19. ágúst 2022

212. VEGIR LIGGJA TIL ALLRA ÁTTA

Stutt og ódýr færsla í dag. SVEPPAGREIFINN rakst á þessa gömlu ljósmynd fyrir nokkru sem gat ekki annað en minnt hann á góðan brandara um Viggó viðutan sem kemur að sjálfsögðu úr smiðju listamannsins André Franquin. Margir íslenskir myndasögulesendur muna eflaust eftir þessu atviki úr bókinni Viggó á ferð og flugi sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sé fyrir jólin árið 1982. Brandarinn birtist hins vegar fyrst á forsíðu SPIROU myndasögutímaritsins, þann 17. júní árið 1965, í blaði númer 1418 og það verður að teljast mjög líklegt að Franquin hafi haft þessa mynd til hliðsjónar þegar hann fékk hugmyndina að þessum frábæra brandara á sínum tíma. SVEPPAGREIFINN gaf sér reyndar ekki tíma til að kanna það mál almennilega til hlítar.

Og ekki ljúkum við þessari færslu án þess að birta einnig Viggó brandarann úr bókinni góðu.


5. ágúst 2022

211. GORMURINN SKREPPUR Í BÆINN

SVEPPAGREIFINN minntist á það fyrir nokkru að næstu færslur hans gætu orðið í einfaldari og fátæklegri kantinum, í náinni framtíð, enda verulega farið að saxast á það efni sem myndasöguforðabúr hans hefur haft að geyma undanfarin ár. Færsla dagsins ber þess einmitt svolítil merki og er því töluvert ódýr þennan föstudaginn. En hún er svo sem ekkert verri fyrir því.

Hún fjallar um gormdýrið úr sögunum um Sval og Val en SVEPPAGREIFINN hefur reyndar ekki verið neitt sérstaklega duglegur við að skrifa um þennan óvenjulega förunaut þeirra félaga. Það er því kominn tími á að bæta svolítið úr því. En Gormur birtist fyrst í Sval og Val sögunni Baráttan um arfinn (Spirou et les héritiers) sem André Franquin teiknaði árið 1952. Hugmyndina að sköpun hans fékk Franquin eftir að hafa gluggað í bók eftir Bernard Heuvelmans sem fjallaði um ýmis goðsagnakennd dýr alls staðar að úr heiminum. Höfundurinn trúði því að einhver þessara dýra væru til í raun og veru og út frá þeim punkti ákvað Franquin að skapa sína eigin goðsagnakenndu dýrategund. Með tímanum þróaðist persóna gormdýrsins meira (líkt og samferðarmanna þess) og í Gormahreiðrinu (Le nid des Marsupilamis - 1960) fékk listamaðurinn tækifæri til að sýna og byggja upp þetta velheppnaða sköpunarverk frá grunni. Þar kemur vel fram aðlögunarhæfni þess, hvernig þessi dýrategund lifir og hrærist í frumskógum Palombíu, hvernig gormaparið byggir sér flókin körfuhreiður og kemur síðan upp ungum úr eggjum. Seinna skapaði listamaðurinn enn fleiri eiginleika sem Gormur hafði yfir að ráða en áður hafði reyndar einnig komið í ljós að dýrið lifir jafnt á láði og legi. Franquin hafði þannig búið til alveg nýja dýrategund sem var algjörlega byggð upp eftir hans höfði og það eitt sýnir vel hve gríðarlega skemmtilegu hugmyndaflugi hann hafði yfir að ráða. En hann viðurkenndi líka að hann hefði gert nokkur fljótfærnisleg mistök við sköpun þess. Franquin sá til dæmis alltaf eftir því að hafa látið Gorm tala í Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence - 1958) og þessi hæfileiki dýrsins var ekki endurtekinn í sögunum sem á eftir komu. Honum yfirsást einnig illa að hafa teiknað gormdýrið með nafla. Eins og sést í Gormahreiðrinu klekjast ungarnir út úr eggjum og Franquin var ekki enn búinn að finna góða ástæðu fyrir tilurð nafla dýranna þegar hann lést árið 1997. Gormdýrið var André Franquin alla tíð mjög kært og eins og flestir Sval og Val aðdáendur vita auðvitað heimilaði hann ekki að Gormur yrði teiknaður áfram í seríunni þegar Jean-Claude Fournier tók við henni árið 1969.

