29. september 2017

25. EITT OG ANNAÐ UM ÓLÍVEIRA DOS FÍGÚRA

Allir sannir Tinna aðdáendur þekkja Tinna myndina, The Adventures of Tintin - The Secret of the Unicorn, sem snillingurinn Steven Spielberg leikstýrði og frumsýnd var árið 2011. Margt og mikið hefur verið rætt um þessa mynd og flestir líklega frekar ánægðir með útkomuna en nú bíða bara allir eftir framhaldinu. Almennt hefur verið talað um þríleik sem þeir félagar Spielberg og Peter Jackson komi til með að skipta leikstjórninni eitthvað á milli sín en enn er óljóst hvenær næsti hluti þess þríleiks verði frumsýndur. Fyrst stóð til að myndin kæmi til sýninga í kringum jólin 2015 en eins og staðan er núna er gert ráð fyrir að hún verði frumsýnd einhvern tímann á bilinu árið 2018-20.

Margir kunnir leikarar komu að The Secret of the Unicorn og þar má helsta nefna þá Daniel Craig, Andy Serkis og Simon Pegg en orðrómur um eitt stórt nafn í viðbót komst einnig á kreik sem þó varð ekkert af. Jú, sagt var að til hafi staðið að Danny DeVito tæki að sér hlutverk portúgalska kaupmannsins Ólíveira dos Fígúra í áðurnefndri bíómynd. En eftir að myndin var frumsýnd má ljóst vera að ekkert hafi orðið af framlagi hans þar. 
Ekki er SVEPPAGREIFANUM vel kunnugt um hvort að hlutverk Danny DeVitos hafi aðeins verið ein af mörgum hugmyndum eða hvort hann hafi leikið sitt hlutverk og atriðinu með Ólíveira dos Fígúra hafi einfaldlega bara verið klippt út. Í það minnsta er það álit SVEPPAGREIFANS að aðeins útlitlega hefði Danny Devito getað verið sannfærandi í hlutverki Ólíveira dos Fígúra. Og þá reyndar eingöngu ef hæð leikarans hefði verið undanskilin. Danny Devito er ekki nema 147 sentimetrar á hæð en Ólíveira dos Fígúra er líklega að minnsta kosti 175 sentimetrar ef mið er tekið af Tinna sem stendur við hlið hans. Tinni er ekki mjög hávaxinn, líklega ekki nema 160-165 sentimetrar en dos Fígúra er örugglega 10-15 sentimetrum hærri.
Að öðru leyti er það álit SVEPPAGREIFANS að sama hversu góður leikari Danny DeVito væri, þá sé hann ólíklegur til að geta túlkað hlutverk Ólíveira dos Fígúra á sannfærandi hátt. Í það minnsta metur SVEPPAGREIFINN karakter Ólíveira dos Fígúra allt annan en hann gæti nokkurn tímann séð í Danny DeVito.

En það er gaman að skoða aðeins kaupmanninn Ólíveira dos Fígúra fyrst hann er á annað borð kominn hérna til umfjöllunar. Hann kom fyrst við sögu í Vindlum Faraós þar sem hann prangaði inn á Tinna aragrúa af vita gagnslausum og óþarfa hlutum um borð í skipi á ferð sinni um Rauðahafið á leiðinni til Kémed. Það segir sig því sjálft að Ólíveira dos Fígúra er fæddur sölumaður. Þegar Vindlar Faraós birtist fyrst í svart/hvítu, í belgíska tímaritinu Le Petit Vingtiéme, á árunum 1932-34 var sagan töluvert lengri en þær útgáfur sem seinna voru gefnar út í bókaformi. Þannig var það reyndar með allar fyrstu Tinna bækurnar sem seinna voru endurteiknaðar, styttar og litaðar. En í fyrstu útgáfunni af Vindlum Faraós komu sem sagt fram upplýsingar um Ólíveira dos Fígúra sem fylgdu ekki þeirri uppfærslu sem bókaformið hafði boðið upp á. Þar kemur fram að dos Fígúra sé portúgalskur farands- og timbursali frá Lissabon, sem hefur aðallega aðsetur í Kémedsku borginni Vadesda. Í þeirri útgáfu kemur einnig fram að hann hafi yfirgefið Evrópu vegna kreppunnar miklu og séð möguleikana í fákeppninni á ströndum og eyðimörkum Arabíu.

