25. október 2019

134. FYRSTU SKREF VIGGÓS

Margir lesendur myndasagna á Íslandi þekkja líklega hvernig uppruni Viggós viðutan (Gaston Lagaffe) er tilkominn en þessi byrjunarskref hans í myndasöguheiminum eru rakin í grófum dráttum í bókinni Glennur og glappaskot (Gaffes et gadgets - 1985) sem kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1986. Þarna eru fyrstu kynni lesenda belgíska myndasögutímaritsins SPIROU (Le journal de Spirou) við kappann rakin og þar er hægt að sjá hvernig hann birtist smán saman meira og meira á næstu tölublöðum blaðsins. Í þessari bók voru hinar gömlu teikningar úr SPIROU blaðinu að koma í fyrsta skipti út í bókaformi en hafa þar reyndar verið endurteiknaðar og litaðar í samræmi við kröfur nútímans. André Franquin hafði fram til þess tíma sett sig alfarið á móti þessari útgáfu en gaf sig þó að lokum. Franquin á Viggó náttúrulega að langstærstum hluta en upphaflega hugmyndin að honum þróaðist þó í samstarfi við þá Jidéhem (Jean De Mesmaeker) og Yvan Delporte. Í höndum Franquins varð Viggó gríðarlega vinsæll og myndasögurnar um hann birtust í SPIROU tímaritinu allt til ársins 1996 en listamaðurinn lést snemma árs 1997. En til að átta sig betur á þessum fyrstu andartökum Viggós og hvernig hann fléttast til dæmis inn í sögurnar um Sval og Val er gaman að raða efninu aðeins ítarlegar upp í tímalegu samhengi.
Franquin var búinn að vera að teikna þá Sval og Val í þó nokkurn tíma áður en Viggó kom til sögunnar en þeir fyrrnefndu voru þó upphaflega reyndar ekki sköpunarverk hans sjálfs. Franski listamaðurinn Rob-Vel (Robert Velter) hafði átt allan heiðurinn af Sval, við stofnum SPIROU blaðsins árið 1938, en hann var hugsaður sem einhvers konar andlit tímaritsins og helsta sögupersóna þess. Í miðri Seinni heimsstyrjöldinni tók Belginn Jijé (Joseph Gillain) við honum, auk þess sem Valur kom einnig til sögunnar og Franquin tók síðan við keflinu af honum árið 1946 og þróaði þá félaga í þá átt sem við þekkjum í dag. Margir líta því (ranglega) á þann tímapunkt, þegar Franquin tók við söguhetjunum, sem upphaf myndasagnanna um  Sval og Val. Fyrstu lengri sögurnar um þá félaga urðu þannig til í tíð Franquins og þær urðu fljótlega gríðarlega vinsælar í Belgíu og löndunum þar í kring. Sögurnar fóru einnig að koma  út í bókaformi og þær þróuðust í áttina að þeirri föstu tilveru sem síðan hefur fylgt þeim. Sveppagreifinn og Sveppaborg komu til sögunnar árið 1951 með bókinni Il y a un sorcier à Champignac (Sveppagaldrar í Sveppaborg - 2017), Gormur birtist fyrst í Spirou et les héritiers (Baráttan um arfinn - 1980) árið 1952 og Túrbot bíllinn varð til árið 1955 með sögunni La corne de rhinocéres sem ekki hefur enn komið út hér á landi en er nefnd Horn nashyrningsins á íslensku Wikipedia síðunni. Og svo má lengi telja. Fljótlega kom fram í sögunum að Valur starfaði sem blaðamaður þó ekki væri það mjög áberandi í daglegu lífi þeirra félaganna. Starf Svals var þarna hins vegar ekki jafn ljóst en hins vegar var alltaf ljóst að tímaritið var nefnt honum til heiðurs eða höfuðs eftir því hvernig á það er litið. Hann hlaut því einnig að starfa þar, alla vega svona í og með, eins og kom síðar í ljós í Viggó bröndurum.
Sval og Val sagan Le nid des marsupilamis (Gormahreiðrið - 1978) var í birtingu í SPIROU tímaritinu þegar Viggó birtist þar fyrst þann 28. febrúar árið 1957. Á þeim tíma var útlit þeirra Svals og Vals orðið tiltölulega varanlegt í meðförum Franquins og átti lítið eftir að breytast úr þessu. Þetta var tölublað númer 985 og neðst á blaðsíðu 5 birtist ein frekar lítil og óráðin mynd af Viggó þar sem hann stóð spariklæddur með slaufu og allt, í opnum dyrum tímaritsins, og án nokkurra útskýringa. Fyrir ofan myndina stóð Gaston stórum stöfum og utan um hana röð af fótsporum. Með myndinni fylgdu engar upplýsingar en lesendur blaðsins höfðu oft áður fengið vísbendingar um áhugavert efni, frá stjórnendum blaðsins, þegar sambærileg fótspor höfðu verið notuð til að vekja eftirtekt.
Strax í næsta blaði, sem kom út þann 7. mars, birtist síðan aftur mynd af honum (nú á blaðsíðu 6) þar sem hann var kominn inn fyrir dyrnar, horfði forvitnislega í kringum sig og var búinn að loka hurðinni á eftir sér. Þarna hafði hann reyndar hneppt frá sér jakkanum og nú var hann ekki lengur með slaufuna um hálsinn. Enn kom þó ekkert meira fram um kappann annað en nafnið hans fyrir ofan myndina og fótsporin í kring og lesendur blaðsins þurftu því að bíða lengur eftir frekari upplýsingum um hvað væri í gangi með þennan ókunna og renglulega náunga.
Í næstu tölublöðum bættust við fleiri myndir af Viggó en alltaf aðeins ein í hverju blaði og alltaf án orða. Í SPIROU blaði númer 987 var hann þó skyndilega búinn að fá sér sæti á stólgarmi og var í óðaönn við að kveikja sér í sígarettu með nokkuð kæruleysislegum tilburðum og fasi. Þarna var hann einnig búinn að kasta af sér fínni fötunum sem hann hafði klæðst fyrst og kominn í kunnuglegri hversdagsklæðnað sem áttu eftir að fylgja honum um ókomna tíð.
Næst sjást þeir Svalur og Valur í fyrsta sinn á mynd með Viggó og reyndar er íkorninn Pési einnig með þeim. Þeir eru eðlilega forvitnir um þennan renglulega náunga og eru eitthvað að velta honum fyrir sér en Valur er strax orðinn svolítið tortrygginn í hans garð þrátt fyrir að vita ekkert um hann. Enn sást Viggó aðeins í svart/hvítu og enn voru engar frekari upplýsingar um hann að fá.
En í tölublaðinu þar á eftir (númer 989) á blaðsíðu 26 sást Viggó viðutan í fyrsta skipti í lit í SPIROU tímaritinu. Þar er Valur efst á síðunni þar sem hann bendir ergilega niður fyrir sig á texta til útskýringar en augljóst er að hann hefur þarna strax einhver horn í síðu Viggós þó engir sýnilegir árekstrar hafi orðið enn á milli þeirra í blaðinu. En í þessum texta segir:
TAKIÐ EFTIR! UM NOKKURRA VIKNA SKEIÐ HEFUR UNDARLEGUR NÁUNGI VERIÐ AÐ FLÆKJAST Á SÍÐUM TÍMARITSINS. VIÐ VITUM ALLS ENGIN DEILI Á HONUM. VIÐ VITUM BARA AÐ HANN ER KALLAÐUR VIGGÓ. HAFIÐ AUGA MEÐ HONUM! MÉR VIRÐIST ÞETTA VERA FURÐUFUGL! 
Þessi þýðing Bjarna Fr. Karlssonar kemur úr bókinni Glennur og glappaskot. Neðst stendur svo Viggó sjálfur kæruleysislegur sem fyrr og enn er hann að kveikja sér í sígarettu. Hér eru græna peysan og gallabuxurnar mættar til leiks og fyrsta persónulega tenging hans við Val komin fram.
Fyrsta alvöru innkoma Viggós var síðan í SPIROU blaði númer 990 (á blaðsíðu 7) sem kom út þann 4. apríl árið 1957. Þar sáust þeir Svalur eiga nokkur orðaskipti með samtali sem síðan er löngu orðið sígilt. Bjarni Fr. þýddi þessi frægu samskipti þeirra á eftirfarandi hátt:
HVER ERT ÞÚ?
