28. desember 2018

91. JÓLATENGING VIÐ VILLTA VESTRIÐ

Það eru víst ennþá jól og af því tilefni ætlar SVEPPAGREIFINN að láta færslu vikunnar snúast um smá jólaþema sem tengist sögunum um Lukku Láka. Hér er um að ræða tvær litlar hálfsíðusögur (eða öllu heldur brandarar) sem birtust í 12 blaðsíðna hefti sem nefndist Les héros de l'Oues og tilheyrir ekki hinum opinbera Lukku Láka bókaflokki. Þetta hefti, sem er í broti í fullri stærð, hefur að geyma 20 sambærilegar sögur sem fjalla reyndar flestar um Rattata og ýmis heimskupör hans en Lukku Láki sjálfur er þó sjaldan langt undan.
Reyndar er lítið um upplýsingar að finna um þessa bók en þó virðist sem að hún hafi verið í boði um tíma sem einhver fylgihlutur með máltíðum frá hamborgarastöðum McDonalds í Frakklandi og Belgíu. Líklega sambærilegt litlu bókinni La Bataille du riz sem franska olíufélagið Total dreifði frítt til viðskiptavina bensínstöðva sinna og bókin Á léttum fótum - Spes tilboð er byggð á. SVEPPAGREIFINN hefur fjallað aðeins um þá bók. En heftið Les héros de l'Oues var gefið út árið 2003 og þeir Morris og Vittorio Leonardo eru skráðir sem höfundar þess. Efni hennar er þó líklega eitthvað eldra því Morris lést árið 2001. Sem fyrr segir ætlar SVEPPAGREIFINN að birta hér tvo litla brandara úr þessu hefti. Fyrri brandarinn segir frá jólahaldi þeirra Daltón bræðra og Mömmu Döggu en þar fær Rattati úthlutað nýju hlutverki í kjölfar átaka við kisu Mömmu Döggu, Dúllu.
Hinn brandarinn segir líka frá jólahaldi í villta vestrinu og þar kemur Rattati einnig við sögu þó hann sé reyndar steinsofandi á báðum myndarömmum brandarans.
SVEPPAGREIFINN leyfði sér í enn eitt skiptið að draga fram frönskuhæfileika sína (sem er reyndar haugalygi því hann naut dyggrar aðstoðar síns heitt elskaða betri helmings við verknaðinn) við þýðingarnar en leyfði að öðru leyti skáldaleyfi sínu að njóta sín. Vonandi verður honum fyrirgefið það.

14. desember 2018

89. JÓLI LITLI Í SVEPPABORG

Nú styttist til jóla og SVEPPAGREIFINN reynir því að hengja myndasögufærslu vikunnar við eitthvað sem tengist þeim notalega árstíma. Efnið að þessu sinni er svona aðeins til hliðar við það sem Hrakfarir og heimskupör ganga að mestu út á en þó ekki. Í jólablaði belgísk/franska teiknimyndatímaritsins SPIROU (númer 1027), sem kom út þann 19. desember árið 1957, birtist stutt tveggja síðna jólasaga, La bûche de Noël, sem fjallaði um ungan strák er nefndist einfaldlega Le Petit Noël. Noël þýðir auðvitað jól á frönsku en er einnig til sem skírnarnafn og nafn stráksins er því eins konar orðaleikur tengdur efni (jóla)sögunnar. Á íslensku myndi hann líklega kallast Litli Jóli eða Jóli litli en það voru þeir félagar André Franquin og Jidéhem sem áttu heiðurinn að þessari stuttu sögu. Jólasöguna má sjá í lok færslunnar en hér má sjá jólablað SPIROU, árið 1957, sem hún birtist fyrst í.
Jóli litli varð þó ekki að fastri sögupersónu í SPIROU tímaritinu til að byrja með heldur birtist hann aðeins öðru hvoru í blaðinu og þá oftast við hátíðlegri tilefni í kringum jólablöð tímaritsins. Alls teiknaði Franquin fjórar jólasögur um Jóla litla en í seinni sögunum kom Will að handritsgerðinni í stað Jidéhem. Þessar fjórar jólasögur birtust allar í SPIROU á næstu árum og heita La bûche de Noël (nr. 1027 - 1957), Les étranges amis de Noël (nr. 1078 - 1958), Noël et l'Elaoin (nr. 1131 - 1959) og  Joyeuses paques hella mon p'tit Noël (nr. 1354 - 1964). Reyndar voru fleiri sögur gerðar um Jóla litla og samansafn af þeim hafa verið gefnar út í bókaformi en rauði þráðurinn í gegnum þær sögur snúast um lítið vélmenni sem Jóli litli kynntist í sögunni Noël et l'Elaoin.
En Jóli litli, sem er mikill dýravinur, er feiminn, einmana og óhamingjusamur drengur sem á enga vini. Hann er óheppinn, verður fyrir stríðni frá öðrum krökkum og auk þess eiga kennararnir hans í skólanum það jafnvel til að leggja hann í einelti. Foreldrar Jóla litla eru frekar fátæk og þegar jólahátíðin nálgast þá hellist yfir hann einmanaleiki og sorg enda hafa foreldrar hans ekki efni á að kaupa handa honum jólagjafir. Jóli litli þraukar þó í gegnum hver jólin á eftir öðrum en það getur hann þakkað vinskap sinn við Gorm sem hann kynntist í fyrstu sögunni.
Þökk sé Gormi varð Jóli litli síðar að einhvers konar hliðarpersónu meðfram ævintýrum þeirra Svals og Vals (og þá væntanlega einnig með Viggó viðutan) enda býr hann í Sveppaborg. Það skýrir einnig flakkið á Gormi sem dvelur langdvölum í garði Sveppagreifans við kastalann en sem dæmi þá birtist til dæmis borgarstjórinn í Sveppaborg einnig í sögunum um Jóla litla. Þannig má til dæmis líka sjá Jóla litla bregða fyrir í heimabæ sínum sem aukapersónu í tveimur bókum með Sval og Val. Í sögunni um Fangann í styttunni (1960) leikur hann stórt hlutverk í byrjun bókarinnar þar sem hann er að sendast fyrir borgarstjórann en líklega hefur þýðandinn, Jón Gunnarsson, ekkert verið að velta fyrir sér að Jóli litli léki stærra hlutverk í annarri seríu og nefnir hann því einfaldlega bara Sigga.
Svipaða sögu má segja um þýðingar bókarinnar á öðrum tungumálum því að á þýsku nefnist hann til dæmis Nicki. Í aukabók um Gorminn, sem SVEPPAGREIFINN á, má finna samansafn af stuttum sögum eftir Franquin sem birtust í SPIROU tímaritinu og hafa ekki endilega fylgt neinum Sval og Val bókum. Bók þessi er á dönsku en Jóli litli kemur fyrir í nokkrum þeirra sagna og kallast þar til dæmis Julius.

