29. júlí 2017

16. AUKASÍÐAN Í TINNA OG PIKKARÓNUNUM

Frá 16. september árið 1975 og fram til 13. apríl 1976 birtist nýjasta saga Hergé, Tinni og Pikkarónarnir (Tintin et les Picaros), í fransk/belgíska myndasögutímaritinu Le Journal de Tintin.
Hergé hafði verið í tíu ár með Tinna og Pikkarónana og sífellt lengdist meir og meir sá vinnslutími sem fór í hverja sögu. Og á þeirri stundu vissi auðvitað enginn að þarna væri um að ræða síðustu heila Tinnasöguna sem kom út. Á meðan Hergé vann að sögunni fékk hún í upphafi heitið Tintin et les Bigotoudos, (bigotoudo er eins konar háðsyrði eða afbökun á spænska orðinu yfir "yfirvaraskegg") en Tintin et les Picaros varð síðan að endanlegri niðurstöðu. "Tinni og yfirvaraskeggin" hefði reyndar líka alveg getað orðið skemmtilegur kostur með vísan til þessara hæfilega hallærislegu, áunnu andlitslýta margra persóna bókarinnar.
Og vegna klaufalegra mistaka varð upphaf sögunnar ekki eins og upphaflega var ætlað. Hergé var búinn að teikna upphafsmyndina þar sem Tinni brunar um belgískar sveitir á mótorhjólinu sínu á leiðinni til Mylluseturs og þar sést hvar náttúran er sýnd í fullum blóma með laufguðum trjám, blómstrandi blómum og heiðskírum himni.
Því þurfti hins vegar að breyta eftir að fljótfærnisleg staðreyndavilla kom fram. Athugull aðstoðarmaður, sem starfaði við litun á sögunni, á Hergé Studios uppgötvaði og benti á að kjötkveðjuhátíðir í Suður Ameríku færu jafnan fram að vetrartíma (í febrúar) í Evrópu. Því þurfti að breyta þeirri árstíð sem fram kemur á fyrstu myndunum í sögunni. Afraksturinn er óneitanlega töluvert drungalegri.
Tinni og Pikkarónarnir markar töluverð tímamót í seríunni og ekki aðeins fyrir að vera síðasta bókin í flokknum heldur er hún um margt öðruvísi en þær bækur sem á undan höfðu komið. En þar verður auðvitað mest að taka tillit til hve langt var síðan næsta bók á undan (Flugrás 714 til Sydney) kom út. Þetta voru róttækir og mjög breyttir tímar, Hergé var farinn að eldast og hann var augljóslega að reyna aðlagast þeim tímum eftir best getu. Tinni var til dæmis farinn úr golfbuxunum sínum og kominn í gallabuxur og sjá má vísbendingar um að hann aðhyllist frjálslegum friðarsjónamiðum hippanna. Hann safnar reyndar ekki hári (þó reyndar megi alveg greina lengri barta á honum í bókinni) og heldur lítið fer fyrir frjálsum ástum hjá kappanum. En Tinni ferðast orðið um á mótorhjóli og á hjálmi hans má finna sígilt peace merki.
Ákveðnar áherslur eru áberandi í Tinna og Pikkarónunum en í sögunni fara til dæmis freistingar Kolbeins kafteins gagnvart áfengi hraðminnkandi. Vilhjálmur Vandráður á þar reyndar hlut að máli en það er, eins og gefur að skilja, auðvitað svolítið gegn vilja Kolbeins. Og í þessari sögu, sem er sú tuttugasta og þriðja í röðinni, kemur einnig í fyrsta sinn fram fullt nafn Kolbeins kafteins. Eftir allan þennan tíma kemur í ljós að kafteinnin heitir Kolbeinn Kaldan (Archibald Haddock á frummálinu).
Í kjölfar þess að sagan birtist í Le Journal de Tintin var hún búin undir prentun í bókaformi eins og venjan var með Tinna sögurnar. Og þá kom svo sannarlega svolítið babb í bátinn, því að í ljós kom að í sögunni væri einni blaðsíðu ofaukið. Í stað þess að bókin væri 62 blaðsíður, eins og venjan var, þá kom í ljós að blaðsíðurnar væru raunar orðnar 63. Það var því ljóst að stytta þurfti söguna um eina síðu eða hreinlega að sleppa úr einni blaðsíðu vegna þess að af tæknilegum ástæðum var ekki hægt að hafa bókina 63 síður. Og það varð raunin. Blaðsíðu 23 var einfaldlega kippt út úr sögunni og síða 24 því færð fram um eina blaðsíðu. Hér fyrir neðan má einmitt sjá þessa týndu blaðsíðu úr Tinna og Pikkarónunum.
Ekki hefur SVEPPAGREIFINN nennt að hafa fyrir því, með aðstoð Google translate og betri helmingsins, að snara þessari blaðsíðu beint yfir á íslensku og fylla upp í talblöðrurnar með íslenskum texta. En í grófum dráttum segir Spons við Alvares, að hann ætli að brjóta þá Tinna og Kolbeinn niður á sama hátt og glasið, sem hann kastar niður í gólfið, en það endurkastast þá á þann veg að það brýtur hluta af skegginu á brjóstmyndinni (af sjálfum Glerskeggi?) sem er á borðinu. Alvares hlær taugaveiklislega að óförum yfirmanns öryggislögreglunnar en Spons hugsar með sér að Alvares muni að öllum líkindum kjafta frá þessum klaufaskap hans og lítillækka hann þannig. Spons kallar Alvares því aftur til baka og minnir hann á að hafa sig hægan. Líklega tengist það því að Alvares eigi von á stöðuhækkun sem hann gæti þannig misst af.

