25. desember 2020

181. JÓLASAGA UM GORM

Það er líklega best hjá SVEPPAGREIFANUM að byrja á því að óska lesendum Hrakfara og heimskupara gleðilegra jóla og þakka þeim fyrir þetta skrítna ár sem senn tekur nú enda. Þennan föstudag ber upp á jóladag og færsla dagsins fær því að sjálfsögðu það hlutverk að vera í hátíðlegri kantinum í tilefni þess. Gormurinn, úr bókunum um Sval og Val, fær sviðið að þessu sinni en efnið í þessari jólafærslu er tveggja blaðsíðna jólasaga sem birtist í hátíðarhefti belgíska myndasögutímaritsins SPIROU sem kom út fimmtudaginn 20. desember, á því herrans ári, 1956.
Það var að sjálfsögðu listamaðurinn André Franquin sem átti heiðurinn að þessari fallegu og hjartnæmu jólasögu en hún mun hafa verið teiknuð á svipuðum tíma og Gormahreiðrið (Le nid des Marsupilamis) var að birtast í tímaritinu. En þessi stutta jólasaga fjallar um það þegar dýravinurinn Gormur tekur að sér það hlutverk að vernda nokkra kunningja sína úr dýraríkinu, seint að kvöldi aðfangadags, á meðan þeir Svalur og Valur bregða sér eilítið að heiman. Þessi jólasaga var að mestu leyti þýdd úr frönsku af Greifynjunni, ástkærri eiginkonu síðuhafans, en SVEPPAGREIFINN ber þó sjálfur alfarið ábyrgð á kauðslegri orðauppröðun textans í sögunni og framsetningu hans.
Og seinni hlutinn ...