VIGGÓ.
HVAÐ ERT ÞÚ AÐ GERA HÉR?
ÉG ER AÐ BÍÐA.
EFTIR HVERJUM?
ÉG VEIT ÞAÐ EKKI ... ÉG BÍÐ BARA ...
HVER SENDI ÞIG?
MÉR VAR SAGT AÐ KOMA ...
HVER GERÐI ÞAÐ?
VEIT ÞAÐ EKKI ...
TIL HVERS ÁTTIRÐU AÐ KOMA?
TIL AÐ VINNA ...
VINNA HVAÐ?
VEIT ÞAÐ EKKI ... ÉG VAR RÁÐINN ...
EN ÞÚ HLÝTUR AÐ VITA HVER ÞAÐ VAR SEM RÉÐ ÞIG?
HANANÚ ...
Þarna varð því ljóst að Viggó væri hugsaður sem nýr starfsmaður SPIROU (SVALS) tímaritsins (þess sem hann birtist einmitt í) og á þessari mynd má einnig í fyrsta sinn sjá hann tjá sig á einhvern hátt. Það var svo í næsta blaði (númer 991) á blaðsíðum 27 og 28 þar sem fyrst sást, á tveimur myndum, hvers væri að vænta af þessu nýja starfsmanni SPIROU tímaritsins. Á fyrri myndinni (bls 27) má sjá reiðileg viðbrögð Vals við því þegar einhver (Viggó auðvitað) hefur sullað bleki yfir pistil vikunnar en þegar flett er yfir á næstu síðu (bls 28) sést sökudólgurinn sjálfur.
Þessi myndabrandari sýnir allra fyrsta skammarstrik Viggós á ritstjórnarskrifstofunni og auðvitað var það Valur sem varð fórnarlamb hans þar. Þarna blönduðust nú saman persónur úr tveimur mismunandi myndasöguseríum og af þessum myndum mátti ráða að rauði þráðurinn í bröndurum, þessarar nýjustu sögupersónu blaðsins, myndi tengjast árekstrum þeirra Viggós og Vals. Svalur yrði meira í aukahlutverki í þeim bröndurum. Og það varð einmitt raunin. Það er nokkuð athyglisvert að bera saman þann Val sem birtist í sögunum um Sval og Val við þann Val sem kemur fyrir í bröndurunum um Viggó viðutan. Þarna er í raun um tvær ólíkar persónur að ræða. Svalur er hins vegar nokkuð sjálfum sér líkur í báðum þessum seríum. En í næsta SPIROU blaði (númer 992) ritaði Valur reyndar harðorða grein í blaðið þar sem hann kvartaði undan Viggó og rakti um leið nokkur skammarstrika hans. Valur upplýsti þá lesendur um að Viggó hefði tjáð sér að hann væri ráðinn til tímaritsins SVALS sem söguhetja og staðfesti með því um leið það sem hann var þegar búinn að sýna í tímaritinu. Á næstu vikum birtust þannig áfram í blaðinu fleiri sambærilegir einna myndar brandarar þar sem árekstrar þeirra Viggós og Vals réðu ferðinni. 
Ný Sval og Val saga, Le voyageur du Mésozoïque (hún hefur ekki enn komið út á íslensku), hóf líka göngu sína í SPIROU blaði númer 992, sem kom út þann 18. apríl 1957, og sú saga var algjörlega óháð þeim samskiptum sem fram fóru á milli þeirra Svals, Vals og Viggós á skrifstofunni. En það var síðan loksins í hinu merka tímamótablaði SPIROU númer 1000, sem kom út þann 13. júní, þar sem fyrsti eiginlegi myndasögubrandarinn um Viggó viðutan birtist í blaðinu og auðvitað kom Valur þar einnig hressilega við sögu. Það er alveg óhætt að segja að hlutverk eða örlög Vals í þeim brandara séu ólík því sem lesendur bókanna um Sval og Val áttu að venjast.
Íslensku útgáfuna af þessum brandara má finna á blaðsíðu 13 í bókinni Glennur og glappaskot sem áður hefur verið minnst á hér í þessari færslu. Enn var þess þó að bíða að sambærilegir heillar síðu brandarar yrðu að föstum liði í blaðinu. Stakar myndir með stríði þeirra Viggós og Vals héldu áfram í blaðinu næstu mánuðina og þá oftast aðeins ein mynd í hverju tölublaði en einstaka sinnum dreifðist brandarinn þó á tvær blaðsíður. Þann 19. september 1957 birtist Viggó hins vegar í fyrsta skipti í sögu með Sval og Val. Þá var langt liðið á söguna Le voyageur du Mésozoïque í blaðinu en þennan dag mátti sjá kappann nokkuð óvænt á reiðhjóli í einum myndaramma hennar.
Sval og Val sagan Vacances sans histories (Viðburðarlítið sumarleyfi), sem margir muna eftir sem aukasögunni í íslensku útgáfunni af Le gorille a bonne mine (Sval og górilluöpunum - 1978), hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 1023 þann 21. nóvember árið 1957 og strax á annarri blaðsíðu sögunnar sprettur Viggó aftur fram á reiðhjóli. Enn er hann töluvert annars hugar í umferðinni en í þetta sinn er hann ekki að lesa dagblað heldur er hann önnum kafinn við að kveikja sér í sígarettu.
Á þessum tímapunkti var Viggó því búinn að birtast tvisvar í sögum með Sval og Val en hans eiginlegi ferill hans í myndasöguheiminum var þó tæknilega ekki einu sinni almennilega hafinn. En í tölublaði SPIROU númer 1025 kom loksins annar samfelldur myndasögubrandari sem að þessu sinni var í hálfrar síðu formi. Sitthvor myndaröðin birtist neðst á blaðsíðum 26 og 27 í blaðinu en þennan brandara má einmitt sjá á blaðsíðu 27 í títtnefndri Viggó bók, Glennum og glappaskotum.
Þetta hálfrar síðu myndasöguform var nú að mestu komið til að vera og sú tilhögun á Viggó bröndurunum entist honum vel næstu árin. Stutta Sval og Val sagan Viðburðarlítið sumarleyfi hélt áfram í blaðinu og þegar leið að lokun hennar birtist Viggó síðan aftur í sögunni. Þann 23. janúar 1958, í blaði númer 1032, brá honum nefnilega fyrir á síðustu mynd þess blaðs og í næstu viku á eftir fékk hann heila blaðsíðu fyrir sig í félögsskap þeirra. Eins og áður er getið fylgir þessi stutta aukasaga með Sval og górilluöpunum en augnablikið má finna í bókinni á blaðsíðum 61 og 62.
Þann 6. febrúar sama ár hóf önnur stutt Sval og Val saga göngu sína í blaðinu, sem nefndist La foire aux gangsters (Bófaslagur), en íslenskir lesendur þekkja hana sem aukasöguna í Gormahreiðrinu (Le nid des Marsupilamis) frá árinu 1978. Í þessari sögu kemur Viggó nokkuð við sögu og leikur töluvert stærra hlutverk en hann hafði áður gert með þeim í seríunni um Sval og Val. Það var þó ekki fyrr en í tölublaði númer 1039, sem kom út þann 13. mars, sem hann loksins birtist í sögunni.
Í SPIROU blaði númer 1042, sem kom út þann 3. apríl árið 1958, birtist í fyrsta sinn loksins alvöru heilsíðubrandari með Viggó í blaðinu en það var í tilefni af sérstöku páskablaði tímaritsins. Í gegnum tíðina voru að koma út vegleg páska- og jólablöð af tímaritinu og í þeim var oft fjölbreytt efni sem ýmist tengdist því þema eða efni sem hafði verið pimpað skemmtilega upp á einhvern annan hátt. Enn var þó töluvert langt í að Viggó viðutan birtist að jafnaði í þessu sama heilsíðu formi. Þessi brandari kemur fyrir á blaðsíðu 16 í bókinni Glennum og glappaskotum.