Ólíveira dos Fígúra birtist síðan aftur í Svarta gullinu en þar aðstoðar hann Tinna við að komast inn í höll dr. Müller (einnig þekktur sem prófessor Smith) í Vadesda til að bjarga prinsinum og vandræðagerpinu Abdúlla frá glæpagengi dr. Müllers. Í staðinn heitir Tinni Portúgalanum því að koma á viðskiptum við sjálfan hans hátign, Múhameð Ben Kalís fursta, föður Abdúlla. Í Svarta gullinu kemur meðal annars í ljós að dos Fígúra talar reiprennandi arabísku. En hann sýnir einnig einstaka hæfileika við að afvegaleiða stóran hluta af starfslið dr. Müllers og halda þeim uppteknum í langan tíma, á afskaplega tillfinningaríkan hátt, með innihaldslausu slúðri. Á meðan fær Tinni gott tækifæri til að komast inn og athafna sig að vild í höll dr. Müllers.
Og í Kolafarminum eiga svo Tinni og Kolbeinn enn einu sinni erindi til Kémed og þar er dos Fígúra þeim innanhandar um ýmislegt, bæði búnað og gistingu. Ólíveira dos Fígúra virðist ekki vera alveg sami persónuleikinn í seinni bókunum tveimur. Í Vindlum Faraós lítur hann út fyrir að vera ýtinn og uppáþrengjandi sölumaður en í Svarta gullinu og Kolafarminum hefur hann meira þróast út í hæglátan og hjálpsaman vin sem er tilbúinn til að aðstoða Tinna við allt sem hann hefur tök á.
Sjálfur birtist Ólíveira dos Fígúra ekki meira en í þessum þremur Tinna bókum en í Vandræðum Vaílu er hann einn af þeim fyrstu til að senda Kolbeini kafteini heillaskeyti í tilefni af meintri trúlofun hans og ítölsku óperusöngkonunnar Vaílu Veinólínó.

En kaupmaðurinn afkastamikli birtist reyndar víðar en bara í Tinna bókunum. Á árunum eftir Seinni heimsstyrjöldina fékk Ólíveira dos Fígúra það frekar neikvæða hlutskipti að vera notaður í áróðursskyni, hjá belgískum yfirvöldum, gegn svartamarkaðsbraski í landinu. Vöruskortur í Belgíu (og reyndar víðar) var viðvarandi vandamál eftir Síðari heimsstyrjöldina og yfirvöld reyndu að beina þeim sjónarmiðum til almennings, með auglýsingaherferðum, að versla ekki nauðsynjavörur á svörtum markaði á uppsprengdu verði. Hergé var fenginn til að vinna að slíkum auglýsingum og Ólíveira dos Fígúra var í stóru hlutverki í einni þeirra á árinu 1947.
Hér reynir hann að selja söguhetjunum úr Tinna bókunum (sem að þessu sinni eru skipbrotsmenn á fleka) mat og drykki á okurverði en á ekki erindi sem erfiði. Skaftarnir vilja frekar borða hattana sína, Kolbeinn velur þann kost að borða skóna sína og Tinni sjálfur hafnar tilboðinu á þeim forsendum að varan sé ekki seld á eðlilegu verði. Jafnvel Tobbi sýnir sína megnustu fyrirlitningu á hugmyndinni.

22. september 2017

24. ÝMISLEGT UM BIRNU OG ÓFRESKJUNA

Árið 1978 kom út, hjá bókaútgáfunni Iðunni, teiknimyndasaga sem nefndist Birna og ófreskjan. Saga þessi var mjög ólík þeim myndasögum sem voru að koma út hér á landi á þessum tíma en þetta var á blómaskeiði teiknimyndasagnaútgáfu á Íslandi. Árlega voru að koma út á milli 25 til 30 titlar af ýmis konar myndasögum þegar mest var. Langmest var þar um að ræða bækur af léttara taginu eins og af Tinna, Lukku Láka, Viggó viðutan, Sval og Val osfrv. Þessar bækur voru á þeim tíma að mestu ætlaðar börnum en inn á milli slæddust þó myndasögur af öðrum toga. Sagan um Birnu og ófreskjuna var ein af þeim.
Bókin var sú fyrsta í bókaflokki sem franski listamaðurinn Jacques Tardi teiknaði og kallast á frummálinu Les Adventures extraordinaires d'Adéle Blanc-Sec. Eða Hin furðulegu ævintýri Birnu Borgfjörð eins og ákveðið hefur verið að þýða það á bókarkápu íslensku útgáfunnar. En sagan sjálf nefnist á frummálinu, Adéle et la Bête og kom fyrst út í Frakklandi árið 1976. Alls hafa komið út níu bækur í þessum bókaflokki en tvær sögur í viðbót teljast vera eins konar hliðarverkefni en gerast þó á sama tíma og slóðum. Útgáfa bóka Hinna furðulegu ævintýra Birnu Borgfjörð var nokkuð regluleg til að byrja með en hefur reyndar verið nokkuð stopul seinni hluta seríunnar og sú síðasta kom út árið 2007. Bækurnar eru, eins og áður segir, nú orðnar níu og þær eru eftirfarandi:

1. Adéle et la Bête (Birna og ófreskjan) - 1976
2. Le Démon de la Tour Eiffel (Óvætturinn í Eiffelturni) - 1976
3. Le Savant Fou (Brjálaði vísindamaðurinn) - 1977
4. Momies en folie (Múmíur í brjálæði) - 1978
5. Le Secret de la Salamandre (Leyndarmál salamöndrunnar) - 1981
6. Le Noyé à Deux Têtes (Hinn drukknaði tvíhöfði) - 1985
7. Tous des Monstres (Skrímslin öll) - 1994
8. Le Mystère des profondeurs (Leyndardómur djúpanna) - 1998
9. Le Labyrinthe infernal (Bölvaða völundarhúsið) - 2007

