2. apríl 2021

188. TINNI OG SVALUR REITA SAMAN RUGLUM SÍNUM

Í gær var 1. apríl og í dag Föstudagurinn langi. Það er því við hæfi að bjóða upp á tengt efni í tilefni hins fyrrnefnda. En þeir Georges Prosper Remi og André Franquin, kannski betur þekktir sem myndasöguhöfundarnir Hergé og Franquin, voru miklir snillingar. Báðir voru þeir Belgar og tilheyrðu frábærum hópi listamanna sem voru í forsvari hvor svolítið fyrir sínum teiknistíl. Hergé var kunnur fyrir sinn þekkta hreinna línu stíl (ligne claire) en Franquin aðhylltist meira (ligne atome) sem bauð upp á mýkri línur og meiri hraða og læti. Þeir voru auðvitað samtímamenn, þó Franquin hafi verið talsvert yngri og Hergé hafi því verið fyrirmynd hans í upphafi ferilsins. Þeir voru reyndar báðir aðdáendur hvors annars og Hergé hafði sérstaklega miklar mætur á verkum Franquins. Og þar sem Hergé var eldri, var hann einnig nær þeim frumkvöðlum sem sköpuðu sjálfa myndasögulistina í upphafi. Franquin tilheyrði hins vegar nokkrum hópi listamanna, landa þeirra, sem sótt höfðu menntun sína, reynslu og stíl til Ameríku. Í þeim hópi voru einnig frábærir listamenn eins og Jijé, Morris og franski handritshöfundurinn Goscinny sem allir urðu frægir seinna fyrir verk sín. En í þessari færslu ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að fjalla um þá snillingana Franquin og Hergé velta sér eilítið upp úr sköpunarverkum þeirra á ýmsan hátt.
Það er eitt og annað forvitnilegt sem SVEPPAGREIFINN (og vafalaust líka einhverjir fleiri) hefur stundum velt fyrir sér varðandi þessa tvo snillinga. Hvernig hefðu til dæmis myndasögur þessara tveggja listamanna, Hergé og Franquin, þróast ef þeirra helstu afsprengi hefðu víxlast? Þá er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að meina hvernig myndasöguhetja Tinni hefði orðið í höndum Franquins og svo auðvitað á móti hvernig Svalur og Valur hefðu þróast hjá Hergé. Og úr því minnst er á sögurnar um Sval og Val þá má einnig nefna að enn áhugaverðara hefði auðvitað verið sjá Viggó viðutan í meðförum hans. Allt væri þetta að sjálfsögðu með stíl, húmor og hugmyndaflug listamannanna í huga. Það er svo sem tilgangslaust að vera að velta sér upp úr hlutum sem ekki er hægt að sannreyna en samt væri áhugavert að geta séð fyrir sér hvernig slík hlutverkaskipti hefðu gengið upp. Þó hugmyndin sé áhugaverð er SVEPPAGREIFANUM ekki kunnugt um hvort einhver lipur teiknari hafi reynt fyrir sér með þetta efni af einhverri alvöru.
Það er reyndar svolítið erfitt fyrir SVEPPAGREIFANN að sjá þá Sval og Val fyrir sér sem aðalsöguhetjur í myndasögu eftir Hergé. Þeir félagar hefðu líklega orðið ósköp flatir og óáhugaverðir í hans höndum enda var stíll Hergés heldur raunsæislegri og formfastari en Franquins. Það hefði þó ekki verið neitt við listamanninn sjálfan að sakast. Seríurnar eru einmitt mjög ólíkar og Tinna bækurnar eru svo frábærar vegna þess að það var Hergé sem teiknaði þær. En það er aftur á móti skoðun SVEPPAGREIFANS að Franquin hefði getað gert allt að gulli sem hann snerti. Tinni sjálfur væri þó væntanlega áfram frekar litlaus í höndum Franquins. Og líklega sæi maður hann frekar fyrir sér sem týpu með skapgerð Svals en með útlitið í ætt við Júlla í Skarnabæ. En margir af samferðarmönnum Tinna hefðu hins vegar getað orðið mjög áhugaverðir í meðförum Franquins. Bæði Kolbeinn kafteinn og prófessor Vandráður bjóða upp á ýmsa skemmtilega möguleika og eins hefði Vaíla Veinólínó vafalítið einnig fengið viðeigandi meðferð hjá honum. Þau eru öll nokkuð hressilegar týpur og Franquin hefði vafalítið pimpað þau, með sínum óreiðukennda stíl, enn betur upp en Hergé gerði. Þau hefðu jafnvel getað gengið upp í bröndurunum um Viggó viðutan. Hann hefði bara þurft að finna viðeigandi hlutverk fyrir þau þar.
Á sjötta og sjöunda áratuginum var útgáfa beggja stóru myndasögutímaritanna, Le Journal de Tintin og Le Journal de Spirou, í Belgíu í gríðarlegri uppsveiflu og vinsældir þeirra á hápunkti sínum. Þetta var á blómaskeiði fransk/belgísku teiknimyndasagnanna og þótt blöðin væru svarnir keppinautar á myndasögumarkaðnum þá ríkti samt ákveðin virðing þeirra á milli. Það voru til dæmis óskráð lög hjá þeim að sömu listamennirnir væru ekki að vinna fyrir bæði blöðin í einu, þó það kæmi alveg fyrir að fólk færði sig um set yfir á hitt blaðið frá báðum aðilum. Vorið 1965 kviknaði sú hugmynd, hjá fáeinum listamönnum sem störfuðu hjá blöðunum, að brjóta aðeins upp þessa stífu keppnisímynd þeirra og koma á sameiginlegu grínverkefni í tengslum við einmitt 1. apríl þetta ár. Þessi hugmynd gekk út á það að keppinautarnir tveir breyttu forsíðum sínum á þann hátt að þeir aðlöguðu sig að stíl og skipulagi hvors annars. Með öðrum orðum, útlitslega leit Le Journal de Tintin út eins og SPIROU og SPIROU leit út eins og Le Journal de Tintin þennan dag - 1. apríl árið 1965.
Tinna tímaritið var með brandara á sinni forsíðu sem svipaði til Viggós viðutans en um þetta leyti var SPIROU blaðið venjulega með hann á forsíðu sinni. Fyrir ofan brandarann var síðan blá skuggamynd af Sval. Uppsetningin á forsíðu SPIROU blaðsins leit hins vegar út eins og þá var dæmigert fyrir Le Journal de Tintin, stór heilsíðumynd í teiknistíl blaðsins og með miklum hasar. SPIROU gekk jafnvel svo langt að að breyta blaðahaus tímaritsins (sem sýnir lógó þess) og aðlagaði það að blaðhaus keppinautanna eins og það hafði litið út fáeinum vikum fyrr.
Og að öðru þessu tengt. Í SPIROU blaði númer 4078, sem kom út í júní árið 2016, var mikið af skemmtilegu efni og meðal þess var til dæmis upprifjun á aprílgabbi tölublaðsins sem komið hafði út þann 1. apríl árið á undan. Þar hafði birst myndasaga, um Sval, sem leit út fyrir að vera eldgömul og lesendum var talin trú um að hún væri eftir Rob-Vel. Aprílgabbið gekk út á það að þessi myndasaga hefði óvænt fundist og átti aldrei að hafa birst opinberlega áður en það var franski teiknarinn Fred Neidhardt sem átti heiðurinn að þessari fölsun. Í þessu sama blaði var einnig birt gabb sem sýna átti fram á að þeir Hergé og Franquin hefðu ætlað að ganga lengra með hinu áðurnefnda aprílgabbi frá árinu 1965. Sagan átti að hafa verið á þá leið að þá hefði langað til að birta, í blöðunum tveimur, einnar blaðsíðu sameiginlegan myndasögubrandara þar sem helstu söguhetjur listamannanna rugluðu saman reitum sínum. Listamennirnir tveir hefðu í sameiningu átt að hafa verið búnir að leggja drög að þessum brandara og rissa upp í blýantsformi en ennþá hefði þó verið eftir að fullteikna hann og lita. En ritstjórar tímaritanna tveggja hefðu hins vegar gert þann draum að engu og skotið hugmyndina niður strax í fæðingu. Ekkert hefði orðið úr þessum fyrirætlunum þeirra Hergé og Franquin og blýantsskyssurnar hefðu verið lagðar til hliðar og varðveittar í skjalasöfnum Dupuis útgáfunnar sem gaf út SPIROU blaðið.
Þetta var að sjálfsögðu allt saman haugalygi og blaðið með teikningum Hergé og Franquin hafði auðvitað aldrei verið til. Áðurnefndur Fred Neidhardt (sá sem gerði Rob-Vel fölsunina) sá einnig um að teikna þessar skyssur á nokkuð sannfærandi hátt og það heppnaðist líka svona ágætlega. Helstu persónurnar eru rissaðar upp, hver með sínum upprunalega teiknistíl, og þess var jafnvel gætt að söguhetjurnar væru ekki teiknaðar með sömu ritföngunum líkt og listamennirnir hefðu skipt með sér verkum. Gulnað límband átti meira að segja að auka á trúverðugleika teikninganna.
Það er rétt að taka það fram að þessi útfærsla af myndasögunni hér fyrir ofan hefur verið uppfærð með enskum texta og kemur af hinni frábæru vefsíðu spiroureporter.net. Sú síða hefur einmitt sérhæft sig í gegnum tíðina með fréttum af Sval á ensku. En eins og sjá má á hinum meinta brandara byrjar hann á því að óðamála Sveppagreifinn er í símanum að tala við Sval og segja honum frá því að stórhættulegum sveppum hafi verið stolið frá honum. Í miðjum klíðum hringir dyrabjallan hjá Sval og þar er sjálfur Tinni mættur og tjáir honum að þeir Rassópúlos og Zorglúbb hafi sameinað krafta sína með heimsyfirráð í huga. Þeir Svalur og Tinni þjóta þegar af stað til bjargar en er strax ljóst að þeir eru of seinir þegar risastór blaðra, með táknum þeirra Zorglúbbs og Rassópúlosar, blasir við þeim úti á götu. Skyndilega birtist hið ógnvænlega glæpapar fyrir aftan þá og hóta þeim því að blaðran muni springa og dreifa um andrúmsloftið gasi sem gerir alla jarðarbúa að hlýðnum þrælum þeirra. Hins vegar eiga báðir glæpamennirnir að vera svo uppfullir af mikilmennskubrjálæði að þeir fara að rífast og síðan slást yfir metingi um það hvor þeirra sé nú meiri glæpon! En ekki hvað?! Tinni og Svalur eiga því nokkuð hæg heimatökin við að afvopna félagana á fljótlega hátt en þá kemur auðvitað í ljós að þarna er um að ræða þá Flosa Fífldal og Viggó viðutan með grímur. Þá voru þeir með svona ansi líka skemmtilegt aprílgabb.
Þegar grannt er að gáð sést að þessi fölsun er svo sem ekkert stórkostlegt myndlistaafrek og augljóslega hefur ekki verið kafað mjög djúpt í metnað þess sem það innti af hendi. Fred Neidhardt hefur eflaust nýtt eitthvað af listhæfileikum sínum við verkið en skyssurnar eru þó að mestu byggðar á afritum af stökum myndum af sögupersónunum úr bókunum um þær. Sem dæmi um það ku myndin af Sval, þessi sem er lengst til vinstri í þriðju röð, vera byggð á myndaramma af blaðsíðu 20 úr hinni frábæru bók Neyðarkalli frá Bretzelborg. Úr sömu sögu eru einnig myndirnar tvær lengst til hægri úr efstu röð. Fyrri myndin, þar sem Svalur og Pési drífa sig til dyra, er byggð á ramma sem er efst á blaðsíðu 3 í áðurnefndri bók en hin myndin kemur af blaðsíðu 4 úr sömu sögu. Nú geta lesendur dundað sér við að leita uppi þessa myndaramma til að bera þá saman. Og ef þeir hafa nákvæmlega ekkert annað að gera geta þeir einnig dundað sér við að fletta í gegnum allar Sval og Val bækur Franquins og leitað að afgangum af myndunum. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar grun um að þær komi flestar úr þessari sömu bók - Neyðarkalli frá Bretzelborg. Þessi hugmynd er raunar stórskemmtileg en mest gaman væri þó ef einhver handlaginn teiknari tæki sig til og lyki hinu hálfkláraða verki. Það ætti varla að vera mikið mál að ljúka þessa vinnu sómasamlega þó þetta sé ekki alvöru Tinna eða Sval saga. Það breytir því ekki að það er gaman að sjá þá Tinna og Sval rugla saman reitum sínum jafnvel þó þurft hafi falsanir til.
 