Þegar hér var komið sögu hafði Viggó viðutan verið búinn að birtast í SPIROU tímaritinu í rúmlega eitt ár í einhvers konar formi en fram til þessa nánast eingöngu með Val en Sval brá þó einnig einstaka sinnum fyrir. Enn hafði annað starfsfólk skrifstofunnar eða aðrar aukapersónur seríunnar ekki verið kynntar til sögunnar nema ungur ónafngreindur ritari skrifstofunnar. Sú varð þó ekki ein af þeim föstu starfsstúlkum sem seinna komu til sögunnar og voru nafngreindar í nokkuð stórum hlutverkum. Smám saman fór fleira fólk einnig að koma til sögunnar en þó án þess að festast almennilega í sessi í seríunni. Eftir langan tíma, þann 17. mars árið 1960, birtist samt loksins í blaðinu í fyrsta skipti aukapersóna sem átti eftir að koma fyrir oftar en einu sinni næstu áratugina og setja virkilega mark sitt á seríuna. Þetta var að sjálfsögðu herra Seðlan.
Þessi brandari kemur fyrir á blaðsíðu 36 í bókinni Dútl og draumórar sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2018 en herra Seðlan kom síðan næst við sögu í SPIROU blaði sem kom út þann 23. júní 1960. Frá því Viggó birtist í fyrsta sinn, rúmlega þremur árum áður, höfðu engir aðrir en þeir Svalur, Valur og Viggó (af þeim sem urðu seinna þekktir) sést í þessum myndasögum blaðsins. Herra Seðlan birtist nokkuð reglulega næstu mánuðina og var lengi eina auka-aðalpersónan í bröndurunum. Reyndar höfðu húsvörðurinn og hin úrilla ræstingakona skrifstofunnar komið fyrir í fáein skipti en verið í algjöru aukahlutverki og voru aldrei nafngreind. Seinna kom þó fram að hún héti Mélanie Molaire og hann Jules Soutier en enn sem komið er hafa þau lítið sést í íslensku útgáfunum og aldrei hlotið nöfn í þeim. Upp úr þessu fóru kunnugleg andlit starfsstúlkna skrifstofunnar einnig að birtast í stöku brandara en þó án þess að nöfn þeirra kæmu strax sérstaklega fram. En í blaði númer 1266 þann 19. júlí 1962 birtust loksins tveir samstarfsmenn Viggós sem áttu heldur betur eftir að setja mark sitt á seríuna þegar fram liðu stundir.
Þarna voru þeir Eyjólfur og Snjólfur mættir til leiks en þennan brandara má finna á blaðsíðu 16 í bókinni Gengið af göflunum sem Froskur útgáfa sendi frá sér árið 2015. Hver sá þriðji er (sem er rækilega falinn á bak við blaðið) er reyndar óljóst en líklega voru hinir tveir ekkert endilega hugsaðir sem framtíðar sögupersónur seríunnar á þessum tímapunkti. Enda voru þeir nafnlausir í fyrstu bröndurunum sem þeir birtust. Nokkur bið varð því á að þeir Eyjólfur og Snjólfur kæmu næst fram en í sömu bók, að þessu sinni á blaðsíðu 24, má sjá þegar ungfrú Jóka birtist í fyrsta sinn. Þetta var í SPIROU blaði númer 1283 sem kom út þann 15. nóvember árið 1962.
Þau Eyjólfur, Snjólfur og ungfrú Jóka komu næst öll saman fyrir í blaði númer 1296 sem kom út 14. febrúar árið 1963 en fljótlega upp úr því fóru þau að verða reglulegri gestir hjá Viggó. Og þá kom bíllinn hans Viggós fyrst fyrir á þessum árum en hann birtist í fyrsta sinn í SPIROU blaði númer 1380 sem kom út þann 24. september árið 1964. Enn voru brandararnir nánast eingöngu í hálfrar síðu formi en einstaka sinnum birtust þeir þó líka enn í einföldum einnar myndar útgáfum. André Franquin glímdi við þunglyndi á þessum tíma og snemma árs 1962 hafði hann tekið sér frí frá Sval og Val sögunni QRN sur Bretzelburg (Neyðarkall frá Bretzelborg - 1979) enda þá löngu búinn að fá nóg af þeim félögum. Sú saga birtist því í blaðinu á næstu mánuðum með slitróttum hléum. Hann hélt þó áfram að teikna Viggó, með aðstoð Jidéhem, og brandararnir um hann færðust þá reyndar yfir á forsíðu blaðsins um nokkurt skeið en höfðu áður verið á víð á dreif um blaðið. Eins og fram kemur fremst í færslunni tók Franquin aðeins við seríunni um Sval og Val af Jijé og sá síðan um að gæða þær þeirri veröld sem seinna gerði hana svo vinsæla. Franquin skapaði þannig til dæmis Sveppagreifann og Sveppaborg og seinna gerði hann tilraun til að þróa seríuna meira út í vísindaskáldskap þar sem þeir Zorglúbb og Zantafíó komu til dæmis til sögunnar en það hugnaðist útgefandanum Charles Dupuis ekki. Franquin hafði einmitt áformað að nota Zorglúbb í sögunni Neyðarkall frá Bretzelborg en Dupuis setti sig alfarið á móti því. Sá vildi að sögurnar þróuðust meira út í saklausa, ljóðræna og fallega átt í ætt við Gormahreiðrið. Af þessum sökum myndaðist ákveðin togstreita með stefnu seríunnar um þá Sval og Val og þunglyndi Franquins hjálpaði heldur ekki til. Eftir að Neyðarkalli frá Bretzelborg lauk síðan loksins í desember árið 1963, sáust þeir Svalur og Valur ekki síðum SPIROU tímaritsins í rúmlega eitt og hálft ár.
Sögurnar um Sval og Val höfðu verið þær vinsælustu á tímaritinu og þar sem ekki var hjá því komist að fjarvera þeirra færi að hafa áhrif á sölu blaðsins fór Dupuis að setja pressu á Franquin um nýtt efni. Þann 14. október árið 1965, í tölublaði númer 1435, birtust þeir félagar loksins aftur á ný. Þarna var um að ræða byrjunina á sögunni Bravo les Brothers (Aparnir hans Nóa) og þó hún sé hluti af seríunni um Sval og Val gæti hún líka klárlega verið 22ja blaðsíðna brandari um Viggó viðutan. Þetta var þriðja sagan þar sem heimar seríanna tveggja skarast en í Öpunum hans Nóa er sögusviðið að mestu ritstjórnarskrifstofa SVALS, sem telst frekar heimur Viggós, þó allir þrír séu í aðalhlutverkum. Og í rauninni var það í þessari sögu sem lesendur SPIROU áttuðu sig betur á heildarmyndinni á ritstjórnarskrifstofu tímaritsins og hvaða hlutverki hver gegndi þar í þeim söguheimi. Sagan er því ekki hefðbundin Sval og Val saga heldur meira svona langur farsakenndur Viggó brandari sem reyndar er bara nokkuð vel heppnaður og skemmtilegur. Viggó viðutan var því að birtast á þessum tíma í tveimur mismunandi seríum á sitthvorum staðnum í SPIROU blaðinu en Öpunum hans Nóa lauk í blaði númer 1455 sem kom út þann 3. mars árið 1966.
Brandararnir um Viggó héldu áfram sínu striki í blaðinu og birtust sem aldrei fyrr. Lesendur SPIROU voru nú orðnir töluvert meðvitaðri um heim ritstjórnarskrifstofunnar, þökk sé Öpunum hans Nóa, og um leið þróuðust brandararnir líka betur í þá átt sem við íslenskir lesendur munum eftir þeim með fyrstu bókunum sem Iðunn gaf út. Þann 9. mars 1967 kom Viggófónninn fyrst til sögunnar og með honum gafst tækifæri til fleiri landvinninga. Nú fór sögusvið brandaranna líka smám saman að færast meira út fyrir ritstjórnarskrifstofuna en áður hafði verið. Frá því að Viggó kom fyrst til sögunnar árið 1957 höfðu brandararnir um hann í langflestum tilfellum verið á hálfrar blaðsíðu formi en einstaka sinnum hafði blaðið þó boðið upp á heillar síðu brandara á tillidögum og þá oftast í páskablaðinu. Snemma á vormánuðum 1966 fóru þó að slæðast með einn og einn heillar síðu brandari og um sumarið tóku þeir loksins alveg yfir. Í jólablaði SPIROU númer 1496 sem kom út þann 15. desember mátti meira að segja finna tveggja síðna Viggó brandara í fyrsta sinn. Þessa opnu þekkja allir úr bókinni Viggó bregður á leik sem Iðunn sendi frá sér árið 1982.