Það er kannski rétt að benda lesendum (ef einhverjir eru) á að þýðingar SVEPPAGREIFANS á bókatitlunum, hér að framanverðu, eru engan veginn í samræmi við eðlilegar málvenjur eða nafngiftir íslenskra teiknimyndasagna. Frekar reyndi SVEPPAGREIFINN, með dyggri aðstoð frönskumælandi eiginkonu sinnar, að halda sem best í upprunalegu frönsku titlana en það getur verið erfitt því íslenskuna skortir stundum orð (sérstaklega lýsingarorð) og getur því verið svolítið takmörkuð. Sem gerir það að verkum að íslensku titlarnir virka svolítið bjagaðir hjá SVEPPAGREIFANUM. Þýddu titlana má því alls ekki taka of alvarlega, enda er þetta eingöngu til gamans gert.
Á æskuheimili SVEPPAGREIFANS voru til vel á annað hundrað teiknimyndasagna sem komu út á þessum árum og þar á meðal var bókin um Birnu og ófreskjuna. Auðvitað var hún lesin eins og aðrar myndasögur en sagan var þó öðruvísi og framandi. Bókin slitnaði ekki einu sinni á sama hátt og aðrar teiknimyndasögur á heimilinu. Það er einnig svo með þau fáu eintök af bókinni sem SVEPPAGREIFINN hefur rekist á, hvort sem þau hafa verið í Kolaportinu eða Góða hirðinum, að einkenni þeirra eru hversu vel með farnar bækurnar eru. Það var því augljóslega ekki verið að lesa þessar bækur upp til agna. Sem auðvitað er bara gott mál og kemur sér vel fyrir alla sem vilja að sjálfsögðu eiga sem best eintak af bókinni. Því miður komu ekki fleiri sögur en þessi eina út í bókaflokknum á Íslensku þrátt fyrir að á lokasíðu Birnu og ófreskjunnar hafi verið gefin skýr fyrirheit um framhald. Í það minnsta bíður SVEPPAGREIFINN enn spenntur (eftir næstum því 40 ára bið) eftir næstu sögu í bókaseríunni - Óvættinum í Eiffelturni og hlakkar til þegar hún kemur út.
En hver ástæða þess var að bækurnar urðu ekki fleiri er erfitt að segja. Líklegasta skýringin er sú að þess konar tegundir af myndasögum hafi verið svolítið framandi íslenskum lesendum. Myndasöguhefðin var enn mjög ung á Íslandi og áhugasömustu lesendur þeirra bókmennta hér á landi voru enn mestmegnis aðeins börn og unglingar. Þannig er líklegt að Birna og ófreskjan hafi ekki selst nægilega vel vegna þess að bókin höfðaði einfaldlega ekki til þessa þrönga hóps. Það hefur því verið svolítið djörf tilraun hjá forsvarsmönnum bókaútgáfunnar Iðunnar að gefa þessa sögu út og líklega hefur hún engan veginn staðið undir sér. Útgefandanum hefur því ekki þótt ástæða til að halda áfram með bókaflokkinn. Í dag er bókin hins vegar nokkuð eftirsótt hjá íslenskum myndasögunördum. Enda er líklega stór hluti þess áhugafólks sem safnar þessum bókum í dag einmitt af þeim kynslóðum sem fyrst kynntist myndasöguútgáfu á Íslandi. Þær kynslóðir söfnuðu bókunum sem börn og unglingar en höfðu ekki endilega þroska til að hafa áhuga á ævintýrum Birnu Borgfjörð. Enda var Birna og ófreskjan kannski frekar teiknimyndasaga fyrir lengra komna. Þetta fólk er núna búið að uppgötva hversu frábær saga þetta er.
SVEPPAGREIFINN er mikill aðdáandi Birnu og ófreskjunnar en eins og líklega hjá svo mörgum uppgötvaði hann ekki bókina almennilega fyrr en á fullorðinsárunum. Á sínum yngri árum botnaði hann reyndar ekki almennilega í söguþræðinum enda er sagan svolítið ruglingsleg. En í stuttu máli fjallar hún um atburði sem eiga  að gerast í París í nóvember árið 1911. Brjáluðum vísindamanni í Lyon, Filippus Andalín, tekst að klekja út 136 milljóna ára gamalt flugeðluegg með hugarorkunni einni og stjórna skepnunni úr fjarlægð. Andalín missir þó stundum stjórnina og þá fer flugeðlan hamförum um París á nóttunni, drepur fjölmarga og veldur skelfingu og hryllingi á meðal borgarbúa. Aðalsöguhetjan, Birna Borgfjörð, ákveður að reyna að fanga skepnuna þar sem ríkisstjórnin bíður álitleg verðlaun en ýmislegt fer öðruvísi en ætlað var. Hryllingurinn sem einkennir söguna er skemmtilega drungalegur og kuldalegur stíllinn nístir inn að beini.
Einhverjir hafa gert athugasemdir við þýðingar Jóns Gunnarssonar á nafngiftum persónanna en þær eru líklega bara í takt eða stíl við þær þýðingar sem hefð var fyrir í myndasögum á Íslandi á þessum tíma. Adéle hefði alveg mátt heita það áfram í íslensku þýðingunni og myndi örugglega gera það ef verið væri að gefa þessar sögur út í dag. Nafn Adéle Blanc-Sec er nefnilega í rauninni orðaleikur á franskan máta þar sem nafnið er vísun í þurrt hvítvín. En um leið er það það vitnun í dauflegt og svipbrigðalaust útlit hennar.
En bækurnar um Adéle Blanc-Sec hafa ekki aðeins notið mikilla vinsælda í Frakklandi heldur hefur líka verið gerð kvikmynd upp úr sögunum. Bíómyndin, Les Adventures extraordinaires d'Adéle Blanc-Sec er frönsk og er leikstýrð af sjálfum Luc Besson sem meðal annars er þekktur fyrir hina frábæru mynd, Léon (1994), með Jean Reno, Gary Oldman og Natalie Portman, Nikita (1990) og stórmyndina Joan of Ark (1999). Já og svo má alls ekki gleyma stórvirkinu The Big Blue (Le Grand Bleu) frá árinu 1988. Les Adventures extraordinaires d'Adéle Blanc-Se var frumsýnd á apríl 2010 og aðalhlutverkin eru í höndum Louise Bourgoin, Mathieu Amalrik, Philippe Nahon, Gilles Lellouche og Jean-Paul Rouve - fyrir þá sem vilja halda því til haga.
Og ef einhver hefur áhuga á að sjá alla myndina þá er hægt að horfa á hana hér í hreint ágætum gæðum og alveg bullandi frönsku.
Og svona í lokin langar SVEPPAGREIFANN að benda á eina mynd úr bókinni um Birnu og ófreskjuna. Þarna er um að ræða myndaramma þar sem líkindin með sambærilegri mynd úr Tinna bókinni, Sjö kraftmiklar kristallskúlur, eru eiginlega of mikil til að geta verið tilviljun. Alla vega mætti hér ætla að höfundurinn Jacques Tardi hafi verið aðdáandi Hergés ef eitthvað mark er takandi á þessum samanburði. Áhrif hans á Tardi virðast vera augljós.

