24. maí 2023

225. EITT OG ANNAÐ UM STEINA STERKA

 
Steina sterka þekkja auðvitað allir af þeirri kynslóð sem lásu teiknimyndasögur, hér á landi, á áratugunum fyrir síðustu aldamót. Þessum bókum voru gerð svolítil skil í færslu hér á Hrakförum og heimskupörum, fyrir nokkrum árum, en alls komu út sex sögur á íslensku með kappanum á sínum tíma. Síðast kom út Steina sterka bók hérlendis árið 1983 en ólíklegt er að fleiri myndasögur með honum eigi eftir að líta hér dagsins ljós - í það minnsta alveg á næstunni. Þetta voru einu teiknimyndasögurnar sem bókaútgáfan Setberg gaf út og þær voru eiginlega þekktastar fyrir það hversu léleg límingin var á bókunum. Með tímanum losnuðu blaðsíðurnar úr og líklega eru fá eintök eftir af þessum bókum sem enn eru sæmilega heil. Myndasögurnar um Steina sterka þóttu reyndar ekkert sérlega merkilegar í samanburði við margar af þeim teiknimyndasögum sem gefnar voru út á fransk/belgíska málsvæðinu. En þó var ekki hjá því komist að taka eftir vinsældum þeirra - sérstaklega á meðal ungra stelpna sem yfirleitt voru þó ekki endilega markhópur myndasögutímaritsins SPIROU sem sögurnar birtust í. En það var belgíski listamaðurinn Pierre Culliford, eða Peyo eins og hann kallaði sig, sem átti veg og vanda að þessum sögum en eftir að hann lést tók sonur hans Thierry við keflinu. Alls komu út fimmtán myndasögur með Steina sterka (Benoît Brisefer) á frummálinu og þar af voru átta þeirra eftir Peyo en nýjasta sagan er frá árinu 2015. Þær sex bækur sem komu út á íslensku voru allar eftir hann.
 
 
Peyo teiknaði einnig sögurnar um Hinrik og Hagbarð og Strumpana og SVEPPAGREIFINN stóð lengi í þeirri meiningu að hann hefði alfarið teiknað Steina sterka bækurnar sjálfur en svo var þó alls ekki. Þó Peyo hefði verið skrifaður fyrir sögunum þá kom hann bara að teiknun fjögurra þeirra og af þeim teiknaði hann aðeins söguna Steini sterki vinnur 12 afrek (Les Douze travaux de Benoît Brisefer) einn. Listamaðurinn Will (Willy Maltaite) vann með honum að Rauðu leigubílunum (Les Taxis rouges) og Grímhildi góðu (Madame Adolphine) en François Walthéry aðstoðaði hann við Steina sterka og Bjössa frænda (Tonton Placide). Walthéry tók síðan við keflinu og teiknaði alveg næstu tvær sögur, Sirkusævintýrið (Le Cirque Bodoni) og Grímhildi grimmu (Lady d'Olphine), en Peyo sá þó að mestu um handritsgerð þeirra. Einhverjir kannast eflaust við François Walthéry en hann vann einnig töluvert með Peyo, að Strumpunum og sögunum um Hinrik og Hagbarð, en þekktastur er hann auðvitað fyrir hinar geysivinsælu myndasögur um flugfreyjuna Natöchu. Í þeim Steina sterka bókum sem hann kom að má glögglega sjá hversu áberandi hans stíll er. Það er til dæmis ótrúlega mikill munur á teikningunum í bókunum um Grímhildi góðu (Peyo/Will) og Grímhildi grimmu (Walthéry). Stíll Walthérys er áberandi kraftmikill og þegar grannt er skoðað eru Natöchu áhrifin augljós.
 
 
Þótt nokkuð margir hafi komið að seríunni átti Peyo átti hana samt alveg sjálfur og skapaði auðvitað aðalpersónuna en ástæða þess að hann hætti að teikna sögurnar var einfaldlega tímaskortur. Á þessum árum höfðu vinsældir Strumpanna aukist svo mikið að önnur verkefni sátu alveg á hakanum og þeir bláu áttu því hug hans allan. Peyo þótti aldrei á meðal þeirra bestu, og hann vissi það vel sjálfur, en með Strumpasögunum fékk hann tækifæri til að skapa sér vinsælda á meðal yngstu lesendanna. Sömu sögu má reyndar alveg líka segja um Steina sterka en sögurnar um hann urðu þó aldrei jafn vinsælar og Strumpabækurnar. Steina sterka sögurnar urðu því að hálfgerðu samvinnuverkefni, sem nokkrir aðilar komu að, en voru unnin á vinnustofu Peyo og birtust svo í myndasögutímaritinu SPIROU. Margir af vinum og kunningjum Peyo heimsóttu hann reglulega á vinnustofuna og listamennirnir Jidéhem, Jean Roba og Franquin áttu til dæmis margar hugmyndir sem síðan birtust í sögunum - jafnt að bröndurum sem og söguþræði þeirra. 
 
