29. mars 2019

104. RITSKOÐUN Á BILLA BARNUNGA

Þær myndasögur sem SVEPPAGREIFINN hefur helst verið að fjalla um, hér á Hrakförum og heimskupörum, eiga flestar uppruna sinn frá Belgíu eða öllu heldur fransk/belgíska málsvæðinu. Þar var helsta vígi evrópskra teiknimyndasagna á 20. öldinni og þaðan komu nær allar þær sögur sem gefnar voru út hér á Íslandi á sínum tíma. Margar þessara myndasagna voru þó, eins og flestir ættu að gera sér grein fyrir, búnar að vera til í áratugi og fara í gegnum margvísleg ferli í gegnum tíðina áður en þær birtust loksins í bók hér uppi á Íslandi. Flestar ef ekki allar höfðu fyrst birst í helstu myndasögutímaritunum (Le journal de Tintin, SPIROU, Pilote ofl.) áður en við sáum þær og oft voru þær jafnvel búnar að ganga í gegnum miklar breytingar á þeim tíma. Það kom nefnilega stundum fyrir að útgefendur teiknimyndasagnanna voru ekki alltaf alveg sáttir við þá niðurstöðu sem höfundar þeirra settu fram í útfærslum sínum á myndasögunum. Það gátu verið margvíslegar ástæður fyrir því. Útgáfufyrirtækin gerðu auðvitað kröfur um fagleg vinnubrögð en oft þurftu þau líka aðeins að grípa inn í ef þeim þótti höfundar þeirra ekki lúta reglum um almennar, eðlilegar og siðferðislegar kröfur. Myndasöguhöfundarnir gátu nefnilega verið misjafnlega frjálslegir eða jafnvel uppreisnargjarnir í sköpun sinni. Sjaldnast þurfti reyndar að grípa í taumana ef efnið þótti klámfengið en oftast var það þegar um einhvers konar ofbeldi var að ræða. Þetta var jú einu sinni barnaefni. Stundum gripu útgefendurnir strax inn í áður en sögurnar birtust í myndasögublöðunum en í öðrum tilfellum sluppu þær í gegnum nálaraugað og þá var þess krafist að gerðar yrðu viðeigandi breytingar áður en þær voru gefnar út í bókarformi.
Dæmi um það birtist í kunnuglegri bók um Billa barnunga (Billy the kid - 1962) úr seríunni um Lukku Láka. Sagan sem kom út á íslensku hjá Fjölva útgáfunni, í þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1978, þykir með þeim betri í bókaflokknum og Maurice de Bevere (sjálfur Morris) sagði hana ávallt hafa verið sína uppáhalds Lukku Láka sögu. Við þekkjum hina hefðbundnu byrjun á sögunni eins og hún kemur fyrir í íslensku útgáfunni. Þar er Billi kynntur aðeins til sögunnar á fyrstu blaðsíðunni með tveimur efstu myndaröðunum áður en sagan sjálf í rauninni hefst. Hér er það ...
Í upprunalegu útgáfunni frá árinu 1961, sem birtist reyndar í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU, var þessu svolítið öðruvísi farið. Byrjun sögunnar þótti það gróf að höfundunum, þeim Morris & Goscinny, var uppálagt að breyta henni áður en til bókaútgáfu kom árið eftir. Þannig var í raun heilli blaðsíðu kippt úr sögunni. Efsta myndaröðin á fyrstu blaðsíðunni fékk að halda sér en næstu fjórar (neðstu þrjár raðirnar á fyrstu blaðsíðu og efsta röðin á blaðsíðu 2) voru klipptar út. En hér fyrir neðan má sjá fyrstu tvær blaðsíðurnar eins og þær litu út í upprunalegu útgáfunni.
Byrjun sögunnar er auðvitað töluvert öðruvísi svona og líklega má alveg færa réttlát rök fyrir því að láta þessar myndaraðir ekki fylgja með í bókaútgáfunni. Það sem fór einna mest fyrir brjóstið á útgefendunum (Dupuis) var myndaröðin sem sýnir ungabarnið Billa harðneita pelanum í vöggunni, með blótsyrðum og látum, en róast með því að japla á marghleypunni. Þessar tvær blaðsíður hér fyrir ofan koma úr nýlegri danskri útgáfu af bókinni en fyrir nokkrum árum var upprunalegu myndarömmunum aftur bætt inn í söguna. Og það er líka gaman að nefna það að í seinni útgáfum hefur bókakápunni á bókinni um Billa barnunga einnig verið lítillega breytt. Lukku Láki aðhylltist nefnilega heilsusamlegra líferni þegar að líða fór á bókaflokkinn og steinhætti allri óhollustu, í formi bæði áfengisneyslu og reykinga, árið 1983. Í staðinn fór hann að japla óhóflega á grasstráum í staðinn. Ástæða þess var reyndar aðallega viðskiptalegs eðils til að byrja með vegna þess að reykingarleysi kúrekans knáa var í raun aðalforsenda þess að Lukku Láka bókunum yrði hleypt inn á hinn risastóra Ameríkumarkað. Útgefendum Lukku Láka bókanna þótti ástæða til að virkja þá hugmynd afturvirkt eins og hægt var en reyndar var svolítið erfitt að gera þá kröfu að allar sígarettur sögupersónanna yrðu hreinsaðar út úr bókaflokknum við endurútgáfu hennar. Því voru bókakápur seríunnar látnar duga og eftir árið 2006 hefur Lukku Láki eingöngu sést með strá í munninum framan á þeim bókum sem endurútgefnar hafa verið.