11. desember 2020

180. HVÍTA TINNA SAGAN

SVEPPAGREIFINN hefur í fáein skipti rýnt aðeins í nokkrar Tinna bækur hér og fjallað um þær breytingar sem urðu á stökum sögum frá því þær birtust fyrst í Le Journal de Tintin (Tinna tímaritinu) og þar til endanleg útgáfa þeirra kom út í bókaformi. Í því samhengi má nefna færslur um bækurnar Tinna og Pikkarónana, Kolafarminn, og einnig tunglbækurnar tvær. Fleiri Tinna bækur höfðu þó gengið í gegnum sambærilegar yfirhalningar og að þessu sinni er ætlun SVEPPAGREIFANS að taka fyrir nokkrar mis-veigamiklar breytingar á bókinni Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) frá árinu 1960. Um leið er líka tilvalið að nota tækifærið til að minnast einnig aðeins á fáeina athyglisverða og skemmtilega punkta sem tengjast þessari sögu. Tinni í Tíbet hefur af mörgum verið talin ein af bestu bókum höfundarins Hergé um Tinna og óhætt er að segja að sagan sé hans persónulegasta. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar aðeins minnst á þessa myndasögu í færslu hér áður en það var í tengslum við nokkuð framandi eintak sem honum áskotnaðist af bókinni. En um það leyti sem Hergé vann að þessari sögu hafði hann verið að glíma við þunglyndi, auk togstreitu í einkalífinu og margoft hefur verið greint frá einkennilegum draumförum listamannsins á þessum tíma. Draumar hans eða martraðir snerust um hvítar og yfirþyrmandi litabreiður, sem hann túlkaði sem snjó, og voru mjög raunverulegar. Honum var meira að segja ráðlagt, af svissneskum sálfræðingi, að taka sé hvíld frá þessu verkefni eða jafnvel að hætta alveg með það. En með því að teikna hina hvítu sögu sína um Tinna í Tíbet tókst honum að vinna sig út úr þessum undarlegu draumförum. Afraksturinn varð þessi frábæra saga sem SVEPPAGREIFINN telur klárlega til einna af sínum uppáhalds Tinna bókum. En sagan Tintin au Tibet hóf göngu sína í Le Journal de Tintin tímaritinu í Belgíu þann 17. september árið 1958 og af því tilefni prýddi þessi mynd Hergés framhlið blaðsins.
Forsíðunni óvenjulegu var fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á hinni nýju Tinna sögu í blaðinu og óhætt er að segja að myndin hafi vakið nokkra athygli. Þegar birtingu sögunnar lauk, í nóvember árið eftir (1959), hófst síðan hefðbundinn undirbúningur að því að gefa hana út í bókarformi hjá belgísku Casterman útgáfunni. Hergé, sem hafði teiknað söguna undir hinum áðurnefndu hvítu áhrifum í draumum sínum, teiknaði þá upp nýja bókarkápu sem byggð var á þessari forsíðu Le Journal de Tintin. Honum fannst kápumyndin lýsa vel þeim hughrifum sem hann upplifði við vinnslu sögunnar en forráðamönnum Casterman hugnaðist þó ekki þessi útfærsla hans. Myndin á kápunni var undirlögð af hvítum kaffærandi hreinleika sem um leið undirstrikaði mikilfengleika umhverfisins í kring. Þessi yfirþyrmandi hvíti litur fór þó eitthvað fyrir brjóstið á útgefundunum og þeir kröfðust þess að Hergé bryti myndina upp á einhvern hátt. Stjórnendum Casterman útgáfunnar fannst bókarkápan of abstrakt fyrir hinn unga markhóp Tinna bókanna og þessar ofurhvítu snjóbreiður hentuðu ekki sem mjög söluvæn vara. Hergé samþykkti því, með semingi þó, að breyta kápunni á þann veg að blár himininn og tröllslegur fjallgarðurinn sæjust í bakgrunninum í fjarska en hann var skiljanlega aldrei ánægður með þá ákvörðun.
En strax á fremstu blaðsíðu sögunnar má sjá hvar gerðar voru fáeinar breytingar fyrir bókaútgáfuna árið 1960. Hér fyrir neðan má einmitt sjá fyrstu myndaraðirnar eins og þær birtust í
Le Journal de Tintin en þar efst mátti sjá eina breiða mynd sem hinir almennu lesendur bókarinnar kannast væntanlega ekkert við. Myndin var nefnilega felld út fyrir bókaútgáfuna og kom því aldrei aftur fyrir sjónir annarra lesenda en þeirra sem lásu tímaritið á sínum tíma. Þessar breytingar voru sambærilegar við þær sem gerðar voru í sögunum um Kolafarminn og Eldflaugastöðina, þar sem efsta myndaröðin hafði einnig verið felld út, og SVEPPAGREIFINN hefur fjallað um hér áður. Í stað þessara mynda eða myndaraða hefur titli sögunnar hins vegar verið komið þar fyrir. Í tímaritsútgáfunni gefur á að líta fallega yfirlitsmynd af fjallaþorpinu þar sem þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn dvelja í byrjun sögunnar. Á skiltinu til vinstri kemur það fram að þorpið nefnist Vargese en það er þó ekki til í alvörunni og mun vera hreinn tilbúningur Hergé. Hins vegar virðist útlit þess vera að miklu leyti innblásið af alpaþorpinu St-Gervais-les-Bains sem staðsett er í Haute Savoie héraðinu í Frakklandi og myndir af þeim fallega stað virðast taka undir það. Í íslensku útgáfunni af bókinni kemur hins vegar fram að dvalarstaður þeirra Tinna og Kolbeins nefnist Tindfjallahótel og er staðsett í Kerlingarfjöllum. Húmor þeirra Lofts og Þorsteins hjá Fjölva var einstakur!
En þarna sést hvar Tinni kemur röltandi ofan úr fjöllunum með Tobba, við hlið sér, hundfúlan yfir uppátækjum húsbóndans. Ef grannt er skoðað sést líka hvar Tinni arkar í urðinni klæddur negldum gönguskóm. Ungur lesandi Le Journal de Tintin, sem um leið var einnig áhugamaður um fjallgöngur, skrifaði Hergé bréf og benti honum á að gönguskór með nöglum undir væru fyrir nokkru orðnir úreltir. Skór með þykkum gúmmísólum væru orðnir algengari og almennt komnir í miklu meiri notkun hjá útivistarfólki. Hergé tók tillit til þessarar ábendingar og breytti skónum fyrir bókaútgáfuna þannig að þar skartar Tinni þessum fínu gönguskóm með gúmmísólum.
Það er kannski rétt að taka það fram að upphaflega hafði Hergé svolítið aðrar hugmyndir um heiti sögunnar. Sagan segir að hann hafi verið með titilinn Le Museau de la vache í huga fyrst þegar hann hóf að teikna hana en samkvæmt franskri þýðingu Greifynjunnar (sem er auðvitað hinn miklu betri helmingur SVEPPAGREIFANS) myndi það þýðast sem Trýni kýrinnar (eða kannski Nef kýrinnar) á íslensku. Svipaðar niðurstöður gáfu Google translate en ef einhver lesandi síðunnar treystir sér til að gefa betri útkomu má hinn sami gjarnan gefa sig fram.
Aðrar hugmyndir Hergé voru af svipuðum toga og heiti eins og Le museau de l'Ours og Le museau du branco komu líka fram. Við fyrstu sýn virðist Trýni kýrinnar ekkert svo fjarstæðukennt eða langsótt því þarna mætti leiða líkum að því að hinar heilögu kýr Indlands, sem bregður reyndar fyrir í bókinni, kæmu eitthvað við sögu. En svo er þó ekki. Þarna er einfaldlega verið að vísa til fjallstindsins eða klettadrangsins sem kemur fyrir undir lok sögunnar þegar þeir Tinni og Kolbeinn nálgast endamarkið. Sá tindur kallaðist Jakmúli í íslensku þýðingunni og er þar kenndur við uxahorn en á frummálinu var trýnið/nefið (Museau) alltaf hugmyndin. Á blýantsskissum af frumteikningum fyrstu blaðsíðu sögunnar má einmitt finna titilinn (Le Museau de la vache) skrifaðan ofarlega á efstu myndinni. 
En ástæðan fyrir því að sagan hlaut ekki nafnið
Le Museau de la vache var einfaldlega sú að forráðamenn Casterman höfnuðu því. Forlagið átti auðvitað útgáfuréttinn af bókunum og var heilmikið með puttana í vinnu og undirbúningi Hergé og þeir settu sig upp á móti þessum titli strax í júlí árið 1958. Það var meira að segja löngu áður en sagan var tilbúin eða byrjuð að birtast í Le Journal de Tintin. Casterman fannst mikilvægara, af markaðslegum ástæðum, að titillinn yrði einfaldur og auðskilinn svo Tintin au Tibet varð fyrir valinu og Hergé þurfti að gefa eftir upphaflegu hugmyndina. En af stærri breytingum sem gerðar voru á sögunni mætti helst nefna eitt atvik sem sleppt var í lokaútgáfunni þegar bókin kom út. Á blaðsíðu 37 staldra þeir Tinni, Kolbeinn og sjerpinn Terki aðeins við til að ráða ráðum sínum í leitinni að Tsjang. Terki hefur ákveðið að segja skilið við þá félagana (hann sneri reyndar aftur til þeirra stuttu síðar) og Tinni gerir upp við hann á meðan Kolbeinn notar tækifærið og fer að hita handa þeim kaffi. Kafteininum verður það hins vegar á að sprengja upp prímusinn og í næstneðstu myndaröðinni á síðunni má sjá hvar Kolbeinn situr eftir, kolringlaður á snævi þaktri jörðinni, með skíðlogandi prímusinn fyrir framan sig.
