein af þeim fáu aukapersónum seríunnar sem koma það snemma fyrir að Hergé var ekki einu sinni búinn að kynna þá Kolbein og Vandráð til sögunnar. Í íslensku útgáfunni af Vindlum Faraós, sem kom út 1972, nefndist Hörður reyndar Allan Thompson líkt og í upprunalegu útgáfunum sem gefnar voru út í Belgíu. En árið 1973 kom út á íslensku Krabbinn með gylltu klærnar og þar heitir manngarmurinn allt í einu Hörður og hann hefur síðan fengið að halda því nafni til streitu. Ástæða þessa misræmis er reyndar óljós en líklegt er að annað hvort hafi þýðendur Tinna bókanna, þeir Þorsteinn Thorarensen og Loftur Guðmundsson, gleymt að samræma aðgerðir þeirra sín á milli eða þeir hafi hreinlega ekki áttað sig á því að þarna væri um sama manninn að ræða. Í nýrri útgáfum af Vindlum Faraós á íslensku (2. og 3. útgáfu) hefur þetta misræmi ekki verið leiðrétt og sömu sögu má segja af bókinni sem gefin var út í litla brotinu (4. útgáfu) árið 2013.
Hörður spilar svo sem ekkert sérstaklega stóra rullu í bókinni um Vindla Faraós en þó nógu mikla til að vekja á sér athygli. Þar stjórnar hann snekkju einni, Sírenu, sem foringi ópíum smyglhringsins KIH-OSKH Faraós á en sá bófi er hinn grískættaði Roberto Rassópúlos. Allir lesendur Tinna bókanna kannast auðvitað mæta vel við þann glæpaforingja. Rassópúlos kemur einmitt nokkrum sinnum fyrir í Tinna bókunum og í þremur þeirra er Hörður ein helsta undirtylla Grikkjans. Í sögunni Vindlum Faraós bregður Herði í raun aðeins fyrir í einu atriði en Rassópúlos leikur hins vegar svolítið stærra hlutverk í bókinni. Þarna er Hörður reyndar sagður vera skipstjóri en í Tinna bókunum er hann oftar en ekki titlaður stýrimaður. Í upprunalegu, svarthvítu útgáfunni af Vindlum Faraós, sem gefin var út árið 1934, kom Hörður stýrimaður ekkert við sögu en Hergé bætti hlutverki hans inn í söguna þegar bókin var seinna endurteiknuð og lituð árið 1955.
Í Krabbanum með gylltu klærnar er Hörður töluvert meira áberandi og stór hluti af hans aðkomu í bókinni snýst í rauninni um það að kynna Kolbein kaftein til sögunnar inn í bókaflokkinn. Í sögunni er Kolbeinn auðvitað skipstjóri flutningaskipsins Karaboudjan og stýrimaðurinn Hörður er þar í raun undirmaður hans. En þar sem Kolbeinn er ansi hallur að flöskunni, þarna í upphafi ferils síns, snúast hlutverk þeirra algjörlega við og Hörður hefur kafteininn gjörsamlega í vasanum. Hörður heldur Kolbeini stöðugt blindfullum, með því að skammta honum reglulega viskíflöskum í klefa sinn, svo að á meðan getur stýrimaðurinn sjálfur ráðstafað skipinu eins og honum sýnist og hentar best. Þannig notar Hörður Karaboudjan til að smygla heróíni milli Evrópu og Bagghar í Marokkó án nokkurrar vitundar hins sídrukkna skipstjóra Kolbeins kafteins.
Þessi fyrstu alvöru kynni af Herði sýna samviskulausan, kaldrifjaðan og hörkulegan náunga sem vílar sér ekki við að beita óþverraskap og ofbeldi af ýmsu tagi. Eins og áður segir kynnast þeir Tinni og Kolbeinn í sögunni, verða samferðarmenn það sem eftir er bókaflokksins, og sameinast um að reyna að koma höndum yfir þennan útsjónarsama glæpamann. Það er að segja á þeim stundum sem Kolbeinn er allsgáður. Stýrimaðurinn Hörður er hins vegar stórhættulegur og hikar ekki, með öllum ráðum, við að reyna að koma þeim fyrir kattarnef.
Líkt og fyrr segir leikur Hörður nokkuð stórt hlutverk í sögunni en undir lok hennar tekur Tinni stýrimanninn höndum og færir hann Sköftunum til varðveislu. Væntanlega hefur Hörður því setið af sér dóm fyrir þessa glæpi sína í Krabbanum með gylltu klærnar og verið laus sinna mála þegar hann kemur við sögu í sínu næsta ævintýri. Betrun hans hefur þó augljóslega haft lítið að segja því Hörður leggur fyrir sig nýja glæpi í bókinni um Kolafarminn. Í þeirri sögu stýrir hann flutningaskipinu Ramónu og enn starfar hann fyrir glæpaforingjann Roberto Rassópúlos.
