31. ágúst 2018

74. HIN LÖNGU GLEYMDA HÁSKAÞRENNA

Enn á ný hefur SVEPPAGREIFINN verið að gramsa svolítið í myndasöguhillunum sínum og að þessu sinni dró hann fram bók sem virðist ekki hafa farið mjög mikið fyrir á sínum tíma. Hér er um að ræða myndasögu sem nefnist Ógnir í undirdjúpum (L'Oeil du Barracuda - 1987) og ku tilheyra seríu sem kallaðist Háskaþrennan eða Brelan de dames á frönsku. Þessi saga, Ógnir í undirdjúpum, kom út á hér á landi árið 1988 og þá var reyndar verulega farið að draga úr vinsældum teiknimyndasagna frá íslensku forlögunum. Útgáfu myndasagna fór hríðfækkandi og til að gera langa sögu stutta kom aðeins út þessi eina saga í bókaflokknum.
Bókina þýddi Bjarni Fr. Karlsson fyrir bókaútgáfuna Iðunni en hann hefur komið að fjölmörgum þýðingum á þeim teiknimyndasögum sem komið hafa út á íslensku síðustu áratugina. Titillinn, Ógnir í undirdjúpum, hljómar voðalega staðlaður í eyrum þeirra sem lásu þýddar spennusögur á seinni hluta tuttugustu aldarinnar en L'Oeil du Barracuda stendur í raun fyrir Í auga Barrakúda. Ógnir í undirdjúpum gæti hins vegar þess vegna verið gömul glæpasaga eftir Alistair Maclean eða Desmond Bagley en það má samt líka til gamans geta að kafbátamyndin SPHERE (með Dustin Hoffman, Sharon Stone og Samuel L. Jackson) fékk þennan virðulega titil í bíóhúsunum á sínum tíma. En það er allt önnur saga.

Aftan á bókakápu sögunnar má lesa eftirfarandi texta um söguþráð bókarinnar:
Fólskuleg árás er gerð á aðsetur fiskimanna á smáey í Karabíska hafinu. Þar kemst innfædd stúlka með naumindum undan erlendum hryðjuverkamönnum. Þeir sækjast eftir korti sem hún hefur undir höndum, svo að hún er áfram í mikilli hættu. Hvaða leyndardóm geymir kortið og hverjir eiga þarna hagsmuna að gæta? 
Eygló og Kolbrún lenda í samkvæmi hjá sérvitrum milljónamæringi á eynni. Það verður til þess að þær dragast inn í æsilega atburðarás, þar sem dauðinn bíður við hvert fótmál. Notalegt sumarleyfi við sjóinn snýst upp í skelfilega martröð. En þegar Tinna slæst í hópinn er "háskaþrennan" sameinuð og lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna ...
Á bakhlið myndasögunnar má einnig sjá þessa ljósmynd en hún gefur reyndar engan veginn rétta mynd af innihaldi eða andrúmslofti bókarinnar. Á myndinni má sjá hina föngulegu Háskaþrennu (ásamt höfundum sínum) spóka sig í kringum bekk úti í garði en með teiknistíl eins og um einhverjar grínsögur væri að ræða. Svo er þó ekki alveg. Sögurnar eru allt annars eðlis. Það verður reyndar að taka tillit til þess að þessi mynd sýnir persónurnar eins og þær birtust tiltölulega snemma í bókaflokknum en stíll seríunnar breyttist töluvert í þeim sjö bókum sem gefnar voru út í seríunni.
En bækurnar um Háskaþrennuna fjalla um þrjár ungar stúlkur sem starfa sem einkaspæjarar en þær unnu allar áður fyrir Bandarísku Leyniþjónustuna CIA. Í þessari einu sögu sem komið hefur út á íslensku heita stúlkurnar Eygló, Kolbrún og Tinna en á frummálinu franska nefnast þær Jaimie Grisbee, Amanda Wenn og Laurence Tonkin. Hver um sig hefur ákveðna hæfileika sem nýtast þeim í starfinu en Jaimie er sérfróð um meðhöndlun vopna, Amanda er sérfræðingur í notkun kvenlegs sjarma (það er kannski einhver tilbúinn til að útskýra það aðeins betur fyrir SVEPPAGREIFANUM) og sérsvið Laurence eru bardagaíþróttir. Hver fyrir sig er tákngervingur drottninganna úr mannspilunum. Þannig er Jaimie spaðadrottningin, Amanda er hjartadrottningin og Laurence er laufadrottningin. Þessar myndasögur eru innblásnar af bandarísku sjónvarpsþáttunum um Charlie's Angels sem voru mjög vinsælir á áttunda áratug síðustu aldar en margir kannast vafalaust líka við tvær Hollywood bíómyndir, byggðum á sjónvarpsseríunni, sem framleiddar voru snemma á þessari öld.
Sögurnar um Háskaþrennuna urðu eins og áður segir aðeins sjö talsins og sú sem kom út í íslenskri þýðingu, Ógnir í undirdjúpun, er í raun síðasta bókin í seríunni. Það má því segja að, eins og var svo oft með þær myndasögur sem verið var að gefa út á íslensku, að þar hafi svo sannarlega verið byrjað á öfugum enda. Það er því afskaplega erfitt fyrir íslenska lesendur að reyna að átta sig á bókaseríunni af þessari einu sögu. Og svo hjálpar það heldur ekki að söguþráðurinn er bæði nokkuð slitróttur og tilviljunarkenndur. Það tók til dæmis SVEPPAGREIFANN töluverðan tíma að átta sig á því hverjar væru aðalsöguhetjur þessarar bókar. Í fljótu bragði virðast þessar bækur því heldur innihaldsrýrar. Þrjár ungar kvenhetjur í aðalhlutverkum, oftar en ekki í (næstum því) nærfötum eða sundfötum og hálffalin brjóst og rassar blasandi við í tíma og ótíma.
Sögurnar virðast því jafn efnislitlar og klæðnaður stúlknanna. Kunnugleg stef bæði fyrr og síðar frá hinum ýmsu kimum dægurmenningarinnar. Líklega var markhópurinn ungir og verðandi karlmenn sem ýmist voru að nálgast hvolpavitið eða komnir með það en áttu í erfiðleikum með að hemja hormónana þegar þeir voru komnir með brjóstaskoru fyrir framan sig. En greinilega voru takmörk fyrir öllu og þessar sjö sögur nægðu fyllilega til að metta markaðinn. SVEPPAGREIFANUM lék því svolítið forvitni á að vita út á hvað þessi hallærislega sería gengi og fór að grennslast fyrir um innihald hennar og sögu. Reyndar var lítið á þeirri eftirgrennslan að græða. Líklega þykir mönnum þessar myndasögur of vandræðalegar og eitís í dag til að vera neitt að flagga þeim of mikið. 
En hin belgíska Háskaþrenna hóf sem sagt göngu sína, eins og svo margar myndasögur í Belgíu, í Journal de Tintin (Tinna-tímaritinu) árið 1979 en þá birtist stutt átta síðna saga um tríóið í aukablaðinu Super Tintin. Hinar almennu sögur um Háskaþrennuna hófu síðan að birtast í blaðinu árið 1980 og fyrstu tvær sögurnar, Opération marées noires og Safari dans l’enfer vert, komu út í bókarformi í september árið 1983. Þriðja bókin sem heitir La Vengeance des Moustikhos kom út í mars 1984Embrouille en Ghafnistan var gefin út í febrúar 1985 og sú fimmta, La Malédiction, var gefin út í apríl 1986. Þá var komið að sögunni Le Sang des Dewatah í apríl 1987 og sú síðasta sem við þekkjum, L'Oeil du Barracuda eða Ógnir í undirdjúpum, kom síðan út í bókarformi í febrúar árið 1988.
Höfundar þessarar seríu voru listamaðurinn Renaud Denauw og handritshöfundurinn Jean-Luc Vernal en sá var einnig ritstjóri Journal de Tintin á árunum 1979-88. Vernal lést árið 2017. Jean Dufaux kom einnig að handritsgerðinni í síðustu tveimur bókunum en hann er lengi búinn að vera einn af þekktustu og vinsælustu handritshöfundum Evrópu. Margir kannast eflaust við hann af handritsgerð sinni við bækurnar um Veg Dixies sem Nordic Comic gaf út hér á landi fyrir tæplega 20 árum síðan. Renaud Denauw hins vegar er belgískur teiknari sem starfaði meðal annars hjá SPIROU tímaritinu í nokkur ár en flutti sig yfir á Journal de Tintin árið 1979 þar sem þeir Vernal hófu samstarf með seríuna um Háskaþrennuna. Á þeim árum sem þeir störfuðu saman að seríunni þróaðist teiknistíll Renaud meira yfir í raunsærri teikningar og það má berlega sjá þau þroskamerki á sögunum um Háskaþrennuna. Eftir að Háskaþrennunni lauk hóf hann vinnu að nýrri seríu, ásamt Jean Dufaux, um rithöfundinn Jessicu Blandy en þær myndasögur hafa notið töluverðra vinsælda.
Þótt sögurnar um Háskaþrennuna hafi að öllum líkindum átt að höfða mest til drengja, eins og áður hefur verið vikið að, má þó færa rök fyrir því að teiknarinn Renaud Denauw hafi líka fengið sitt út úr vinnu sinni við seríuna. Þekktir listamenn eins og Hergé og jafnvel Franquin dunduðu sér stundum við það til gamans að teikna sjálfa sig eða samstarfsfólk inn í myndasögurnar sínar. Þeir gerðu það þá jafnan á þann hæverska hátt að leita þurfti að þeim í sögunum. En Renaud teiknaði líka sjálfan sig inn í seríuna um Háskaþrennuna en munurinn á honum og hinum listamönnunum var sá að Renaud var ekkert að draga athyglina neitt of mikið frá sér.
Kannski var bara ágætt að ekki komu út fleiri sögur um Háskaþrennuna á íslensku og miðað við gæðin er bara fullkomlega eðlilegt að þær hafi fallið smám saman í gleymskunar dá.

