21. janúar 2022

197. GÖMLU BÆKURNAR UM PRINS VALÍANT

Það hefur líklega verið á árunum 1979-80 sem hinum tíu eða ellefu ára gamla SVEPPAGREIFA áskotnaðist myndasögubók sem hann hafði þá aldrei litið augum fyrr. Móðir hans gaukaði þá frekar óvænt að þeim bræðrum sitthvorri bókinni um hinn vel hærða útlaga Prins Valíant. Síðan þetta gerðist eru nú liðin rúmlega fjörtíu ár svo ekki man SVEPPAGREIFINN alveg nákvæmlega hvaðan þessar tvær bækur um Prins Valíant áttu uppruna sinn. En þó rámar hann eitthvað í að móðir þeirra hafi verslað þær á Bókamarkaði félags bókaútgefenda sem á þessum árum var staðsettur í hráum kjallara Húsgagnahallarinnar uppi á Bíldshöfða. Þarna var verslunin Intersport meðal annars starfrækt löngu seinna en á þessum árum nefndist þetta stórhýsi í almennu tali Sýningahöllin Ártúnshöfða. Bækurnar tvær litu út eins og nýjar og voru í sama broti og litlu bækurnar um Palla og Togga, sem Fjölvaútgáfan hóf að gefa út á svipuðum tíma, en þó svolítið þykkari. SVEPPAGREIFINN man það eins og gerst hefði í gær að bækurnar tvær voru kirfilegar merktar bókaútgáfu einni sem nefndist Ásaþór og það eitt gaf þeim ákveðið dulúðlegt yfirbragð. Á þessum tíma höfðu bræðurnir þegar talið sig vera orðna vel meðvitaða um allar þær teiknimyndasögur sem í boði voru á íslenska myndasögumarkaðnum en einhvern veginn hafði þessi bókasería þó alveg farið fram hjá þeim. Prins Valíant þekktu þeir auðvitað ágætlega sem hluta af þeim myndasögum sem tímaritið Vikan bauð upp á en ekki þóttu þeim sögurnar þó jafnast á við Tinna eða Sval og Val sem helst voru að heilla ungdóminn á þessum árum.

Tæknilega séð vilja margir meina að þessar bækur séu ekki beinlínis teiknimyndasögur þótt eflaust megi endalaust deila um það. En bækurnar tvær nefndust Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs og Prins Valíant og þrautirnar þrjár. Þessi óvænti myndasögufundur gaf SVEPPAGREIFANUM og bróður hans ríka ástæðu, á sínum tíma, til að forvitnast frekar um útgáfu bókanna. Úr litlu var reyndar að moða enda þá enn áratugir að hægt væri að gúggla þessar sígildu sögur en einföld rannsóknarvinna leiddi í ljós að önnur bókanna (Prins Valíant og þrautirnar þrjár) hefði verið gefin út árið 1967 en ekkert ártal var að finna í Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs. Auk þess var fyrrnefnda bókin merkt númer 7 en sú staðreynd gaf auðvitað sterklega til kynna að enn fleiri slíkar væri að finna úr seríunni. Við vinnslu þessarar færslu komst SVEPPAGREIFINN síðan að því að Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs hefði verið fyrsta sagan í bókaflokknum og hefði komið út seint á árinu 1961. Líklega liðu síðan tuttugu til þrjátíu ár áður en hann rakst aftur á bækur úr seríunni um Prins Valíant og þá voru það ætíð mjög illa farin eintök. Flestar bókanna voru lausar í sér og með rifinn eða horfinn kjöl en þegar þokkaleg eintök rak á fjörur SVEPPAGREIFANS var hann ekki seinn á sér að versla sér þær bækur ef þær kostuðu ekki handlegg - eða tvo. Iðulega eru bækurnar úr þessari seríu afar sjaldséðar og því fokdýrar, hjá þeim sem þær hafa boðið til kaups, og þá gildir einu um útlit þeirra eða ástand. Nú á SVEPPAGREIFINN níu sæmileg eintök úr bókaflokknum en sögurnar tvær, sem til voru á æskuheimili hans, eru auðvitað löngu glataðar.

Einhver kynni höfðu íslensk ungmenni reyndar haft af útlaganum Valíant áður en til myndasöguútgáfu Ásaþórs kom. Um vorið 1960 hafði ameríska bíómyndin Víkingaprinsinn (Prince Valiant) verið sýnd í Nýja bíói við töluverðar vinsældir en sú mynd hafði verið framleidd árið 1954. Þessi geysispennandi litmynd (já, ókei?) var sýnd um nokkurra vikna skeið en með hlutverk Prins Valíants fór enginn annar en Robert Wagner sem yngra fólk man helst eftir fyrir aukahlutverk sitt í grínmyndunum um sjarmatröllið Austin Powers. Fólk af kynslóð SVEPPAGREIFANS man þó líklega helst eftir Wagner í sjónvarpsþáttunum Hart to Hart (Hart á móti hörðu) sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þess má til gamans geta að bíómyndin Prince Valiant var einmitt sýnd í Ríkissjónvarpinu laugardagskvöldið 6. mars árið 1971 en þennan sama dag voru einnig á dagskrá 5. þáttur Frönskukennslu Vigdísar Finnbogadóttur og að sjálfsögðu vikugamall leikur úr ensku knattspyrnunni þar sem Tottenham og Aston Villa mættust á White Hart Lane í London. Spurs vann leikinn 2-0 svo það komi nú samviskulega fram.