22. mars 2019

103. ELDFLAUGARSTÓLLINN

SVEPPAGREIFINN er alltaf nokkuð vel vakandi og opinn fyrir framúrstefulegum hugmyndum sem tengjast teiknimyndasögum æskunnar. Af því tilefni má nefna nokkrar færslur sem hann hefur sett hér inn þar sem meðal annars er minnst á Tinna veggfóður, skemmtilega bókahillu í anda Viggós viðutan og yfirhanlingu af baðherbergi Kolbeins kafteins að Myllusetri. Enn hefur SVEPPAGREIFINN þó ekki látið verða af því að láta neina af þessum hugmyndum verða að veruleika á sínu heimili en það breytir þó ekki því að áfram mun hann halda áfram að birta skemmtilegar pælingar með fleira framandi efni. Á opinberri Facebook síðu Tinna rakst SVEPPAGREIFINN nýverið á athyglisverðan grip sem líklega myndi sóma sér vel á hvaða heimili sem er og það er við hæfi að bjóða upp á Eldflaugastólinn í færslu dagsins.
Og þá er bara að finna sér gamlan leðurstól í Góða hirðinum og kíkja svo í næstu málningarvöruverslun og kaupa sitthvorn lítrann af rauða og hvíta lakkinu. Líklega væri þó ekki æskilegt að sitja í stólnum eftir þá meðferð. Það myndi líklega flagna vel af honum.

15. mars 2019

102. HIN STUTTA SAGA FROSTA OG FRIKKA Á ÍSLANDI

Þegar SVEPPAGREIFINN var barn og allt fram á unglingsaldur hans var útgáfa myndasagna í hvað mestum blóma á Íslandi. Þetta var að mestu leyti á seinni hluta áttunda áratugar 20. aldarinnar og töluvert fram á þann níunda en útgáfa teiknimyndasagna hjá íslensku útgáfufyrirtækjunum lognaðist síðan smátt og smátt útaf upp úr árinu 1990. Þá var SVEPPAGREIFINN reyndar orðinn rúmlega tvítugur og eiginlega löngu búinn að missa áhugann á myndasögum bernskunnar. En sá áhugi kviknaði reyndar aftur mörgum árum seinna með auknum þroska. Þó hann hafi kannski verið tiltölulega áhugalaus um þær teiknimyndasögur sem voru enn var verið að gefa út eftir 1985 þá var hann samt alltaf meðvitaður um það sem var að koma út. Fylgdist með því svona út undan sér en var samt ekkert að eltast við þær enda þá orðinn renglulegur og bólugrafinn unglingur sem hafði nóg annað til að hugsa um á þessum árum. Síðustu myndasögurnar sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér með þeim Sval og Val voru kannski þær sem vöktu helstu eftirtektina. Hins vegar voru þær nýju seríur sem voru að detta inn í besta falli forvitnilegar. Á þessum árum voru til dæmis að byrja að koma út á íslensku myndasögur um Gorm, Litla Sval, Yoko Tsúnó og seinni bækurnar um Samma. En svo voru líka aðrar síðri bækur sem SVEPPAGREIFINN leyfði eiginlega alveg að fara fram hjá sér. Kannski voru þessar lakari seríur einmitt hluti af hnignun myndasöguútgáfunnar á Íslandi en skömmu síðar lagðist hún nánast alveg útaf hér á landi - í bili.
