28. desember 2018

91. JÓLATENGING VIÐ VILLTA VESTRIÐ

Það eru víst ennþá jól og af því tilefni ætlar SVEPPAGREIFINN að láta færslu vikunnar snúast um smá jólaþema sem tengist sögunum um Lukku Láka. Hér er um að ræða tvær litlar hálfsíðusögur (eða öllu heldur brandarar) sem birtust í 12 blaðsíðna hefti sem nefndist Les héros de l'Oues og tilheyrir ekki hinum opinbera Lukku Láka bókaflokki. Þetta hefti, sem er í broti í fullri stærð, hefur að geyma 20 sambærilegar sögur sem fjalla reyndar flestar um Rattata og ýmis heimskupör hans en Lukku Láki sjálfur er þó sjaldan langt undan.
Reyndar er lítið um upplýsingar að finna um þessa bók en þó virðist sem að hún hafi verið í boði um tíma sem einhver fylgihlutur með máltíðum frá hamborgarastöðum McDonalds í Frakklandi og Belgíu. Líklega sambærilegt litlu bókinni La Bataille du riz sem franska olíufélagið Total dreifði frítt til viðskiptavina bensínstöðva sinna og bókin Á léttum fótum - Spes tilboð er byggð á. SVEPPAGREIFINN hefur fjallað aðeins um þá bók. En heftið Les héros de l'Oues var gefið út árið 2003 og þeir Morris og Vittorio Leonardo eru skráðir sem höfundar þess. Efni hennar er þó líklega eitthvað eldra því Morris lést árið 2001. Sem fyrr segir ætlar SVEPPAGREIFINN að birta hér tvo litla brandara úr þessu hefti. Fyrri brandarinn segir frá jólahaldi þeirra Daltón bræðra og Mömmu Döggu en þar fær Rattati úthlutað nýju hlutverki í kjölfar átaka við kisu Mömmu Döggu, Dúllu.
Hinn brandarinn segir líka frá jólahaldi í villta vestrinu og þar kemur Rattati einnig við sögu þó hann sé reyndar steinsofandi á báðum myndarömmum brandarans.
SVEPPAGREIFINN leyfði sér í enn eitt skiptið að draga fram frönskuhæfileika sína (sem er reyndar haugalygi því hann naut dyggrar aðstoðar síns heitt elskaða betri helmings við verknaðinn) við þýðingarnar en leyfði að öðru leyti skáldaleyfi sínu að njóta sín. Vonandi verður honum fyrirgefið það.