 
Sögurnar um Steina gerast snemma á sjöunda áratug 20 aldarinnar og eru fastar innan þess tímaramma þannig að allt ytra útlit þeirra, tækni og tíðarandi litast af því. Litli franski bærinn sem Steini sterki býr í heitir Vivejoie-la-Grande en í íslensku útgáfunum nefnist hann Stóra Sólvík. Aldur Steina er nokkuð ljós, þó það komi aldrei beint fram í sögunum, en í bókinni Steini sterki og Bjössi frændi má sjá hvar hann fær verðlaun í skólanum fyrir leikfimi og hegðun og þar er hann sagður í 3. bekk. Af því má auðvitað ráða að Steini sé átta eða níu ára gamall og líklega telst það vera aldur hans gegnum allar sögurnar. En annars er Steini sjálfur mjög undarlegt fyrirbæri. Fyrst og fremst koma þar upp í hugann ofurhæfileikar hans þar sem hann er auðvitað óstjórnlega sterkur, getur stokkið gríðarlega hátt og er mjög fljótur að hlaupa. Það er því ljóst að Steini er töluvert yfir meðallagi hæfileikaríkur og sem dæmi um það má nefna að venjulegar myndasöguhetjur á borð við Tinna eða Lukku Láka virðast vera hreinir aumingjar við hlið hans. Auk þess er það athyglisvert að hann missir alla þessa krafta sína þegar hann kvefast. Og það einkennilegasta við þetta allt er að þrátt fyrir að vera hreystin uppmáluð, holdgervingur heilbrigðs lífsstíls, ávallt vel klæddur og með trefil um hálsinn, þá kvefast hann samt í hverri einustu bók!
 
 
Hinir óvenjulegu hæfileikar Steina sterka, eða ástæða þeirra, hafa þó aldrei verið útskýrðir á neinn hátt í sögunum um hann. Ýmsar kenningar eru þó á lofti á meðal Steina sterka sérfræðinga (sem SVEPPAGREIFINN getur nú varla ímyndað sér að sé neitt sérstaklega stór hópur) en einhverjir þeirra telja hann vera stökkbreyttan og líklega sé hann því sá eini sinnar tegundar í heiminum. Önnur athyglisverð hugmynd snýr að því að Steini sé afleiðing leynilegra tilrauna á rannsóknarstofu og þetta munaðarlausa barn hafi því, af einhverjum illskeyttum vísindamönnum, þótt heppilegt til slíkra prófana. Reyndar skal það tekið fram að í einni af seinni bókunum Le Secret d'Églantine, eftir Thierry son Peyos, kemur fyrir lítil stelpa sem hefur yfir að ráða mjög svo sambærilegum eiginleikum en nýtir þá reyndar á öllu neikvæðari hátt. Hún heitir Églantine en hæfileika hennar má rekja til þess að hún innbyrti óvart eiturblöndu á verkstæði föður síns. 

 
Allt er þetta að sjálfsögðu mjög óvenjulegt fyrir Steina sterka en þessir hæfileikar hans virðast þó nánast eðlilegir í samanburði við allar uppeldisaðstæður hans og heimilislíf. Steini býr nefnilega, að því er virðist, aleinn í stórri íbúð eða húsi og aldrei hafa foreldrar hans eða forráðamenn komið fyrir í neinni sagnanna eða nokkuð verið á þá minnst. Engar vísbendingar hafa komið fram, í neinum af bókunum, að þau séu yfirhöfuð til. Þessi níu ára drengur virðist því búa einn og vera algjörlega sjálf síns herra. Það er nokkuð alvarlegt mál - meira að segja upp úr árinu 1960. Það skal reyndar tekið fram að í einni bókanna, Sirkusævintýrinu, tjáir sirkusstjórinn Ingólfur blaðamönnum, meðal annars það, að pabbi Steina hafi verið Tyrki og að Steini sjálfur sé elstur tíu systkina og að hann hafi fundist á meðal hafnarverkamanna í Antwerpen í Belgíu. Flestir hafa þó túlkað það svo að hér sé um auglýsingarbrellu Ingólfs fyrir sirkusinn að ræða.