Þegar hér var komið sögu vantar hins vegar heila blaðsíðu úr upprunalegu útgáfunni sem birtist í
Le Journal de Tintin tímaritinu. Á þeim tólf myndarömmum sem vantar í bókaútgáfuna má sjá hvar Tinni stekkur snarlega til og sparkar logandi eldunarbúnaðnum burt frá bakpoka Kolbeins. Hann meiðir sig hins vegar við verknaðinn auk þess sem Kolbeinn fær yfir sig fullt ílát með einhverju góðgæti sem hann hafði einnig verið að hita upp. Tinni biðst afsökunar á að hafa sparkað matnum yfir Kolbein og þegar kafteinninn fer að kanna skemmdirnar á bakpokanum sínum hefjast miklar flugeldasprengingar allt í kringum þá. Tinni hafði þá óvart sparkað logandi prímusnum í áttina að öðrum farangri þeirra sem hafði að geyma kassa með neyðarflugeldum og þeir síðan farið að springa út frá logunum. Tinni, Kolbeinn, Terki og Tobbi eiga því þarna fótum sínum fjör að launa.
Næsta myndaröð á eftir birtist síðan neðst á blaðsíðu 37 í sjálfri bókinni og þar kannast lesendur væntanlega aftur við sig eftir þessa týndu og óvæntu atburðarás. Þeir félagarnir kveðjast og Terki heldur heim á leið (í bili) en Tinni og Kolbeinn halda áfram för sinni í leit að Tsjang. Líkt og í Tinna og Pikkarónunum birtust því upphaflega 63 síður af Tinna í Tíbet í
Le Journal de Tintin tímaritinu.
Atburðarásinni með neyðarflugeldunum var því sleppt og þessar fjóru myndaraðir, auk allra fyrsta myndaramma sögunnar, voru þess vegna eina efnið úr sögunni sem var hent út fyrir bókaútgáfuna. En fleiru var þó breytt þótt það væri ekki endanlega fjarlægt úr sögunni. Þegar Hergé hóf undirbúninginn að Tinna í Tíbet, í byrjun árs 1958, var hann auðvitað búinn að móta hugmyndir að handriti auk þess sem hann var að vinna að því að grófteikna eða rissa upp flesta ramma sögunnar. Þá var komið að ýmiskonar undirbúningi áður en farið var að teikna upp sjálfa söguna en með tímanum hafði Hergé orðið nákvæmari og lagt heilmikið á sig til að vandvirknin yrði sem mest. Smáatriðin skiptu hann miklu máli og við undirbúning Tinna í Tíbet hafði hann
til dæmis samband við flugfélagið Air India og óskaði eftir gögnum frá þeim. Þannig gæti hann teiknað Douglas DC 3 vél, sem kæmi fyrir í sögunni. Flugfélagið varð við þessari beiðni Hergé og sendi honum bæði ljósmyndir og auglýsingabæklinga og listamaðurinn þakkaði kærlega fyrir gögnin. Þegar sagan birtist síðan loksins í Le Journal de Tintin kom auðvitað í ljós að þessi DC 3 vél hefði lent í flugslysi í Himalaja fjöllum. Í frétt sem þeir Tinni og Kolbeinn lesa í dagblaði á Tindfjallahótelinu, á blaðsíðu 2, er sagt frá slysinu og að vélin hafi verið á vegum tilbúins flugfélags sem nefnist Indian Airways í sögunni. Þótt flugfélagið héti þar Indian Airways en ekki Air India höfðu Hergé og hans fólk teiknað vélina sem lenti í flugslysinu, af einhverri ástæðu, nákvæmlega í litum síðarnefnda fyrirtækisins og á stéli flugvélarinnar sást lógó félagsins einnig greinilega. Þetta kom mjög skýrt fram á frábærri og sígildri mynd af flakinu á blaðsíðu 28. 
Og ekki nóg með það heldur var nafn flugfélagsins Air India
, fyrir mistök, teiknað á vélina, í stað Indian Airways, á mynd sem kemur fyrir á blaðsíðu 58. Þar er Tsjang að fara yfir atburðarásina eftir á með þeim Tinna og Kolbeini og með frásögninni er mynd af DC 3 vélinni sem teiknuð var beint upp úr auglýsingabæklingi flugfélagsins. Allt þetta birtist einnig í fyrstu bókaútgáfunum án þess að stjórnendur Air India höfðu gert við þær nokkrar athugasemdir. Það var ekki fyrr en árið 1964 sem þeir höfðu samband við Casterman útgáfuna og kvörtuðu þá sáran. Forsvarsmenn flugfélagsins töldu að hið keimlíka nafn flugfélagsins í sögunni (Indian Airways) gæti valdið Air India tjóni og vildu ekki að hægt væri að bendla fyrirtækið á neinn hátt við flugslysið í Nepal. Þeir fóru því fram á það við Hergé að hann myndi skipta um nafn á flugfélaginu í sögunni og auk þess breyta lógóinu á stélinu sem sæist á flugvélarflakinu í fjöllunum. Hergé varð að sjálfsögðu fúslega við þessum beiðnum enda hafði flugfélagið reynst honum vel við gagnaöflunina sex árum áður. Hann breytti því nafni flugfélagsins í fréttaklausunni, úr Indian Airways í Sari Airways, fyrir næstu útgáfur og teiknaði síðan nýtt merki á stél flugvélarinnar þar sem það sést á flakinu. 
Hins vegar yfirsást bæði forsvarsmönnum Air India og Hergé og samstarfsfólki hans, algjörlega myndin af flugvélinni sem birtist á blaðsíðu 58 í sögunni. Þarna sést hin gullfallega Douglas DC 3 vél enn þann dag í dag með lógó flugfélagsins greinilegt á stélinu og er einnig enn kirfilega merkt Air India ofarlega á miðjum skrokknum. Svona lítur þetta til dæmis út í íslensku bókarútgáfunni.
Þær örfáu bókaútgáfur sem til eru af Tinna í Tíbet, og gefnar
voru út fyrir árið 1965, hafa því stél vélarinnar með Air India merkinu (bls 28) og þær bækur eru þess vegna afskaplega verðmætar og eftirsóttar af söfnurum. En breytingarnar sem gerðar voru á sögunni eftir það virðast þó ekki hafa allar skilað sér til lesenda þeirra kynslóða sem á eftir fylgdu. Myndbreytingarnar hafa þó að sjálfsögðu farið í gegn en einhver misbrestur hefur orðið á að textinn úr fréttaklausunni á blaðsíðu 2 hafi skilað sér í þýðingum annarra útgáfa en þeirrar belgísku. Í aðeins einni af þeim sex þýðingum sem SVEPPAGREIFINN á af bókinni kemur til dæmis hið endurunna Sari Airways nafn fram. Það verður reyndar að taka það skýrt fram að síðuhafi treysti sér ekki til að túlka það sem fyrir kemur í arabísku útgáfu bókarinnar og því er alveg óljóst hvað flugfélagið heitir þar. En í íslensku útgáfunum af Tinna í Tíbet kemur upphaflega flugfélagið, Indian Airways, fram.
Ekki var mikið meira af breytingum sem gerðar voru á sögunni fyrir útgáfu hennar í bókarformi árið 1960 en þó voru nokkur smávægileg atriði lagfærð eins og gengur og gerist. Þannig var bætt við einum og einum svitadropum, einhverjar línur lagaðar og skipt um eða skerpt á litum en einnig voru gerðar lítilvægar breytingar á textanum. Eina nokkuð skemmtilega uppfærslu má reyndar finna á lokasíðu sögunnar Tinna í Tíbet en sú breyting var svo lítilfjörleg að það var aðeins á færi allra verstu Tinna-nörda og sérfræðinga að finna þá viðbót í bókinni. En efst á blaðsíðu 62 er mjög óvenjulegur myndarammi sem sýnir hóp af leiðangursmönnum leggja frá Kór Bílong klaustrinu í Tíbet. Þarna sjást aðalsöguhetjurnar okkar, ásamt fríðu föruneyti, halda af stað heim á leið eftir að hafa hvílst í um vikutíma í munkaklaustrinu á meðan Tsjang var að ná sér af meiðslum sínum.
En uppi á klaustrinu sjálfu, lengst til hægri á myndinni, má sjá hvar pínulítill blett ber við klettavegginn fyrir aftan. Eiginlega er alveg vonlaust að sjá hvað þetta er nema með góðu stækkunargleri. En ... jú, þarna er sem sagt um að ræða skuggamynd af blinda, svífandi munkinum Blessuðum Þrumufleygi sem kemur fyrir í sögunni. Eins og lesendur eflaust muna var það munkurinn sem sveif í lausu lofti, sá sýnir og fékk vitranirnar sem staðfestu síðan að Tinni hafði haft rétt fyrir sér með að Tsjang væri enn á lífi.  Þetta var ekki að finna í Le Journal de Tintin tímaritinu og reyndar mætti eiginlega miklu frekar kalla þessa breytingu falinn brandara!