Þeir Kolbeinn hittast því á ný þegar Gorgonsóla markgreifi, sem í rauninni er Rassópúlos í dulargervi, lætur færa þá um borð í Ramónu eftir að hafa bjargað þeim (gegn vilja hans) af fleka á Rauðahafinu. Í Kolafarminum telur Hörður sig enn hafa vald yfir Kolbeini með því að gauka að honum viskíflösku og sýnir honum þannig á hrokalegan hátt augljóslegt óþverraeðli sitt. Kolbeinn lætur sér reyndar fátt um finnast enda búinn að vera tiltölulega edrú meira og minna allan bókaflokkinn síðan Krabbinn með gylltu klærnar var og hét. Hann svarar Herði fullum fetum og lætur stýrimanninn fá það óþvegið með hefðbundnum blóts- og skammaryrðum að hætti hússins.
Hörður hefur þarna auðvitað harma að hefna eftir að þeir Tinni og Kolbeinn höfðu komið honum í fangelsi og í Kolafarminum reynir hann enn og aftur að koma þeim félögunum fyrir kattarnef. Hann skilur þá eftir um borð í skipinu, sem hann áformar að sprengja í loft upp, en þeir félagar sleppa naumlega undan illverkum stýrimannsins. Sjálfur flýr Hörður ásamt áhöfn sinni í björgunarbáti og er í lok sögunnar bjargað. Væntanlega hefur hann þar aftur fengið dóm fyrir athæfi sitt þó það komi reyndar hvergi fram í bókinni. Síðasta sagan sem Hörður kemur fyrir í er Flugrás 714 til Sydney en hún var næstsíðasta bókin um Tinna sem Hergé kláraði og meginsagan gerist raunar á aðeins um tveimur sólarhringum. Þessi bók er jafnframt sú eina sem þeir félagar, Hörður stýrimaður og Rassópúlos, sjást eyða saman í illverkum sínum. Í sögunum Vindlum Faraós og Kolafarminum eru þeir einungis í fjarskipta- eða símasamskiptum en í Flugrás 714 til Sydney fá lesendur betur að kynnast því hvernig þeirra persónulegu sambandi er háttað.
Hvernig leiðir þeirra Tinna, Kolbeins, Harðar og Rassópúlosar liggja saman í þessari bók er eiginlega hrein tilviljun. Það er auðvitað engan veginn eðlilegt hvernig Tinna er fyrirmunað að ferðast um heiminn án þess að rekast á þá kumpána einhvers staðar að glæponast. En að þessu sinni er Hörður hægri hönd Rassópúlosar, og um leið ein af undirtyllum hans, sem rænir einkaþotu milljarðamæringsins Carreidas. Og fyrir einskæra tilviljun eru þeir Tinni og Kolbeinn, ásamt prófessor Vandráði, einnig um borð í vélinni. Ætlun þeirra Rassópúlosar og Harðar er að lenda þotunni á lítilli eyju, Púla-púla Bomba í Súndíska hafinu, með Carreidas og knýja hann til að afsala sér auðæfum sínum. Allir eru þeir teknir til fanga en auðvitað bjarga Tinni og félagar málunum.
Lengi vel stóð SVEPPAGREIFINN í þeirri meiningu að Hörður stýrimaður kæmi fyrir í einni Tinna bókinni í viðbót. En það mun þó ekki vera rétt. Í sögunni um Leyndardóm Einhyrningsins bregður fyrir misindismanni einum sem svipar, að mati SVEPPAGREIFANS, nokkuð til Harðar. Þarna er um að ræða atvik á blaðsíðu 35 þar sem þeir Fuglsbræður, Starri og Þröstur, hafa sent tvo skósveina sína til að ræna Tinna af heimili sínu að Labradorgötu í Brussel.
Annan þeirra tók SVEPPAGREIFINN, á sínum yngri árum, ítrekað í misgripum fyrir Hörð og það var ekki fyrr en hann var kominn vel á fullorðinsaldur að hann áttaði sig á þeirri villu sinni. Sem var auðvitað með algjörum ólíkindum vegna þess að þennan ólukkans náunga svipar ekki einu sinni til Harðar. Stýrimaðurinn Hörður kemur víða við í Tinna sögunum en glæpamannaflóra bókanna er þó ekki það ófrumleg að hann þurfi bæði að vera undirtylla Rassópúlosar og Fuglsbræðra. SVEPPAGREIFINN er reyndar kunnur fyrir hina einstöku ómanngleggni sína en það væri þó fróðlegt að vita hvort fleiri aðdáendur Tinna bókanna hafi nokkuð farið þessa sömu villu vegar. 
