Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að fjalla svolítið um Lukku Láka. En íslenskir lesendur teiknimyndasagna muna að sjálfsögðu eftir Lukku Láka bókinni Meðal dóna og róna í Arisóna og Gullnáman sem Fjölvaútgáfan gaf út í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1979. Þarna var um að ræða tvær stuttar sögur sem voru á meðal þess allra fyrsta sem listamaðurinn Morris (Maurice de Bevere) samdi um kúrekann Lukku Láka en þessar myndasögur urðu til löngu áður en handritshöfundurinn René Goscinny kom til sögunnar. Hin íslenska útgáfa af bókinni hafði reyndar ekki að geyma þær tvær sömu sögur sem upprunalega belgíska bókaröðin hafði að geyma. Sú bók var með sögurnar Gullnáman og Le Sosie de Lucky Luke (Tvífari Lukku Láka) en síðarnefnda sagan hefur ekki komið út á íslensku. En það er allt annað mál og verður látið liggja á milli hluta í bili.
Sagan Gullnáman heitir reyndar á frönsku La Mine d´or de Dick Digger sem tæknilega hefði þá líklega átt að vera þýtt sem Gullnáma Gríms grafara eins og fram kemur á hinum frábæru íslensku Wikipedia síðum um Lukku Láka sem Sverrir Þór Björnsson stýrir. Það var nefnilega ýmislegt sem farið var frekar frjálslega með í hinum íslensku þýðingum Fjölva útgáfunnar á sínum tíma og þeirra á meðal voru titlar sagnanna. En fyrsta blaðsíðan af Gullnámunni birtist þann 12. júní árið 1947 í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU og sagan naut þar töluverðra vinsælda. Í blaðinu var birt ein síða á viku þar til yfir lauk en síðasta blaðsíða Gullnámunnar birtist þar þann 27. nóvember þetta sama ár. Alls hafði SPIROU tímaritið því að geyma tuttugu og sex blaðsíður af sögunni. En þegar farið er að skoða bókaútgáfuna (og þar með talið þá íslensku) af þessari teiknimyndasögu kemur reyndar í ljós að sú útgáfa Gullnámunnar er ekki nema tuttugu og fimm blaðsíður að lengd. Þetta þýðir auðvitað það að í bókaútgáfuna vantar hvorki meira né minna en heila blaðsíðu. Nánar til tekið blaðsíðu sjö. Af því tilefni er ástæða til að rifja upp að síðasta myndaröðin á blaðsíðunni á undan (sem er þá neðst á blaðsíðu tuttugu og átta í íslensku útgáfunni) er svona útlítandi.
Blaðsíða númer sjö í Gullnámunni eins og hún birtist upphaflega í SPIROU tímaritinu, þann 24. júlí árið 1947, lítur hins vegar nákvæmlega út eins og hún sést hér fyrir neðan. Það er auðvitað rétt að biðjast aðeins afsökunar á gæðum þessarar blaðsíðu enda hefur hún aldrei verið endurteiknuð og lituð, líkt og aðrar síður sögunnar, og kemur því svona beint upp úr SPIROU tímaritinu.