27. nóvember 2020

179. NOKKUR HEIMSKUPÖR RATTATA

Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að kafa eilítið (reyndar ekkert mjög djúpt) ofan í frábæru aukapersónu sem kemur reglulega fyrir í bókunum um Lukku Láka. Hér er hann að sjálfsögðu að tala um hundræksnið Rattata en óhætt er að segja að kvikindið sé mjög nálægt því að vera alveg heimskur. Svo sterk aukapersóna er Rattati að hann fékk meira að segja á sínum tíma sérstaka hliðarseríu um sig (Rantanplan) sem SVEPPAGREIFANUM finnst að reyndar hefði vel verið hægt að vinna töluvert betur úr. Hugmyndin var frábær, enda heimsku hundsins engum takmörkum sett, en afraksturinn ekki jafn vel heppnaður. Bækurnar um Rantanplan urðu alls tuttugu talsins (auk fjögurra aukabóka) en þær voru gefnar út í Frakklandi á árunum 1987 - 2011 og hafa verið þýddar á nokkur önnur tungumál. Þetta efni var mest unnið og teiknað af tveimur hópum, sem að einhverju leyti voru undir eftirliti Morris, þar sem helmingurinn af bókunum var með heilum sögum en hinn helmingurinn með stuttum bröndurum. En sögupersónan Rattati birtist sem sagt fyrst í Lukku Láka sögunni Sur la piste des Dalton sem kom út í bókaformi árið 1961 en sú saga hafði birst í belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU nokkrum mánuðum áður. Rattati sjálfur sást strax á fyrstu blaðsíðu þeirrar sögu, þann 4. febrúar árið 1960, í SPIROU blaðinu og leit þá svona út.
Sagan segir að það hafi verið handritshöfundurinn René Goscinny sem hafi fyrst átt hugmyndina að Rattata og upphaflega hafi hann átt að vera einhvers konar grínútgáfa af hundinum Rin Tin Tin. Það muna þó líklega ekki mjög margir eftir hinum bráðgáfaða Rin Tin Tin en hann var ein af fyrstu dýrahetjum kvikmyndasögunnar og var eiginlega forveri sjálfrar Lassýar sem mun fleiri kannast við. Goscinny var orðinn eitthvað þreyttur á þessum hallærislegu ofurhetjum kvikmyndanna, úr dýraríkinu, svo hann ákvað að skapa einhvers konar andhetjulegt mótsvar gegn þeim. Það heppnaðist svona líka frábærlega og til varð þetta stórkostlega viðrini sem Rattati greyið er.
En verkefni dagsins er sem sagt að skoða fáein heimskupör Rattata og rifja upp nokkur augnablik úr Lukku Láka bókunum þar sem hundurinn hefur fengið að láta ljós sitt skína. Það vita eflaust allir, sem lesið hafa þessar myndasögur, að upphaflega var Rattati fangelsishundur og hafði meðal annars þann starfa að fylgjast með Dalton bræðrum við afplánanir sínar. Þegar Daldónar struku síðan úr fangelsunum fékk Lukku Láki stundum það verkefni að leita þá uppi og oftar en ekki var Rattati, af einhverjum ástæðum, einnig hafður með í för. Sjaldnast var það þó að vilja Láka og enn síður Léttfeta sem telur hundinn ein stærstu mistök náttúrunnar frá upphafi. Rattati birtist því að miklu leyti í þeim Lukku Láka sögum þar sem Dalton bræður koma við sögu en þó ekki öllum. Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að hann er til dæmis hvergi sjáanlegur í Fjársjóði Daldóna (Le Magot des Dalton - 1980) og sömu sögu má segja um bókina Daisy Town, frá árinu 1983, þar sem Dalton bræður leika einnig stórt hlutverk. Þá eru að sjálfsögðu eldri bækurnar með Daldónunum líka án Rattata enda var þá ekki búið að kynna hundinn til sögunnar. Í íslensku útgáfuröðinni var það í bókinni Sálarháski Dalton bræðra (La Guérison des Dalton - 1975) sem Rattati er fyrst kynntur fyrir íslenskum aðdáendum og þar fá lesendur svolitla innsýn í bernsku hundsins.
Af þessum æskuminningum Rattata að dæma má því ætla að kvikindið hafi alltaf verið fremur snautt að gáfum og það kemur svo sem lítið á óvart. En fyrst og fremst er hlutverk Rattata í Lukku Láka bókunum að gera sögunar fyndnari og hann fær alveg fullt af eigin bröndurum í seríunni. Þannig nýtur hann til að mynda töluvert mikillar athygli í bókinni Ríkisbubbinn Rattati (L'héritage de Rantanplan - 1973) en inni í miðri þeirri sögu (á blaðsíðum 35-39) fær hann í raun fjögurra síðna aukasögu í nokkurs konar heiðursskyni. Sú örsaga sýnir vel hve heimskur, klaufskur og ósjálfbjarga Rattati er í raun og veru. Þar sést til dæmis vel hversu bjargarlaus hann er úti í náttúrunni og síðast en ekki síst hve hundurinn er með gjörsamlega handónýtt þefskyn. Það kemur líka fram snemma í áðurnefndri Sur la piste des Dalton að Rattati glímir við króníska heymæði og af þeirri ástæðu sé lyktarskyn hans ekki eins og eðlilegt talist getur hjá hundi.
Í Sur la piste des Dalton kemur líka fram, í fyrsta skipti í bókaflokknum, að hesturinn Léttfeti kann að tala. Hans fyrstu orð í allri seríunni beinast einmitt að Rattata þegar þeir hittast í fyrsta sinn og þar lýsir hann strax yfir vanþóknun sinni á hundinum. Reyndar er það skot ekkert endilega persónulegt gagnvart Rattata sjálfum, enda þekktust þeir ekkert fyrir, heldur virðist hann almennt ekki hafa mikið álit á hundum. Rattata tókst þó hins vegar mjög fljótlega að vinna sér inn persónulega óvild Léttfeta með óútreiknanlegum heimskupörum sínum. En í það minnsta er alla vega alveg óhætt að segja að Rattati hafi átt þátt í að talvæða Léttfeta til frambúðar.
Með tilkomu Rattata hefur einmitt verið talað um að marka megi upphaf gullaldartíma seríunnar. Að með hundinum heimska hafi bókaflokkurinn verið orðinn fullmannaður og því tilbúinn til að slá endanlega í gegn. Hvort Rattati hafi gert endanlega útslagið er reyndar kannski orðum aukið en vissulega leikur hann skemmtilega rullu í seríunni. Hlutverk Rattata í sögunum snýst þó ekki bara um að vera þessi skemmtilega og bráðfyndna aukapersóna, sem hann er, heldur er hann mjög mikilvægur til að fylla upp í dauða punkta í sögunum með fyndnum og jafnvel leyndum heimskupörum. Ekki á ósvipaðan hátt og Léttfeti sem kemur með skondnar athugasemdir, upp úr nánast engu, þegar brjóta þarf upp langdregnar senur eða til að brúa bilið á milli kaflaskila. Á einu slíku innslagi má til dæmis sjá hversu trúr og tryggur hann er sínu hundseðli.
Í bókinni Rex og pex í Mexíkó bregða þeir Lukku Láki, Léttfeti og Rattati sér meðal annars yfir landamærin, til Mexíkó, og hitta þar fyrir hinn moldríka landeiganda Don Dósóþeus Pinnos. Hann býður þeim að dvelja á búgarði sínum um stundarsakir og þeir félagarnir lifa þar í vellystingum um skeið. Don Dósóþeus á dvergvaxinn smáhund af mexíkósku kyni en sá er ekki aðeins algjör andstæða Rattata í stærð og útliti heldur er hann einnig óvenju greindur af smáhundi að vera. Þess má geta að á heimili SVEPPAGREIFANS eru slíkir vasadýr kölluð sunnudagshundar. Hrói heitir sá litli og þeir Rattati verða hinir mestu mátar. Fljótlega kemur þó fram að Rattati stendur honum langtum aftar hvað alla hæfileika varðar. Don Dósóþeus hefur til að mynda kennt Hróa sniðugt bragð með sykurmola og Rattati trúir því staðfastlega að hann geti leikið það eftir.
Þrátt fyrir hina óumdeilanlegu heimsku gleymir Rattati ekki svo auðveldlega þessu skemmtilega sykurmolabragði og á enn þann draum um að geta leikið þennan sama leik og Hrói. Og í lok sögunnar, þegar bæði Dalton bræður og Rattati eru komnir aftur heim í letigarðinn sinn, fær hundurinn kærkominn tíma til að æfa þetta vandasama bragð í ró og næði. Hann grípur tækifærið og notar þá stein til verksins en að sjálfsögðu enda þær æfingar með fyrirsjánlegum afleiðingum.
Þennan brandara misskildi SVEPPAGREIFINN reyndar lengi vel nokkuð illilega í æsku og fannst hann ekki alveg rökréttur. Ef tekið væri mið af sverleika hálsa hundanna þá væri sykurmoli Hróa töluvert stærri hlutfallslega en steinn Rattata og því var mjög skrítið að hann festist ekki á sama hátt í hálsinum á Hróa. Hinum unga SVEPPAGREIFA yfirsást hins vegar alveg að þetta bragð Hróa snerist aðeins um að grípa molann með kjaftinum en ekki að láta hann skella beint niður í kok líkt og gerðist hjá Rattata. En það er reyndar allt önnur saga. Brandarinn er alla vega góður. 
Í þeim sögum sem Rattati birtist er yfirleitt eitthvað ákveðið hegðunarþema í gangi hjá honum sem fylgir hundinum þó ekki endilega á milli bóka. Þannig má eiginlega segja að Rattati taki upp á nýjum og ólíkum uppátækjum í hverri sögu sem hann kemur fyrir í en öll tengjast þessi uppátæki þó heimsku hans á einn eða annan hátt. Í bókinni Batnandi englar (Les Dalton se rachètent - 1965) hefur Rattati til dæmis alveg gleymt því hver hann er þessi Lukku Láki. Í gegnum söguna er hundurinn því stöðugt að rýna í andlit Láka og reynir að rifja það upp hver hann sé.
Í bókinni birtist hann því á víð og dreif um alla söguna, aðeins til hliðar í myndarömmunum, og veltir fyrir sér hver í ósköpunum þessi kunnuglegi maður gæti eiginlega verið. Jafnt og þétt telur hann upp um tuttugu líkleg nöfn en þau eru allt frá Gvendi dúllara og Roy Rogers til Skáld-Rósu. Auðvitað er hann samt líka alltaf jafn vitlaus í bókinni sem endranær og heldur upp hefðbundinni Rattata heimsku líkt og í hinum sögunum. 
 