14. desember 2018

89. JÓLI LITLI Í SVEPPABORG

Nú styttist til jóla og SVEPPAGREIFINN reynir því að hengja myndasögufærslu vikunnar við eitthvað sem tengist þeim notalega árstíma. Efnið að þessu sinni er svona aðeins til hliðar við það sem Hrakfarir og heimskupör ganga að mestu út á en þó ekki. Í jólablaði belgísk/franska teiknimyndatímaritsins SPIROU (númer 1027), sem kom út þann 19. desember árið 1957, birtist stutt tveggja síðna jólasaga, La bûche de Noël, sem fjallaði um ungan strák er nefndist einfaldlega Le Petit Noël. Noël þýðir auðvitað jól á frönsku en er einnig til sem skírnarnafn og nafn stráksins er því eins konar orðaleikur tengdur efni (jóla)sögunnar. Á íslensku myndi hann líklega kallast Litli Jóli eða Jóli litli en það voru þeir félagar André Franquin og Jidéhem sem áttu heiðurinn að þessari stuttu sögu. Jólasöguna má sjá í lok færslunnar en hér má sjá jólablað SPIROU, árið 1957, sem hún birtist fyrst í.
Jóli litli varð þó ekki að fastri sögupersónu í SPIROU tímaritinu til að byrja með heldur birtist hann aðeins öðru hvoru í blaðinu og þá oftast við hátíðlegri tilefni í kringum jólablöð tímaritsins. Alls teiknaði Franquin fjórar jólasögur um Jóla litla en í seinni sögunum kom Will að handritsgerðinni í stað Jidéhem. Þessar fjórar jólasögur birtust allar í SPIROU á næstu árum og heita La bûche de Noël (nr. 1027 - 1957), Les étranges amis de Noël (nr. 1078 - 1958), Noël et l'Elaoin (nr. 1131 - 1959) og  Joyeuses paques hella mon p'tit Noël (nr. 1354 - 1964). Reyndar voru fleiri sögur gerðar um Jóla litla og samansafn af þeim hafa verið gefnar út í bókaformi en rauði þráðurinn í gegnum þær sögur snúast um lítið vélmenni sem Jóli litli kynntist í sögunni Noël et l'Elaoin.
En Jóli litli, sem er mikill dýravinur, er feiminn, einmana og óhamingjusamur drengur sem á enga vini. Hann er óheppinn, verður fyrir stríðni frá öðrum krökkum og auk þess eiga kennararnir hans í skólanum það jafnvel til að leggja hann í einelti. Foreldrar Jóla litla eru frekar fátæk og þegar jólahátíðin nálgast þá hellist yfir hann einmanaleiki og sorg enda hafa foreldrar hans ekki efni á að kaupa handa honum jólagjafir. Jóli litli þraukar þó í gegnum hver jólin á eftir öðrum en það getur hann þakkað vinskap sinn við Gorm sem hann kynntist í fyrstu sögunni.
Þökk sé Gormi varð Jóli litli síðar að einhvers konar hliðarpersónu meðfram ævintýrum þeirra Svals og Vals (og þá væntanlega einnig með Viggó viðutan) enda býr hann í Sveppaborg. Það skýrir einnig flakkið á Gormi sem dvelur langdvölum í garði Sveppagreifans við kastalann en sem dæmi þá birtist til dæmis borgarstjórinn í Sveppaborg einnig í sögunum um Jóla litla. Þannig má til dæmis líka sjá Jóla litla bregða fyrir í heimabæ sínum sem aukapersónu í tveimur bókum með Sval og Val. Í sögunni um Fangann í styttunni (1960) leikur hann stórt hlutverk í byrjun bókarinnar þar sem hann er að sendast fyrir borgarstjórann en líklega hefur þýðandinn, Jón Gunnarsson, ekkert verið að velta fyrir sér að Jóli litli léki stærra hlutverk í annarri seríu og nefnir hann því einfaldlega bara Sigga.
Svipaða sögu má segja um þýðingar bókarinnar á öðrum tungumálum því að á þýsku nefnist hann til dæmis Nicki. Í aukabók um Gorminn, sem SVEPPAGREIFINN á, má finna samansafn af stuttum sögum eftir Franquin sem birtust í SPIROU tímaritinu og hafa ekki endilega fylgt neinum Sval og Val bókum. Bók þessi er á dönsku en Jóli litli kemur fyrir í nokkrum þeirra sagna og kallast þar til dæmis Julius.

Hin Sval og Val bókin sem Jóli litli birtist lítillega í er Svaðilför til Sveppaborgar (1968). Þar er hann einfaldlega á röltinu í Sveppaborg, sparkandi í niðursuðudós, á gangstéttinni á meðan Valur hleypur inn í bókabúð þorpsins til að kaupa Sveitablaðið
En jólaþemað sem átti að einkenna þessa færslu snýst sem sagt um söguna La bûche de Noël frá árinu 1957. Og til að koma jólasögunni til skila tók SVEPPAGREIFINN sér það bessaleyfi að rifja upp gamla og ryðgaða "dönskuhæfileika" sína úr Splint & co. special bókinni Spirellen sem Interpresse gaf út árið 1981. Það tókst reyndar ekki skammlaust og vonandi fyrirgefur Guðný dönskukennari SVEPPAGREIFANUM þau ófáu skáldaleyfi sem einkenna þýðingu hans. Og vonandi fyrirgefa líka lesendur (og rétthafi sögunnar á Íslandi) SVEPPAGREIFANUM þá þörf að stelast til að setja hana hér inn. En svona birtist La bûche de Noël fyrst og það má auðveldlega tengja anda og blæ sögunnar við allt það sem Franquin var að gera um Sval og Val á þessum árum.

