7. ágúst 2020

171. MEÐ ÞEIM VERRI

Það eru eflaust einhverjir sem hafa áttað sig á því að SVEPPAGREIFINN heldur úti bloggsíðunni Hrakförum og heimskupörum þar sem hann sérhæfir sig í umfjöllunum um þær teiknimyndasögur sem komið hafa út á íslensku. Þar fer hann stundum hamförum við að kryfja hina ólíkustu kima þessa áhugamáls síns og kemur þar jafnan nokkuð víða við. Í fæstum tilfellum er þó eitthvað vit í því sem hann lætur frá sér. Yfirleitt reynir SVEPPAGREIFINN að fjalla um þessi nördalegu áhugamál sín á sem hlutlausastan hátt en þó kemur einnig fyrir að hann láti tilfinningarnar ráða. Þannig á hann það auðvitað til að hrósa því sem honum finnst vel gert og er í uppáhaldi en einnig getur hann skammast eða nöldrað út af efni sem honum finnst ekki undir neinum kringumstæðum vera neitt vit í. Slíkt mat er þó að sjálfsögðu mjög afstætt og ber ekki að taka af mikilli alvöru enda er smekkur fólks afar ólíkur og misjafn. Einhvern tímann snemma á ferli Hrakfara og heimskupara tók hann til dæmis saman færslu sem fjallaði um það sem hann taldi vera nokkrar af verstu myndasögunum í eigu SVEPPAGREIFANS og í annað skipti taldi hann sig (reyndar af svolítilli illgirni) hafa fundið út hver væri alversta myndasagan sem gefin hefði verið út á Íslandi. Bókin Hin fjögur fræknu og geimskutlan hlaut þann vafasama heiður hjá síðuhafa og á þeim tímapunkti hafði hann ekki grun um að þann botn væri mögulega hægt að botna. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN reyndar að fullyrða að honum hafi tekist að finna myndasögu sem er enn verri en áðurnefnd Hin fjögur fræknu bók en óneitanlega er hann nú búinn að finna afar slaka bók.
En fyrst ... SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum minnst aðeins á það hér hvaða bækur myndasöguhillur hans hafa meðal annars að geyma. Uppistaða þeirra bóka er að sjálfsögðu mest íslenskar teiknimyndasögur en það safn er þó ekki alveg tæmandi. Í hillurnar vantar fáeinar myndasögur sem SVEPPAGREIFINN hefur ekki lagt mikið á sig við að nálgast en eru samt til á sérstökum bókalista hans sem dreginn er fram við þar til gerð tækifæri. Þetta er ein og ein myndasaga sem hann grípur með sér, þegar hann sér þær, ef bækurnar eru vel með farnar og ódýrar. Flóknara er það ekki og svipaða sögu má eflaust heyra frá öðrum aðilum sem safna myndasögum. Á þessum lista eru núna til dæmis ein eða tvær bækur með Hinum fjórum fræknu, ein Goðheima bók og bókin um Alla Kalla svo einhverjar þeirra séu nefndar. Og svo eru á listanum reyndar líka myndasögurnar um Trilla og Silla, Stjána bláa og Bleika pardusinn. Síðarnefndu bækurnar átti SVEPPAGREIFINN aldrei sem barn og hafði reyndar aldrei gerst svo forvitinn (eða hugaður) að fletta í gegnum þær. Þær bækur voru allar gefnar út af Fjölva útgáfunni og komu út á árunum 1979-80. Þarna var Þorsteinn Thorarensen hjá Fjölva búinn að senda frá sér allar Tinna bækurnar og var nú að einbeita sér að því að koma Lukku Láka bókunum út á færibandi. Myndasöguútgáfan á Íslandi var einmitt að ná hápunkti á þessum árum og helstu útgefendurnir voru að prófa sig áfram með efni í þessu vinsæla bókaformi. Bókaútgáfan Iðunn náði að landa vinsælum seríum eins og Sval og Val, Viggó viðutan, Strumpunum og Hinriki og Hagbarði og Fjölva útgáfan fór því að prófa sig meira áfram með myndasögur sem komu ekki frá fransk/belgíska svæðinu. Trilli og Silli, Stjáni blái og Bleiki pardusinn tilheyra einmitt þeim bókum. Þessar teiknimyndasögur hafa verið nokkuð lengi á hinum áðurnefnda lista SVEPPAGREIFANS og fyrir fáum vikum rakst hann einmitt á ódýrt og ólesið eintak af Bleika pardusinum en sú bók heitir einfaldlega Bleiki pardusinn leikur lausum hala. Það er einmitt hún sem er umfjöllunarefni dagsins.
Nú er það yfirleitt svo að þær myndasögur sem bætast í safn SVEPPAGREIFANS, og teljast ekki á meðal hinna vinsælustu eða bestu, fara jafnan óskoðaðar á sinn stað í hillurnar. Í augum eigandans eru þessar afgangsbækur einfaldlega bara nauðsynlegur hluti af safninu hans og teljast því sjaldnast áhugaverðar til lestrar. Það kemur þó fyrir stöku sinnum að ein og ein myndasaga er gripin löngu seinna af handahófi úr hillunum og gluggað í þær í rólegheitunum. Þannig gerðist það til dæmis með hina arfaslöku teiknimyndasögu Hin fjögur fræknu og geimskutlan. Bleiki pardusinn leikur lausum hala fór þó aðra leið. Bókin lenti efst í stafla af myndasögum, sem átti eftir að ganga frá, og blasti því við SVEPPAGREIFANUM við óvænta tiltekt. Hann greip því bókina til handagagns og er nú ekki aðeins búinn að fletta í gegnum þessa myndasögu heldur tók hann sig einnig til og hreinlega las bókina. Og svo aftur sé komið inn á það sem nefnt var í upphafi þessarar færslu þá er það þessi bók, Bleiki pardusinn leikur lausum hala, sem telst þessi slaka myndasaga sem þar var minnst á. Það er þó kannski ekki alveg sanngjarnt að segja að þessi bók sé jafningi hinnar verstu bókar (með fullri virðingu fyrir Hinum fjórum fræknu) en ansi er hún léleg.
Myndasögurnar um Bleika pardusinn sem komu út á Íslandi voru raunar tvær og þetta er fyrri bókin. Hin heitir Bleiki pardusinn - Keikur á kreiki og eftir því sem SVEPPAGREIFINN best veit er þá bók ekki að finna í myndasöguhillum heimilis hans. Ekki enn þá að minnsta kosti. Svolítið ósamræmi er með brot þessara tveggja bóka því Bleiki pardusinn leikur lausum hala, sem kom út árið 1979, er harðspjaldaútgáfa en Bleiki pardusinn - Keikur á kreiki er hins vegar í mjúku kiljubroti, sambærilegu Ástríks bókunum, og kom út árið 1980. Fjölva útgáfan hefur áttað sig á því, eftir að fyrri bókin kom út, að líklega væri ekki réttlætanlegt að kosta mjög miklu til bókar númer tvö í seríunni. Sú ráðstöfun virðist hafa verið eðlileg og sanngjörn því ekki komu fleiri bækur út hér á landi með Bleika pardusinum. Þessar bækur eiga því ósköp litlar tengingar við þær teiknimyndasögur sem verið var að gefa út hér á landi á þessum árum. Þær eru miklu meira í ætt við myndasögublöðin með Gög og Gokke eða Tomma og Jenna sem Siglufjarðarprentsmiðjan var að gefa út á svipuðum tíma. Snöggsoðnar, stuttar, einfaldar og fjöldaframleiddar sögur, unnar upp úr teiknimyndum og ætlaðar frekar ungum lesendum, en með afskaplega takmörkuðum gæðum. 
Líkt og áður kom fram eru þessar myndasögur ekki af fransk/belgíska málsvæðinu. Bækurnar um Bleika pardusinn, Stjána bláa, Denna dæmalausa, Köttinn Felix og Trilla og Silla eru auðvitað byggðar á þessum amerísku teiknimyndum sem allir þekkja en koma þó frá sitthvorum framleiðslufyrirtækjunum vestan hafs. Upprunalegu sögurnar um Bleika pardusinn birtust í sérstökum Pink Panther blöðum, á sjöunda og áttunda áratuginum í Bandaríkjunum, sem nefndust ýmist The Pink Panther and the Inspector eða bara The Pink Panther en útgáfufyrirtækið Gold Key Comics gaf þau út þar. Til Íslands virðast þær koma í gegnum samstarf við sænska útgáfufyrirtækið Semic Press sem gáfu sögurnar út undir heitinu Rosa Pantern þar í landi. Í íslensku bókunum tveimur hefur þessum sögum verið safnað saman, átta í hvorri bók, og í því formi voru þær einnig gefnar út á nágrannalöndunum og eflaust víða. Svo vinsælar voru þessar myndasögur reyndar á Norðurlöndunum að Semic Press framleiddi sínar eigin sögur með leyfi Gold Key Comics og svo virðist sem það séu einmitt þær útgáfur sem birtust í íslensku bókunum tveimur. Ýmsir höfundar komu að þessum myndasögum en fyrir íslensku útgáfunum eru einfaldlega skrifaðir Mirisch og Geoffrey sem er í raun bara hluti af amerísku framleiðslufyrirtæki og því ekki beinir höfundar.