 
Þessi forráðamannaskortur Steina sterka er sérstaklega alvarlegur í ljósi þess að hann er löngum stundum í slagtogi með annars vegar; gömlum leigubílstjóra (Marteini) og hins vegar föðurbróðir sínum (Bjössa frænda) sem starfar fyrir leyniþjónustuna. Félagsskapur Steina við þessa tvo fullorðnu einstaklinga myndi líklega í flestum tilfellum teljast nægilega grunsamlegur til að kalla á rannsókn viðeigandi yfirvalda. En í bókunum um Steina sterka er engin athugasemd gerð við þetta óeðlilega samneyti. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ættu barnaverndaryfirvöld að vera með puttana í málinu og Steini hefði fyrir löngu átt að vera kominn undir umsjón þess konar aðila. Þó ekki væri nema bara vegna hins tilfinnanlega skort á foreldrum. Því er þó fjarri lagi. Það virðist enginn á nokkurn hátt vera að skipta sér af eða velta fyrir sér aðstæðum Steina. Í sögunni Le Fétiche frá árinu 1978, sem var síðasta sagan um Steina sterka sem Peyo kom sjálfur að, kemur reyndar fram að kona ein (frú Minou) sjái um húsið heima hjá honum og útbúi fyrir hann morgunmat. Frú Minou þessi býr þó í öðrum hluta bæjarins og í sögunni koma engar frekari upplýsingar fram um skyldleika þeirra eða önnur tengsl. Þess má geta í framhjáhlaupi að sú bók þykir afar slök og það þarf ekki að taka það fram að sagan hefur ekki komið út á íslensku.
 
 
Svo er nú best að vaða úr einu í annað. Það er víst nefnilega ekki hjá því komist að minnast einnig aðeins á að herra Seðlan (úr Viggó bókunum) kemur fyrir í sögunni Steini sterki og Bjössi frændi en ekki er ólíklegt að ástæðu þess inngrips megi rekja til einnar af heimsóknum André Franquins á vinnustofu Peyos sem minnst er á hér svolítið ofar í færslunni. Myndaramma þennan þekkja eflaust flestir íslenskir myndasögulesendur, enda hugmyndin bráðskemmtileg, en hann kemur einmitt einnig fyrir í færslu sem SVEPPAGREIFINN skrifaði hér á Hrakförum og heimskupörum um herra Seðlan fyrir allnokkrum árum síðan. Að sjálfsögðu snýst brandarinn um samningana hans.

 
En það eru líklega færri sem vita af tilvist Kolbeins kafteins, úr Tinna bókunum, í einni af sögunum um Steina sterka. Ef vel er að gáð má sjá kafteininum blótgjarna nefnilega bregða fyrir, í hálfgerðri mýflugumynd, á blaðsíðu 18 í bókinni L'île de la désunion eftir Thierry Culliford.
 
 
Og að lokum er það ekki úr vegi að enda þetta einnig á Tinna nótunum. Í sögunni Steini sterki vinnur 12 afrek er sá stutti á leiðinni með lest til Dúría Nagúla í Súala Kúmpúr, ásamt Marteini gamla, þegar illmennin aftengja fremsta vagninn sem þeir félagar ferðast í. Lestarstjórunum er hent frá borði og eimreiðin er kynt í botn þannig að lestin æðir stjórnlaus áfram með þá Steina og Martein eina um borð. Hér kemur auðvitað upp í hugann svipað atvik úr Tinna bókinni Fangarnir í Sólhofinu, þar sem þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn eru á þvælingi um Perú. Þar grípa þeir til þess ráðs að stökkva af lestinni og af viðbrögðum Steina hér fyrir neðan má ráða að hann hafi lesið þá bók.
 
 
Það er alla vega ljóst að þýðandi sögunnar, Vilborg Sigurðardóttir, hafi ekkert verið að láta leiða sig í þá freistni að reyna að forðast að vekja athygli á myndasögum keppinauta sinna hjá Fjölva. SVEPPAGREIFINN er nokkurn veginn viss um að kollegi hennar hjá Fjölva, Þorsteinn Thorarensen, hefði farið aðra leið og tekið sér gott skáldaleyfi til að forðast slíkan árekstur.