15. september 2017

23. KÖKUR FYRIR AÐDÁENDUR SVALS

Enn og aftur er SVEPPAGREIFINN á flakki um víðáttur Internetsins. En ferðalag hans að þessu sinni leiðir okkur að gullfallegri hugmynd um bakkelsi á aðalfundi aðdáendaklúbbs Svals og félaga. Við hljótum alla vega að reikna með að sú starfsemi hljóti að vera einhvers staðar til. Og ef ekki þá má alltaf búa til tilefni fyrir svo flott listaverk. Hér er sem sagt um að ræða köku í formi höfuðfats Svals. Ekki fylgir með uppskriftin að þessu góðgæti en vafalítið myndu einhverjir sæmilega laghentir í eldhúsinu ekki eiga í miklum erfiðleikum með að töfra fram nothæft innvols í gripinn. Þannig væri eflaust hægt að notast við einfalt skúffuköku- eða svampbotnsdeig til að forma útlínurnar en hentugt hráefni í útlit kökunnar má ábyggilega finna einhvers staðar á Netinu. Marsipan, matarlitur og suðusúkkulaði færu til dæmis örugglega langt með að klára hana. Útlitslega er einfaldleikinn í fyrirrúmi en bragðið ætti varla að skipta svo miklu máli.
Og það er meira í boði. Kakan hér fyrir neðan er líka með Svals-bóka þema og allar helstu upplýsingarnar um hana má nálgast á þessu kökubloggi hér. Þessi heimasíða er tilvalin fyrir forfallið áhugafólk um kökuskreytingar og þá alveg sérstaklega fyrir þá sem vilja ganga alla leið og nálgast viðfangsefnið á spænsku. Hugmyndin um bókaopnuna er alltaf svolítið skemmtileg og sígild en líklega hefði mátt ráða listamann, til að teikna myndirnar, sem hefði svolítið betra auga eða tilfinningu fyrir útliti Svals. En auðvitað er þetta alltaf bara spurning um smekksatriði. Kakan er að sjálfsögðu alveg ægilega fín.
Og enn fleiri skemmtilegar hugmyndir. Enn og aftur er Svalur viðfangsefnið en að þessu sinni er það litla útgáfan af honum. Franskt kökugerðarfólk er örugglega ekki af verri gerðinni og þessi vandaða útfærsla af Litla Sval myndi pottþétt sóma sér vel í hverju einasta barnaafmælispartý. Og líklega þyrfti það ekki einu sinni að vera barnaafmæli. SVEPPAGREIFINN væri alveg til í eina svona á fimmtugsafmælinu sínu! Eina vandamálið er bara hvernig á að skera hana niður í sneiðar! Nánari upplýsingar um þessa snilld má nálgast hér.