En nenni þessu ekki, látum þetta duga að sinni.

13. nóvember 2020

178. EIN SVEKKELSIS FÓTBOLTAFÆRSLA

Vafalaust eru einhverjir þarna úti sem enn eru að gráta úrslit gærkvöldsins en þegar allir héldu að árið 2020 gæti ekki versnað þá ... uhhh... batnaði það alla vega ekki! Íslenska knattspyrnulandsliðið kemst sem sagt ekki á EM næsta sumar og nú væri líklega bara best fyrir alla ef keppninni yrði aflýst endanlega vegna helvítis drepsóttarinnar (Afsakið orðbragðið!). Liðið á reyndar líka eftir að spila tvo leiki við Dani og Englendinga í Þjóðadeildinni á næstu dögum en líklega er öllum skítsama um hvernig þeir leikir enda. Líkt og stundum hefur gerst hér áður er færsla dagsins tileinkuð íslenska landsliðinu og af þeirrri ástæðu hefur SVEPPAGREIFINN grafið upp myndasögu sem tengist knattspyrnunni svolítið. En í einni af bókunum um Sval og Val kemur fyrir fótboltatenging sem er algjörlega tilvalið að skoða í kjölfar svekkelsis gærkvöldsins.
Fimmta saga bókaflokksins heitir Les voleurs du Marsupilami og kom fyrst út í bókarformi árið 1954 en hún hafði áður birst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU árið 1952. Sagan er eftir André Franquin og hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu en þess er þó vonandi ekki langt að bíða. Íslenskur titill þeirrar bókar yrði líklega þýddur sem Gormdýrinu rænt, Gormi stolið eða eitthvað á þá leið, en sagan gerist nokkurn veginn í beinu framhaldi af bókinni Spirou et les héritiers sem við þekkjum auðvitað sem Baráttan um arfinn og kom út hjá Iðunni árið 1980. En forsagan að þessari fótboltatengingu er sú að í byrjun sögunnar hefur Gormi verið komið fyrir í dýragarði. Svalur og Valur eru nýbúnir að heilsa upp á hann og komnir aftur heim þegar þeir fá símtal frá garðinum þar sem þeim er tjáð að Gormur sé dauður. Þeir drífa sig aftur í dýragarðinn en þegar dýralæknirinn ætlar að sýna þeim líkið af Gorminum er það horfið. Þá fer af stað ýtarleg leit í garðinum og allir útgangar eru vaktaðir en ekkert finnst. Þeir Svalur og Valur ákveða þó að vakta garðinn um nóttina, ef sá sem tók dýrið er þar enn, og þá lenda þeir í tíu blaðsíðna eltingarleik í dýragarðinum við þjófinn sem þó kemst undan. Sá er augljóslega íþróttamaður í góðu formi en þeim félögunum tekst að rekja slóð hans og koma heim til hans um morguninn. Þá kemur í ljós að hann er floginn til borgarinnar Magnana (hvar sem hún nú er) og þangað ákveða Svalur og Valur að fara líka.
Þeir Svalur og Valur eyða nokkrum vikum í Magnana án þess þó að finna neina vísbendingu um hvað gæti hafa orðið af Gorminum eða þeim sem stal honum. Þarna vita þeir raunar ekki einu sinni hvort hann er lífs eða liðinn en seinna kemur auðvitað í ljós að hann er sprelllifandi. En einn daginn rekast þeir óvænt á eiginkonu þjófsins
úti á götu, ásamt börnum þeirra, og elta hana áleiðis að stórum knattspyrnuleikvangi þar sem senn fer að hefjast leikur á milli heimaliðsins í Magnana og andstæðinga þeirra. Konan og börnin hennar eru augljóslega á leiðinni á völlinn og þeir Svalur og Valur bregða sér því þangað einnig. Það er síðan á blaðsíðu 32 sem þeir félagar gera þá óvæntu uppgötvun að þjófurinn og hlaupagikkurinn Valentin Mollet er í rauninni afar snjall knattspyrnumaður og spilar með fótboltaliðinu F.C. Magnana þarna í borginni. Og það er einmitt á þessum tímapunkti sem hin áðurnefndu og sjaldséðu knattspyrnutilþrif sjást í Sval og Val sögu.

Þessi sjaldséðu knattspyrnutilþrif í teikningum Franquins eru stórmerkilegar og gaman að sjá hvernig hægt er að setja sig inn í belgíska fótboltastemmningu tæplega 70 árum seinna og það meira að segja í lit! Búningatískan, fótboltaskórnir, boltinn sjálfur, fólkið á áhorfendabekkjunum og völlurinn gefa lesandanum góða mynd af því hvernig belgísk knattspyrna var árið 1952. Þá er heldur ekki úr vegi að setja þessar myndaraðir svolítið í samhengi við þá stemmningu sem ríkti í íslenskri knattspyrnu á þessum sama tíma. Íslenska 1. deildin hafði aðeins að geyma fimm lið þar sem spiluð var einföld umferð á malarvöllum en KR og ÍA voru sterkustu lið landsins á þessum árum. Á sama tíma voru hin fornfrægu lið RFC Liège og Anderlecht best í sextán liða efstu deild í Belgíu og öll umgjörð í kringum knattspyrnuna þar var mörgum klössum ofar en á Íslandi. Og svo má þess geta að Ísland og Belgía mættust í tveimur leikjum árið 1957 í undankeppni HM '58 og hér fyrir neðan má sjá nokkur merkileg myndbrot úr þeim leik. Það gerðist einmitt í þessum leik að tveir leikmenn Belganna tóku sameiginlega vítaspyrnu og skoruðu úr frægt mark en fleiri hafa reynt það síðan með reyndar afar misjöfnum árangri. Vítið má einmitt sjá í þessu myndbandi.
En hvað Sval og Val söguna Les voleurs du Marsupilami varðar þá er líklega rétt að taka það fram að knattspyrnumaðurinn Valentin Mollet var í rauninni aldrei neinn alvöru bófi. Fjárhagsvandræði fjölskyldu hans neyddu hann hins vegar til að taka að sér þetta óheiðarlega verkefni fyrir Frísk forstjóra hjá Sirkus Sabaglíóní. Frískur kom síðan seinna fyrir í sögunni Valur á tryllitækinu (La Quick super) sem við munum auðvitað eftir sem aukasögu úr bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence). Seinna í bókinni Les voleurs du Marsupilami kemur í ljós að Gormur hafði orðið hluti af sýningu sirkussins áður en þeim Sval og Val tókst að bjarga honum úr klóm Sabaglíónís. Það gerðu þeir reyndar með aðstoð Sveppagreifans sem þeir hittu óvænt á förnum vegi í Magnana. Það er hins vegar allt önnur saga og kemur þessari færslu um knattspyrnu lítið sem ekkert við.
Franquin gerði reyndar nokkra skemmtilega brandara með Viggó viðutan snemma á áttunda áratug síðustu aldar og SVEPPAGREIFINN hefur einmitt gert þeim svolítil skil í öðrum færslum tengdum fótbolta. Þær færslur má lesa hér og hér og svo er hér ein í viðbót sem einnig er fótboltatengd. En EM næsta  sumar verður því víst að vera án okkar manna en það er þó alla vega hægt að fara að láta sig hlakka til jólanna í staðinn. Annars er voðalega tilgangslaust að vera að svekkja sig á þessu. Ísland hefur oft áður ekki komist á EM!