Það má reikna með því að sýning kvikmyndarinnar Víkingaprinsinn í Nýja bíói hafi gefið þeim sem stóðu að bókaútgáfunni Ásaþór hugmyndina að útgáfu þessara bóka og í kjölfarið hafi þeir orðið sér úti um útgáfuréttinn að þeim frá sænska útgáfufyrirtækinu Bull's Presstjänst. Bókaútgáfan Ásaþór virðist hafa verið staðsett á Hafnargötunni í Keflavík en ekki hefur SVEPPAGREIFINN fundið margar vísbendingar um önnur ritverk sem útgáfufyrirtækið stóð að. Hins vegar komu þeir eitthvað að hljómplötuútgáfu seint á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar og sendu til að mynda frá sér litla plötu með Keflavíkurkvartettinum í samstarfi við hina rómuðu Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur í Vesturveri. Það er hins vegar önnur saga. En eins og áður var getið var það fyrir jólin 1961 sem fyrsta bókin um Prins Valíant kom út í íslenskri þýðingu Sverris Haraldssonar. Sagan varð nokkuð vinsæl og þrátt fyrir að eintök af bókinni hafi að öllum líkindum dúkkað óvænt upp á Bókamarkaðnum í Sýningarhöllinni að Bíldshöfða, tæplega tuttugu árum seinna, var upplag 1. heftisins auglýst sem "senn á þrotum" þegar önnur bókin, Prins Valíant berst gegn Atla Húnakonungi, var auglýst í dagblöðunum næsta ár á eftir. Svo virðist sem þessar bækur hafi komið út í frekar stóru upplagi en fyrsta heftið var síðan endurútgefið árið 1972 og merkt sem 2. útgáfa.

Bækur Ásaþórs um Prins Valíant komu upp frá þessu reglulega út, ein á hverju ári, og urðu töluvert vinsælar. Almennt virðast þær hafa selst nokkuð vel og voru á meðal söluhæstu barna- og unglingabóka ár hvert en alls komu út tólf bækur úr seríunni og sú síðasta fyrir jólin árið 1972. Þetta síðasta hefti var eiginlega frekar í formi þykks tímarit þar sem það var með mjúkri kápu og er að sögn fágætt og töluvert erfitt viðureignar að eignast í dag. Ástæðan fyrir því að þetta tólfta hefti var óbundið og öðruvísi er óljós en svo virðist sem einhverjir telji þessa bók ekki tilheyra hinni eiginlegu seríu Ásaþórs. Það er þó misskilningur enda er heftið rækilega merkt framan á forsíðunni sem Prins Valíant bók númer 12. Líklegast er að útgáfa seríunnar hafi hreinlega verið komin að þolmörkum og þessi ódýrari útfærsla hafi einfaldlega verið látin duga til að koma síðustu sögunni út. Heftið bar reyndar engan titil og var því nafnlaust en í grunninn lítur það út eins og sjöunda bók seríunnar, Prins Valíant og þrautirnar þrjár, sem komið hafði út fimm árum áður.

Þessar tólf bækur virðast hafa verið unnar upp úr myndasögum sem birst höfðu vikulega, í heilsíðuformi í dagblöðum vestan hafs, frá árinu 1937 en texti þeirra hafði verið endurskrifaður og einfaldaður af þeim Max Trell og James Flowers fyrir bókaútgáfuna sem hófst árið 1951. Alls hafa birst yfir 4000 númeraðar síður af Prins Valíant í þessum dagblöðum (frá árinu 1937 til dagsins í dag) en í þeim bókum, sem gefnar voru út af Ásaþór, telst röð þeirra blaðsíðna vera frá númer 1 til 982. Ekki varð frekara framhald á útgáfu Ásaþórs af bókunum um Prins Valíant að þessu sinni en sögurnar áttu þó eftir að dúkka upp aftur á Íslandi seinna. Árið 1971 höfðu fyrstu Tinna bækurnar komið út á íslensku og leiða má líkum að því að þær myndasögur hafi haft einhver áhrif á frekari útgáfu prinsins að sinni. Tinna bækurnar urðu strax gríðarlega vinsælar og það hefur líklega verið erfitt að keppa við hann á þessum litla barna- og unglingabókamarkaði. Það vekur einnig svolitla athygli að bækur Ásaþórs um Prins Valíant voru aldrei auglýstar í dagblöðunum með titlum sínum heldur voru þær aðeins nefndar Prins Valíant hefti númer 1, 2, 3 og svo framvegis. Hugsanlega var það gert í markaðsskyni til að hvetja unga lesendur til að eignast öll hin númeruðu hefti. 

