6. júlí 2025

233. FRÁBÆR FROSKUR

SVEPPAGREIFINN hefur aldrei verið nógu duglegur að hrósa Froski útgáfu nægilega, hérna á Hrakförum og heimskupörum, fyrir hennar framlag til myndasöguútgáfu hér á landi á undanförnum árum. Síðuhafi hefur lengi ætlað að setja inn færslu á bloggsíðuna sína til að vekja athygli á þessu frábæra framtaki sem Froskur hefur skilað til íslenskrar myndasöguútgáfu en það sem ýtti loksins við SVEPPAGREIFANUM voru þrjár glænýjar teiknimyndasögur frá útgáfunni sem komu í verslanir núna í júní. Þetta eru Tinna bókin Svarta gullið (bæði harðspjalda og í mjúku kiljuformi), Sval og Val sagan Baráttan um arfinn og níunda Viggó bókin Snúningar og sneypufarir. Allt eru þetta reyndar bækur sem komið hafa út áður hér á landi en eru að sjálfsögðu löngu horfnar úr öllum venjulegum bókabúðum. Það er helst að gömul og lúin eintök af þeim birtist á einstaka nytjamörkuðum eða til sölu á þartilgerðum sölusíðum á Netinu fyrir morð fjár. Bókin um Viggó er reyndar ekki nákvæmlega sú sama og Iðunn gaf út árið 1982 en sú útgáfa hét Viggó - á ferð og flugi og hafði að geyma einhvers konar samansafn af Viggó bröndurum, frá svipuðum tíma, sem ekki var endilega raðað upp í réttri röð. Viggó 9 - Snúningar og sneypufarir er hins vegar í réttri tímaröð og er því tæknilega sú rétta og tilheyrir auðvitað þannig upphaflegu útgáfuröðinni.

Allar eru þessar bækur Frosks með nýrri íslenskri þýðingu og Baráttan um arfinn (1952) hefur að geyma upprunalegu bókakápuna sem ekki var raunin með útgáfu bókarinnar sem Iðunn gaf út árið 1980. Sú bókarkápa, sem íslenskir lesendur þekkja síðan þá, var teiknuð af danska listamanninum Peter Madsen (sem auðvitað er kunnastur fyrir Goðheimabækurnar) og var höfð á norrænu útgáfunni af bókinni sem allar voru gefnar út á þessum svipaða tíma. Um það allt saman hefur SVEPPAGREIFINN fjallað áður og má lesa um hér. Annars má einnig geta þess að í nýju Frosks útgáfunni má sjá tvær heilsíðu myndir sem ekki koma fyrir í Iðunnar bókinni frá árinu 1980.

Í gömlu íslensku útgáfunni má einnig finna örsöguna Fælið ekki fuglinn (Touchez pas aux rouges-gorges) sem er tveggja blaðsíðna saga eftir Franquin og birtist til uppfyllingar aftast í bókinni. Sú saga fjallar um það þegar Gormur tekur að sér að verja rauðbrystingshreiður, fyrir ketti einum, í garði Sveppagreifans og margir muna eflaust eftir úr gömlu bókinni. Fælið ekki fuglinn er frá árinu 1956 og er því fjórum árum yngri en Baráttan um arfinn og á auðvitað ekkert erindi í bókina. Sagan birtist fyrst í SPIROU (blaði númer 936) þann 22. mars árið 1956 og kom síðan fyrir sem aukasaga í bókinni La Mauvaise tête sem ekki hefur enn komið út hér á landi. Sú bók kemur vonandi einnig út hjá Froski á næstu árum - enda ein af uppáhalds Svals og Vals sögum SVEPPAGREIFANS.

Eftir því sem SVEPPAGREIFANUM skilst þá stóð víst ekki til að Svarta gullið kæmi út hjá Froski fyrr en í haust en eitthvað hafa þær fyrirætlanir breyst og auðvitað er bara algjörlega geggjað að fá myndasögur um Sval og Val, Viggó viðutan og Tinna allar á einu bretti. Og þá er Ástríkur á Korsíku væntanleg fyrir jólin, ásamt einhverjum fleirum titlum, en sú bók hefur ekki komið áður út í íslenskri þýðingu. Það skýrist svo væntanlega þegar að líða fer á haustið hvað fleiri titla Froskur útgáfa kemur til með að bjóða upp á fyrir næstu jól. Frábært framtak og lesendur teiknimyndasagna og safnarar þeirra á Íslandi eiga Froski því virkilega mikið að þakka.