En hvað varðar hina lélegu teiknimyndasögu, Bleiki pardusinn leikur lausum hala, þá er það afskaplega döpur bók og hreint með ólíkindum að Fjölvi skuli hafa látið draga sig út í þá útgáfu. Fjölvi hafði gert mjög vel með útgáfum sínum á bæði Tinna, Lukku Láka og Ástríks bókunum og metnaður útgáfunnar á öðru efni hefði því kannski átt að liggja í svolítið hærri gæðaflokki. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins velt fyrir sér ástæðunum en líklega hefur Iðunn verið búin að tryggja sér alla bestu bitana frá belgíska myndasögusvæðinu á þessum tíma. Útgáfa Fjölva á þessum B-vörum sínum hafi aðeins verið örvæntingafull tilraun til að reyna að hanga í keppinautunum. Fjölvi var auðvitað enn að gefa út Lukku Láka bækurnar en Iðunn hafði samt klárlega tekið forystuna á hinum litla íslenska myndasögumarkaði á þeim árum. Það var Þorsteinn sjálfur sem þýddi bókina Bleiki pardusinn leikur lausum hala og líklega er það textameðferðin sem er mest að trufla hinn nöldurgjarna SVEPPAGREIFA. Allur texti bókarinnar, hvort sem hann kemur fyrir í talblöðrunum, titlum hinna átta sagna eða einföldum skýringartexta, er settur upp á þann hátt að hann virkar mjög fráhrindandi - alla vega fyrir SVEPPAGREIFANN. Textinn er í einhvers konar óútskýranlegum orðaleikjum, bundnu máli eða ljóðaformi, sem hugsanlega má skilgreina sem nokkurs konar þulur eða hreinlega í rappstíl og er afskaplega truflandi. Hvort Þorsteinn ákvað sjálfur að setja textann upp á þennan hátt eða hvort hann var bein þýðing úr upprunalegu bókinni skal ósagt látið en hvimleiður er hann - þ.e.a.s. textinn!
Nú skal það reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN er auðvitað ekkert eins og fólk er flest. Hann er til dæmis gæddur þeim einkennilegu eiginleikum að vera mjög torlæs á ljóð og kvæði og hefur jafnvel skilgreint eða greint sig með einhvers konar ljóðblindu - hvað sem það nú er. Kannast einhver við hugtakið eða sambærilega greiningu? Hann les reyndar mikið en við lestur hleypur hann ávallt yfir allt sem heitir ljóð eða kvæði í bókunum. Í sögunum um Harry Potter sleppti hann til dæmis öllum kvæðum og í Hringadróttinssögu hljóp hann jafnvel yfir heilu blaðsíðurnar á löngum köflum án þess að líta einu sinni á þær. Það þarf víst ekki að taka það fram að ekki er til ein einasta ljóðabók á heimili hans og hann fær nánast ofnæmisviðbrögð við það eitt að sjá gömlu bláu Skólaljóðin. Með öðrum orðum, SVEPPAGREIFINN skilur ekki ljóð og það er líklega helsta ástæða þess hve hann lætur þessa hvimleiðu Bleika pardus bók fara svona í taugarnar á sér. Hann gat hreinlega ekki einbeitt sér að bókinni. Sjálfsagt eru þó einhverjir aðrir lesendur bókarinnar sem hafa gaman af þessari uppsetningu textans en, eins og klárlega kemur fram í framgreindu máli, er textaformið SVEPPAGREIFANUM hins vegar engan veginn að skapi.
Eins og áður segir eru sögurnar í Bleiki pardusinn leikur lausum hala átta talsins en þær eru reyndar mislangar. Ein þeirra er til dæmis bara fjórar blaðsíður að lengd og önnur átta blaðsíður en hinar eru allt þar á milli. Þessar stuttu sögur eru auðvitað mjög einfaldar, enda ætlaðar ungum lesendum, og eru líklega að einhverju leyti byggðar á hinum sígildu teiknimyndum um Bleika pardusinn sem SVEPPAGREIFINN hafði reyndar nokkuð gaman að í æsku. Í grunninn fjalla þær allar um stutt ævintýri Bleiks þar sem hann leikur jafnan aðalhlutverkið gegn litla kallinum (sem byggður er á persónu Inspector Clouseau) en sá gegnir mörgum misjöfnum hlutverkum í bókunum. Allar sögurnar byggjast því á heppni Bleika pardusins og þá um leið óheppni þess litla
SVEPPAGREIFINN var í svolitlum vafa um hvort hann ætti yfir höfuð að vera nokkuð að fjalla um þessa bók í Hrakförum og heimskupörum. Bókin tilheyrir ekki hinum hefðbundna fransk/belgíska myndasögupakka, sem naut hvað mestra vinsælda á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar, heldur er hún meira í ætt við amerískar afþreyingamyndasögur fyrir börn. En þetta er víst samt myndasaga, sem kom út á íslensku, og þar með hefur hún unnið sér inn rétt til þátttöku þótt ekki teljist hún beint til áhugasviðs síðuhafans. Ætli SVEPPAGREIFINN eigi þá ekki líka einhvern tímann á næstunni eftir að fjalla um útgáfur Siglufjarðarprentsmiðjunnar, sem mokuðu út myndasögublöðunum um nokkurra ára skeið, með Tarzan og Son Tarzans fremsta í flokki. Enn er alla vega af nægu en misáhugaverðu efni að taka í myndasöguforminu til að fjalla um.

24. júlí 2020

170. KRISTJÁN GAMLI DÝRFJÖRÐ

Bækurnar um Sval og Val hafa verið í ansi miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM frá því hann var gutti en í þeim myndasögum má finna fjölda skemmtilegra persóna. Margoft hefur komið fram, hér á Hrakförum og heimskupörum, hve sögur Franquins eru hátt skrifaðar hjá síðuhafa en óhætt er að segja að í grunninn hafi hann átt mestan þátt í vinsældum þessara myndasagna á sínum tíma. Í dag ætlar SVEPPAGREIFINN því að skoða lítillega eina af þeim aukapersónum úr bókunum sem komu fram í tíð Franquins. Ekki er þó víst að allir átti sig á því hvaða sögupersóna á hér í hlut þegar nafn hans er nefnt en þó hefur hann birst í heilum tuttugu og sex bókum seríunnar. Hann kom fyrst við sögu í bókinni Il y a un sorcier à Champignac (Sveppagaldrar í Sveppaborg - 2017) árið 1951 og af þeirri staðreynd má auðvitað ráða að hann sé hugarfóstur André Franquin. En reyndar hefur hann birst hjá nær öllum höfundum seríunnar síðan. Á frönsku heitir hann Duplumier og í íslensku útgáfuröðinni birtist hann fyrst, nafnlaus reyndar, í bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence). Og það er ekki nóg með að Duplumier hafi komið fyrst fyrir í þeirri bók heldur er hann líka fyrsta persónan sem íslenskir lesendur Sval og Val bókanna fengu að kynnast í seríunni. Duplumier kemur nefnilega nokkuð rækilega fyrir í fyrstu fjórum myndarömmum bókarinnar.
Eins og áður segir er hann ekki nafngreindur í Hrakfallaferð til Feluborgar en næst birtist hann íslenskum lesendum í sögunni Svaðilför til Sveppaborgar (Panade à Champignac) sem var fimmta bók íslensku útgáfuraðarinnar. Áður en lengra er haldið er þó rétt að halda því til haga að í nokkrum af þeim myndasöguseríum, sem verið var að gefa út hjá bókaútgáfunni Iðunni á sínum tíma, var svolítið ósamræmi í nafngiftum margra af aukapersónum bókanna. Skýringuna á því má líklega bæði rekja til mismunandi þýðenda, sem vissu jafnvel ekki af því að persónurnar hefðu birst áður, en sennilega einnig vegna hreinnar gleymsku. Þýðandinn hafi hreinlega ekki áttað sig á að persónan hafði hlotið íslenskt nafn áður í einhverjum af fyrri bókunum. Sem dæmi um það má nefna að í bókaflokknum um Viggó viðutan hét Snjólfur til að mynda fyrst Lárus og herra Seðlan hét sínu upprunalega nafni - herra Mesmaeker. Og í sögunum um Sval og Val hét herra Þamban til dæmis einnig einu sinni Gvendur Spíri. Í bókinni Svaðilför til Sveppaborgar er viðfangsefni þessarar færslu, Duplumier, hins vegar nefndur á nafn í fyrsta sinn hér á landi og kallaðist hann þá Þór.
Og það er reyndar í eina skiptið í seríunni sem Duplumier heitir Þór. Strax í næstu sögu, Gullgerðarmanninum (Le faiseur d'or), heitir hann nefnilega allt í einu orðið Kristján. Hann birtist reglulega í íslensku bókunum næstu árin en það var samt ekki fyrr en í sextándu sögunni Með kveðju frá Z (L'ombre du Z) þar sem hann er næst nefndur á nafn. Þá heitir hann einfaldlega Dýrfjörð. Fjórða nafn hans, Skriffinnur, birtist í Vélmenni í veiðihug (Qui arrêtera Cyanure?) og sama nafni er hann einnig nefndur í smásögunni Hið óttalega Burp sem birtist í bókinni Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou). Það var því úr nokkuð vöndu að ráða, fyrir SVEPPAGREIFANN, að skrifa færslu sem fjallar um sögupersónu sem gengur alls undir fjórum nöfnum í seríunni. Hins vegar sá hann að þeir aðilar sem komu  að bókinni Sveppagaldrar í Sveppaborg, sem var hluti af endurkomu Svals og Vals hjá Froski útgáfu, höfðu lagt metnað sinn í að finna einhvern stöðugleika í nafnavali persónanna í seríunni. Þar er hann nefnilega aftur kallaður Kristján líkt og í bókinni um Gullgerðarmanninn. SVEPPAGREIFINN tók sér því það bessaleyfi að kalla aumingja manninn bara Kristján Dýrfjörð þar til annað kemur í ljós. Þetta voru nöfn sem höfðu bæði birst af honum áður í seríunni og hæfa auk þess vel þessum virðulega en nokkuð seinheppna embættismanni.