Hin Sval og Val bókin sem Jóli litli birtist lítillega í er Svaðilför til Sveppaborgar (1968). Þar er hann einfaldlega á röltinu í Sveppaborg, sparkandi í niðursuðudós, á gangstéttinni á meðan Valur hleypur inn í bókabúð þorpsins til að kaupa Sveitablaðið
En jólaþemað sem átti að einkenna þessa færslu snýst sem sagt um söguna La bûche de Noël frá árinu 1957. Og til að koma jólasögunni til skila tók SVEPPAGREIFINN sér það bessaleyfi að rifja upp gamla og ryðgaða "dönskuhæfileika" sína úr Splint & co. special bókinni Spirellen sem Interpresse gaf út árið 1981. Það tókst reyndar ekki skammlaust og vonandi fyrirgefur Guðný dönskukennari SVEPPAGREIFANUM þau ófáu skáldaleyfi sem einkenna þýðingu hans. Og vonandi fyrirgefa líka lesendur (og rétthafi sögunnar á Íslandi) SVEPPAGREIFANUM þá þörf að stelast til að setja hana hér inn. En svona birtist La bûche de Noël fyrst og það má auðveldlega tengja anda og blæ sögunnar við allt það sem Franquin var að gera um Sval og Val á þessum árum.

7. desember 2018

88. FRÆGUR TINNA KASTALI

Árið 1994 las SVEPPAGREIFINN litla klausu í Morgunblaðinu undir hinum aldargamla lið slúðurfrétta Fólk í fréttum. Þarna var um að ræða örlitla grein sem fjallaði um heimsókn George Rémi eða Hergé til þorpsins Céroux-Mousty í Belgíu og eins fáránlega og það hljómar þá mundi SVEPPAGREIFINN enn eftir þessari litlu klausu núna næstum 25 árum seinna. Hann gróf því upp greinina á hinum yndislega vef tímarit.is og ákvað að þessu sinni að nota tækifærið til að velta sér aðeins upp úr innihaldi hennar
En efni klausunnar, sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. október árið 1994, var nákvæmlega á þessa leið:
ÞEGAR fréttamaðurinn Tinni og hundurinn Tobbi lentu í eltingarleik við hóp peningafalsara í teiknimyndasögunni Svaðilför í Surtsey varð kastali á leið þeirra sem var gerður eftir raunverulegum kastala í Belgíu. Árið 1950 dvaldi höfundur Tinna bókanna, Hergé, nefnilega oftsinnis í þorpinu Ceroux þar sem Moriensart-turninn er. Hann heillaðist af hönnun turnsins sem er í eigu Gericke d'Herwynen baróns og bað leyfis að fá að nota hann í bókum sínum. Áður en hann fór fékk hann gestabókina lánaða og teiknaði fallega mynd af Tinna og Tobba á rölti frá kastalanum. Sem eðlilegt er og eru d'Herwynen og hans fjölskylda stolt af þessum óvænta heiðri. Fyrir vikið varð kastalinn heimsfrægur og aðdáendur Tinna bókanna leggja gjarnan lykkju á leið sína til að skoða kastalann.
Gestabókssíðan sem um ræðir hefur að sjálfsögðu varðveist og óneitanlega er myndin algjört listaverk eins og Hergé er von og vísa. Fyrir neðan ritaði hann einnig fáein orð til gestgjafanna, ásamt undirskrift sinni, og dagsetninguna 15. apríl 1956.
Kastalinn er byggður á 13. öld og er við Céroux-Mousty, sem er hluti af sveitarfélaginu Ottignies-Louvain-la-Neuve, í héraðinu Walloon Brabant. Það er staðsett um það bil í miðri Belgíu, ef einhver hefur áhuga á að kíkja á staðinn, og þangað kemur fjöldi ferðamanna á ári hverju til að berja kastalann augun. Allt tengist það Tinna bókunum auðvitað.
En það er reyndar ekki allt alveg rétt það sem fram kemur í Morgunblaðinu síðla árs 1994. Hergé notaði kastalann til dæmis ekki sem fyrirmynd að kastalarústunum í bókinni um Svaðilför í Surtsey. Þá sögu teiknaði hann á árunum 1937-38 og fyrirmynd Hergés að kastalanum í Surtsey er að öllum líkindum byggð á nokkrum turnum við strönd bæði Belgíu, Frakklands og Skotlands.  Og þá er það ekki rétt að teikning Hergés sé frá árinu 1950, eins og fram kemur í greininni, heldur 1956 og það sem meira er, hann dvaldi ekki bara eða heimsótti Céroux-Mousty heldur átti hann þar sjálfur hús og bjó þar einfaldlega. Af Moggagreininni mætti hins vegar ráða að Hergé hafi haft viðdvöl nokkrum sinnum í héraðinu og kastalinn hafi fangað athygli hans í eitthvert skiptið. Það er því ljóst að þessi litla fréttaklausa í Mogganum, sem SVEPPAGREIFINN var búinn hafa fyrir að muna eftir í næstum 25 ár, var bara algjört prump að miklu leyti.

En til gamans má geta þess að Hergé keypti hús við Céroux-Mousty, sem var gamalt gistihús í spænskum stíl, árið 1949 og nefndi það La Ferrièresem en það var þá reyndar orðið ansi hrörlegt og lélegt. Hann hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig hann vildi breyta því og fór fljótlega að fá iðnaðarmenn til að gera húsið upp. Frá árinu 1953 var hann með skráð lögheimili í húsinu og þar bjó hann að mestu næstu árin.

30. nóvember 2018

87. UPPÁHALDSMYND Í VIGGÓ BÓK

SVEPPAGREIFINN hefur margoft áður á þessum vettvangi lýst yfir dálæti sínu á snillingnum André Franquin og þeim myndasögum sem hann kom að á sínum starfsferli. Þannig hefur SVEPPAGREIFINN til að mynda minnst á einstakar uppáhaldsmyndir úr bókunum um Viggó viðutan og hefur þegar birt eina slíka mynd úr þeim bókum en hana má sjá hér. Ætlun SVEPPAGREIFANS er að halda áfram að birta nokkuð reglulega þessar myndir hér á síðunni sinni (ókei, ég veit að það eru komnar rúmlega 80 færslur síðan síðast!) en að þessu sinni er komið að einni uppáhaldsmynd úr Viggó bókinni Hrakförum og heimskupörum sem kom út í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar árið 1979. 
En eins og væntanlega allir vita þá ganga flestar Viggó bækurnar út á einnar síðu brandara en fyrri hluti þessa brandara gengur út á það að samstarfsmenn Viggós á skrifstofu tímaritsins SVALS, þeir Eyjólfur, Snjólfur og Berti, eru að hafa áhyggjur af því að Viggó sjáist ekki í vinnunni heilu dagana. Þrátt fyrir að hafa séð hann mæta til vinnu á morgnana og fara heim á kvöldin. Þeir félagar fá grunsemdir um eitthvað misjafnt og skriður kemst á málið þegar Eyjólfur minnist þess að Viggó hafi lengið viljað vera einn inn á skjalasafni. Þangað fara þeir félagar til að kanna málið og rekast fljótlega á göng sem grafin hafa verið inni í þá risastóru óreiðu sem skjalasafnið er.
Þangað inn halda þeir með nauðsynlegan ljósabúnað og eftir að hafa skriðið svolítinn spöl inn í göngin koma þeir að ótrúlega notalegu rými inni í skjala- og bókasafninu. Þarna hefur Viggó sem sagt verið búinn að dunda sér við að grafa einhvers konar litla hvelfingu inn í skjalasafnið. Og á þessari dásamlegu teikningu, sem er lokapunktur brandarans, má sjá hvar Viggó liggur steinsofandi og hrjótandi inni í þessum notalega bókahelli á vindsæng ásamt gæludýrunum sínum.
Friðsældin og kyrrðin yfir þessari mynd er með svo miklum ólíkindum að SVEPPAGREIFANN langar helst sjálfum mest til að útbúa sér einhvers konar sambærilegt kósý afdrep á góðum stað. Það má reyndar alveg ímynda sér að ferska loftið sé ekki beint að drepa neinn þarna inni enda eitthvað matarkyns mallandi í pönnunni í anda Viggós og líklega fátt um loftræstingar. En aðalatriðið er auðvitað Viggó sjálfur sem liggur svo hamingjusamur og afslappaður, á koddanum í draumalandinu, með malandi kisu í fanginu. Frábær mynd hreinlega og augnablikið er eiginlega fullkomið.