Þegar Fjölvi, með Þorstein Thorarensen í broddi fylkingar, hóf að gefa út myndasögurnar um Tinna og síðan Ástrík, snemma á áttunda áratug 20. aldarinnar, skapaðist strax grundvöllur fyrir útgáfu þessara vinsælu bókasería fyrir börn og unglinga fyrst og fremst. Íslensk ungmenni höfðu reyndar áður fengið örlítinn smjörþef af teiknimyndasögum, um það bil áratug fyrr, þegar bókaútgáfan Ásaþór í Keflavík lagði út í metnaðarfulla útgáfu á sögunum um Prins Valíant en það var ekki fyrr en léttmetið, í formi Tinna og Ástríks birtist, að myndasöguboltinn fór að rúlla fyrir alvöru á Íslandi. Á næstu árum bættust Lukku Láki og fleiri í hópinn hjá Fjölva og bókaútgáfan Iðunn hóf einnig að gefa út vinsælar seríur með Sval og Val, Viggó viðutan, Strumpunum og mörgum fleirum. Þessa sögu þekkja allir og fáeinar kynslóðir sammæltust um drekka í sig þetta vinsæla bókmenntaform sem teiknimyndasögur vissulega voru. En svo fjaraði smám saman undan vinsældunum og eitthvað annað tók við. Börn og unglingar hættu svo sem ekkert endilega að lesa bækur heldur breyttust lestrarvenjur þeirra bara og annars konar bókaform eða efni tók yfir. Hver ástæðan var liggur svo sem ekkert augljóslega fyrir en í það minnsta hættu myndasögur að mestu að koma út á Íslandi í kringum 1991-2 þar sem ekki var lengur grundvöllur fyrir útgáfu þeirra hér. 

Einhverjar tilraunir voru reyndar gerðar á næstu árum, hjá metnaðarfullum aðilum, við að reyna að glæða í myndasöguáhuganum en viðbrögðin urðu aldrei nægilega mikill. Þarna var reynt að virkja þær kynslóðir sem drukkið höfðu í sig gömlu góðu bækurnar og markhópurinn var því að mestu orðið fullorðið fólk en líklega var efnið sem boðið var uppá bara ekki nægilega áhugavert. Fólkið virtist einfaldlega frekar vilja framhald af því sem þær kynslóðir höfðu lesið sem börn. Mest var þetta á vegum útgáfu sem nefndist Nordic comics og reyndi einnig að halda úti tímariti sem kallaðist Zeta en allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir metnaðar- og hugsjónafullar tilraunir og drauma virtist útgáfa teiknimyndasagna á Íslandi alveg hafa lognast útaf upp úr aldamótunum.

En svo kom Froskur útgáfa til sögunnar. Eða öllu heldur franski listamaðurinn Jean Antoine Posocco sem settist að á Íslandi á seinni hluta 20. aldarinnar og byrjaði að gefa aftur út gamalkunnar belgísk/franskar myndasöguseríur í fyrsta sinn í mörg ár. Fyrstu sögurnar hófu að koma út árið 2012 og hjörtu þeirra kynslóða, sem upplifðu blómatíma teiknimyndasagna á íslensku, fóru að slá hraðar þegar bækur með Sval og Val, Ástrík og Viggó viðutan tóku að birtast í bókahillum verslana á ný. Og ekki minnkaði gleðin þegar Lukku Láki, Strumparnir og sjálfar Tinna bækurnar fóru einnig að sjást aftur. Jean Antoine Posocco kynnti ennfremur til sögunnar nýjar seríur sem yngri kynslóðir fengu nú tækifæri til að kynnast en að mati SVEPPAGREIFANS er þó mesti fengurinn í gömlu seríunum. Tinna bækurnar eru sígildar og nýjar þýðingar, útlit og tvö mismunandi brot gera þær ekki bara að safngripum heldur verða eldri útgáfurnar frá Fjölva um leið einnig verðmætari í komandi framtíð. Þær munu aldrei verða endurútgefnar aftur í þýðingum þeirra Þorsteins Thorarensen og Lofts Guðmundssonar. Flestar bóka Frosks með Ástríki og Sval og Val höfðu ekki komið út áður hér á landi og þær stöku bækur úr þeim seríum, sem eru endurútgefnar, hafa verið illfáanlegar í áratugi og hafa nú yfir að ráða glænýjum þýðingum. Engin af Lukku Láka bókum Frosks höfðu komið út hér á Íslandi áður og er því alveg sérstaklega mikill fengur í þeim. Allar þessar nýju teiknimyndasögur eru því vel þegnar og eru hluti af þeirri metnaðarfullu stefnu Jean Antoines að gefa út heilu seríurnar með tíð og tíma. Í fljótu bragði telst SVEPPAGREIFANUM til að bækur þessara gömlu grónu bókasería séu komnar vel á sjötta tug titla hjá Froski og í heildina séu líklega komnar út á bilinu 130-140 teiknimyndasögur alls - hugsanlega fleiri. Þó upplögin séu sennilega ekki jafn umfangsmikil og stóru forlögin voru að senda frá sér hér á árum áður þá er þetta nú þegar orðnir álíka margir titlar og jafnvel fleiri en bæði Fjölvi og Iðunn gáfu út á sínum blómatíma. Það er alveg frábært og Froskur virðist hvergi nærri hættur.

