18. september 2020

174. FYRSTA MYNDARÖÐIN Í ÁSTRÍKI GALLVASKA

Það kennir ýmissa grasa í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS, eins og stundum hefur mátt lesa um hér á Hrakförum og heimskupörum, en í þeim má finna nokkurt safn skemmtilegra teiknimyndasagna. Reglulega bætast við einhverjar bækur og þær koma þá úr ýmsum áttum en í flestum tilfella er þar um að ræða myndasögur sem tengjast þeim fransk/belgísku teiknimyndasögum sem gefnar hafa verið út hér á landi. Ekki hefur reyndar verið gerð nýleg eða mjög formleg talning á fjölda þeirra bóka sem myndasöguhillur heimilisins hafa að geyma en líklega má lauslega áætla að teiknimyndasögurnar þar séu nú komnar eitthvað vel yfir 700 talsins. Stór hluti þessara bóka eru auðvitað keyptar hér á landi og íslensku bækurnar eru að sjálfsögðu langflestar komnar í hús. Reyndar vantar enn einstaka bækur í safnið og eins hefur SVEPPAGREIFINN ekki verið að leggja sig alveg allan fram um að eignast til dæmis allar prentanir af hverri einustu útgáfu Tinna bókanna. Hann hefur þó alveg notað tækifærið og verslað slíka gripi ef hann hefur rekist á þá í þokkalegu standi en hefur ekki enn nennt að standa í einhverjum sérstökum eltingaleik við þær bækur. Annars eru Tinnabækurnar í hillum SVEPPAGREIFANS nú í heildina orðnar um hundrað og tuttugu talsins og á um það bil tíu mismunandi tungumálum. Flaggskipið þar er líklega sænsk 1. útgáfa af Dularfullu stjörnunni gefin út árið 1960 en á meðal annarra Tinnabóka má þar til dæmis einnig finna nokkuð framandi útgáfu af Tinna í Tíbet á arabísku. Það er svolítið misjafnt hvað safnast hefur upp af hverri Tinnabók á mismunandi tungumálum en fyrir mörgum árum velti SVEPPAGREIFINN einmitt fyrir sér að byrja að safna einhverri ákveðinni bók úr seríunni á sem flestum tungumálum. Enn hefur þó ekkert orðið af alvöru úr þeim hugmyndum en vissulega hefði verið freistandi að taka einmitt Tinna í Tíbet fyrir. Þá má einnig finna töluvert mikið magn af Lukku Láka bókum í hillunum góðu og svo má ekki gleyma Ástríki og félögum hans. Samtals á SVEPPAGREIFINN um 95 bækur úr seríunni um Ástrík á um tíu tungumálum en þar var einmitt hugmyndin að staldra eilítið við með færslu dagsins.
Þegar SVEPPAGREIFINN fór að kanna aðeins hvaða stöku myndasögu hann ætti á flestum tungumálum kom upp úr krafsinu að fyrsta Ástríks bókin, Ástríkur Gallvaski (Astérix le Gaulois), væri þar nokkuð ofarlega á blaði. Það var svo sem ekkert sem þurfti að koma á óvart. Alls hafa Ástríks bækurnar verið þýddar á yfir hundrað tungumálum en SVEPPAGREIFANUM er þó reyndar ekki vel kunnugt um hvort nákvæmlega þessi fyrsta saga í seríunni hafi komið út í öllum þeim útgáfulöndum. Það verður þó að teljast nokkuð líklegt. Í títtnefndum myndasöguhillum hans er hin franska útgáfa af Ástríki Gallvaska að sjálfsögðu til en bókina er þar einnig að finna á nokkrum öðrum tungumálum og þar á meðal auðvitað á íslensku. Þessa kunnuglegu fyrstu myndaröð úr bókinni þekkja að sjálfsögðu allir Ástríks aðdáendur á Íslandi.
Ástríkur Gallvaski kom fyrst út hér á landi hjá Fjölva-útgáfunni árið 1974, í þýðingu Þorbjarnar Magnússonar með aðstoð Þorsteins Thorarensen, og bókin var endurútgefin árið 1982. En SVEPPAGREIFINN á þessa sögu á fleiri tungumálum en bara þeim íslensku og frönsku. Hin enska útgáfa bókarinnar, sem nefnist einfaldlega Asterix the Gaul, kom fyrst út hjá Brockhampton Press árið 1969 en sú útgáfa sem SVEPPAGREIFINN hefur undir höndum er frá Orion Books útgáfunni og kom út árið 2004. Í þeirri bók er verulega búið að pimpa upp og nútímavæða litina í teikningunum og eins og sjá má er ramminn með skýringatextunum til dæmis orðinn gulur á litinn.
Danska útgáfa SVEPPAGREIFANS af Ástríki Gallvaska heitir Asterix og hans gæve gallere og er frá árinu 1979. Það mun vera 2. útgáfa sögunnar í Danmörku en 1. útgáfa hennar ku hafa verið prentuð í sex mismunandi upplögum eða prentunum. Forsíða þessarar 2. útgáfu hefur reyndar verið endurteiknuð að einhverju leyti því útlit hennar er ekki nákvæmlega eins og af öðrum útgáfum af sögunni. Á bókarkápunni má til dæmis sjá Krílrík/Smárík en hann er ekki að finna framan á neinum öðrum útgáfum bókarinnar. Leiða má líkum að því að þetta hafi verið gert af dönskum aðila en sambærilegar breytingar má einnig finna á fleirum Ástríks bókum. Innihald hennar er þó byggt á upprunalegu útgáfunni af sögunni, líkt og sú íslenska, og hefur ekkert verið átt við hana.
Sömu sögu má segja um innihald sænsku útgáfu bókarinnar. Asterix och hans tappra galler heitir hún og kom út hjá Serieförlaget árið 1989 en þetta mun vera sérstök afmælisútgáfa af sögunni enda þá 30 ár síðan bókin kom fyrst út í Frakklandi. Fremst í bókinni má einmitt finna átta blaðsíðna aukaefni í tilefni tímamótanna. Asterix och hans tappra galler kom fyrst út í Svíþjóð árið 1970 en heftið sem er í eigu SVEPPAGREIFANS mun vera 7. útgáfa bókarinnar í Svíþjóð.
Að síðustu má nefna spænska útgáfu af þessari sögu, Ástríki Gallvaska, sem finna má í hinum fjölbreytilegu myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Sú bók nefnist að sjálfsögðu Asterix el Galo. Þessi útgáfa síðuhafa var gefin út hjá Grijalbo/Dargaud s.a. bókaútgáfunni í Barcelona árið 1980 en þetta mun hafa verið 4. útgáfa sögunnar á Spáni. Asterix el Galo var fyrst gefin út þar í landi árið 1961 en Ástríksbækurnar eiga sér nokkuð langa útgáfusögu á Spáni. Þar hafa bækurnar verið endurútgefnar oft og mörgum sinnum í gegnum tíðina og nýjustu sögurnar koma þar jafnan út á svipuðum tíma og á frummálinu. Ástríkur Gallvaski er einnig til á katalónsku og gaman væri að sjá þá útgáfu finna sér stað í myndasöguhillum heimilisins einhvern tímann.
Og nú er bara stefnan sett á að eignast þessa sögu á enn fleiri tungumálum. Einhverra hluta vegna hefur hin þýska útgáfa bókarinnar ekki enn komið inn á heimilið og þá væri gaman að eignast hina áðurnefndu katalónsku útgáfu, þá portúgölsku, hollensku og ítölsku. Já og á norsku, finnsku, latínu, tyrknesku, grísku,albönsku, króatísku, pólsku ... Haha! Ég vissi að þú myndir gera þetta!!!
En látum þetta nægja í dag af innihaldslitlu rausi ...

