23. október 2015

2. SKEGG SKAFTANNA

Fólk er misjafnlega áhugasamt um teiknimyndasögur og sér þær líklega á jafn ólíkan hátt eins og það er margt. Þ.e.a.s. fólkið. Flestir lesa myndasögur sér til skemmtunnar, þegar það nær til þeirra, á meðan aðrir hafa sökkt sér í þær af fullum þunga í áratugi jafnvel og kunna þær helstu nánast utan að. Sú teiknimyndasöguáhugamannatýpa á helst allt sem út hefur komið í myndasöguformi, á mörgum tungumálum, allar útgáfur af hverri bók, fer á myndasöguráðstefnur og skiptist á gripum við sambærilega erlenda teiknimyndasöguáhugamannatýpur. Þess konar áhugafólk má líklega með réttu kalla myndasögunörda, safnara, Tinnafræðinga eða hvað það nú heitir allt saman. SVEPPAGREIFINN er sko ekki einn af þeim. Nei nei, sei sei...

En þetta var ekki það sem SVEPPAGREIFINN ætlaði að tuða um í þessari færslu. Meginefni þessarar færslu átti að fjalla um skegg Skaftanna í Tinnabókunum og hversu vel fólk er að sér um útlit þeirra. Já, einmitt! Hvernig skegg Skaftanna lítur út! Þannig var hugmyndin að koma því að í byrjun að líklega væru ekki allir sem vissu eða hefðu tekið eftir því að yfirvaraskegg þeirra væri ekki eins og því væri á einfaldan hátt hægt að þekkja þá í sundur. Tinnafræðingar vita þetta auðvitað og líklega flestir sem eru sæmilega vel að sér í myndasögum.
En alla vega... Skaftarnir, eins og þeir nefnast á íslensku, heita náttúrulega Skafti og Skapti eins og allir vita og lögun skeggja þeirra eru, eins og áður segir, ekki eins. Skeggið á Skafta er slétt á hliðunum á meðan skeggið á Skapta er uppbrett á hliðunum. Reyndar hefur verið bent á villur í einhverjum Tinnabókanna (til dæmis í Eldflaugastöðinni) þar sem nöfn Skaftanna, ja eða skegg þeirra, hafi víxlast. Að öðru leyti er lítill eða enginn sjáanlegur munur á útliti þeirra.
Annars er ekki úr vegi að SVEPPAGREIFINN bjóði upp á smá fróðleik um Skaftanna fyrst hann er farinn að eyðu skrifum sínum í þessa vitleysu. Skaftarnir koma fyrir í 20 af 24 Tinnabókum og sjást til dæmis strax á fyrstu mynd í Tinna í Kongó en reyndar ekkert meira í þeirri bók. Og í upphaflegu svart/hvítu útgáfunni af Tinna í Kongó eru þeir meira að segja ekki með. Þeir sjást öðru hvoru eitthvað í fyrstu bókunum og upphaflega komu þeir fyrst fyrir í Vindlum Faraós en nöfn þeirra koma þó ekki fyrst fram fyrr en í Veldisprota Ottókars sem er bók númer 8 í flokknum. Þeir eru auðvitað háleynilegir eða réttara sagt leynleguháir rannsóknarlögreglumenn sem bera einkennisnúmerin X33 og X33b. Skaftarnir eru ekki beint kunnir af gáfum sínum og sú almenna regla leynilögreglumanna um að láta fara lítið fyrir sér er ekki beint sterkasta hlið Skaftanna. Einhver myndi líklega orða það þannig að þeir væru alveg heimskir. Þeir klæðast iðulega svörtum jakkafötum og breskum harðkúluhöttum í stíl og þegar þeir dulbúast eru þeir jafnvel enn meira áberandi.
Skaftarnir eru ekki tvíburar eins og flestir munu líklega halda og reyndar ekki einu sinni bræður. En þrátt fyrir það voru faðir Hergés, Alexis Remi og tvíburabróðir hans Leon Remi fyrirmyndir hans að Sköftunum. Þeir voru báðir með lúðalegt yfirvaraskegg, klæddust eins og notuðu ýmist harðkúlu- eða stráhatta, svo ekki sé minnst á reyrprik eða regnhlíf.
Nöfn Skaftanna eru Dupont og Dupond á frummálinu, frönsku, en á mörgum öðrum tungumálum eru þau frekar ólík og langt frá upphaflegu nöfnunum. Þannig heita þeir Thomson og Thompson á ensku, Schultze og Schulze á þýsku, Hernández og Fernández á spænsku o杜邦 og 杜 帮 á kínversku. 

15. október 2015

1. SVEPPAGREIFINN GJÖRIR KUNNUGT...

Ok. Það er alltaf gott að byrja á byrjuninni.
Hér hefur sjálfur SVEPPAGREIFINN tekið þá örlagaríku ákvörðun að taka aðeins til hendinni, með eitt af sínum stærstu áhugamálum, og opna myndasögublogg. Bloggi þessu er kannski helst ætlað að höfða til þeirra kynslóða íslenskra myndasöguunnenda sem upplifðu aðal blómatímabilið á útgáfu þessara frábæru bókmenntategunda hér á landi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. En auðvitað er auðvitað öllum frjálst að fylgja þessari síðu eftir og vonandi að njóta hennar á sem bestan hátt, hvort sem það er sér til skemmtunar eða fróðleiks. Síðunni er engan veginn ætlað að verða myndasögunördagrúsk fyrir lengra komna eða neitt þaðan af verra. Öll sú vitleysa sem hér birtist mun verða á ábyrgð SVEPPAGREIFANS en ætlunin er að þar verði jafnt um að ræða kenningar hans, hugleiðingar og greiningar um myndasögur og jafnvel hugsanlega líka einhverjar staðreyndir.