En það er víst best að snúa sér að færslu dagsins. Hér er sem sagt um að ræða stutta, sjaldséða fjögurra blaðsíðna myndasögu sem birtist á síðum 3. tölublaðs franska myndasögutímaritsins Risque-Tout þann 8. desember árið 1955. Risque-Tout var einhvers konar tilraunaverkefni hjá Dupuis útgáfufyrirtækinu sem ákvað að reyna að gefa út metnaðarfullt myndasögublað í stóru dagblaðabroti. Dupuis var auðvitað enn að gefa út SPIROU tímaritið, þar sem sögurnar um Sval og Val birtust, og aðkoma André Franquin að Risque-Tout var því tiltölulega einföld. Blaðið í stóra brotinu entist þó ekki nema í um eitt ár og hætti útgáfu sinni í byrjun nóvember árið 1956. Þetta var fyrsta sjálfstæða saga Franquins með Gormi og í raun aðeins ein af þremur slíkum sem André Franquin teiknaði með honum á þessum árum. Hinar sögurnar birtust sem örsögur í SPIROU tímaritinu og margir muna til dæmis örugglega eftir smásögunni Fælið ekki fuglinn sem kemur fyrir í lok bókarinnar Baráttan um arfinn. Svalur og Valur koma ekki fyrir í þessari sögu en Sveppagreifinn (blessaður kallinn!) birtist hins vegar á síðustu tveimur myndarömmum hennar.

Enn á ný birtir SVEPPAGREIFINN því kolólöglega (og illa gerða) þýðingu á myndasögutengdu efni en það verður bara að hafa það og hann biðst innilega afsökunar á glæpnum.

 22. júlí 2022

210. Í TILEFNI EM - SAMMI OG KOBBI Í FÓTBOLTA

Evrópukeppni kvennalandsliða í knattspyrnu er víst enn á fullu skriði og veislan rúllar áfram þó þátttöku íslenska liðsins á mótinu sé reyndar lokið. Ísland fór taplaust í gegnum mótið en datt úr leik vegna tilfinnanlegs skorts á stigum í riðlinum sínum. Liðið gerði þar þrjú jafntefli í þremur misgóðum leikjum og líkt og í föstudagsfærslunni fyrir tveimur vikum ætlar SVEPPAGREIFINN að tileinka landsliðinu myndasöguefni dagsins.

Í síðustu færslu fjallaði SVEPPAGREIFINN eilítið um löngu gleymda Sval og Val knattspyrnusögu, eftir þá Nic (Nicolas Broca) og Alain de Kuyssche, en þennan föstudaginn er ætlunin að skoða aðra fótboltatengda teiknimyndasögu. Sú saga er um þá félaga Samma og Kobba en reyndar er smá tenging á milli þeirrar bókar og Sval og Val sögunnar sem fjallað var um í síðustu viku. De Kuyssche, sem var ritstjóri SPIROU myndasögublaðsins, gerði handritið að áðurnefndri Sval og Val sögu en það var hins vegar handritshöfundurinn afkastamikli Raoul Cauvin sem skrifaði þrjár sögur í bókaflokknum fyrir Nic og voru gefnar út í seríunni. Þessar Nic og Cauvin sögur með Sval og Val þykja reyndar arfaslakar en Cauvin var hins vegar þekktari fyrir handritsskrif sín að Samma bókunum og skrifaði heilar fjörutíu og þrjár sögur í þeirri seríu - flestar með listamanninum Berck. Hér á landi komu út ellefu bækur úr upprunalegu seríunni, á árunum 1981-91, en sögurnar fjörtíu og þrjár voru gefnar út í fjörtíu bókum í Belgíu á árunum 1973-2009. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið gaman að þessum bókum en reyndar verður að taka það fram að þær eru afar misjafnar að gæðum og eins og oft vill verða í langlífum myndasöguseríum eru elstu sögurnar betri. En hjá afkastamiklum handritshöfundum þynnast sögurnar óneitanlega með tímanum og þegar sami aðilinn er búinn að skrifa samtals um fjögur hundruð myndasöguhandrit má gera ráð fyrir að síðustu þrjú hundruð og áttatíu séu algjört rusl. Hjá Samma og félögum er þó yfirleitt nokkuð gott flæði og sjaldan nein lognmolla eða dauðir punktar í bókunum. 