En vinsældir Prins Valíants koðnuðu sem sagt snögglega niður með tilkomu Tinna og annara léttari myndasagna sem litu dagsins ljós í kjölfarið. Þeir félagar sammæltust þó stuttu seinna um að birtast á síðum Vikunnar og nokkrum árum eftir það hóf Fjölvaútgáfan, sem gaf Tinna bækurnar út, einnig að senda frá sér nýjar bækur um Prins Valíant. SVEPPAGREIFINN hefur ekki kynnt sér eða borið saman þessar útgáfur Ásaþórs og Fjölva en samkvæmt hans skilningi er hér þó að einhverju leyti um að ræða sömu sögur sem hafa verið endurnýjaðar í yngri útgáfum Fjölva. Ekki er ætlunin að fjalla um Fjölva bækurnar hér á Hrakförum og heimskupörum að þessu sinni en þeim verður eflaust gerð einhver skil á síðunni í færslu seinna. En Prins Valíant hóf sem sagt að birtast á síðum Vikunnar, um mitt sumar árið 1973, en urðu aldrei mjög vinsælar þar þótt þær væru prentaðar í fallegum litum og á vandaðan pappír. Sjálfur minnist SVEPPAGREIFINN þess aldrei að hafa haft gaman að þessum myndasögum í Vikunni og hafi yfirleitt alltaf flett framhjá þeim. Léttara efnið eins og Stjáni og Stína eða Andrés önd vöktu miklu meiri lukku. Í lesendabréfum tímaritsins birtust jafnvel reglulega skammarbréf þar sem lýst var yfir óánægju með þessar sögur og þær hættu að lokum að birtast í blaðinu árið 1980. En óneitanlega litu þær glæsilega út.

Það virtist þó alltaf vera nokkur aðdáendahópur sem fylgdi þessum sögum eftir og eru enn þann dag í dag að mæra þær á meðan aðrir, líkt og SVEPPAGREIFINN, ná engri tengingu við þær. Bækur Ásaþórs um Prins Valíant vöktu til að mynda það mikla eftirtekt á sínum tíma að margir reyndu að nýta sér vinsældir þessa fyrirmyndar prins fyrir jákvæða ímynd af ýmsu tagi. Í greinum og viðtölum á íþróttasíðum dagblaðanna mátti til dæmis sjá hvar handboltakappinn Ólafur H. Jónsson og knattspyrnumaðurinn Ellert B. Schram voru bornir saman við hinn hrausta leiðtoga Prins Valíant. Og í tískubransanum kallaðist nýjasta dömuklippingin jafnvel Prins Valíant klipping og var meira að segja auglýst í fjölmiðlum á þann hátt. Ímynd hans var alla vega haldið áfram á lofti. En bækurnar tólf um Prins Valíant sem bókaútgáfan Ásaþór gaf út á sínum tíma voru þessar:

 1. Prins Valíant á dögum Arthúrs konungs - 1961 (2. útgáfa - 1972) (Prince Valiant in the Days of King Arthur - 1951)
 2. Prins Valiant berst gegn Atla Húnakonungi - 1962 (Prince Valiant Fights Atilla the Hun - 1952)
 3. Prins Valiant finnur drottningu Þokueyjanna - 1963 (Prince Valiant on the Inland Sea - 1953) 
 4. Prins Valiant í hættulegri sjóferð - 1964 (Prince Valiant's Perilous Voyage - 1954) 
 5. Prins Valiant og ljóshærða prinsessan - 1965 (Prince Valiant and the Golden Princess - 1955) 
 6. Prins Valiant í Nýja heiminum - 1966 (Prince Valiant in the New World - 1956)
 7. Prins Valiant og þrautirnar þrjár - 1967 (Prince Valiant and the Three Challengers - 1957) 
 8. Prins Valiant í sendiför fyrir Túle - 1968 (Prinz Eisenherz reitet für Thule - 1960)
 9. Prins Valiant og Boltar vinur hans - 1969 (Prinz Eisenherz und sein Freund Boltar - 1961)
 10. Prins Valiant berzt gegn Söxum - 1970 (Prinz Eisenherz bändigt Rebellen - 1962)
 11. Prins Valiant frelsar Aletu - 1971 (Prinz Eisenherz befreit Aleta - 1963) 
 12. Prins Valiant bók 12 - 1972

Ástæðan fyrir því að titlar bókanna á frummálinu breytist úr ensku yfir á þýsku, frá og með áttundu sögunni, er sú að þá tók þýska útgáfufyrirtækið Bädischer Verlag yfir útgáfuna en áður hafði hið bandaríska Hastings House gefið þær út. Tólfta heftið virðist hins vegar vera eftirprentun beint úr hinum vikulegu dagblaða birtingum og kemur í beinu framhaldi af hinum númeruðu síðum úr ellefta heftinu. Ekki er SVEPPAGREIFANUM kunnugt um hvort sú útgáfa hafi verið eitthvað sér íslensk. Það var séra Sverrir Haraldsson sem þýddi fyrstu fjórar bækurnar yfir á íslensku en Jósafat Arngrímsson tók við af honum og þýddi að öllum líkindum afganginn af sögunum. Þó er hugsanlegt að Arngrímur bróðir hans hafi þýtt bók númer 6, Prins Valíant í nýja heiminum, sem kom út árið 1966 og jafnvel einhverjar fleiri af þessum sögum. En Jósafat, sem var helsta drifjöður bókaútgáfunnar Ásaþórs, var mikill tungumálamaður og um leið athafna- og ævintýramaður sem kom víða við seinna á lífsleiðinni. Báðir eru þeir Sverrir og Jósafat nú látnir. 