23. nóvember 2018

86. HUGLEIÐINGAR UM BÖLV OG RAGN

Margir hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að mæra Þorstein heitinn Thorarensen fyrir einstakar þýðingar sínar á þeim teiknimyndasögum sem Fjölva útgáfan sendi frá sér á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Það lof á fullkomlega rétt á sér og líklegt að hinar bráðskemmtilegu þýðingar hans og Loft Guðmundssonar hafi átt stóran þátt í vinsældum þessara bókmennta á sínum tíma. Tinna bækurnar, Ástríkur og Lukku Láki voru þær helstu sem Fjölvi gaf út og sagan segir að Þorsteinn hafi gjarnan kryddað þýðingar sínar eilitið og jafnvel farið út fyrir upprunalega handritið með töluverðu skáldaleyfi á köflum. Það eitt gerir bækurnar líklega enn meira spennandi því hætt er við að í seinni útgáfum þessa bóka verði búið að ritskoða þessar skemmtilegu útfærslur. Margir vilja jafnvel meina að eitthvað af þessum bókum séu enn betri í íslensku útgáfunum heldur en frumútgáfunum á frönsku. Þetta gildir sérstaklega um Ástríks bækurnar. Og svo virðist einnig að orðbragð eða öllu heldur blótsyrði Kolbeins kafteins hafi verið sérstaklega vel útfærð hjá þeim Þorsteini og Lofti.
Orðbragð Kolbeins er svo sem ekkert sem SVEPPAGREIFINN hefur heillast neitt sérstaklega af í gegnum tíðina. Ekki eins og svo margir virðast gera. En í fáein skipti hefur hann léð máls á Tinna bókunum við ýmsa aðila og oftar en ekki hafa fyrstu viðbrögð viðkomandi verið eitthvað á þessa leið; "já, hann Kolbeinn kafteinn er alveg frábær með blótsyrðin sín!" Og í kjölfarið hefur fylgt með einhverjar beinar vísanir eða frasar úr Tinna bókum sem viðkomandi hefur lagt á sig að læra. "Kuðungar og krókbognir kolkrabbar og kolbláir krókódílar!" eða "Fari það í milljón makríla og sjö billjón sardínur!" eru dæmi um það. SVEPPAGREIFINN er greinilega svo leiðinlegur að honum hefur aldrei fundist þetta neitt fyndið. Honum fannst Tinna bækurnar skemmtilegar á allt öðrum forsendum.
Blótsyrði Kolbeins eiga auðvitað fyrst og fremst að lýsa karakter hans og óhefluðum sjómannskjafti en þar kemur einnig drykkjuskapur hans töluvert við sögu. Seinna í bókaflokknum róast reyndar kafteinninn heldur og þegar hann festir kaup á Myllusetrinu má eiginlega segja að í besta falli fækki verstu blótstilfellunum hans. Skammaryrði Kolbeins eru ein af einkennum seríunnar þó kafteinninn hafi reyndar ekki komið til sögunnar fyrr en í níundu bók hennar. Í íslensku útgáfunni fóru þeir Loftsteinn því þá leið að heimfæra þýðingar sínar upp á rammíslenskan sjávarútveg og siglingar. Á Wikipedia síðunni um Kolbein kaftein má lesa eftirfarandi texta: Þegar Kolbeinn var kynntur til sögunnar á fimmta áratugnum var það viss áskorun fyrir Hergé að skrifa talmál persónunnar. Þar sem Kolbeinn var sjómaður vildi Hergé að hann talaði með nokkuð skrautlegu orðbragði en Hergé var ekki leyft að leggja kafteininum nein blótsyrði í munn þar sem bækurnar áttu að höfða til barna. Lausnin kom þegar Hergé mundi eftir atviki frá árinu 1933, stuttu eftir að fjögurra velda sáttmáli var undirritaður milli Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Ítalíu. Hafði Hergé þá heyrt kaupmann nota orðið "fjögurraveldasáttmáli" sem fúkyrði. Fékk hann því þá hugmynd að láta Kolbein nota framandi og furðuleg orð sem væru í raun niðrandi en hann hrópaði þó af ofsa eins og þau væru grófustu blótsyrði. Þetta varð brátt eitt eftirminnilegasta persónueinkenni Kolbeins. Og þar með er það þá staðfest að hin óhefluðu og grófu blótsyrði kafteinsins eru þá bara alls engin blótsyrði!
Myndasögurnar um Tinna eru líklega þær einu, sem komið hafa út á íslensku, þar sem ljótt (eða ekki) orðbragð fær virkilega að njóta sín á venjulegan læsilegan hátt - ef svo má að orði komast. Í mörgum myndasögum hafði snemma myndast sú hefð að fylla talblöðrurnar af myndefni sem hæfði viðkomandi reiðilestri og lesandinn var því laus við að þurfa að lesa ljótu orðin. André Franquin var til dæmis algjör snillingur í slíkri myndrænni framsetningu. Í hans útfærslum má oftar en ekki sjá hnefa á lofti, sprengingar, eldingar, hnífa, svín og jafnvel kínversk tákn. Hvað sem þau eiga að tákna. Þarna gat lesandinn sjálfur ímyndað sér orðbragðið og sett sig inn í hugarheim blótandans án þess að þurfa að lesa þau beint orð fyrir orð. Og auk þess er myndræna útfærslan miklu heilbrigðari og skaðminni fyrir lesendahópinn sem er oftar en ekki börn og unglingar.
Í öllum þeim sögum og bröndurum sem Franquin teiknaði voru ógrynni karaktera sem notuðu þessa hentugu útfærslu af blótsyrðum þar sem við átti. Reyndar var líka hefðbundið en mildara bölv haft í og með til uppfyllingar. Hendingar eins og "Hvert þó í hoppandi!" og "Hver þremillinn!" sem flestir kannast við voru auðvitað algengastar en í verstu tilfellunum fengu myndrænu útgáfurnar líka að fljóta með. Margar þeirra persóna sem komu fyrir í Viggó bókunum höfðu ríka þörf fyrir þessa tegund útrásar gagnvart aðalsöguhetjunni og í bókunum um Sval og Val eru einnig mörg tilefni til óheflaðs orðbragðs.