24. ágúst 2018

73. FLIBBAHNAPPUR VANDRÁÐS PRÓFESSOR

Færsla dagsins er óvenju snöggsoðin vegna tilfinnanlegs tímaskorts og almennrar leti. En í Tinna bókinni um Vandræði ungfrú Vaílu Veinólínó má finna leyndan brandara um flibbahnapp Vandráðs prófessors. Á blaðsíðu 8 kemur Vaíla og fylgdarlið hennar með miklum látum í heimsókn að Myllusetri Kolbeins kafteins og á næstu blaðsíðu á eftir birtist þessi bráðskemmtilega mynd. Tinni kynnir prófessorinn fyrir söngkonunni ægilegu og í kjölfarið hneigir Vilhjálmur Vandráður sig yfirmáta kurteisislega að hætti háttvísra herramanna. Við það skýst flibbahnappur prófessorsins út í loftið en fæstir lesenda verða þess þó líklega varir. 
Vilhjálmur Vandráður tekur ekki eftir neinu og það sama má reyndar segja um hina ítölsku söngdívu sem, miðað við orð hennar, misminnir þó eitthvað frægðarverk og afrek prófessorsins sem hann er þekktastur fyrir. Tinni, sem augljóslega er alltaf vakandi fyrir hinu óvænta, sér þó flibbahnappinn yfirgefa prófessorinn og fáeinum myndum seinna má sjá hvar hann, í bakgrunninum, afhendir Vandráði aftur hinn týnda grip.
Gaman að því ...