En það var fyrir jólin árið 1987 sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér tvær teiknimyndasögur úr nýrri seríu, sem fjallaði um ævintýri þeirra Frosta og Frikka, sem hafði ekki komið út hér á landi áður. Þessar sögur voru sennilega ekkert mjög áberandi í jólabókaflóðinu það ár og það var líklega ekki fyrr en fimmtán til tuttugu árum seinna sem SVEPPAGREIFINN áttaði sig almennilega á tilvist þeirra. Bækurnar tvær nefndust Óðagot á æðri stöðum og Arfur ræningjans og voru þýddar af hinum kunna myndasöguþýðanda Bjarna Frímanni Karlssyni en ári seinna kom svo út þriðja sagan Guli njósnarinn. Þessar þrjár bækur voru þær einu sem komu út í bókaflokknum á íslensku en sú fyrsta, Óðagot á æðri stöðum, var líka sú fyrsta úr upprunalegu röðinni. Arfur ræningjans er bók númer fjögur og Guli njósnarinn númer ellefu. Í fréttatilkynningu frá Iðunni sem send var fjölmiðlum þegar fyrri bækurnar tvær komu út mátti meðal annars lesa eftirfarandi texta: Bækur þessar eru eftir Bob de Moor, sem í rúm 30 ár starfaði hjá Hergé, föður Tinna bókanna, og þykja þessar sögur ekki ósvipaðar sögunum um Tinna. Ekki er nú SVEPPAGREIFINN reyndar alveg sammála þeirri fullyrðingu að sögurnar líkist Tinna bókunum en þó er ákveðinn stíll yfir þeim sem minnir töluvert á verk Hergé.
Þeir félagar Frosti og Frikki nefnast á frummálinu Johan og Stephan en sögurnar fjalla um margvísleg ævintýri þeirra þar sem þeir þvælast um með Sigmari frænda. Reyndar heitir upprunalega serían Oncle Zigomar eða Les Aventures de l'oncle Zigomar sem myndi þá líklega útleggjast sem Sigmar frændi eða Ævintýri Sigmars frænda. Af flestum er bókaflokkurinn þó einfaldlega nefndur Les Aventures de Johan et Stefan, þ.e. Ævintýri Frosta og Frikka. Hugmyndin að nöfnum aðalsöguhetjanna kemur beint frá tveimur sonum höfundarins en annar þeirra, Johan De Moor, fetaði seinna í fótspor föður síns og starfaði einnig lengi hjá Hergé Studios.
Alls komu út 15 bækur í seríunni en elsta sagan La grande pagaille (Óðagot á æðri stöðum) birtist fyrst í belgíska dagblaðinu Nieuws van de Dag seint á árinu 1951. Hún var þó ekki gefin út lituð og í bókarformi fyrr en árið 1987 en það var því í raun sama ár og bókin kom út á íslensku. Allar sögurnar fimmtán voru upphaflega teiknaðar á árunum 1951-56 og birtust mest í belgísku dagblöðunum Nieuws van de Dag og Die Neuwe Gids en einnig eitthvað í öðrum blöðum í Belgíu. Arfur ræningjans (Le trésor du brigand) er til dæmis frá árinu 1952 og Guli njósnarinn (L'espion jaune) birtist fyrst árið 1954 en engin af þessum fimmtán myndasögum voru gefnar út í bókaformi í kjölfar birtinga þeirra, í áðurnefndum dagblöðum, eins og oft var venjan. Það gerðist ekki fyrr en einhverjum áratugum seinna. Sex af þessum fimmtán sögum komu fyrst út í bókaformi ólitaðar hjá Bédéscope útgáfunni á árunum 1979 og 80 en fimm í viðbót voru fullunnar á árunum 1987-94. Síðustu fjórar af sögunum fimmtán komu ekki út í bókaformi fyrr en undir lok ársins 2017 og sú yngsta La canne parlante frá árinu 1956 virðist ekki einu sinni hafa verið lituð þegar hún var þá loksins gefin út í bók. Það er því ósköp lítið samræmi í útgáfu þessarar myndasöguseríu þar sem sögurnar hafa fengið misjafnlega mikla uppfærslu á mismunandi tímum. Bækurnar virðast því ekki vera til í einni heildarútgáfu hjá neinni bókaútgáfu.
SVEPPAGREIFINN gluggaði aðeins í þessar þrjár bækur, sem komu út á íslensku, fyrir um þremur eða fjórum árum og las þær svo aftur núna fyrir þessa færslu auk tveggja annarra bóka úr seríunni sem hann á en hafa ekki komið út hér á landi. Og óttalega fannst honum lítið til þeirra koma miðað við að nokkuð virðist þó hafa verið lagt í vinnu þeirra. Það er alla vega ljóst að sögurnar um Frosta og Frikka eru engin meistaraverk. Þær eru óttalega þunnar en teiknistíll bókanna er þó nokkuð vandaður og að mörgu leyti í anda Hergés. Atburðarás sagnanna er frekar samhengislaus og ruglingsleg á köflum og ber þess augljóslega svolítið merki að hafa verið samdar nánast jafnóðum og þær voru teiknaðar og birtar. Kannski svolítið í anda Tinna í Sovétríkjunum. Litaval Bob de Moor er þó töluvert öðruvísi en hjá Hergé í Tinnabókunum og kannski meira í ætt við brandarana um Palla og Togga eða jafnvel sögurnar um Alla, Siggu og Simbó sem einnig eru eftir Hergé.