Og þeir sem tóku við keflinu af Franquin, með bækurnar um Sval og Val, voru einnig margir duglegir við að viðhalda þessari skammaryrðahefð. Fournier notaði þessa útfærslu af blótsyrðum seinna í sögunum sínum og það sama má segja um tvíeykin Nic og Cauvin annars vegar og hins vegar þá Tome og Janry. Þetta breyttist hins vegar þegar Morvan og Munuera tóku við Sval og Val seríunni. Í þeirra höndum breyttust sögurnar meira og þróuðust meira út í raunsæisstíl en listamenn sem vildu láta taka sig alvarlega teiknuðu auðvitað ekki skrípó-blótsyrði í talblöðrurnar sínar. Það sama gilti um Yoann og Wehlmann þegar þeir tóku við.
Þessi útgáfa blótsyrða er í raun stórsniðug og frávikið með sögurnar um Tinna skýrist væntanlega af því að grunnur þeirra bóka er töluvert eldri. Það var einfaldlega ekki búið að þróa eða útfæra hina sniðugu blótsyrðablöðru á þennan hátt þegar Hergé teiknaði megnið af sínum sögum. Reyndar fann SVEPPAGREIFINN eitt dæmi í bókinni um Kolafarminn þar sem Hergé notaði hið myndræna form og það dæmi kom honum algjörlega í opna skjöldu. Í því tilfelli hefur Kolbeinn líklega verið í alveg sérstaklega slæmu skapi.
Seinna hefur Hergé líklega þótt of mikil stílbreyting að láta persónurnar í Tinna bókunum allt í einu að fara að bölva á myndmáli. Auk þess sem karakter Kolbeins kafteins gekk hreinlega út á það að blóta á almennilegu mannamáli. En það er ekki bara í myndasögunum um Tinna og Sval og Val sem sögupersónurnar blóta. Í mörgum þeirra bóka, sem við þekkjum hér uppi á Íslandi, er þessi mannlegi ósiður daglegt brauð og í flestum þeirra tilfella hafa höfundarnir tileinkað sér hina myndrænu framsetningu. Hver listamaður hefur auðvitað sín einkenni og persónulega stíl við sköpun blótsyrðanna og svo nota þeir þau ekki allir á sama hátt. Ef maður hefði alveg sérstaklega mikinn áhuga á myndrænum stílbrögðum í blótsyrðum þá væri tæknilega hægt að leggja sig fram við að þekkja útfærslur viðkomandi listamanna. Það verður reyndar að taka það fram að SVEPPAGREIFINN er ekki einn af þeim.
Af öðrum myndasöguseríum sem við þekkjum má nefna að Berck og Cauvin (sá hinn sami og samdi örfá handrit að Sval og Val fyrir teiknaranum Nic) notuðu þetta myndræna bölvunarform í Samma bókunum og Peyo kryddaði einnig allar sínar seríur með þeim. Þó lítur ekki út fyrir að hann hafa notað þessi blótsyrði á sama hátt í öllum seríunum. Í bókunum um Steina sterka virðist sem að gamla konan Grímhildur (sú grimma) sé sú eina sem blóti almennilega í seríunni. En víst verður að taka tillit til þess að hún er jú vélmenni og svolítið óheflaðri í framkomu heldur en fyrirmynd hennar - Grímhildur góða. Og sé rýnt aðeins í hina myndrænu blótútfærslu Peyo er athyglisvert að sjá að hann virðist hafa verið svo djarfur að nota sjálfan hakakrossinn í þessum fyrrnefndu sögum.
Og bæði í Ástríks og Lukku Láka bókunum blóta menn (og konur) á þennan hátt. Þeir Aðalríkur og Óðríkur er mest áberandi úr fyrrnefnda bókaflokknum en það er helst Jobbi Daltón sem lætur til sín taka í villta vestrinu. Reyndar er Léttfeti líka svolítið að bölva í myndaformi og í flestum tilfellum tengist það hundinum Rattata. Annars virðast allir vera svolítið óheflaðir í  Lukku Láka seríunni en í bókinni um Vagnlestina fær ein af eftirminnilegustu aukapersónunum, Skralli Skrölts, að bölva og blóta um alla söguna eins og enginn sé morgundagurinn.
Aðrir listamenn eru öllu hógværari í aðgerðum sínum með þessa myndrænu framsetningu. Líklega er blótað í öllum myndasögum en í sumum þeirra, líklega helst þeim sem höfundarnir vilja láta taka sig alvarlega, láta aðalsöguhetjurnar sér nægja að bölva á venjulegu mannamáli. Hinar dönsku Goðheima bækur eru til að mynda algjörlega lausar við þessar útfærslu, einnig sögurnar um Yoko Tsúnó og hið sama má segja bæði um blaðamanninn Frank og Alex hinn hugdjarfa. Þá kemur það skemmtilega á óvart að franski listamaðurinn Tabary virðist ekki hafa tileinkað sér þessa tækni í bókunum sínum um stórvezírinn Fláráð. En eins og flestir ættu að vita er Fláráður líklega sú persóna myndasagnanna sem á við hvað mesta skapgerðarbresti að etja og er um leið líklega bæði sú illgjarnasta og hvað verst innrætt. Þetta er skapvondur og undirförull náungi sem heldur reglulega reiðilestra, fulla af illgirnislegum hótunum með sadísku ívafi, yfir samferðamönnum sínum. SVEPPAGREIFINN renndi snögglega í gegnum þær bækur sem hann á með hinum illa innrætta stórvezir en eins ólíkt það hljómar þá blótar hann aldrei.