Eins og áður segir varð langt hlé á Sval og Val í SPIROU en síðasta saga Franquins um þá félaga hóf loksins göngu sína í blaðinu þann 12. október árið 1967. Þetta var sagan Panade à Champignac (Svaðilför til Sveppaborgar - 1982) og fyrstu blaðsíður hennar fóru að mestu fram á ritstjórnarskrifstofunni. Veikindi listamannsins gerði það að verkum að félagar hans hjá SPIROU, Peyo, Gos og Jidéhem, aðstoðuðu hann við söguna en sögurnar tvær (Svaðilför til Sveppaborgar (37 bls) og Aparnir hans Nóa (22 bls)) voru síðan gefnar út saman þegar þær komu út í bókaformi árið 1968. Hluti af byrjun Svaðilfarar til Sveppaborgar kom einnig fyrir sem brandari í bókinni Viggó - vikadrengur hjá Val sem Iðunn sendi frá sér árið 1980.
André Franquin teiknaði því ekki fleiri sögur með þeim Sval og Val og síðustu blaðsíður hennar, sem var reyndar ekki í fullri lengd, birtust í SPIROU tímaritinu þann 8. febrúar árið 1968. Um svipað leyti birtist 500. brandarinn um Viggó í blaðinu en einstaka einnar síðu brandarar með Gormi birtust þó á næstu mánuðum í tímaritinu. Svalur og Valur komu einstaka sinnum fyrir í bröndurum og í einum þeirra voru þeir Svalur og Gormur til dæmis á ferðinni á bílnum hans Viggós. Fljótlega eftir að Franquin hætti með Sval og Val hafði verið ákveðið að franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier tæki við seríunni og sá hóf þegar undirbúning að þeirri vinnu. Svalur hafði ekki verið mjög áberandi í Viggó bröndurunum síðustu mánuðina á undan og Valur hætti nú líka skyndilega að sjást því Franquin fannst ekki eðlilegt að hann væri að birtast í tveimur seríum á sama tíma, með tveimur listamönnum og auk þess með tveimur mismunandi teiknistílum. Valur hafði verið ritstjóri tímaritsins SVALS í bröndurunum um Viggó en við hlutverki hans tók nú Eyjólfur. Sá verður jafnvel enn verra fyrir barðinu á Viggó en Valur gerði. Síðasti Viggó brandarinn, þar sem þeir Svalur og Valur komu fyrir í, birtist í SPIROU blaði númer 1576 sem kom út þann 27. júní árið 1968. Þetta var í sérstöku sumarblaði tímaritsins og það var táknrænt að í brandaranum var Franquin búinn að setja þá félaga í frí. Þessi brandari birtist á íslensku í Viggó bókinni Leikið lausum hala sem kom út árið 1980.
Þó Franquin hafi sagt skilið við þá Sval og Val þá varð samleið þeirra með Viggó ekki alveg lokið. Hinn nýji teiknari Svals, Jean-Claude Fournier, stóðst til dæmis ekki þá freistingu að gefa Viggó tækifæri í litlum brandara þar sem Sveppagreifinn kemur við sögu. Í sögunni Le faiseur d'or (Gullgerðarmaðurinn - 1979), sem var fyrsta Sval og Val saga Fourniers eftir að Franquin hætti, hafa þrír bófar á vegum glæpahringsins Þríhyrningsins rænt Greifanum. En í aðdraganda þess höfðu þeir Zorglúbb náð að verjast bófunum vel og tekist að lama einn þeirra með zorgeislum. Glæponarnir hóta Sveppagreifanum öllu illu ef hann aðstoðar þá ekki við að endurheimta heilsu bófans en þá dettur honum í hug að sprella aðeins í þeim og Viggó kemur upp í huga hans.
Reyndar verður að taka það fram að Franquin var Fournier töluvert til aðstoðar í Gullgerðarmanninum og hann sá til dæmis alveg um að teikna Gorm í þessari fyrstu sögu þó hann hafi reyndar ekki gefið leyfi fyrir því að hann yrði notaður seinna í seríunni. En auk þess teiknaði hann einnig nokkrar blaðsíður sögunnar, á meðan Fournier gegndi herþjónustu, og hermdi svona listalega vel eftir teiknistíl hans. Það er því ekki ólíklegt að Franquin hafi einnig átt einhvern hlut að máli við að draga upp þessa mynd af Viggó viðutan. Ekki minnist SVEPPAGREIFINN (þ.e. ritari þessa texta) þess þó að þeir Viggó hafi nokkurn tímann áður hist þótt augljóst sé að þeir þekki eitthvað til hvors annars. Í SPIROU blaði númer 1579, sem kom út þann 18. júlí árið 1968, má til dæmis sjá mynd af Sveppagreifanum upp á vegg hjá Viggó á ritstjórnarskrifstofunni.
En til að ljúka þessari færslu er rétt að benda á tvo stóra aðila úr seríunni um Viggó viðutan sem komu merkilega seint til sögu hennar. Þarna er reyndar ekki um að ræða eiginlegar sögupersónur því hér erum við að tala um köttinn góða og mávinn. Þeir birtust báðir í fyrsta sinn í sama brandaranum og reyndar kom gullfiskurinn Gulli þar einnig við sögu þó ekki yrði hann reyndar jafn langlífur og hinir. Þeir félagar (reyndar er kisi sterklega grunaður um að vera læða) slógu þarna strax í gegn, komu algjörlega með nýjan vínkil á seríuna með Viggó og voru nýttir rækilega á síðum tímaritsins á næstu misserum. Þeir urðu strax endalaus uppspretta margra góðra brandara og juku á fjölbreytileika þeirra svo um munaði. Þessi fyrsti brandari þeirra kisu og mávsins birtist í tölublaði SPIROU númer 1672 sem kom út þann 30. apríl árið 1970 en hann kemur einnig fyrir á fyrstu blaðsíðunni í Viggó bókinni Með kjafti og klóm sem Iðunn gaf út árið 1983.

18. október 2019

133. OUMPAH-PAH

Markmið SVEPPAGREIFANS með Hrakförum og heimskupörum hefur alltaf verið það að fjalla fyrst og fremst um þær teiknimyndasögur sem komu út á íslensku á síðustu áratugum 20. aldarinnar (og reyndar líka á síðustu árum) en einnig um annað efni sem tengjast þeim myndasögum á einhvern hátt. Þessum áhuga á áðurnefndum myndasögum deilir SVEPPAGREIFINN með þeim kynslóðum á Íslandi sem kynntust þessum bókum fyrst sem börn og unglingar og drukku þær í sig á þann hátt að margir eru enn að lesa þær sér til óbóta. Hann hefur því kosið að fara þá leið að einblína á þessar ákveðnu seríur en annað efni sem hann hefur röflað um hér tengjast þeim þó alltaf beint eða óbeint á einhvern hátt. SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum fengið skemmtilegar tillögur um efni til að fjalla um hér og það er frábært. Hann er alltaf nokkuð opinn fyrir góðum ábendingum sem samræmast hans eigin sérvisku, hugmyndum og stíl um síðuna. Dyggir lesendur hennar hafa til dæmis bent SVEPPAGREIFANUM á að skrifa um hinar frábæru bækur um indjánann Oumpah-Pah sem margir þekkja. Þær sögur falla klárlega undir það efni sem fjallað er um hér en þessar bækur eru eftir höfunda Ástríks bókanna þá Goscinny og Uderzo.