Bob De Moor var Belgíumaður sem hét fullu nafni Robert Frans Marie De Moor og var lengi hægri hönd Hergés á vinnustofu þess síðarnefnda á Hergé Studios. Þar hóf hann störf árið 1951 en áður hafði hann meðal annars unnið með Willy Vandersteen að sögunum um Suske og Wiske í myndasögutímaritinu Kuifje sem var hollensk/flæmska útgáfan af Tinna tímaritinu. Við íslenskir lesendur myndasagnanna þekkjum þá seríu auðvitað undir heitinu Ævintýri Sigga og Viggu en SVEPPAGREIFINN fjallaði nýverið aðeins um þann bókaflokk. Áhrif Vandersteen í Ævintýrunum um Frosta og Frikka eru nokkur því persónusköpun höfundarins minna mjög á bækurnar um Sigga og Viggu en einnig einfaldleikinn, húmorinn og óraunsæið. Grunnhugmyndin í báðum bókaflokkunum byggir á sögum um tvö börn sem lenda í ýmsum hættum og fullorðinn frænda eða frænku sem fylgja þeim í ævintýrunum. Reyndar hefur SVEPPAGREIFINN ekki enn rekist á neitt sem segir til um hvort að þeir Frosti og Frikki séu bræður, frændur eða bara vinir.
De Moor starfaði eins og áður segir í rúm þrjátíu ár hjá Hergé Studios og margir vilja meina að þessi fjölhæfi listamaður hafi svolítið fórnað einstökum hæfileikum sínum þar. Sú kunnátta fólst að miklu leyti í því hversu auðvelt hann átti með að skipta á milli teiknistíla og tileinka sér þannig ný vinnubrögð. Hann vann að bakgrunnsteikningum í mörgum af bestu Tinna bókunum hjá Hergé Studios og með tímanum tileinkaði hann sér þannig stíl Hergés. Þann stíl má að miklu leyti sjá í bakgrunnsmyndum í Ævintýrum Frosta og Frikka eins og minnst var á fyrr í þessari færslu. Nafn Bob de Moor fór ekki hátt á sínum tíma og lítt kunnir hæfileikar hans runnu sjálfkrafa inn í verk Hergés og óafvitandi hafa lesendur Tinna bókanna um alla veröld því í rauninni verið að dást að þeim verkum Bob De Moor sem Hergé var skrifaður fyrir. Í dag vita hins vegar allir hver Bob De Moor var. Myndasögurnar um ævintýri þeirra Frosta og Frikka skapaði de Moor hins vegar frá grunni sjálfur mjög snemma á sínum ferli og þær gefa því líklega ekki alveg rétta mynd af einstökum hæfileikum hans.
Eftir dauða Hergé árið 1983 sýndi hann mikinn áhuga á að fá að ljúka ókláruðu verki hans Tintin et l'Alph-Art en ekkja Hergés og rétthafi verksins (Fanny Rodwell) kom í veg fyrir það eftir langa umhugsun. Líklega hefði þó enginn annar getað klárað þá vinnu betur en Bob De Moor en hann lést árið 1992.

8. mars 2019

101. BÍLAKIRKJUGARÐUR BREIÐABLIKS

Það er stutt færsla í dag. En SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að dunda sér við að lesa Steina sterka með fjögurra ára dóttur sinn að undanförnu og það er gaman að segja frá því að ákaflega góður rómur hefur verið gerður af þeim lestri. Fyrst var Rauðu leigubílarnir (Les Taxis rouges - 1960) tekin fyrir og í kjölfarið Sirkusævintýrið (Le Cirque Bodoni - 1969) en nú um stundir fylgist sú litla agndofa með æsispennandi framvindu mála í bókinni um Steina sterka og Bjössa frænda (Tonton Placide - 1968). Sú saga er nú þegar orðin uppáhaldsbókin hennar þrátt fyrir óheyrilegan aragrúa bóka um Bangsímon, Hvolpasveitina og annarra sambærilegra heimsbókmennta uppí hillu. Í það minnsta virðist sem hin ólseigu myndasagnagen föðursins aldna hafi skilað sér rækilega áfram, yfir á næstu kynslóð, heiminum öllum til heilla - hvað sem seinna verður. SVEPPAGREIFINN virðist því vera að gera eitthvað rétt í uppeldinu. En í bókinni um Steina sterka og Bjössa frænda rak SVEPPAGREIFINN augun í myndaramma sem vakti nokkuð kátínu hans. Forsögu þessarar myndar má rekja til þess að Steini sterki var búinn að vera að eltast við harðsvíraðan glæpaflokk, í geysilega hraðri atburðarás, nokkrar blaðsíðurnar á undan. Bófarnir, sem eru reyndar ansi margir, höfðu náð að hrifsa til sín skjalatösku með myndamótum af peningaseðlum furstaríkisins Lindavíu en Steini hefur náð töskunni aftur á sitt vald eftir nokkuð flókið og farsakennt ferli. Að endingu verður nokkurs konar lokauppgjör (í bili) þar sem tveir misyndismannanna ógna Steina úr þyrlu(!) og búa sig undir að ráðast á hann til að taka aftur af honum skjalatöskuna. Steini leggur töskuna hins vegar varlega frá sér, grípur í þyrluna og hendir henni síðan í loftköstum frá sér þar til hún stöðvast innan girðingar hjá BÍLAKIRKJUGARÐI BREIÐABLIKS.