8. september 2017

22. TVÍFARARNIR ÓÐRÍKUR OG GEIR ÓLAFS

SVEPPAGREIFINN er að jafnaði seinþreyttur til vandræða og hefur ekki verið kunnur af því að bera út neikvæða ímynd um náungann nema í mesta lagi með eða gagnvart sjálfum sér á slæmum stundum. Hann hefur ávallt lagt sig fram um að vera umburðarlyndur og heiðarlegur mannvinur, er fordómalaus gagnvart fólki eftir bestu vitund og oftar en ekki talsmaður lítilmangarans í hvívetna. Hann þrífst ekki á rógburði, einelti eða smjatti og reynir að komast hjá því að ýta undir hvers konar ósanngjarnt slúður. SVEPPAGREIFINN hlýtur því annars vegar að vera hinn mesti mannkostur, samkvæmt þessari upptalningu, eða á hinn bóginn gjörsamlega óþolandi náungi. Megin tilgangur SVEPPAGREIFANS með þessum undarlega og sjálfsumglaða inngangi felst því ekki í því að mæra eða upphefja sjálfan sig á nokkurn hátt, heldur miklu fremur að fría sig fyrirfram gagnvart þeim hugleiðingum sem gætu sprottið upp frá þeim sem ætla að lesa hérna áfram. Spurningin sem helst brennur á SVEPPAGREIFANUM er því á engan hátt sett fram af illum ásetningi. Það sem SVEPPAGREIFINN hefur sem sagt mikið verið að velta fyrir sér, er ... minnir Óðríkur úr Ástríksbókunum ekki einhvern hérna á Geir Ólafs?
Það er auðvitað rétt að taka það aftur fram að þetta er alls ekki sett fram af illgirni eða kvikindisskap, heldur eru þeir kumpánar að mörgu leyti alveg sláandi líkir í útliti. Reyndar hefur Óðríkur hormottuna sína framyfir en Geir ætti ekki að verða skotaskuld úr því að henda í eins og eitt yfirvaraskegg. Nú er SVEPPAGREIFINN ekki vel að sér um tónlistarhæfileika Óðrík, annað en það að vinir hans í Gaulverjabæ (og reyndar líka eiginlega flestir þeir íbúar Gallíu sem hafa til hans heyrt) virðast ekki kunna að meta þá tónlist sem hann býður upp á. Sem kemur eiginlega á óvart því harpan, sem Óðríkur er kunnastur fyrir, er þekkt fyrir sína lágstemmdu og fallegu hljóma. En þar sem ekki er hægt að heyra tónlist úr myndasögum er eðlilegast að leyfa honum að njóta vafans þar til annað kemur í ljós. Væntanlega eru það því aðrir íbúar Gaulverjabæjar sem eru laglausir og kunna ekki gott að meta. Hins vegar vitum við flest hvaða einstaka hæfileika Geir Ólafs hefur fram að færa. Hans tónlist er auðvelt að nálgast og heyra en þar fer sannur og mikill listamaður og einstakur karakter.

1. september 2017

21. SAGA TINNA Á ÍSLANDI

Nú ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að rifja upp og stikla á stóru um sögu Tinna á Íslandi. Auðvitað er hér ekki um neina tæmandi, sagnfræðilega umfjöllun að ræða, enda svo sem engar vísindalegar rannsóknir sem búa á bak við þessa færslu en hún gefur þó vonandi einhverja mynd af því hvernig ferill Tinna á Íslandi hófst og þróaðist. Það er nefnilega svolítið útbreiddur misskilningur að hann hafi komið fyrst fyrir sjónir Íslendinga með Tinnabókunum. En það var nú ekki alveg svo.
Samkvæmt lauslegri könnun SVEPPAGREIFANS má gera ráð fyrir að Tinni hafi komið fyrst fyrir sjónir Íslendinga í febrúar árið 1964 en þann fyrsta þess mánaðar hóf Bæjarbíó í Hafnarfirði sýningar á bíómyndinni Tintin í leit að fjársjóði. Þarna var auðvitað um að ræða kvikmyndina Tintin et le Mystére de la d'or frá árinu 1961, með franska leikaranum Jean-Pierre Talbot, en þetta var fyrsta alvöru bíómyndin sem gerð var um myndasöguhetjuna Tinna. Það má ganga að því nokkuð vísu að SVEPPAGREIFINN muni alveg pottþétt fjalla um þessa bíómynd í annari færslu einhvern tímann seinna. 
Tintin í leit að fjársjóði var sýnd í Bæjarbíói í nokkrar vikur en skaut síðar reyndar upp kollinum öðru hvoru næstu árin í sunnudagsbíói. Þetta voru allra fyrstu kynni Íslendinga af kappanum og því má segja að 1. febrúar árið 1964 sé óopinber fæðingardagur Tinna hér á landi. Og eins og sjá má á titlinum var hann ekki einu sinni búinn að fá sitt íslenska nafn. Það gerðist ekki fyrr en Þorsteinn Thorarensen hjá Fjölva fór að gefa út fyrstu Tinnabækurnar árið 1971. Þeir Þorsteinn og Loftur Guðmundsson, þýðandi bókanna, hafa því sennilega átt heiðurinn af íslensku nafngiftinni. Sjálfsagt hafa þeir haft norrænu útgáfurnar af Tinna til hliðsjónar því hann nefnist Tintin á öllum hinum Norðurlöndunum nema í Finnlandi, þar sem hann heitir reyndar Tintti. Líklegt er þó að einhverjir Íslendingar hafi kynnst Tinna áður, á ferðum sínum erlendis, hvort sem það hefur verið vegna bókanna eða einhvers annars en Tinnabækurnar sjálfar komu ekki til Íslands fyrr en rúmlega 40 árum eftir að Hergé byrjaði að teikna kappann. Þegar verið var að sýna Tintin í leit að fjársjóði, í Bæjarbíói árið 1964, var bókin um Vandræði Vaílu þannig tiltölulega nýkomin út í Belgíu og því aðeins bækurnar um Flugrás 714 til Sidney og Tinni og Pikkarónarnir óteiknaðar hjá Hergé. Tinni kom því mjög seint til sögunnar á Íslandi.

