27. apríl 2018

56. SVEPPAGREIFINN SKOÐAR BOLI

Alltaf þarf hinn forvitni SVEPPAGREIFI að vera að grúska í hinum ýmsu hlutum sem tengjast myndasögum á einn eða annan hátt og þar er svo sannarlega af mörgu að taka. Að þessu sinni tók hann upp á því að fara að skoða úrvalið af bolum með Sval og Val á Netinu og rakst þá á flottan vef sem hefur reyndar upp á að bjóða boli úr fleiri myndasöguseríum en með þeim Sval og Val. Á síðum vefverslunarinnar Redbubble.com má nefnilega finna frábært úrval af stórglæsilegum stuttermabolum og peysum með kunnuglegum persónum úr myndasöguheiminum. Verðið á bolunum er yfirleitt þetta á bilinu 20 til 35 dollarar en hettupeysurnar á kringum 50 dollara. 

Þessir bolir úr sögunum um Sval og Val (og ekki má gleyma Gorminum) eru til í mörgum útfærslum og litum en úrvalið hér fyrir neðan er aðeins brot af því sem er í boði.
Tinna boli er yfirleitt nokkuð auðvelt að nálgast í vefverslunum og þeir eru oftar en ekki af nokkuð hefðbundnu tagi. En svo er þó ekki hér. Margir af Tinna bolunum hérna eru nefnilega mjög flottir og SVEPPAGREIFINN minnist þess ekki að hafa séð þessar útfærslur af þeim áður. Enda er þetta líklega allt meira og minna kolólöglegt.
Svo eru það Lukku Láka útgáfurnar en þar má finna skemmtilegar  myndir af Léttfeta, Láka sjálfum, Daldón bræðrum og að sjálfsögðu einnig af Rattata eða Rattatinu eins og Léttfeti myndi kalla hann/það. Það má kannski til gamans geta þess að SVEPPAGREIFINN á tvo nokkuð flotta stuttermaboli með Lukku Láka sem hann keypti í Rúmfatalagernum af öllum stöðum!
Og að lokum er það sjálfur snillingurinn Viggó viðutan. Reyndar virðist aðeins vera eitt mótív af Viggó í boði en það er af kunnuglegri mynd af framhlið bókarinnar Viggó viðutan - Með kjafti og klóm. Allt alveg frábærir bolir. 
Eins og áður segir er hægt að skoða úrvalið á Redbubble.com og úrvalið er mörgum sinnum meira en SVEPPAGREIFINN nennti að hafa fyrir að setja hér inn.