4. september 2020

173. HERRA SEÐLAN HITTIR GORM

SVEPPAGREIFINN hefur stundum gert sér það að leik að grafa upp stuttar myndasögur eða brandara úr belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU og birt hér á Hrakförum og heimskupörum. Oftast er þetta efni sem ekki hefur birst í þeim myndasögum sem komið hafa út hér á landi og getur verið af ýmsum toga. Sem dæmi um þetta má nefna stakan myndabrandara með Viggó viðutan og herra Seðlan, stutta jólamyndasögu og einnig stutta sögu með þeim Sval og Val.
En fimmtudaginn 9. júlí árið 1970 kom út blað númer 1682, af hinu áðurnefnda SPIROU tímariti, en þetta tölublað markaði þau tímamót að vera upphafsblað þrítugasta og þriðja árgangs myndasögublaðsins kunna. Blaðið var heilar 132 blaðsíður að lengd í þetta sinn og uppfullt af ýmsu skemmtilegu efni, tileinkað þessu óvenjulega tilefni, auk hinna hefðbundnu vikulegu myndasagna og greina. Á meðal þess efnis sem þetta tölublað hafði fram að færa voru til dæmis framhaldssögur með flugfreyjunni ævintýragjörnu Natöchu, franska einkaspæjarann Gil Jourdan, Tif og Tondu og byrjunin á Samma sögunni Des Mômes et des gorilles svo eitthvað sé nefnt. Sú saga hefur ekki komið út hérlendis. Þá mátti þar auðvitað finna hefðbundinn Viggó brandara og fyrstu fjórar blaðsíðurnar úr Sval og Val sögunni Sprengisveppnum, eftir Jean-Claude Fournier, en sú byrjun er reyndar svolítið öðruvísi en við eigum að venjast úr bókinni. En það er annað mál og verður kannski krufið hér betur seinna. Af hinu óhefðbundna efni, sem birt var í tilefni tímamótanna, mátti til dæmis finna þriggja og hálfs blaðsíðna Strumpasögu með auðum talblöðrum þar sem lesendum blaðsins gafst kostur á að taka þátt í að fylla upp í blöðrurnar og stutta myndasögu um Sval, eftir Rob-Vel, þar sem Pési verður ósýnilegur fyrir slysni. Í blaðinu birtist einnig aukabrandari um Viggó, sem margir muna eftir, og segir frá því þegar hann fyllir slökkvitæki af rjóma til að slökkva kertin á afmælistertu SPIROU tímaritsins. En í blaðinu birtust líka nokkrir stuttir myndasögubrandarar sem unnir voru sameiginlega af listamönnum tímaritsins. Þar rugla saman reitum sínum margar af sögupersónum blaðsins og sameinast á ritstjórnarskrifstofunni. En efni það sem SVEPPAGREIFINN ætlar að birta í færslu dagsins tengist einmitt nokkrum af þeim persónum sem kíkja þar í heimsókn. Þetta er brandari eftir Fournier og sýnir hina óvenjulegu samsetningu; Val, Sveppagreifann, Gorm og herra Seðlan. Brandarinn birtist á neðri hlutum blaðsíðna númer 113 og 114 í blaðinu en SVEPPAGREIFINN hefur snarað honum, með aðstoð Greifynjunnar sinnar, yfir á íslensku og vonandi fyrirgefst honum það.
Það telst harla óvenjulegt að sjá herra Seðlan teiknaðan af Fournier en hvað Gorm varðar er nú líklegt að eitthvað hafi André Franquin átt þar einhvern hlut að máli.