Eins og áður sagði hóf Fjölvi að gefa út Tinnabækurnar árið 1971 en þetta voru fyrstu teiknimyndasögurnar sem gefnar voru út á Íslandi í bókarformi og urðu vinsælar að einhverju marki. Áður hafði reyndar verið gerð ein og ein tilraun með stökum sögum í einhvers konar myndasöguformi, um til dæmis Gulleyjuna og Tarzan, sem ekki náðu neinum sambærilegum vinsældum við það sem seinna varð. Sagan segir að útgáfu Tinnabókanna á Íslandi megi rekja til þess að útgefandinn og þýðandinn Þorsteinn Thorarensen hafi misst af strætó í Kaupmannahöfn árið 1969. Hann þurfti því að bíða svolitla stund eftir næsta vagni og kíkti inn um glugga á nærliggjandi verslunum. Í einni þeirra rak hann augum í forvitnilega teiknimyndasögu um Tinna en þetta var þá danska útgáfan af Svaðilför til Surtseyjar eða Den sorte ø eins og hún heitir nú á dönsku. Þorsteinn fór inn í verslunina og keypti nokkrar Tinnabækur sem hann svo gluggaði í á næstu misserum og leyst svo vel á að hann hófst handa við að tryggja sér útgáfuréttinn á Íslandi fyrir Fjölvaútgáfuna sem hann var í forsvari fyrir. Þetta tókst en tæpt var það þó því Almenna Bókafélagið var einnig á höttunum eftir útgáfuréttinum að Tinna en Þorsteinn varð skrefinu á undan. Fjölvi gaf því út bækurnar Svaðilför til Surtseyjar og Dulafulla stjarnan fyrir jólin 1971 en hvor bók um sig voru prentaðar í 3000 eintökum og seldust upp á örfáum árum.
Þýðandinn Loftur Guðmundsson var skráður fyrir þýðingunum á bókunum í fyrstu úgáfunum en Þorsteinn var síðar einnig skráður sem meðþýðandi í seinni útgáfum bókanna.

Fyrir jólin árið 1972 bættust svo við tvær nýjar bækur um hetjuna en þetta voru Vindlar Faraós og Eldflaugastöðin og fyrir jólin 1973 komu út Í myrkum mánafjöllum og Krabbinn með gylltu klærnar. Tinnabækurnar urðu gríðarlega vinsælar og Krabbinn með gylltu klærnar varð sú Tinnabók sem varð vinsælust á Íslandi og seldist í hvað mestu upplagi hér. Ekki komu Tinnabækurnar þó út í réttri röð hér á landi og því þurftu aðdáendur bókanna hérna að bíða svolítið eftir að geta lesið þær í einhverju samhengi og áttað sig á heildamynd þeirra.
Fram til þessa höfðu Tinnabækurnar, eða reyndar myndasögur yfirhöfuð, ekki þótt merkilegar hjá þeim íhaldssömu og fordómafullu Íslendingum sem töldu sig hafa vit á alvöru bókmenntum. Lesendabréf birtust í blöðum, þar sem farið var háðulegum orðum um þessi ómerkilegu rit og einhverjir þóttust bæði sjá aukningu á lakari lestrarkunnáttu og slæm áhrif bókanna á börn og unglinga. Gekk það jafnvel svo langt að aðili á vegum Fjölvaútgáfunnar þurfti að hafa fyrir því að svara lesendabréfum úr dagblöðunum til að verja tilverurétt þessa vinsælu bókmennta gegn þessum sjálfskipuðu menningarvitum. Í desember árið 1973 birtist loks í fyrsta sinn barnabókagagnrýni um Tinnabækurnar, þar sem sögunum var hrósað í hástert og almennt farið mjög lofsamlegum og fögrum orðum um bækurnar, þýðingarnar á þeim og jafnvel uppeldisgildi. Og fleiri þannig dómar áttu eftir að birtast á næstu árum.