En SVEPPAGREIFINN ætlar að ljúka þessari færslu með því að birta skemmtilegan brandara, eftir náunga sem kallar sig Ferrandez, þar sem hann sameinar hvorki meira né minna en þá Viggó viðutan og Tinna í stuttum myndasögubrandara í anda Viggós.
Þessi brandari kemur reyndar úr þekktri bók sem nefnist Baston, la ballades des baffes og fjallar um einhvers konar hliðarsjálf Viggós (Gaston) sem heitir Baston. Margir hafa eflaust heyrt talað um hina frægu Viggó bók númer 5 (R5) sem aldrei kom þó út hjá Dupuis vegna mistaka hjá útgáfufélaginu. Og í Sval og Val bókinni Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou), eftir þá Tome og Janry, er meira að segja stutt saga þar sem þetta týnda hefti kemur við sögu. En árið 1983 gaf Jacques Goupil útgáfan út grínútgáfuna um Baston sem átti að fylla í skarðið fyrir þessa týndu bók. Fjöldi kunnra teiknara komu að þessu verkefni en ýmsar skemmtilegar útfærslur af Viggó/Gaston (Baston) má finna í þessari safnbók. Baston, la ballades des baffes er einmitt í anda bókar, sem SVEPPAGREIFINN varð sér út um fyrir nokkrum árum í Sviss og segir frá andhetjunni Rocky Luke, og nefnist Banlieue West. Sú stórskemmtilega bók fjallar um hliðarsjálf Lukku Láka og var aðeins minnst á hana í þessari færslu hér. Kannski á SVEPPAGREIFINN eftir að kryfja þá bók aðeins við tækifæri seinna.
 
Já og gleðilega páska.

19. mars 2021

187. ÓÚTGEFIÐ HLIÐARSPOR ALLA, SIGGU OG SIMBÓ

Fyrir ekki svo löngu síðan birti SVEPPAGREIFINN færslu hér á Hrakförum og heimskupörum þar sem teknar voru fyrir fáeinar hugmyndir að Tinna sögum sem aldrei urðu að veruleika. Um það allt saman má lesa í færslu hér þar sem fjallað er um eitt og annað um týnd Tinna handrit. Þarna var grúskað í ýmsu efni sem Hergé hafði lagt drög að, sem tilvonandi ævintýrum með Tinna, en komust þó aldrei á þau stig að verða að einhverri alvöru. Þessar hugmyndir allar komust á misjafnlega löng komin stig. Þekktust er auðvitað síðasta sagan, Tintin et l'Alph-Art, sem Hergé var að vinna að þegar hann lést en af öðru efni skal nefna sögu sem hann nefndi Tintin et le Thermozéro. Árið 1960 hafði Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) verið nýkomin út í bókarformi þegar Hergé hóf fyrir alvöru undirbúning að næstu sögu. Fæðing þess handrits varð þó reyndar nokkuð erfið. Hergé hafði fengið hugmynd til að byggja á en grunnurinn að henni hafði orðið til eftir að hann hafði lesið grein í franska tímaritinu Marie-France árið 1957. Þar sagði frá bandarískri fjölskyldu sem hafði orðið fyrir geislun fyrir slysni en fólkið var reyndar fórnarlamb þarlendra yfirvalda við tilraunir með geislavirk efni. Greinin var því í raun uppljóstrun, á þessum leynilegu tilraunum, og var eftir blaðamanninn Philippe Labro. Af þessari afhjúpun blaðsins varð heilmikið hneyksli sem bandarísk yfirvöld reyndu að þagga niður eftir bestu getu. Hergé varð hins vegar mjög heillaður af þessari frásögn og hugðist nota sér hana að einhverju leyti sem grunn að nýrri Tinna sögu. 

Hergé komst þó fljótlega í þrot með hugmyndina og tveimur árum seinna ákvað hann að fá Jacques Martin, höfund seríunnar um Alex hugdjarfa og samstarfsmann sinn hjá teiknimyndatímaritinu Le Journal de Tintin, til að hjálpa sér við að bæta handritið. Hergé varð þó ekki heldur sáttur við þá útfærslu og fékk því næst Greg (Michel Régnier), sem starfaði þá hjá Hergé Studios, til að vinna almennilegt handrit upp úr gögnunum. Í dag er Greg þekktastur fyrir myndasögur sínar um Achille Talon (Alla Kalla) og handritsvinnu að nokkrum sögum um Sval og Val. Greg, sem líklega er óhætt að fullyrða að hafa verið ofvirkur, skrifaði fyrir hann tvö handrit sem hann kaus að nefna Les Pilules og Tintin et le Thermozéro og skilaði honum tveimur dögum síðar. Hergé valdi hið síðarnefnda enda var handritið talið mjög gott og hann hóf að teikna upp söguna samkvæmt því. Verkefnið féll hins vegar um sjálft sig þegar Hergé áttaði sig á því að hann yrði aldrei ánægður með Tinna sögu sem væri eftir einhvern annan handritshöfund en hann sjálfan. Reyndar voru það óskráð lög hjá Hergé Studios að Hergé einn væri ávallt skrifaður fyrir sögum sínum þó fjölmargir aðrir aðilar kæmu yfirleitt að verkefnunum. Það hefði því eflaust litlu breytt þótt handrit Gregs hefði verið notað en handritshöfundurinn fékk alla vega vel greitt fyrir viðvikið.

Hergé hafði þó byrjað að teikna upp söguna eftir handritinu og fyrstu átta blaðsíðurnar eru til í nokkuð endanlegri mynd þó þær séu ekki fullteiknaðar. Þá mun hann hafa rissað upp nokkrar grófar heildarútfærslur af sögunni eftir handritinu en engin þeirra var þó komin lengra en á blaðsíðu fjörtíu og þrjú. Löngu seinna komu fram gögn með upplýsingum um að Hergé hefði gert ráð fyrir að andi Kalda stríðsins yrði áberandi í sögunni og atburðarrás hennar myndi berast alla leið til Berlínar. Um söguþráð Tintin et le Thermozéro má lesa meira um í áðurnefndri færslu SVEPPAGREIFANS frá síðasta sumri. En í stað Tintin et le Thermozéro hóf Hergé nú vinnu að annarri sögu sem nefndist Les Bijoux de la Castafiore, sem við þekkjum sem bókina um Vandræði Vaílu Veinólínó, en sú saga kom fyrst út í bókarformi árið 1963. Handrit Gregs, sem var fimmtán blaðsíður að lengd, gleymdist þó ekki. Hergé fannst handritið býsna gott og tímdi ekki að fórna því og hugðist nýta sér það seinna, fyrir teiknimynd um Tinna, en ekkert varð heldur af þeim áformum. Að endingu varð því úr að hann fól félaga sínum, Bob de Moor hjá Hergé Studios, að aðlaga handritið að seríunni um Alla, Siggu og Simbó og hefja þar með vinnu við fjórðu söguna í þeim bókaflokki. Seríuna um þau hafði hann í raun sett á laggirnar, á fjórða áratuginum, eftir beiðni frá franska barnatímaritsinu Coeurs Vaillants. Ritstjóri blaðsins hafði óskað eftir nýjum og spennandi myndasögum frá Hergé þar sem venjuleg fjölskyldugildi væri ríkjandi og þannig hugsuð í anda kaþólskrar trúar. Hergé fannst hann þó alltaf vera of bundinn eða háður fjölskylduþemanu og hætti fljótlega að teikna þessar sögur enda var hann aldrei hrifinn af þessari seríu.