30. október 2020

177. EITT OG ANNAÐ UM TARZAN BLÖÐIN

Þegar SVEPPAGREIFINN var að byrja að huga að því, fyrir nokkrum árum, að skrifa blogg um eitt af áhugamálum sínum, teiknimyndasögur, þá tók það hann nokkurn tíma að ákveða og þróa með sér hugmyndir um efnið. Þær fransk/belgisku teiknimyndasögur sem gefnar voru út í bókaformi hér á landi á sínum tíma voru auðvitað hugsaðar sem helsta viðfangsefnið en að öðru leyti var hann svo sem ekki með neinar fastmótaðar hugmyndir. Fljótlega var hann þó ákveðinn í að vera einnig svolítið á sveimi í kringum þessar vinsælu myndasögur og fjalla líka um ýmislegt efni sem tengdust þeim og höfundum þeirra. Eitt af því sem SVEPPAGREIFINN var hins vegar alltaf ákveðinn í að skrifa EKKI um voru myndasögublöðin sem hér hafa verið gefin út. Af hverju, er ekki gott að segja en líklega hefur honum fundist það að einhverju leyti fyrir neðan hans virðingu að fjalla um Andrés önd, Gög og Gokke, Köngulóarmanninn og Tarzan. Já og svo ekki sé talað um Syrpurnar frá Disney samsteypunni sem Edda er enn að gefa út. Þær vasabrotsbækur eru orðnar líklega um 330 talsins! Þessar afurðir voru ekki alvöru og honum fannst myndasögublöðin aldrei falla í flokk með hinum eiginlegu (og alvöru) teiknimyndasögum. Sem er auðvitað alrangt. Allt eru þetta auðvitað myndasögur en í fljótu bragði virðist eini munurinn vera sá að annars vegar voru þær gefnar út í blaðaformi og hins vegar komu þær ekki frá franska málsvæðinu í Evrópu. Nú er því kominn tími á að söðla aðeins um og skoða svolítið myndasögublöðin um Tarzan (og auðvitað son Tarzans) sem hin goðsagnakennda Siglufjarðarprentsmiðja gaf hér út á sínum tíma.
En útgáfa þessara Tarzan blaða hóf göngu sína í apríl mánuði árið 1979 þegar fyrstu fjögur blöðin komu út á einu bretti. Það var Sigurjón Sæmundsson, eigandi gamallar prentsmiðju á Siglufirði, sem hafði veg og vanda að þessum myndasögublöðum en Siglufjarðarprentsmiðja hafði einhverjum áratugum áður byrjað að gefa út unglingabækur um Tarzan eftir bandaríska rithöfundinn Edgar Rice Burroughs. Þær bækur voru nokkuð vinsælar og góð eintök af þeim bókum eru reyndar nokkuð eftirsótt af söfnurum í dag. Sagan segir hins vegar að það hafi ekki verið áhugi Sigurjóns á myndasögum sem hvatti hann til útgáfu Tarzan blaðanna heldur hafi hann einfaldlega vantað eitthvað efni til að gefa út á dauðum tímum þegar útgáfa annarra verka prentsmiðjunnar lá niðri. Á árunum í kringum 1979 hafði verið mikil ládeyða í atvinnulífinu á Siglufirði, eins og reyndar annars staðar á landinu, og Sigurjón hafði því verið að velta fyrir sér ýmsum viðskiptahugmyndum og tækifærum. Hann komst að því að til væru myndasögur um Tarzan í blaðaformi og gekk í það verkefni að útvega útgáfuréttinn af þeim sögum. Sigurjón hafði samband við útgáfuforlagið Atlantis í Stokkhólmi en það fyrirtæki hafði réttinn af blöðunum á Norðurlöndunum og hann fékk leyfi til að gefa þessi myndasögublöð út hér á landi. Tarzan blöðin voru síðan fyrst og fremst seld í áskrift en einnig mun hafa verið hægt að panta heilu árgangana í póstkröfu eftir á. Þessa innpökkuðu árgangapakka hefur á undanförnum árum enn verið hægt að nálgast á Bókamarkaði félags íslenskra bókaútgefenda sem haldinn er undir stúkunni á Laugardalsvelli í byrjun hvers árs. Tarzan blöðin voru að jafnaði ekki að finna í hefðbundnum, virðulegum bókabúðum. Þau var hins vegar oft hægt að kaupa í litlum sjoppum, bensínstöðvum og í gömlu kaupfélögunum úti á landi þar sem reyndar fékkst yfirleitt allt milli himins og jarðar.
Hasarblöð á íslensku höfðu fram til þessa verið algjörlega óplægður akur og það var því þessum fyrrverandi bæjarstjóra og heiðursborgara Siglufjarðar að þakka að nú varð breyting á. Útgáfan á Tarzan blöðunum varð fljótlega að nokkurs konar heimilisiðnaði því Sigurjón og fjölskylda hans komu að öllum þáttum og rekstri þessarar útgáfu. Eiginkona Sigurjóns, Ragnheiður Jónsdóttir, annaðist til dæmis áskrifendur blaðanna og sá einnig um að innheimta áskriftargjöldin auk annarra verkefna. Sonur Sigurjóns, Jón Sæmundur Sigurjónsson, hefur sagt frá því í viðtali hvernig hann minnist þess þegar faðir hans var að þýða sögurnar, ýmist úr ensku eða sænsku, oft langt fram eftir kvöldi. Hann hafi síðan setið við tölvuna og pikkað inn textann, prentað út þessar þýðingar, klippt textann niður í strimla og límt þær að lokum inn á talblöðrurnar á myndunum. Handavinnan við þetta allt saman var mjög tímafrek en þótt það væri Siglufjarðarprentsmiðja sem gæfi blöðin út, að nafninu til, voru þau þó ýmist prentuð í Ungverjalandi eða Finnlandi eftir aðstæðum. Í gegnum tíðina hefur mörgum verið tíðrætt um einkennilegar þýðingar eða frasa í þessum sögum. Jón Sæmundur hefur einmitt tekið undir það og gefið á því eðlilegar skýringar. Eftir að hafa setið löngum stundum við tölvuna hafi Sigurjón faðir hans oft verið orðinn ansi lúinn, enda hann þá kominn nokkuð á áttræðisaldurinn, og beinar afleiðingar þess hafi einfaldlega verið skrautlegri þýðingar. Þegar hann var óþreyttur komst efnið hins vegar ágætlega frá honum og oft kryddaði hann sögurnar með skemmtilegum húmor sem líklega engum öðrum hefði dottið í hug. Sem dæmi um það greinir Jón Sæmundur til dæmis frá því að einhverju sinni hafi komið fyrir tannlæknir í sögunum sem hann minnti að hafa heitið Wilson eða eitthvað í þá áttina. Sigurjón hafi hins vegar heimfært þennan tannlækni upp annan slíkan sem bjó á Siglufirði og nefndi hann án hiks Jonna! Og þar með var Jonni tannlæknir á Siglufirði gerður ódauðlegur í Tarzan blöðunum.