Þetta glæsilega meinta nafn, Kristjáns Dýrfjörð, vakti reyndar óhjákvæmilega grunsemdir hjá SVEPPAGREIFANUM um að maðurinn gæti hugsanlega átt sér alnafna hér á landi. Nafnið býður óneitanlega upp á þann möguleika og þó það birtist aldrei nákvæmlega í þessari mynd, í Sval og Val bókunum, þá var forvitnin vissulega vakin hjá stjórnanda þessa bloggs. Það var því ekki hjá því komist að gúggla þetta nafn svolítið fyrir forvitnissakir og gera frekar óvísindalega athugun á því hvort annar slíkur gæti hafa leynst einhvers staðar hér á landi í gegnum tíðina. Og svo reyndist heldur betur vera þegar að var gáð. Í eintaki af Alþýðublaðinu, sem kom út þann 23. júní árið 1942, mátti finna litla klausu þar sem fjallað er um fimmtugsafmæli, hins ísfirska góðtemplara og raffræðing, Kristján Dýrfjörð sem þá bjó reyndar á Siglufirði.
Það gæti hugsanlega einhverjum fundist óviðeigandi af SVEPPAGREIFANUM að vera að tengja myndasögupersónu, úr Sval og Val bókunum, við mann sem löngu er látinn en tekið skal skýrt fram að hér er eingöngu um að ræða skemmtilegan samanburð nafnsins vegna. SVEPPAGREIFANUM gengur að sjálfsögðu ekkert illt til með því. Í Íslendingabók fann hann síðan heila fjóra Kristjána Dýrfjörð í viðbót og þar af eru tveir þeirra enn á lífi. Og svona til þess að fullkomna þennan tilgangslausa, þjóðlega fróðleik þá verður SVEPPAGREIFINN að taka það fram að hann virðist eiga ósköp lítil og langsótt ættfræðileg tengsl við þessa fimm Kristjána Dýrfjörð. En til að loka alveg þessari umræðu um nafngift Kristjáns má taka það fram að á dönsku heitir hann Didriksen, á þýsku Federkiel, á finnsku Sulkapää en á sænsku virðist hann hafa lent í svipuðu ósamræmisferli og hér á Íslandi því þar hefur hann gengið undir nöfnunum Getberg, Lundberg og Grönlund. En á nokkrum öðrum tungumálum, eins og á ensku og portugölsku til dæmis, heldur hann einfaldlega upprunalega franska nafninu sínu og kallast bara Duplumier.
En Kristján Dýrfjörð, það er að segja þessi úr Sval og Val bókunum, er sem sagt eldri og virðulegur embættismaður í ráðhúsi Sveppaborgar og starfar þar sem ritari. Hann er því náinn samstarfsmaður borgarstjórans í bænum en einnig ágætur kunningi þorpsrónans herra Þambans. Þeir borgarstjórinn voru báðir kynntir til sögunnar í Sveppagaldrar í Sveppaborg en herra Þamban birtist hins vegar ekki fyrr en níu árum seinna í Le voyageur du Mésozoïque en sú bók hefur því miður ekki ennþá komið út í íslenskri þýðingu. Kristján telst þannig ein af elstu af aukapersónum seríunnar og var til dæmis kynntur til sögunnar löngu á undan þeim Zorglúbb og Samma frænda, svo einhver dæmi séu tekin, þó ekki leiki hann alveg jafn áberandi hlutverk og þeir. Kristján Dýrfjörð er ávallt mjög snyrtilegur og vel til hafður, í vesti og með slaufu og nánast alltaf eins klæddur. Í fyrstu var hann reyndar alltaf með svartan harðkúluhatt á höfði (líkan þeim sem Skaftarnir úr Tinna bókunum nota) en í Hrakfallaferð til Feluborgar hafði guli hatturinn hans alveg tekið yfir. Kristján er frekar hæverskur, vandaður og rólegur herramaður. Hann er háttvís og trygglyndur borgarstjóranum en um leið kannski svolítið einfaldur og hrekklaus, karlgreyið.
En reyndar er Kristján einnig afskaplega óheppinn þegar kemur beint að aðkomu hans að ævintýrum þeirra Svals og Vals. Í þeim bregst það sjaldan að þar er hann oftar en ekki fórnarlamb. Margar af aðkomum hans tengjast yfirleitt viðveru borgarstjórans en af því má ráða að Kristján sé einhvers konar hægri hönd hans. Í Sveppagöldrum í Sveppaborg kemur reyndar einnig fram að hann starfi sem læknir. Og þar sem Kristján Dýrfjörð býr og starfar í Sveppaborg takmarkast aðkoma hans, að ævintýrum Svals og Vals, af þeim sögum sem gerast á því svæði að öllu eða einhverju leyti. Samt birtist hann á einhvern hátt í tuttugu og sex af þeim sögum sem komið hafa út með þeim félögum. Hann er embættismaður hjá bænum og er því oftast viðstaddur löng og leiðinleg ræðuhöld borgastjórans. En einn helsti munurinn á Kristjáni og öðrum, sem viðstaddir eru þær ræður, er sá að almennt er hann mun hrifnari af orðum borgarstjórans en aðrir.
En annars er Kristján Dýrfjörð eiginlega kunnari í seríunni af annarri ástæðu. Í fyrstu sögunni sem hann birtist í fer hann um gangandi með læknatöskuna sína en í þeirri næstu, Burt með harðstjórann (Le dictateur et le champignon), er hann hins vegar kominn á nýjan bíl. Þar kemur fyrir atvik þar sem Gormur hleypur um nágrenni Sveppaborgar með Metómól í þrýstibrúsa og spreyjar úr því í allar áttir. Allir Sval og Val lesendur þekkja auðvitað þessa uppfinningu Sveppagreifans en Metómólið gerir það að verkum að sá málmur sem það kemst í snertingu við linast upp. Kristján verður fyrir því að efnið úðast yfir hinn nýja bíl hans sem í kjölfarið linast upp og bókstaflega lekur niður.
Miðað við fyrstu viðbrögð hans, eftir það óhapp, er víst óhætt að ætla að maðurinn sé gjörsneyddur öllu ímyndunarafli og fyrirmunað að geta brugðist við hinu óvænta. Hann virðist alla vega ekki vera þeim eiginleikum gæddur að átta sig á að lífið sé hverfult. Og þannig gerist það, að spaugileg skakkaföll á farartækjum Kristjáns Dýrfjörð verða það sem einkennir helst seinheppilega aðkomu hans að sögunum. Þessi rólyndislegi göngugarpur skiptist því á að fara ferða sinna á reiðhjóli, ýmist með eða án hjálparmótors, eða tekur tæknina enn betur í sínar hendur með hæfilega kraftlitlum og hættulausum bifreiðum. Eða ... hættulausum, svona undir flestum eðlilegum kringumstæðum. Áður hefur verið minnst á byrjun Hrakfallaferðar til Feluborgar, þar sem hann flýgur á hausinn á hjóli sínu eftir að hafa mætt Gormi, og í sögunni Le voyageur du Mésozoïque (Fornaldareggið myndi hún líklega heita á íslensku) verður Kristján Dýrfjörð fyrir því að risaeðla stígur ofan á forláta, nýkeyptan bíl hans. Þarna er hann búinn að láta einhvern bílabraskara pranga inn á sig eldgömlum fornbíl og á meðan þeir rölta inn fyrir, til að ganga frá kaupunum, gerir risaeðla Sveppagreifans sér lítið fyrir og trampar hæversklega ofan á skrjóðnum.
Það verður því nokkuð dæmigert fyrir Kristján Dýrfjörð að í hvert sinn sem hann eignast nýtt farartæki, í bókunum, þá lendir hann undantekningalaust í óútskýranlegu óhappi eða slysi með það. Finna má fjölda slíkra tilvika í fyrri hluta bókaflokksins og því má líklega telja nokkuð eðlilegt að hann virki eilítið tortrygginn og fordómafullur gagnvart vélum og tækninýjungum.
Í stuttu sögunni Dularfulla líkneskið (Les Petits Formats) sem er seinni sagan í bókinni Sjávarborginni (Spirou et les hommes-bulles) bregður Kristjáni Dýrfjörð fyrir á nýviðgerðum bíl sínum, á fáeinum myndarömmum, án þess þó að lenda í eiginlegu óhappi á honum. Líkneski af Val liggur þar á miðjun veginum og Kristján er í þann veginn að keyra yfir hann þegar bíllinn stöðvast skyndilega vegna vélarbilunnar. Kristján rekur að vísu andlitið í framrúðuna en þessi "óvænta" bilun kemur í veg fyrir að hann keyri yfir styttuna af Val. Og reyndar, þegar vel er að gáð, sést greinilega að litlir vélahlutir, gormar, boltar og ýmislegt fleira hrynur undan bílnum þegar hann bilar svo snögglega.