17. ágúst 2018

72. DÆMI UM HEIMSKU DALTÓN BRÆÐRA

Sögurnar um Lukku Láka eru í töluverðu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og þar er húmor bókanna oftar en ekki ástæðan. Grínið laðar og yfirdrifin heimska sumra persónanna dregur sjaldnast eitthvað úr gæðum myndasagnanna. Síður en svo. Þannig er alltaf svolítið tilhneiging þeirra höfunda, sem semja handrit teiknimyndasagna, að gera bæði löggur og glæpamenn að helstu persónugervingum heimskunnar. Hinn hæfileikaríki handritshöfundur Lukku Láka bókanna, René Goscinny, var einmitt duglegur við það að gera vondu kallana í sögum sínum einfalda og vitgranna en listamaðurinn Morris sá um að gæða myndmálinu lífi. Goscinny sá einnig um handritsgerð Ástríks bókanna og í þeim sögum voru það til dæmis Rómverjarnir sem dæmdust til þeirra örlaga að feta slóðir heimskugyðjunnar. Reyndar lét Goscinny löggur eða skerfara Lukku Láka bókanna að mestu óáreitta en hins vegar áttu sumir aðrir myndasöguhöfundar erfitt með sig um löggæslustéttina, sem margir hverjir fá rækilega á baukinn. Skaftarnir í Tinna bókunum, Loftur og Lárus í Hinum 4 fræknu, lögregluþjónn nr. 15 í Palla og Togga og Njörður í bókunum um Viggó viðutan eru ágæt dæmi um það. En viðfangsefni SVEPPAGREIFANS að þessu sinni er einmitt tengt hinu fræga glæpagengi úr Lukku láka bókunum, Daldónunum, og það verður að segjast eins og er að fáir standast þeim bræðrum snúning í heimskubransanum. 
Sögurnar um Lukku Láka voru reyndar upphaflega aðeins sköpunarverk Morris en René Goscinny hóf störf sín við handritsgerð sagnanna í 9. bókinni, Des rails sur la Prairie, sem kom út árið 1957 og við Íslendingar þekkjum sem söguna um Þverálfujárnbrautina (1981). Goscinny tók fljótlega þann kostinn að auðga Lukku Láka sögurnar raunverulegum persónum úr mannkynssögunni en í þeim hópi mátti meðal annars finna alvöru skúrka eins og Billy the kid (Billa barnunga), Jesse James (Jessi Jamm og Jæja), Roy Bean (Hrói grænbaun sem var kannski ekki beint skúrkur) og að sjálfsögðu áðurnefnda Daltón bræður. Reyndar hafði Morris þá þegar samið eina sögu um Daldóna árið 1954 sem nefndist Hors la loi (Eldri Daldónar - 1982) en sú saga fjallaði einmitt um hina raunverulegu Daltón bræður - þ.e. hina eldri. Sögur Goscinnys fjölluðu hins vegar allar um meinta frændur þeirra sem áttu enga ósk heitari en að feta í fótspor hinna eldri í glæpamennskunni. Daltón bræður hinir yngri, sem við þekkjum sem Jobba, Vibba, Kobba og Ibba, stigu hins vegar ekki beint í vitið.
Í bókunum um Lukku Láka má finna fjölmörg dæmi þar sem þeir félagar Morris og Goscinny hafa leikið sér með hið takmarkaða gáfnafar Daltón bræðra og oftast nær er það sá stærsti Ibbi sem fær helst að finna fyrir því með greindarskorti sínum. En svo er þó ekki í einum brandaranum úr bókinni Fjársjóður Daldóna, sem SVEPPAGREIFINN ætlar að henda upp hér, en sá er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá honum.

Forsagan að þessu atviki er sú þeir bræður fá vitneskju (falska að vísu) um það að fjársjóður nokkur sé falinn undir stóru furutré sem gróðursett hafði verið á hinni nafntoguðu Rauðhálsahæð. Sá galli er reyndar á gjöf Njarðar að furan góða á Rauðhálsahæð er innan múra rammgerðs og heimsfrægs fangelsis sem einmitt er staðsett á áðurnefndri hæð. Því grípa Daldónar til þess "óbrigðula ráðs" að brjóta af sér til að reyna að fá hinn illræmda og miskunarlausa Oddgeir dómara til að stinga þeim í steininn. Og auðvitað mistekst það.
Í örvæntingafullri viðleitni sinni við að brjóta lögin tekst þeim bræðrum að setja Rauðhálsalestina út af sporinu og telja sig þar með eiga greiða leið inn í fangelsið í boði Oddeirs dómara. Sú ráðagerð heppnast hins vegar ekki en hinir stórhættulegu og eftirlýstu glæpamenn, Brælufeðgar, voru hins vegar farþegar í lestinni og voru ekki alls kostar sáttir við þetta uppátæki þeirra Daldóna að setja lestina á hliðina. Með samblandi af ofbeldi og ofurlítilli hugkænsku, auk pirrings lituðum af illgirni, rota þeir Brælufeðgar Daltón bræður í hefndarskyni rétt áður en Oddgeir dómari tekur þá í sína vörslu. Þrír elstu Daldónanna rakna fljótlega til meðvitundar eftir höfuðhöggin en Ibbi greyið liggur áfram steinrotaður. Vibbi og Kobbi grípa því til þess ráðs að færa hann að skuggsælum stað, undir tré í grenndinni, til að hlífa honum við brennheitri sólinni.
Og þótt Jobbi sé hvorki þekktur fyrir gáfur né umhyggju gagnvart Ibba bróður sínum þá kemur á óvart þegar hann hefur rænu á að ávíta Vibba og Kobba fyrir að færa Ibba af slysstað. Kobbi segir honum hins vegar að slaka á og eðlilega flytja þeir Vibbi hann bara aftur á slysstað.
En ekki hvað?

10. ágúst 2018

71. KEYPT Í SVISS SUMARIÐ 2018

SVEPPAGREIFINN er búinn að vera í sumarfríi undanfarnar vikurnar og eins og svo oft hefur hann verið með fjölskyldunni á flandri í landi Toblerone og osta. Og auðvitað var ekki hjá því komist að versla svolítið af myndasögum. Það hefur svo sem alveg gerst áður. En það verður að viðurkennast að SVEPPAGREIFINN hefur sjaldan verið hógværari í kauphugleiðingum sínum. Hann keypti í rauninni ekki nema 11 myndasögur í þessu sumarfríi sem telst ekki mikið og það er því ljóst að hann á töluvert inni.