Hér má einnig finna svolítið myndband á frönsku úr belgískum sjónvarpsþætti, frá 24. desember árið 1978, þar sem Hergé útskýrir ferlið með þessari frægu aukasíðu úr Tinna og Pikkarónunum

22. júlí 2017

15. LITLI SVALUR Í BÍÓ

Eitthvað hefur verið í umræðunni um að unnið sé að bíómynd um Sval og Val og að stefnt sé að því að frumsýna hana í febrúar á næsta ári.

En nú er hins vegar væntanleg í Frakklandi ný bíómynd sem er byggð á ævintýrum litla Svals eða Le Petit Spirou eins og hún heitir á frummálinu. SVEPPAGREIFINN er svo sem ekki með neinar svakalegar væntingar um einhverja stórmynd en sjálfsagt verður hægt að hafa gaman af ræmunni. Það er vonandi að þessi bíómynd verði eitthvað í anda frönsku myndarinnar Le Petit Nicolas, sem margir kannast við og er byggð á sögu Goscinny.
Myndinni er leikstýrt af Nicolas Bary og aðalhlutverkin eru í höndum; Pierre Richard, Regnier, Sacha Pinault, François Damiens, Gwendolyn Gouvernec, Philippe Katerine og Armelle. Þessi upptalning segir manni svo sem ekki neitt en gerir færsluna óneitanlega bæði svolítið meira "professional" og auðvitað einnig lengri. Le Petit Spirou verður frumsýnd í frönskum kvikmyndahúsum þann 27. september.

15. júlí 2017

14. SNILLDAR BÓKAHILLA MEÐ VIGGÓ

Enn er SVEPPAGREIFINN að flakka um netheima á meðal myndasögunörda og það verður að viðurkennast að hjá sumum þeirra er ekki aðeins að finna fróðleik og grúsk tengt teiknimyndasögum, heldur líka ýmislegt annað. Viggó viðutan á marga einlæga aðdáendur í þessum hópi og við lestur þeirra bóka er ekki laust við að hugmyndaflug margra unnenda þessa undarlega áhugasviðs fari á flakk. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ímyndunarafl höfundar Viggó bókanna, André Franquins, var slíkt að ófrumlegustu leiðindapúkar alheimsins fengju algjöra vítamínsprautu við það eitt að rýna í þessar stórkostlegu bókmenntir, þó ekki væri nema augnablik. Það finnst sennilega ekki betri vettvangur til fá frábæra hugmynd heldur en að fletta eins og einni bók um Viggó viðutan.
Það hlýtur því að vera fullkomlega viðurkennt (alla vega á meðal myndasögunörda) að leyfa hugmyndarflugi Franquins að fá að njóta sín þegar kemur að því að ráðast í framkvæmdir á innviðum híbýla sinna. Bókahillur er eitt af grundvallar nauðsynjum hvers einasta unnanda teiknimyndasagna því jú, einhverns staðar þurfa þeir auðvitað að koma fyrir þessum helstu gersemum sínum. Og fyrir aðdáendur Viggós er ekki til betri hönnunarlausn en sú sem hér sést.
Og framkvæmdin er í rauninni sáraeinföld...