Eins og áður segir má alltaf deila um hvort bækurnar með Prins Valíant séu eiginlegar teiknimyndasögur. Á myndarömmunum sjálfum er ekki um neinar talblöðrur að ræða og þær eru því ólíkar flestum þeim myndasögum sem evrópskir myndasögulesendur eiga að venjast. Þá voru sögurnar um Prins Valíant sérstakar að því leyti að sögupersónurnar eldast með tímanum en það virðist hins vegar fremur sjaldgæft í öðrum bókaflokkum. Seinna hægðist reyndar töluvert á öldrunarhraða persónanna og í þeim sögum sem enn er verið að teikna eldast þær afar hægt. Það gengur víst ekki upp að háaldraður prinsinn þurfi bæði að berjast við óvini sína og elliglöp. Hver blaðsíða hefur að geyma einn til fjóra myndaramma og á milli þeirra er sjálfur sögutextinn með samtölum persónanna. Myndirnar í bókunum eru svarthvítar og sýna yfirleitt ekki samfellda atburðarás heldur er þar meira stiklað á stóru um helstu framvindu mála í sögunum.

Í byrjun færslunnar minntist SVEPPAGREIFINN á þessar tvær bækur sem þeir bræður eignuðust á sínum tíma en aldrei náðu sögurnar um Prins Valíant þó að heilla, hvorki þessar tvær sögur né hinar litfögru og vönduðu myndasögur í Vikunni. Á meðan hann var að vinna að þessari færslu gluggaði SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu í þessar sjö bækur sem hann á um Prins Valíant og í framhaldinu hugsaði hann með sér að líklega væri þroskinn nú orðinn nægilegur til að lesa þessar bækur. Í æsku þótti honum þær hins vegar engan veginn nógu mikið léttmeti til að réttlæta það að sökkva sér í efnið. Bækurnar um Prins Valíant eru með skírskotun í veraldarsöguna, frekar fullorðins og algjörlega lausar við allt sem tengja má við húmor. En þær eru þó alls ekki þungar. Aftan á einni bókinni má lesa þetta um "Óskabók unglinganna"; Sögurnar af prins Valiant endurspegla sögu Evrópu. Þær greina frá falli Rómaveldis, innrás Húnanna, víkingatímabilinu, hirð Arthurs konungs. Margar söguhetjurnar er koma hér við sögu, eru þær sömu og í íslenzku Riddarasögunum. Hér eru þær færðar í skemmtilegan og læsilegan búning, til að skapa áhuga yngri kynslóðarinnar fyrir fornum sögum og menningu.

Þetta er auðvitað allt gott og blessað. Sögurnar voru í fyrstu svolítið í fantasíuformi þar sem skrímsli, nornir og galdramenn komu við sögu en seinna voru þær settar meira í sögulegt samhengi. Þá var reyndar farið nokkuð frjálslega með tímaramma sagnanna og æviskeið Valíants garmsins þannig gert nokkuð teygjanlegt. Atburðir bókanna eru nefnilega frá nokkrum tímabilum, allt frá því seint á tímum Rómaveldis til hámiðalda, og teljast því einn allsherjar, samfelldur tímahrærigrautur. Það sem helst mun þó líklega trufla SVEPPAGREIFANN við lestur bókanna er annars vegar það, að hann mun líklega líta á sögurnar sem venjulega sögubók með myndum en ekki sem myndasögu. Og hins vegar mun einbeitning hans að stórum hluta þurfa að snúast um að fletta þessum bókum með mikilli varúð þar sem þær virðast vera orðnar ansi viðkvæmar fyrir hnjaski. Tilfinningin við að handfjatla bækurnar er nefnilega eins og að vera með upprunalega skinnhandritið af Njálu á milli fingranna. Á sínum tíma hafa þetta vafalaust verið mjög vandaðar bækur og allur frágangur á þeim til fyrirmyndar en taka verður tillit til þess að þær eru nú orðnar á milli 50 og 60 ára gamlar. Eintök SVEPPAGREIFANS eru reyndar alveg þokkaleg en auðvitað hefur tíminn markað sín spor í þessar bækur. Límingin er farin að molna sem gerir það að verkum að bækurnar hans eru orðnar mjög lausar í sér og kilir þeirra eru afar viðkvæmir þó enn séu þeir að langmestu leyti heilir. Hann er því alltaf með opin augun fyrir góðum Prins Valíant eintökum með góðum kili. Það er þó ekki sjálfgefið því margir þeirra sem einnig hafa leitað eftir eintökum af þessum sjaldséðu bókum hafa verið að óska eftir betri eintökum einmitt vegna kjalaskorts.