Í borginni Biel byrjaði hann á að rekast á myndasögurekka á götumarkaði í miðbænum þar sem töluvert úrval gamalla teiknimyndasagna stóð til boða. SVEPPAGREIFINN hefur alltaf verið duglegur að nálgast vel með farnar og notaðar myndasögur á flóamörkuðum eða götumarkaðstorgum af ýmsu tagi. Þetta hefur auðvitað margoft komið fram á Hrakförum og heimskupörum. Og þarna greip hann með sér nokkra mjög vel með farna, notaða gripi sem mega alveg fá sitt pláss í myndasöguhillunum. Bækurnar voru allar á frummálinu, frönsku, og SVEPPAGREIFINN greiddi ekki nema 5 franka (um 540 krónur) fyrir eintakið en þess má geta að nýjar myndasögur í Sviss eru yfirleitt á verðbilinu þetta 13 - 19 franka (1400 - 2000 krónur). Sviss telst reyndar mjög dýrt land en til samanburðar má geta að sambærilegar notaðar (þ.e. áhugaverðar) myndasögur í Góða hirðinum er langflestar á 1200 kall og nýjar á um 3000 til 3500 krónur. Enn á ný fáum við staðfestingu á því hvað Ísland er ömurlega dýrt.
En til að gera langa sögu stutta þá voru það fimm myndasögubækur sem fjárfest var í þessari fyrstu atrennu sumarfrísins. Fyrsta skal nefna sögu úr bókaflokknum um Blake og Mortimer sem SVEPPAGREIFINN hefur aðeins verið að detta inní en fyrsta sagan í þeirri seríu birtist í myndasögublaðinu Journal of Tintin á árunum 1946-49 og kom fyrst út í bókaformi árið 1950. Sögurnar voru upphaflega eftir belgíska listamanninn Edgar P. Jacobs en eins og margir vita var hann ein af nokkrum hægri höndum Hergés hjá Hergé Studios þegar Tinna bækurnar voru að koma út. Edgar P. Jacobs fór strax að teikna eigin sögur, samhliða vinnu sinni með Tinna hjá Hergé Studios, og bækurnar um Blake og Mortimer slógu í gegn og urðu með tímanum mjög vinsælar í Belgíu og Frakklandi. Bókin sem SVEPPAGREIFINN verslaði heitir Les 3 Formules du professeur Satō, er 11. sagan í seríunni og kom út í bókaformi árið 1977 en þetta var síðasta Blake og Mortimer bókin sem Jacobs gerði áður en hann lést árið 1987. Síðar kom út seinni hluti sögunnar en hana teiknaði Bob de Moor annar kunnur listamaður á vegum Hergé Studios. Það hefði óneitanlega verið gaman að sjá þessar myndasögur gefnar út á íslensku á sínum tíma en bækurnar eru reyndar fáanlegar á dönsku fyrir þá sem vilja kynna sér þær betur.
Næst var það bókin Eric et les Pablitos með knattspyrnuhetjunni Eric Castel. Eric Castel er bókaflokkur sem fyrst hóf göngu sína árið 1979 og SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um í einni af færslum sínum tengdum Heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu fyrr í sumar. Þessi saga, Eric et les Pablitos, er sú fyrsta í seríunni en alls komu út 15 bækur í bókaflokknum. Bækurnar um Eric Castel voru nokkuð vinsælar í Frakklandi og Belgíu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en síðasta bókin í þessari seríu kom út árið 1992. Þessar bækur komu aldrei út á íslensku en margir myndasöguunnendur þekkja kappann eflaust úr skandinavískum teiknimyndablöðum sem stundum var hægt að nálgast hér á landi á síðustu öld.
Fyrstu bókina, 60 gags de Boule et Bill no 1, úr bókaflokknum um Boule og Bill fann SVEPPAGREIFINN einnig á markaðstorginu í Biel en sú sería var ein sú allra vinsælasta sem kom frá Belgíu/Frakklandi. Alls hafa komið út hátt í 40 bækur í þessum bókaflokki og sú síðasta árið 2015. Boule og Bill hófu göngu sína í belgíska myndasögublaðinu SPIROU árið 1962 og nutu, eins og áður segir, gríðarlegra vinsælda. Brandararnir með Boule og Bill voru alltaf hugsaðir sem eins konar evrópskur mótleikur gegn hinum amerísku Peanuts (Smáfólk) myndasögum eftir Charlie M. Schulz en eru hins vegar bara miklu skemmtilegri.
Strumpabókina Histoires de Schtroumpfs frá árinu 1972 rak einnig á fjörur SVEPPAGREIFANS en þar er um að ræða áttundu bók Peyo í seríunni en hún er samansafn einnar blaðsíðu brandara um Strumpana. Í upprunalegu útgáfuseríunni er Histoires de Schtroumpfs staðsett mitt á milli Galdrastrumps (L'Apprenti Schtroumpf  - 1971) og Strumpastríðs (Schtroumpf vert et Vert Schtroumpf - 1973) sem báðar komu út á íslensku hjá Iðunni á sínum tíma. Peyo teiknaði sjö sögur til viðbótar áður en hann lést árið 1992. Tveimur árum síðar tók sonur hans Thierre við keflinu og heldur uppi merkjum föður síns en Strumpabækurnar eru ennþá að koma út. Samtals hefur Thierre teiknað 20 bækur í bókaflokknum en sú nýjasta kom út í mars á þessu ári. Histoires de Schtroumpfs hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu en reikna má með að þess verði ekki langt að bíða að Froskur útgáfa sendi hana frá sér.
Og að síðustu var þarna myndasaga sem SVEPPAGREIFINN verslaði og viðurkennir fúslega að hann hafði ekki haft hugmynd um tilvist hennar. Þarna er um ræða myndasögu sem nefnist Banlieue West, sem er eins konar heiðursbók tileinkuð Lukku Láka, og fjallar um (and?)hetjuna Rocky Luke. Bókin var fyrst gefin út árið 1985 og hefur reyndar verið endurútgefin þrisvar en eintakið sem SVEPPAGREIFANUM áskotnaðist er einmitt úr 1. útgáfunni. SVEPPAGREIFINN minnist bókar (La galerie des Gaffes) sem hann verslaði um páskana í Frakklandi, um Viggó  viðutan, og fjallaði eilítið um hér en þar var um að ræða afmælisbindi í tilefni af 60 ára afmæli Viggós. Í þeirri bók teiknuðu 60 listamenn jafnmarga brandara um kappann honum til heiðurs. Banlieue West virðist hafa að geyma sambærilegt efni en þar eru 42 teiknarar (fæstir þeirra voru reyndar mjög kunnir á þeim tíma) sem heiðra kappann, sem er skjótari en skugginn að skjóta, með einnar blaðsíðu bröndurum. Brandararnir eru margir hverjir nokkuð einfaldir og teiknistíllinn yfirleitt í groddalegri kantinum þar sem of margir listamannanna virðast leggja mestu áhersluna á að muna eftir sólarlagsendinum - I'm poor lonesome cowboy ... osfrv. 