Flest þeirra slysa sem tengjast nýfengnum farartækjum Kristjáns Dýrfjörð komu fyrir í teiknitíð André Franquin. Fournier var ekki jafn duglegur að nota hann á þann hátt en nýtti hann frekar við ýmis lítil atvik tengdum borgarstjóranum. Í sögunum þremur sem Nic og Cauvin gerðu kemur Kristján ekkert við sögu en þeir Tome og Janry drógu hann aftur fram í sviðsljósið og komu honum aðeins aftur inn á þá slysabraut sem farartæki hans höfðu áður leitt hann. Það er þó ekki mjög áberandi. Í sögunni Vélmenni í veiðihug birtist hann þó slasaður og illa til reika, á nokkrum myndurömmum, þar sem hann er að ræða við borgarstjórann. Þá hafði hann lent í óhappi á nýja bílnum sínum, eftir að umferðarljósin í Sveppaborg biluðu, þegar rafmagnstæki borgarinnar gerðu uppreisn. Hin gegnumgangandi óheppni Kristjáns Dýrfjörð tengist þó ekki bara óhöppum hans á farartækjum sínum. Í bókinni Með kveðju frá Z verður hann, líkt og margir aðrir íbúar Sveppaborgar, fyrir geislum frá zor-manninum, Nirði lögregluþjóni, sem gengur laus um bæinn og dundar sér við að lama fólk. Þarna situr Kristján, stjarfur eftir zor-geisla Njarðar, á bekk í miðbænum þegar stórvinur hans herra Þamban á leið þar hjá. Bæjarrónanum þykir Kristján eitthvað daufur í dálkinn og bregður því á það ráð að hella í hann töluverðu magni af áfengi til að hressa hann svolítið við. En í sömu mund ber Njörð þar aftur að og lamar herra Þamban, með vænum zor-skammti, sem á því sama augnabliki er einmitt að sturta úr nánast fullri ginflösku ofan í borgarritarann rólynda.
Þegar Sveppagreifinn hefur aflétt hinum stífkenndu lömunareinkennum, af félögunum tveimur, kemur auðvitað í ljós að hinn reglufasti Kristján er uppfullur af illkvittnislegum áhrifum ginflöskunnar. Þá gefst honum gott tækifæri til að beygja svolítið af sínu hefðbundna og reglusama líferni og fer að ráfa um Sveppaborg haugfullur og trallandi. Það gerir hann að sjálfsögðu í félagsskap herra Þambans og miðað við viðbrögð Sveppagreifans virðist sem að slíkur menningaviðburður sé ekkert mjög hefðbundinn eða daglegt brauð hjá þessum annars hægláta embættismanni. Eftirstöðvarnar koma auðvitað fram næsta dag en sökum minnisleysis virðist mórallinn, sem betur fer, ekki vera að há Kristjáni Dýrfjörð neitt sérstaklega. Það eina sem hann kvartar yfir er slæmur hausverkur sem hann tengir beint við zor-geislana.
Í sögunni Le Rayon noir (sem Wikipedia nefnir á íslensku Blökkugeislann), eftir þá Tome og Janry, sýnir Kristján Dýrfjörð reyndar á sér nýja og frekar óvænta hlið. Strax á fyrstu blaðsíðu bókarinnar er hann nefnilega að dunda sér við að mála nafn og titil borgarstjórans á stallinn af styttu hans, á aðaltorgi Sveppaborgar, og virðist bara farast það nokkuð vel úr hendi. Kristján lendir að sjálfsögðu í umferðaróhappi í þessari sögu en hann leikur einnig nokkuð stærra hlutverk í Le Rayon noir en lesendur Sval og Val bókanna eiga að venjast. En í stuttu máli segir þessi saga frá því að Sveppagreifinn smíðar tæki sem breytir litarhætti fólks og Svalur verður óvænt fyrir geislum þess. Hann verður því svartur á hörund og þegar Kristján þekkir hann ekki, vegna hins nýja litarhafts, er Svalur handtekinn fyrir að framvísa röngum persónuskilríkjum. Fljótlega verða stór hluti borgarbúa einnig fyrir blökkugeislunum og einn þeirra er einmitt Kristján gamli Dýrfjörð.
Kristján Dýrfjörð kemur auðvitað mest fyrir í bókum Franquins, enda er embættismaðurinn hugarfóstur hans, en aðrir höfundar seríunnar gefa honum þó tækifæri til að birtast við hentug tækifæri ásamt helstu samferðamönnum hans, herra Þamban og borgarstjóranum. Í mörgum þeirra tilfella sem sögusviðið er Sveppaborg leyfa yngri listamennirnir þessum kunnustu íbúum bæjarins að bregða fyrir en oftast er það þó ekki nema bara í mýflugumynd. En helstu einkenni þeirra allra fá þó að njóta sín í þeim tilvikum og í tilfellum Kristjáns koma farartæki hans því eitthvað við sögu. Aftast í bókinni Aux sources du Z eftir þá Morvan og Munuera er til dæmis fimm blaðsíðna jólasaga sem nefnist Noël sans neige eða Jól án snjós. Í þeirri sögu bregður einmitt fyrir nokkrum af þekktustu íbúum Sveppaborgar og þeirra á meðal má að sjálfsögðu finna hinn seinheppna Kristján Dýrfjörð. Og að sjálfsögðu er hann þar í vandræðum með bílinn sinn.
Í seinni hluta seríunnar fer þeim þó mjög fækkandi þessum tilfellum enda er sögusviðið þá  orðið töluvert fjölbreytilegra, bæði í tíma og rúmi, heldur en í eldri sögunum. Sveppaborg er þó alltaf til staðar öðru hvoru í bókunum. Í sögunni Í klóm kolkrabbans (Dans les Griffes de la Vipère), eftir þá Yoann og Wehlmann, sést hann eitt augnablik, ásamt öðrum kunnum íbúum Sveppaborgar og sömu sögu má segja um bókina Hefnd Gormsins (La Colère du Marsupilami) eftir sömu höfunda. Þar kemur hann fyrir í karnivali sem haldið er í Sveppaborg og klæðist fjölbreytilegum grímubúningi líkt og aðrir gestir og íbúar bæjarins. Þá sést Kristjáni einnig bregða fyrir í bókinni Alerte aux Zorkons þar sem hann sést á nærbuxunum einum fata ásamt mörgum öðrum íbúum Sveppaborgar.
Kristján Dýrfjörð kemur einnig eitt augnablik fyrir í hinni frábæru hliðarseríu Sérstök ævintýri Svals ... (Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir höfundar fá tækifæri til að spreyta sig á þeim Sval og Val utan hefðbundinnar dagskrár. Í þessum bókum er Sveppaborg einmitt nokkuð vinsælt sögusvið en íbúar hennar fá þó sjaldan almennilegt tækifæri til að láta ljós sitt skína. Í fljótu bragði virðist sem Kristján sjáist þar aðeins einu sinni af þeim fjórtán bókum sem komið hafa út í opinberu frönsku seríunni. Í sögunni Le Tombeau des Champignac lendir hann í dæmigerðu óhappi á hjólinu sínu en að öðru leyti lítur hann ekki út fyrir að koma við sögu nema að hugsanlega sjáist í baksvip hans á einni mynd í nýjustu bókinni, Spirou á Berlin.

En núna virðist svo að við vitum ekki bara allt sem við þurftum nauðsynlega að vita um Kristján gamla Dýrfjörð heldur einnig ýmislegt fleira.

10. júlí 2020

169. STIKLAÐ Á STÓRU UM GALDRA MORRIS

Eins og svo margir lesendur teiknimyndasagna á Íslandi, komst SVEPPAGREIFINN nokkuð snemma í tæri við myndasögurnar um Lukku Láka. Það tók hann reyndar líklega tvö eða þrjú ár að átta sig á því hve frábærar þessar bækur voru en það má rekja til þess hversu hann, ásamt bróður sínum, voru uppteknir við að lesa Tinna og Sval og Val til að byrja með. Fljótlega eftir það fóru Lukku Láka bækurnar þó að streyma, eftir því sem við átti, inn á heimili hinna ungu bræðra og þá var ekki aftur snúið. Hin íslenska útgáfuröð bókanna var mörgum lesendum reyndar svolítið umhugsunarefni. Mjög fljótlega áttaði SVEPPAGREIFINN sig á því að bækurnar kæmu alls ekkert út í upprunalegu útgáfuröðinni en það voru líklega fyrst og fremst bækurnar Rangláti dómarinn og Á meðal dóna og róna sem gáfu sterkustu vísbendinguna um það. Þessar sögur voru hrárri og klárlega eldri en hinar bækurnar sem þá voru þegar komnar út. Og þegar bókin Allt um Lukku Láka, var skoðuð, staðfesti hún það með lista yfir frönsku útgáfuröðina en sú röð var gjörólík þeirri íslensku. Sá listi hafði að geyma fjölda bóka fremst í röðinni sem enn var þá framandi íslensku myndasögulesendum en þær sögur sem fremstar höfðu verið í íslensku röðinni voru í raun þá með þeim yngri í þeirri upprunalegu. Allt um Lukku Láka er mjög fróðleg og skemmtileg bók. Í henni má til dæmis finna nokkuð ítarlegar kynningar á höfundunum, þeim Morris og Goscinny, en SVEPPAGREIFINN hefur aðeins fjallað um þann síðarnefnda hér á síðunni. Listamaðurinn Morris og teikningar hans eru hins vegar umfjöllunarefni dagsins á Hrakförum og heimskupörum.