En bókunum um Oumpah-Pah og vinum hans kynntist SVEPPAGREIFINN fyrst fyrir um 20 árum þegar hann var að gramsa í hinni rómuðu myndasögubúð Faraos Cigarer í Kaupmannahöfn. Reyndar keypti hann þessar bækur aldrei á dönsku þegar hann droppaði þar við en vissi þó alltaf af þeim og fletti oft í gegnum þær þar. Á þessum árum var hann mest að einbeita sér að þeim bókum Franquins um Sval og Val sem ekki höfðu komið út á íslensku. Og eiginlega var SVEPPAGREIFINN búinn að gleyma bókunum um Oumpah-Pah þegar hann fékk ábendingarnar góðu um seríuna. Honum verður því vonandi fyrirgefið að hafa ekki einu sinni haft neina af þessum bókum við höndina þegar færslan var unnin. En upphafið að sögunum um Oumpah-Pah má rekja til þess er ítalski listamaðurinn Alberto Aleandro Uderzo hitti handritshöfundinn franska René Goscinny, í fyrsta sinn árið 1951, í París. Á þessum tíma voru þeir báðir í kringum 25 ára aldurinn og framtíð þeirra enn að mestu óráðin. Þeir Goscinny og Uderzo hófu fljótlega samstarf og unnu að ýmsum verkefnum áður en kom að fyrstu tilraunum þeirra að hugmyndum um indjánann unga. Þeir þróuðu smán saman ákveðinn grunn að sögusviði sagnanna og persónusköpun þeirra og fullunnu síðan sex gamansamar sögur um kappann og félaga hans. Þeim gekk hins vegar illa að finna útgefendur fyrir seríuna. Þeir fóru meira að segja til Bandaríkjanna, þar sem þeir dvöldu í nokkra mánuði, til að reyna að koma þessum myndasögum á framfæri en ekkert gekk. Að lokum var þeirri vinnu allri því hreinlega stungið ofan í skúffu og þeir Goscinny og Uderzo sneru sér aftur að öðrum mikilvægari verkefnum.
Snemma á árinu 1958 hafði André Fernez, þáverandi ritstjóri Tinna tímaritsins (Le Journal de Tintin), síðan samband við Goscinny og óskar eftir því að hann legði til handrit að sögum sem Uderzo yrði fenginn til að teikna. Þeir félagar notuðu þá tækifærið og drógu fram myndasögurnar um Oumpah-Pah, sem legið höfðu í gleymsku í nokkur ár, og fyrsta sagan Oumpah-pah le Peau-Rouge hóf að birtast, með svolítið breyttu sniði, í páskablaði Le Journal de Tintin þann 2. apríl árið 1958.
Í upphaflegu útgáfunni hafði indjánastrákurinn Oumpah-Pah tilheyrt Pied Plat ættbálknum, ásamt foreldrum sínum, sem bjó í grennd við nútíma siðmenningu 6. áratugarins en í nýju endurbættu útgáfunni gerast sögurnar hins vegar á 18. öldinni, á nýlendum Frakka í Norður Ameríku (Kanada), þar sem þorp þeirra tilheyrir Shavashava ættbálknum. Að öðru leyti voru þetta í grunninn alveg sömu sögurnar. Myndasögurnar um Oumpah-Pah nutu svolitla vinsælda hjá lesendum Le Journal de Tintin og á næstu þremur árum birtust fimm af sögunum sex í blaðinu en hver þeirra var um 30 blaðsíður að lengd. Þeir Goscinny og Uderzo höfðu hins vegar einnig haft önnur verkefni á prjónunum og meðal þeirra var ný sería sem átti heldur betur eftir að slá í gegn. Fyrsta Ástríks sagan, Astérix le Gaulois (Ástríkur Gallvaski),  leit dagsins ljós í fyrsta tölublaði Pilot myndasögutímaritsins þann 29. október árið 1959 en þeir Goscinny og Uderzo höfðu einnig báðir komið að stofnun þess blaðs. Þegar fimmtu sögunni með Oumpa-Pa lauk, í Le Journal de Tintin í júní árið 1962, var einmitt í gangi skoðanakönnun á meðal lesenda blaðsins þar sem þeim gafst kostur á að hafa áhrif á hvaða tíu vinsælustu seríur tímaritsins fengju áframhaldandi birtingu í blaðinu. Myndasögurnar um Oumpah-Pah lentu í ellefta sætinu og það voru því töluverð vonbrigði fyrir þá Goscinny og Uderzo að fá ekki tækifæri til að gera fleiri sögur fyrir blaðið. Líklega voru þó verkefni þeirra við Pilot blaðið, auk vaxandi vinsældir sagnanna um Ástrík, yfirdrifin nóg og með auknu álagi helguðu þeir sig með tímanum alfarið þeim myndasögum. Með þeirri tilhögun tóku þeir þá ákvörðun að leggja Oumpah-Pah endanlega til hliðar og sögurnar urðu því ekki fleiri.
En þessar fimm fyrstu sögur Goscinny og Uderzo um Oumpah-Pah voru síðan gefnar út í bókaformi, eftir að hafa birst í Le Journal de Tintin, hjá Dargaud útgáfunni í Frakklandi og Le Lombard í Belgíu en síðarnefnda bókaforlagið annaðist útgáfu á mestu af því efni sem birtist í tímaritinu á þessum tíma. Sögurnar fimm, sem samtals voru um hundrað og fimmtíu blaðsíður að lengd, voru gefnar út í þremur bókum en bækurnar þrjár voru eftirfarandi:
  1. Oumpah-Pah le Peau-Rouge ásamt sögunni Oumpah-Pah sur le sentier de la querre - 1961
  2. Oumpah-Pah et les Pirates ásamt sögunni Mission secréte - 1962
  3. Oumpah-Pah contre Foie-Malade - 1967
Það kom SVEPPAGREIFANUM töluvert á óvart, við vinnslu færslunnar, þegar hann uppgötvaði að bækurnar um indjánann Oumpa-Pa hefðu í raun ekki verið fleiri. Einhvern veginn hefði honum fundist miklu eðlilegra að þær væru orðnar í það minnsta fimmtán til tuttugu talsins og væru jafnvel ennþá að koma út. Líklega má þar kenna um mismunandi útgáfur bókakápa seríunnar í Faraos Cigarer á sínum tíma. Alls hafa bækurnar þrjár nefnilega verið gefnar út þrisvar sinnum á dönsku og með átta mismunandi bókakápum en sá hringlandaháttur er óþarflega hvimleiður.
Sögurnar fimm hafa auðvitað verið endurútgefnar nokkrum sinnum aftur í gegnum tíðina á frönsku og þá ýmist í sama þriggja bóka forminu, allar í sitt hvorri bókinni eða jafnvel allar saman í einu safnhefti. Á síðasta ári var til dæmis gefin út vegleg afmælisútgáfa af sögunum, í tilefni af 60 ára afmæli seríunnar, þar sem finna mátti allar sögurnar fimm í einu riti auk nokkurs aukaefnis. Þar á meðal var átta blaðsíðna byrjun á sögu um Oumpah-Pah sem aldrei hafði áður komið fyrir sjónir lesenda og sextán blaðsíður af ýmsum upprunalegum teikningum og skjölum úr fórum þeirra Goscinny og Uderzo. Auk þess rits var einnig gefin út sérstök viðhafnarútgáfa af sömu bók með 250 tölusettum eintökum, á 150 evrur stykkið, ef einhver hefði áhuga á því. En teiknimyndasögurnar um Oumpah-Pah hafa alls verið gefnar út í þrettán löndum og meðal tungumálanna má nefna ensku, þýsku og auðvitað dönsku eins og áður hefur verið nefnt. Raunar komu þær út á öllum Norðurlöndunum, á sínum tíma, nema á íslensku og sænsku. Vegna tenginga þessara sagna við Ástríks bækurnar hafa þær oft verið nefndar sem einhvers konar frumgerð eða forveri Ástríks og Oumpah-Pah sjálfur hefur jafnvel stundum verið kallaður stóri bróðir hans. Í sögunum um Ástrík má finna margar vísanir að hugmyndum sem koma beint úr Oumpah-Pah.