Eflaust gætu einhverjir illa upplýstir lesendur freistast til að misskilja þennan titil SVEPPAGREIFANS og álitið hann talsmann eða jafnvel sölumann fyrir illa meðhöndlaða umferðareyjasveppi, þurrkaða eftir kúnstarinnar reglum og vafasama eftir því, en svo er auðvitað alls ekki.
Sveppagreifinn er að sjálfsögðu ein af lykilpersónum úr teiknimyndasögunum um Sval og Val, hrekklaus og stórgáfaður vísindamaður, lítt gefinn fyrir ólöglega vímugjafa eða annars óþverra. En þetta vita auðvitað allir sem eitthvað eru komnir til vits og ára. Fyrrnefnd ímynd Sveppagreifinn er reyndar sú mynd sem flestir íslenskir lesendur þekkja af karlinum en Sveppagreifinn á sér þó líka aðrar hliðar. Í fyrstu bókunum sem hann kemur fyrir, býr hann yfir heldur villtari hliðum sem samrýmast ekki alveg þeirri mynd sem flestir íslenskir lesendur hafa fengið að kynnast. Og seinna í bókunum eru einnig grafnar upp enn eldri hliðar úr fortíð hans þar sem kvennamál koma jafnvel við sögu. Allt kemur þetta fram í Sval og Val bókum sem enn eru óútgefnar hér á Íslandi en vonandi verður gerð bragabót á því, með tíð og tíma, með tilkomu útgáfunnar Frosks sem byrjuð er að metta bókaþyrsta myndasöguaðdáendur á Íslandi á nýjan leik. SVEPPAGREIFINN (þ.e. sá sem hér skrifar) hefur alltaf haft mikinn áhuga á teiknimyndasögum og þá auðvitað helst af öllu, þeim myndasögum sem komu út hér á landi á ofanverðri síðustu öld og voru upprunnar frá Belgíu. Fyrstu Tinnabókina sína (Vindlar Faraós) eignaðist hann aðeins tæplega sex ára gamall og eftir það var ekki aftur snúið.
Þetta hefur líklega verið fyrri hluta árs 1975 og því orðið ansi langt síðan. Enn þann dag í dag man hann vel þá tilfinningu að koma niður í kjallarann á Bókabúð Máls og Menningar á Laugaveginum og handfjatla nýja Tinnabók af stóra borðinu sem stóð á miðju gólfinu fram undan stiganum. Þar fékk hann oftast aðeins örfáar mínútur til að fletta eilítið í gegnum áhugaverðustu bækurnar, ásamt bróður sínum, á meðan afgangurinn af fjölskyldunni beið fúll og óþolinmóður úti í bíl fyrir utan. Oftast hafði kornungum SVEPPAGREIFANUM tekist að nurla saman fáeinum aurum til að festa kaup á eins og einni bók og þá þurfti auðvitað að vanda vel valið. En einstaka sinnum buðu fjárráðin þó upp á tvær bækur. Hver bæjarferð heimilaði því fjárútlát upp á tvær til fjórar nýjar Tinnabækur fyrir okkur bræður og svo var slegið til veislu þegar heim var komið. Sú eða þær Tinnabækur sem urðu fyrir valinu hverju sinni gerði SVEPPAGREIFANN því innilega hamingjusaman og sá hamingja dugði honum vel næstu mánuðina eða allt þar til tími var kominn til að láta sér hlakka til næstu bæjarferðar. En svo komu jól og afmæli auðvitað sterk inn á næstu árum og þá sérstaklega eftir að Svalur og Valur fóru að koma út á íslensku. Öllum þessum myndasögum var safnað og þær því miður lesnar nánast upp til agna í bókstaflegri merkingu. En sem betur fer hafði SVEPPAGREIFINN seinna þroska til að hafa vit á að endurnýja bókabúnkann og er hann því tiltölulega tæmandi í hillum hans í dag.
Ekki veit SVEPPAGREIFINN nákvæmlega hvernig eða hvort aðrir krakkar af þessari kynslóð upplifðu þessa sömu tilhlökkun þegar nýjar myndasögur komu út en hann ímyndar sér að flestir sem drukku í sig þessar bókmenntir hafi gert það með sambærilegum hætti. Sú tilfinning að halda á og handfjatla nýja Tinnabók sem hann hafði aldrei séð áður lifir einhvern veginn alltaf í minningunni.

SVEPPAGREIFINN hefur áður aðeins bloggað um myndasögur, þar sem hann sérhæfði sig í Tinnabókunum en komst reyndar aldrei almennilega á flug á þeim vettvangi. Auk þess sem timaskortur háði honum tilfinnanlega á köflum. Hann fékk líka stundum einhverjar hugmyndir um færslur með Sval og Val, Viggó viðutan eða Lukku Láka sem hann langaði til að koma á framfæri en það gekk auðvitað ekki upp á síðu sem væri eyrnamerkt Tinna. Í staðinn munu einhverjar gamlar færslur af Tinnasíðunni hans blandast saman með öðrum færslum hér og kannski verður megnið af þeim uppistaðan af efninu hérna til að byrja með. SVEPPAGREIFINN hélt líka lengi uppi síðu, sem kallaðist einmitt einnig Hrakfarir og heimskupör, þar sem hann skrifaði um nánast allt milli himins og jarðar en eftir rúmlega 1200 færslur af "um ekki neitt", eins og einn dyggasti lesandi bloggsins lét hafa eftir sér, þá ákvað hann að láta staðar numið.

Vonandi nennir einhver að staldra við hérna endrum og eins (hver talar eiginlega svona?) þannig að SVEPPAGREIFINN verði ekki aleinn um að hanga hér og fræðast um það sem honum finnst skemmtilegast!