Belgíski listamaðurinn Morris, sem réttu nafni hét Maurice de Bevere, gerði sögurnar um Lukku Láka að ævistarfi sínu og teiknaði kúrekann allt til dauðadags árið 2001. Eftir hann lágu heilar 72 sögur um Láka á 55 árum en hápunktur seríunnar er klárlega á þeim árum sem René Goscinny kom að handritsgerðinni. Morris hóf störf hjá Dupuis útgáfufyrirtækinu rúmlega tvítugur að aldri og vann þar til að mynda með samlöndum sínum þeim Franquin og Jijé. Þeir höfðu áður kynnst hjá teiknimyndafyrirtækinu CBA í Brussel þar sem þeir störfuðu saman ásamt listmanninum Peyo sem seinna varð þekktur fyrir Strumpasögurnar. Lukku Láki birtist síðan fyrst í SPIROU tímaritinu, sem Dupuis gaf út, í byrjun desember árið 1946. Fyrstu sögurnar um hann voru frekar stuttar og einfaldar í sniðum en Morris vann stöðugt að þróun Láka og kúrekinn tók nokkrum breytingum á þessum þroskaárum höfundarins. Hann fór síðan til Bandaríkjanna árið 1948 ásamt félögum sínum, þeim Franquin, Jijé og Will, en saman námu þeir og störfuðu þar að myndasögum um skeið. Hópurinn var kallaður fjórmenningagengið og eru taldir helstu frumkvöðlar myndasögunnar í Evrópu eftir stríð. Morris dvaldist vestanhafs í sex ár og starfaði til að mynda um tíma hjá MAD tímaritinu sem þá var að hefja göngu sína. En í Bandaríkjunum notaði hann einnig tækifærið til að safna saman ýmsum heimildum um villta vestrið. Þar tók hann til dæmis mikið af ljósmyndum og vann einnig töluvert af skissugrunnum þar sem eyðimerkusléttur voru eitt helsta viðfangsefnið. Á tíma sínum vestanhafs var Morris einnig stöðugt að byggja upp og þróa teiknistíl sinn og útlit Lukku Láka fékk smán saman hina endanlegu ásýnd. Í fyrstu höfðu teikningar hans mest verið undir áhrifum annarra listamanna en með tímanum þróaði hann sinn eigin stíl. Dvöl hans í Bandaríkjunum nýttist honum því vel og hafði góð áhrif á teikniþroska hans og alla þróunarvinnu.
Í Bandaríkjunum var Morris einnig mjög duglegur við að sækja kvikmyndahúsin heim þar sem hann stúderaði sjónarhorn með myndasögur í huga. Morris hafði í rauninni verið einn af fyrstu listamönnunum í Evrópu sem vann við teiknimyndir, þegar hann starfaði hjá CBA, og hafði alltaf stefnt að því að vinna við það form vestanhafs. Því hafði hann ákveðið forskot úr kvikmyndageiranum við að prófa sig áfram með þessi sjónarhorn. Í Bandaríkjunum freistaðist Morris einmitt, eins og svo margir, til að reyna að hljóta náð fyrir augum Disney fyrirtækisins fræga en þann draum tókst honum þó aldrei að láta rætast. Frá CBA nýtti hann sér hugmyndina um að byggja upp myndformið í rammanum út frá sama sjónarhorni og áhorfandinn í bíósal. Þessi kvikmyndasjónarhorn voru þó reyndar fleiri listamenn farnir að nýta sér í myndasöguforminu á þessum tíma og útlit teiknimyndasagnanna var óðum að breytast. Hergé var til dæmis farinn að þróa sinn stíl meira í þessa átt í Tinna sögunum og fleiri fylgdu í kjölfarið. Morris hafði reyndar strax í fyrstu Lukku Láka sögunni, Arísóna (Arizona -1880), nýtt sér þetta form og notaði þar raðir mynda til að sýna stuttar og snöggar atburðarásir, ramma fyrir ramma, líkt og í teiknimyndum.
En bíóferðirnar í Bandaríkjunum voru síðan notaðar til að þróa sambærilegar atburðarásir enn frekar. Smán saman komst Morris upp á lagið við að nota þessa formgerð og fljótlega fór hann einnig að þróa önnur sjónarhorn, bæði nærmyndir og víðari skot. Við víðari sjónarhornin fór hann til dæmis að nota miklu stærri myndaramma en lesendur áttu að venjast í frönsk/belgískum myndasögum. Þessar myndir gátu jafnvel tekið hálfa blaðsíðuna sem var algjör nýlunda á þeim tíma. Og aðrir listamenn, eins og til dæmis Franquin, tóku fljótlega einnig að nota svo stórar myndir í sínum sögum. Morris notaði þó alltaf frekar einfaldan og áhrifamikinn teiknistíl en þessir víðmyndarammar gáfu lesandanum kost á að sjá allt ytra umhverfi miklu betur. Þannig áttu þeir auðveldara með að átta sig betur á öðrum aðstæðum, þegar þurfa þótti, og setja þær í samhengi.
Morris var ekki aðeins duglegur við að leika sér með ný sjónarhorn heldur fór hann einnig að dunda sér við að föndra með ýmis sjónræn myndverk sem tengdust speglun eða jafnvel samhverfum. Árið 1951 fékk hann þá hugmynd að nota Dalton bræður sem sögupersónur í einni Lukku Láka bókanna (Eldri Daldónar (Hors la loi)) og skapaði þá á þann hátt að þeir hentuðu einmitt til slíks föndurs. Útgáfa Morris af þeim bræðrum var reyndar töluvert fyndnari en fyrirmyndirnar og hin sjónræna útfærsla þeirra var sérstaklega vel heppnuð. Hann lét alla Dalton bræðurna fjóra líta eins út, fyrir utan það að hæð þeirra var mismunandi eins og við þekkjum auðvitað öll. Hin stighækkandi hæð þeirra bauð upp á skemmtun þar sem Morris gafst endalaus tækifæri til að leika sér með útlitið á þeim. Eitthvað sem öðrum teiknurum hefði líklega ekki einu sinni dottið í hug. Slíkar útfærslur var hann alveg óhræddur við að tileinka sér og varð í raun frumkvöðull á því sviði í Evrópu. Reyndar áttaði hann sig á því að hann hafði gert þau mistök að láta þá bræður deyja í lok sögunnar. En með því að endurskapa Daldónana, í formi frænda þeirra, gafst Morris færi á að halda áfram að leika sér með þá enda birtust þeir seinna í fjölda Lukku Láka bóka. 
Dalton bræðrum var þá oftast raðað upp í beinni línu en fljótlega fór hann einnig að nota þá með ýmiskonar fjarvíddaráhrifum þar sem hinn sjónræni þáttur myndaði einhvers konar kassalaga, rúmfræðilega þrívídd - hvernig sem á nú nákvæmlega að skilgreina það! Þá stillti hann bræðrunum upp í myndarammann, gjarnan með sjónarhorn lesandans ofan frá, á þann hátt að þeir mynduðu ákveðið form, þar sem þeir röðuðust upp, hver á móti öðrum í hring, ferning eða jafnvel kross. Rýmið fyrir slíkar útfærslur kallaði þó oftast á stóra myndaramma en þannig uppstillingar notaði Morris töluvert og náði frábærri leikni við að nota. Í mörgum Lukku Láka bókanna má finna fjölda dæma, með þeim Dalton bræðrunum, þar sem Morris notfærði sér þessa frábæru tækni.
Þá föndraði Morris á fleiri, mismunandi vegu með myndmálið og lék sér ýmsan hátt með sjónarhornin. Hann notaði líka einhvers konar fjarvíddaráhrif, á mjög áhrifaríkan hátt, til dæmis framan á bókinni um Langa Láka (Lucky Luke et Phil Defer) sem kom út í bókarformi árið 1956. Þarna stendur Langi Láki í forgrunninum með bakið að lesandanum en Lukku láki blasir hins vegar við á milli fóta hans. Sitt hvoru megin við Láka standa krárnar og mynda jafnvægi í bakgrunninum, auk þess sem Léttfeti stendur þar öðru megin til hliðar en hrægammarnir eru hinu megin. Morris endurtók þetta form á bókarkápu 20. riddaraliðssveitarinnar (Le 20e cavalerie - 1965) og það má til dæmis einnig finna á Kid Lucky bókinni Kid Lucky - L'Apprenti cow-boy sem Achdé teiknaði árið 2011. En þessi bókarkápa af Langa Láka er af mörgum talin ein sú best heppnaðasta af öllum Lukku Láka bókunum og margir listamenn hafa síðan notað hana sem fyrirmynd að eigin verkum. Allir myndasögulesendur þekkja til dæmis útfærslu Tome og Janry á bókakápu Sval og Val sögunnar Vélmenni í veiðihug auk endalausra tilbrigða af uppstillingunni á kvikmyndaveggspjöldum.
Eitt af því sem Morris var ákaflega flínkur að vinna með voru skuggar. Strax í fyrstu sögunum lagði hann mikla áherslu á að nota skugga á áhrifaríkan hátt og ef grannt er skoðað er hægt að sjá nánast á hverjum einasta myndaramma bókanna hvernig ljós og skuggar hafa spilað stór hlutverk hjá honum. Morris var algjör sérfræðingur með svarta litinn og notaði þá ekki bara í útlínur eða til uppfyllingar á dökkum flötum. Svarti liturinn var mjög mikilvægur hjá honum til að draga fram skarpari skil á mikilvægum sjónrænum atvikum. Hann var til dæmis alveg sérstaklega flínkur við að nota svarta litinn til skyggingar í nætursenum í eldri sögunum.