5. maí 2023

224. STOLNAR SPÆNSKAR MYNDASÖGUR

Emile Bravo er listamaður sem SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst á hér á Hrakförum og heimskupörum í þessum myndasöguskrifum sínum og er ákaflega hrifinn af því sem hann hefur fram að færa. Bravo þessi er spænsk-ættaður Frakki og er einna helst kunnur fyrir teiknimyndasögur sínar í hliðarbókaflokknum Série Le Spirou de… (Sérstök ævintýri Svals ...) sem fjalla jú einmitt um þá Sval og Val. Bækurnar, sem eru fimm talsins, fjalla um þá félaga í Síðari heimsstyrjöldinni og baráttu þeirra, með Andspyrnuhreyfingu Belga, gegn þýsku Nasistunum. Það er þó ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að fjalla um þær bækur hér, að þessu sinni, en áður hefur verið minnst á fyrstu bókina um það efni hér á síðunni. Viðfangsefni dagsins er svolítið annað.

Emile Bravo fæddist í París árið 1964 og ólst upp við hina sígildu fransk/belgísku myndasöguhefð eins og svo mörg ungmenni þessara landa gerðu. Hann lærði því snemma að meta Tinna og Ástrík og að sjálfsögðu sögurnar um þá Sval og Val. Í framhaldi af því setti hann sér þau markmið að láta drauma sína rætast og gerast sjálfur myndasöguhöfundur. Bravo gerði æsku sinni einmitt ágæt skil í örstuttri myndasögu sem birtist í SPIROU tímaritinu árið 2008 og þar kemur nokkuð vel fram hvernig þessar myndasögur allar höfðu áhrif á hann sem ungan pilt. SVEPPAGREIFINN leyfði sér að snara þessari sögu Bravos (ansi illa og hroðvirknislega) úr frönsku yfir á íslensku og birta hana hér. Þetta er að sjálfsögðu allt saman í boði hússins og auðvitað í algjöru óleyfi - sorrý.

Með þessari stuttu teiknimyndasögu, eða samantekt um bernsku Emile Bravo, notaði hann tækifærið til að kynna sig svolítið fyrir lesendum SPIROU áður en fyrsta sagan Journal d'un ingénu hæfi göngu sína í tímaritinu. Í þessari bernskusamantekt kemur fram athyglisverður punktur sem SVEPPAGREIFANUM þótti ótækt annað en að skoða svolítið og fjalla aðeins um. Þar minnist Bravo á afar vinsæla, spænska teiknimyndapersónu sem nefnist El Botones Sacarino, og skapaður var af teiknarann Francisco Ibáñez, en SVEPPAGREIFINN játar reyndar fúslega að hafa aldrei nokkurn tímann heyrt minnst á þessar sögur eða höfund þeirra. Líklegt verður þó að teljast að einhverjir íslenskir Spánarfarar þekki þessar teiknimyndasögur þó síðuhafi kunni ekki á þeim nein skil.


En eins og fram kemur í myndasögunni hér fyrir ofan virðist sem persónan Sacarino hafi fengið lánað einhvers konar skrumskælt útlit sem samanstendur af persónum þeirra Svals og Viggós viðutan. Höfundurinn viðurkenndi reyndar alveg að Sacarino væri innblásinn af Viggó en óhætt er að segja að sögupersónan sé miklu meira en það. Með öðrum orðum er hún augljóslega þrælstolin úr belgísku SPIROU blöðunum. Karakterinn sjálfur er hrein eftirlíking af Viggó, utan þess að hann er klæddur eins og Svalur. El Botones Sacarino birtist fyrst í spænska myndasögublaðinu El DDT á árunum 1963 til '66 en á þeim árum var Viggó viðutan alveg óþekktur á Spáni. Á þessum tíma þekktu spænskir teiknimyndasögulesendur aðeins Tinna, Ástrík og Lukku Láka af fransk/belgíska myndasögusvæðinu en Viggó og Svalur komu seinna til sögunnar á þeim slóðum.