Einmitt! BÍLAKIRKJUGARÐUR BREIÐABLIKS. Þarna hefur SVEPPAGREIFINN grun um að þýðandi bókarinnar Vilborg Sigurðardóttir hafi hugsanlega haft eitthvað með ríg íþróttafélaganna í Kópavogi að gera. Ef svo er hefur þessi bráðfyndni einkabrandari hitt í mark og um leið gefið fylgismönnum HK og ÍK forskot með ódrepanlegum og illafturkræfum minnisvarða um ríg félaganna. Þetta skot á félagið hefur nú verið til skjalfest í bók með Steina sterka í tæp 40 ár og verður varla toppað úr þessu. Eiginlega er þetta aðeins of fyndið.

1. mars 2019

100. HINN FRAMÚRSTEFNULEGI TÚRBOT 1

SVEPPAGREIFINN mun líklega aldrei hætta að hrósa hinum frábæra listamanni André Franquin sem unnendur belgískra teiknimyndasagna eiga svo mikið að þakka. Þessi stórkostlegi teiknari er auðvitað þekktastur fyrir að koma þeim Sval og Val endanlega á þann stall sem þeim bar og ekki síður fyrir að hafa skapað Viggó viðutan og allt það sem honum fylgir. Fjölhæfni Franquins var einstök og fátt sem honum tókst ekki að gera vel en svo voru líka ýmsir hlutir sem hann var alveg sérstaklega laginn við. Franquin var til dæmis einstaklega flínkur við að teikna bíla og það þarf þá ekki nema að minnast aðeins á hinn frábæra Citroen DS sem hann var svo duglegur við að koma á framfæri í myndasögum sínum. Á hann er einmitt aðeins minnst í færslu sem SVEPPAGREIFINN gerði um bíl Viggós viðutan. Í fyrstu Sval og Val sögum Franquins var ákveðin frum- og þróunarvinna í gangi hjá bæði hjá söguhetjunum og höfundinum. Persónurnar þurftu bæði að þróast og þroskast og um leið þurfti líka að finna þá umgjörð sem þeim hæfði. Hvar og hvernig þeir bjuggu til dæmis og svo auðvitað hvers konar lífsstíl þeim hæfði. Eitt af því mikilvægasta var auðvitað á hvernig bíl þeir skyldu vera. Alvöru myndasöguhetjur þurfa jú líka að aka um á alvöru bílum. Það hefði líklega verið lítill sjarmi yfir þeim Sval og Val á til dæmis Volkswagen bjöllu. Að þessu sinni ætlar SVEPPAGREIFINN því aðeins að rúlla yfir bílakost þeirra félaga í teiknitíð Franquins og þá sérstaklega hinn framúrstefnulega Túrbot 1.
En fyrsti bílinn sem þeir Svalur og Valur sáust á í meðförum Franquins var af tegundinni Citroen T, einnig kallaður 5CV árgerð sem var framleidd á árunum 1922-25, en þann bíl átti reyndar Valur einn síns liðs. Líklega muna flestir eftir þessum bíl úr bókinni Baráttan um arfinn (Spirou et les héritiers - 1952) þar sem Valur gerði smávægilegar breytingar á honum til að gera honum kleift að eiga auðveldara með að leggja í bílastæði. Þessi bíll sást ekki í fleirum bókum. Með sögunum Les voleurs du Marsupilami sem kom út í bókaformi árið 1954 og La corne de rhinocéres sem gefin var út árið 1955 er nokkuð endanlegt útlit komið á söguhetjur bókaflokksins og karakter þeirra að fá heilstæðari mynd. Þeir sjálfir breyttust ekki mikið meira í meðförum Franquins þó teiknistíll sagnanna sjálfra ætti enn eftir að þróast töluvert. Í Les voleurs du Marsupilami eiga hvorki Svalur né Valur bíl en Valur fær hins vegar lánaðan bíl (Simca Aronde árgerð 1951) hjá Alfred nágranna sínum sem þeir nota alla söguna. En í bókinni La corne de rhinocéres, sem líklega verður þýdd sem Horn nashyrningsins þegar hún kemur út á íslensku, kemur hið gullfallega farartæki Túrbot 1 fyrst við sögu. Í upprunalegu frönsku útgáfunni heitir bíllinn reyndar Turbot-Rhino 1 þar sem nafn hans vísar í vélarhlífaskraut bílsins en þar standa horn (tvö reyndar) fremst upp úr húddi hans. Þessi þýðing hefur ekki skilað sér í þær íslensku útgáfur af Sval og Val þar sem bíllinn kemur við sögu og hjá okkur heitir bíllinn ýmist Túrbot 1 eða bara Túrbó. Það er að segja í þau fáu skipti sem bíltegundin er nefnd eitthvað sérstaklega. Bókin La corne de rhinocéres er í rauninni að stærstum hluta um uppruna þessa bíls. Sagan fjallar um það að þeir Svalur og Valur fá fyrir tilviljun teikningar af nýjum sportbíl sem Túrbot bílaverksmiðjurnar eiga og harðsvíraðir glæpamenn reyna að komast yfir. Þeim Sval og Val tekst að lokum að koma teikningunum í öruggt skjól og í þakklætisskyni fá þeir gefins sportbifreið af tegundinni Túrbot 1. Það er hinn kunnuglegi ökuþór Eldibrandur (Roulebille) sem fær það hlutverk að afhenda þeim bílinn í lok sögunnar. 
