Það eru víst ennþá jól og af því tilefni ætlar SVEPPAGREIFINN að láta færslu vikunnar snúast um smá jólaþema sem tengist sögunum um Lukku Láka. Hér er um að ræða tvær litlar hálfsíðusögur (eða öllu heldur brandarar) sem birtust í 12 blaðsíðna hefti sem nefndist Les héros de l'Oues og tilheyrir ekki hinum opinbera Lukku Láka bókaflokki. Þetta hefti, sem er í broti í fullri stærð, hefur að geyma 20 sambærilegar sögur sem fjalla reyndar flestar um Rattata og ýmis heimskupör hans en Lukku Láki sjálfur er þó sjaldan langt undan.
Reyndar er lítið um upplýsingar að finna um þessa bók en þó virðist sem að hún hafi verið í boði um tíma sem einhver fylgihlutur með máltíðum frá hamborgarastöðum McDonalds í Frakklandi og Belgíu. Líklega sambærilegt litlu bókinni La Bataille du riz sem franska olíufélagið Total dreifði frítt til viðskiptavina bensínstöðva sinna og bókin Á léttum fótum - Spes tilboð er byggð á. SVEPPAGREIFINN hefur fjallað aðeins um þá bók. En heftið Les héros de l'Oues var gefið út árið 2003 og þeir Morris og Vittorio Leonardo eru skráðir sem höfundar þess. Efni hennar er þó líklega eitthvað eldra því Morris lést árið 2001. Sem fyrr segir ætlar SVEPPAGREIFINN að birta hér tvo litla brandara úr þessu hefti. Fyrri brandarinn segir frá jólahaldi þeirra Daltón bræðra og Mömmu Döggu en þar fær Rattati úthlutað nýju hlutverki í kjölfar átaka við kisu Mömmu Döggu, Dúllu.
Hinn brandarinn segir líka frá jólahaldi í villta vestrinu og þar kemur Rattati einnig við sögu þó hann sé reyndar steinsofandi á báðum myndarömmum brandarans.
SVEPPAGREIFINN leyfði sér í enn eitt skiptið að draga fram frönskuhæfileika sína (sem er reyndar haugalygi því hann naut dyggrar aðstoðar síns heitt elskaða betri helmings við verknaðinn) við þýðingarnar en leyfði að öðru leyti skáldaleyfi sínu að njóta sín. Vonandi verður honum fyrirgefið það.