Höfundur sagnanna um Prins Valíant hét Harold Rudolf Foster (1892 - 1982) en hann gekk ætíð undir listamannsnafninu Hal Foster. Hann var kanadísk/bandarískur listamaður sem snemma varð þekktur fyrir stórbrotnar teikningar og var með frábært auga fyrir smáatriðum í verkum sínum. Hann varð fyrst kunnur fyrir teikningar sínar um Tarzan eftir Edgar Rice Burroughs og átti í raun heiðurinn af því að koma hinum hálfnakta skógarmanni í myndasöguform árið 1929. Með tímanum varð Foster hins vegar leiður á þessum öskrandi konungi apanna og hugur hans leitaði til eigin sköpunarverka, þannig að árið 1937 birtist Prins Valíant í fyrsta sinn á prenti. Næstu fjörtíu árin helgaði listamaðurinn sig algjörlega þessu viðfangsefni sínu og myndasögurnar um kappann urðu gríðarlega vinsælar um heim allan. Árið 1971 tók listamaðurinn John Cullen Murphy við af Foster en hann hélt þó sjálfur áfram að semja handritin að sögunum. Eftir að Murphy lauk störfum hafa þeir Gary Gianni og Thomas Yeates helst teiknað prinsinn hugprúða en auk þess hafa margir aðrir listamenn spreytt sig á þessum sögum á ýmsum öðrum vettvöngum. Hal Foster lést árið 1982.

Myndasöguræmurnar um Prins Valíant hafa birst í meira en 300 dagblöðum og tímaritum út um allan heim, í gegnum tíðina, og sögurnar um hann hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Svo útbreiddar eru bækurnar um Prins Valíant að þær hafa jafnvel komið út í Færeyjum svo eitthvað sé nefnt. Og þar líkur umfjöllun SVEPPAGREIFANS um Prins Valíant að þessu sinni.

7. janúar 2022

196. ZORGLÚBB STYTTAN

Myndasöguinngrip dagsins er ekki af verra taginu enda er það tileinkað hinu frábæra og oft svolítið misskilda illmenni, úr sögunum um Sval og Val, Zorglúbb. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem áður fjallað um þessa merkilegu myndasögupersónu, enda er Zorglúbb í töluverðu uppáhaldi hjá honum, og hefur til dæmis skrifað svolítið um hann í fáeinum af færslum sínum hér á Hrakförum og heimskupörum. Þó Zorglúbb sé auðvitað sjálft viðfangsefni þessa föstudags þá er það samt franski listamaðurinn og myndhöggvarinn Samuel Boulesteix sem á skilið alla athyglina fyrir þetta frábært verk sitt sem hann hóf fyrir tveimur árum síðan og er nú nýlokinn við.

Hér er sem sagt um að ræða 95 sentimetra háa brjóstmynd úr bronsi (sem er reyndar aðeins meira en bara brjóstmynd) af áðurnefndum Zorglúbb en styttan er 42 kíló að þyngd. Þetta verk var sérpantað af ástríðufullum myndasögusafnara, sem var fyrst og fremst hrifinn af sérlega slæmum illmennum úr teiknimyndasögum, en þessi stelling hafði verið honum hugleikin í nokkurn tíma. Einhverjir muna eflaust eftir Zorglúbb í þessari klassísku stellingu en hina tilteknu útfærslu er að finna í bókinni Með kveðju frá Z (L'ombre du Z - 1962) og má sjá á blaðsíðu 38.

En hugmyndina þróuðu Boulesteix og myndasögusafnarinn með sér á löngum tíma í samstarfi með vini þess fyrrnefnda, Christophe Coronas, sem hjálpaði til við sköpunarverkið með teikniskissum sínum. Það er nefnilega ekki auðunnið eða einfalt verk að færa einhverja teikningu úr Sval og Val bók yfir í fullunnið þrívíddarverk upp á tæpan metra á hæð en afraksturinn er þó einstaklega vel heppnaður og glæsilegur. Upp úr teikningunum vann Boulesteix svo upp nákvæmt módel af styttunni úr gifsi áður en hægt var að hefjast handa við að smíða sjálft verkið.

Samuel Boulesteix hefur frá barnsaldri verið ástfanginn af hinum töfrandi heimi myndasagnanna og alla tíð, eftir að hann hóf störf við listsköpun sína, hefur hann leitast eftir tækifærum við að vinna styttur af þekktum persónum úr belgísk/franska myndasöguheiminum. Lukku Láki, Mortimer (úr myndasögunum um Blake og Mortimer), Svalur, Valur, Pési og jafnvel hundurinn Rattati hafa allir fengið frábæra skúlptúra af sér og mörg af verkum þessa listamanns má sjá hér á heimasíðunni hans. Með þessari nálgun sinni með teiknimyndafígúrum í höggmyndaformi vill Boulesteix sameina þessa tvo stíla í einhvers konar leit að nýrri fagurfræði, sannfærður um að ekki sé neitt til sem heitir minniháttar list. Í rauninni eru ekkert svo mörg ár síðan að myndasögur eða myndasögugerð voru viðurkenndar sem listgrein og það að sameina þessar tvær listgreinar er því augljóslega mjög heillandi nálgun - að minnsta kosti fyrir unnendur myndasagna.