En þessi fótboltatengda Samma saga heitir á frummálinu Les gorilles marquent un but og hóf göngu sína í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 14. febrúar árið 1980. Þetta var átjánda sagan í upprunalegu seríunni og kom síðan út í bókarformi hjá Dupuis útgáfunni árið 1981. Á íslensku mætti heimfæra titil bókarinnar upp á Górillurnar hitta í mark en hinar svokölluðu górillur eru liðsmenn lífvarða- og einkaspæjaraþjónustunnar J.S. Górillur sem þeir Sammi og Kobbi reka. Þess má geta að í tæplega helmingi bókanna, úr seríunni um Samma og Kobba, má einmitt finna sambærilega górillu-tengingu í titlum þeirra. Þessi tiltekna Samma bók kom auðvitað aldrei út á íslensku en SVEPPAGREIFINN vissi að söguna væri að finna einhvers staðar í myndasöguhillunum hans innan um aðrar slíkar. Og honum til töluverðar undrunar uppgötvaði hann reyndar að þar leyndust hvorki meira né minna en þrjú eintök af bókinni á þremur mismunandi tungumálum. Auk frönsku útgáfunnar má þar finna bæði norska og sænska útgáfu af bókinni. SVEPPAGREIFINN gleymir augljóslega jafnóðum hvað hann hefur verið að dunda sér við að kaupa í gegnum tíðina.  

En Les gorilles marquent un but hefst á því að þeir félagar fá úthlutað verkefni með loforði um 10.000 dollara greiðslu og 50.000 í viðbót við verklok. Þetta er náttúrulega tilboð sem Kobbi getur ekki hafnað og skiptir þá litlu hversu vitlaust verkið er. Þjálfari knattspyrnufélagsins Solivie fær þeim það verkefni að vernda liðsmenn þess fyrir árásum sem þeir verða stöðugt fyrir frá aðilum sem tengjast liði frá bananalýðveldinu Pégrou (hvar sem það nú er?) sem þeir eiga að fara að spila mikilvægan úrslitaleik við eftir nokkra daga. Brjálaðar boltabullur herja jafnt á liðið, áhangendur þess og dómara leikja þess. Með því að dulbúa sig sem tvo af leikmönnum Solivie geta þeir Sammi og Kobbi fylgst með öllu torkennilegu sem gerist á æfingasvæðinu en auk þeirra eru aðeins byrjendur látnir taka þátt í æfingunum. Á meðan eru alvöru stjörnur liðsins sendir í burtu og æfa sjálfir í laumi til að vernda þá fyrir leikinn gegn Pégrou. Samma og Kobba er því ætlað að vera í einhvers konar tálbeituhlutverki á æfingasvæðinu fyrir fótboltabullurnar og þessir dagar, fram að leik Solivie gegn Pégrou, eru vægast sagt viðburðaríkir og ofbeldisfullir fyrir þá félaga.

Rauði þráðurinn í gegnum söguna snýst því að sjálfsögðu um það hvernig hinir óheppnu samstarfsmenn, Sammi og Kobbi, verða fyrir barðinu á boltabullunum fram að leiknum stóra. Sagan Les gorilles marquent un but er í nokkuð formúlukenndum Samma og Kobba anda en þykir þó einnig nokkuð óvenjuleg. Það má líklega helst rekja til knattspyrnutengingar bókarinnar en frekar sjaldgæft er að í söguþræði belgísk/franskrar teiknimyndasögu megi finna slík dæmi þrátt fyrir vinsældir íþróttarinnar í hinum frönskumælandi löndum. Í svipinn man SVEPPAGREIFINN aðeins eftir Sval og Val sögunni Les voleurs du Marsupilami (sem enn hefur ekki komið út hér á landi) þar sem fótbolti kemur við sögu og seríuna um knattspyrnukappann Eric Castel sem síðuhafi hefur einhvern tímann minnst eitthvað á. Í þessu samhengi má auðvitað einnig nefna einn og einn brandara með Viggó viðutan annars vegar og hins vegar með Strumpunum. Reyndar má síðan alls ekki gleyma seríunni um knattspyrnustrákinn Lúkas sem Froskur útgáfa hefur verið að myndast við að gefa út á undanförnum árum. Alls eru komnar út fjórar sögur úr þeim bókaflokki hér á landi.

Les gorilles marquent un but á svo sem voðalega lítið skylt við alvöru fótbolta en hún er töluvert fyndin og svona hæfilega vitlaus eins og bækurnar um þá Samma og Kobba eru gjarnan þó innihaldið sé í rýrari kantinum. Þetta er reyndar ekki besta sagan með þeim félögum en það má samt alveg klárlega hafa gaman af bókinni. Talið er að þeir Nic og Cauvin hafi með Les gorilles marquent un but verið að vekja athygli á ofbeldi á knattspyrnuvöllum sem oftar en ekki tengdust fótboltabullum. En óeirðir voru að verða mikið vandamál á áhorfendapöllum víða um Evrópu á þessum árum. Sagan hefst til dæmis á því að Sammi og Kobbi eru áhorfendur á leik hjá Solivie og verða þar vitni að slagsmálum hjá bæði hjá áhorfendum og leikmönnum niðri á vellinum. Ólætin eru svo mikil að jafnvel Samma og Kobba blöskrar sem þó kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Dómarinn ræður ekki við neitt og verður sjálfur meira að segja fyrir grófri líkamsárás.