7. júlí 2017

13. BOB MORANE MYNDASÖGUR

SVEPPAGREIFINN er af þeirri kynslóð sem ólst að miklu leyti upp við Frank og Jóa, Bob Moran, hinn danska Jonna og félaga hans og bækurnar eftir Enid Blyton. Reyndar jöfnum höndum með þeim myndasögum sem hann er að býsnast við reyna að mæra hér á þessari síðu. Það var hins vegar ekki fyrr en töluvert seinna sem hann áttaði sig á því að sögurnar um Bob Moran væru einnig til í myndasöguformi á frönsku. Þar heitir hann auðvitað Bob Morane. Það var aðeins fyrir tilverknað þeirra myndasagna sem SVEPPAGREIFINN eignaðist á öðrum tungumálum að hann uppgötvaði þessar sögur. Þar voru þær bækur sem komnar voru út hjá útgáfunni tíundaðar aftast í bókunum.
Um 80 bækur hafa komið út á frummálinu en SVEPPAGREIFINN minnist þess þó ekki að hafa flett eða handfjatlað þessar myndasögur í gegnum árin. Enda svo sem ekkert við því að búast þar sem þær bækur komu aldrei út í því formi hér á landi eða hafa verið hér til sölu. Jafnvel þó SVEPPAGREIFINN hafi verið ansi duglegur við að gramsa í þeim aragrúa af myndasögustöflum sem hann hefur komist höndum yfir á ferðum sínum, hefur hann einhvern veginn aldrei munað eftir eða haft rænu á því að kíkja eftir þeim til skoðunar eða kaups.
En Bob Moran kom fyrst fyrir sjónir íslenskra unglinga árið 1960 þegar bókaútgáfan Leiftur sendi frá sér fyrstu bókina, Ungur ofurhugi en alls gaf Leiftur út 28 bækur með kappanum. Þá síðustu árið 1975. Bækurnar voru eftir belgíska rithöfundinn Charles-Henri-Jean Dewisme sem tók sér höfundanafnið Henri Vernes en meira en 200 sögur hafa verið skrifaðar um kempuna í nafni Vernes frá árinu 1953. Henri Vernes er reyndar enn á lífi orðinn rétt tæplega 99 ára gamall.
En árið 1960 kom Bob Morane ekki bara fyrir sjónir Íslendinga í fyrsta sinn heldur fengu íbúar belgísk/franska svæðisins að sjá hann í fyrsta sinn í teiknimyndaformi í  myndasögublöðunum Femmes d'Aujourd'hui, Pilote magazine og Het Laatste Nieuws. Og seinna birtist hann meira að segja í Tintin Magazine. Auðvitað kom þetta líka allt út í bókaformi eins og venja var með vinsælustu myndasögurnar í Belgíu. Fyrst um sinn var það ítalski listamaðurinn Dino Attanasino sem teiknaði Bob Morane en alls eru það fimm teiknarar sem hafa séð um að túlka þessar myndasögur í um 80 bókum alls. Það eru jú töluvert margar bækur.
SVEPPAGREIFINN komst nýverið loksins aðeins í færi við kappann í myndasöguforminu og rýndi eilítið í fáeinar bækur. Og eins og með svo margar myndasögur sem lifa í gegnum áratugi, þá breytist mikið með tímanum. Við þekkjum það til dæmis vel í gegnum bækurnar með Sval og Val þar sem mismunandi höfundar með ólíkan stíl hafa fengið að spreyta sig í gegnum árin. Einnig væri líka hægt að nefna myndirnar um James Bond sem dæmi. Þannig er það augljóslega líka með myndasögurnar um Bob Morane. Nýjasta bókin á fátt sammerkt með þeim myndasögum sem komu út með kappanum á 8. eða 9. áratug síðustu aldar og er auðvitað enn lengra frá bókunum sem  Leiftur gaf út og SVEPPAGREIFINN las sem gutti.

