10. janúar 2020

145. SVALUR UPPGÖTVAR EVRÓPU

Það er best að rúlla sér aðeins af stað aftur eftir frekar rólyndislegar færslur yfir jólavikurnar. En sögurnar um Sval og Val eru íslenskum myndasöguunnendum að góðu kunnar. Alls voru gefnar út 29 bækur hjá bókaútgáfunni Iðunni á sínum tíma og nú á undanförnum árum hafa 8 bækur í viðbót bæst við hjá Froski útgáfu. Alls eru Sval og Val bækurnar í upprunalegu seríunni nú orðnar 55 talsins og sú síðasta kom út árið 2016 en reyndar er staðan í dag, um framtíð bókaflokksins, nokkuð óljós. Langflestar af þessum sögum birtust fyrst í belgíska myndasögutímaritinu Le Journal de Spirou áður en þær voru gefnar út í bókaformi en í blaðinu birtust einnig stuttar sögur með þeim félögum sem komu þó ekki alltaf út í bókaformi. Þær sögur voru í flestum tilfellum birtar við ákveðin tilefni sem oftar en ekki tengdust þá einhverjum tímamótum eins og til dæmis jóla- eða afmælisritum. Í SPIROU blaði númer 1065, sem kom út þann 11. september árið 1958, mátti finna eina slíka sögu eftir André Franquin en tilefnið að þessu sinni var þó alls ekki jólablað tímaritsins eins og dagsetningin gefur reyndar sterklega til kynna. Eins annarlega og það hljómar var þessi fjögurra síðna Sval og Val saga, sem nefndist SPIROU découvre l'EUROPE (Svalur uppgötvar Evrópu), teiknuð í kynningaskyni fyrir fróðleiksþyrsta unga lesendur blaðsins. Sagan var eiginlega rammpólitísk áróðursgrein en um leið kynning á belgíska hluta Heimssýningarinnar Expo 58 sem haldin var í Brussel dagana 17. apríl til 19. október 1958. Þarna er Kalda stríðið í algleymingi og ungir lesendur blaðsins á einfaldan hátt minntir á hve samvinna þjóða Evrópu væri mikilvæg, vegna staðsetningar þeirra mitt á milli stórveldanna, gegn vondu köllunum í austri.
Það var þó fjarri því að þeir Svalur og Valur væru í einhverju fríi frá SPIROU á þeim tíma því sagan Le Prisonnier du Bouddha (Fanginn í styttunni) var í fullum gangi framar í tímaritinu. En þessi saga, Svalur uppgötvar Evrópu, var hins vegar hluti af föstum myndasöguþætti sem var nefndur Les belles histoires de l'oncle Paul (Fallegustu sögur Paul frænda) og birtust í blaðinu á árunum 1951-82. Paul var hinn vitri frændi sem deildi reynslu sinni og fróðleik á föðurlegan hátt til ungu frændsystkinanna sem voru auðvitað lesendur SPIROU blaðins. Líklegt má telja að sjálfur Paul Dupuis sé fyrirmyndin að Paul frænda en hann stjórnaði tímaritinu til langs tíma ásamt bróður sínum Charles. Þessi fasti myndasöguþáttur tímaritsins var unninn upp úr efni sem þeir Jean-Michel Charlier og Eddy Paape tóku yfirleitt saman og sömdu handritið að. Það gat fjallað um fjölbreytilegan og sögulegan fróðleik eða staðreyndir en oft gat efnið einnig verið af vísindalegum toga. Sögurnar voru teiknaðar af ýmsum listamönnum og margir þeirra hófu feril sinn hjá blaðinu einmitt við að teikna Les belles histoires de l'oncle Paul. Sagan Svalur uppgötvar Evrópu var þó eina verk André Franquin sem birtist í þessum þætti og þá auðvitað í eina skiptið sem félagarnir Svalur og Valur komu þar við sögu. Þeir Jijéhem (Jean De Mesmaeker), Jean Roba og Oktave Joly komu einnig að þessu verkefni. Þá má líka til gamans geta að Sval og Val bókin Furðulega uppljóstranir (La jeunesse de Spirou - 1987) eftir þá Tome og Janry, sem Iðunn gaf út árið 1987, er byggð upp sem grínútgáfa af sögum Paul frænda. Sá (Palli frændi) er reyndar í blautari kantinum og deilir því boðskap sínum á ekki alveg jafn ábyrgðarfullan, fallegan og mark-á-takandi hátt og hinn upprunalegi Paul frændi.
En sagan Svalur uppgötvar Evrópu segir frá því er þeir Svalur og Valur (ásamt auðvitað Gormi og Pésa) eru á einhverju ráfi fyrir utan mannvirki tengdum Expo 58 í Brussel og Valur fer að velta fyrir sér hvaða risahús þetta sé. Þessi bygging samanstendur aðallega af gleri, sem sex risastórir stálrammar umlykja, og Svalur útskýrir fyrir honum að þetta séu skáli C.E.C.A. sem er Kola- og stálbandalags Evrópu. Í stuttu máli voru þau samtök stofnuð af sex Vestur-Evrópuríkjum (Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Lúxemborg, Ítalíu og Vestur Þýskalandi) árið 1952 og var ætlað að sameina hagsmuni þeirra og auðlindir næstu 50 árin en um leið einnig að tryggja að þessar þjóðir myndu ekki berjast innbyrðis á ófriðartímum. Kola- og stálbandalag Evrópu var í raun þannig forveri Evrópusambandsins ásamt Kjarnorkubandalagi Evrópu og Efnahagsbandalagi Evrópu. Stálrammarnir sex utan um glerbygginguna á Heimssýningunni, sem Svalur og Valur voru að skoða í myndasögunni, táknuðu einmitt þessar sex þjóðir sem komu að stofnun bandalagsins.