Eldibrandi þessum muna líklega margir eftir úr sögunni Baráttan um arfinn en hann kemur einnig fyrir í aukasögunni Viðburðarlítið sumarleyfi (Vacances sans histories - 1957) sem fylgir bókinni um Sval og górilluapana (Le gorille a bonne mine - 1959). Eitthvað misræmi er hins vegar í þýðingum Jóns Gunnarsssonar á milli bókanna tveggja og líklega hefur hann ekki áttað sig á því að þarna var um að ræða sama manninn. Í síðarnefndu sögunni nefnist kappinn nefnilega Ökujói. Í Baráttunni um arfinn keppti Valur á kappaksturbíl frá Túrbot bílaverksmiðjunum í kappaksturskeppni og þaðan er einmitt tengingin við Eldibrand/Ökujóa komin.
Túrbot bíllinn sem þeir félagar eignast er auðvitað alveg stórglæsilegur og þeir Svalur og Valur verða himinlifandi yfir að eignast slíkan grip. Í næstu sögum á eftir kemur Túrbot bíllinn reglulega fyrir en þó mismikið. Hann sést lítillega í næstu sögu Burt með harðstjórann (Le dictateur et le champignon - 1956), La Mauvaise tête frá árinu 1957 sem enn hefur ekki komið út á íslensku og Svamlað í söltum sjó (Le repaire de la murène - 1957). En alls kemur bíllinn fyrir í níu sögum - þó misjafnlega mikið. Smásagan Viðburðarlítið sumarleyfi er síðasta sagan sem Túrbotinn kemur fyrir í en á þeim tímapunkti fannst Franquin vera kominn tími á nýjan bíl fyrir Sval og Val og um leið, einhverra hluta vegna, nauðsynlegt að fórna þeim gamla. Sagan fjallar því nánast að öllu leyti um gamla góða Túrbotinn og að lokum örlög hans.
Bíllinn fer auðvitað í algjöra köku eins og lesendur bókarinnar muna eflaust eftir og í kjölfarið ferðast þeir félagar tímabundið um á gömlum frönskum De Dion-Bouton árgerð 1912, sem Valur hefur breytt svolítið, við litla hrifningu Svals. Þrátt fyrir að Túrbotinn hafi hlotið þessi sorglegu örlög þá er sagan Viðburðarlítið sumarleyfi klárlega ein af uppáhaldssögum SVEPPAGREIFANS um þá Sval og Val. Í lok sögunnar fá þeir félagar afhendan nýjan bíl, Túrbot 2, sem einnig er nokkuð fallegur á að líta og þar kemur Eldibrandur/Ökujói einmitt aftur við sögu. Það má kannski geta þess að SPIROU blaðið efndi til samkeppni um hinn nýja bíl og lesendur fengu tækifæri til að hafa áhrif á útlit hans og eiginleika. Franquin fékk hundruðir tillagna og ábendinga til að vinna úr fyrir nýja bílinn en sá hlaut einfaldlega nafnið Turbot-Rhino 2. 