Þegar Goscinny kom til sögunnar árið 1957, með Þverálfujárnbrautinni, breyttust sögurnar sjálfar töluvert til hins betra. Morris hafði aldrei verið mikið fyrir íþyngjandi og krefjandi handritsstörf og gat nú einbeitt sér að teiknivinnunni en Goscinny sá alfarið um sagnagerðina. Smán saman urðu Lukku Láka sögurnar því hreint frábærar, afköstin jukust og brátt urðu þessar myndasögur gríðarlega vinsælar. Á sama tíma hélt Morris enn áfram að fínstilla stílinn og þróa ýmis smáatriði eða skreytingar í teikningunum sjálfum sem þó fóru algjörlega framhjá lesendum. Með öðrum orðum, sögurnar urðu það góðar að fæstir tóku eftir því hvað teikningar Morris voru orðnar mikil listaverk. Áður hefur verið minnst á skuggana en hann hafði einnig alltaf verið duglegur við að leika sér með litina. Sjálfsagt hafa flestir lesendur til dæmis tekið eftir stökum myndarömmum, í bókunum, sem eingöngu hafa að geyma einn, tvo eða í mesta lagi þrjá liti.
SVEPPAGREIFINN man sjálfur alveg eftir þessum myndarömmum úr Lukku Láka bókunum í æsku en velti þeim þó sjaldnast neitt fyrir sér. En hann minnist þess samt að hafa fundist þessir rammar truflandi eða ódýrir á einhvern hátt. Hann man jafnvel eftir því að hafa velt því fyrir sér hvort listamaðurinn hafi hreinlega ekki nennt að lita myndina til fulls og ætlað sér að sleppa með hana svona einlita og vitlausa. En hér var aðeins um að ræða aðferð hjá Morris til að vekja athygli á ákveðnum þáttum í sögunni hverju sinni eða auka áhrif þeirra. Í sumum myndarammanna virtist hann velja liti eins og bleika, bláa eða rauða fullkomlega tilviljunarkennt en litunum er þó ætlað að leggja áherslur á einstök atriði í myndarammanum. Litirnir gátu því táknað þá stemmningu, sem var í gangi hverju sinni, eða tilfinningar sögupersónanna án þess að þurfa að eyða einu orði í texta til útskýringar. Og í mörgum tilfellum vissi lesandinn því ekki einu sinni almennilega á hvað hann var að horfa þó undirmeðvitund hans hafi hugsanlega vitað það.
Á þessum árum var prenttæknin enn nokkuð vanþróuð og ýmsum takmörkum háð hvað varðar litagæði. Offset tæknin var að byrja að ryðja sér til rúms en var enn dýr og framfarir í prentiðnaðinum takmörkuðust við dýrari bókmenntir. Markaður var kominn fyrir teiknimyndasögur í góðum gæðum en sambærilegar prentanir fyrir ódýr myndasögublöð voru á þessum tíma hins vegar enn allt of dýrar. Ef einhver naut góðs af þessum takmörkunum var það einmitt Morris með hina litasnauðu myndasögur sínar. Margir listamenn hafa síðan nýtt sér þessa tækni hans með litaáhrifin en upprunalega hugmyndin mun þó alltaf vera kennd við Morris.
SVEPPAGREIFINN var svo heppinn, síðastliðið sumar, að fá tækifæri til að glugga aðeins og fletta í gegnum frábæra bók sem nefnist L’Art de Morris og sýnir á mjög skemmtilegan hátt margt af því sem fram hefur komið í þessari færslu. Þetta er um tveggja kílóa dorðantur, í þykku broti sem er á stærð við vínilplötu, með rúmlega 300 blaðsíðum af greiningum, leyndardómum og útskýringum á mörgum af listaverkum Morris úr Lukku Láka bókunum. L’Art de Morris kom út árið 2015 og er eftir þá  Stéphane Beaujean og Jean-Pierre Mercier en þrátt fyrir að bókin hafi verið á frönsku dauðsér SVEPPAGREIFINN eftir því að hafa ekki látið það eftir sér að fjárfesta í gripnum. Þær eru víst orðnar nokkuð margar bækurnar, tengdar teiknimyndasögum, sem SVEPPAGREIFINN hefur séð eftir að hafa ekki verslað og bíða því enn eftir að komast í myndasöguhillurnar hans.

26. júní 2020

168. EITT OG ANNAÐ UM TÝNDAR TINNA BÆKUR

Sögurnar um Tinna eru mörgum myndasöguunnendum afar hugleiknar. Alls komu út, á tæplega fimmtíu árum, tuttugu og þrjár sögur um kappann knáa en sú síðasta Tintin et les Picaros (Tinni og Pikkarónarnir) var gefin út í bókarformi árið 1976. Hinn belgíski höfundur bókanna Hergé (Georges Remi) lést árið 1983 og ekki hafa komið út fleiri Tinna bækur eftir dauða hans en leiða má töluverðum líkum að því að einhverjir séu ósáttir við að ekki hafi orðið framhald á útgáfu bókanna. Hergé lagði ríka áherslu á að Tinni yrði ekki teiknaður af öðrum eftir hans dag og erfingjarnir eru duglegir að halda því til streitu af virðingu við listamanninn. Almennt virðist það vera svo að sjötíu árum eftir lát höfundar fellur höfundarréttur erfingja úr gildi og það er því ljóst að unnendur Tinna bókanna þurfa að bíða til ársins 2053 eftir að næsta löglega Tinna saga getur komið út. Eða til að vera nákvæmur - 1. janúar árið 2054 því rétturinn fellur úr gildi um áramótin sjötíu árum eftir dánardaginn. Og eftir því sem SVEPPAGREIFANUM skilst er nú þegar byrjað að gera ráðstafanir, hvað næstu Tinna bók varðar, hjá þeim sem eiga útgáfuréttinn af sögunum. Við myndasögulesendur eigum nefnilega von á nýrri Tinna bók í byrjun árs 2054! Vinna að þeirri sögu er þó væntanlega afar stutt á veg komin og jafnvel eru líkur á að höfundur þeirrar sögu sé ekki einu sinni fæddur. Og svo er líklegast að þeir einu sem hefðu yfirhöfuð áhuga á þeirri bók, þegar hún loksins kemur út, væru bara eldgamlir myndasögunördar og aðrir söfnunarsérvitringar. Og kannski að SVEPPAGREIFINN verði einn af þeim ef hann tórir svo lengi. Allar aðrar yngri kynslóðir þurfa líklega að grúska í gömlum handritum til að komast að því hvað í ósköpunum þetta Tinni er!
En Tinna bækurnar tuttugu og þrjár komu nokkuð reglulega út á sínum tíma og það var í raun ekki fyrr en í kringum árið 1960 sem heldur fór að hægjast á vinnu Hergé. Það ár kom einmitt út sagan Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) en eftir hana voru aðeins gefnar út þrjár sögur í viðbót og sú síðasta, eins og áður segir, árið 1976. Hergé vann þó að hugmyndum að fleiri sögum um Tinna þó ekki færi ferli þeirra mjög langt. Mest af þessum hugmyndum komust aldrei lengra en á það stig að vera hugmyndir en einhverjum skissum kom Hergé þó á blað. Það er því tilvalið á þessum föstudegi að skoða eilítið fáein óunnin verk Hergé um Tinna sem aldrei komust á þau stig að verða kláruð.
Það vita líklega flestir að þegar Hergé lést árið 1983 þá vann hann að undirbúningi á nýrri sögu, þeirri tuttugustu og fjórðu í röðinni, sem hann gaf vinnuheitið Tintin et l'Alph-Art. Þótt Hergé hefði hafið undirbúning að verkefninu þegar árið 1978 var sagan í raun mjög stutt á veg komin þegar hann lést. Strax eftir að Tinni og Pikkarónarnir kom út í bókarformi, árið 1976, hafði Hergé reyndar byrjað að setja hugmynd á blað að enn annarri Tinna sögu, Un jour dans un aéroport, sem gerast átti eingöngu á flugvelli. Árið 1973 hafði hann haft viðkomu í Fiumicino flugstöðinni í Róm og fékk þar hugmyndina en byrjaði ekki að punkta neitt hjá sér fyrr en um þremur árum síðar. Hann sá þá sögu fyrir sér sem mjög óvenjulega, alla vega hvað Tinna sögu varðar, og væri nokkurs konar tilraunarverkefni þar sem fjöldi þekktra persóna úr seríunni hópaðist fyrir tilviljun á sama stað. Á flugstöðinni kæmu allar persónurnar saman úr sitthvorri áttinni á ferðalagi sínu og svo kæmi eiturlyfjasmygl líka eitthvað við sögu. Hugmynd Hergé snerist um það að lesandinn gæti opnað bókina, á hvaða stað sem væri í sögunni, lesið hana til enda og byrjað svo aftur á fyrstu síðu. Hann vildi gera sögu þar sem ekkert myndi gerast en lesandinn hefði það alltaf á tilfinningunni að eitthvað væri að gerast - eiginlega eins og bókin Vandræði Vaílu Veinólínó. Ekkert varð af þessum áformum en Hergé var þó byrjaður að teikna upp punkta með skýringarmyndum af flugstöðinni. 