Valur sýnir byggingunni lítinn áhuga og vill gera eitthvað annað en Svalur dregur hann inn fyrir þar sem þeir kynna sér svolítið starfsemina upp úr bæklingum og þartilgerðum leiðbeiningartækjum. Þeir ganga um bygginguna og fræðast um hlutverk hennar og samtakanna en frásögnin er lituð af þurri, óáhugaverðri og pólitískri predikum. Sagan er eiginlega sett upp eins og myndasaga í skýrsluformi - eitthvað sem Franquin hafði lítinn áhuga á að taka þátt í. Eflaust hefur þótt nauðsynlegt að deila fróðleik sem þessum, til upplýsinga á hinum viðsjárverðu tímum Kalda stríðsins, en hann á í raun lítið erindi í myndasögutímarit sem aðallega var ætlað börnum og unglingum. Svalur uppgötvar Evrópu er því full af ýmiskonar tölulegum staðreyndum og upplýsingum og það vantar eiginlega ekkert í hana nema fáein línu- eða súlurit til að gera hana fullkomlega óáhugaverða. Í það minnsta er voðalega leiðinlegt að sjá hvernig reynt hefur verið að nota þessa vinsælu myndasöguseríu til að koma pólitískum skilaboðum til hinna ungu lesenda. Þeir áttu örugglega eftir að fá mörg tækifæri seinna á ævinni til að kynnast slíkum leiðindum.
Til að drepa lesendur SPIROU tímaritsins ekki alveg úr leiðindum hefur Franquin þó tekist að krydda söguna svolítið með skemmtilegum tilburðum Gormsins en án þeirra er hætt við að þessi saga hefði þótt álíka áhugaverð og samansafn eldhúsdagsumræða í rituðu formi. En hreinskilnislega er voðalega lítil Sval og Val stemning yfir þessari myndasögu.
Annars gaf Heimssýningin í Brussel árið 1958 af sér afkvæmi sem hefur í gegnum tíðina orðið að heldur þekktara kennileiti eða tákni fyrir borgina. Hér er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um hið stórkostlega listaverk Atomium turninn sem er 102ja metra há útfærsla af atómi járnkristals og með stækkun upp á 165 billjón sinnum. Og þar sem hlutverk Hrakfara og heimskupara er að fjalla um myndasögur má einmitt benda á að umrætt listaverk kemur fyrir í þremur bröndurum með Viggó viðutan sem birtust fyrst í SPIROU tímaritinu þetta sama ár - 1958. 
Þessi staki myndabrandari hér að ofan birtist í blaðinu þann 17. apríl, sama dag og sýningin opnaði, en hann má einmitt finna á blaðsíðu 35 í íslensku Viggó bókinni Glennur og glappaskot sem kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1986. Annars var SPIROU tímaritið fullt af efni tengdu Expo 58 allt þetta sama ár enda sýningin risastór og vakti til að mynda töluverða athygli hér uppi á Íslandi. Atomium turninn var nokkuð mörgum höfundum myndasagna yrkisefni á þessum árum og listaverkið hefur birst bæði í Blake og Mortimer seríunni sem og bókaflokknum um Sigga og Viggu svo nærtæk dæmi séu tekin. En það er um að gera fyrir þá sem eiga leið um Brussel að túristast að kíkja á þetta merkilega listaverk sem sést nokkuð víða að í borginni. Flest önnur mannvirki sem tengdust Heimssýningunni í Brussel árið 1958 eru þó löngu horfin og þeirra á meðal er byggingin merkilega sem kemur fyrir í Sval og Val sögunni.
Þá er kannski einnig vert að minnast á það að rétt við hliðina á Atomium listaverkinu var hinn sögufrægi Heysel leikvangur sem var vettvangur skelfilegra atburða á úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða (sem er auðvitað Meistaradeildin í dag) í knattspyrnu árið 1985. Þar létust 39 áhorfendur eftir að áhangendum Juventus og Liverpool laust saman í aðdraganda leiksins. Árið 1958 fór einmitt fram úrslitaleikur Real Madrid og AC Milan í sömu keppni fram á Heysel en sá viðburður var einnig hluti af hátíðarhöldum þeim sem tengdust Expo 58. Real Madrid, með Alfredo Di Stéfano fremstan í flokki, vann leikinn 3 - 2 eftir framlengingu að viðstöddum tæplega 70.000 áhorfendum. En eftir atburðinn árið 1985 var völlurinn að mestu rifinn, endurbyggður frá grunni, tekinn í notkun aftur árið 1995 og heitir í dag Stade Roi Baudouin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!