Útlitslega ber Hörður það algjörlega með sér að vera hörkutól, enda með alveg einstaklega harðneskjulegt yfirbragð. Hergé hefur heppnast ákaflega vel með persónusköpun hans og maður trúir því staðfastlega að þessi karakter gæti alveg verið til. Þó kallast svolítið á tveir persónuleikar úr elstu og yngstu bókunum. Það er nefnilega athyglisvert hvernig Hörður breytist í meðförum Hergé á þeim 36 árum sem líða á milli þess sem hann birtist í fyrstu sögunni (Vindlar Faraós) árið 1932 og þeirrar síðustu (Flugrás 714 til Sydney) árið 1968. Í eldri sögunum virðist hann fyrst og fremst vera samviskulaus hrotti sem vílar sér ekki við að beita líkamlegu ofbeldi ef á þarf að halda. Seinna, sérstaklega í Kolafarminum, þróast hann meira yfir í hávaðasaman, sjálfsumglaðan og hrottalegan yfirgangssegg en líklega er gáfnafar hans þó ekki samkeppnishæft við digurbarkalegan hávaðabelginn. En í síðustu sögunni þar sem hann kemur fyrir, Flugrás 714 til Sydney, er Hergé einhvern veginn búinn að lita hann sem óttalegan væskil og eiginlega sem hálfgerðan trúð, undirgefinn Rassópúlosi. Það er eiginlega búið að blása allt púður úr kallgreyinu. Í það minnsta getur SVEPPAGREIFINN ekki litið á hann sömu augum. Hörður er þannig gerður klaufalegur bæði í orði og á borði og er engan veginn sami maðurinn og í fyrri bókunum. Í Vindlum Faraós var Hörður stýrimaður jafnvel allt að því töffari. Sömu sögu má reyndar einnig segja um Rassópúlos. Í fyrri sögunum er yfir honum ákveðin reisn en í Flugrás 714 til Sydney er Rassópúlos orðinn að hálfgerðu viðrini - sem er þar að auki klæddur eins og fífl.
Hörður er líka frekar ófríður en það er oftar en ekki einkenni glæpamanna í teiknimyndasögum. Það er jafnvel eitthvað við hann sem minnir eilítið á knattspyrnuþjálfarann Gaua Þórðar í útliti en líklega er Hörður þó töluvert hávaxnari. Hörður reykir mikið og er í rauninni oftar en ekki með sígarettu eða vindil í kjaftinum. Í eldri bókunum er hann ævinlega með kaskeitið sitt á hausnum og í drapplitaða frakkanum sínum sem er ekkert ósvipaður frakka Tinna en seinna er uppbrett skyrta í svipuðum lit í uppáhaldi. Samkvæmt Wikipedia er Hörður bresk/bandarískur að þjóðerni og heitir Allan Thompson í upprunalegu seríunni eins og áður hefur verið minnst á. Í ensku útgáfunni er eftirnafni hans hins vegar sleppt og þar nefnist hann aðeins Allan til aðgreiningar frá Sköftunum en þeir heita auðvitað Thomson og Thompson í þeim þýðingum. Ekki er með vissu vitað hver var fyrirmyndin að Herði en sagan segir að Hergé hafi hitt breskan hermann á skrifstofa dagblaðsins Libération árið 1944 sem hugsanlega gæti hafa verið hugmyndin að honum.
Síðustu kynni lesenda Tinna bókanna af Herði stýrimanni koma fyrir á blaðsíðum 58 og 59 í Flugrás 714 til Sydney en þar er hann staddur í gúmmíbáti ásamt þeim félögum sínum úr glæpaflokknum; Rassópúlosi, Spæli, Páli Pumpu og Hans Búmm. Skyndilega birtist yfir þeim fljúgandi diskurinn sem hafði bjargað Tinna og félögum hans af eldfjallaeyjunni Púla-púla Bomba og skilur þá eftir í bátnum en tekur bófahópinn hins vegar með. Hver endanleg örlög Harðar stýrimanns urðu kemur þó aldrei fram en þó er vitað að Hergé gerði ráð fyrir honum í sögunni Tintin et l'Alph-Art (Tinni og leturlistin) sem hann náði ekki að klára áður en hann lést árið 1983. Því má gera ráð fyrir að þeim glæpamönnunum hafi verið skilað aftur til jarðar á einhvern góðan stað.

2 ummæli:

Út með sprokið!