Þó útgáfa þessara bóka hafi farið af stað með miklum metnaði hefur raunsæin ráðið ríkjum frá upphafi. Froskur hefur allt frá upphafi án nokkurs vafa tekið heilmikla áhættu með útgáfunni og skynsemin ráðið því að aldrei hefur verið ráðist í of mikið í einu. Hugsjón er því fyrst og fremst orðið sem kemur upp í hugann þegar Froskur útgáfa er nefnd til sögunnar og því miður er ólíklegt að Jean Antoine Posocco eigi nokkurn tímann eftir að verða ríkur af þessari áhættusömu útgáfu. SVEPPAGREIFINN hvetur því alla unnendur teiknimyndasagna til að flykkjast í bókabúðir og versla sér þessar bækur Frosks útgáfu. Á meðan einhver kaupir og les þessar myndasögur heldur útgáfa þeirra áfram en mun eflaust alltaf verða rekin af hugsjóninni einni og mikilvægt er að Jean Antoine þurfi ekki að borga með sér. SVEPPAGREIFINN setti sér það viðmið fyrir nokkrum árum að versla eina nýja myndasögu á mánuði allt árið en hefur reyndar sjaldnast staðið við þá reglu. Sjálfur kíkti GREIFINN því í Nexus nú í vikunni og verslaði sér allar nýju bækurnar þrjár á einu bretti. Hann sá ekki neitt eftir því og hefur reyndar margoft eytt aurunum sínum í miklu óþarfari hluti í gegnum tíðina. Auðvitað eru myndasögur ekki ókeypis frekar en aðrar bækur en til gamans má geta að bæði Svals og Viggó bækurnar kostuðu í kringum 3500 krónur hvor. Það er svipuð upphæð og SVEPPAGREIFINN greiddi fyrir létt bakkelsi (beikonbræðing, sérbakað vínarbrauð, kaffibolli og kók í plasti) í Bakarameistaranum á meðan hann beið eftir að Nexus opnaði. Bækurnar eru eitthvað dýrari í til dæmis Hagkaup en langbest er auðvitað að heimsækja Froskinn sjálfan í Vatnagörðum og versla þannig beint frá býli.

2. desember 2024

232. SJALDGÆF MYNDASAGA Í HÚS

Heldur hefur nú farið lítið fyrir skrifum SVEPPAGREIFANS á bloggsíðu Hrakfara og heimskupara undanfarin misserin eins og einhverjir lesenda hafa væntanlega orðið varir við. Ekki er þó ætlunin að nota enn eitt tækifærið til að afsaka þær misgjörðir en það er aldrei að vita nema einhverjar breytingar kunni að verða á birtingum færslna á vettvangi Greifans hér á síðunni. Það var aldrei hugmyndin að láta alveg staðar numið hér og því má ennþá alveg reikna með að einstaka færslur detti inn þegar tilefni gefast til. Líklega verða þær reyndar frekar í styttri kantinum en af fenginni reynslu er þó best að lofa engu í þeim efnum - viðfangsefni SVEPPAGREIFANS geta nefnilega verið ansi fljót að vinda upp á sig þegar eitthvað áhugavert fellur til. Annars hafa langar færslur með litlu innihaldi löngum verið einkenni þessa myndasögubloggs auk þess sem myndir hafa af augljósum ástæðum verið nýttar vel til að fylla inn í þar sem uppá vantar. Enn er allavega af nógu að taka þó ekki hafi alltaf gefist mikill tími fyrir krassandi myndasöguhugleiðingar að undanförnu.