20. apríl 2018

55. MÚLI OG PÉTUR

Bókin um Vandræði ungfrú Vaílu Veinólínó er mörgum Tinna aðdáendum hugleikin en sagan kom fyrst út í íslenskri þýðingu hjá Fjölva útgáfunni árið 1977. Flestir kannast við söguþráð bókarinnar, sem gerist að öllu leyti á Myllusetri og nágrenni þess, en hún er kannski helst kunn fyrir að vera Tinna sagan þar sem ekkert gerist. En í grófum dráttum segir sagan þó frá því þegar Vaíla Veinólínó ryðst, ásamt fríðu föruneyti sínu, með látum inn á heimili Kolbeins og sest þar að um skeið. Og þar sem Kolbeinn kafteinn snýr sig illilega um ökklann um sama leyti þá eiga þeir Tinni litla möguleika á að forða sér undan yfirgangi Næturgalans frá Mílanó á meðan á "heimsókn" hennar stendur.
Vaíla lítur á dvöl sína á Myllusetri sem kærkomið frí og óskar eftir því gestgjafa sína að fá að vera þar í friði og ró fyrir aðdáendum sínum og fjölmiðlum en hún gerir þó undantekningu þegar blaðamenn tímaritsins Múla og Péturs banka upp á einn daginn og óska eftir viðtali við hana. Þarna eru á ferðinni þeir Slefjón ritstjóri og Flassmus ljósmyndari (þeir eru eiginlega alltaf reykjandi) en þeim kumpánum bregður reyndar aðeins fyrir í fleirum Tinna bókum. Þeir félagarnir eru til dæmis í hópi þeirra fjölmiðlamanna sem fjölmenna á hafnarbakkann í Kiltoch þegar Tinni kemur að landi með górilluna Glám í bókinni Svaðilför í Surtsey (bls 61). En svo birtast þeir einnig í Tinna og Pikkarónunum (bls 5-8) en þar nefnast þeir hins vegar Áki óljúgfróði og Simbi sannleikselskandi og starfa þá hjá Gróanda-tíðindum. Þarna er eitthvað ósamræmi í þýðingunum og líklega hafa þeir Loftur Guðmundsson og Þorsteinn Thorarensen hreinlega ekki áttað sig á því að um sömu mennina væri að ræða.
Flassmus og Slefjón (Walter Rizotto og Jean-Loup de la Batellerie) áttu sér fyrirmyndir í raunveruleikanum. Walter Rizotto (nafn hans er að sjálfsögðu innblásið af ítalska heitinu yfir hrísgrjón) var paparazzi sinnar samtíðar enda sést hann ekki öðruvísi en með margskonar ljósmyndavélabúnað hangandi utan á sér. Rizotto átti sér reyndar tvær fyrirmyndir en það voru ítalsk/franski ljósmyndarinn Walter Carone sem lést árið 1982 og ítalski ljósmyndarinn Willy Rizzo sem lést árið 2013. Rizzo var þekktur sem ljósmyndari fræga fólksins á Ítalíu eftir stríð og tók til dæmis myndir af Marilyn Monroe, Winston Churchill, Salvador Dalí, Brigitte Bardot, Maríu Callas og Marlene Dietrich fyrir mörg kunn tímarit. Þá lék Rizzo þessi til dæmis í bíómyndinni Hoffa (1992) í leikstjórn Danny de Vito eftir hvatningu frá leikaranum Jack Nicholson. Ritstjórinn sjálfur Slefjón nefnist hins vegar Jean-Loup de la Batellerie á frönsku og fyrirmyndin að honum var franski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Philippe de Baleine. Þeir Baleine og Rizzo höfðu starfað saman sem tvíeyki við fréttamennsku (líkt og Slefjón og Flassmus) á 5. og 6. áratug síðustu aldar en þó aldrei við eiginlega slúðurfréttamennsku.
En helsta viðfangsefni þessarar færslu átti þó upphaflega að fjalla um slúðurtímaritið sjálft, Múla og PéturÞað tók SVEPPAGREIFANN nefnilega mörg ár að uppgötva þennan snilldar brandara Lofts og Þorsteins sem tengist þýðingunni á blaðinu eða öllu heldur hvernig nafn þess var staðfært upp á íslenskar aðstæður. Það var ekki fyrr en langt var liðið á fullorðins aldur sem SVEPPAGREIFINN áttaði sig loksins á að nafngift þess, Múli og Pétur, var auðvitað ekkert annað en bein vísun í þá gömlu heiðursmenn Jóns Múla Árnason og Pétur Pétursson þuli á Ríkisútvarpinu.
SVEPPAGREIFANUM er ekki kunnugt um hversu vel þeir félagar tóku því að vera gerðir ódauðlegir í Tinna bók eða hvort þeir hefðu yfirleitt haft einhverja hugmynd um tilvist sína í Vandræðum Vaílu. En í það minnsta lítur SVEPPAGREIFINN svo á að titill tímaritsins í bókinni sé þeim fyrst og fremst til heiðurs þó svo að ímynd sorpritsins hafi ekki verið beint í anda Ríkisútvarpsins árið 1977. Á þessum tíma voru engin slúðurblöð gefin út á Íslandi og það var ekki fyrr en löngu seinna sem hugsanlega hefði verið hægt að finna einhvern sambærilegan snepil, í blaða og tímaritaútgáfu landans, þegar hið alræmda Séð og heyrt hóf göngu sína.