Ef eitthvað var jukust vinsældir Tinna enn og árið 1974 gaf Fjölvi nú út fjórar bækur í stað tveggja áður. Þetta voru bækurnar; Veldissproti Ottókars, Tinni í Tíbet, Sjö kraftmiklar kristallskúlur og Fangarnir í Sólhofinu. Þá hófu Fjölvi og tímaritið Vikan samstarf, í lok ársins 1974, um birtingu sögunnar um Leyndardóm Einhyrningsins en sú bók var þá enn óútgefin á Íslandi. Vikan birti þar vikulega eina blaðsíðu úr sögunni í fullum litum og líklegt má telja að sala og áskrifendum blaðsins hafi fjölgað í kjölfarið, svo vinsælar voru Tinnabækurnar orðnar.
Strax í byrjun árs 1975 fór Tinni svo að birtast í Morgunblaðinu en þar kom daglega, fyrir sjónir lesenda, ein myndaröð úr Flugrás 714 til Sidney í svarthvítu. Sú bók hafði þá heldur ekki enn verið gefin út hér á landi. Þegar þeirri sögu lauk, í kringum mánaðamótin október, nóvember sama ár hófst sagan um Vandræði Vaílu - enn ein Tinnasagan sem ekki var komin út á íslensku. En annars komu enn fjórar nýjar Tinnabækur út hjá Fjölvaútgáfunni árið 1975. Þetta voru; Skurðgoðið með skarð í eyra, Svarta gullið, Leynivopnið og Kolafarmurinn. Smán saman fylltist því upp í bókaröðina og íslenskir aðdáendur Tinna gleyptu allt sem að þeim var rétt.
Framhald Leyndardóm Einhyrningsins, Fjársjóður Rögnvaldar rauða, hóf göngu sína í Vikunni í febrúar 1976 og í september hófst síðan sagan um Krabbann með gylltu klærnar í Morgunblaðinu. En í nóvember sama ár hófust sýningar á teiknimyndinni Tinni og hákarlavatnið (Tintin et le lac aux requins), frá árinu 1972, í Tónabíó og var hún sýnd eitthvað fram á næsta ár og einnig reyndar öðru hvoru næstu árin við miklar vinsældir. Fjölvi gaf út fjórar Tinna bækur árið 1976, eins og undanfarin ár en það voru sögurnar; Tinni í Kongó, Tinni í Ameríku, Leyndardómur Einhyrningsins og Flugrás 714 til SydneyEkki birtust fleiri sögur um Tinna í Vikunni en þær tvær sem áður eru nefndar en um vorið 1977 hóf Landsbankinn að nýta sér þjónustu Tinna með framleiðslu sparibauka fyrir börn.
Vindlar Faraós byrjaði í Mogganum um miðjan júní og teiknimyndin Tinni og Sólhofið (Tintin et le temple du soleil), frá árinu 1969, var sýnd í Austurbæjarbíói þetta haust. Enn á ný gaf Fjölvi út sínar fjórar Tinna bækur en í þetta sinn voru það sögurnar; Blái lótusinn, Fjársjóður Rögnvaldar rauða, Vandræði Vaílu Veinólínó og Tinni og Pikkarónarnir. Síðastnefnda bókin var þá ekki nema ársgömul en hún hafði komið út í bókarformi á frummálinu árið 1976. Þar með voru allar Tinna bækurnar komnar út  á Íslandi nema sú fyrsta, Tinni í Sovétríkjunum, en 30 ár liðu áður en sú saga kom fyrst út í íslenskri þýðingu. Þrátt fyrir að nú væru allar Tinnabækurnar komnar út átti Fjölvaútgáfan enn tvær bækur eftir í pokahorninu. Þær komu út fyrir jólin 1978 en það voru kvikmyndabækurnar Tinni og bláu appelsínurnar og Tinni og Hákarlavatnið, sem íslenskir kvikmyndagestir voru farnir að kannast aðeins við eftir reglulegar sýningar í bíóhúsum borgarinnar. Aftan á bókarkápum þeirra bóka kemur fram að þær sögur séu kvikmyndabækur númer 1 og 3 og því er spurning hvort að Fjölvaútgáfan hafi líka ætlað sér að gefa út kvikmyndabók um Tintin et le Mystére de la d'or en ekkert hafi orðið úr því.
Í maí 1978 fór nú Tinni í Ameríku að birtast á myndasögusíðu Morgunblaðsins eftir að sögunni um Vindla Faraós lauk og til marks um vinsældir Tinna á þessum tíma má geta þess að undir lok ársins voru bæði Tinni og Hákarlavatnið og Tinni og Sólhofið í sýningum í kvikmyndahúsum höfuðborgarsvæðisins á sama tíma. En eins og áður segir voru nú allar Tinnabækurnar komnar út og aðdáendur kappans því væntanlega orðnir vel mettir í bili. Sagan um Tinna í Kongó hófst í Morgunblaðinu í maí 1979 en henni lauk í mars 1980 og ekki birtust fleiri Tinna sögur á þeim vettvangi. Alls voru því birtar sex Tinnabækur í Mogganum á árunum 1975-80 og tvær í Vikunni frá 1974-77. Flugrás 714 til Sidney, Vandræði Vaílu, Krabbinn með gylltu klærnar, Vindlar Faraós, Tinni í Ameríku og Tinni í Kongó birtust því í svart/hvítu í Mogganum en Leyndardómur Einhyrningsins og Fjársjóður Rögnvaldar rauða í litum í Vikunni.
Frekar fór nú lítið fyrir Tinna á næstu árum á Íslandi. Bækurnar hurfu smán saman úr hillum bókabúðanna og urðu flestar ófáanlegar með tíð og tíma. Eintök þau sem bókasöfnin höfðu haft til umráða slitnuðu til óbóta af mikilli notkun og sama má segja um um þær bækur sem til höfðu verið á heimilum landsmanna. Tinnabækurnar voru bókstaflega lesnar upp til agna. En vinsældir hans dvínuðu þó lítið og bæði börn og fullorðnir gleyptu yfirleitt í sig bækurnar þar sem til þeirra náðust. Og á endanum var eftirspurnin orðin það mikil að Fjölvaútgáfan gat ekki lengur skorast undan álaginu og byrjaði loksins að endurútgefa sögurnar fyrir jólin 1987. Fyrstu tvær bækurnar voru Tinni í Tíbet og Sjö kraftmiklar kristallskúlur og árið eftir komu Eldflaugastöðin og Svaðilför til Surtseyjar. Á næstu árum og áratugum voru þær endurútgefnar og sumar jafnvel í þriðja sinn en þó ekki allar. Kvikmyndabækurnar, Tinni og Hákarlavatnið og Tinni og bláu appelsínurnar, komu til dæmis ekki út aftur - enda ekki um eiginlegar teiknimyndasögur að ræða.