En þau Alla, Siggu og Simbó, eftir Hergé, þekkja íslenskir myndasögulesendur flestir líklega nokkuð vel. Reyndar komu ekki út hér á landi nema tvær af bókunum fimm úr bókaflokknum en sögurnar sjálfar voru þó í rauninni aðeins þrjár. Erfðaskrá auðkýfings og Kappflugið til New York voru þær bækur sem komu út hér hjá Fjölva útgáfunni veturinn 1978 og Þorsteinn Thorarensen þýddi þær. Á frummálinu nefnast þær Le Testament De Mr Pump (1951) og Destination New York (1951) en þetta voru einnig fyrstu tvær bækurnar í upprunalegu seríunni og mynduðu í raun heila sögu. Le "Manitoba" Ne Répond Plus (1952) og L'Éruption du Karamako (1952) komu næstar og mynduðu einnig eina heild en fimmta bókin var stök og nefndist La Vallée Des Cobras. Í ennþá meira framhjáhlaupi má kannski geta þess að sögurnar birtust þó upphaflega í annarri röð, bæði hjá tímaritunum Coeurs Vaillants og Le Petit Vingtiéme, á árunum 1936-39. Handrit Gregs að Tintin et le Thermozéro var því hugsuð sem fjórða sagan í bókaflokknum um Alla, Sigga og Simbó eða Jo, Zette og Jocko eins og þau heita á frummálinu. Bob de Moor byrjaði því að teikna upp söguna en lagði hana þó fljótlega á hilluna eftir að Hergé hafði falið honum öðrum brýnni verkefnum hjá Hergé studios. Í seinni tíð hefur þó komið fram að eitthvað hafi varðveist af þessu teikningum De Moor af sögunni. 

Nokkur sýnishorn af blýantsteikningum hans, ásamt skýringum og athugasemdum, birtust til að mynda í ævisögu Bob de Moor en hún var skrifuð Bernard nokkrum Tordeur sem seinna varð yfirskjalavörður hjá Hergé studios. Það hefur auðvitað enginn hugmynd um hver í ósköpunum sá gaur var. En Tordeur þessi skýrði síðar frá því í viðtali að Bob de Moor hefði í raun og veru teiknað upp alla söguna Thermozéro með þau Alla, Siggu og Simbó í aðalhlutverkunum. Ekki hefði þó verið um að ræða fullteiknaða og unna sögu heldur væri hún frekar rissuð upp í grófum dráttum en þó þannig uppsett að tiltölulega einfalt væri að teikna hana upp í endanlegu formi og gefa út. Þá væri einnig auðveldlega hægt að gefa söguna út með skýringum af svipuðum toga og Tintin et l'Alph-Art. Aðspurður af hverju þessar upplýsingar hefðu ekki komið áður fram kvaðst Bernard Tordeur einfaldlega aldrei hafa verið spurður um þær enda hefðu sögurnar um Alla, Siggu og Simbó ekki þótt merkilegar og auðvitað aldrei verið jafn hátt skrifaðar og Tinni. Augljóslega hefur handrit Gregs þó ekki gengið upp með þessum nýju sögupersónum án töluverðra breytinga. Það gefur auga leið að handritið hafi þurft að aðlaga að nýjum og breyttum aðstæðum. Alli, Sigga og Simbó eru ekki Tinni og Kolbeinn og sem dæmi um augljósa breytingu má nefna það að í byrjun upprunalega handritsins koma þeir Tinni og Kolbeinn akandi á bíl að vettvangi bílslyss. Alli og Sigga keyra auðvitað ekki bíl en það gera foreldrar þeirra hins vegar. Hér fyrir neðan má sjá tvö uppköst að fyrstu blaðsíðu sögunnar eins og Bob de Moor sá hana fyrir sér.

Á síðustu árum hafa öðru hvoru komið fram sögusagnir um að þessi Thermozéro saga muni verða gefin út í komandi framtíð í einhverju formi. Og getgátur hafa jafnvel verið um það að Alla, Siggu og Simbó útgáfan, eftir Bob de Moor, yrði þá fyrir valinu. Einhverjar þreifingar voru um þessa útgáfu en samkvæmt upplýsingum frá Casterman útgáfunni hafa þau áform þó verið sett á bið. Benoît Mouchart sem er útgáfustjóri Casterman vill óður og uppvægur gefa út Thermozéro söguna, hvort sem það yrði með Tinna eða Alla, Siggu og Simbó, en líkt og svo oft áður strandar það á leyfi frá rétthafanum Moulinsart stofnuninni. Þar ræður auðvitað ríkjum ekkja Hergé, Fanny Rodwell (og reyndar einnig núverandi eiginmaður hennar Nick Rodwell), og aðeins hún getur heimilað útgáfu af óloknum ævintýrum Tinna en nokkrar deilur hafa staðið á milli þessara tveggja aðila undanfarin ár. Fanny Rodwell hefur, allt frá því Hergé lést árið 1983, staðið föst á því að virða óskir hans um að ekki yrðu gefnar út fleiri Tinna bækur að honum látnum. Þó virðist sem hún hafi heldur mildast í afstöðu sinni gagnvart ýmsu er varðar útgáfurétt Tinna bókanna á undanförnum árum. Sem dæmi um það má nefna, frekar óvænt útspil Moulinsart, þegar gefin var heimild fyrir því að Tintin au pays des Soviets (Tinni í Sovétríkjunum) var loksins gefin út í litaðri útgáfu. Það þótti bera vott um ákveðna þýðu og í seinni tíð virðist sumum sem Rodwell hafi gefið undir fótinn með ýmsar fleiri eftirgjafir þó ekki komi fram hvað um þar er að ræða. 

En þó ný saga um Alla, Siggu og Simbó yrði í sjálfu sér aldrei einhver stórmerkilegur viðburður þá er ljóst að verkefnið hlyti að teljast nokkuð forvitnilegt vegna hinnar upphaflegu tengingu sögunnar við Tinna. Auk þess sem serían er auðvitað upp runnin frá Hergé. Það verður alla vega fróðlegt að sjá hvort eitthvað merkilegt gerist í þessum efnum í náinni framtíð.

5. mars 2021

186. ALLI KALLI LOKSINS KOMINN Í LEITIRNAR

Loksins tókst SVEPPAGREIFANUM að verða sér úti um eintak af hinni goðsagnakenndu myndasögu Alli Kalli í eldlínunni. Það er að vísu kannski töluvert orðum aukið að hér sé um að ræða goðsagnarkenndan grip en engu að síður hefur hann beðið eftir að komast yfir þessa bók, af nokkurri eftirvæntingu, í svolítinn tíma. Alli Kalli í eldlínunni fór svo sem ekkert mjög hátt hjá þeim íslensku myndasögulesendum sem drukku í sig þessar bókmenntir á árum áður en engu að síður hefur þessi bók verið svolítið erfið viðureignar fyrir SVEPPAGREIFANN að eignast. Hann rakst reyndar tiltölulega oft á bókina um Alla Kalla, hér áður fyrr, en var þá ekki mikið að hafa fyrir því að grípa hana með sér. Honum fannst ekki taka því að vera að eltast við þessa minni spámenn sem svo auðvelt var að nálgast. Og hann gaf sér ekki einu sinni tíma til að fletta bókinni í þau skipti sem hann rakst á hana. Alli Kalli í eldlínunni hafði nefnilega einhvern veginn lent svolítið utanveltu í flokki með ómerkilegri myndasögum eins og Stjána bláa, kettinum Felix og Bleika pardusinum. Þessar bækur allar hafa því í gegnum tíðina verið látnar mæta afgangi hjá SVEPPAGREIFANUM enda taldi hann alltaf frekar einfalt að finna þær og fannst ekkert bráðliggja á að troða þeim inn í safnið sitt í myndasöguhillunum. 

Fyrir fáum árum rakst hann hins vegar á myndasögur um hinn sjálfsumglaða Achille Talon á flóamarkaði úti í Sviss og áttaði sig strax á að þar var auðvitað um sjálfan Alla Kalla að ræða. Hann keypti því af forvitni tvær bækur með honum á frönsku og uppgötvaði, í framhaldinu af því, að Achille Talon hefði verið hugarfóstur belgíska handritshöfundarins og listamannsins Greg (Michel Régnier). Og þegar SVEPPAGREIFINN fór að gúggla þessar bækur enn frekar uppgötvaði hann að bókin Alli Kalli í eldlínunni er í sérstöku uppáhaldi hjá myndasögu-, bjór- og sagnfræðingnum kunna Stefáni Pálssyni. Það vakti auðvitað enn frekari forvitni hans og því tók nú við langt tímabil sem gekk út á það að reyna að eignast gott eintak af þessari merkilegu bók. Það hefur reyndar gengið svona upp og niður. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem nokkrum sinnum rekið augun í þessa teiknimyndasögu, á ýmsum þar til gerðum vettvöngum, en einhverra hluta vegna alltaf farið á mis við nægilega gott eintak. Við eftirgrennslan þeirrar bókar hefur hann þó reyndar orðið sér úti um að minnsta kosti tvær bækur í viðbót úr þessari seríu á dönsku.