Þessi bíll var hins vegar ekki eins áberandi í bókunum sem á eftir komu. Franquin var aldrei fullkomlega ánægður með bílinn en sagan Neyðarkall frá Bretzelborg (QRN sur Bretzelburg - 1966) var sú síðasta þar sem Turbot-Rhino 2 sást. Og reyndar glittir bara örlítið í framendann á honum á einni mynd á fyrstu síðu. Þetta var síðasta bók Franquins í fullri lengd um þá Sval og Val. Hann teiknaði reyndar tvær styttri sögur í viðbót, Apana hans Nóa (Bravo les Brothers - 1966) og Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac - 1968) sem voru gefnar út á íslensku saman undir síðarnefnda titlinum. En í báðum þeim sögum eru söguhetjurnar komnar á litla gullfallega Hondu S800 blæjubíl og þar með var tími hinna skálduðu bíltegunda Svals og Vals í bókaflokknum liðinn. Í framhaldi af því má kannski líka geta þess að Honda S800 var fyrsta bíltegundin sem Honda verksmiðjurnar á Japan settu á markað. Aldrei virðist hins vegar hafa komið neitt sérstaklega fram hvað varð um seinni Túrbot þeirra Svals og Vals. Það var franski listamaðurinn Jean-Claude Fournier sem tók við keflinu af Franquin og í þeim níu sögum sem hann teiknaði óku þeir Svalur og Valur Hondunni í fyrstu en skiptu síðan yfir í Renault 5. En það er önnur saga. Eins og áður segir var André Franquin einstaklega flínkur við að teikna bíla. Það var ekki bara að hann hefði alveg sérstaklega gott auga fyrir einmitt þessu viðfangsefni heldur var það líka ákveðin ástríða hjá honum. Um tveggja ára skeið, árin 1956-57, sinnti hann til dæmis bílaþættinum Starter í SPIROU tímaritinu en þurfti að segja sig frá verkefninu vegna anna og Jidéhem tók við af honum.
Franquin sagði sjálfur oft frá því hvernig hann hefði notað hvert það tækifæri sem gafst, í sögum sínum, til að teikna hinn franska Citroen DS sem minnst var á í byrjun færslunnar. Þann bíl notaði Zorglúbb til dæmis bæði til daglegra nota og eins til annarra verkefna. En auk þess sást Citroen DS nánast í hverri einustu Sval og Val sögu sem Franquin teiknaði og einnig oft í bröndurunum um Viggó viðutan. Svalur og Valur óku þó aldrei sjálfir þessari tegund þó hún væri áberandi í bókaflokknum. Margir þeirra listamanna sem unnu að vinsælustu myndasögunum í Belgíu voru áhugamenn um fallegar bifreiðar og í sumum af þessum sögum voru bílarnir hreinlega í aðalhlutverki. Sérstaklega franskar bíltegundir. Margar þessar sögur fjölluðu þá ýmist um kappaksturkeppnir eða hasar með hraðskreiðum sportbílum. Flestir litu þó á bíla í teiknimyndasögum eingöngu sem nauðsynleg farartæki, sem voru aðeins eðlilegur hluti af atburðarrásinni, eða jafnvel bara til uppfyllingar eins og hvern annan bakgrunn. Í þessum myndasögum öllum voru bíltegundirnar í langflestum tilfellum þekktar fyrir og lesendur bókanna þekktu bílana úr sínu daglega lífi. Þannig var það líka hjá Franquin til að byrja með. En þegar hann tók þá ákvörðun að þeir félagar Svalur og Valur yrðu á farartæki sem þeir ættu sjálfir ákvað hann að láta sína eigin sköpunargáfu ráða ferðinni. Og þar fékk hann líka svo sannarlega tækifæri til að láta bæði hugmyndaflugið og hæfileika sína njóta sín.
Þegar Franquin fór af stað með þetta verkefni árið 1952 lagði hann upp með það að hafa bílinn mjög framúrstefnulegan en um leið fallegan og sportlegan. Bíllinn þótti strax langt á undan sinni samtíð og fátt við hann virðist vera hægt að tengja við árgerð af bíl frá árinu 1952. Listamaðurinn hafði hinar straumlínulöguðu línur Citroen DS klárlega til hliðsjónar þegar hann teiknaði og hannaði Turbot-Rhino 1 en einnig mun hann hafa verið sérstaklega innblásinn af hinum frumlega franska sportbíl SOCEMA-Grégoire árgerð 1952 sem sjá má hér.
SVEPPAGREIFINN verður reyndar að viðurkenna að þessi bíll er ekki að heilla en þó eru einhverjar línur í honum sem gera hann líkan Turbot-Rhino 1. Samt eru þeir eitthvað svo ólíkir. En í meðförum Franquins þurfti bíllinn auðvitað að geta sinnt öllum þeim hugsanlegu aðstæðum sem kynnu að koma upp hjá sportbíl í eigu myndasöguhetja. Bíllinn er til dæmis svo vel búinn að hafa dráttarkúlu sem kom sér einkar vel í bókinni Svamlað í söltum sjó. Í þeirri sögu kom einmitt upp sú staða að þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn þurftu að flytja köfunarhylki (sem koma mikið við sögu í bókinni) í yfirbyggðri kerru. Reyndar sést þessi dráttarkúla aldrei á bílnum en það er auðvitað algjört aukaatriði. Svo er að sjálfsögðu ekki alltaf sumar og sól í teiknimyndasögum og einstaka sinnum hefur komið upp sú staða að rigni þegar nota þarf bílinn. Við þær aðstæður getur verið afar óheppilegt að vera á opnum sportbíl. En Franquin leysti það vandamál með smekklegri, svartri blæju sem prýðir bílinn afskaplega vel. SVEPPAGREIFINN minnist þess þó ekki að hafa séð blæjuna í notkun á bílnum nema þrisvar sinnum í sögunum. Í byrjun bókarinnar Burt með harðstjórann, í sögunni Svamlað í söltum sjó og í bókinni La Mauvaise tête.