7. desember 2018

88. FRÆGUR TINNA KASTALI

Árið 1994 las SVEPPAGREIFINN litla klausu í Morgunblaðinu undir hinum aldargamla lið slúðurfrétta Fólk í fréttum. Þarna var um að ræða örlitla grein sem fjallaði um heimsókn George Rémi eða Hergé til þorpsins Céroux-Mousty í Belgíu og eins fáránlega og það hljómar þá mundi SVEPPAGREIFINN enn eftir þessari litlu klausu núna næstum 25 árum seinna. Hann gróf því upp greinina á hinum yndislega vef tímarit.is og ákvað að þessu sinni að nota tækifærið til að velta sér aðeins upp úr innihaldi hennar
En efni klausunnar, sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. október árið 1994, var nákvæmlega á þessa leið:
ÞEGAR fréttamaðurinn Tinni og hundurinn Tobbi lentu í eltingarleik við hóp peningafalsara í teiknimyndasögunni Svaðilför í Surtsey varð kastali á leið þeirra sem var gerður eftir raunverulegum kastala í Belgíu. Árið 1950 dvaldi höfundur Tinna bókanna, Hergé, nefnilega oftsinnis í þorpinu Ceroux þar sem Moriensart-turninn er. Hann heillaðist af hönnun turnsins sem er í eigu Gericke d'Herwynen baróns og bað leyfis að fá að nota hann í bókum sínum. Áður en hann fór fékk hann gestabókina lánaða og teiknaði fallega mynd af Tinna og Tobba á rölti frá kastalanum. Sem eðlilegt er og eru d'Herwynen og hans fjölskylda stolt af þessum óvænta heiðri. Fyrir vikið varð kastalinn heimsfrægur og aðdáendur Tinna bókanna leggja gjarnan lykkju á leið sína til að skoða kastalann.
Gestabókssíðan sem um ræðir hefur að sjálfsögðu varðveist og óneitanlega er myndin algjört listaverk eins og Hergé er von og vísa. Fyrir neðan ritaði hann einnig fáein orð til gestgjafanna, ásamt undirskrift sinni, og dagsetninguna 15. apríl 1956.
Kastalinn er byggður á 13. öld og er við Céroux-Mousty, sem er hluti af sveitarfélaginu Ottignies-Louvain-la-Neuve, í héraðinu Walloon Brabant. Það er staðsett um það bil í miðri Belgíu, ef einhver hefur áhuga á að kíkja á staðinn, og þangað kemur fjöldi ferðamanna á ári hverju til að berja kastalann augun. Allt tengist það Tinna bókunum auðvitað.
En það er reyndar ekki allt alveg rétt það sem fram kemur í Morgunblaðinu síðla árs 1994. Hergé notaði kastalann til dæmis ekki sem fyrirmynd að kastalarústunum í bókinni um Svaðilför í Surtsey. Þá sögu teiknaði hann á árunum 1937-38 og fyrirmynd Hergés að kastalanum í Surtsey er að öllum líkindum byggð á nokkrum turnum við strönd bæði Belgíu, Frakklands og Skotlands.  Og þá er það ekki rétt að teikning Hergés sé frá árinu 1950, eins og fram kemur í greininni, heldur 1956 og það sem meira er, hann dvaldi ekki bara eða heimsótti Céroux-Mousty heldur átti hann þar sjálfur hús og bjó þar einfaldlega. Af Moggagreininni mætti hins vegar ráða að Hergé hafi haft viðdvöl nokkrum sinnum í héraðinu og kastalinn hafi fangað athygli hans í eitthvert skiptið. Það er því ljóst að þessi litla fréttaklausa í Mogganum, sem SVEPPAGREIFINN var búinn hafa fyrir að muna eftir í næstum 25 ár, var bara algjört prump að miklu leyti.

En til gamans má geta þess að Hergé keypti hús við Céroux-Mousty, sem var gamalt gistihús í spænskum stíl, árið 1949 og nefndi það La Ferrièresem en það var þá reyndar orðið ansi hrörlegt og lélegt. Hann hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig hann vildi breyta því og fór fljótlega að fá iðnaðarmenn til að gera húsið upp. Frá árinu 1953 var hann með skráð lögheimili í húsinu og þar bjó hann að mestu næstu árin.