Næstu árin fylgdu fleiri myndasögublöð á íslensku í kjölfarið og þar má helst nefna léttara efni, eins og með Tomma og Jenna, Gög og Gokke og Alf, sem einnig varð nokkuð vinsælt. En af hasarhetjunum komu seinna út Súpermann, Leðurblökumaðurinn, Hulk og Köngulóarmaðurinn en það er reyndar önnur saga. Tarzan blöðin nutu hins vegar strax nokkuð mikilla vinsælda. Þetta fyrsta útgáfuár 1979 komu út tuttugu og fimm blöð en hvert tölublað kom út i um það bil þrjú til fjögur þúsund eintökum. Seinna þetta ár hóf einnig Sonur Tarzans göngu sína hjá Siglufjarðarprentsmiðju en þau myndasögublöð voru af svipuðum toga og urðu líka nokkuð vinsæl. Líklega var það þó þannig að Sonur Tarzans höfðaði meira til yngri kynslóðanna en sjálf Tarzan blöðin til þeirra eldri. Síðarnefndi hópurinn þekkti betur upprunalegu sögurnar um Tarzan og litu því frekar niður til Son Tarzans sem þeim þótti heldur léleg eftirlíking. Alls komu út fimm tölublöð af Syni Tarzans, sem fjölluðu um unglingspiltinn Kórak, á árinu 1979. Útgáfan á þeim blöðum varð heldur stopulli en Tarzan blöðunum en einstaka saga með syni Tarzans birtust þó einnig í aðalheftunum um Tarzan. Fyrstu þrjú árin komu út tuttugu og fimm Tarzan blöð á ári en næstu þrjú ár fækkaði þeim niður í tólf. Árið 1985 komu aðeins fimm blöð út og árið 1986 voru þau eingöngu orðin tvö en í þeim tveimur blöðum voru einungis sögur sem komið höfðu út áður. Smán saman lognaðist hin vinsæla útgáfa myndasögublaðanna um Tarzan því alveg niður. 
Útgáfa á öðrum myndasögum fyrirtækisins hélt reyndar eitthvað áfram en sala þeirra hafði þó dregist mikið saman árin á undan. Allra síðustu myndasögublöðin, sem Siglufjarðarprentsmiðjan sendi frá sér, voru um Leðurblökumanninn og geimveruna Alf árið 1992 en eflaust muna margir eftir þáttum um hann á árdögum Stöðvar 2. Siglufjarðarprentsmiðjan óð í skuldum og lenti í töluverðum fjárhagskröggum en fyrirtækið var þó starfrækt allt til árins 2005 þegar prentsmiðjustjórinn Sigurjón Sæmundsson lést. Alls voru gefin út hjá prentsmiðjunni hundrað og átján tölublöð af Tarzan og fimmtíu blöð af Syni Tarzans en einnig komu út þó nokkur bunki af aukablöðum og heftum af ýmsu tagi. Þannig voru gefin út fimm þykkari aukaútgáfur af Tarzan blöðunum, auk fimm sambærilegra Kórak blaða, tólf stór Tarzan hefti og tvö í viðbót um Son Tarzans. Þessi hefti tilheyrðu ekki hinum tölusettu eintökum úr hefðbundnu útgáfuseríunni. Alls komu út 192 hefti með Tarzan og Kóraki en ekki má gleyma einni lítilli vasabrotsbók um Tarzan sem var í sama broti og bækurnar um Ísfólkið og Morgan Kane. Þessi bók, sem er 128 blaðsíður að lengd, er afar fáséð og líklega má líkja tilurð hennar við hina sjaldgæfu Lukku Láka bók, Á léttum fótum. Til stóð að fleiri sambærilegar bækur kæmu út hjá útgáfunni en ólíklegt er að fleiri en ein slík hafi verið gefin út. Sennilega eru frekar fáir sem vita af þessari bók, og hún virðist hafa farið fram hjá mörgum, en bókin er þó nokkuð eftirsótt af íslenskum myndasögusöfnurum. Þessa vasabrotsbók er afar erfitt að nálgast, ólíkt flestum þeim Tarzan heftum sem komu frá Siglufjarðarprentsmiðju, en bókin poppar þó alltaf einhvers staðar óvænt upp annað veifið.
Mörgum ungum og kröfuhörðum lesendum hinna amerísku hasarblaða þótti reyndar ansi lítið til íslensku Tarzan blaðanna koma. Eðlilega fannst mörgum þýðingarnar á blöðunum nokkuð einkennilegar, eins og áður hefur verið minnst á, og sérstaklega þóttu hinar alíslensku nafngiftir margra sögupersónanna hallærislegar og óvandaðar. Þá hafa sumir einnig gert grín að sérkennilegum upphrópunum sem sögupersónur láta út úr sér í tíma og ótíma í hita leiksins. "Úh-oh!" og fleira sambærilegt hafa margir eflaust getað tengt við upphrópanirnar "Gisp!" úr dönsku Andrés blöðunum. Sjálfsagt hafa þessi blöð því af mörgum verið talin nokkuð hallærisleg að sumu leyti og líklega hefur sú skoðun verið réttmæt. Blöðin hafa án nokkurs vafa ekki fallið í kramið hjá öllum og líklega síst hjá þeim börnum og unglingum sem á þessum tíma voru sjálf byrjuð að versla ofurhetjublöð í áskrift og lesa þau á ensku. En hins vegar voru Tarzan blöðin klárlega líka frábær vettvangur fyrir þá krakka sem ekki höfðu kynnst amerísku hasarblöðunum áður. Með Tarzan fengu þau tækifæri til að kynnast þessum blöðum fyrst á íslensku og nota þau síðan sem stökkpall seinna fyrir vandaðri hasarblaðaútgáfur á ensku. Þessi blöð eru því í raun mjög skemmtilegt framlag til myndasöguútgáfunnar á Íslandi og reyndar þykir SVEPPAGREIFANUM nokkuð vænt um þessi blöð þó þau hafi til dæmis ekki alltaf verið vel teiknuð. Tarzan blöðin (og Sonur Tarzans) er jaðarefni sem hann hefur mikinn húmor fyrir, án þess að ætla að gera lítið úr því, og var bráðnauðsynlegt framlag í útgáfusögu íslensku myndasöguflórunnar. Sumir fíluðu ekki Tinna, Sval og Val eða Lukku Láka en gleyptu í sig Tarzan og seinna hinar ofurhetjurnar. Siglufjarðarprentsmiðja á því klárlega heiður skilinn fyrir þetta merkilega menningaframtak, til íslenskrar myndasöguútgáfu, þótt ekki hafi það fallið í kramið hjá alveg öllum. 
SVEPPAGREIFINN er reyndar á þeirri skoðun, eins og kemur fram snemma í þessari færslu, að ekki sé hægt að staðsetja þetta efni með þeim teiknimyndasögum í bókaformi sem voru hvað vinsælastar hér en tilheyri frekar einhvers konar jaðarútgáfu. Nú skal það tekið fram að SVEPPAGREIFINN átti í æsku þó nokkurn bunka af þessum blöðum. Líklega voru þetta um þrjátíu, fjörutíu blöð sem hann minnist þess að hafa keypt flest í hinni stórkostlegu Safnarabúð sem rekin var um árabil á Frakkastígnum á milli Laugavegar og Hverfisgötu. SVEPPAGREIFINN hafði lúmskt gaman að Tarzan blöðunum þau þótt ekki sé þetta beint eitthvað úrvals efni. Hann minnist þess að hafa flett reglulega í gegnum þennan bunka sinn, ásamt félögum sínum, af ýmsum tilefnum á unglingsárunum og þar voru jafnvel gripnir frasar upp úr blöðunum sem notaðir voru á hæðnislegan hátt við hentug tækifæri. Í einu þessara blaða um kappann má lesa sögu þar sem Tarzan er einu sinni sem oftar að eltast við einhvern bófaflokk og þarf nauðsynlega að stökkva upp í þyrlu sem er að stinga af með einhverja misindismennina. Hann nær að klifra inn í þyrluna, en hún er þá komin á fleygiferð upp í háloftin og baráttan heldur því áfram um borð í opinni þyrlunni á flugi. Tarzan nær þó að taka flugmanninn úr umferð á einhvern hátt en það gerir það auðvitað að verkum að þyrlan er skyndilega orðin stjórnlaus. Hún tekur því að snúast um uppi í háloftunum en Tarzan ýtir þá meðvitundarlausum flugmanninum til hliðar, sest sallarólegur í flugmannssætið og segir við sjálfan sig, "Heppni að ég lærði að fljúga þyrlu!" Þessi frasi hefur allt til dagsins í dag verið notaður af SVEPPAGREIFANUM og félögum hans við mörg hátíðleg tilefni.