En þessi sería fjallar sem sagt um hinn unga og hugrakka indjána Oumpah-Pah sem hugsanlega yrði íslenskað sem Úmpa-Pa ef svo ólíklega vildi til að bækurnar yrðu einhvern tímann gefnar út hér á landi. Hann heitir einmitt Umpa-pa á dönsku, Ompa-Pa á norsku og Umpah-pah á finnsku. Oumpah-Pah tilheyrir, eins og áður hefur verið vikið að, ættbálki indjána sem nefnist Shavashava og hefst við einhvers staðar í Norður Ameríku nálægt ströndinni þar sem nýlenduveldi frá Evrópu (væntanlega þá Frakkar) reynir að sölsu undir sig lönd hinna innfæddu frumbyggja. Oumpah-Pah er stór, sterkur og snöggur og elskar að borða Pemmican en það ku víst vera einhvers konar fitu- og próteinrík buffklessa, unnin úr hverju því kjöti sem í boði var hjá frumbyggjum Norður Ameríku, berjum og fleiru. Oumpah-Pah er heiðarleg, hugrökk og áreiðanleg hetja, mjög sambærilegur við það sem Ástríkur varð síðar þekktur fyrir. Hann er eldfljótur að nota boga, getur jafnvel skotið með honum nánast blindandi og er mesta stríðshetja ættbálksins. Í fyrstu sögunni um Oumpa-Pa kemur til sögunnar virðulegur franskur herforingi Hubert de la Pâte Feuilletée (sem yrði þá væntanlega bara kallaður Húbert á íslensku) en hann tilheyrir í fyrstu hópi hinna hrokafullu, evrópskru landnema sem taka land á slóðum Shavashava. Oumpah-Pah ræðst á hann og tekur til fanga en eftir að ættbálkurinn hefur haft hann í haldi um tíma vingast þeir félagar, ganga í fóstbræðralag og Húbert gengur alfarið til liðs við indjánana.
Húbert gerist því bandamaður þeirra og tekur að sér mikilvægt sáttasemjarahlutverk milli evrópsku landnemanna og hinna innfæddu frumbyggja. Þó þeir Oumpa-Pa nái vel saman er Húbert ekki mjög hugrakkur og Oumpa-Pa sjálfur á einnig í nokkrum vandræðum með að venjast framandi venjum og siðum innrásaaðilanna. Ekki síst þegar hann tekst á við ferðalag með Húbert til Evrópu. Og líkt og í bókunum um Ástrík má í sögunum, um Oumpah-Pah, einnig finna hóp hugrakkra meðferðasveina sem hafa það hlutverk að fylgja aðalsöguhetjunum eftir. Þarna má finna aukapersónur sem vinna að hefðbundnum indjánastörfum en á meðal þeirra má til dæmis finna töfralækninn Y-Pleuh, sem á afskaplega auðvelt með að klúðra regndansinum. Og svo má auðvitað ekki gleyma hinum venjubundnu indánanöfnum sem við þekkum svo vel úr Lukku Láka bókunum en eins og allir vita þá kom Goscinny sjálfur að handritum stórum hluta þeirra sagna. Hinn friðelskandi indjánahöfðingi ættbálksins nefnist Gros Bison (Feiti Buffali) en hann á þó sjálfur í mesta stríðinu við eiginkonu sína. Það mun vera á sambærilegan hátt og til dæmis Aðalríkur Allsgáði höfðingi Gaulverja í Ástríks bókunum. Og svo má nefna tvo aðila sem líklega bera lengstu nöfn belgísk/frönsku myndasagnanna. Þar er um að ræða elsta indjána ættbálksins sem ber í fyrstu nafnið N’A-Qu’Une-Dent (Bara-ein-tönn) en nafn hans breytist síðar í, N’A-Qu’Une-Dent-Mais-Elle-Est-Tombée-Alors-Maintenant-N’En-A-Plus (Bara-ein-tönn-sem-er-nú-farin-og-kemur-ekki-aftur) af augljósum ástæðum. Hinn aðilinn er hins vegar prússneskur riddari að nafni Franz Katzenblummerswishundwagenplaftembomm og SVEPPAGREIFINN ætlar ekkert að vera að hafa fyrir því að reyna að þýða það neitt sérstaklega. En Goscinny sjálfur var hins vegar alltaf stoltur yfir því að geta sagt nafn hans í einni lotu án þess að fipast.
Sögurnar eru töluvert í anda Ástríks bókanna og þá sérstaklega hvað húmor og léttleika þeirra varðar en heilmikla samsvörun má finna með þessum tveimur seríunum ef að er gáð. Tvíeykið Úmpa-Pa og Húbert eru alveg á pari við þá Ástrík og Steinrík hvað hetjuskap varðar en reyndar eru þau líklega frekar ólík á annan hátt. Hvorugur þeirra fyrrnefndu hafa til dæmis yfir að ráða gáfnafari Steinríks og hinir síðarnefndu þurfa hvorugur að díla við hugleysi Húberts. Óvinunum er einnig stillt upp á svipaðan hátt í seríunum þar sem þeir hyggja á landvinninga hjá aðalsöguhetjunum með yfirgangi og frekju. Og þá hafa hinir evrópsku landnemar (úr Oumpah-Pah) og svo rómverjarnir (úr Ástrík) yfir svipuðum vitsmunum að ráða og hræðast hugkænsku og afl heimamanna. Í seinni tíð hafa margir myndasögusérfræðingar því bent á hve þessar seríur eru í rauninni líkar og tilviljun ein hafi ráðið því að Ástríkur sló í gegn á sínum tíma en Oumpah-Pah ekki. Miðað við gæði hinna síðarnefndu hefði það allt eins getað orðið öfugt. Oumpah-Pah sögurnar virðast því enn vera svolítið falinn fjársjóður sem fólk er þó aðeins að byrja að uppgötva.
En í lok þessarar hroðvirkislega unnu færslu má einnig geta þess að Oumpah-Pah kemur, eitt augnablik, fyrir í teiknimyndinni Les Douze travaux d'Astérix (Ástríkur og þrautirnar 12) frá árinu 1976 þrátt fyrir að tímalega gangi það alls ekki upp. Sögurnar um Ástrík gerast á tímum Rómverja um árið 50 fyrir Krist en sögurnar um Oumpah-Pah gerast á 18. öldinni.

11. október 2019

132. HÓTEL CORNAVIN

SVEPPAGREIFINN var á faraldsfæti í Sviss í ágúst síðastliðnum, eins og þegar hefur komið fram hér á Hrakförum og heimskupörum, og varð sér úti um fáeinar myndasögur eins og einnig hefur komið fram. Að þessu sinni breytti fjölskyldan frá hinni áralangu venju sinni að fljúga til svissnesku borgarinnar Basel og í staðinn varð hin sögufræga Genf (þar sem 18% íbúanna eru milljarðamæringar!) fyrir valinu. Sá áfangastaður var öllu hentugri en Basel, með tilliti til áframhaldandi flakks, en borgin er tiltölulega nálægt landamærunum að Ítalíu þar sem einnig var ætlunin að eyða nokkrum notalegum dögun. Hins vegar rak SVEPPAGREIFINN sig illilega á eitt, við undirbúning frísins, varðandi viðveru fjölskyldunnar í Genf. Hann hreinlega gleymdi að huga að og taka tillit til þekktrar Tinna tengingar borgarinnar í aðdraganda ferðalagsins. Kortér í frí mundi hann nefnilega eftir hinu nafntogaða Cornavin hóteli í Genf en það hótel kemur töluvert við sögu í Tinna bókinni Leynivopninu (L'Affaire Tournesol - 1956) eins og allir muna auðvitað eftir. En þá var það auðvitað orðið allt of seint. Fjölskyldan var fyrir löngu búin að bóka gistingu steinsnar frá Hótel Cornavin (um 70 metrum frá) en þegar loksins var stokkið til og að var gáð kom auðvitað í ljós að bókstaflega ekkert var laust á hótelinu enda mikil hátíðarhöld í borginni alla þá helgi og með stærstu flugeldasýningu Evrópu yfirvofandi. Greifynjan hundskammaði auðvitað kallinn sinn fyrir vanræksluna og athugunarleysið en í sárabætur var þó aðeins staldrað við á götuhorninu við hótelið, drukkið í sig anda Leynivopnsins frá 6. áratug síðustu aldar og auðvitað teknar fáeinar myndir. SVEPPAGREIFINN komst þá að því að hann var ekki sá eini sem var í slíkum hugleiðingum á þessum merka stað. En næst þegar hann á leið um Genf verður klárlega gist á Hótel Cornavin.