En tilefni nákvæmlega þessarar færslu má rekja til óvænts en skemmtilegs myndasögufundar, í Góða hirðinum á dögunum, þar sem SVEPPAGREIFINN rakst á nánast óslitið eintak af gamalli teiknimyndsögu sem nefnist Orrustan um Varsjá. Reyndar minntist hann þess að hafa einhvern tímann áður séð hugrenningar um tilvist þessarar bókar en þó aldrei rekist á hana í eigin persónu. Því tók við almennt grams og grúsk um bókina eins og gengur og gerist en það verður að viðurkennast að afar litlar upplýsingar var að finna um þessa teiknimyndasögu á víðáttum veraldarvefsins. Í hinni frábæru myndasögugrúbbu "Teiknimyndasögur" á Facebook, sem síðuhafi hefur verið duglegur að mæra og vitna í hér á síðunni, fann hann nánast engar upplýsingar en þó virtust einn eða tveir fylgjendur hópsins kannast við gripinn og höfðu minnst lítillega á Orrustuna um Varsjá þar. Þar kom þó ekkert meira fram en bara nafn bókarinnar og þar með staðfesting á tilvist hennar en aðrar upplýsingar voru af takmörkuðum toga. SVEPPAGREIFINN gerði einhverju sinni svolitla úttekt á þeim myndasögum sem komið höfðu út á íslensku á áratugunum áður en Tinna- og Ástríksbækurnar byrjuðu að koma fyrir sjónir íslenskra barna en þessa bók var til dæmis hvergi að finna í þeirri samantekt, enda var sá listi yfir forverana engan veginn tæmandi.

Ekkert kemur fram í bókinni sjálfri um útgáfu hennar, ártal, þýðanda eða listamanninn sem teiknaði söguna en eftir svolítið grúsk fann SVEPPAGREIFINN upplýsingar um að myndasaga þessi hafi líklega fyrst komið út árið 1966 hjá Þórsútgáfunni í Hafnarfirði. Sennilega hefur upplag hennar selst upp því sagan var endurútgefin árið 1975 af lítilli bókaútgáfu sem nefndist Bókamiðstöðin. Það fyrirtæki var stofnað af Heimi B. Jóhannssyni prentara árið 1960 en árið 1964 stofnsetti hann einnig prentsmiðju sem tilheyrði sömu bókaútgáfu. Eins og áður segir koma engar nánari upplýsingar fram í bókinni sjálfri og því er ekki ljóst hvort eintak SVEPPAGREIFANS sé fyrsta prentun hennar frá árinu 1966 eða endurprentuninn frá 1975. Síðuhafa grunar þó frekar að um seinni prentun bókarinnar sé að ræða, þó það komi reyndar hvergi fram, en hjá leiti/gegni.is má finna upplýsingar um að í 1966 útgáfunni komi fram titillinn, Heimsstyrjöldin 1, Orrustan um Varsjá. Það bendir því allt til að staðið hafi til að gefa út fleiri slíkar bækur í myndasöguformi og Orrustan um Varsjá hafi verið hugsuð sem sú fyrsta af heilum bókaflokki um Heimsstyrjöldina.

En bókin Orrustan um Varsjá lætur lítið yfir sér og við fyrstu sýn er nánast útilokað að átta sig á að hér sé um teiknimyndasögu að ræða. Fljótt á litið mætti hæglega ætla að bókin væri aðeins ein af þessum hefðbundnu og venjulegu barna- og unglingasögum sem voru að koma út á þessum árum. Bókin er í sömu stærð og broti og bækur Ármanns Kr. Einarssonar um sögurnar um Óla og Magga, sem margir muna eflaust eftir, og komu út hjá Bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri á svipuðum tíma og hefur yfir að ráða sambærilegri, stífri pappakápu og með viðkvæman og brothættan kjöl sem hafði tilhneigingu til að rifna upp. Ekki ósvipað og myndasögurnar um Prins Valíant sem Ásaþór sendi frá sér á svipuðum tíma. SVEPPAGREIFINN kannaði reyndar ekki til hlítar hvort Orrustan um Varsjá hefði birst á síðum dagblaðanna eins og myndasögurnar um Tarzan höfðu gert áratugina á undan en þær sögur voru jafnan gefnar út í bókaformi eftir að þær höfðu birst í blöðunum. En ef svo hefði verið hefði það klárlega komið fram við hefðbundna Google leit.