Þeir Loftur og Þorsteinn hjá Fjölva fóru oft nokkuð frjálslega með þýðingar sínar á Tinna bókunum og óhætt er að segja að þeir hafi tekið sér skáldaleyfi á köflum. Tímaritið Múli og Pétur er einmitt gott dæmi um það en í langflestum öðrum þýðingum á bókinni nefnist blaðið einfaldlega Paris Flash líkt og á frummálinu. Í beinu framhaldi af því má nefna það að í náinni framtíð munu verða gerðar miklu meiri kröfur um þýðingarnar á sögunum frá rétthöfum og erfingjum Tinna bókanna. Þýðingar af þeim toga sem Fjölvi bauð íslenskum myndasögulesendum upp á, hér áður fyrr, munu nú algjörlega heyra sögunni til. Þannig má líklega gera ráð fyrir því að frumtextinn, úr Tinna bókunum á frönsku, verði þýddur nánast bókstaflega orð frá orði. Blótsyrði Kolbeins kafteins í gömlu íslensku útgáfunum munu því líklega ekki birtast framar og gömlu íslensku Tinna bækurnar eru því að verða að dýrmætum safngripum.
En aðeins aftur að Múla og Pétri. Slúðurtímaritið Paris Flash var aldrei til í raun og veru en blaðið í bókinni var samt sem áður byggt á fyrirmyndum sem svipaði til þess og nefndust Paris Match og Ici Paris. Þau tímarit voru alræmd fyrir frjálslegar fréttir af fræga og ríka fólkinu og höfðu aðallega að geyma dónalegt slúður og jafnvel lygar. Árið 1992 tóku einhverjir framtaksamir Tinna aðdáendur sig til og gáfu út þetta einstaka tímarit í 1000 eintökum á vönduðum pappír. Blaðið, sem er heilar 12 blaðsíður að lengd, inniheldur það helsta efni sem minnst er á í bókinni sjálfri en hefur einnig að geyma ýmislegt fleira sem tengist Tinna bókunum á annan hátt. Þessi sjóræningjaútgáfa af Paris Flash blaðinu er mjög eftirsótt af söfnurum víða um heim og einstaka sinnum má sjá það detta inn á e-bay og fleirum stöðum.