Jæja, nóg komið af fánýtum fróðleik ...

16. nóvember 2018

85. IT'S A LONG WAY TO TIPPERARY

Í dag er hinn alþjóðlegi letidagur myndasögubloggara og færsla dagsins, sem er alveg einstaklega innihaldslítil, litast svolítið af því. En SVEPPAGREIFINN hefur alltaf haft svolítið gaman af bókunum um Fótboltafélagið Fal sem Örn og Örlygur sendi frá sér fyrir tæplega 40 árum síðan og hefur aðeins minnst áður á þessar sögur hér á Hrakförum og heimskupörum. SVEPPAGREIFINN hefur líka nefnt það að þó teikningarnar séu ekki í hæsta (og líklega ekki heldur í næsthæsta) gæðaflokki þá hafi hann samt talsverðan húmor fyrir þessum teiknimyndasögum. Alls komu reyndar ekki út nema þrjár af þessum bókum í íslenskri þýðingu en það var kornungur Ólafur Garðarsson (seinna lögmaður og fótboltaumboðsmaður) sem sá um að snara þessum dýrmæta hollenska menningararfi yfir á okkar ástkæra ylhýra. Um þessar teiknimyndasögur skrifaði SVEPPAGREIFINN fyrir löngu síðan og má lesa meira hér.
Að þessu sinni ætlar SVEPPAGREIFINN nefnilega að kíkja eilítið á eina mynd, úr bókinni um Fal í Argentínu, sem hann er búinn að muna eftir frá því hann sá hana fyrst líklega 11 ára gamall. Á mynd þessari, sem er efst á blaðsíðu 36, má sjá hvar skoska landsliðið í knattspyrnu stormar út af vellinum, haugfullir, kyrjandi gamlan breskan slagara frá því snemma á 20. öldinni. Leikmenn Fals vita hins vegar ekkert hvaðan af þeim stendur veðrið og fylgjast í forundran með Skotunum yfirgefa leikvanginn. Forsaga atviksins úr bókinni er sú að Fótboltafélagið Falur var sent á Heimsmeistaramótið í Argentínu þegar hollenska liðið forfallaðist eftir slæmt flugslys (hvernig eru annars góð flugslys!?) í aðdraganda mótsins. Falur var búið að spila við Pólland, Íran og Perú þegar kom að leiknum við Skotana en eftir um 20 mínútna leik gengu skosku leikmennirnir af velli enda allir meira eða minna gjörsamlega á eyrunum.
Í liði Skotanna voru nokkrir valinkunnir leikmenn og meðal þeirra má nefna þá Jón á röltinu, Finna Ballantine og Harry Haig en þjálfari liðsins var Alli Vat 69. SVEPPAGREIFINN viðurkennir fúslega að hafa ekki verið nógu greindur til að skilja út á hvað brandarinn um nafn þjálfarans gekk en eftir einfalda gúgglun komst hann að því að auðvitað var þetta ein viský tegundin í viðbót. Og til að toppa allt heitir læknir liðsins Krókur (dr. Hook). Lagið sem skoska liðið syngur heitir It's a Long Way to Tipperary og var einhvers konar hvatningarsöngur breskra hermanna þegar þeir lögðu af stað til vígstöðvanna í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar. Reyndar er lagið írskt og líklega kannast flestir við að hafa einhvern tímann heyrt þennan þekkta söng. Hér má til dæmis heyra þekkta útgáfu af It's a Long Way to Tipperary, með teiknimyndafígúrunni Charlie Brown, frá árinu 1966.
En það sem hinn 11 ára gamli SVEPPAGREIFI hnaut um á sínum tíma var þessi dásamlega neðanmálssetning, sem Ólafur þýðandi skyldi eftir til útskýringar, neðst vinstra megin á myndinni.
Þetta fannst SVEPPAGREIFANUM ægilega fyndið árið 1980 og kúkogpiss brandarar bernskunnar voru þá greinilega enn alls ráðandi.

9. nóvember 2018

84. HUGMYND AÐ BAÐHERBERGI

SVEPPAGREIFINN er ekki stöðugt að lesa myndasögur eða grúska í einhverju efni til að fjalla um hér á Hrakförum og heimskupörum. Undanfarnar vikurnar hefur hann til dæmis staðið í framkvæmdum við að breyta stærstum hluta bílskúr heimilisins í litla íbúð. Þar mun 16 ára unglingurinn geta haft sitt athvarf á mennta- og vonandi háskólaárunum og ekki veitir víst af á þessum tímum húsnæðisskorts og annars munaðar. Tæplega 40 fermetra bílskúr býður svo sem ekki upp á mikinn íburð og sérstaklega ekki þegar búið er að ráðstafa fáeinum fermetrum af honum í svolítið þvottahús og geymslu. En rúmlega 30 fermetra afgangur fyrir íbúð handa unglingi er reyndar örugglega alveg fínt og félagar hans dauðöfunda hann af komandi frelsi. Og í íbúð, þó hún sé lítil, þarf að sjálfsögðu að vera baðherbergi.
Fyrir fáeinum árum rakst SVEPPAGREIFINN á þessa mynd frá kunnuglegu sjónarhorni af baðherbergi sem aðdáendur Tinna bókanna kannast eflaust allir við. Þarna var um að ræða vísun í sígilda myndaröð úr Leynivopninu þar sem Kolbeinn kafteinn kemur við sögu. Þar er hann að bursta tennurnar fyrir framan spegilinn á baðherbergi sínu að Myllufossi þegar spegillinn byrjar skyndilega allur að springa upp og brotnar að lokum niður í þúsund mola. Eða ... alla vega svona fimmtíu og sjö! Seinna kemur svo í ljós að atburðurinn tengist tilraunum sem prófessor Vandráður er að vinna að á vinnustofu sinni. Þetta vita auðvitað allir. En hér fyrir neðan má einmitt sjá atvikið eftirminnilega af speglinum en það kemur fyrir á blaðsíðu 10 í bókinni.
Myndin af baðherberginu er hins vegar uppstilling úr sýningu, tileinkaðri Tinna bókunum, sem haldin var fyrir nokkrum árum í Château de Cheverny kastalanum í Loire Valley í Frakklandi. Allir Tinna aðdáendur ættu að kannast við staðinn en Château de Cheverny er einmitt fyrirmyndin að Myllusetrinu (Château de Moulinsart) í bókunum. Það var alltaf draumur SVEPPAGREIFANS að geta útfært þessa mynd á svipaðan eða sambærilegan hátt í einhverju baðherbergi framtíðarinnar og vissulega væri komið tækifæri til þess núna í bílskúrnum. En þegar fermetrarnir eru fáir og nýting á plássi takmarkaðir þá er úr vöndu að ráða. Sérstaklega þegar plássið, sem skammtað er til baðhergisins, er ekki nema rétt rúmlega tveir fermetrar! Og innan þessa tveggja fermetra þarf að rúmast klósett, vaskur og sturtuklefi. Það er því nokkuð ljóst að draumur SVEPPAGREIFANS um þessa baðherbergisútfærslu er ekki að fara að verða að veruleika. Alla vega ekki að þessu sinni. Vonandi getur þó einhver annar notað hugmyndina. 
En þótt baðherbergisrýmið í bílskúrnum sé lítið þá er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að nýta það á einhvern hátt fyrir skemmtilegt Tinna þema. Og kannski er það einmitt stærðin á rýminu sem hjálpar til við að útfæra eitthvað skemmtilegt þar sem plássið útilokar eitt en opnar um leið möguleika á öðru. SVEPPAGREIFINN er að vísu ekki búinn að ákveða endanlega þá útfærslu á því hvað hann ætlar að gera en vísir að tveimur hugmyndum hringsóla nú um höfuð hans. Hver (hvort?) endanleg niðurstaða verður á eftir að koma í ljós en vonandi birtist færsla á vormánuðum hér á Hrakförum og heimskupörum með myndum af þeirri útfærslu.