Grófar skissur af fyrstu blaðsíðum Tintin et l'Alph-Art gáfu einhverja vísbendingu um hvert hann hafði stefnt með þá sögu þótt söguþráður hennar væri afar óljós. Afgangurinn af þessum skissum eru mjög óskýrar og síðari hluti þeirra eru í raun eiginlega alveg óskiljanlegar. Bob de Moor, sem verið hafði einn af helstu aðstoðarmönnum Hergé hjá Hergé Studios, bauðst til að klára verkið og Fanny Rodwell ekkja Hergé gaf leyfi fyrir því en dró það samþykki síðan til baka nokkrum mánuðum seinna. Árið 1986 gáfu erfingjarnir þó leyfi fyrir því að hin ókláraða skissuútgáfa af Tintin et l'Alph-Art yrði gefin út í því formi en með einhverjum skýringum í textaformi til hliðar í aukabæklingi. Í þessar skissur vantar reyndar síðustu tuttugu blaðsíðurnar og Hergé lét ekki eftir sig neinar hugmyndir eða upplýsingar um hvernig sagan ætti að enda. Alls eru til um hundrað og fimmtíu blýantsskissur á blöðum sem Hergé hafði rissað upp fyrir söguna en við útgáfuna voru valin úrval fjörtíu og tveggja tölusettra blaða sem raðað var upp sem líklegri heildarmynd af henni. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins gluggað í þessar bækur og hefur svo sem litlu við þetta að bæta en tvær útgáfur af Tintin et l'Alph-Art leynast einhvers staðar í myndasöguhillunum hans. Casterman útgáfan í Belgíu hefur reyndar í seinni tíð gefið út ítarlegri útgáfur af þessum skissum og árið 2010 kom til dæmis út umfangsmeiri og ítarlegri viðhafnarútgáfa af sögunni. Hún hefur einnig að geyma frekari handrit og glósur frá Hergé sem fundist hafa á seinni árum.
En auðvitað eru líka til fullunnar sjóræningjaútgáfur af Tintin et l'Alph-Art. Það voru nefnilega ekki allir Tinna aðdáendur reiðubúnir að sætta sig við að nýjar Tinna bækur yrðu ekki fáanlegar fyrr en í fyrsta lagi árið 2054. Og af þeirri ástæðu fóru menn bara út í það að bjarga sér sjálfir. Fransk/kanadíski listamaðurinn Yves Rodier var einn af þeim. Hann tók sig til og teiknaði söguna upp eftir skissuútgáfunni en blaðsíðurnar tuttugu sem upp á vantaði samdi hann sjálfur og verkinu deildi út á meðal vina. Rodier var mjög ungur (hann var ekki nema nítján ára) þegar hann hóf verkið en sagan er samt sæmilega unnin og teiknistíllinn eitthvað í áttina að anda Hergé. Þessi útgáfa af Tintin et l'Alph-Art er þó langt frá því að vera eitthvað listaverk og auðvitað sjá fæstir hana sem alvöru Tinna bók. Seinna tóku sig til nokkrir aðilar og skiptu með sér verkum um að lita þessa sögu Rodier. Það verkefni var reyndar unnið af afar mismunandi gæðum og hæfileikum enda lítið samræmi í þeirri vinnu. Bókin var því næst gefin út þannig árið 1991 í mjög takmörkuðu upplagi. Annars virðist sem búið sé að endurútgefa þessa útgáfu af sögunni (jafnvel oftar en einu sinni) og eins annarlega og það hljómar - í óþökk Rodier! Bókina má meðal annars nálgast í enskri útgáfu og hana má til dæmis finna hér og lesa ef einhver hefur áhuga á því. 
Og svo er ekki hjá því komist að nefna alveg bráðnauðsynlegt innslag eða heimild inn í þessa færslu. En nú er sem sagt komið í ljós að til er íslensk útgáfa af Tintin et l'Alph-Art í stafrænu formi. SVEPPAGREIFINN var í raun löngu búinn að skrifa þessa færslu þegar myndasögusafnarinn (og einn besti lesandi Hrakfara og heimskupara), Rúnar Ingi Hannah, henti nú í vor fram frábæru myndasöguskúbbi á grúbbuna Teiknimyndasögur á Facebook. Þar greindi Rúnar frá því að hann hefði undir höndum íslenska þýðingu af sögunni (í gegnum annan aðila), þar sem hún nefndist Tinni og leturlistin, og bauð hverjum sem vildi að nálgast eintak af henni á pdf formi. Litlar upplýsingar er um þessa útgáfu að hafa utan þess sem Rúnar sjálfur greindi frá en þar segir aðeins frá því að sagan sé íslenskuð af einhverjum Bjarka M. úr Borgarnesi og þýðingin virðist vera frá árinu 2001. Fjölmargir virðast hafa nýtt sér þetta frábæra framtak Rúnars og eflaust eiga nú margir Tinna aðdáendur á Íslandi orðið útprentaða sjóræningjaútgáfu af Tinna og leturlistinni.
En þessi útgáfa Yves Rodier var að sjálfsögðu alveg kolólögleg og erfingjum Hergé var ekkert sérstaklega skemmt. Nokkrum árum seinna komst Rodier síðan í samband við Bob de Moor og sameiginlega óskuðu þeir eftir leyfi hjá rétthöfunum til að teikna söguna upp á nýtt og gefa hana út. Því var umsvifalaust hafnað en Bob de Moor lést síðan ári seinna. Yves þessi Rodier var mikill aðdáandi Tinna bókanna og samdi seinna sjálfur nokkrar sögur um kappann þar sem hann líkti eftir teiknistíl Hergé. Útgáfa Rodier af Tintin et l'Alph-Art er líklega þekktasta sjóræningjaútgáfan af sögunni en þess má einnig geta að með tíð og tíma hafa enn fleiri útgáfur litið dagsins ljós. Aðrar kunnar sjóræningjaútgáfur af Tintin et l'Alph-Art eru eftir listamennina (báðir undir dulnefnum) Ramo Nash (1988) og ENSBA (1989) en sú síðarnefnda er jafnframt sú sjaldséðasta og um leið eftirsóttasta. ENSBA var hópur myndlistanema við listaskóla í París og sagan var eingöngu gefin út í diskaformi. Nafn Ramo Nash kemur hins vegar beint úr sögunni en þar er ein persóna hennar sem ber þetta sama nafn. Hið rétta nafn listamannsins, sem teiknaði þá sögu, hefur aldrei komið fram. Þessar sögur eru að sjálfsögðu báðar alveg jafn ólöglegar og útgáfa Yves Rodier. 
Tintin et l'Alph-Art er þekktasta óútgefna sagan um Tinna sem Hergé vann að og hefði, ef honum hefði enst aldur, orðið tuttugasta og fjórða sagan í seríunni. En hin óunnu verkefni Hergé um Tinna voru fleiri. Síðastliðið sumar fjallaði SVEPPAGREIFINN í þremur færslum til dæmis um ævintýri Tinna á tunglinu og kom þar aðeins lítillega inn á sögu sem listamaðurinn hafði lagt drög að strax árið 1946. Sú saga átti einmitt að gerast úti í geimnum en Hergé taldi sig ekki vera alveg tilbúinn í svo stóra og flókna myndasögu og ákvað að leggja hana til hliðar í bili að minnsta kosti. Nokkrum árum seinna var hugmyndin dregin aftur fram, nýtt handrit samið og sú saga var síðan gefin út í bókaformi sem bækurnar Objectif Lune (Eldflaugastöðin) og On a marché sur la Lune (Í myrkum mánafjöllum) í töluvert breyttri mynd. Fyrri útgáfan hafði átt að hefjast í Bandaríkjunum og prófessor Vilhjálmur Viðutan úr L'Étoile mystérieuse (Dularfullu stjörnunni) átti þar að leika stórt hlutverk. Einhverri vinnu voru Hergé og félagar hans hjá Tinna tímaritinu (Le Journal de Tintin) búnir að eyða í þessa fyrri sögu en einungis fyrstu tvær blaðsíðurnar höfðu þá verið fullunnar í svarthvítu þegar verkefnið var slegið af. Þessi byrjun á sögunni lágu gleymdar í skjalageymslum í áratugi og voru ekki dregnar fram í dagsljósið, fyrir almenning, fyrr en löngu síðar.
Árið 1960 hafði Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) verið nýkomin út í bókarformi þegar Hergé hóf fyrir alvöru undirbúning að næstu sögu. Upphaflega hugmyndin að því ævintýri kom upp úr grein í blaði sem hann hafði lesið í desember árið 1957 og fjallaði um fjölskyldu sem orðið hafði fyrir mikilli geislavirkni fyrir slysni. Eftir Tinna í Tíbet var Hergé þó kominn í þrot með hugmyndina og hann fékk því Greg (Michel Régnier), sem starfaði þá hjá Hergé Studios, til að vinna upp úr gögnunum handrit að nýrri Tinna sögu. Greg skrifaði fyrir hann tvö handrit sem kaus að nefna Les Pilules og Tintin et le Thermozéro en Hergé valdi hið síðarnefnda og hóf að teikna upp söguna samkvæmt því handriti. Þetta var njósnasaga í anda Alfred Hitchcock sem unnin var á gullaldarskeiði Hergé. Verkefnið féll reyndar um sjálft sig þegar Hergé áttaði sig á því að hann yrði aldrei ánægður með Tinna sögu sem væri eftir einhvern annan handritshöfund en hann sjálfan. Þá var Hergé búinn að teikna blýantsskissur að fyrstu átta blaðsíðum sögunnar en sérfræðingar segja að þessar skissur séu einhverjar þær fallegustu sem þeir hefðu séð eftir listamanninn enda var hann á þessum tíma á hápunkti ferils síns. Hergé mun einnig hafa teiknað upp nokkrar grófar heildarútfærslur af handritinu en engin þeirra var þó komin lengra en á blaðsíðu fjörtíu og þrjú.