Að öðru leyti hafði leitin lítinn árangur borið þar til nú í byrjun árs. En þá fann hann loksins þetta líka fína eintak af Alla Kalla í eldlínunni í sjálfum Góða hirðinum - allra bestu bókabúðinni í bænum. Það var Fjölva útgáfan, með Þorstein heitinn Thorarensen í broddi fylkingar, sem gaf út þessa myndasögu fyrir jólin árið 1980. Þorsteinn sjálfur þýddi bókina en þetta varð reyndar eina teiknimyndasagan sem kom út í þessum bókaflokki um Alla Kalla á íslensku. En líklega hefur íslenskum myndasögulesendum ekki litist vel á þessa fyrstu sögu um kappann og þessi bók seldist augljóslega ekki nægilega mikið til að réttlæta frekari útgáfu bóka úr seríunni á íslensku. Fjölvi var þá búinn að klára og senda frá sér allar Tinnabækurnar og Lukku Láki naut einnig orðið mikilla vinsælda en auk þess voru bækurnar um Sval og Val á sama tíma að slá í gegn hjá bókaútgáfunni Iðunni. Einhvern veginn hefur Alli Kalli því lent undir í öllu þessu myndasöguflóði og bækurnar um hann urðu ekki fleiri hér á landi. Það voru reyndar fjölmörg dæmi um það að ein til þrjár bækur úr hverri seríu væru gefnar út á Íslandi áður en útgefendur þeirra gáfust upp. Stærð myndasögumarkaðsins var einfaldlega ekki burðugri en þetta hér á landi.

Eins og svo oft á þessum árum voru teiknimyndasögur á íslensku gefnar út í samfloti með prentunum á hinum Norðurlöndunum og Alli Kalli í eldlínunni kom einmitt líka út í Danmörku hjá Interpresse útgáfunni fyrir jólin árið 1980. Á dönsku heitir þessi myndasaga August Julius - Kaminpassiar og var önnur bókin í seríunni sem kom út þar í landi. Alls komu út fimm bækur um August Julius á dönsku á árunum 1979-82 en einnig kom út ein þykk vasabrotsbók í svipaðri stærð og Lukku Láka bókin Á léttum fótum. Þá hafa að minnsta kosti fjórar bækur úr seríunni komið út á norsku, þar sem Achille Talon kallast Julius Jensen, og á finnsku nefnist hann Akilles Jänne. Þar er reyndar svolítið óljóst hversu margar bækur úr seríunni um hann komu út. Þá má þess einnig geta að í Hollandi eru þessar myndasögur gríðarlega vinsælar og í heildina hafa fjörtíu bækur úr bókaflokknum komið þar út. Alls hafa bækurnar um Alla Kalla verið þýddar á ellefu tungumálum innan Evrópu en auk þess hefur serían einnig komið út í Indonesíu. Upprunalega heitið á Alla Kalla í eldlínunni er Achille Talon au coin du feu og hún kom út í Frakklandi árið 1975. 

Achille Talon birtist fyrst í 211. tölublaði myndasögutímaritsins Pilote þann 7. nóvember árið 1963. Hið franska Pilote hafði verið í nokkrum fjárhagserfiðleikum, fljótlega upp úr stofnun blaðsins árið 1959, en þegar Dargaud útgáfufyrirtækið tók yfir rekstur þess voru gerðar ýmsar breytingar til hins betra. Hluti af þeim breytingum fólust einmitt í aðkomu Achille Talon og á svipuðum tíma fór Blueberry (Blástakkur) einnig að birtast í tímaritinu. Í tilefni þess að myndasögurnar um Achille Talon hófu göngu sína í Pilote birti ritstjórinn, og handritshöfundurinn afkastamikli, René Goscinny lýsingu á þessari nýjustu persónu blaðsins í vikulegum pistli sínum. Þar sagði hann meðal annars að Achille Talon byggi yfir yfirgripsmikilli þekkingu sem jafnaðist á við alfræðiorðabók ... sem vantaði margar blaðsíður í! Upphaflega var það reyndar Goscinny sjálfur sem bað Greg um að skapa einhverja skemmtilega fígúru til uppfyllingar á síðum blaðsins þegar auglýsendur brugðust. Greg brást snöggt við og á aðeins fimmtán mínútum var hann búinn að fullvinna hugmyndina. Hann ákvað að endurskapa að einhverju leyti þekkta franska myndasöguhetju, frá fjórða áratug tuttugustu aldarinnar, sem kallaðist Monsieur Poche og var eftir Alain Saint-Ogan. Achille Talon er því að hluta til innblásinn af þeirri persónu í útliti en er reyndar mjög ólíkur honum að öðru leyti. 

Jafnframt því að í hverri viku birtust nokkrar blaðsíður með Achille Talon, í Pilote tímaritinu, var þeim safnað saman og þær einnig gefnar út í bókaformi eins og hefð var fyrir í fransk/belgiska myndasöguheiminum. Alls komu út hátt í 50 bækur með kappanum á frummálinu og nutu þær töluverðra vinsælda. Fram til ársins 1975 birtist Achille Talon reglulega, á einnar eða tveggja síðna bröndurum, í Pilote en upp úr því fóru einnig að koma fram heilar sögur með kappanum sem voru 44 blaðsíður að lengd. Hann varð fljótlega eitt af helstu flaggskipum blaðsins og svo mikilla vinsælda naut Achille Talon að á svipuðum tíma fékk hann jafnvel gefið út sérstakt tímarit sem var tileinkað honum einum. Það tímarit nefndist Achille Talon magazine og lifði reyndar ekki nema eitt ár, enda þótti það frekar lélegt, en aðeins komu út sex tölublöð af því. Helsta ástæða þess var þó gríðarleg verðhækkun á pappír sem varð í kjölfar þess að olíukreppan skall á um svipað leyti.

En Achille Talon er undarlegur náungi sem finnst ofboðslega gaman að tala og er þá um leið líka eiginlega alveg óþolandi. Hann er heimspekilega þenkjandi og uppfullur af ofmetnum hugmyndum um eigið ágæti en mest af því sem hann hefur fram að færa stýrist reyndar aðallega af innihaldslausu orðagjálfi. Sú munnræpa kemur helst fram í stórum, mörgum og yfirfullum talblöðrum sem fylla oft á tíðum vel upp í myndarammana. Það sem hann hefur helst fram að færa einkennist af fáguðu orðavali, oft krydduðu með menningatengdum og fræðilegum skírskotunum. Nánast allt sem hann segir er hluti af skemmtilegum en lúmskum orðaleikjum sem oft er reyndar erfitt að ná úr frummálinu. Stundum hefur jafnvel verið talað um að svo örðugt sé að átta sig á bröndurunum, í þessum orðaleikjum Achille Talon, að hreinlega þurfi að vera búið að endurlesa bækurnar nokkrum sinnum áður en þeir komast til skila. Þegar lesendur eru síðan loksins búnir að ná orðaleikjabröndurunum eru menn sammála um að sá húmor sé mjög fyndinn. Það er að segja ef hann er ekki of flókinn því það er víst ekki á allra færi að skilja hann. Þannig má kannski segja að myndasögurnar um Achille Talon séu mjög fyndnar þó lesandinn sé ekki alltaf endilega vel meðvitaður um það! Sjálfur sagði Greg einhvern tímann í viðtali að orðagjálfur Achille Talon væri innblásið af einum af eðlisfræðikennurum hans frá námsárunum en hann gat talað klukkutímunum saman í svipuðum anda. Þetta flókna myndasöguefni hefur þó skilað sér á einhvern hátt inn í franskar kennslubækur og meira að segja í nokkrar doktorsritgerðir í Frakklandi, Belgíu og Kanada. Það hefur því væntanlega verið erfitt fyrir Þorstein Thorarensen að reyna að koma þessum orðaleikjum til skila í þýðingunni hans á Alla Kalla í eldlínunni

Sögusvið Achille Talon er mikið til í kringum heimili hans, í úthverfi stórborgarinnar þar sem hann býr, og bókin Alli Kalli í eldlínunni gerist til dæmis nær eingöngu á þeim slóðum. Í nokkrum af bókunum um hann kemur fram að hann búi í París og framan á kápu bókarinnar Achille Talon au pouvoir, frá árinu 1972, má einmitt sjá hvar Eiffelturninum bregður fyrir í bakgrunninum. Annars kemur hann yfirleitt nokkuð víða við og er til dæmis duglegur að bregða sér í sveitaferðir úti í náttúrunni. Skrifstofan þar sem hann starfar er vinsælt sögusvið og einnig bakgarðurinn heima hjá honum og nágranna hans, Hilarion Lefuneste (hann heitir Faraldur á íslensku), sem kemur nokkuð oft við sögu. Lefunete þessi er í eilífum átökum við Achille Talon og reglulegur pirringur þeirra á milli er mjög áberandi í bókunum þó þess á milli séu þeir reyndar perluvinir. Fyrst og fremst byggjast þessi átök þeirra á hvössum orðaskiptum en iðulega eru þó hnefarnir einnig látnir tala. Þess má geta að persónuna Hilarion Lefuneste byggir höfundurinn Greg að miklu leyti á sjálfum sér. Af öðrum af helstu aukapersónum seríunnar má nefna foreldra hans, hinn bjórþyrsta alkóhólista Alambic Dieudonné Corydon Talon (kallaður Pápi) og móður hans maman Talon.

Acille Talon er einhleypur, býr hjá foreldrum sínum og það er því eðlilegt að að þau komi nokkuð við sögu seríunnar. Móðir hans, sem er gamaldags húsmóðir, ber mikla umhyggju fyrir honum, verndar hann eftir bestu getu og hefur stöðugar áhyggjur af líðan hans. Faðir hans er hins vegar af öðru toga. Þeir feðgarnir eru reyndar nokkuð líkir útlitslega utan gríðarlegrar rauðrar hormottu sem sá gamli skartar en lengra nær samlíkingin ekki. Hið yfirþyrmandi bjórþamb föður hans er meðal annars eitt þeirra atriða sem gera það að verkum að Achille Talon á lítið erindi við börn og hinir flóknu orðaleikir ýta ennfremur undir þá skoðun. Í rauninni er það óskiljanlegt að þessi myndasögupersóna hafi ratað í hið vinsæla Pilote tímarit sem var aðallega tileinkað frekar ungum markhópi. Achille Talon telst því klárlega til andhetja og brandararnir um hann minna um margt á Viggó viðutan þó persónurnar séu afar ólíkar. Báðir starfa þeir hjá útgáfufyrirtækjum. Viggó auðvitað hjá tímaritinu Sval (SPIROU) en Achille Talon starfar hjá dagblaðinu Polite (Kurteisi!) sem er auðvitað orðaleikur og afbökun á tímaritinu Pilote sem myndasögupersónan sjálf birtist einmitt í. Samstarfsfólk þeirra beggja verður auðvitað jafnan fyrir barðinu á aðalsöguhetjunum og hjá Polite er það sjálfur René Goscinny sem er ritstjóri blaðsins. Í þessum bókum er Goscinny reyndar teiknaður sem mjög lágvaxinn, skapvondur og tannhvass maður.