Þó Zorglúbb styttan sé stakt listaverk sem aðeins var gert eitt eintak af er þó hægt að nálgast afsteypur af öðrum verkum Boulesteix á þar til gerðum sölusíðum. Þarna má til dæmis kaupa afsteypur af áðurnefndum myndasögustyttum en ekki eru þessir gripir þó beint gefnir. Þó virðast margar þeirra vera ófáanlegar í augnablikinu en það segir okkur að virkilega sé eftirspurn eftir svo dýrum hlutum. SVEPPAGREIFINN hefur sjálfur alltaf verið mjög hrifinn af ýmsum aukahlutum sem tengjast þeim myndasögum sem hann hefur aðallega fjallað um hér á síðunni og hefur jafnvel gert sér far um að nálgast ýmsa slíka muni í gegnum tíðina. En auk þess hefur hann hefur jafnvel dundað sér við að mála sjálfur þó sú vinna sé reyndar ekki til fyrirmyndar eða eftirbreytni. Þótt hann sé hrifinn af myndasögutengdum aukahlutum skal það reyndar tekið skýrt fram að SVEPPAGREIFINN er ekki hinn ástríðufulli myndasögusafnari sem pantaði brons-skúlptúrinn glæsilega af myndhöggvaranum Boulesteix. Hann er meira í viðráðanlegu verðunum.

En hér fyrir neðan má sjá myndband af hluta af vinnuferli þessa frábæra listaverks Samuel Boulesteix af Zorglúbb hinum ósigrandi. IGNEL IFIL BBÚLGROZ!!!

24. desember 2021

195. SÍGILD JÓLASAGA ÚR SPIROU

Það er orðið að árlegri venju hjá SVEPPAGREIFANUM að grafa upp jólaefni úr gömlu góðu, belgísku myndasögutímaritunum og birta hér á Hrakförum og heimskupörum í tilefni komandi hátíða. Og á því verður engin breyting þessi jólin. Það var alltaf einhver fallegur blær yfir þessum gömlu myndasögutímaritum og jólablöðin voru alveg sérstaklega notaleg. Efnið að þessu sinni kemur úr 975. tölublað Le journal Spirou, sem í daglegu tali er bara kallað SPIROU blaðið, en þetta tölublað kom fyrir sjónir lesenda sinna fimmtudaginn 20. desember árið 1956. Reyndar hefur síðuhafi áður leitað fanga í þessu tiltekna jólablaði enda var mikið af skemmtilegu efni þar á ferðinni og útgáfa SPIROU, án nokkurs vafa, á hápunkti blómatímabils síns einmitt á þessum árum.

Á meðal þess efnis sem blaðið hafði að geyma má nefna þrjár blaðsíður úr Sval og Val sögunni um Gormahreiðrið, Lukku Láka söguna Lucky Luke contre Joss Jamon (Óaldarflokkur Jússa Júmm) og framhaldssögu með Gil Jordan sem margir gætu hugsanlega kannast við. Af því efni sem SVEPPAGREIFINN hefur áður birt úr þessu jólablaði skal nefna stutta jólasögu um Gorm, og aukasíðu úr Gormahreiðrinu þar sem jólin koma einnig nokkuð óvænt við sögu. Annars réði jólaandinn auðvitað ríkjum í blaðinu og mest allt efni þess, fyrir utan hinar föstu framhaldssögur, snerust á einhvern hátt um hátíðarnar sem framundan voru. 

En það er belgíski listamaðurinn Pierre Culliford, betur þekktur undir nafninu Peyo, sem á heiðurinn að jólamyndasögu þessa aðfangadagsmorguns en hún kemur að þessu sinni úr hinum, oft vanmetna, söguheimi þeirra Hinriks og Hagbarðar. Reyndar fer ekkert fyrir Hinriki í þessari tveggja blaðsíðna jólasögu en Hagbarður leikur hins vegar aðalhlutverkið eins og hann gerir hvað best. Húmor Peyo ræður þarna ríkjum þar sem helstu persónuleikar Hagbarðs fá að njóta sín til fullnustu en auðvitað er jólakærleikurinn heldur ekki langt undan.


SVEPPAGREIFINN óskar lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla með ósk um ljúfar og góðar stundir um hátíðarnar.

