Viggó viðutan er auðvitað algjörlega frábær myndasögupersóna og höfundur hans André Franquin var alveg hreint stórkostlegur listamaður sem gat á einhvern ótrúlegan hátt fangað mikilvægt augnablik í einni mynd en um leið fyllt hana með alveg helling af smáatriðum án þess þó að það hefði nokkur áhrif á heildarmyndina. Þetta átti alveg sérstaklega við á skrifstofunni hjá Viggó þar sem óreiðan og ruslið fékk að njóta sín.
SVEPPAGREIFINN á sér nokkrar uppáhaldsmyndir úr bókunum um Viggó og mun örugglega verða duglegur að deila þeim hér, sjálfum sér og öðrum til ánægju og yndisauka. Fyrsta myndin sem hann ætlar að birta er þó ekki af skrifstofunni hjá Sval, heldur af knattspyrnuvellinum. Í einum brandaranum, í bókinni Viggó Hinn óviðjafnanlegi, liggur Viggó sofandi fram á skrifborðinu (eins og svo oft) og dreymir fallega drauma um eigin hæfileika og getu á hinum ýmsu íþróttasviðum. Þarna dreymir hann meðal annars um afrek á hlaupabrautinni, hjólreiðakeppnum og hnefaleikum en á einni myndinni á draumur um leynda knattspyrnuhæfileika hug hans allan. Eða eins og segir í textanum með myndinni, "... Varnarmenn fyllast skelfingu, þegar Viggó geysist fram ...JÁ OG MARK! ÞRUMUSKOT! Hann er örugglega orðinn besti leikmaður Evrópu!...", um leið og hann neglir tuðrunni með óskiljanlegu utanfótarskoti upp í blávínkilinn. Þetta er náttúrulega alveg ótrúlega flott mynd.
Ekki er SVEPPAGREIFINUM vel kunnugt um hversu mikill áhugamaður Franquin var um knattspyrnu en hann teiknaði þó fáeina aðra fótboltatengda brandara um Viggó þar sem hann var oftar en ekki í marki hjá áhugamannaklúbbi sem nokkrir félagar hans af skrifstofunni léku einnig með. En einnig má finna sögur um Sval og Val eftir Franquin þar sem fótbolti kemur við sögu. Franquin teiknaði þennan brandara árið 1972 og hefur líklega verið undir áhrifum af blómatímabili nágranna sinna frá Hollandi. Hollensk lið einokuðu Evrópukeppni Meistaraliða (eins og hún hét þá) á þessum árum og Ajax frá Amsterdam vann þessa keppni þrjú ár í röð með Johan heitinn Cruyff í aðalhlutverki. SVEPPAGREIFINN fær ekki betur séð en að Viggó sé einmitt klæddur í búning Ajax á myndinni.
Ekki er SVEPPAGREIFINUM vel kunnugt um hversu mikill áhugamaður Franquin var um knattspyrnu en hann teiknaði þó fáeina aðra fótboltatengda brandara um Viggó þar sem hann var oftar en ekki í marki hjá áhugamannaklúbbi sem nokkrir félagar hans af skrifstofunni léku einnig með. En einnig má finna sögur um Sval og Val eftir Franquin þar sem fótbolti kemur við sögu. Franquin teiknaði þennan brandara árið 1972 og hefur líklega verið undir áhrifum af blómatímabili nágranna sinna frá Hollandi. Hollensk lið einokuðu Evrópukeppni Meistaraliða (eins og hún hét þá) á þessum árum og Ajax frá Amsterdam vann þessa keppni þrjú ár í röð með Johan heitinn Cruyff í aðalhlutverki. SVEPPAGREIFINN fær ekki betur séð en að Viggó sé einmitt klæddur í búning Ajax á myndinni.
Þarna má einmitt líka sjá á ljósmyndurunum, við hliðina á markinu, hvernig Franquin dundaði sér við smáatriðin en uppáhald SVEPPAGREIFANS í þessari mynd er þó að sjálfsögðu áhorfandinn fyrir ofan leikmann númer fjögur.
SVEPPAGREIFINN mun halda áfram að birta úrval af uppáhaldsmyndunum sínum úr myndasögusafninu sínu í náinni framtíð ...
SVEPPAGREIFINN mun halda áfram að birta úrval af uppáhaldsmyndunum sínum úr myndasögusafninu sínu í náinni framtíð ...