Svo föst varð þessi dvergsímynd hans í seríunni að það kom mörgum lesendum Achille Talon í opna skjöldu þegar þeir hittu Goscinny sjálfan í eigin persónu og uppgötvuðu að hann var í raun meðalmaður á hæð. Þá voru þeir Greg og André Franquin, höfundur Viggós viðutan, ágætir félagar og unnu saman við ýmis verkefni hjá SPIROU tímaritinu á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar. Hann var Franquin til dæmis innan handar við handritsgerð að nokkrum sögum um Sval og Val en einnig samdi hann fáein handrit um skötuhjúin Modeste og Pompon fyrir sama listamann. Franquin hafði leiðbeint Greg með teiknivinnu sína þegar sá síðarnefndi hóf störf hjá SPIROU á sínum tíma. Og Greg lét hafa það eftir sér löngu seinna að hæfileikar Franquins hefðu verið slíkir að hann hefði fundið fyrir algjörum vanmætti gangvart listamanninum snjalla. Greg hefði haft það á tilfinningunni að Franquin þyrfti að leiðbeina honum um hvorn endann á teiknipennanum hann ætti að nota, svo lélegur hafði honum sjálfum þótt hann vera í samanburðinum. Seinna heiðraði Greg vin sinn með því að teikna hann inn í eina af sögum sínum um Achille Talon.

Þá var Greg einnig aðalritstjóri Le Journal de Tintin (Tinna tímaritsins), á árunum 1965-74, jafnframt því að teikna Achille Talon í Pilote. Greg var auðvitað fyrst og fremst handritshöfundur og eftir hann liggja vel á annað hundrað sögur fyrir marga mismunandi listamenn. Sem dæmi um vinnu Greg má til dæmis nefna kvikmyndahandritið að Tintin et le lac aux requins (Tinna og hákarlavatninu) frá árinu 1972 og handrit fyrir Hergé að Tinna sögunni Tintin et le Thermozéro sem þó var aldrei teiknuð. Um þá sögu fjallaði SVEPPAGREIFINN meðal annars í færslu hér fyrir ekki svo löngu. Sjálfur hóf Greg feril sinn sem myndasöguteiknari og reyndi fyrir sér á ýmsum vettvangi þar en af þeirri vinnu allri urðu myndasögurnar um Achille Talon þó langþekktastur. Eftir hann liggja því um tvö hundruð og fimmtíu verk af ýmsum toga, bæði handritum og teiknivinnu, sem gera hann að einum af áhrifamestu listamönnum belgísk/frönsku myndasögugerðarinnar. Greg lést í október árið 1999.

Eftir að hafa gluggað svolítið í þessar myndasögur um Achille Talon (eða Alla Kalla) verður SVEPPAGREIFINN að játa að hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Brandararnir eru svo sem alveg lipurlega teiknaðir og allt það, þó þeir séu reyndar engin listaverk, en grínið sjálft er ekki að heilla hann. Fyrr í færslunni er minnst á flókna orðaleiki þar sem Alli Kalli fer á kostum í munnræpu sinni og margir lesendur seríunnar lýsa yfir sérstakri aðdáun sinni á þeim. Auðvitað er SVEPPAGREIFINN ekki lesfær af neinu viti á frönsku en með aðstoð Greifynju sinnar tókst honum að stauta sig fram úr nokkrum bröndurum bóka sinna áður en hann gafst upp. Og sömu sögu má segja um dönsku útgáfurnar hans. SVEPPAGREIFANUM fannst húmorinn eiginlega bara þreytandi og honum þótti persónan Alli Kalli bæði leiðinleg og óþolandi - sem hann á reyndar auðvitað að vera. Hugsanlega var eina íslenska bókin, Alli Kalli í eldlínunni, heldur ekki heppilegasta bókin til að byrja bókaflokkinn á hér á landi. Að sumum bröndurum seríunnar var reyndar alveg hægt að brosa svolítið en hreinskilnislega voru það helst textalausu brandararnir sem honum þóttu fyndnir.


Auðvelda skýringin hlýtur því að felast í að SVEPPAGREIFINN sé of einfaldur eða heimskur til að skilja húmorinn. Fjölmargir hafa lýst yfir hrifningu sinni yfir þessari seríu og þar sem hann hafði aldrei áður flett bókinni Alla Kalla í eldlínunni reiknaði hann líklega alltaf með að vera með óuppgötvaðan gullmola í höndunum. Væntingarnar voru því kannski fullmiklar. Ætli að ráðleggingarnar um síendurtekinn lestur bókanna, til að skilja brandarana, eigi því ekki fullan rétt á sér? Hugsanlegt er að SVEPPAGREIFINN verði loksins búinn að ná húmornum í kringum sextugt!

En gott eintak af Alla Kalla í eldlínunni er alla vega loksins komin í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS og það er auðvitað fyrir mestu. 

19. febrúar 2021

185. Í ANDA VIGGÓS VIÐUTAN

Alltaf skal SVEPPAGREIFINN vera opinn fyrir ýmsum möguleikum þegar kemur að því að skreyta híbýli sín með einhverjum skemmtilegum myndasögutengdum hætti. Það versta við slíkar hugmyndir er að ekki er víst endalaust hægt að betrumbæta, það sem fyrir er, þó vissulega sé áhugi á slíku alltaf fyrir hendi. Rýmið á heimili hans er einfaldlega ekki lengur til staðar eftir nokkurra ára endurbætur og framkvæmdir. Þá er ekki um annað að ræða en að deila þessum hugrenningum og gefa einhverjum öðrum kost á að nota þær svo þær geti orðið að veruleika. 

Að þessu sinni fann SVEPPAGREIFINN skemmtilegt efni sem tengist þekktum brandara um Viggó viðutan sem að sjálfsögðu er runninn undan rifjum listamannsins André Franquin. Viggó hefur svo sem áður komið við sögu í færslu af heimilisskreytingavettvangi Hrakfara og heimskupara og þar er skemmst að minnast skemmtilegrar bókahillu sem SVEPPAGREIFINN fann eitt sinni á hinum fjölbreytilegu víðáttum Internetsins. En margir muna eflaust eftir tveggja mynda brandara sem birtist í Viggó bókinni Kúnstir og klækjabrögð, sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér árið 1988, í þýðingu Bjarna Friðriks Karlssonar. Þarna standa þeir Viggó og Valur saman, hugsanlega staddir á einhvers konar lítt spennandi listviðburði eða móttöku, þar sem báðir eru þeir spariklæddir auk þess sem Valur heldur á vínglasi í annarri hendinni. Við hlið þeirra á veggnum hangir stórgert, köflótt veggteppi með frekar einhæfu og litlausu taflborðsmynstri. Viggó rekur þar augun í lausan enda á jaðrinum á miðju teppinu og auðvitað stenst hann ekki freistinguna og kippir í þráðinn.

Þessi brandari Franquins er auðvitað frábær og er um leið svolítil ögrun fyrir augað. Fyrst og fremst hefur tæknilega vinnan hans falist í því að teikna hina afmynduðu reiti eftir að Viggó hefur kippt í spottann og að staðsetja teygjanleika þeirra á réttum stöðum. Teiknivinnan sjálf hefur þó verið tiltölulega einföld, ef vel er að gáð, og málið hefur líklega helst snúist um það að gæta þess að fjöldi reitanna á teppinu séu réttir. Og auðvitað varð Franquin ekki á nein mistök þar. En hugmyndin sem SVEPPAGREIFINN nefndi, í byrjun þessarar færslu, kemur til af ljósmynd sem hann rakst á fyrir skömmu og tengdi strax við þennan frábæra brandara. Þessi mynd er af flísalögðu gólfi og mögulega á það rætur sínar að rekja til myndar Franquins. Hér er um að ræða gólf á svolítið litlausum gangi en ekki koma þó fram upplýsingar um í hvers konar tegund af húsnæði hann er að finna. Reyndar er þarna varla hægt að tala lengur um mjög litlausan gang!

En þessi útfærsla á gólfinu er hreint frábær og einstaklega vel heppnuð. Ólíklegt er þó að þarna sé um að ræða alvöru flísar þar sem þær gólfflísar hefði þurft að steypa sérstaklega fyrir þetta verkefni. Það verða því að áætla að gólfið sé málað en það er engu að síður frábærlega vel útfært og þrívíddin kemur einkar vel út - að minnsta kosti frá þessu sjónarhorni. Það væri gaman ef einhver frjór og fórnfús flísaframleiðandi tæki að sér það verkefni að fjöldaframleiða svona púsluspil. Líklega væri þó ekki mjög stór markaður fyrir slíkum húmor - og þó. Eflaust væru einhverjir neytendur tilbúnir að fjárfesta í þeim húmor og skreyta einhver híbýli sín með þessum hætti. Flestir þeirra kaupenda kæmu vafalaust úr hópi aðdáenda Viggós viðutan og SVEPPAGREIFINN væri klárlega til í svona flísar. Það er að segja ef hann hefði eitthvað laust gólf á sínum vegum sem hentaði fyrir þær.