En Orrustan um Varsjá er í heild sinni tæplega 100 blaðsíður að lengd og hver opna hefur að geyma frá þremur og upp í sjö myndaramma. Myndirnar eru ólitaðar og notast er við textablöðrur sem ekki var sjálfgefið í myndasögum frá þessum tíma. Bókin Orrustan um Varsjá gerist að sjálfsögðu á fyrstu dögum Síðari heimsstyrjaldarinnar og er sögð frá sjónarhorni þýskra hermanna en það leiðir auðvitað líkum að því að höfundur hennar hafi verið Þjóðverji og sagan er því svolítið lituð af því. Þó ekki komi fram beinn áróður fyrir þýskum nasisma má reikna með að slík saga hefði ólíklega fengið hljómgrunn hjá íslenskum bókaútgefendum. En hér er ekki bara um venjulega stríðssögu að ræða heldur er hún í grunninn ástarsaga þar sem hefðbundinn ástarþríhyrningur kemur við sögu. Það þarf ekki að taka það fram að ansi er þar nú stiklað á stóru enda er sagan sjálf ekki nema 94 blaðsíður. Ekki merkileg bók en óneitanlega frekar sjaldgæf og torfundin myndasaga sem er gaman að vera búið að ná í hús.

17. mars 2024

231. DÆMI UM ÓSMEKKLEGHEIT SVEPPAGREIFANS

Það er orðið ansi langt síðan SVEPPAGREIFINN gaf sér síðast tíma til að setja inn færslu hér á Hrakförum og heimskupörum. Auðvitað eru ýmsar misjafnar ástæður (eða afsakanir) fyrir réttlætingu á því en tímaskortur er ein sú helsta því SVEPPAGREIFINN hefur haft yfirdrifið nóg á sinni könnu undanfarna mánuði. Hann fann sér þó gott tilefni til að bæta úr þessum færsluskorti sínum þegar hann rakst á fyndna en um leið frekar ósmekklega myndasögutengda mynd, af ónefndri bloggsíðu, á hinum margfrægu víðáttum Internetsins. SVEPPAGREIFINN getur jú stundum líka verið svolítið ósmekklegur á köflum og þá sérstaklega þegar hann fær kost á birtingu ódýrrar færslu. En hér er sem sagt um að ræða myndaramma úr Tinnabókinni Leynivopninu sem allir sannir teiknimyndasögulesendur þekkja auðvitað til hlítar. Og gjörið svo vel!

10. nóvember 2023

230. EITT AF MEISTARAVERKUM ANDRÉ FRANQUIN

SVEPPAGREIFINN hefur ekki verið neitt sérstaklega duglegur við skriftir hér á Hrakförum og heimskupörum á undanförnum vikum en ákvað, samvisku sinnar vegna, að henda í eins og eina færslu. Það er ekki laust við að svolítið ryð hafi verið byrjað að myndast á myndasöguandagift Greifans og því tók það hann nokkurn tíma að rifja upp og virkja einhvern efnilegan innblástur. En það tókst samt og að endingu varð fyrir valinu eitt af uppáhalds viðfangsefnum hans af öldum myndasöguhafsins. Hér erum við að sjálfsögðu að tala um brandara með sjálfum Viggó viðutan.

Að þessu sinni gróf SVEPPAGREIFINN upp frábæran brandara úr fyrstu Viggó bókinni á íslensku, Viggó hinn óviðjafnanlegi, sem kom út í þýðingu Jóns Gunnarssonar hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1978. Brandarinn birtist upphaflega í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 21. október árið 1971 og er skráður undir númerinu 688. Í sem allra einfaldastri skýringu segir hér frá því þegar Viggó bíður Snjólfi (sem heitir reyndar Lárus í þessari fyrstu Viggó bók á íslensku) að bragða sem snöggvast á piparsósunni sinni. Ekki undir neinum kringumstæðum ætti svo hversdagslegur og einfaldur atburður að vera tilefni til merkilegs einnar blaðsíðu myndasögubrandara en listamanninum André Franquin tekst það þó samt, svo um munar, með stórkostlegum afleiðingum.

