10. nóvember 2023

230. EITT AF MEISTARAVERKUM ANDRÉ FRANQUIN

SVEPPAGREIFINN hefur ekki verið neitt sérstaklega duglegur við skriftir hér á Hrakförum og heimskupörum á undanförnum vikum en ákvað, samvisku sinnar vegna, að henda í eins og eina færslu. Það er ekki laust við að svolítið ryð hafi verið byrjað að myndast á myndasöguandagift Greifans og því tók það hann nokkurn tíma að rifja upp og virkja einhvern efnilegan innblástur. En það tókst samt og að endingu varð fyrir valinu eitt af uppáhalds viðfangsefnum hans af öldum myndasöguhafsins. Hér erum við að sjálfsögðu að tala um brandara með sjálfum Viggó viðutan.

Að þessu sinni gróf SVEPPAGREIFINN upp frábæran brandara úr fyrstu Viggó bókinni á íslensku, Viggó hinn óviðjafnanlegi, sem kom út í þýðingu Jóns Gunnarssonar hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1978. Brandarinn birtist upphaflega í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 21. október árið 1971 og er skráður undir númerinu 688. Í sem allra einfaldastri skýringu segir hér frá því þegar Viggó bíður Snjólfi (sem heitir reyndar Lárus í þessari fyrstu Viggó bók á íslensku) að bragða sem snöggvast á piparsósunni sinni. Ekki undir neinum kringumstæðum ætti svo hversdagslegur og einfaldur atburður að vera tilefni til merkilegs einnar blaðsíðu myndasögubrandara en listamanninum André Franquin tekst það þó samt, svo um munar, með stórkostlegum afleiðingum.

En áður en lengra er haldið er líklega bara best að birta þennan brandara hér í heild sinni.

Það er líklega ekki ofsögum sagt að hér fari eitt af meistaraverkum Franquin í meðförum hans á Viggó viðutan. Þrátt fyrir hið meinta innihaldsleysi þá er þetta er alveg hreint stórkostlega fyndinn og vel teiknaður brandari. Nánast hver einasti myndarammi er listaverk sem gæti einnig vel sómað sér sem stök mynd. SVEPPAGREIFINN minnist þessarar blaðsíðu úr æsku og þótti hún auðvitað óstjórnlega fyndin (eins og svo margt annað með Viggó viðutan) en þegar hann var að skoða þennan brandara, í aðdraganda skrifa þessarar færslu, stóð hann sig að því að hreinlega veina af hlátri. Þrátt fyrir að brandarinn byrji strax með látum, og fyrstu fjórir myndarammarnir einkennist aðallega af mismunandi viðbrögðum Eyjólfs við hinni afgerandi framgöngu Snjólfs, þá tekst listamanninum samt sem áður að stigmagna áhrif piparsósunnar með hverri mynd. Það er óhætt að segja að Snjólfur greyjið líti vægast sagt svolítið illa út á þessum fyrri hluta brandarans.

Fyrst spólar hann á ofsafenginn hátt út um dyrnar á skrifstofunni, síðan veltir hann sér organdi um gólfið á ganginum með hendurnar krepptar um logandi hálsinn og í framhaldinu rífur hann utan af sér fötin, hoppandi og skoppandi, á meðan hann blæs másandi í allar áttir. Á þessum fyrstu augnablikum brandarans er Snjólfur eldrauður í andlitinu og allt tryllingslegt látbragð hans ber vott um hamslaust æði. Hvergi hefur þó enn komið fram hver ástæða þessa óvenjulega háttalags hans er en samt er augljóst að hann virðist kveljast illilega af einhverjum ókunnum ástæðum. Þessar teikningar Franquins af tilþrifum Snjólfs eru hreint og beint óborganlegar en þarna eru ósköpin þó bara rétt að byrja því næsta mynd er stórkostleg.

Hér er aumingja maðurinn nefnilega alveg búinn að rífa fötin utan af sér, að ofanverðu, hendist svo í einu stökki upp á skrifborðið hjá henni Sigrúnu (sem hann hefur oft dundað sér við að gera hosur sínar grænar fyrir) og grípur um leið í loftljósið fyrir ofan hana. Þaðan sveiflar hann sér síðan burtu með ægilegu frumskógaöskri en Sigrún lætur sér hins vegar fátt um finnast enda greinilega ýmsu vön af hendi Snjólfs við ástarumleitanir hans. Ætli hún sé ekki önnum kafin þarna við að æfa sig að pikka zefklop, zefklop, zefklop á ritvélina sína? Þessi myndarammi hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM í gegnum tíðina og þá er næsta mynd ekki síðri.

Á þessum tímapunkti hefur ekki enn komið fram af hverju Snjólfur fer þessum hamförum á göngum ritstjórnarskrifstofu SVALS en þó er gefin ákveðin vísbending með þessum frábæra myndaramma. Þarna sprautar hann úr slökkvitæki upp í galopinn munninn á sér og þar með virðist augljóst að eitthvað hafa þessi tilþrif með það að gera að hann hafi sett einhvern óþverra ofan í sig. Það ber auðvitað vott um stórkostlegt hugmyndaflug Franquins að láta sér detta í hug að láta hann nota slökkvitæki við verkið og þetta er alveg frábærlega vel útfærð mynd. Líklega hefði ekki neinn annar listamaður getað teiknað þessi tilþrif jafn listilega vel upp og André Franquin! SVEPPAGREIFINN elskar þennan myndaramma og hefur jafnvel velt því fyrir sér að láta prenta þessa mynd fyrir sig á stórt plaggat til að hafa uppi á vegg á góðum stað í heimili sínu.

Það er síðan á síðusta myndaramma brandarans sem loksins kemur fram ástæða þessa tryllingslega upphlaups Snjólfs þegar Viggó nefnir piparsósuna við Eyjólf. Á þessari mynd eru nokkrir frábærir punktar sem vert er að minnast á. Fyrst og fremst má auðvitað nefna hvernig Snjólfur sjálfur hefur komið sér haganlega fyrir (á hvolfi reyndar) ofan í vaskinum og lætur vatnið buna af fullum krafti upp í sig á meðan Eyjólfur fylgist með í forundran. Þetta er auðvitað alveg stórkostlegt að horfa á. Fyrir aftan þá stendur annar af hollensku bræðrunum (sá rauðhærði), sem hefur verið kallaður Guðni í íslensku þýðingunum, og virðir undrandi fyrir sér fótspor Snjólfs uppi í loftinu fyrir ofan þá. Viggó sjálfur lætur sér hins vegar fátt um finnast og kippir sér lítið upp við æðiskast Snjólfs. Hann heldur á litlum skaftpotti sem augjóslega hefur að geyma piparsósuna illræmdu og ef grannt er skoðað má sjá hvernig rótsterk sósan hefur smám saman étið sig í gegnum botninn á pottinum eins og kraumandi sýra. Af því má ráða að piparsósan hljóti að vera í sterkari kantinum og hin ofsafengnu viðbrögð Snjólfs því líklega bara nokkuð eðlileg.