Lukku Láka bókin Karlarígur í Kveinabæli (Les Rivaux de Painful Gulch), eftir þá Morris og Goscinny, er aðdáendum þeirrar seríu flestum að góðu kunn. Sagan er af mörgum talin ein sú besta í bókaflokknum og í könnunum sem gerðar hafa verið um Lukku Láka bækurnar kemur fram að þessi bók er á meðal þeirra vinsælustu. Karlarígur í Kveinabæli er líklega ein af allra fyrstu Lukku Láka bókunum sem SVEPPAGREIFINN man eftir en forsöguna má rekja til þess að hann, ásamt bróður sínum, gáfu Gaua vini sínum þessa bók í afmælisgjöf í maí mánuði líklega árið 1979 frekar en '78. Þá höfðu þeir bræður sjálfir reyndar ekki enn eignast sína fyrstu Lukku Láka bók og SVEPPAGREIFINN viðurkennir það fúslega að honum hafi þótt nokkuð fúlt að vera að kaupa myndasögu en vera ekki að fara að eiga hana sjálfur. Á þessum tíma voru bræðurnir einbeittir af því að safna Tinna og Sval og Val bókunum en þó styttist í að fyrstu myndasögurnar um kúrekann knáa kæmu inn á heimilið. Hvort það var af þessum ástæðum sem Karlarígur í Kveinabæli varð síðasta Lukku Láka bókin sem kom síðan inn á heimilið skal ósagt látið en eintak SVEPPAGREIFANS í dag er í algjörlega óaðfinnanlegu ástandi. En fyrstu blaðsíður Karlarígs í Kveinabæli birtust í belgíska myndasögutímaritinu Le journal de Spirou númer 1186 þann 5. janúar árið 1961 og henni lauk á samviskusamlega hátt í tölublaði númer 1207 frá 1. júní það sama ár. Fljótlega upp úr því fóru stjórnendur Dupuis útgáfunnar, ásamt höfundunum Morris og Goscinny, að búa söguna undir að koma út í bókarformi og íslenskir aðdáendur seríunnar þekkja vel hina endanlegu bókarkápu hennar sem kom út hjá Fjölva árið 1978 í þýðingu Þorsteins Thorarensen.
Þessi forsíða bókarinnar eru auðvitað löngu orðin sígild og er lang algengasta útgáfa hennar þó reyndar megi finna af henni aðeins misjafnar útfærslur eftir því hvaða löndum hún hefur verið gefin út í. Bókin er þannig til með speglaðri kápumynd í nokkrum útgáfum en einnig með mismunandi grænum litatón í bakgrunninum og jafnvel bláum. En upprunalega hugmynd listamannsins Morris að bókarkápu sögunnar var þó ekki alveg svona. Fyrstu drög hans að myndinni þóttu svo svívirðilega ofbeldisfull að Dupuis hugnaðist engan veginn að leyfa þá útfærslu framan á Lukku Láka bók og Morris þurfti því að gjöra svo vel að teikna nýja bókarkápu.
Á þessari ritskoðuðu útgáfu bókarkápunnar mátti sjá Lukku Láka á Léttfeta í miðjum darraðadansi á milli tveggja manna sem tilheyra ættum Nefjólfa og Eiríka. Þeir sem þekkja söguna vita auðvitað um hvað sá bardagi snýst en þeir sem ekki þekkja til skulu bara hunskast til að lesa þessa bók hið snarasta! Stjórnendum Dupuis útgáfunnar þótti of mikið af ofbeldi einkenna myndina auk þess sem áfengisflaskan í forgrunninum ætti ekkert erindi á bókarkápuna. Þessi ákvörðun var einkennileg og skaut svolítið skökku við vegna þess að inn í sögunum sjálfum sáust margoft bæði byssubardagar og áfengisflöskur auk margkyns samskonar efnis. Hvort slíkur ólifnaður væri óæskilegri utan á bókunum frekar en innan þeirra stóðst ekki heldur því að á mörgum öðrum bókarkápum Lukku Láka serínnar má finna sambærileg efni. Framan á bókinni Daldónar ógn og skelfing vestursins má til dæmis sjá hvar Lukku Láki hleypir af byssu sinni á eftir Daltón bræðrum, áfengisflöskur og glas sjást á Rangláta dómaranum og á bókarkápu Vagnalestarinnar sést Skralli skrölts og páfagaukurinn hans blóta einhverju í sand og ösku. Þessar bækur eru bara dæmi um þær sem komið hafa út á íslensku en allar þessar sögur höfðu birst í teiknimyndablaðinu SPIROU og komu þar af leiðandi einnig út í bókarformi hjá Dupuis útgáfunni. Upprunalega myndin birtist því aldrei á bókarkápu sögunnar Les Rivaux de Painful Gulch. Í september árið 1967 birtist þó svipuð útgáfa af þessari sömu mynd á forsíðu hollenska myndasögutímaritsins Pep þegar þessi sama saga hóf göngu sína í því blaði. Enn á ný lenda þeir Lukku Láki og Léttfeti á milli vopnaviðskipta Nefjólfsins og Eiríksins en áfengisflaskan er reyndar víðsfjarri að þessu sinni. Hollensku útgefendurnir (og um leið lesendur Pep blaðsins) voru augljóslega ekki jafn viðkvæmir fyrir "ofbeldinu" og hinir kaþólsku nágrannar þeirra fyrir sunnan.
Birtist ekki útgáfa af þessari forsíðu einhversstaðar í bókinni, Allt um Lukku Láka ? Takk fyrir þessa pistla þína, það fyrst sem ég geri eftir vinnu á föstudögum er að lesa þá. Afar skemmtilegt.
SvaraEyðaTakk fyrir, Villi. Alltaf gaman að fá svona jákvæð og hvetjandi viðbrögð.
SvaraEyðaAllt um Lukku Láka er mjög skemmtileg og fræðandi bók en þessi bókarkápa birtist þó ekki í henni. Held ég hafi reyndar séð hana í einhverri annarri sambærilegri bók úti í Frakklandi en man þó ekki hvaða bók það var. Hugmyndin að þessari færslu kom einfaldlega af íslensku Wikipedia síðunni um Lukku Láka sem er alveg einstaklega vel unnin og stútfull af fróðleik.
Kv. SVEPPAGREIFINN
Flottur pistill
SvaraEyðaÞakka þér enn og aftur, Rúnar.
SvaraEyðaKv. SVEPPAGREIFINN