Þó að hinn blái Turbot-Rhino 1 Franquins hafi horfið á vit feðra sinna í sögunni Viðburðarlitlu sumarleyfi árið 1957 þá er þó ekki þar með sagt að bíllinn hafi ekki átt afturkvæmt í myndasöguseríunni. Í seinni tíma útgáfum af bókunum um Sval og Val, bæði í upprunalegu seríunni og í hinum Sérstöku ævintýrum Svals ... (Série Le Spirou de…), hefur hinn goðsagnarkenndi Turbot-Rhino 1 margoft verið endurvakinn. Reyndar liðu heil 47 ár þar til hann birtist á ný í upprunalegu seríunni. En í bókinni Paris-sous-Seine, eftir þá Morvan og Munuera frá árinu 2004, má sjá hvar glittir í framenda bílsins á blaðsíðu 14 innan um gamalt og kunnuglegt dót úr eldri Sval og Val bókum. Bíllinn er þó ekkert notaður í sögunni. Í bókinni Aux sources du Z frá árinu 2008 kemur Túrbotinn meira við sögu. En skýringuna á því má reyndar rekja til tímaflakks þeirra Svals og Vals þar sem þeir verða vitni að ýmsum atburðum tengdum þeim sjálfum úr gömlu bókunum. Og þar má meðal annars sjá Sval uppi í tré horfa á augnablikið þar sem þeir eignuðust bílinn upprunalega í sögunni La corne de rhinocéres sem minnst var hér á snemma í færslunni.
Í Aux sources du Z má einnig sjá lélegasta bílstjóra í heimi, olíukónginn Ibn Maksúd, sem margir muna eftir úr Viðburðarlitlu sumarleyfi en að þessu sinni er hann á grænum Turbot-Rhino 1. En í bókinni Dans les Griffes de la Vipère frá árinu 2013, eftir þá Yoann og Vehlmann, birtist bíllinn enn á ný og sömu sögu má segja um næstu bók á eftir, Le groom de Sniper Alley eftir sömu höfunda, en þá Sval og Val sögu þekkja íslenskir lesendur undir heitinu Vikapiltur á vígaslóð sem kom út hjá Froski fyrir jólin árið 2015. Í þeirri bók má reyndar sjá báðum Túrbot bílunum bregða fyrir á sömu myndinni á blaðsíðu 5 en reyndar sést bíllinn aðeins tvisvar í sögunni og leikur því augljóslega ekki stórt hlutverk í það skiptið. Ekki hefur fengist skýring á því hvers vegna Turbot-Rhino 1 þeirra Svals og Vals sést þar aftur í seríunni. 
Þá er augljóst að bíllinn er ofarlega í hugum þeirra listamanna sem komið hafa að hliðarseríunni vinsælu Sérstöku ævintýrum Svals ... sem því miður hefur ekki enn verið gefin út í íslenskri þýðingu. Við snögga talningu SVEPPAGREIFANS virðist sem Turbot-Rhino 1 komi fyrir í að minnsta kosti þremur sögum úr þeim bókaflokki en alls eru þær bækur nú orðnar fjórtán talsins. Bílinn má meðal annars sjá framan á kápu bókarinnar Le Tombeau des Champignac úr aukaseríunni.
Og svo var ekki hjá því komist að framleitt yrði eins og eitt eintak af þessum fallega bíl - Turbot-Rhino 1. Það var ítalski sportbílahönnuðurinn Franco Sbarro sem tók að sér verkið og sá um að smíða þetta eintak sem kom á götuna árið 2004. Verkefnið var að sjálfsögðu meðal annars unnið upp úr myndarömmum úr sögunum um Sval og Val en einnig hafði hann til hliðsjónar vinnuteikningar Franquins og skyssur og útlitsteikningarnar af bílnum sem birst höfðu í Starter bílaþætti SPIROU blaðsins. Bíllinn er kannski ekki alveg eins fullkominn og sá sem þeir Svalur og Valur óku um á en hann virkar þó vel. Að sögn er hann byggður á grind og undirvagni af Citroen Xantia Activa V6 og er því einnig með vél úr sömu bíltegund en ekki kemur þó nein staðar fram af hvaða árgerð bíllinn er. Sá Citroen er þó alla vega sæmilega kraftmikill. En fallegur er hann þó bíllinn sé reyndar ekki alveg nákvæmlega eins og frumgerðin.