2. nóvember 2018

83. GRÆNJAXLINN BALDUR BADMINGTON

SVEPPAGREIFINN hefur í gegnum tíðina verið nokkuð hrifinn af myndasögunum um Lukku Láka en það tók hann þó reyndar svolítinn tíma að uppgötva bækurnar almennilega. Það var líklega ekki fyrr en um jólin 1979 sem hann eignaðist sína fyrstu Lukku Láka bók. Fyrstu sögurnar í seríunni höfðu ekki komið út á íslensku fyrr en árið 1977 en um jólin 1979 voru þegar komnar út hátt í 20 bækur. Ástæðuna fyrir því hversu langan tíma það tók fyrir SVEPPAGREIFANN að uppgötva bækurnar má að líkindum rekja til þess að sögurnar um Tinna og Sval og Val gengu fyrir hjá honum á þessum árum og þær bækur fengu því alla athyglina. Á þessum árum eignaðist hann myndasögur aðallega í gegnum jóla- og afmælisgjafir en auk þess hafði hann stundum getað nurlað saman einhverjum aurum og keypt bækur sjálfur. Og þá þurfti að vanda valið. En smám saman fóru aðrar teiknimyndasögur en Tinni og Svalur og Valur að grípa hugann og Lukku Láka bækurnar fóru einnig að safnast saman í bókahillum heimilisins líkt og flestar aðrar myndasögur sem voru að koma út á þessum árum. SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki með það alveg á hreinu hvaða Lukku Láka bók hann eignaðist fyrst en þó minnist hann þess að Allt í sóma í Oklahóma, Arísóna og Gullnáman og Rex og pex í Mexíkó hafi allar komið nokkuð snemma inn á borð.
Auðvitað eru Lukku Láka bækurnar ólíkar að gæðum og óhætt er að segja að þær séu eins misjafnar og þær eru margar. Elstu sögurnar eru til dæmis varla alveg marktækar þar sem belgíski listamaðurinn Morris (Maurice de Bévère), sem var einnig handritshöfundur að fyrstu sögunum, tók sér svolítinn tíma til að móta aðalsögupersónuna og um leið að þróa stíl sinn. Morris var mikill áhugamaður um amerískar vestramyndir og í tengslum við þann áhuga skapaði hann kúrekann knáa, sem klæddist fötum í belgísku fánalitunum, árið 1946.  Hann flutti svo til Bandaríkjanna (ásamt m.a. Jijé og Franquin) til frekara listnáms og starfaði til að mynda við myndasögugerð hjá MAD tímaritinu en þar öðlaðist hann aukna reynslu og þróaði stíl sinn enn frekar. Morris bjó í nokkur ár í Bandaríkjunum, setti sig vel inn í sögu hins villta vesturs og notfærði sér það óspart við Lukku Láka sögurnar þegar fram liðu stundir. Árið 1957 kom hinn fransk/argentínski René Goscinny síðan til sögunnar og hóf að vinna að handritsgerð sagnanna en fljótlega eftir það hófust sögurnar á feykilegt flug sem stóð yfir allt þar til Goscinny lést árið 1977. 
Margar Lukku Láka bókanna eru hreint frábærar og skemmtanagildi þeirra á við það besta sem gerist í teiknimyndasögum. Fjölbreytilegur skammtur af aukapersónum gera mikið fyrir seríuna og þar eru þeir Léttfeti og Rattati í stórum hlutverkum en Daltón bræður krydda bókaflokkinn einnig hæfilega með afreksverkum sínum. Það er svo sem ekkert auðvelt að taka út stakar bækur til að velja sem sínar uppáhalds en að mati SVEPPAGREIFANS er hápunktur seríunnar um miðbik hennar eða frá fyrri hluta 7. áratugarins og fram undir lok þess 8. - sem er reyndar alveg dágóður tími og mikill fjöldi bóka. Ein þessara bóka heitir Grænjaxlinn (Le Pied-tendre - 1968) en hún kom út hjá Fjölva útgáfunni á íslensku árið 1980 í þýðingu Þorsteins Thorarensen og er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Eftir að hafa rýnt eilítið í sögu Lukku Láka bókanna kemur í ljós að almennt eru bækurnar Grænjaxlinn og Póstvagninn (La Diligence - 1967), sem hefur reyndar ekki enn komið út í íslenskri þýðingu, taldar vera á meðal bestu bóka þeirra Morris og Goscinny og þá um leið auðvitað þær bestu í seríunni allri.
Lukku Láka sagan Le Pied-tendre hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 1537 sem kom út þann 28. september árið 1967 og var gefin út í bókarformi árið 1968. Sagan segir í grófum dráttum frá breska aðalsmanninum Baldri Badmington sem erfir búgarð einn í villta vestrinu. Baldur ráðgerir að setjast þar að, ásamt einkaþjóni sínum, en nágranni hans Gúmi Gikkur (frábært nafn) ásælist líka jörðina. Gúmi beitir öllum brögðum til að fæla Baldur burt af landareigninni en það er Lukku Láki sem fær það hlutverk að aðstoða hinn enska hefðarmann og verja hann gegn áformum Gúma Gikks. Sagan er innblásin af gamalli bíómynd (Ruggles of Red Gap) frá árinu 1935 en hún fjallar um breskan einkaþjón og dvöl hans í villta westrinu. Mjög spennandi allt saman - eða þannig.
