17. mars 2023

222. ENDURKOMA VIGGÓS VIÐUTAN?

SVEPPAGREIFINN er mikil aðdáandi Viggós viðutans og ekki síður höfundar hans André Franquin, sem var hreint frábær listamaður, eins og margoft hefur komið hér fram. Franquin teiknaði myndasögurnar um Viggó í samráði við þá Jidéhem (Jean De Mesmaeker) og Yvan Delporte en hann átti þó sjálfur mestan þátt í að skapa persónuna. Það má eiginlega segja að Franquin hafi átt Viggó þótt félagar hans hjá belgíska myndasögutímaritinu Journal de Spirou hafi líka átt þátt í að þróa hann. Franquin teiknaði Viggó alla tíð og samtals skyldi hann eftir sig um 909 brandara um kappann en sá síðasti birtist í SPIROU tímaritinu (tölublaði nr. 2776) þann 25. júní árið 1991.

Reyndar höfðu gamlir Viggó brandarar oft verið endurbirtir í myndasögublaðinu, bæði fyrir þennan tíma og seinna, en þessi brandari númer 909 var svanasöngur listamannsins með Viggó. Þess má til gamans geta að í sama tölublaði (og í einhverja mánuði á eftir) voru gamlir Viggó brandarar nýttir til enskukennslu í SPIROU tímaritinu eins og sjá má hér að neðan. Stórsniðugt auðvitað!

André Franquin lést 5. janúar árið 1997. Þá hafði hann, nokkrum sinnum í gegnum tíðina, nefnt það í viðtölum að hann vildi ekki að aðrir listamenn myndu teikna Viggó viðutan að honum látnum. Þar með fetaði hann í sömu fótspor og Hergé hafði gert með Tinna á sínum tíma. Tinni fékk að deyja með höfundi sínum. Þessi ósk Franquins hefur að mestu verið virt frá því að hann lést en þó eru undantekningar á því. Dupuis gaf til dæmis út skemmtilega bók til heiðurs Franquins í tilefni af 60 ára afmælis Viggós árið 2017 þar sem sextíu mismunandi listamenn spreyttu sig á sextíu bröndurum um kappann. Heftið hét einfaldlega La galerie des Gaffes og SVEPPAGREIFINN minntist aðeins á það í færslu hér á síðunni sinni fyrir fáeinum árum.

Það var síðan í tengslum við hina árlegu myndasöguhátíð í Angoulême, þann 17. mars árið 2022, sem Dupuis útgáfan tilkynnti, á blaðamannafundi, að fyrirhuguð væri útgáfa á nýrri Viggó bók sem áætlað væri að myndi koma út þann 19. október árið 2022. Þessi tilkynning vakti að sjálfsögðu mikla athygli enda ný Viggó bók auðvitað stórviðburður í belgíska myndasöguheiminum. Fram kom að ætlunin væri að prenta upplag upp á 1,2 milljón eintaka og kanadíski listamaðurinn Delaf (Marc Delafontaine) hefði fengið það hlutverk að teikna bókina. Delaf þessi er kunnastur hér á landi fyrir myndasögurnar um Skvísur sem Froskur útgáfa hefur verið að gefa út á undanförnum árum. Á blaðamannafundinum kom einnig fram að Delaf væri þegar búinn að teikna brandara sem fylltu fjörtíu og fjórar blaðsíður fyrir þessa nýju Viggó bók en þess utan var nafn bókarinnar, Le Retour de Lagaffe (Endurkoma Viggós), og kápa hennar gerð opinber af þessu stórmerkilega tilefni.

Strax í kjölfar blaðamannafundsins komu þó fram miklar efasemdir, á samfélagsmiðlum, um þessa útgáfu og fólk var ekki á eitt sátt með fréttirnar enda margir minnugir orða Franquins um að enginn annar skyldi teikna Viggó viðutan. Mörgum fannst auðvitað eðlilegast að þessar óskir listamannsins yrðu virtar. En fyrsti Viggó brandarinn í þessari fyrirhuguðu útgáfu birtist þó í SPIROU tímaritinu sem kom út þann 6. apríl árið 2022 og þar með birtist í blaðinu fyrsti Viggó brandarinn sem ekki var eftir André Franquin. Þess má til gamans geta að í bókinni La galerie des Gaffes, sem minnst er á hér aðeins ofar, er einmitt þessi sami brandari Delaf um Viggó. SVEPPAGREIFINN nefndi það einmitt í þeirri færslu að framlag Delaf til bókarinnar sé það sem honum finnist persónulega best heppnað frá listamönnunum sextíu. Það mun einmitt hafa verið í kjölfar útgáfu þessa 60 ára afmælisheftis sem Dupuis útgáfan fór fram á við Delaf að hann myndi taka að sér það hlutverk að teikna heila bók um Viggó viðutan.