10. desember 2021

194. JÓLASAGA MEÐ POUSSY

Færsla dagsins er stutt. Það má alveg. Jólin eru ekkert mjög langt undan og SVEPPAGREIFINN hefur margt á sinni könnu þessa daga sem aðra. Það er því tilvalið að skella stuttri jólasögu úr smiðju listamannsins Peyo hér inn en hún er um köttinn Poussy sem laumast aðeins inn á það jaðarsvæði sem myndasöguumfjöllun SVEPPAGREIFANS sinnir. Þessi krúttlegi kisi hlaut einmitt eldskírn sína á síðum Hrakfara og heimskupara í færslu sem finna má hér. En þessi litla saga eða brandari kemur úr jólablaði SPIROU tímaritsins sem kom út þann 11. desember árið 1969.

26. nóvember 2021

193. Á SÆNSKUM SLÓÐUM TINNA

SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum fengið pósta með fyrirspurnum um ýmislegt sem viðkemur myndasögublogginu Hrakfarir og heimskupör. Stundum hafa safnarar og áhugafólk um myndasögur haft samband og spurst fyrir um einstaka bækur, sem minnst hefur verið á í blogginu, svo eitthvað sé nefnt. En einnig hafa lesendur spurst fyrir um ýmislegt efni, sem þeim finnst forvitnilegt og birst hefur hér á síðunni. Þannig hefur hann til að mynda fengið fleiri en eina fyrirspurn frá Hollandi varðandi grein um Sigga og Viggu og einnig frá Frakklandi um færslu sem fjallar um Yoko Tsúnó svo nýleg dæmi séu tekin. Allt er þetta gott og blessað og SVEPPAGREIFINN hefur reynt eftir bestu getu að aðstoða viðkomandi en það verður þó að viðurkennast að stundum eru þessir póstar verulega "utan þjónustusvæðis". Þá er víst lítið annað í stöðunni annað en að gerast skyndilega mjög upptekinn og gleyma alveg að svara þeim. 

Svo koma einnig póstar af allt öðrum toga. Þegar Gísli Marteinn Baldursson vann að hinum stórskemmtilegu og fróðlegu þáttum sínum um ævintýri Tinna, hjá Ríkisútvarpinu, fékk hann nokkra valinkunna einstaklinga til að ræða við sig um einstaka bækur úr seríunni. Gísli Marteinn hafði þá meðal annars samband og óskaði eftir því að fá að spjalla við SVEPPAGREIFANN um einhverja bókanna í einum þáttanna en hafði ekki erindi sem erfiði. Sá síðarnefndi viðurkennir fúslega að hann er lítið fyrir athyglina og afþakkaði þetta góða boð enda taldi hann einnig að aðrir væru miklu betur til þess fallnir bæði hvað almenna vitneskju og sérfræðiálit varðar.

Stuttu fyrir síðustu jól fékk SVEPPAGREIFINN sendan nokkuð áhugaverðan tölvupóst frá Svíþjóð. Þar var á ferðinni erindi frá forseta Generation T, Björn Wahlberg sem er kunnur rithöfundur, útgefandi og myndasöguþýðandi þar í landi, en þetta munu vera einu opinberu og viðurkenndu Tinna-samtökin á Norðurlöndunum. Starfsemi Generation T er undir viðurkenndri handleiðslu Moulinsart, sem er höfundaréttareigandi að verkum Hergés eins og allir vita, svo þessi samtök eru augljóslega mjög virt. Það er skemmtileg tilviljun að fyrir ekki svo löngu síðan hafði SVEPPAGREIFINN einmitt verið að skoða vefsíðu þessa samtaka. Ekki man hann þó nákvæmlega hvernig það kom til en hugsanlega var einhver á Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur sem póstaði þar linki á þessa áhugaverðu síðu. Generation T eru, eins og áður segir, mjög virt samtök og halda úti afar fróðlegu starfi um allt sem viðkemur bókunum um Ævintýri Tinna og höfund þeirra Hergé. Þau skipuleggja ýmsa fyrirlestra og viðburði sem tengjast Tinna og eru í samstarfi við sambærileg samtök í öðrum löndum um heim allan. Sem dæmi um áhugaverða viðburði má nefna að samtökin hafa meira að segja staðið fyrir viskí-smökkun, sem væntanlega hefur þá verið til heiðurs viskí-áhugamanninum Kolbeini kafteini, en einnig má nefna regluleg Tinna-quiz og fyrirlestra með kunnum fyrirlesurum og fræðingum svo eitthvað sé nefnt. Þá má nefna að Generation T hafa jafnvel skipulagt ferðir á heimaslóðir Tinna í Belgíu. Þar hefur verið farið á Hergé safnið í Brussel og Cheverny kastalinn (sem er upphaflega fyrirmyndin að Myllusetri) verið heimsóttur svo dæmi séu tekin. Á heimasíðu Generation T má finna yfirlit yfir starf samtakanna ár hvert og á upptalningunni þar má sjá hve virkur og áhugaverður þessi félagsskapur er.