13. apríl 2018

54. ÞAÐ NÝJASTA Í HILLUM SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN var á faraldsfæti með fjölskyldunni í mið- og suðurhluta Evrópu um páskana og á slíku flandri á hann það oft til að freistast til að versla sér svolítið af forvitnilegum teiknimyndasögum. Og þessa páskana var lítið um undantekningar frá þeirri reglu. Til að byrja með var hann reyndar tiltölulega rólegur og slakur, í eftirgrennslan sinni, enda fjölskyldan í fyrirrúmi. Hugmyndin var þó sú sama og undanfarin ár. Að kíkja aðeins á einhverja flóamarkaði, bókabúðir og sölustaði blaða- og tímarita en þó ekki til að gera nein stórinnkaup - frekar en venjulega. Ástæða þess var auðvitað fyrst og fremst sú að ætlunin var að vera svolítið meira á ferðinni en oft áður. Því mætti gera ráð fyrir að bæði pláss- og tímaskortur kæmu í veg fyrir frekari aðföng. Reyndar hafði eiginkona SVEPPAGREIFANS, Greifynjan, haft fullan hug á að bæta einhverjum teiknimyndasögum á ítölsku (líklega helst Tinna eða Ástríki) í myndasögubókahillurnar sem myndu nýtast henni sem kennslugögn við ítölskunám sitt. Þvi þótt undarlegt megi virðast er þar ekki að finna eina einustu myndasögu (af hátt í 600 bókum) á ítölsku. Lítið varð þó um myndasögufjárfestingar á Ítalíu að þessu sinni. Slökun SVEPPAGREIFANS varð augljóslega töluvert meiri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir og það var ekki fyrr en í frönsku borginni Marseille sem loks fór eitthvað vitrænt að gerast. En þar rakst hann á svolítinn teiknimyndasögurekka á götumarkaði nálægt hafnarsvæðinu og fyrir 14 evrur bættust í myndasögusafnið fjórar bækur.
Þarna var um að ræða fyrstu tvær sögurnar (La villa Sans-souci og Le trésor d'Alaric) í bókaflokknum um Tif og Tondu, sem voru mjög vinsælar í Belgíu og Frakklandi seinni hluta síðustu aldar, ein bók (La Machination Voronov) úr seríunni um Blake og Mortimer og síðast en ekki síst var það Sval og Val bókin La corne de rhinoceros (Horn nashyrningsins er hún nefnd á Wikipedia) frá árinu 1955 eftir André Franquin en hana hefur sárlega vantað í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS. Allt frekar sígilt efni og allar fjórar bækurnar voru að sjálfsögðu á frummálinu frönsku.
Næst var haldið til Barcelona og þaðan lá leiðin aftur til Ítalíu en það var ekki fyrr en í Nice í Frakklandi sem næstu innkaup voru gerð. Fyrst var fjárfest í bókinni Le triomphe de Zorglub (2018) sem er eins konar aukabók um þá Sval og Val og tilheyrir hvorki upprunalegu myndasöguröðinni né bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals ... Bókin er nefnilega einhvers konar frjálsleg myndasöguútgáfa af sögu sem gerist meðfram (og er innblásin af) bíómyndinni Les Aventures de Spirou et Fantasio sem frumsýnd var nú í febrúar. Flókið? Einfalda útskýringin er sú að Le triomphe de Zorglub er ekki myndasöguútgáfa af bíómyndinni. Sagan er unnin af þeim B. Cossu, A. Sentenac og O. Bocquet. Bókin er ekkert tímamótaverk en þó bráðnauðsynlegt innlegg í safn þeirra sem hafa myndasögurnar um Sval og Val að áhugamáli.
Það sama má segja um bókina Les folles aventures de Spirou (2017) sem er safn styttri myndasagna um þá félaga og eru eftir Yoann og Vehlmann. Hún tilheyrir ekki heldur hinum seríunum tveimur og er algjörlega óháð öðru efni sem komið hefur út um Sval og Val. Sögurnar, sem birtust á sínum tíma í SPIROU tímaritinu, eru sex talsins, teiknaðar á árunum 2008-2016 og eru mjög óhefðbundnar svo ekki sé meira sagt. Höfundarnir fara langt út fyrir tíma og rúm upprunalegu Sval og Val myndasagnanna og sem dæmi um frumleikann má nefna að sjálfur Batman kemur við sögu í einni þeirra. Elstu smásögurnar voru í raun teiknaðar áður en þeir Yoann og Vehlmann tóku yfir venjulegu bókaröðina en þó eftir að þeir teiknuðu fyrstu söguna í Sérstökum ævintýrum Svals ... árið 2006. 
Og svo má ekki gleyma litlu gullfallegu tímariti (Spip Magazine) sem fylgir bókinni og er einhvers konar aukaefni en þar fær íkorninn Pési (Spip) loksins sitt eigið tímarit eftir um 80 ára sögu í skugga Svals. Þetta 16 blaðsíðna frumlega fylgirit er í litlu broti (12x17 sentimetrar að stærð) sem er auðvitað í fullu samræmi við smæð Pésa gagnvart öðrum persónum bókanna. Einhverra hluta vegna fylgdi Spip Magazine bókinni (Les folles aventures de Spirou) en samkvæmt upplýsingum SVEPPAGREIFANS þá voru aðeins prentuð 100.000 eintök af þessu litla fylgiriti en hann hélt að þau ættu eingöngu að fylgja með SPIROU tímaritinu og þá aðeins þeim sem seld voru í áskrift. SVEPPAGREIFINN er því augljóslega alltaf að græða.
En í Nice verslaði SVEPPAGREIFINN tvær myndasögur í viðbót. Þar fékk hann bókina Suivez la fleche með Lukku Láka hinum unga (Kid Lucky) sem er sú nýjasta úr bókaflokknum og kom út árið 2017. Bókin er sú sjötta um Kid Lucky en telst reyndar vera númer 4 í upprunalega Kid Lucky bókaflokknum því að fyrstu tvær sögurnar tilheyra hefðbundnu Lukku Láka seríunni.
Og þá má alls ekki gleyma hreinræktuðum gullmola frá Dupuis útgáfunni, La galerie des Gaffes, sem er einhvers konar heiðursbókaútgáfa í tilefni af 60 ára afmæli Viggós viðutan. Vegna áranna 60 fá því 60 kunnir teiknarar og myndasöguhöfundar að spreyta sig á mismunandi hátt með bröndurum um Viggó. Flestir höfundanna fá hver eina blaðsíðu til verksins og 60 mismunandi brandarar með 60 mismunandi teiknistílum prýða því bókina. Eins og gefur að skilja tekst listamönnunum misvel að koma efninu frá sér og margir brandaranna eru ágætir en aðrir síðri. Persónulega er SVEPPAGREIFINN svo íhaldssamur að hann er hrifnastur af þeim listamönnum sem best ná stíl Franquins. Þar tekst fransk/kanadíska teiknaranum Marc Delafontaine, eða Delaf eins og hann kallar sig, best til þó hans persónulegi stíll sé nokkuð ólíkur. Delaf er líklega kunnastur hér á landi fyrir myndasögurnar Skvísur sem Froskur útgáfa er byrjuð að gefa út.
Ein blaðsíða úr La galerie des Gaffes hefur einmitt ratað hingað inn á Hrakfarir & heimskupör SVEPPAGREIFANS áður. En listamaðurinn Obion teiknaði brandara sem SVEPPAGREIFINN stalst til að birta neðst á færslu um herra Seðlan og finna má hér. Nokkrir aðrir kunnir póstar koma við sögu þessarar heiðursútgáfu og má helst nefna listamenn sem eitthvað hafa áður komið nálægt myndasögunum um þá Sval og Val. Þar má geta þeirra Yoann og Vehlmann, sem eru auðvitað núverandi höfundar seríunnar, José-Luis Munuera og svo Oliver Schwartz, Fabrice Tarrin, Benoit Feroumont, Frank Pé og Lewis Trondheim sem allir hafa til dæmis teiknað bækur í hinum áhugaverða hliðarbókaflokki Sérstök ævintýri Svals ... Schwartz er einmitt sá sem teiknað hefur myndasögurnar í Sérstökum ævintýrum Svals ... sem gerast í Síðari heimstyrjöldinni og birtust til dæmis eitthvað í teiknimyndablaðinu Neo Blek. SVEPPAGREIFINN saknar þess þó reyndar eilítið að fá ekki að sjá Émile Bravo fá tækifæri til að gæða Viggó nýju lífi. Það hefði án efa orðið athyglisverð nálgun. 