Það sem bjargaði hins vegar dvölinni í Genf að einhverju leyti var að á hótelinu, þar sem fjölskyldan gisti í staðinn, var verið að sýna dúológíuna um tunglferð Tinna á einhverri sjónvarpsstöðinni á frönsku. En úr því að SVEPPAGREIFANUM tókst að klúðra þeim möguleika (að minnsta kosti að sinni) að gista á hinu sögufræga Cornavin hóteli þá er kannski ekki úr vegi að fjalla bara aðeins um hótelið í staðinn. Sem var auðvitað löngu orðið tímabært. Eins og áður segir kemur Cornavin hótelið fyrir í Tinna bókinni Leynivopninu og leikur þar bara nokkuð stórt hlutverk. Forsöguna að því má rekja til þess að snemma í sögunni leggur Vandráður prófessor leið sína á alþjóðaráðstefnu eðlisfræðinga í Genf í Sviss og fljótlega verða þeir Tinni og Kolbeinn þess áskynja að líklega gæti hann verið í einhverjum vandræðum þar. Þeir komast að því að prófessorinn dvelji að öllum líkindum á Cornavin hótelinu í Genf og drífa sig því samstundis til Sviss til að huga að honum og koma til aðstoðar. Það þarf svo sem ekkert að kryfja söguþráðinn neitt mikið nánar en hann þekkja auðvitað allir aðdáendur Tinna bókanna.
En Cornavin hótelið er rétt til hliðar við aðallestarstöðina í Genf (sem heitir einmitt Cornavin lestarstöðin) og var tekið í notkum í febrúar mánuði árið 1932. Á blaðsíðu 19 í bókinni má sjá hvar þeir Tinni og Kolbeinn hlaupa frá hótelinu og að lestarstöðinni við hliðina til að ná lestinni til Nyon en rétt missa af henni. Innra útlit lestarstöðvarinnar er þó ekki rétt í bókinni heldur studdist Hergé við myndir af sambærilegri lestarstöð í borginni Lausanne sem er reyndar ekki mjög langt frá. En það er gaman að segja frá því að á nokkrum af þessum sömu vettvöngum eða sviðsmyndum Leynivopnsins var SVEPPAGREIFINN og fjölskyldan hans einmitt líka á ferðinni. Þau lentu á flugvelli borgarinnar (Genève-Cointrin) eins og þeir Tinni og Kolbeinn og tóku lestina, daginn eftir, frá sömu lestarstöð en fóru reyndar ekki til Nyon heldur til borgarinnar Brig.
Cornavin hótelið er fjögurra stjörnu, á níu hæðum og með 164 herbergjum en í dag er það einmitt þekktast fyrir það eitt að hafa komið fyrir í bókinni um Leynivopnið. Hergé (Georges Rémi) hafði töluvert mikið dálæti á Sviss og þangað leitaði hann oft, sérstaklega í seinni tíð, til að hvíla sig og hlaða batteríin þegar álagið var orðið of mikið. Hann glímdi á löngum köflum við þunglyndi og þá lét hann sig stundum hverfa til Sviss en þar þekkti hann enginn í sjón. Hergé kom fyrst til landsins með skátahópi aðeins fimmtán ára gamall en seinna dvaldi hann þar löngum stundum við fjallgöngur í frönsku- og ítölskumælandi hlutum þess. Sviss hafði því mikil áhrif á Hergé og dvöl hans í hinum stórfenglegu umhverfi Alpanna er talin hafa orðið honum innblástur að mörgu efni seinna meir. Þannig viðurkenndi Hergé til dæmis eitt sinn að hin kómíska fyrirmynd að prófessor Vandráði hafi verið byggð á svissneska vísindamanninum Auguste Piccard sem kunnur var bæði af neðansjávar- og geimrannsóknum sínum. Piccard hafði starfað um tíma sem prófessor í Brussel og þar varð hann oft á vegi Hergés. Svissneskir afkomendur prófessor Auguste Piccard hafa alla tíð verið mjög stoltir af þessari tengingu forföður síns við Tinna bækurnar.
Þegar Hergé hóf vinnu sína að Leynivopninu hafði hann einmitt tiltölulega nýverið tekið sér langt frí frá störfum vegna veikinda sinna. Hann hafði dvalið langdvölum hjá fjölskyldu einni sem bjó í námunda við Genfarvatnið (Lac Léman) og í þakklætisskyni er talið að hann hafi ákveðið að láta stóran hluta sögunnar gerast í Sviss. Sögurnar sem hann gerði á þessum árum eru, af nokkuð mörgum, taldar vera gerðar á hápunkti ferils hans og þær Tinna bækur á meðal þeirra allra bestu. Að mati SVEPPAGREIFANS er bókin til dæmis á meðal þriggja til fjögurra bestu eða uppáhalds Tinna bóka hans. En af hverju Hergé valdi einmitt þetta hótel, sem viðkomustað söguhetjanna, er ástæðan líklegast sú að Cornavin hentaði einmitt svo vel vegna nálægðar þess við lestarstöðina.
Eins og áður segir hefur Cornavin hótelið hlotið sína frægð einmitt fyrir tilurð sína í Leynivopninu og rekstraraðilar þess hafa margoft bent á og þakkað Hergé fyrir þá staðreynd. Hótelið hefur því í seinni tíð orðið að viðkomustað margra aðdáenda Tinna bókanna og þeir hafa verið duglegir við að koma þar við, í nokkurs konar pílagrímsferðir, til að gista þar eins og eina nótt. Hótel Cornavin er því oft nefnt Tinna hótelið af aðdáendum bókanna og er fyrir vikið heldur í dýrari kantinum. En það eru reyndar flest hótel í Genf. Niðri við anddyrið er einmitt stór stytta af Tinna (og Tobba) í fullri líkamsstærð, inni í stórum glerskáp, þar sem hann stendur vörð um gesti hótelsins þegar þeir ganga inn um snúningsdyrnar frægu. En á heimasíðu hótelsins er gestum þess reyndar ráðlagt að reyna ekki að leika eftir ferð Kolbeins kafteins í gegnum hurðina.
Herbergi prófessors Vandráðs í bókinni var númer 122 og uppi á fjórðu hæð en í rauninni var það herbergi þó aldrei til á þeirri hæð. Þetta fræga herbergi var þó útbúið seinna til að fullnægja þörfum aðdáenda Tinna bókanna sem óska einmitt oft sérstaklega eftir því að fá að dveljast í því. Margir verða þó fyrir vonbrigðum. Hótelið sjálft hefur reyndar lítið breyst að útliti frá því á sjötta áratug 20. aldarinnar en herbergi númer 122 hefur nú verið endurnýjað og í dag er þar ekkert að finna sem tengir gesti þess við Tinna bækurnar. Á einhverjum tímapunkti hér áður fyrr var það þó innréttað með bókina um Leynivopnið í huga. Engu að síður eru gestir herbergisins iðnir við að finna sér minjagripi tengdu því og eru til dæmis grunsamlega duglegir við að gleyma að afhenda aftur lyklana að herberginu þegar þeir skila því af sér.
En best að láta þennan fánýta fróðleik um Cornavin hótelið duga að sinni.

4. október 2019

131. STÓRA KJALAMÁLIÐ

SVEPPAGREIFINN á það til að koma sér makindalega fyrir, halla sér aftur og dást að myndasöguhillunum sínum sem staðsettar eru í hjarta heimilisins. Hmmm... og á móti verður reyndar að taka það fram að hjarta heimilisins er að sjálfsögðu þar sem myndasögurnar hans eru geymdar. Hann leggur nokkra áherslu á að teiknimyndasögurnar úr íslensku útgáfunum séu ekki bara tæmandi af listanum heldur einnig í sem bestu ásigkomulagi. Líklega kannast flest myndasöguáhugafólk við sambærilegar hugleiðingar. Þannig er það ekki bara markmið SVEPPAGREIFANS að eignast sem mest af þeim útgáfum sem gefnar hafa verið út hérlendis heldur hefur hann einnig lagt áherslu á að skipta út slitnum eða illa förnum eintökum. Það er nefnilega alltaf skemmtilegra að eiga fallegri eintök af myndasögunum og svo líta þær auðvitað miklu betur út i hillunum. Eitt er það þó sem truflar SVEPPAGREIFANN heldur meira. Þessir titlar, sem verið var að gefa út á íslensku á sínum tíma, komu auðvitað úr nokkuð mörgum bókaflokkum og sjaldnast var þar um tæmandi lista að ræða. Það er að segja, í flestum tilfellum voru gefnar út aðeins nokkrar bækur (oft aðeins þrjár til tíu bækur) og SVEPPAGREIFINN minnist í raun aðeins að í seríunni um Tinna hafi allar bækurnar verið gefnar út. En það sem SVEPPAGREIFINN er að reyna að æla út úr sér, með þessum hugleiðingum, er hinn hvimleiði hringlandaháttur með stærð myndasagnanna. Í dag skal því tekið svolítið á hinu brýna kjalamáli íslensku myndasagnanna.