En áður en lengra er haldið er líklega bara best að birta þennan brandara hér í heild sinni.

Það er líklega ekki ofsögum sagt að hér fari eitt af meistaraverkum Franquin í meðförum hans á Viggó viðutan. Þrátt fyrir hið meinta innihaldsleysi þá er þetta er alveg hreint stórkostlega fyndinn og vel teiknaður brandari. Nánast hver einasti myndarammi er listaverk sem gæti einnig vel sómað sér sem stök mynd. SVEPPAGREIFINN minnist þessarar blaðsíðu úr æsku og þótti hún auðvitað óstjórnlega fyndin (eins og svo margt annað með Viggó viðutan) en þegar hann var að skoða þennan brandara, í aðdraganda skrifa þessarar færslu, stóð hann sig að því að hreinlega veina af hlátri. Þrátt fyrir að brandarinn byrji strax með látum, og fyrstu fjórir myndarammarnir einkennist aðallega af mismunandi viðbrögðum Eyjólfs við hinni afgerandi framgöngu Snjólfs, þá tekst listamanninum samt sem áður að stigmagna áhrif piparsósunnar með hverri mynd. Það er óhætt að segja að Snjólfur greyjið líti vægast sagt svolítið illa út á þessum fyrri hluta brandarans.

Fyrst spólar hann á ofsafenginn hátt út um dyrnar á skrifstofunni, síðan veltir hann sér organdi um gólfið á ganginum með hendurnar krepptar um logandi hálsinn og í framhaldinu rífur hann utan af sér fötin, hoppandi og skoppandi, á meðan hann blæs másandi í allar áttir. Á þessum fyrstu augnablikum brandarans er Snjólfur eldrauður í andlitinu og allt tryllingslegt látbragð hans ber vott um hamslaust æði. Hvergi hefur þó enn komið fram hver ástæða þessa óvenjulega háttalags hans er en samt er augljóst að hann virðist kveljast illilega af einhverjum ókunnum ástæðum. Þessar teikningar Franquins af tilþrifum Snjólfs eru hreint og beint óborganlegar en þarna eru ósköpin þó bara rétt að byrja því næsta mynd er stórkostleg.

Hér er aumingja maðurinn nefnilega alveg búinn að rífa fötin utan af sér, að ofanverðu, hendist svo í einu stökki upp á skrifborðið hjá henni Sigrúnu (sem hann hefur oft dundað sér við að gera hosur sínar grænar fyrir) og grípur um leið í loftljósið fyrir ofan hana. Þaðan sveiflar hann sér síðan burtu með ægilegu frumskógaöskri en Sigrún lætur sér hins vegar fátt um finnast enda greinilega ýmsu vön af hendi Snjólfs við ástarumleitanir hans. Ætli hún sé ekki önnum kafin þarna við að æfa sig að pikka zefklop, zefklop, zefklop á ritvélina sína? Þessi myndarammi hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM í gegnum tíðina og þá er næsta mynd ekki síðri.

Á þessum tímapunkti hefur ekki enn komið fram af hverju Snjólfur fer þessum hamförum á göngum ritstjórnarskrifstofu SVALS en þó er gefin ákveðin vísbending með þessum frábæra myndaramma. Þarna sprautar hann úr slökkvitæki upp í galopinn munninn á sér og þar með virðist augljóst að eitthvað hafa þessi tilþrif með það að gera að hann hafi sett einhvern óþverra ofan í sig. Það ber auðvitað vott um stórkostlegt hugmyndaflug Franquins að láta sér detta í hug að láta hann nota slökkvitæki við verkið og þetta er alveg frábærlega vel útfærð mynd. Líklega hefði ekki neinn annar listamaður getað teiknað þessi tilþrif jafn listilega vel upp og André Franquin! SVEPPAGREIFINN elskar þennan myndaramma og hefur jafnvel velt því fyrir sér að láta prenta þessa mynd fyrir sig á stórt plaggat til að hafa uppi á vegg á góðum stað í heimili sínu.