Á þessum fyrstu átta síðum kennir ýmissa grasa. Þeir Tinni, Kolbeinn og Vandráður eru á leiðinni heim að Myllusetri, í grenjandi rigningu, er þeir verða vitni að bílslysi og stökkva þegar til aðstoðar. Þeir hlúa að hinum slasaða ökumanni, sem er þýskur náungi sem þeir höfðu átt orðaskipti við nokkrum mínútum áður, og Tinni breiðir yfir hann frakkann sinn. Tinni veit hins vegar ekki að á meðan laumar hinn slasaði einhverju torkennilegu hylki í frakkavasa hans. Fljótlega ber einnig að tvo skuggalega náunga sem gera allt sem þeir geta til að koma hinum slasaða inn í sinn bíl áður en sjúkrabíll mætir á svæðið. Það tekst þeim þó ekki og ökumaðurinn slasaði er fluttur á sjúkrahús þar sem hann reyndar deyr. Nokkrum dögum síðar frétta þeir Tinni og Kolbeinn að brotist hefur verið inn hjá öllum þeim sem viðstaddir voru slysavettvanginn. Þar sé augljóslega verið að leita að einhverjum ákveðnum hlut sem tilheyrði hinum látna Þjóðverja. Daginn eftir er Kolbeini rænt og lausnargjalds er krafist en gjaldið er þá sá hlutur sem hinn þýski hafði laumað í frakkavasa Tinna. Þennan söguþráð hefði klárlega verið spennandi að sjá í Tinna bók og SVEPPAGREIFINN sér hana jafnvel svolítið fyrir sér í anda Leynivopnsins en þó með meira vísindaskáldsagnalegu ívafi. Löngu seinna komu síðan fram gögn með upplýsingum um að Hergé hefði gert ráð fyrir að andi Kalda stríðsins yrði áberandi í sögunni og atburðarrás hennar myndi berast alla leið til Berlínar. Í þeim gögnum er jafnvel minnst á aðkomu Fuglsbræðra, þeirra Þrastar og Starra (úr Leyndardómi Einhyringsins), sem myndu þá hafa sloppið úr fangelsi.
Í stað Tintin et le Thermozéro hóf Hergé því vinnu að annarri sögu og beindi nú allri orku sinni að Les Bijoux de la Castafiore (Vandræði Vaílu Veinólínó) sem hann samdi auðvitað alveg sjálfur en sú saga kom síðan út í bókarformi árið 1963. Handrit Gregs að Tintin et le Thermozéro var þó talið nokkuð gott enda hafði hann nýtt sér og hermt eftir uppbyggingu og stíl Hergé að eldri Tinna sögunum en ekkert varð því miður af sögunni. Greg var kunnur handritshöfundur sem starfaði lengi hjá SPIROU og samdi til að mynda teiknimyndasögurnar um Alla Kalla (Achille Talon), sem margir muna eftir, auk nokkurra handrita með Sval og Val. Hergé hugðist reyndar nýta sér handrit Greg seinna, fyrir teiknimynd um Tinna, en ekkert varð heldur af þeim áformum. Hann fékk þess vegna Bob de Moor hjá Hergé Studios til að aðlaga handritið að bókaflokknum um Alla, Siggu og Simbó og teikna upp fjórðu söguna í þeim flokki. De Moor hóf því að teikna upp söguna fyrir þá seríu en eftir nokkrar blaðsíður var hann látinn hætta þeirri vinnu til að hafa yfirumsjón með endurteiknun á Tinna sögunni L'île Noire (Svaðilför í Surtsey). Löngu seinna komu þó fram upplýsingar um að Bob de Moor hefði í raun klárað þá útfærslu og sagan sé til fullbúin með þeim Alla, Siggu og Simbó en það hefur þó ekki verið staðfest. De Moor hefði aldrei verið rukkaður um söguna af Hergé Studios og fannst því engin ástæða til að vera að eltast við að koma henni á framfæri að fyrra bragði. SVEPPAGREIFINN á örugglega eftir að fjalla um þessa Alla, Siggu og Simbó útgáfu í færslu einhvern tímann seinna. Le Thermozéro kom því aldrei út í neins konar formi en það er aldrei að vita nema sagan verði dregin fram í dagsljósið þegar næsta Tinna bók verður gefin út árið 2054 auk þess sem fullbúin Tintin et l'Alph-Art er einnig talin líklegur kandídat á þeim tímapunkti. Að sjálfsögðu er samt nú þegar búið að fullteikna síður úr Tintin et le Thermozéro eftir skissum Hergé og hér er til dæmis blaðsíða númer fimm í sögunni eftir títtnefndan Yves Rodier. 
Hin týndu verkefni Hergé um Tinna voru þó fleiri. Árið 1957 eða '58, um það leyti sem Coke en stock (Kolafarmurinn) var nýkomin út í bókarformi, vann hann að hugmyndum um sögu þar sem ætlunin var að snúa með Tinna aftur til Ameríku. Sú saga yrði á heldur alvarlegri nótum en í hin hroðvirkislega Tintin en Amérique (Tinna í Ameríku) sem hann gerði um tuttugu og fimm árum áður. Hergé hafði aldrei verið almennilega ánægður með fyrstu sögurnar sínar um Tinna, sem hann leit alltaf á sem einhvers konar bernskubrek, og Tinni í Ameríku var klárlega í þeirra hópi. Vinnuheiti sögunnar var La piste indienne en Hergé hafði alltaf verið spenntur fyrir hugmyndum um indjána. Hann vildi vekja athygli á lífskjörum þeirra og var í bréfaskiptum við aðila vestan hafs um verkefnið. Í gögnum hans að söguþræðinum kemur fram ætlun þeirra Tinna og Kolbeins við að aðstoða frumbyggja Ameríku í glímunni gegn yfiráðum stjórnvalda og fégræðgi kaupsýslumanna. Ekki fór sú handritsvinna neitt ýkja langt en einungis eru til þrjú blöð með gögnum þar sem fram koma helstu hugmyndir og skýringar sögunnar og tvö blöð með skissum eftir Hergé. Þessi gögn segja raunar mest lítið en sanna þó að hugmyndin um söguna var til í raun og veru.
Að lokum er vert að minnast á eitt atriði í viðbót. Árið 1958 komu líka fram hugmyndir að handriti sem Greg mun einnig hafa komið eitthvað að og nefndist Nestor et la Justice. Í þeirri sögu var Jósepi ætlað að leika nokkuð stórt hlutverk eins og nafn handritsins gefur sterka vísbendingu um. En sagan hefst á því að dag nokkurn fær hinni tryggi þjónn Kolbeins frí til að sinna veikri systur sinni. Hann fer að heiman og kemur aftur til baka um nóttina eftir en í dagblöðunum næsta dag er skýrt frá því að ónefndur maður hafi verið myrtur. Við rannsókn málsins beinist grunurinn snemma að Jósepi enda vísa fingraför, tortryggileg hegðun og lygar hans til sektar. Fljótlega kemur þó í ljós samsæri þar sem annar Fuglsbræðra, fyrrum vinnuveitandi Jóseps, kemur við sögu en Hergé hafði alltaf langað til að endurvekja þá bræður í seríunni. Hergé gafst reyndar fljótlega upp á handritinu en óneitanlega hefði þessi Tinna saga getað orðið mjög áhugaverð. 

En hér hefur allavega verið aðeins stiklað á stóru og minnst á brot af því úrvali hugmynda sem Hergé hafði fram að færa af óútgefnum handritum að Tinna sögum. Það er ekki nokkur vafi á fjöldi hugmynda hefur orðið til á hinum langa listamannsferli Hergé og líklega er þetta aðeins lítið brot af þeim. Í skjalasafni Hergé er gríðarlega mikið af efni, í ýmis konar formi, sem aldrei hefur komið fyrir sjónir almennings og aðeins fáir útvaldir fræðimenn hafa fengið að skoða. Það er ljóst að það safn hefur að geyma marga áhugaverða hluti sem vonandi munu verða gerðir opinberir þegar fram líða stundir. Af þeim handritshugmyndum sem nefndar voru í færslunni telur SVEPPAGREIFINN að það efni sem fram kom í kringum árið 1960 hefði geta orðið mjög áhugavert að sjá í Tinna bók. Nestor et la Justice (sagan um Jósep) og Tintin et le Thermozéro (sú sem byrjar með bílslysinu) hljóma mjög spennandi sem Tinna sögur og ekki er verra að hugmyndirnar koma upp á hápunkti ferils Hergé. Einhvern veginn virka Tintin et l'Alph-Art og Un jour dans un aéropor ekki jafn áhugaverðar í huga SVEPPAGREIFANS en sem betur fer er smekkur fólks misjafn. Í það minnsta er gaman að fá nýja vinkla gömlu góðu seríuna um Tinna og félaga.