Ef Lukku Láka bækurnar eru teknar sem dæmi þá er heildarmynd þeirra myndasagna afskaplega falleg á að líta en þó reyndar með einni stórri undantekningu. Kvikmyndabókin Þjóðráð Lukku Láka er algjörlega fáránleg í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS þar sem hún stendur langt upp (og út) fyrir hinar bækurnar í seríunni. Þessi bók er númer 15 í íslensku útgáfuseríunni og er staðsett mitt á milli bókanna Ríkisbubbann Rattata og Allt um Lukku Láka en hún passar engan veginn þarna inn í heildarmyndina. Það væri náttúrulega hægt að finna henni annan stað, til hliðar öðru hvoru megin við hinar bækurnar í seríunni, en auðvitað vill SVEPPAGREIFINN, með fullkomnunaráráttuna sína, hafa helvítis bókina á réttum stað í röðinni.
Bækurnar um Sval og Val er annað gott dæmi. Alls voru Sval og Val bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma 29 talsins og fyrstu 24 bækurnar litu reyndar nokkuð vel út í myndasöguhillunum. Hvítur kjölurinn var tiltölulega jafn og fallegur, með sama svarta letrinu og heildarmyndin var að mestu óaðfinnanleg á að líta. Reyndar eru flestar Móra bækurnar (bók númer 15) einhverra hluta vegna um þremur millimetrum lægri en hinar og hvítur kjölurinn örlítið gulleitari. Upplitaðan litamuninn á þeirri bók má þó líklega dæma á tímann og hugsanlega aðra prentsmiðju en þetta útlitslýti Móra virðist vera viðvarandi á þeim eintökum. Þegar 25. sagan úr Sval og Val seríunni (Svalur í New York) kom út á íslensku árið 1988 brá hins vegar við að stærð bókarinnar var allt í einu orðinn um sjö, átta millimetrum hærri en lesendur seríunnar áttu að venjast. Næsta saga (Með hjartað í buxunum), sem gefin var út árið eftir, var hins vegar komin í venjulega hæð aftur en bók númer 27 (Dalur útlaganna - 1990) og afgangurinn af þeim bókum sem Iðunn sendi frá sér úr seríunni voru hins vegar allar í hinni stærðinni. Þessi hringlandaháttur gerir það að verkum að kilir seríunnar líta ansi ankaralega (hvers konar orð er þetta eiginlega?) út í bókahillunum.
Til gamans má einnig minnast á, svona í framhjáhlaupi, prentvillu á kili einnar Sval og Val bókarinnar og reyndar er þessi villa einnig framan á kápu hennar. Þegar sagan Í klandri hjá kúrekum kom út var hún sögð bók númer 21 í íslensku seríunni en í rauninni var það bókin Tímavillti prófessorinn sem bar þetta númer í útgáfuröðinni. Báðar þessar bækur komu út hjá Iðunni árið 1986. Í klandri hjá kúrekum á því að vera númer 22 en engin bókanna ber það númer þó á kili sínum. En nefna má fleiri myndasöguseríur, sem komu út á íslensku, þar sem bækurnar eru í mismunandi stærðarútfærslum. Og eins undarlega og það hljómar má í flestum tilfellum einhverra hluta vegna tengja þær við bókaútgáfuna Iðunni. Það forlag var því undarlega rótlaust í sínum bókastærðum. Myndasögurnar um Viggó viðutan eru dæmi um það. Alls sendi Iðunn frá sér 12 bækur úr þessari frábæru seríu og auðvitað var ekki hægt að hafa þær allar í sömu stærð. Ellefta bókin, Kúnstir og klækjabrögð, sker sig þar úr og teygir sig töluvert upp fyrir hinar bækurnar. Þess utan eru heiti seríunnar og titlar á víð og dreif um kjölinn og lítið sem ekkert samræmi þar á ferðinni.
Frágangur þeirra Viggó bóka sem Froskur útgáfa hefur verið að senda frá sér á undanförnum árum er hins vegar til mikillar fyrirmyndar og það á einnig við um bækurnar um Sval og Val. En bókaútgáfan Iðunn sendi líka frá sér fyrstu fimm myndasögurnar úr Goðheima seríunni á árunum 1979 - 89 og þar litu fyrstu þrjár bækurnar bara nokkuð vel út. Þegar fjórða bókin, Sagan um Kark, kom út var hún hins vegar töluvert hærri en hinar þrjár og gnæfði því yfir þær. Nú er SVEPPAGREIFINN reyndar ekki svo vel búinn að eiga fimmtu bókina (Förin til útgarða-Loka) úr þessari 1. útgáfu af Goðheima bókunum og getur því ekki nöldrað um hvort hún sé einnig í sömu stærð. En 2. útgáfa seríunnar, sem Iðunn/Forlagið hefur verið að endurútgefa á undanförnum árum, er hins vegar algjörlega til fyrirmyndar og þar eru fyrstu átta sögurnar allar jafnháar. 
En sá bókaflokkur sem verður hvað verst úti í stóra kjalamálinu eru klárlega sögurnar um þá félaga Samma og Kobba. Útgáfa þeirra bóka var reyndar svolítið í lausari kantinum og væntanlega má skýringu kjalavandamála þeirra sagna að einhverju leyti rekja til þess. Fyrstu tvær sögurnar í íslensku útgáfunni, Harðjaxlar í hættuför og Svall í landhelgi komu út hjá Iðunni haustið 1981 og þær bækur voru jafn háar. Næsta bók, Frost á Fróni, kom út ári seinna og hún var um hálfum sentimetra hærri en fjórða bókin Aldraðir æringjar (1983) var um þremur millimetrum hærri en sú þriðja. Síðan liðu þrjú ár áður en næstu bækur, Í bófahasar og Allt í pati í Páfagarði, komu út en á þeim sögum höfðu kilirnir enn hækkað og nú um heilan sentimetra. Síðustu þrjár Samma bækurnar, sem komu út á íslensku, voru síðan á svipuðum nótum en í heildina mátti finna fjórar mismunandi stærðir á þessum tíu myndasögum. Það munar því næstum því tveimur sentimetrum á hæð fyrstu bókanna, í íslensku seríunni, og svo þeirra síðustu.
Ef fleiri seríur eru kallaðar til má til dæmis nefna hinar þrjár sögur bókaútgáfunnar Fjölva um Sögu Blástakks liðþjálfa. Fyrstu tvær bækur útgáfunnar, Á slóð Navajóa og Týndi riddarinn, voru jafnstórar en þriðja sagan, Stúlkan í Mexíkó, var hins vegar nokkuð stærri. Og svo er ekki mjög langt síðan SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um Ástríks bækurnar hér á síðunni og minntist á þeim vettvangi á eina bók úr þeirri seríu. Þar kom einmitt fram að bókin Ástríkur og þrætugjá (þjóðfélagsins) væri um fimm millimetrum lægri en aðrar bækur í bókaflokknum og væri þar af leiðandi ekki í flútti við hinar Ástríks bækurnar. En það er alla vega gott að SVEPPAGREIFINN er loksins búinn að koma frá sér og kryfja til mergjar hið brýna kjalamál sem þó ætti eiginlega frekar að kallast stóra bókastærðarmálið. Af mörgum ómerkilegum færslum SVEPPAGREIFANS má sennilega fullyrða þessi sé sú allra innihaldslausasta og versta. Það þarf ekki nema að skoða myndaval færslunnar til að fá það staðfest.