Tarzan er mikil hetja. Það fer ekki framhjá lesendum þessara blaða. Og það þarf ekki nema að líta eitt augnablik framan á forsíðu nokkurra blaðanna til að átta sig á hvers konar svakalegt heljarmenni þar er að verki. Á þeim sést Tarzan til dæmis kyrkja risavaxinn krókódíl nánast með handakrikanum, Tarzan að berjast við kyrkislöngu sem er á stærð við strætó, Tarzan að verjast þungvopnuðum glæpamönnum berhentur og svo framvegis. Á einni blaðakápunni er hann jafnvel að berjast við einhvers konar fornsögulega flugeðlu frá risaeðlutímanum. Og alltaf skal maðurinn vera með hníf í hendinni, hvort sem hann er að sveifla sér á milli trjánna í frumskóginum eða á sundi. Í blöðunum virðist honum vera sérstaklega uppsigað við krókódíla og Tarzan er líklega eina manneskjan í allri veröldinni sem getur siglt báti í glóandi hraunstraumi. Tarzan kemur því sannarlega víða við og ávallt er hann jafn einbeittur og reiðilegur á svipinn. Hann virðist vera algjörlega laus við húmor eða gleði og virkar allt að því fráhrindandi. Honum til varnar virðist hann þó ekki eiga sjö dagana sæla með þetta erfiða líf í endalausri baráttu sinni við krókódíla, risaeðlur og ljón. Og svo ekki sé minnst á allar ættbálkaerjurnar og veiðiþjófana sem hann þarf einnig að kljást við. Þá er Tarzan vel að sér í ýmsum tegundum náttúrulækninga. Hann kann að verjast eitrunum með þar til gerðum seiðum, búa um sár með sérstökum tegundum græðandi laufblaða, er auk þess með innbyggða eðlishvöt sem varar hann við hættum en þess utan virðist hann sjálfur vera ósærandi. Hann kann bæði apa- og fílamál og er í raunar fær um að nota öll dýr frumskógarsins sem farartæki eftir þörfum. Þá á Tarzan auðvitað soninn Kórak og kærustunni Jane bregður einnig einstaka sinnum fyrir í blöðunum. Hún virðist þó vera duglegri en Tarzan að heimsækja siðmenninguna því hún er ýmist ljóshærð eða dökkhærð í þeim sögum sem hún birtist.
Árið 1979, þegar fyrstu Tarzan blöðin komu út, voru myndasögublöð á íslensku auðvitað töluvert framandi því enn voru þá fjögur ár í að fyrstu Andrés blöðin litu hér dagsins ljós. Það var því einnig framandi að sjá baksíður Tarzan blaðanna sem fyrst um sinn höfðu að geyma upplýsingar um hvernig gerast mætti áskrifandi og þar mátti einnig sjá hvernig næsta tölublað liti út. Seinna fóru baksíðurnar svo að geyma ýmsan misáhugaverðan fróðleik sem þó var alls ótengdur sjálfri söguhetjunni Tarzan. Þar voru til dæmis birtar myndir og fróðleikur um þekktar persónur úr mannkynssögunni en einnig heimsfrægar íþróttastjörnur frá ýmsum tímum. Hver kannast til dæmis ekki við sænska skautahlauparann Eric Heiden, knattspyrnumennina Gunnar Gren, Gunnar Nordahl og Nissa Liedholm (hann spilaði með Valdimarsvik í Svíþjóð!), hjólreiðamanninn Eddy Merckx og hlaupakonuna Lindu Haglund? Líklega enginn. Augljóslega var þessi þjóðlegi fróðleikur ættaður beint frá Atlantis útgáfunni sænsku og átti lítið erindi við íslensk ungmenni en þýðingarnar á þessum greinum voru hins vegar svo hræðilegar að unun var að lesa. Framan á Tarzan blöðunum mátti einnig finna skemmtilega hluti. Áberandi og litríkum upphrópunum í fyrirsagnarstíl var ætlað að vekja athygli óharðnaða lesendanna, æsa þá upp í að opna virkilega þetta blað og lesa það helst hið snarasta. Lýsingarorðið "spennandi" var þó líklega ofnotað.
Á forsíðum blaðanna voru auðvitað einnig tíundaðir titlarnir á þeim sögum sem hvert hefti hafði að geyma og ekki vantaði dramatíkina á þá. Pigmearnir sem hurfu, Vondi svefninn, Guðinn frá dimmu hliðinni á mánanum, Spjót og demantar og Tennur ógnanna eru dæmi um það. Þessir áhugaverðu titlar bera bæði vísbendingar um að í blöðunum væri að finna stórkostleg bókmenntaverk og um leið afar slæmar þýðingar á þeim. Það var líklega nákvæmlega af þessari ástæðu sem SVEPPAGREIFANUM þótti svo vænt um þessa jaðarblaðaútgáfu um Tarzan. Stundum var konungur apanna kominn langt út fyrir bæði verksvið sitt og sögusvið en maður kippti sér ekkert upp við það. Ef minnið bregst ekki var frumskógarmaðurinn Tarzan jafnvel í einhverju blaðanna farinn að berjast við áhafnameðlimi kafbáts. En Tarzan blöðin lifa og SVEPPAGREIFINN skammast sín ekkert fyrir að viðurkenna að hafa endurnýjað kynni sín við þessi frábæru blöð. Undanfarin ár hefur hann verið að grípa þessi Tarzan hefti þegar hann hefur komist í tæri við góð og ódýr eintök og á nú á ný orðið einhverja tugi af þessum blöðum. Hann er ekki óður safnari en á þó án nokkurs vafa eftir að fylla betur upp í heildarmyndina áður en yfir líkur. Og þannig er það sjálfsagt hjá fleirum. Einhverjir sem tilheyra þeim kynslóðum sem flettu þessum gersemum í æsku hafa sjálfsagt reynt að kynna Tarzan blöðin fyrir afkomendum sínum og þau hafa jafnvel verið gerð ódauðleg í barnabókaflóru Íslendinga. Í unglingabókinni Brynhildur og Tarzan eftir Kristjönu Bergsdóttur, frá árinu 1997, leitar aðalsögupersónan djúpt í þessi blöð og á bókarkápu sögunnar má jafnvel sjá ákveðinn virðingarvott þar sem útlit Tarzan blaðanna fær einhvers konar heiðurssess. Tarzan blöðin hafa því augljóslega skilið heilmikið eftir sig og munu lifa áfram.

Þökk sé Siglufjarðarprentsmiðju fyrir Tarzan blöðin.