En eins og svo oft áður var það í Basel sem hlutirnir tóku að gerast í einhverri alvöru. Þar er SVEPPAGREIFINN vanur að láta svolítið til sín taka og fáeinar bækur bættust í ferðatöskurnar á þeim sólarhring sem fékkst þar áður en flogið var heim. Þetta voru Sval og Val bækurnar Flut über Paris (á frummálinu Paris-sous-Seine - 2004) og Der mann, der nicht sterben Wollte (L'Homme qui ne voulait pas mourir - 2005) en þær eru myndasögur númer 47 og 48 í upprunalega röðinni og eru báðar eftir þá Morvan og Munuera. Eins og lesa má af titlunum hér að framan eru þær á þýsku en hvorugar þeirra hafa enn komið út á íslensku.
Hið sama má segja um tvær aðrar Sval og Val bækur sem koma reyndar úr seríunni um hin Sérstöku ævintýri Svals ... eða Spezial seríunni eins og hún nefnist á þýsku. Þetta eru sögurnar Die Sümpfe der Zeit (Les Marais du temps - 2007) eftir Frank Le Gall og Panik im Atlantik (Panique en Atlantique - 2010) eftir þá Trondheim og Parme. Síðastnefndu bækurnar greip SVEPPAGREIFINN með sér úr sinni uppáhalds COMIX SHOP í Basel.
Annars var SVEPPAGREIFNN bara tiltölulega slakur í kaupum sínum að þessu sinni ...