Ekki gat SVEPPAGREIFINN í fljótu bragði fundið neinar heimildir fyrir því að stuldur þessi hafi haft nokkrar afleiðingar eða eftirmála fyrir hinn spænska Francisco Ibáñez eða blað hans en líkindin eru óyggjandi. Árið 1966 höfðu þessi líkindi persónanna og sagnanna þó breyst nokkuð og hugsanlega má rekja þær breytingar til athugasemda eða hótanna frá Dupuis útgáfunni í Belgíu. Það er hætt við að höfundarréttalögregla dagsins í dag myndi ekki láta slíka hluti viðgangast athugasemdalaust. Hér var ekki aðeins um að ræða beinan stuld á útliti og karakter Viggós heldur voru bæði myndarammar úr myndasögunum og jafnvel heilu brandararnir stolnir. Í heildina má finna hátt í fjörtíu Sacarino brandara sem teiknaðir voru nánast beint upp eftir Viggó bröndurunum úr SPIROU blöðunum. André Franquin, sem teiknaði Viggó viðutan, gerði aðspurður sjálfur frekar lítið úr þessum eftiröpunum. Hann sagðist telja að allir listamenn sæktu sér áhrif frá öðrum listamönnum og notuðu þau til að þróa sinn eigin stíl eða hæfileika. Honum sjálfum virtist alla vega ekki finnast taka því að vera að gera eitthvað stórmál úr þessu.

Eftir svolítið grams gróf SVEPPAGREIFINN upp fáein dæmi um hina stolnu brandara en af nægu er að taka og lesendur þekkja án nokkurs vafa flesta þessa brandara. Fyrsta dæmið birtist til dæmis í SPIROU blaði númer 1205, sem kom út þann 18. maí árið 1961 en á íslensku kom brandarinn fyrir á blaðsíðu 27 í Viggó bókinni Braukað og bramlað sem Froskur útgáfa gaf út árið 2016.

Næsta dæmi birtist í SPIROU blaði númer 1305 sem kom út 18. apríl árið 1963. Á íslensku kom brandarinn fyrst fyrir, á blaðsíðu 35, í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur sendi frá sér 2015.

Myndaramminn sem næstur er tekinn fyrir birtist í sérstöku afmælisriti (tölublaði númer 1303) sem gefið var út í tilefni af 25 ára afmæli SPIROU tímaritsins þann 4. apríl árið 1963. Brandarinn birtist síðan á blaðsíðu 34 í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2015.

Næst kemur fyrir sígildur brandari sem kom fyrir í tölublaði númer 1283, sem gefið var út þann 15. nóvember árið 1962, en íslenska útgáfan af honum birtist á blaðsíðu 24 í bókinni Gengið af göflunum frá árinu 2015. Þess má geta að það glittir einmitt í nákvæmlega þennan sama brandara í myndasögu Emile Bravo hér ofar á síðunni.

Þá er komið að dæmi úr SPIROU blaði númer 1364 frá 4. júní árið 1964. Þessi brandari birtist fyrst á íslensku í Viggó bókinni Skyssur og skammarstrik (blaðsíðu 36) sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér árið 1987 en hann kemur einnig fyrir á blaðsíðu 23 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem Froskur útgáfa gaf út árið 2017. Myndarammarnir hér fyrir neðan koma einmitt úr þeirri útgáfu.

Næsta myndaramma fá finna úr Viggó brandara sem birtist í SPIROU tímaritinu, þann 7. nóvember 1963, í tölublaði númer 1334 en hann má einnig finna á blaðsíðu 6 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem kom út á íslensku árið 2017.
 

Síðasta dæmið um stuld hins spænska Ibáñez, af bröndurunum um Viggó viðutan, kemur úr SPIROU blaði númer 1328 sem gefið var út þann 26. september árið 1963. Þennan sama brandara má finna á blaðsíðu 3 í bókinni Vandræði og veisluspjöll sem Froskur sendi frá sér árið 2017.

Þess má geta að Francisco Ibáñez þessi skapaði einnig aðra seríu sem fjallaði um þá félaga Mortadelo og Filemon (sem líka er minnst á í myndasögu Bravos) en þar hafði hann svipaðan háttinn á. Þær myndasögur hafa einnig mjög sterka vísun í Viggó viðutan en auk þess eru heilu myndarammarnir þar líka þrælstolnir úr sögunum um Sval og Val. Ekki nennir SVEPPAGREIFINN að fara að sökkva sér ofan í þau fræði einnig en einhverjir kannast eflaust við þennan myndaramma úr bókinni Tembó Tabú eftir Franquin.