Árið 1988 voru gefnar út sex myndbandsspólur með teiknimyndum um Tinna. Þessi útgáfa var hluti af myndbandsklúbbi sem settur hafði verið á laggirnar en þættirnir, sem voru um 50 mínútna langir, voru talsettar á íslensku af Eggerti Þorleifssyni. Tveimur árum seinna voru gefnar út fjórar myndbandsspólur til viðbótar og á næstu árum voru þessir þættir um Tinna einnig sýndar í barnatíma Ríkissjónvarpsins.
Tinni í Sovétríkjunum kom síðan loksins út á íslensku árið 2007, eins og áður hefur verið vikið að, í kjölfar þess að bókaútgáfan Fjölvi skipti um eigendur en þarna var um upphaflegu svart/hvítu útgáfuna að ræða. Björn Thorarensen, sonur Þorsteins Thorarensens, sá um að snara sögunni yfir á íslensku. Bergvík byrjaði svo árið 2006 að endurútgefa Tinna og að þessu sinni á dvd, í endurbættri stafrænni útgáfu, þar sem þeir félagar Felix Bergsson og Þorsteinn Backman sáu um að talsetja þættina upp á nýtt. Á árunum 2010-13 voru tíu af Tinnabókunum enn og aftur endurútgefnar af bókaforlaginu Iðunni en að þessu sinni í litlu broti. Það fór nú reyndar misvel í íslenska Tinna aðdáendur og svolítið voru nú skiptar skoðanir um ágæti þessa nýja brots.
Og svo má að lokum auðvitað ekki gleyma Tinna kvikmyndinni, The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn, sem aðdáendur Tinna á Íslandi, líkt og í öðrum löndum, höfðu beðið eftir um árabil. Myndin var frumsýnd á Íslandi í október 2011 og var að miklu leyti byggð (eins og nafnið gefur til kynna) á sögunni um Leyndardóm Einhyrningsins en er samt að stórum hluta byggð á einum fjórum mismunandi Tinna sögum. Í mars 2012 var svo The Secret of the Unicorn gefin út á dvd á hér á landi.

Heilt yfir spannar saga Tinna á Íslandi því orðið 46 ár ef tekið er mið af útgáfu fyrstu Tinnabókanna sem gefnar voru út árið 1971. Þetta þýðir auðvitað það að árið 2021 munu Tinnabækurnar eiga 50 ára útgáfuafmæli á Íslandi ef stærðfræðihæfileikar SVEPPAGREIFANS bregðast ekki. Það er vonandi að réttindahafi bókanna á Íslandi muni blása í hátíðarlúðrana í tilefni þessa stóra áfanga og halda veglega upp á afmæli kappans á því ári. Og það er einnig vonandi að afmælisins verði ekki eingöngu minnst með endurútgáfu Tinnabókanna sjálfra heldur muni líka verða gefnar út einhverjar aðrar bækur um Tinna í íslenskri þýðingu. Af nógu er að taka þar.