Frá upphafi hafa Generation T samtökin einnig sent frá sér vegleg ársrit í prentuðu formi eða öllu heldur árbækur sem nefnast Tintinism og innihalda mikið af áhugaverðu og skemmtilegu efni tengdu Ævintýrum Tinna. Árbókin Tintinism hefur undanfarin ár verið heilar 144 blaðsíður að lengd og troðfull af fróðlegum greinum, viðtölum og ýmsu öðru efni af mjög fjölbreytilegum toga. Bók þessi hefur ekki verið seld á almennum markaði og fæst því ekki í neinum bókabúðum og ekki er hægt að panta hana eina og sér beint frá samtökunum. Bókin er hins vegar innifalin í árgjaldi meðlima Generation T sem fá hana senda heim til sín í pósti ár hvert. Útgáfa Tintinism er einhvers konar hápunktur ársins hjá félagsmönnum samtakanna og kemur jafnan út um það leyti sem ársfundurinn er haldinn en það er í kringum afmælisdag Hergés sem er 22. maí. 

En aftur að hinum áðurnefnda tölvupósti Generation T. Í þessum pósti útskýrði forseti samtakanna fyrir SVEPPAGREIFANUM að í árbókinni hefðu í gegnum tíðina birst greinar sem fjalla um sögu Tinna bókanna á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi. Úr þessu vildi hann gera bragabót á. Fyrir tilviljun hefði hann rekist á gamla grein frá SVEPPAGREIFANUM, hér á Hrakförum og heimskupörum, sem fjallaði einmitt um sögu Tinna á Íslandi. Þessa færslu má einmitt lesa hér. Í kjölfarið óskaði hann eftir því að fá að endurbirta þýðingu af greininni fyrir næstu árbók og bauð SVEPPAGREIFANUM jafnframt að bæta við einhverjum viðbótarupplýsingum sem fram hefðu komið eftir að færslan var skrifuð. Þessi bón var að sjálfsögðu auðsótt og næstu vikurnar gengu tölvupóstarnir á milli þessara aðila með margvíslegum fyrirspurnum og upplýsingum. 

Það var síðan í seinni hluta maí mánaðar sem árbókin Tintinism 2021 var loksins send til allra meðlima samtakanna sænsku en þetta er í fjórtánda skiptið sem heftið kemur út. Í ár var reyndar ekkert eitt sérstakt þema sem tekið var fyrir en auk þessarar greinar SVEPPAGREIFANS inniheldur árbókin meðal annars skemmtilega grein um pílagrímsferð hins sænska Johans Marcopoulos til Akureyrar. En eins og allir vita leikur höfuðstaður Norðurlands stórt hlutverk í Tinna bókinni Dularfullu stjörnunni. Á Akureyri hitti Marcopoulos meðal annars hinn góðkunna fjölmiðlamann og upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, Svein H. Guðmarsson, en hann mun vera sérlegur áhugamaður um Tinnabækurnar eins og margir vita. Þess má geta að viðtal var tekið við Marcopoulos á sínum tíma sem birtist í fréttatíma RUV en það má sjá hér. En í ritinu Tintinism 2021 má einnig finna fróðlegar greinar um hið fjölbreytilega og skemmtilega málfar Kolbeins kafteins og vangaveltur um franska blaðamanninn Robert Sexé, sem fyrirmyndina að Tinna, svo fátt eitt sé nefnt. Alls er að finna um tuttugu skemmtilegar greinar í árbókinni að þessu sinni. SVEPPAGREIFINN fékk síðan, í byrjun júní, sent frá Svíþjóð eintak af Tintinism 2021 og er að sjálfsögðu afar stoltur af því að eiga efni í þessari árbók hinna virtu, sænsku Tinna samtaka.

SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekki mikla þörf fyrir því að lesa þessa grein sína í árbókinni góðu (hann skrifaði hana jú sjálfur og veit alveg um hvað hún fjallar) en hins vegar er fullt af öðru efni í ritinu sem án nokkurs vafa verður gaman að glugga í. Sjálfur er SVEPPAGREIFINN auðvitað algjörlega ósjálfbjarga á sænska tungu en hefur þó í gegnum tíðina látið sig hafa það að reyna að stauta sig fram úr myndasögum sem honum hefur áskotnast frá Svíaveldi. Töluvert er til af myndasögum sem ekki hafa enn komið út á íslensku og Lukku Láki á sænsku er til dæmis töluvert betri en enginn Lukku Láki. Ekki er honum kunnugt um hvort einhverjir íslenskir Tinna aðdáendur séu meðlimir í Generation T samtökunum en ef tekið er mið af þeim fjölda Íslendinga sem búsettir eru í Svíþjóð, vegna náms eða vinnu, ætti það svo sem ekki að koma mikið á óvart. Þessir helvítis Íslendingar leynast nefnilega nokkuð víða. SVEPPAGREIFINN hvetur allt áhugafólk um Ævintýri Tinna til að skoða heimasíðu Generation T og fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem eru sæmilega læsir á sænska tungu eru þessi samtök, með árbókinni sinni, algjör fjársjóður. Til að gerast félagsmaður þarf ekki annað en að fara inn á heimasíðuna þeirra og hafa samband þar í gegnum tölvupóst. Árgjaldið er 40 evrur (um 6000 kall) sem er lægri upphæð en mánuðurinn af áskrift að Stöð 2.