5. apríl 2018

53. FYRSTA TINNA KVIKMYNDIN

SVEPPAGREIFINN hefur orðið sér úti um ýmislegt í gegnum tíðina sem tengist Tinna og þar eru bíómyndirnar um hann engin undantekning. Hann á tvær bíómyndir á dvd sem gerðar voru um kappann á sjöunda áratug síðustu aldar og var einmitt nýverið að horfa á Tintin et Le mystère de la Toison d'Or sem var fyrsta myndin sem gerð var um Tinna. Því miður hefur SVEPPAGREIFINN ekki enn orðið sér úti um eintak af myndinni öðruvísi en einungis á frönsku en hann lætur sig auðvitað hafa það að horfa á hana textalausa (ekki einu sinni á ensku) og með frönsku tali fyrst um Tinna er að ræða. Það að nálgast hana með íslenskum texta væri þó í sjálfu sér ekkert stórmál því myndin kom út hér á landi fyrir nokkrum árum á dvd og heitir Tinni og Tobbi - Á valdi sjóræningjanna.
SVEPPAGREIFINN þarf því að verða sér úti um eintak af þeirri útgáfu og það snýst því eiginlega bara um það að vera svolítið með augun opin því myndin er mjög sjaldgæf og virðist ekki hafa farið neitt mjög víða á sölustöðum. Það væri gaman ef einhver lumaði á tveimur eintökum af myndinni og væri til í að fórna öðru þeirra fyrir sanngjarnt verð. Annars var SVEPPAGREIFINN alveg með það á hreinu að Tinni og bláu appelsínurnar hefði líka verið gefin út á íslensku á sama tíma en líklega hefur hann bara dreymt það. Í það minnsta hefur eftirgrennslan hans eftir útgáfunni ekki borið neinn árangur.
Bíómyndin Tintin et Le mystère de la Toison d'Or er sem sagt frönsk og var frumsýnd þar í landi þann 6. desember árið 1961 en þeir aðilar sem komu að framleiðslu hennar voru bæði franskir og belgískir. Fáum árum seinna, nánar tiltekið laugardaginn 1. febrúar árið 1964, var myndin tekin til sýningar í Bæjarbíói í Hafnarfirði en það voru raunar fyrstu kynni Íslendinga af ævintýrum Tinna og þá nefndist hann Tintin. Næstu árin var myndin (sem hét á íslensku Tintin í leit að fjársjóði) síðan sýnd öðru hvoru í hinum ýmsu bíóhúsum höfuðborgarsvæðisins í þrjúbíó á sunnudögum en hefur, SVEPPAGREIFANUM vitanlega, aldrei verið sýnd í íslensku sjónvarpi.
Tintin et Le mystère de la Toison d'Or er ekki byggð á neinni af sögum Hergés en handrit myndarinnar var unnið af iðnaðarhandritshöfundunum André Barret og Remo Forlani sem höfðu uppbyggingu Tinna bókanna til hliðsjónar við gerð þess. Myndin var gerð með fullu samþykki Hergé og hann heimsótti meira að segja tökuliðið í París en leikstjóri hennar var Jean-Jacques Vierne. Kvikmyndin var sú fyrsta í fullri lengd sem gerð var um ævintýri Tinna og naut nokkurra vinsælda enda var þá teiknimyndahetjan Tinni þá þegar orðinn vel þekktur í Evrópu.
Í kjölfarið var gerð önnur mynd um þá félaga, fáeinum árum seinna, sem ekki átti jafnmiklum vinsældum að fagna. Sú mynd kallaðist Tintin et les oranges bleues eða Tinni og bláu appelsínurnar og hún var meðal annars gefin út á íslensku í bókaformi árið 1978 sem svokölluð kvikmyndabók. Bíómyndin sjálf, Tintin et les oranges bleues - (1964), var hins vegar aldrei sýnd í íslenskum kvikmyndahúsum. Tintin et Le mystère de la Toison d'Or var einnig til í bókaformi, líkt og Tinni og bláu appelsínurnar, en þó hún hafi ekki komið út í íslenskri þýðingu var líklega gert ráð fyrir því á sínum tíma. Aftan á bókakápum einhverra íslensku Tinna bókanna má sjá að Tinni og Hákarlavatnið og Tinni og bláu appelsínurnar eru kvikmyndabækur númer eitt og númer þrjú. Og af því má ráða að Fjölvaútgáfan hafi gert ráð fyrir að Tintin et Le mystère de la Toison d'Or yrði því kvikmyndabók númer tvö.
Gerðar höfðu verið áætlanir um að framleiða þriðju bíómyndina um Tinna árið 1967, sem til stóð að gera á Indlandi, en ekkert varð af þeim áformum. Tintin et les oranges bleues gekk líklega ekki sem skyldi enda handrit þeirrar myndar komið töluvert langt út fyrir þann anda sem einkenndi sögurnar um Tinna og eflaust hefur það haft áhrif á framhaldið. Kvikmyndin Tintin et Le mystère de la Toison d'Or gerist að mestu í Tyrklandi og Grikklandi (lönd sem Tinni hafði aldrei heimsótt í bókunum) og fjallar um fjársjóðsleit þeirra Tinna og Kolbeins eftir að kafteinninn erfir gamlan og illa farinn skipsræfil. Þeir félagar lenda auðvitað í ýmsum stórhættulegum ævintýrum í baráttu sinni við harðskeytta misyndismenn og illmenni en hafa að sjálfsögðu betur að lokum. Þetta er svona stutta útgáfan af söguþræðinum.