5. febrúar 2021

184. NASHYRNINGUR Í KONGÓ

Hin umdeilda Tinni í Kongó (Tintin au Congo - 1930) kom fyrst fyrir sjónir íslenskra lesenda skömmu fyrir jólin árið 1976 og tiltölulega fljótlega eftir það eignaðist SVEPPAGREIFINN þessa alræmdu bók. Ekki getur síðuhafi þó stærst sig af því að hafa strax í bernsku áttað sig á hennar helstu göllum en líkt og með allar hinar Tinna bækurnar var þessi myndasaga lesin upp til agna eins og lög gera ráð fyrir. Tinni í Kongó var þó langt frá því að þykja skemmtilegasta sagan og tiltölulega snemma varð SVEPPAGREIFINN meðvitaður um að gæði bókarinnar væru ekki í samræmi við aðrar Tinna sögur. Hún var þó lesin áfram af sömu áfergju en kynþáttafordómar, dýraníð, umhverfisspjöll og hroðvirkislegur söguþráður var þá enn afar fjarlægur veruleiki. Sagan var auðvitað bara fyrst og fremst teiknimyndasaga en um leið líka barn síns tíma. Það uppgötvaðist reyndar ekki fyrr en löngu seinna og verður ekki uppistaðan í færslu dagsins að þessu sinni.

SVEPPAGREIFINN var því orðinn einlægur Tinna aðdáandi í æsku og þau bernskubrek eltust ekkert af honum þó hann næði að fullorðnast eitthvað. Þessi aðdáun beindist reyndar einnig að öðrum myndasöguseríum og með tímanum varð sú aðdáun meira samofin hinni meðfæddu söfnunaráráttu hans. Þannig hefur hann á sama hátt einnig haft ríkulega þörf fyrir það viða að sér sem mestum fróðleik sem tengist þessu nördalega áhugamáli sínu. Á fullorðinsárum sínum hefur SVEPPAGREIFINN því verið nokkuð duglegur við að versla sér ýmsar skemmtilegar bækur sem fjalla um Hergé og fræðast meira um Tinna bækurnar á margskonar hátt. Eflaust þekkja til dæmis einhverjir til hins breska Tinna sérfræðings Michael Farr sem skrifað hefur nokkrar áhugaverðar bækur um efnið auk þess sem hann hefur einnig þýtt sambærileg rit. Tintin - The Complete Companion eftir Farr og Tintin and the World of Hergé eftir Benoit Peeters þekkja líklega margir aðdáendur seríunnar. Í báðum þessum bókum eru serían um Tinna tekin fyrir í tímaröð og í þeim fjallað um ýmislegt fróðlegt efni (oft áður ókunn) sem tengist hverri sögu fyrir sig.

Í báðum þeim bókum eru einmitt greinar sem fjalla um hina frægu blaðsíðu 56 í Tinna í Kongó. En Tintin au Congo kom fyrst út í bókaformi í Belgíu árið 1931 og var þá ekki bara í svart/hvítu heldur einnig heilar 110 blaðsíður að lengd. Sagan var síðan endurteiknuð, lituð og stytt niður í hefðbundnar 62 blaðsíður fyrir nýja útgáfu árið 1946 og þannig hefur hún verið að mestu leyti síðan. Þegar hins vegar stóð til að gefa Tinni í Kongó í fyrsta sinn út á Norðurlöndunum, árið 1975, þótti hinum skandinavisku útgefendum helst til gróf atburðarás eiga sér stað, undir lok sögunnar, á blaðsíðu 56. Þar sást hvar Tinni röltir um slétturnar með myndavélina sína á þrífæti og sér hvar vörpulegur nashyrningur spókar sig um í nágrenninu. Tinni sér þarna tækifæri til að eignast glæsilegan veiðiminjagrip (sem hann hefur líklega ætlað að hafa uppstoppaðan hjá sér í stofunni!) og tekur að bauna á hann kúlum úr veiðibyssunni sinni. Ekkert bítur hins vegar á hinn brynvarða nashyrning. Tinni telur því þann kostinn vænstan að læðast að honum, bora gat á bakið á honum, stinga dínamítsstöng þar í og sprengja nashyrninginn síðan í loft upp. Þetta fannst hinum siðmenntuðu Norðurlandabúum helst til ofbeldisfull veiðiaðferð og fóru fram á við Hergé að hann myndi finna hentugri lausn fyrir hina ungu lesendur Skandinavíu. Þegar Tinni í Kongó hafði verið endurteiknuð árið 1946 hafði Hergé reyndar sjálfum verið töluvert misboðið með ýmislegt í sögunni. Hann tók þá verulega til í henni og lagfærði ýmsa vankanta. Og þegar norrænu útgefendurnir fóru fram á að hann myndi laga þessa áðurnefndu blaðsíðu, árið 1975, var hann meira en lítið til í að verða við ósk þeirra. Sjálfur var Hergé fyrir löngu farinn að átta sig á að sagan væri í engu samræmi við nútíma veiðihætti eða dýraverndarsjónarmið. Hann endurteiknaði því blaðsíðuna og í stað hinnar áðurnefndu atburðarásar sofnar Tinni undir tré. Þá krækir nashyrningurinn óvart í byssu hans, hleypir af skoti út í bláinn og flýr síðan af vettvangi alls ómeiddur. Þessa sakleysilegu atburðarrás þekktu íslenskir lesendur bókanna einmitt vel og SVEPPAGREIFNN las reglulega í sinni bók í mörg ár eftir að sagan kom fyrst út á íslensku.

Þessi 1. íslenska útgáfa bókarinnar Tinni í Kongó komst tiltölulega snemma í myndasöguhillur heimilisins eins og vikið var að í upphafi færslunnar. Bókin fékk þó ekki þá tilhlýðilega virðingu sem teiknimyndasögur eiga skilið frekar en aðrar sambærilegar eignir hins barnunga SVEPPAGREIFA. Upprunalega eintakið hans varð með tímanum afar snjáð enda lestur þess, og reyndar önnur notkun, engan veginn boðleg þessum sígildu heimsbókmenntum. Helstu útlitslýti bókarinnar fólust í snjáðum kili, hálfrifnum uppábrettum blaðsíðum og kyrfilega merktri fyrstu blaðsíðu þar sem fram kom nafn eigandans, heimilisfang hans (með bæjarfélagi og ríkisfangi) og að ógleymdu nafnnúmeri. Í minningunni var þetta án nokkurs vafa einnig párað með klunnalegum og allt of stórum skrifstöfum. En auk þess mátti eflaust líka finna kakóbolla-far á kápu hennar, bylgjóttar blaðsíður eftir að hafa hellt yfir hana djúsglasi og að sjálfsögðu lausan kjöl eftir hina illa viðurkenndu ólympíugrein, bókatennis! Öll þessi lýti voru að sjálfsögðu í samræmi við eðlilega notkun og vafalaust hafa margir aðrir íslenskir lesendur bókanna haft svipaðar sögur að segja um sínar bækur. Þegar SVEPPAGREIFINN komst síðan loksins á fullorðinsaldurinn (hvenær sem það var) fékk hann þörf á að endurnýja kynni sín við þessar eftirminnilegu myndasögur. Það einskorðaðist reyndar ekki bara við Tinna bækurnar heldur var markmiðið fljótlega sett á að sanka að sér sem flestum af þeim teiknimyndasögum sem gefnar voru út í bernsku hans - og helst meiru til. Þetta gekk vonum framar, enda voru þá enn nokkur ár í að fleira áhugafólk færi að hamstra þessar bækur hvar sem til þeirra náðist. Nýtt og vel með farið eintak af 1. útgáfu af Tinna í Kongó fannst fljótlega einhvers staðar og á fáeinum árum voru fullkomnar 2. og 3. útgáfa bókarinnar einnig komnar í hús, auk betri eintaka allra hinna Tinna bókanna. Enn á þó reyndar eftir að nálgast eitthvað af sjaldgæfustu útgáfunum af elstu bókunum og nýjustu útgáfurnar af sögunni sem Froskur útgáfa sendi frá sér fyrir síðustu jól.

Allar þessar myndasögur fóru hins vegar beint niður í kassa, á sínum tíma, enda þá enn ekki tímabært að flíka hálfkláruðu safni í vanbúnum og ófullkomnum íbúðaúrræðum. Fyrir nokkrum árum fjárfesti SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans síðan í litlu hreiðri, í formi einbýlishúss, og töldu sig loksins vera kominn á varanlega stað húsnæðislega. Myndasögurnar allar voru teknar upp úr kössum sínum og komið fyrir á góðum stað á heimilinu sem hæfir virðulegu myndasögusafni. Jafnframt hefur verið fjárfest reglulega í þeim bókum sem upp á vantar auk þess sem erlendar myndasögur hafa verið keyptar til að fylla upp í og krydda safnið. SVEPPAGREIFINN hefur því undanfarin árin sest reglulega niður, virt stoltur fyrir sér og dáðst að myndasöguhillunum sínum en einnig auðvitað gripið til einnar og einnar bókar til lestrar. Og fyrir ekki svo löngu síðan greip hann allar þrjár útgáfurnar sínar af Tinna í Kongó úr hillunum og velti þeim svolítið á milli handanna. Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir það eitt að fyrir algjöra tilviljun uppgötvaði hann að í 3. útgáfu íslensku bókarinnar, sem gefin var út árið 2008, er að finna frávik frá fyrri útgáfunum tveimur. Skyndilega kemur nefnilega í ljós að þessi bók hefur að geyma 1946-útgáfuna af blaðsíðu 56 sem sleppt var úr norrænu útgáfunni á sínum tíma.