En aðeins viku eftir að útgáfa hinnar nýju Viggó bókar hafði verið kynnt opinberlega fór Isabelle Franquin, dóttir listamannsins, fram á að lögbann yrði sett á útgáfuna. Þrátt fyrir það birtist fyrsti brandari nýju bókarinnar í SPIROU tímaritinu nokkrum dögum seinna og ekki einfaldaði sú ákvörðun málið. Lögfræðingar Dupuis vörðu verknaðinn með þeim orðum að SPIROU væri prentað með töluverðum fyrirvara og ekki hefði því gefist tækifæri til að fjarlægja brandarann úr tímaritinu. Líklegra má þó telja að birtingin hafi frekar verið af markaðslegum ástæðum.

Þrátt fyrir óskir Franquins sjálfs, um að Viggó yrði ekki teiknaður af öðrum eftir dauða sinn, þá virðist sem hann hafi á sínum tíma afsalað sér höfundaréttinum fyrir mistök. Dupuis hafi í raun öðlast réttinn í kjölfar yfirtöku útgáfunnar á Marsu Productions og Isabelle Franquin geti því ekki haldið óskum föður síns til streitu. Á móti má samt spyrja hvort það sé siðferðislega rétt að fara á skjön við óskir listamannsins. Bókin hefur því verið sett á bið, á meðan dómstólar taka ákvörðun um framhaldið, og birting brandaranna í SPIROU blaðinu hefur einnig verið sett á ís á meðan niðurstaðanna er beðið en þær munu væntanlega liggja fyrir í september á þessu ári. 

Og svo er kannski rétt, fyrst verið er að fjalla um Viggó viðutan hér, að franska bíómyndin Gaston Lagaffe, frá árinu 2018, verður sýnd á RÚV annað kvöld (laugardagskvöld) og hefst klukkan 21:15. Myndin hefur reyndar verið aðgengileg hjá sjónvarpi Símans um nokkurt skeið og er ekki merkileg en er samt skylduáhorf fyrir alla aðdáendur teiknimyndasagna.

3. mars 2023

221. ÍSLENSK TINNA BÓK Á BORÐUM HERGÉ

Í dag 3. mars árið 2023 eru liðin fjörtíu ár síðan Hergé, höfundur Tinna bókanna, lést. SVEPPAGREIFINN gerði því einhver skil í færslu hér fyrir margt löngu síðan og í annarri enn eldri færslu hans má einnig finna nokkuð ítarlegt æviágrip um listamanninn belgíska. Þessi tímamót (auk ábendinganna um greinarnar tvær) eru samt í sjálfu sér ekkert endalega tilefni færslu dagsins í dag, þó merkisatburður sé, heldur ljósmynd af Hergé sem síðuhafi rakst nýlega á. Á umræddri mynd, sem er frá árinu 1975, sést hvar Hergé stendur við borð þar sem verkum hans hefur verið raðað upp fyrir framan listamanninn. Þarna má meðal annars sjá nokkrar af Tinna bókunum á mismunandi tungumálum og ef glöggt er gáð má einmitt reka augu í hina íslensku Svaðilför í Surtsey (sem kom út á íslensku árið 1971) í bókaröðinni hægra megin.

Um mitt árið 1975 höfðu tíu Tinna bækur þegar verið komnar út á íslensku og fyrir jólin þetta ár bættust við fjórar teiknimyndasögur með kappanum í viðbót. Íslenska myndasöguútgáfan á árum áður var ekki stór á evrópskan mælikvarða og SVEPPAGREIFANUM finnst því nokkuð merkilegt að íslensk Tinna bók skuli hafa ratað beint inn á borð Hergé.

Gaman að þessu.