Rocky Luke er teiknaður á marga mismunandi vegu (eðlilega þar sem 42 teiknarar koma við sögu) og um leið á nokkrum mismunandi tímum en þó er villta vestrið oftast sögusvið listamannanna. Reyndar vilja nokkrir höfundanna tengja Rocky Luke við aðra tíma og þar kemur einhvers konar '50s tíðarandi sterkur inn. Mörgum þeirra virðist nefnilega eðlislægt að tengja nútímaútgáfuna af Lukku Láka við reykspólandi ameríska kagga og mótorhjól. Við fyrstu sýn (útlitslega) virðist manni sem hugmyndafræðilega sé þarna um að ræða jaðarlistamenn sem hrífast af finnsku hljómsveitinni Leningrad Cowboys en svo er þó ekki. Sú sveit kom ekki til sögunnar fyrr en árið 1986. SVEPPAGREIFINN minnist þess að hafa rekist á myndasögur í sambærilegum stíl bæði með Ástríki og Viggó viðutan og svo kannast eflaust margir við hliðarseríuna um Lukku Láka með bókunum L'Homme qui tua Lucky Luke og Jolly Jumper ne répond plusEn þessi myndasaga Banlieue West er eiginlega einhvers konar illa teiknuð Lukku Láka bók fyrir fullorðna. Bráðnauðsynleg samt ...
Þessar fimm bækur voru látnar duga í bili á götumarkaðnum í Biel en af því að fjölskyldan hafði aðal aðsetur sitt í nágrenni borgarinnar var SVEPPAGREIFINN reglulega á röltinu í miðbænum vikurnar á eftir. Því ráfaði hann þar endrum og eins um helstu bókabúðir borgarinnar og stórmarkaði og kíkti reglulega eftir því hvort ekki væri eitthvað áhugavert í hillunum. Á einu slíku ráfi rakst hann til dæmis á myndasögu sem heitir Le messager (1995) og er 9. bókin í seríunni um hundinn Rattata (Rantanplan). SVEPPAGREIFINN hefur svo sem flett í gegnum bækurnur um Rattata áður, án þess þó að versla þær, en það verður að segjast eins og er að þessar myndasögur eru harla ómerkilegar. Enda var þessi á tilboði með 50% afslætti. Þarna er um að ræða heilar sögur upp á 46 blaðsíður en ekki stuttir brandarar eins og maður myndi ætla í fyrstu. Hugmyndin er nefnilega í sjálfu sér alveg ágæt því fyrirfram virðist heimska Rattata svolítið vannýtt auðlind sem auðvelt gæti verið að vinna eitthvað úr á skemmtilegan hátt. En höfundum seríunnar virðist þó engan veginn takast að notfæra sér það. Í augum SVEPPAGREIFANS er aðeins verið að reyna að mjólka Lukku Láka spenann (sem reyndar er líka orðinn ansi rýr) með þessari tegund hliðarmyndasagna. Meira að segja teiknistíllinn lítur út fyrir að vera annars flokks. Þó verður að taka það fram að fyrri bækurnar í seríunni gætu verið skárri því einhverra hluta vegna komu út 20 sögur í þessum bókaflokki og þær voru eftir nokkra mismunandi höfunda. Serían virðist þó vera hætt að koma út núna því síðasta bókin er frá árinu 2011.
En nokkrum dögum seinna átti SVEPPAGREIFINN leið til Bern og eins og oft áður keypti hann eitthvað af myndasögum í höfuðborginni. Þar voru gripnar tvær Sval og Val bækur úr þýsku Spezial hliðarbókaseríunni (Série Le Spirou de ... eða Sérstök ævintýri Svals ...) en þarna er um að ræða bókina Das Licht von Borneo (La Lumière de Bornéo á frönsku) og Sein Name war Ptirou (Il s'appelait Ptirou). Das Licht von Borneo, sem er eftir þá Frank Pé og Zidrou og kom út árið 2016, segir frá því að Svalur er hættur störfum sem blaðamaður og snýr sér að rólegri áhugamálum en sagan fjallar að miklu leyti um umhverfisvernd. Hin bókin Sein Name war Ptirou kom út árið 2017 og er eftir Lauren Verron og Y. Sente en þessi saga er sú nýjasta í seríunni. Hún fjallar eiginlega um forsöguna að því hvernig persónan Svalur varð til og enn verðum við að muna að þetta eru sögur eru alveg óháðar upprunalegu Sval og Val seríunni. Báðar þessar myndasögur virka mjög áhugaverðar og vandaðar, þó ólíkar séu, og þær eru líka heldur veglegri en flestar af þeim bókum sem komið hafa út í seríunni. Das Licht von Borneo er tæplega 90 blaðsíður að lengd en Sein Name war Ptirou um 80. Helsti gallinn við þessar þýsku Spezial útgáfuseríu er sá (að mati SVEPPAGREIFANS) að bækurnar eru ekki í sömu röð og í þeirri upprunalegu belgísku og í raun er ekki einu sinni um allar sömu bækur að ræða. Í Spezial röðinni eru bækurnar auk þess miklu fleiri. Misræmið felst aðallega í því að margar af gömlu upprunalegu sögunum (eftir t.d. Rob-Vel, Jije og jafnvel Franquin) eru líka látnar tilheyra þýsku útgáfunni en auk þess má þar til dæmis líka finna bókina Les folles aventures de Spirou sem SVEPPAGREIFINN fjallaði um hér. Sú bók tilheyrir ekki heldur upprunalegu bókaröðinni á frönsku. Þannig eru í belgísku seríunni aðeins komnar út 13 bækur á meðan þær eru orðnar alla vega 25 í þeirri þýsku.
Og svo var það ein myndasaga sem Greifynjan, hinn ástkæri fallegri helmingur SVEPPAGREIFANS, fjárfesti í og mun að sjálfsögðu fá sitt pláss í myndasöguhillum heimilisins. Þar var um að ræða nýjustu bókina í Ástríks seríunni á ítölsku en til gamans má geta að þetta er fyrsta teiknimyndasagan á ítölsku sem kemur inn á heimilið. 
Forsagan er sú að Greifynjan er búin að vera að læra ítölsku undanfarin misseri og vantaði því einfalt lesefni á því tungumáli, með myndum, til að létta sér námið. SVEPPAGREIFINN átti ekki von á að það yrði neitt stórmál enda myndasöguhillur heimilisins fullar af bókum (ca. 600 stk.) á um tíu til fimmtán mismunandi tungumálum. En við nánari skoðun kom í ljós að ekki ein einasta þeirra var á ítölsku. Á flakki um Ítalíu um páskana hafði  aldrei gefist almennilega tími eða næði til að leita uppi myndasögur á ítölsku en það tækifæri gafst hins vegar betur núna í Sviss. Enda ítalskan eitt af fjórum opinberum tungumálum í landinu. Það er því vel við hæfi að nýjasta sagan heiti einmitt Astérix et la transItalique (sem myndi væntanlega útleggjast á íslensku einhvern veginn sem Ástríkur á ferð um Ítalíu) en hinn ítalski titill bókarinnar nefnist Asterix e la corsa d'Italia.