Þarna varð hinn stolti eigandi myndasögusafnsins nánast höggdofa. Hann var búinn að vita af þessari frægu blaðsíðu 56 í fjölda ára en hefur aldrei haft rænu á að kanna hvort hana væri að finna í einhverri af íslensku útgáfunum. Hvergi hafði neitt verið gefið út um það fyrirfram hjá Fjölva útgáfunni og það var ekkert sem benti til að gera ætti einhverjar breytingar á Tinna í Kongó í þessari 3. útgáfu. Og svo birtist blaðsíðan ofbeldisfulla nánast upp úr engu beint fyrir framan nefið á honum og líklega hefur enginn verið að velta fyrir sér þessa merkilegu staðreynd. SVEPPAGREIFINN fór auðvitað að kanna hvernig þessu væri háttað í nýjustu útgáfunni af bókinni frá Froski útgáfu og þá kom í ljós að þessa sömu 1946-útgáfu er einnig að finna þar. Sú útgáfa er því væntanlega komin til að vera. Auðvitað er skemmtilegast að sjá þessar sögur í sem upprunalegustu mynd og undanfarin ár hefur upprunalega sagan, sem gefin var út í bókaformi árið 1931, einnig verið að koma út í mörgum löndum. 

En gaman að þessu.

22. janúar 2021

183. SVALUR OG VALUR Í HÖNDUM YVES CHALAND

Sval og Val bækurnar þekkja auðvitað allir aðdáendur belgískra teiknimyndasagna en þær bækur eru í uppáhaldi hjá nokkuð mörgum. Íslenskir myndasögulesendur fengu fyrst að kynnast þessum bókum skömmu fyrir jól 1978, þegar Hrakfallaferð til Feluborgar kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni, og næstu fjórtán árin voru alls gefnar út tuttugu og níu sögur á Íslandi úr þessum vinsæla bókaflokki. Rúmlega tuttugu árum seinna hóf Froskur útgáfa svo að senda frá sér þessar bækur á ný og nú hafa alls verið gefnar út þrjátíu og sjö Sval og Val bækur á Íslandi. Og vonandi á enn eftir að bætast í það safn. Fyrstu bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma voru eftir belgíska listamanninn André Franquin en síðan bættust við fáeinar sögur sem Jean-Claude Fournier hafði teiknað og að síðustu komu út hjá þeim nokkrar bækur eftir tvíeykið Tome og Janry. Síðasta Sval og Val sagan sem Iðunn gaf út árið 1992, Seinheppinn syndaselur, var einmitt eftir þá félaga en Tome og Janry voru þá enn höfundar seríunnar og voru nokkur ár í viðbót áður en aðrir tóku við.
Jean-Claude Fournier gerði alls níu sögur í bókaflokknum (og af þeim komu fimm út á íslensku) en síðasta saga hans, Des haricots partout, var gefin út í bókaformi árið 1980 eftir að hafa birst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU árið á undan. Þegar sú saga hafði runnið skeið sitt á enda hóf Fournier vinnu að næstu sögu sem þegar hafði hlotið vinnuheitið La maison dans la mousse. Á svipuðum tíma vildi Dupuis útgáfufyrirtækið hins vegar koma fram nýjum áherslum varðandi sýnileika Svals og Vals í blaðinu þar sem þeim fannst sögurnar vera orðnar of stopular. Stjórnendum þess þótti Fournier ekki nægilega afkastamikill og fyrirtækið ákvað því að myndasögunum um Sval yrði skipt á milli fáeinna mismunandi höfunda eða teyma til að auka sýnileika þeirra í blaðinu. Þetta var eitthvað sem Fournier sætti sig alls ekki við og hrökklaðist því frá störfum. Hann hafði teiknað Sval og Val í tíu ár og hugnaðist ekki að deila þeim félögum með öðrum. Það varð því ekkert úr því að La maison dans la mousse birtist í SPIROU tímaritinu og þær fimm hálfkláruðu blaðsíður sem komnar voru af sögunni hafa því að mestu legið í skúffum Fourniers síðan þá. Því tók við töluvert óvissutímabil í útgáfuferli Svals og Vals en svo gerðist það, líklega í einhverri örvæntingu Dupuis útgáfunnar, að tvíeykið Nic og Cauvin tók allt í einu frekar óvænt við seríunni. Samhliða sögum þeirra vann síðan annað tvíeyki, Tome og Janry, einnig að sögum um Sval og Val og birtust þessar sögur því sitt á hvað í blaðinu á árunum 1980-83 en þær voru síðan jafnframt gefnar út í bókaformi. Með þessari tilhögun jókst viðvera þeirra Svals og Vals mikið í tímaritinu og stjórnendur Dupuis fengu því sínu framgengt. Sögur þeirra Nic og Cauvin slógu reyndar ekki í gegn, og eru jafnan taldar á meðal hinna lélegustu í allri seríunni, en Tome og Janry þóttu hins vegar standa sig nægilega vel til að hreppa hnossið til frambúðar. En mitt í þessum óvissutímum skaut einnig fram á sjónarsviðið ungum Frakka, Yves Chaland, sem bættist í hóp þeirra listamanna sem fengu að spreyta sig á því að teikna Sval og félaga í SPIROU. Þann 22. apríl 1982 birtust þeir Svalur og Valur skyndilega í tveimur myndaröðum, neðst á blaðsíðum 2 og 3, með útliti sem ungum lesendur tímaritsins á þeim tíma var nokkuð framandi.
Þessar tvær myndaraðir voru með mjög óvenjulegu yfirbragði og líktust óneitanlega stíl þeirra myndasagna sem teiknaðar voru á fimmta og sjötta áratug tuttugustu aldarinnar. Útlitslega minntu þessar teikningar klárlega á árdaga Svals sjálfs sem listamaðurinn Rob-Vel hafði skapað en Franquin hafði síðan tekið við og þróað undir handleiðslu hins hæfileikaríka Jijé (Joseph Gillain). Franquin hafði einmitt tilheyrt hópi fjögurra listamanna (sem fengu síðan viðurnefnið fjórmenningagengið) sem auk þeirra Jijé hafði að geyma þá Morris (Maurice de Bevere) og Will (Willy Maltaite). En saman þróuðu þeir stílinn sem kenndur hefur verið við ligne atome og nefndur var til aðgreiningar frá ligne claire sem uppruna sinn átti að miklu leyti hjá Hergé höfundi Tinna bókanna. Jijé leiðbeindi þessum hóp sem síðar varð skilgreindur sem fyrsta kynslóð Marcinelle skólans en Dupuis fyrirtækið var einmitt staðsett í þeirri borg. Listamennirnir fjórir hafa í seinni tíð verið nefndir sem helstu frumkvöðlar evrópsku myndasöguhefðarinnar eftir stríð. Með tímanum þróaðist ligne atome enn frekar með tilkomu nýrra lærisveina sem unnu meðal annars undir handleiðslu fjórmenninganna en teiknistíll og reyndar allt yfirbragð Yves Chaland einkenndist hins vegar af bernskudögum þess stíls. Þegar sagan birtist í SPIROU tímaritinu á sínum tíma nefndist hún einfaldlega Les Aventures de Spirou en í ólöglegum útgáfum seinna hlaut sagan heitið À la recherche de Bocongo og síðar Coeurs d'acier þegar hún kom loksins löglega út.
Yves Chaland var fæddur árið 1957 og var því 25 ára gamall þegar hann þreytti þessa frumraun sína með Sval í tímaritinu en sem barn hafði hann drukkið í sig belgískar myndasögubókmenntir og hafði alla tíð verið mikill aðdáandi þeirra. Hann hafði lesið allar þær myndasögur sem hann komst yfir í æsku og sem dæmi um áhuga hans má nefna að hann fékk birt eftir sig bréf sem hann sendi SPIROU blaðinu árið 1970 þegar hann var 13 ára gamall. Chaland fór fljótlega að teikna sjálfur og tileinkaði sér á stuttum tíma þennan óvenjulega stíl og sínar fyrstu myndasögur fékk hann birtar á prenti aðeins sautján ára gamall. Alain De Kuyssche hjá SPIROU, sem er reyndar aðalritstjóri tímaritsins í dag, hitti Chaland fyrst í júlí árið 1981, þegar hann vann að öðru verkefni fyrir blaðið, og fáeinum mánuðum eftir það óskaði hann eftir því við Chaland að hann tæki að sér að teikna sögur um Sval og Val. De Kuyssche var mjög hrifinn af hinum óvenjulega teiknistíl listamannsins og það var hann sem átti hugmyndina að því að hafa myndaraðirnar í svart/hvítu þannig að þær hæfðu stílnum sem best. Yves Chaland var alltaf mjög önnum kafinn en með því að skila af sér aðeins þessum tveimur myndaröðum á viku tókst honum að halda sig innan tímarammans og samræma þetta verkefni öðrum störfum sínum. Þetta var mikill heiður fyrir listamanninn því hann hafði alltaf verið aðdáandi þeirra Svals og Vals og þarna fékk hann tækifæri til að láta gamlan draum, um að teikna átrúnaðargoð sín, rætast. Svo mikla trú hafði De Kuyssche á hæfileikum Chaland að hann veitti honum þann heiður að teikna forsíðu SPIROU blaðsins, þann 29. apríl árið 1982, aðeins viku eftir fyrstu birtinguna. En þar fyrir utan fékk Chaland jafnmikið greitt fyrir sínar tvær myndaraðir og aðrir listamenn fengu fyrir hverjar fjórar.
Þessi Sval og Val saga Yves Chaland í SPIROU tímaritinu entist því miður ekki lengi. Lesendur blaðsins, sem flestir voru auðvitað bara börn og unglingar, fannst sagan einkennilega ögrandi og skrítin og vissu ekki alveg hvernig þau áttu að taka henni. Þá höfðaði hinn framandi retró-stíll hennar ekki alveg til þessa unga markhóps og að endingu var birtingu hennar hætt í miðri sögu. Þá höfðu tæplega 50 myndaraðir úr sögunni birst í tímaritinu og það síðasta sem kom fyrir sjónir lesenda þess var heil síða, sem birtist á blaðsíðu 3 þann 16. september 1982, en hún endaði á einhvers konar yfirliti með myndaröð af hugsanlegu framhaldi. Pressan stóð á Charles Dupuis úr öllum áttum og það var hann sem ákvað að binda enda á sögu Chaland í blaðinu en opinberlega var það gefið út að vinna hans hefði verið of dýr. Það þótti ekki réttlætanlegt að greiða frönskum listamanni, sem auk þess var hálfgerður nýliði, helmingi meira en belgískum kollegum hans.