SVEPPAGREIFANUM er ekki almennilega ljóst hvers vegna einmitt þessi bók er í svo miklu uppáhaldi hjá honum. Ætli það sé ekki hinn hábreski Baldur Badmington og einkaþjónninn hans Jósep sem gera þessa frábæru sögu svona skemmtilega. Þeir minna jafnvel eilítið á tvíeykið Jeeves og Wooster sem margir muna eftir úr samnefndum, breskum sjónvarpsþáttum frá því snemma á 10. áratugnum. Í það minnsta eru hinir bresku Baldur og Jósep í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og þeir eru líka, í hugum margra, í hópi eftirminnilegra sögupersóna Lukku Láka bókanna. Og svo er sagan einfaldlega frábærlega vel teiknuð og ákveðinn blær yfir henni þar sem Morris notar alla lita- og skugga effektana sína á fullkominn hátt. Árið 1965 hafði Goscinny gert handritið að Ástríks bókinni Astérix chez les Bretons (Ástríkur í Bretalandi, Fjölvi - 1974) sem félagi hans hinn franski Albert Uderzo hafði teiknað en þar hafði hann einnig gert svolítið grín að Bretum og breskum hefðum. Margir muna örugglega eftir volga bjórnum, tepásunni og Lundúnaþokunni úr bókinni. Í Grænjaxlinum var sögusviðið hins vegar svolítið nær nútímanum og í þeirri bók koma reyndar líka aðeins við sögu te og bjór en Goscinny fékk þar einnig frábært tækifæri til að gera góðlátlegt grín að breska aðlinum. Uderzo stóð alltaf í þeirri meiningu að Morris hefði haft sig sem fyrirmynd að aðalsmanninum Baldri en Belginn þvertók fyrir það og þóttist aldrei hafa kannast við það. 
Baldur Badmington er hinn holdi klæddur hefðarmaður sem heldur rósemi sinni og háttvísi sama hvað á gengur. Hann leynir töluvert á sér og er engan veginn sá grænjaxl sem skálkar bæjarins (Þurrkverkarbæjar) telja sig vera að taka í gegn. Hinn ódannaði óaldaflokkur Gúma Gikks gerir hvað hann getur til að koma honum úr jafnvægi, með ýmsum tegundum "busavígsla", til að fæla hann aftur heim til Evrópu en Baldur lætur sér fátt um finnast. Hann er öllu vanur úr Oxford háskóla og þegar líður á söguna kemur einnig í ljós að Baldur er ekki aðeins afbragðs skytta heldur líka vel liðtækur í slagsmálum. Hann hafði nefnilega alveg gleymt að taka það fram að hann væri bæði Heimsveldismeistari í veltivigt og skotfimi með skammbyssu. Undir lok sögunnar kemur svo enn í ljós hversu eitilharður hann er því hann sýnir ekki minnstu viðbrögð þegar Gúmi Gikkur hæfir hann með byssukúlu í handlegginn í einvígi.
SVEPPAGREIFINN stóð alltaf í þeirri meiningu að ættarnafn Baldurs, Badmington, væri hluti af heimfærðri þýðingu Þorsteins heitins Thorarensen og væri því rammíslenskur brandari. Þorsteinn fór oft skemmtilega frjálslega með þýðingar sínar á bókunum og Badmington nafnið væri því eins konar útfærsla hans á hefðbundnu bresku aðalsættarnafni. Kensington, Hamilton eða jafnvel Wellington gætu verið ættarnöfn hjá dæmigerðum mönnum af aðalstign en Badmington væri hins vegar íslenska grínútfærslan að því. En svo er þó alls ekki. Í upprunalegu frönsku útgáfunni af Grænjaxlinum heitir hann einfaldlega Badmington (Waldo reyndar) og Þorsteinn er því alsaklaus af ranglega dæmdum hugmyndum SVEPPAGREIFANS.
Hinn trygglyndi einkaþjónn hans, Jósep, er dæmigerður breskur butler. Í upprunalegu frönsku útgáfunni heitir hann Jasper en Þorsteinn ákvað að skíra hann Jósep. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá virðist nafngift hans vera tileinkuð hinum eina sanna Jósepi (Nestor) á Myllusetri úr Tinna bókunum sem Þorsteinn þýddi einnig. Og fyrir vikið stóð SVEPPAGREIFINN lengi í þeirri trú að meira eða minna allir yfirþjónar ættu að heita Jósep. En Jósep, þ.e.a.s. einkaþjónn Baldurs, var áður ráðsmaður í þjónustu 18. hertogans af Limchester og miðað við lýsingar hans á líferni hertogans þá er hann augljóslega öllu vanur. Það kemur sér reyndar vel við störf hans fyrir Baldur Badmington í villta vestrinu því ýmislegt gengur á í sögunni. Hinn háttvísi og ofur kurteisi Jósep lætur sér fátt um finnast en einu sinni í sögunni er honum þó svo illa misboðið að hann hótar að segja sig úr vistinni. Það er þegar að einn af misindismönnum Gúma Gikks hrækir á gólfið á heimili Baldurs og Lukku Láki þarf að hafa sig allan við til að sannfæra hann um að yfirgefa þá ekki á neyðarstundu.
Þegar allt er um garð gengið í lok sögunnar ákveður Jósep hins vegar að yfirgefa húsbónda sinn og freista gæfunnar hinum megin við fjöllin þar sem finna megi gull eins og sand. Og í beinu framhaldi af því má einnig minnast á það að Baldur Badmington kemur fyrir í annarri Lukku Láka bók sem nefnist Le Klondike og var gefin út árið 1996 en sú bók hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu. Í þeirri sögu hittast þeir Láki aftur eftir að fréttir berast af því að Jósep hafi horfið sporlaust og þeir félagar halda á gullgrafaraslóðir í Klondike í Kanada til að leita að honum. Þess má geta að höfundurinn Yann kom að handritsgerð sögunnar en hann er kunnur fyrir hlut sinn að bókunum um Gastoon (Litla Viggó) og Gormana.
Og alveg í lokin er alveg tilvalið að kíkja á eina villu eða mistök sem Morris gerði í bókinni um Grænjaxlinn. Á blaðsíðu 42, þegar Lukku Láki hefur bjargað Baldri Badmington frá hengingu, má sjá á fyrstu tveimur myndunum í myndaröðinni hvar aðalsmaðurinn tekur af sér vinstri hanskann og slær Gúma Gikk utan undir með honum. Á þriðju myndinni í röðinni má hins vegar sjá hvar hann er að enda við að setja á sig hægri hanskann!
Góðar stundir.