1. júlí 2017

12. MYNDASÖGURÁP Í SVISSNESKUM BORGUM

SVEPPAGREIFINN er jafnan á ferðinni um Sviss á þessum árstíma og þá mestmegnis í kringum Biel og næsta nágrenni. Hann hefur á undanförnum árum þróað með sér þann skemmtilega ósið að reyna að verða sér úti um svolítið af myndasögum (helst ódýrum), þegar hann er á ferðum erlendis, og er því duglegur að þræða bæði flóa- og nytjamarkaði, sérverslanir með myndasögur og stórar bókaverslanir á þessu flakki sínu. Þetta hefur SVEPPAGREIFINN reyndar áður minnst á hér á síðunni.
Annars er úrvalið af myndasögum almennt nokkuð þokkalegt þar sem maður kíkir eftir því í Sviss. Í litlu blaðaturnunum eða sjoppunum sem fyrirfinnast við allar helstu verslunargötur og á lestarstöðvum má til dæmis alltaf finna Ástríks og Lukku Láka bækur en þar er hinsvegar erfiðara  að finna Tinna eða Sval og Val. Í stærstu stórmörkuðunum eins og Manor, COOP og MIGROS (sem eru eins konar Hagkaup þeirra Svisslendinga, nema auðvitað miklu stærri og fleiri) er úrvalið yfirleitt alveg prýðilegt. Þar má alltaf finna gott úrval af myndasögum, á þýsku, frönsku eða ítölsku - allt eftir því hvar maður er staddur í landinu hverju sinni.
Nú er SVEPPAGREIFINN enn á ný kominn heim úr slíku þriggja vikna fríi og verður að segjast eins og er að ansi var hann nú stórtækur i þetta skiptið. Og þá sérstaklega með það í huga að vera í fríi með fjölskyldunni. Heim kom hann með um 20 bækur og munaði þar mestu um skemmtilega myndasöguverslun, með notaðar bækur, í svissnesku borginni Lugano sem er nálægt ítölsku landamærunum.