Svo má ekki gleyma tveimur bókum úr opinberu seríunni með Sval og Val sem verslaðar voru áður en flogið var af stað heim frá Basel. Þar var um að ræða hina umdeildu bók Jagd auf Spirou (Machine qui rêve - 1998) eftir þá Tome og Janry og Angriff der Zyklozonks (Alerte aux Zorkons - 2010) sem var fyrsta sagan sem þeir Vehlmann og Yoann gerðu í seríunni. Jagd auf Spirou fjallar um dularfullt líftæknifyrirtæki sem stundar klónun en sagan er sú síðasta sem Tome og Janry gerðu í seríunni. Bókin hlaut mjög misjafna dóma enda er hún gjörólík fyrri bókum um Sval og Val og í rauninni skipta þeir höfundar þarna algjörlega um stíl í miðjum bókaflokknum. Í sögunni Angriff der Zyklozonks segir frá því að Zorglúbb brýtur óvart tilraunaglös á tilraunastofu Sveppagreifans sem hefur skelfilegar afleiðingar fyrir íbúa Sveppaborgar. Bókin er í raun aðeins fyrri hluti þessarar sögu en seinni hluti hennar (Die dunkle Seite des Z (La Face cachée du Z - 2011)) gerist að stærstum hluta á tunglinu.
Nú reiknast SVEPPAGREIFANUM svo til að alls séu því komnar í höfn 54 bækur um Sval og Val, í myndasöguhillur hans, úr upprunalegu röðinni en í heildina eru þær orðnar 55 talsins. Í safnið vantar því aðeins bókina Les faiseurs de silence sem var síðasta bók þeirra Nic og Cauvin en hún kom út árið 1984. Eitthvað á SVEPPAGREIFINN af sumum bókunum á fleiri en einu tungumáli en í heildina eru Sval og Val bækurnar hans orðnar 70 talsins. Þar af eru auðvitað allar 36 bækurnar sem komið hafa út á íslensku en reyndar er smá misræmi á milli íslensku útgáfunnar og þeirrar upprunalegu. Og inni í þessari talningu eru bækurnar úr Sérstæðum ævintýrum Svals... ekki taldar með. Þær eru alls orðnar 13 en SVEPPAGREIFINN á enn eftir að eignast 5 þeirra bóka.