26. október 2018

82. ÚR PLÖTUSKÁPNUM

SVEPPAGREIFINN hefur löngum þurft að ergja sig á þeirri undarlegu tilhneigingu útgefenda myndasagna að hafa þörf á því að láta lesendur vita hvernig bækurnar þeirra hljóma. Nákvæmlega! Teiknimyndasögur sem hægt er að hlusta á. Við fyrstu sýn hljómar þetta nefnilega ansi framandi en er þó alls ekki óþekkt. Nú minnist SVEPPAGREIFINN þess reyndar ekki að hafa séð til dæmis Tinna bækurnar gefnar út á íslensku á hljóðbók en víða erlendis tíðkaðist það alla vega áður fyrr að teiknimyndasögur voru gefnar út á hljómplötum. Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af slíkum óskapnaði komu honum svo í opna skjöldu að hann hafði ekki einu sinni rænu á að spila ósköpin. Fyrir mörgum árum hafði honum þá áskotnast góður kassi af einhverjum 150 vínylplötum þar sem kenna mátti ýmissa skemmtilegra grasa. Inn á milli Bítlanna, Simon og Garfunkel, Moody blues og Supertramp mátti finna þennan einkennilega grip.
Þarna var sem sagt um að ræða sænska LP hljómplötu með Tinna sögunni Kolafarminum (Koks i lasten) frá árinu 1982 og innihald hennar passaði engan veginn inn í vínylplötuhillur SVEPPAGREIFANS. Hann hirti það bitastæðasta úr plötukassanum og lét Tinna plötuna fara í bunka með öðrum óáhugaverðum vínyl sem hann losaði sig síðan við seinna á einu bretti ódýrt. Eitthvað var þó tilvist plötunnar lítillega velt fyrir sér áður en hún var látin fjúka og líklega hefði verið fróðlegt að henda henni á fóninn. En eins og áður segir reyndi aldrei á efni hennar því platan fór aldrei undir nálina. Sem líklega voru mistök. Eða ekki. Í það minnsta hefði það verið þess virði að eiga hana áfram til minja. Það væri fróðlegt að vita hvar blessuð platan er niðurkomin í dag og í hversu góðum höndum hún er. Tinna hljómplatan Koks i lasten fór því fyrir lítið en óneitanlega er eftirsjá af henni. En fyrir ekki svo löngu rifjaðist þessi hljómplata upp fyrir SVEPPAGREIFANUM og hann fór að velta fyrir sér tilurð hennar og því hvort að fleiri gripir úr seríunni hefðu verið aðgengilegir. Þessi eina saga innan úr seríunni um Tinna gaf nefnilega tilefni til að ætla að fleiri sögur en Koks i lasten hafi verið gefin út í plötuformi. Við nánari eftirgrennslan reyndist svo aldeilis vera því margar af Tinna bókunum höfðu verið gefnar út í Svíþjóð á þessu notalega formi. Og ekki bara það heldur voru þær líka gefnar út seinna á geisladiskum. Til marks um vinsældir Tinna á hljómplötum fékk Tinna platan Det hemliga vapnet (Leynivopnið) til að mynda gullplötu fyrir 50.000 seld eintök í Svíþjóð árið 1981. Augljóslega var því til markaður fyrir teiknimyndasögur á hljómplötum.
Áðurnefnd eftirgrennslan gróf reyndar ýmislegt fleira upp úr fortíðinni. Því svo virðist sem Tinna bækurnar hafi verið gefnar út á vínyl í nokkrum fleiri löndum. Í Danmörku voru til dæmis einar 14 Tinna sögur leiklesnar inn á plötur (og snældur) á árunum 1972-83 og auk þess, þar fyrir utan, ein jólaplata. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki alveg ljóst hvers konar efni má finna á þeirri plötu en að sögn hljómar í lok plötunnar jólalag þar sem allar sögupersónurnar syngja saman hópsöng. Sá sem fór með hlutverk Tinna á öllum þessum hljómplötum hét Bob Goldenbaum og var lengi kunnur sem rödd Tinna í Danmörku en með hlutverk Kolbeins fór leikarinn Peter Kitter.
Og það þarf svo sem ekki að koma neitt á óvart að margar af þessum sögum voru líka gefnar út á vínyl (og snældum) í Belgíu og Frakklandi á sínum tíma og einnig voru þær endurútgefnar á geisladiskum þegar það form kom til sögunnar. Náungi að nafni Maurice Sarfati fór með hlutverk Tinna í þessum útgáfum en Kolbein kaftein lék Jacques Hilling ef einhvern fýsir að fá að vita það. Þá má ekki gleyma að auðvitað voru einnig gefnar út hljómplötur með tónlistinni úr þeim bíómyndum sem gerðar hafa verið með Tinna. Tintin et le mystère de la Toison d'orTintin et les oranges bleues, og teiknimyndin Tintin et le lac aux requins fengu til dæmis allar sína kvikmyndatónlist gefna út á vínyl. Þessar hljómplötur eru eftirsóttar af söfnurum og góð og vel með farin eintök fara kaupum og sölum, dýrum dómum, á sölu- og uppboðsvefum á Netinu. Enda er það svo að þessar plötur voru gefnar út sem barnaefni og þær því, oftar en ekki, spilaðar nánast í gegn. Sem gerir það að verkum að afar lítið er til af heillegum eintökum í dag og það sem til fellur er gríðarlega eftirsótt. Af öðrum löndum sem gáfu út Tinna á hljómplötum má nefna að einnig eru til hollenskar útgáfur af sögunum.
En það voru ekki bara myndasögurnar með Tinna sem gefnar voru út á vínylplötuforminu. Við þekkjum til dæmis Strumpana ágætlega en þeir eiga reyndar 60 ára afmæli um þessar mundir. Til er aragrúi hljómplatna með tónlist tengdum þessum bláu viðrinum og við íslenskir myndasögulesendur höfum ekki farið varhluta af þeim ósköpum. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort að á einhverjum af þeim vínylplötum sé leiklesið efni sambærilegu áðurnefndum Tinnabókum. Mest af því efni er væntanlega einhverjir strumpasöngvar. Magnið er í það minnsta gríðarlegt og einhvern veginn læðist sá grunur að SVEPPAGREIFANUM að ekki sé það nú allt höfundavarið efni. En Haraldur í Skrýplalandi kom fyrst til sögunnar hér á landi árið 1979 (um það má lesa hér) sem síðar breyttist í Harald í Strumpalandi og seinna tröllriðu þeir öllu með sínum undurfögru jólasöngvum sungnum með tvöföldum háskerpuhraðatón. Strumparnir voru einu myndasöguhetjurnar sem heimsóttu Ísland í formi vínylplatna. 
Af öðrum myndasöguhetjum, sem sést hafa á vínylplötuforminu, má til dæmis nefna hljómplötur með Hinrik og Hagbarði. Þar er mest um að ræða tónlist með þeim félögum og miðað við þá sönghæfileika sem Hagbarður hefur yfir að ráða, ef tekið er mið af teiknimyndasögunum sjálfum, þá ættu hlustendur ekki að eiga von á góðu. En svo er nú reyndar ekki. Söngvar þeirra Hinriks og Hagbarðs hljóma tiltölulega eðlilega (eða svona eins eðlilega og frönsk '80s barnatónlist hljómar) og þeir sem eiga þess heiðurs aðnjótandi að fá að hlusta á þessar plötur þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af varanlegum eyrnaskemmdum.
Og hér er jafnvel hægt að nálgast tóndæmi af plötunum með þeim félögum fyrir þá sem hafa á því áhuga en fyrir þá sem ekki hafa áhuga er best að sleppa því bara alveg að hlusta.
En það sem líklega kemur mest á óvart, í þessari samantekt um myndasögur á vínyl, er hversu stórtækur Lukku Láki er á þeim vettvangi og hversu víða hann hefur komið við. Þarna er reyndar um alls konar efni að ræða. Allt frá tónlist úr kvikmyndum um Láka (sem eru orðnar nokkuð margar), þáttaseríum allskonar, leiklestri og eiginlega allt þar á milli á mörgum ólíkum tungumálum. Sumar af þessum plötum eru með sama efninu en á mismunandi tungumálum og með ólíkar útfærslur af plötuumslaginu. Flestar af þeim eru líklega með tónlistina úr kvikmyndinni La Ballade des Dalton sem við Íslendingar þekkjum úr bókinni um Þjóðráð Lukku Láka. En plöturnar skipta tugum og sýnishornin hér fyrir neðan sýna aðeins brot af því efni sem hægt er að nálgast á vínylplötum með Lukku Láka.
Og að lokum eru það Ástríks plöturnar. Þar er einnig um nokkuð auðugan garð að gresja því sögurnar voru mjög vinsælar á þessu formi á áttunda áratug síðustu aldar. Sem dæmi má nefna að til eru í kringum 30 mismunandi vínylplötur með alls konar efni tengdum Ástríki bara á þýsku. Svipaða sögu má líka segja um belgísk/frönsku útgáfurnar.
Þessi sænska hljómplata SVEPPAGREIFANS, með leiklesnu sögunni um Kolafarminn, var því líklega ekkert sérstaklega merkileg þegar allt kemur til alls. Þessar plötur eru augljóslega til í hundraðatali og þó við Íslendingar höfum ekki haft mikið af þeim að segja þá er ekki sömu sögu hægt að segja um aðra íbúa álfunnar. Markaður fyrir slíka vitleysu er greinilega til og vinsældir þeirra voru augljóslega miklu meiri en hægt er að ímynda sér. Það breytir þó ekki skoðun SVEPPAGREIFANS um tilgangsleysi slíkra afurða. Í hans augum eru þessar plötur sambærilegar við það að reyna að horfa á útvarpsþátt. En þarna er að minnsta kosti kominn nýr möguleiki fyrir þá sem hafa söfnunaráráttu að áhuga(sumir kalla það vanda-)máli.