En í stuttu máli sagt þá byrjuðu ósköpin á rólegu nótunum í Biel þar sem fjárfest var í tveimur bókum úr "öðruvísi" Sval og Val bókaflokknum. En þar er um að ræða sérstaka bókaflokka þar sem aðrir aðilar en hinir eiginlegu Sval og Val teiknarar fá að spreyta sig. Þessar sögur hafa enn ekki verið gefnar út á íslensku og tilheyra ekki hinum venjulegu bókum um Sval og Val en sýna þessar vinsælu bókmenntir á svolítið nýjan, framandi og skemmtilegan hátt. Önnur þessara bóka, Der Meister der schwarzen Hostien (2017), var á þýsku en hin, Le Tombeau des Champignac (2007) á frönsku. Svo virðist sem að ekki séu endilega um sömu bækurnar að ræða, í þessum bókaflokki, sem koma út í hvoru landi. Á þýsku tilheyra þessar bækur Spezial flokknum og eru orðnar 22 talsins. En reyndar eru inn í þeim bækur sem geyma líka elstu sögurnar. Þær virðast því ekki tilheyra venjulega Sval og Val bókaflokknum á þýsku. SVEPPAGREIFINN á þrjár bækur úr þessum Spezial flokki sem gefnar eru út af Carlsen Comics. Á frönsku heitir þessi flokkur hins vegar Série Le Spirou de ... og eru gefnar út af Dupuis en þar eru bækurnar orðnar tíu talsins.
Og þar sem SVEPPAGREIFINN hafðist við í nágrenni Biel þá var varla hjá því komist að heimsækja fleiri bókabúðir í borginni, á þessum þremur vikum sem fjölskyldan var stödd í landinu, og fleiri myndasögur bættust því smám saman í bókabunkann. Ný bók um dóttur Zorglúbb var til að mynda einnig versluð í Biel í ferðinni en svo var fjárfest í Lukku Láka bók númer 93 á þýsku, Meine Onkel die Daltons (2015), en SVEPPAGREIFINN hefur þó ekki kynnt sér hvort sú númeraröð sé samræmd hinni upprunalegu belgísku/frönsku bókaröð. Í Biel var svo einnig keypt Sval og Val bók númer 51 á þýsku, sem heitir In den Fängen der Viper, en það er reyndar bók númer 53 á frönsku og heitir upprunalega Dans les griffes de la vipére (2013).
Nokkrum dögum síðar lá leiðin til Lugano og þar komst SVEPPAGREIFINN í feitt. Eftir að hafa skoðað helstu bókabúðir borgarinnar án árangurs fann hann loksins (eftir töluverða leit) litla, vel falda verslun sem heitir Dadix Comics & Manga SHOP sem hafði reyndar ekki uppá það að bjóða sem væntingar voru uppi um. En hinsvegar gat eigandi búðarinnar bent SVEPPAGREIFANUM á aðra verslun þar sem örugglega væri hægt að finna eitthvað af því sem leitað var að. Þar var um að ræða smábúðina Il Bottechino, í útjaðri miðbæjarins, sem reyndar sėrhæfir sig í alls konar Ski-fi og Manga efni, bæði notuðu og nýju. En ungur ítalskmælandi eigandi verslunarinnar gat þó bent á hillur þar sem áhugasvið SVEPPAGREIFANS blasti við á ögrandi hátt í öllu sínu veldi. Þarna verslaði hann einar tíu notaðar en vel með farnar myndasögur á frönsku, þýsku og ítölsku og borgaði fyrir þær 20 svissneska franka en það gera rétt um 200 íslenskar krónur fyrir stykkið.
Næst var komið að því að heimsækja höfuðborgina Bern nokkrum dögum síðar og þar voru nú bara keyptar tvær bækur með Sval og Val. Þetta voru þýskar útgáfur af bók númer 32, Abenteuer in Australien, sem er númer 34 á frönsku og heitir þar Aventure en Australie (1985). Og hins vegar bók númer 48, Zu den Ursprüngen des Z sem heitir Aux sources du Z (2008) á frönsku og er þar númer 50.
Í Neuchâtel var einnig aðeins staldrað við og þar fann SVEPPAGREIFINN stórskemmtilega sérverslun með myndasögur en hún nefnist því fróma nafni Apostrophes bandes dessinées og hefur að geyma bæði verslun og gallerí. Reyndar var hann fremur hægverskur í kaupaðgerðum sínum að þessu sinni og verslaði aðeins eina myndasögu. Það var bók númer fjögur úr bókaflokknum um ævintýri Lukku Láka ungan, þ.e. Les aventures de Kid Lucky og bókin nefnist; Lasso périlleux.
SVEPPAGREIFINN mælir algjörlega með að þeir sem leið eigi um Neuchâtel droppi aðeins við í Apostrophes bandes dessinées.
Að lokum dvaldi svo SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans eina nótt í Basel og þar var ekki hjá því komist að heimsækja hina frábæru COMIX SHOP. Þar hefur SVEPPAGREIFINN reyndar verið fastagestur á undanförnum árum og ósjaldan verið duglegur við að hafa heim með sér einhverja kostagripi úr þeirri verslun. Auk þess sem eiginkona hans hefur jafnan verslað þar eina Tinna fígúru í hvert sinn og gefið sínum heittelskaða SVEPPAGREIFA. Í þetta sinn var SVEPPAGREIFINN á ferðinni fyrir hádegi á mánudagsmorgni og rak sig þá á það vandamál að verslunin opnaði ekki fyrr en klukkan 13:00 á mánudögum en fjölskyldan átti hins vegar bókað flug til Íslands klukkan 14:30. Eigandi COMIX SHOP var hins vegar að störfum í búðinni við bókhald og sá aumur á íslensku fjölskyldunni og hleypti þeim lausum í búðinni, þrátt fyrir opinberan lokunartíma. SVEPPAGREIFINN launaði eigandanum greiðann með kaupum á þremur teiknimyndasögum og fékk meira að segja nokkur myndasögublöð í kaupbæti frá Fría myndasögudegi þeirra Svisslendinga. Þar á meðal var frábært myndasögublað um Viggó í tilefni af 60 ára afmæli hans.
En í COMIX HOP í Basel fjárfesti SVEPPAGREIFINN að þessu sinni í Sval og Val bókinni Tora Torapa (1973) á þýsku en hún er númer 21 hjá þjóðverjunum en 23 í frönsku útgáfunni. Þá keypti hann bók númer 29, Die Büchse der Pandora, sem er númer 31 á frönsku og heitir La boîte noire (1983) á frummálinu. Og að lokum keypti hann enn eina bókina úr Spezial flokknum um Sval og Val en þar var um að ræða bókina SPIROU - Porträt eines Helden als junger Tor (2009). Sú bók er ansi áhugaverð og skemmtileg og stefnt er að því að rýna betur í hana hér á Hrakförum & heimskupörum.
Og svo má auðvitað alls ekki gleyma Tinna fígúrunni sem heittelskuð eiginkona SVEPPAGREIFANS færði honum. Fígúran var að þessu sinni ekki beint fígúra heldur sjálf Eldflaugin úr dúólógíunni Eldflaugastöðin/Í myrkum mánafjöllum. En fyrir hafði hún gefið honum Tinna, Tobba, Kolbein og Vandráð.