Annars er mesta syndin að hafa ekki verið aðeins seinna á ferðinni en í byrjun október ku nefnilega vera von á nýrri sögu, í bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals... eftir hinn mikla meistara Émile Bravo. SVEPPAGREIFINN minntist einu sinni aðeins á eina söguna (Le Journal d'un ingénu) úr bókaflokknum sem hann eignaðist og bullaði einhverja þvælu um hana hér en eins og áður var vikið að eru nú komnar út 13 bækur í þessari skemmtilegu seríu. Le Journal d'un ingénu segir frá fyrstu kynnum þeirra Svals og Vals og hvernig saga þeirra fléttast meðal annars inn í upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar í september 1939. En nú er Bravo sem sagt búinn að vera að dunda sér við það í fjögur ár að teikna 327 blaðsíðna framhald af þessari sögu sem mun líklega koma út í fjórum bindum fram til ársins 2020.
Það má kannski geta þess að í 80 ára afmælisblaði SPIROU sem kom út í vor mátti lesa fyrstu 18 blaðsíðurnar úr þessari nýju myndasögu sem nefnist á frönsku Spirou ou l'espoir malgré tout. Á forsíðu eða öllu heldur kápu afmælisritsins er einmitt teikning Émile Bravo sem gefur forsmekkinn og fyrirheit um það sem koma skal.
Ansi hlakkar SVEPPAGREIFANN til að eignast þessar bækur enda Émile Bravo í miklu uppáhaldi hjá honum.