Líklega var þó málið að Charles Dupuis væri hræddur um að þarna væru þeir Svalur og Valur komnir of langt frá því útliti og stefnu sem Franquin hafði mótað fyrr á árum. André Franquin hafði verið höfundur seríunnar mjög lengi og skapað ákveðið fordæmi sem Fournier hafði síðan fylgt samviskusamlega vel eftir. Sennilega fannst stjórnendum Dupuis ekki viðeigandi að nýr höfundur viki svo langt frá þeirri braut. Þær myndasögur sem höfðuðu meira til eldri lesenda, eða jafnvel fullorðna, áttu heldur ekki upp á pallborðið hjá blaðinu en í byrjun níunda áratugarins var tíðarandinn þannig að óhugsandi þótti að hugsa út fyrir ramma sem hafði svo fastmótuð og íhaldsöm gildi. Í dag er þessu sem betur fer allt öðru vísi háttað og fæstir lesendur eiga í neinum vandræðum með að njóta fjölbreytilegrar víðsýni með uppáhalds sögupersónunum sínum. Hvort sem það er Svalur og Valur, Lukku Láki, James Bond eða jafnvel uuh... Jesús. Reyndar er markhópurinn fyrir myndasögur í dag orðinn töluvert eldri en hann var árið 1982. Yves Chaland var einmitt í hópi nokkurra listamanna sem reyndu að endurreisa þennan klassíska stíl eftir að myndasögur af franska málsvæðinu höfðu að mörgu leyti staðnað um hríð. Nálgun Chaland hefur núna öðlast ákveðna viðurkenningu og í seinni tíð hefur slíkt afturhvarf einmitt verið mjög vinsælt hjá höfundum myndasagna. Skýr dæmi um það má til að mynda sjá á bókum úr hliðarseríunni Sérstökum ævintýrum Svals ... en þar fá ýmsir listamenn tækifæri til að spreyta sig á frjálslegan hátt í sjálfstæðum sögum með þeim Sval og Val. Margir þeirra hafa einmitt fetað í fótspor Chaland og í seríunni gætir einmitt töluvert áhrifa hans, bæði með vísunum í hinn fallega retro-stíl hans en einnig sögusvið. Í þeim bókum má ennfremur finna beina tengingu við Yves Chaland en handritshöfundurinn Yann Pennetier (Yann) skrifaði söguna Le Groom Vert-de-Gris (2009), á sínum tíma, upphaflega með listamanninn Chaland í huga. Hann fékk því miður aldrei tækifæri til að teikna hana en teiknarinn Oliver Schwartz, sem einmitt er einn þeirra listamanna sem hefur tekið sér stíl Chaland til fyrirmyndar, tók að sér að teikna söguna í hans anda. Margir muna það örugglega að Le Groom Vert-de-Gris birtist í myndasögutímaritinu Neo Blek árið 2011 og nefndist þá Á valdi kakkalakkanna. Yann og Schwartz gerðu síðan aðra sögu í hliðarseríunni um Sval sem hét La Femme léopard (2014) en hún er sjálfstætt framhald Le Groom Vert-de-Gris. Sú saga var reyndar ekki samin fyrir Chaland en er í sama stíl og söguþráður hennar minnir óneitanlega á einmitt hina hálfkláruðu Sval og Val sögu hans í SPIROU blaðinu. Þriðja sagan eftir tvíeykið úr þessari seríu heitir Le Maître des hosties noires en hún kom út árið 2017 og er að sjálfsögðu einnig í sama anda.
Eftir að Svalur og Valur, í meðförum Chaland, hættu að birtast í SPIROU tímaritinu hafði hann ekki leyfi til að halda áfram með framhaldið og gefa söguna út í heild sinni. Dupuis fyrirtækið átti útgáfuréttinn af Sval og Val og opinberir höfundar seríunnar voru þá annars vegar þeir Nic og Cauvin og hins vegar Tome og Janry. Sagan lá því nokkuð lengi í gleymsku en árið 1990 var hún dregin fram og gefin út hjá Champaka útgáfunni í vandaðri þúsund eintaka viðhafnarútgáfu, undir heitinu Coeurs d'acier (hefti 1 og 2), sem öll voru árituð af Chaland. Fyrra heftið hafði að geyma söguna eins og hún birtist í SPIROU blaðinu en nú hafði hún einnig verið lituð af Isabelle eiginkonu Chaland. Seinna heftið hafði aftur á móti að geyma það framhald af sögunni sem upp á vantaði en að þessu sinni í myndskreyttu textaformi. Sá hluti sögunnar var einmitt unninn af áðurnefndum handritshöfundi Yann og í nánu samráði við Chaland en þeir tveir voru góðir vinir. Dupuis átti auðvitað réttinn af þeim Sval og Val og því sjást þeir aldrei beint í myndskreytingum seinna heftisins. Útgefendurnir fóru hins vegar lymskulega í kringum það með því að láta andlit þeirra og líkama ætíð vera hulin hlébarðaskinni en auk þess voru þeir Svalur og Valur aldrei nefndir á nafn í því hefti. Þessi útgáfa var aðeins í boði í sérhæfðum bókabúðum en árið 1997 gat almenningur loksins eignast söguna á prenti þar sem hún birtist í hluta af heildarverkum Yves Chaland. Seinna hefur sagan svo verið gefin út bæði af Champaka en einnig af Dupuis.
Í þeim bókum sem heildarverk Chaland hafa verið birt má einnig sjá töluvert af aukaefni sem hafði ekki komið áður fyrir augu almennings. Þar má til dæmis finna ýmislegt skemmtilegt efni sem kætir vafalítið aðdáendur bókanna um Sval og Val en sýnir um leið hve Svalur var listamanninum hugleikinn. Líklega um það leyti sem hann var að byrja að teikna Sval í SPIROU tímaritinu tók hann sig einnig til og útbjó fimm ímyndaðar bókakápur af safnheftum SPIROU blaðanna. Fyrir þá sem ekki þekkja var (og er hugsanlega enn) hefð fyrir því að safna saman blöðunum á um það bil tveggja mánaða fresti og gefa þau út í þykkum innbundnum heftum. Þetta hafði tíðkast alveg frá því SPIROU blöðin voru gefin fyrst út á fjórða áratuginum en þessi safnhefti eru í dag líklega orðin um 400 talsins. Reyndar er SVEPPAGREIFANUM ekki alveg kunnugt um hvort þessi innbundnu hefti komi enn út. Þessar þykku bækur eru að sjálfsögðu í sömu stærð og blöðin og framan á kápu þeirra má yfirleitt sjá einhverja vel heppnaða mynd, úr einhverju þeirra blaða sem heftið inniheldur, auk raðnúmers þeirrar bókar. Þessar fimm fölsuðu bókakápur teiknaði Chaland með stíl Franquin og lét þær líta út eins og þær væru af ímyndaðri sögu sem birst hefði í blöðunum. Hann lét jafnvel bókarkápurnar líta út fyrir að vera gamlar og slitnar. Hér má sjá eina af þessum myndum sem hann lét vera af bókarkápu númer 45 en það hefti var upprunalega frá árinu 1953. Mynd Chaland er hægra megin en upprunalega kápa Franquins, með mynd úr sögunni La corne de rhinocéros (Horn nashyrningsins), er vinstra megin til samanburðar.
Yves Chaland er kannski ekki mjög kunnur á Íslandi, enda hafa því miður engar af sögum hans komið út hér á landi, en þeir sem til þekkja eru yfir sig hrifnir af stílnum og telja þennan listamann mikinn snilling. Margir þekkja auðvitað tilurð þessarar hálfkláruðu sögu hans um Sval og Val en hann á reyndar nokkrar aðrar myndasögur einnig að baki auk teiknivinnu sem hann vann fyrir aðra handritshöfunda. Þekktustu sköpunarverk hans eru þó án efa sögurnar um ævintýramanninn Freddy Lombard. Alls komu út fimm bækur um þann kappa en margir vilja meina að aðalsöguhetjan sé einhvers konar blanda af Tinna og Val. Sögurnar eru þó engar barnabækur, enda í frekar grófari kantinum, þar sem ofbeldi og nekt eru nokkuð áberandi. Þarna hefur jafnvel verið talað um Tinna fyrir fullorðna. Fyrsta saga Chaland um Freddy Lombard kom út árið 1981 og sú síðasta árið 1989 en því miður entist listamanninum ekki aldur til að gera fleiri sögur. Hann lést í hörmulegu bílslysi árið 1990, ásamt dóttur sinni, aðeins 33ja ára að aldri. Þessar fimm bækur eru mjög flottar og sýna vel þá snilli sem Chaland hafði yfir að ráða en í þeim er hægt að greina stigvaxandi þroska hans og framfarir með hverri bók. Í fimmtu og síðustu sögunni má segja að retró-stíllinn hans sé orðinn fullkominn og svipaða sögu má segja um uppbyggingu hennar og frásagnarmáta. Til að byrja með höfðuðu sögurnar um Freddy Lombard mest til samtíðamanna Chaland úr röðum myndasöguhöfunda, enda listamaðurinn einn helsti áhrifavaldur þeirra, en í seinni tíð hafa fleiri lesendur myndasagna uppgötvað þær og sögurnar eru í dag töluvert vinsælar. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið flett þessum bókum þegar hann hefur komist í tæri við þær en á því miður aðeins eina þeirra (bók númer 2 Le cimetière des éléphants) og hún er á spænsku! Bækurnar um Freddy Lombard fást því miður ekki á dönsku en það er ekki mjög langt síðan sögurnar fimm voru gefnar út á ensku af Humanoids útgáfunni í vönduðu safni í einni bók. 
 
Nú þarf SVEPPAGREIFINN víst að fara að finna sér meira efni eftir þenna frábæra teiknara.