Aðalhlutverkið var í höndum belgíumannsins Jean-Pierre Talbot (1943) en hann var aðeins sautján ára gamall þegar myndin var gerð. Leiklistaferill Jean-Pierre Talbot náði reyndar einungis yfir þessar tvær kvikmyndir um Tinna. Hann var ekki leikari að mennt og var eingöngu valinn í hlutverkið vegna þess hversu líkur hann þótti karakternum. Útlit hans var borið undir Hergé sem samþykkti hann samstundis með orðunum, "Já, þetta er hann!", en þá hafði leitin að Tinna staðið yfir í þrjú ár. Eftir kvikmyndatökurnar varð hann þekktur sem hinn eini sanni Tinni og er enn þann dag í dag, mörgum áratugum seinna, að fá bréf frá aðdáendum. Jafnvel barnabörnin kalla hann afa Tinna. Eftir að hafa leikið þetta hlutverk sneri Talbot sér að mestu að kennslu og áhugamálum tengdu heilbrigðu líferni en hann er enn í fullu fjöri.
Kolbein lék hins vegar franski leikarinn Georges Wilson (1921) en hann var þekktur sjónvarps- og kvikmyndaleikari og var faðir leikarans góðkunna Lambert Wilson sem lék til að mynda í Matrix myndunum. Almennt þykir Georges Wilson hafa tekist vel til í hlutverki Kolbeins en SVEPPAGREIFINN lét þó bæði gerviskeggið og ofleik Wilsons fara töluvert í taugarnar á sér. Eða kannski var það bara hið tilfinningaríka franska tungumál með viðeigandi handapati sem var að trufla hann. Georges Wilson lék ekki í Tintin et les oranges bleues en hann lést, orðinn áttatíu og átta ára gamall, árið 2010.
Tintin et Le mystère de la Toison d'Or er í sjálfu sér alveg þokkalega vel gerð mynd og er svona í anda bíómynda þess tíma. Og það verður að viðurkennast að töluvert hefur verið lagt í vinnslu hennar. Yfir myndinni er auðvitað þessi skemmtilegi og bjarti blær sem einkennir svo margar af þeim bíómyndum sem gerðar voru á fyrstu áratugum litmyndanna og í myndinni eru meira að segja neðansjávaratriði, sambærileg þeim sem sáust í James Bond myndinni Thunderball fjórum árum seinna. Myndin er einföld og byggð upp, eins og áður var vikið að, á svipaðan hátt og myndasögurnar en markhópurinn var augljóslega börn og unglingar. Enda voru teiknimyndasögur á þeim tíma fyrst og fremst ætlaðar þeim aldurshópum.
Grátbroslegt atriði í myndinni, sem dæma má á kæruleysislegan tíðaranda síðustu aldar, vakti athygli SVEPPAGREIFANS og fengi seint umhverfisverndarsinna nútímans til að fagna. Þar má sjá þá félaga Tinna og Kolbein, koma út úr verslun í Istanbul með sitt hvorn blómavasann í hendinni, þar sem þeir rífa kæruleysislega pappírsumbúðirnar utan af postulíninu og henda þeim frá sér á götuna. Ekki beint sú ímynd sem maður hafði af Tinna í æsku og í dag væri hann sjálfsagt harður umhverfisverndarsinni!
Myndin er hvorki neitt stórkostlegt listaverk úr heimi kvikmyndanna né einhver óuppgötvaður gullmoli úr Tinna fræðunum en fyrst og fremst er hún skemmtilegt og kannski heiðarlegt innlegg í þennan Tinna nörda heim. Það er alla vega einhver sjarmi yfir þessari mynd þó hún skilji kannski ekki mikið eftir sig og hún er líka auðvitað svolítið barn síns tíma. Hergé sjálfur kvaðst alltaf hafa verið ánægður með myndina og sagði hana vera sína uppáhalds af öllum Tinna leikbrúðu-, bíó- og teiknimyndunum. SVEPPAGREIFINN er eiginlega viss um að grundvöllur hefði verið fyrir fleiri bíómyndum um Tinna á þessum tíma en líklegt er að hroðvirkisleg handritsgerðin að Tintin et les oranges bleues hafi hreinlega skemmt þær fyrirætlanir. Hvet alla alvöru Tinna aðdáendur til að verða sér út um eintak af Tintin et Le mystère de la Toison d'Or en því miður er ekki hægt að sjá hana lengur með enskum texta á YouTube. Þó má finna hana þar í heilu lagi í lélegum gæðum en hér má sjá svolítinn bút úr myndinni
Þessi grein er uppfærð og endurbætt útgáfa sambærilegrar færslu af Tinna síðu sem SVEPPAGREIFINN hélt utan fyrir nokkrum árum. Eitthvað af því efni sem birtist þar hefur hann fært hingað yfir á Hrakfarir og heimskupör.