3. ágúst 2018

70. BÍLLINN HANS VIGGÓS

SVEPPAGREIFANN hefur lengi langað til að láta verða af því að kynna sér eilítið bílskrjóðinn sem Viggó viðutan ekur um á og röfla ítarlega um hann hér á Hrakförum og heimskupörum. Það má reyndar deila um hversu fagleg sú úttekt gæti orðið en markmiðið yrði í það minnsta að týna til þær helstu upplýsingar sem hægt er að draga fram til fróðleiks og auðvitað helst að hafa líka svolítið gaman af. En fyrir þá sem ekki vita þá kom Viggó sjálfur fyrst til sögunnar í belgíska myndasögublaðinu SPIROU (númer 985) um mánaðarmótin febrúar/mars árið 1957. Það var listamaðurinn André Franquin sem átti alla tíð veg og vanda af þessum einstaka karakter og smám saman þróaðist Viggó út í að verða ein af vinsælustu myndasögupersónunum veraldar. Öll hans uppátæki voru meira eða minna þess eðlis að ekki var hægt annað en að hrífast með.
En framan á forsíðu SPIROU blaðs númer 1380, sem kom út þann 24. september árið 1964 sást þessi dásamlegi bíll (í Viggó brandara númer 321) fyrsta sinn. Þá óraði líklega fáa fyrir því hversu stóru hlutverki hinn aldurhnigni forngripur ætti eftir að gegna í framtíðinni í myndasögunum um Viggó. Í íslensku bókunum birtist þessi elsti brandari um bílinn í fyrsta skipti í Viggóbókinni Vandræði og veisluspjöll (bls. 31) sem kom út hjá Froski árið 2017. En svona leit sem sagt bíllinn út í fyrstu.
Brandarinn hefst á því að Viggó er að sýna Val bílinn sem hann var þá nýbúinn að kaupa sér og hann endar á því að einn af stimplunum í vélinni slæst alla leið út um grillið á bílnum af sveifarásnum. Viggó hafði tekið það sérstaklega fram að fyrri eigandi bílsins hafi alltaf verið að smyrja hann og augljóslega náði Viggó eitthvað að vanrækja það viðhald þennan stutta tíma sem hann var búinn að hafa bílinn undir höndum. Þarna fengu lesendur SPIROU því strax í upphafi smjörþefinn af því hvers vænta mætti af þessum hrörlega safngrip. Þá hafa glöggir unnendur Viggós eflaust tekið eftir því að í fyrsta brandaranum er bíllinn ekki með sömu felgurnar og seinna varð. Og einnig það að á bílinn vantar líka köflóttu sportrendurnar sem voru einmitt svo einkennandi fyrir gripinn. Í næsta brandara (númer 327) þar sem bíllinn kemur við sögu, þann 5. nóvember 1964, má sjá hvernig þær eru tilkomnar. Bíllinn var nefnilega ekki úrsérgenginn leigubíll heldur púslaði Viggó sportröndunum saman úr gömlum krossgátum sem hann límdi á bílinn. Í framhjáhlaupi má kannski alveg geta þess að þetta var í raun í tísku á tímabili. 
Ekki eru allir myndasögunördar sammála um það hvaða bíltegund sé að ræða. Flestir eru þó á þeirri skoðun að þarna sé um að ræða eldgamlan bílgarm, að gerðinni Fíat 509, sem framleiddir höfðu verið á árunum 1924-29. Þessi ítalska sjálfrennireið var nokkuð vinsæl og um það bil 92.514 eintök af tegundinni runnu fram af færiböndum Fíat verksmiðjunnar á þessum árum. Fíat þessi var reyndar ekkert sérlega kraftmikill, frekar en aðrir bílar á þeim tíma, en 509 týpan var með 22ja hestafla vél. En svo voru til Fíat 509 S sem var 27 hestöfl og Fíat 509 SM sem var hvorki meira né minna en heil 30 hestöfl. Í seinni tíð hefur þróunin orðið sú að þessi bifreiðartegund er eiginlega orðin þekktust fyrir það að hafa einmitt verið bíllinn hans Viggós viðutan.
Forsagan að hugmyndinni, um að nota nákvæmlega þennan bíl fyrir Viggó í myndasögunum, var sú Franquin mundi eftir því að einn af vinum hans hafði verið narraður til að kaupa slíkan bíl Fíat 509 rétt eftir stríð. Sá bíll hafði verið til stöðugra vandræða vegna tíðra bilana og í þau fáu skipti sem hann var í lagi fylgdi honum jafnan reykjarmökkur og kolsvört olíuslóðin. Hugmyndafræðilega var þetta því tilvalinn bíll fyrir þúsundfjalasmiðinn Viggó viðutan og hann átti eftir að verða uppspretta margra stórkostlegra brandara næstu árin. Í rauninni þótti mjög lúðalegt að vera á svo úreltum og gömlum fornbílum á þessum árum (á milli 1960-70) og almennt var gert grín að slíkum druslum. Þetta var auðvitað löngu áður en það komst í tísku að eiga gamla uppgerða bíla og Fíatinn var því tilvalinn fyrir hinn uppátækjasama Viggó viðutan og allt það sem hann stendur fyrir.
Reyndar höfðu fyrst komið upp hugmyndir um að Viggó æki um á franskri glæsibifreið að tegundinni Citroen DS og það hefði nú heldur betur verið SVEPPAGREIFANUM að skapi. En slíkur eðalvagn hefði engan veginn samræmst þeirri ímynd sem búið var að byggja upp um Viggó og Citroen DS hefði aldrei passað við persónuleika hans. Franquin var einstaklega laginn við að teikna bíla og var alveg sérstaklega hrifinn af þeirri gullfallegu og goðsagnakenndu bifreið. Síðar notaði hann hvert það tækifæri sem gafst til að koma Citroen DS á framfæri í sögum sínun og þó Viggó sjálfur fengi aldrei tækifæri til að aka slíkri bifreið þá birtust þær reglulega í bókunum bæði um hann og Sval og Val. Sem dæmi um það má nefna að Franquin sá til þess að Zorglúbb notaði iðulega þennan gullfallega framúrstefnubíl þegar á þurfti að halda í Sval og Val bókunum.
En það verður að viðurkennast að ímyndin með hina síbiluðu og stórhættulegu Fíat 509 bíldruslu Viggós er ákaflega vel heppnuð. Meira að segja svo mjög að bæði tegund og árgerð bílsins er orðin vel þekkt einmitt sem bíllinn hans Viggós eins og áður hefur verið vikið að. Áhugafólk um fornbíla leitast jafnvel eftir því að eignast eintak af þessum sjaldséða bíl til að geta gert hann upp í anda myndasagnanna. Til eru fjölmörg eintök af velheppnuðum uppgerðum bílsins og það þarf ekki nema að gúggla tegundina til fjölmargar myndir af bíl Viggós poppi upp.
Á næstu mánuðum og árum birtist bíllinn síðan reglulega í bröndurunum um Viggó í SPIROU blaðinu og varð eitt af helstu einkennum þessara vinsælu myndasagna. Í myndasögunum var bíllinn ætíð sýndur sem ákaflega hæggengt og óhentugt farartæki sem sífellt var til vandræða. André Franquin var einhvern tímann spurður að því hvort hann hefði ekki ýkt galla bílsins og gert hann öllu verri en nauðsynlegt var. En Franquin sagði svo ekki hafa verið. Dupuis útgáfan hefði í raun og veru orðið sér úti um eintak af eldgömlum Fíat 509, í Marcinelle í Belgíu, þar sem hann hafði gegnt hlutverki hænsnakofa. Fíatinn var gerður nothæfur og hafður sýnilegur við ýmsa viðburði útgáfufyrirtækisins en hin 40 kílómetra hámarkshraðageta bílsins, auk ýmissa annara dyntóttra eiginleika hans, gerði lítið annað en að kynda undir hið frjóa hugmyndaflug Franquins. Þeir sem helst höfðu haft umsjón með bílnum á vegum Dupuis útgáfunnar fengu algjörlega yfirdrifið nóg af honum.
Sá guli varð því með tímanum nokkurs konar fórnarlamb uppfinningaþarfar Viggós og þróaðist jafnvel út í það að verða hálfgert tilraunadýr hans fyrir misjafnlega umhverfisvæna orkugjafa. Einu sinni breytti hann til dæmis bílnum og setti í hann nýtt brennslukerfi, sem hann fann upp, með rafmagnsforhitun fyrir gas. Einhverjir hnökrar voru þó á útreikningum Viggós og bíllinn skaut gneistum, með viðeigandi afleiðingum, í bókstaflegri merkingu. Öðru sinni smíðaði hann kolavél í bílinn (sem afi hans hafði teiknað upp á stríðsárunum) sem hann nefndi Gasógen en sú útfærsla sprakk reyndar í loft upp. Og eftir að hafa endurskoðað hugmyndina varð Gasógen bensínvélin að veruleika. Af öðrum uppfinningum Viggós tengdum bílnum má nefna að í eitt sinn breytti hann Fíatnum í kennslubifreið, með tveimur stýrum, fyrir ungfrú Jóku og svo má SVEPPAGREIFINN til með að minnast á hinn kostulega snjóplóg sem hann setti framan á bílgarminn og átti að bræða snjóinn jafnóðum og Fíatinn þyti í gegnum skaflana.
Og svo má alls ekki gleyma eiturgassíunni sem Viggó fann upp til að tengja aftan við útblástursrör Fíatsins en sú umhverfisvæna og byltingarkennda uppgötvun kom í veg fyrir að nokkur reykur bærist ... aftan úr bílnum.
Þetta eru bara brot af uppfinningum Viggós sem tengjast tilraunum hans með bílinn. En af öðru efni má nefna að í einum brandaranum var Fíatinn hreiðurstaður fyrir svölufjölskyldu, ekkert ósvipað því hlutverki sem bíldrusla Dupuis útgáfufyrirtækisins hafði áður haft fyrir annars konar fiðurfénað. Á öðrum stað hefur mávurinn hans Viggós fengið að vera húddskraut eða vatnskassastytta framan á bílnum og í einum brandara vildi Njörður lögregluþjónn að aflífa vélina til að losa hana undan kvölum sínum. Fíatinn er nokkuð oft bilaður hjá Viggó. Flautan og bensíngjöfin hafa fests, gírstöngin hefur brotnað af, svisslykillinn hefur brotnað í neyðartilfellum þegar drepa hefur þurft á bílnum við hættulegar aðstæður, bílbelti hefur flækst í drifskaftið og það er svolítið áhyggjuefni fyrir Viggó hversu oft bremsurnar á bílnum eru í ólagi. Fíatinn hefur bæði hafnað uppi í tré og sinnt hlutverki hlaupahjóls og svo hefur bíllinn meðal annars fengið þau verkefni að flytja átöppunarvél, trommusett, olíutunnu, jólatré, Viggófóninn og útilegubúnað.
En þar fyrir utan var bíllinn einnig mjög sýnilegur í myndasögunum þótt hann væri ekki endilega miðpunktur þess sem brandarinn gekk út á. Viggó þurfti auðvitað að komast á milli áfangastaða og stundum fengu ungfrú Jóka eða aðrir samstarfsmenn hans að fljóta með. Vegna slæmrar reynslu sumra vinnufélaga hans af bílnum var það þó oftar en ekki af illri nauðsyn eða jafnvel þvert á vilja þeirra sem þeir þurftu að fá að sitja í. Franquin gekk þá alltaf úr skugga um að allir helstu gallar farartækisins væru sýnilegir (reykur, óhljóð osfrv.) og oft fengu lítil smáatriði eða athugasemdir farþeganna um bílinn að fljóta með. Það gilti þó aldrei um ungfrú Jóku. Hún sá alltaf jákvæðu hlutina í öllu og varð aldrei fyrir þeim áföllum sem þessi slysagildra gat boðið upp á á sama hátt og Valur eða Eyjólfur.
En í lokin er gaman að geta þess að árið 1977 ákvað rekstrar- og markaðsdeild hinna ítölsku Fíat verksmiðja að gera bílskrjóði Viggós hátt undir höfði og gáfu út einhvers konar auglýsingarit honum til heiðurs, La Fantastica Fiat 509 di Gaston Lagaffe, í takmörkuðu upplagi. Í bókinni, sem var 56 blaðsíður að lengd, gat að líta ýmsan fróðleik um þessa merkilegu bíltegund en auk þess var hún með samansafn af bestu bílabröndurum Franquins um Viggó. Vegna hins takmarkaða upplags er bókin í dag eftirsótt af Viggófræðingum og öðrum myndasögunördum. Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að nálgast þessa ítölsku bók á ebay og öðrum sambærilegum uppboðsvefum fyrir 200 - 300 evrur.