11. apríl 2023

223. TÝNDA BLAÐSÍÐAN ÚR GULLNÁMUNNI

Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að fjalla svolítið um Lukku Láka. En íslenskir lesendur teiknimyndasagna muna að sjálfsögðu eftir Lukku Láka bókinni Meðal dóna og róna í Arisóna og Gullnáman sem Fjölvaútgáfan gaf út í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1979. Þarna var um að ræða tvær stuttar sögur sem voru á meðal þess allra fyrsta sem listamaðurinn Morris (Maurice de Bevere) samdi um kúrekann Lukku Láka en þessar myndasögur urðu til löngu áður en handritshöfundurinn René Goscinny kom til sögunnar. Hin íslenska útgáfa af bókinni hafði reyndar ekki að geyma þær tvær sömu sögur sem upprunalega belgíska bókaröðin hafði að geyma. Sú bók var með sögurnar Gullnáman og Le Sosie de Lucky Luke (Tvífari Lukku Láka) en síðarnefnda sagan hefur ekki komið út á íslensku. En það er allt annað mál og verður látið liggja á milli hluta í bili.

Sagan Gullnáman heitir reyndar á frönsku La Mine d´or de Dick Digger sem tæknilega hefði þá líklega átt að vera þýtt sem Gullnáma Gríms grafara eins og fram kemur á hinum frábæru íslensku Wikipedia síðum um Lukku Láka sem Sverrir Þór Björnsson stýrir. Það var nefnilega ýmislegt sem farið var frekar frjálslega með í hinum íslensku þýðingum Fjölva útgáfunnar á sínum tíma og þeirra á meðal voru titlar sagnanna. En fyrsta blaðsíðan af Gullnámunni birtist þann 12. júní árið 1947 í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU og sagan naut þar töluverðra vinsælda. Í blaðinu var birt ein síða á viku þar til yfir lauk en síðasta blaðsíða Gullnámunnar birtist þar þann 27. nóvember þetta sama ár. Alls hafði SPIROU tímaritið því að geyma tuttugu og sex blaðsíður af sögunni. En þegar farið er að skoða bókaútgáfuna (og þar með talið þá íslensku) af þessari teiknimyndasögu kemur reyndar í ljós að sú útgáfa Gullnámunnar er ekki nema tuttugu og fimm blaðsíður að lengd. Þetta þýðir auðvitað það að í bókaútgáfuna vantar hvorki meira né minna en heila blaðsíðu. Nánar til tekið blaðsíðu sjö. Af því tilefni er ástæða til að rifja upp að síðasta myndaröðin á blaðsíðunni á undan (sem er þá neðst á blaðsíðu tuttugu og átta í íslensku útgáfunni) er svona útlítandi.

Blaðsíða númer sjö í Gullnámunni eins og hún birtist upphaflega í SPIROU tímaritinu, þann 24. júlí árið 1947, lítur hins vegar nákvæmlega út eins og hún sést hér fyrir neðan. Það er auðvitað rétt að biðjast aðeins afsökunar á gæðum þessarar blaðsíðu enda hefur hún aldrei verið endurteiknuð og lituð, líkt og aðrar síður sögunnar, og kemur því svona beint upp úr SPIROU tímaritinu.

Bófarnir tveir ræða þarna sín á milli um að það sé engin leið að hæfa Lukku Láka, á bak við klettinn sem hann er í felum við, svo Mexikaninn í grænu skyrtunni kveðst ætla að nota aðrar aðferðir til að kála honum. Hann ætli sér að negla Láka við jörðina með kutanum sínum. Hvers vegna Mexíkaninn sker hár úr taglinu af hestinum sínum botnar SVEPPAGREIFINN hins vegar ekkert í en Léttfeti finnur aftur á móti fjögurra laufa smára rétt í þann mund sem hnífur bófans stingst á kaf í jörðina rétt fyrir framan hann. Klárinn flýr af vettvangi og tautar svo fyrir munni sér um að mamma hans hafi alltaf haft rétt fyrir sér - willta westrið sé sko ekkert lamb að leika sér við! Það er því einmitt á þessari týndu blaðsíðu sem Léttfeti sést tala í fyrsta sinn eins og kemur fram á tveimur myndarömmum þarna neðst á síðunni. Fram til þessa hafði ávallt verið talið að þessi gáfaðasti hestur í heimi hefði fyrst talað í sögunni Sur la piste des Dalton (Í fótspor Daldóna), frá árinu 1960, en sú bók hefur ekki enn komið út á íslensku. Sú kenning virðist einmitt lengi hafa gengið á meðal Lukku Láka sérfræðinga en staðreyndin er hins vegar sú að Léttfeti talaði fyrst í Gullnámunni á hinni týndu blaðsíðu. Kannski var þetta skraf Léttfeta við sjálfan sig einmitt ástæða þess að síðunni var sleppt úr bókaútgáfunni á sínum tíma og Dupuis útgáfan hefur sjálfsagt haft eitthvað um það að segja. Sem betur fer sáu þeir sig um hönd og kvikindið fékk að tala áfram.

Og síðan er það því næsta myndaröð á eftir, á blaðsíðu tuttugu og níu í bókinni, sem hefði þá tæknilega átt að vera efsta myndaröðin á blaðsíðu þrjátíu í þeirri bók.
 

Þess má líka einnig geta að ef grannt er skoðað má jafnvel sjá hvernig síðustu myndarammarnir neðst á blaðsíðum tuttugu og átta og tuttugu og níu í bókaútgáfunni eru merktir Morris og með blaðsíðunúmerum sex og númer átta. Þetta má auðveldlega sjá í íslensku útgáfunni af bókinni og staðfestir þá auðvitað enn frekar að þessa blaðsíðu númer sjö vantar í bókina.