Það er síðan á síðusta myndaramma brandarans sem loksins kemur fram ástæða þessa tryllingslega upphlaups Snjólfs þegar Viggó nefnir piparsósuna við Eyjólf. Á þessari mynd eru nokkrir frábærir punktar sem vert er að minnast á. Fyrst og fremst má auðvitað nefna hvernig Snjólfur sjálfur hefur komið sér haganlega fyrir (á hvolfi reyndar) ofan í vaskinum og lætur vatnið buna af fullum krafti upp í sig á meðan Eyjólfur fylgist með í forundran. Þetta er auðvitað alveg stórkostlegt að horfa á. Fyrir aftan þá stendur annar af hollensku bræðrunum (sá rauðhærði), sem hefur verið kallaður Guðni í íslensku þýðingunum, og virðir undrandi fyrir sér fótspor Snjólfs uppi í loftinu fyrir ofan þá. Viggó sjálfur lætur sér hins vegar fátt um finnast og kippir sér lítið upp við æðiskast Snjólfs. Hann heldur á litlum skaftpotti sem augjóslega hefur að geyma piparsósuna illræmdu og ef grannt er skoðað má sjá hvernig rótsterk sósan hefur smám saman étið sig í gegnum botninn á pottinum eins og kraumandi sýra. Af því má ráða að piparsósan hljóti að vera í sterkari kantinum og hin ofsafengnu viðbrögð Snjólfs því líklega bara nokkuð eðlileg.

23. ágúst 2023

229. Á NOKKRUM TUNGUMÁLUM

Í dag er boðið upp á frekar snöggsoðna og ódýra færslu. En SVEPPAGREIFINN hefur iðulega alla anga úti, eftir því sem tími og næði gefast til, við að reyna að hafa upp á áhugaverðu efni til birtingar hér á Hrakförum hans og heimskupörum. Hann gramsar gjarnan á hinu svokallaða Interneti, grúskar í bókum og blöðum og fylgir hinum ýmsum grúbbum á Facebook með það að markmiði að finna eitthvað til að punkta hjá sér. Stundum verður þetta grúsk hans til að færsla fæðist hér á síðunni en oftar gerist mest lítið. Og þó ... á einum ónefndum stað, á öllu þessu flakki sínu, rak hann samt nýlega augun í merkilegt myndasafn sem samanstendur af litlum myndarömmum af blaðsíðu 34 úr Tinna bókinni Svaðilför í Surtsey. Í þessu myndasafni má sjá hvar Tinni kallar reiðilega nafn Tobba enda hefur hundspottið laumast til að fá sér svolítið í staupinu. Þarna hafa sem sagt verið týndar til nokkrar útgáfur af myndinni þar sem nafn Tobba kemur fyrir á 24 mismunandi og ólíkum tungumálum. Samkvæmt Wikipedia hafa Tinna bækurnar verið þýddar á yfir 70 tungumálum svo hér er alls ekki um tæmandi lista að ræða og glöggir lesendur átta sig þó auðvitað strax á því að inn í þetta safn vantar íslensku útgáfuna af myndarammanum.

Þetta fannst SVEPPAGREIFANUM auðvitað hin mesta hneisa og þótti því ekki tilhlýðilegt annað en að bæta aðeins úr þeim Tobba-skorti hið snarasta. Hann tók sér því það bessaleyfi að birta í þessari færslu hina upprunalegu íslensku útgáfu af þessum margbreytilega myndaramma.

Nokkru síðar rakst SVEPPAGREIFINN síðan á aðra sambærilega mynd sem að þessu sinni er af Kolbeini kafteini og kemur fyrir ofarlega á blaðsíðu 53 í bókinni um Fjársjóð Rögnvaldar rauða. Í þessari myndasultu allri sést kafteinninn öskra reiðilega á Skaftana, eins og hans er reyndar von og vísa, einnig á talsverðum fjölda ólíkra tungumála. Að þessu sinni er um að ræða 22 mismunandi tungumál og enn á ný hefur þeim aðila, sem safnaði þessum myndarömmum saman, láðst að hafa íslensku útgáfuna með. Þessi frammistaða er náttúrulega til háborinnar skammar.

Þessi íslensku-skortur er að sjálfsögðu fyrir neðan allar hellur (er ekki alltaf notaður sandur þar?) og SVEPPAGREIFINN birtir hér einnig myndarammann góða, á hinu ylhýra, til samanburðar.

Látum þetta gott heita í dag ...