 
 
Heilt yfir snýst Les gorilles marquent un but þó um að hinir seinheppnu Sammi og Kobbi lenda í sambærilegum aðstæðum og í öllum hinum fjörtíu og tveimur sögunum. Lífvarðaþjónustan félaganna fá verkefni, þeim er lofuð feit greiðsla, allt gengur á afturfótunum með hefðbundnu ofbeldi og vitleysu og sagan endar auðvitað á því að þeir fá ekki borgað fyrir viðvikið. Allt samkvæmt síendurtekinni formúlu Raoul Cauvin og auðvitað alveg bráðfyndið á köflum.
 
 
Svo í lokin má líka til gamans geta þess svona af því að SVEPPAGREIFINN minntist einmitt á norsku útgáfuna af þessari sögu að heiti bananalýðveldisins í þeirri bók er fengið að láni úr seríunni um Sval og Val. Pégrou nefnist þar nefnilega hinu kunnuglega nafni Palombia og norska bókin heitir reyndar Cupfinale i Palombia eða Bikarúrslitaleikur í Palómbíu.

8. júlí 2022

209. Í TILEFNI EM - ÁFRAM SVEPPABORG

Þennan föstudaginn ætlar SVEPPAGREIFINN að bjóða lesendum sínum upp á nokkuð yfirgripsmikla myndasögutengda fótboltafærslu. Tilefnið er að sjálfsögðu þátttaka íslenska kvennalandsliðsins á EM í knattspyrnu þar sem þær hefja leik á sunnudaginn gegn belgíska liðinu. Síðuhafi hefur í gegnum tíðina einmitt reynt að tengja færslur Hrakfara og heimskupara við sambærilega knattspyrnuatburði þegar þannig stendur á og nú er komið að einni slíkri.
En fyrir hátt í þremur árum síðan fjallaði SVEPPAGREIFINN svolítið um belgíska tvíeykið Nic og Cauvin en sá síðarnefndi lést reyndar síðastliðið sumar rúmlega áttræður að aldri. Saman voru þeir félagar kunnastir fyrir aðkomu sína að þremur teiknimyndasögum um Sval og Val en þær sögur hafa jafnan verið taldar hinar slökustu í allri seríunni. Það er reyndar ekki ætlunin að fjalla neitt sérstaklega um þann vafasama heiður hér, enda SVEPPAGREIFINN svo sem alveg búinn að því, en hins vegar minntist hann, í þeirri færslu, á stutta fótboltatengda sögu sem þeir félagar tengdust. Þar lofaði síðuhafi því að fjalla betur um þá myndasögu þegar næsta heppilega knattspyrnutækifæri gæfist en reyndar batt SVEPPAGREIFINN vonir við að sú færsla myndi tengjast þátttöku karlalandsliðs Íslands á EM 2020. Sú von brást víst en í staðinn greip hann auðvitað tækifærið þegar kvennalandsliðið fékk stóra sviðið og gat rumpað af einni slíkri. Og það er vel við hæfi að hefja leik gegn Belgum með belgískri fótboltamyndasögu. 

Árið 1981 hafði listamaðurinn Nic (Nicolas Broca) verið valinn til að taka við seríunni um Sval og Val af Jean-Claude Fournier í SPIROU tímaritinu. Töluverðar innanhússdeilur höfðu staðið yfir í nokkurn tíma innan Dupuis fyrirtækisins og ritstjórinn Alain de Kuyssche var til að mynda nokkuð mótfallinn ráðningu Broca. Hann studdi nefnilega Tome og Janry. Deilur þessar snerust einnig um ráðningu handritshöfundar seríunnar og SPIROU efndi meira að segja í örvæntingu til samkeppni á meðal lesenda blaðsins um handrit að næstu Sval og Val sögu. Ekkert af þeim handritum sem bárust töldust þó nothæf og ritstjórinn de Kuyssche neyddist því sjálfur til að draga fram penna til bjargar og skrifa upp sögu í snatri. Sú saga, sem hér um ræðir, var einmitt hin áðurnefnda fótboltasaga og nefndist Allez Champignac eða Áfram Sveppaborg eins og hún myndi heita á íslensku. Hún birtist í 196 síðna sérblaði sem nefndist SPIROU Festival og var gefið út 15. júní árið 1981.
Þessi tuttugu og sjö blaðsíðna Sval og Val myndasaga birtist eingöngu á þessum eina vettvangi og var aldrei endurútgefin á neinn hátt eða prentuð í bókarformi inn í upprunalegu útgáfuröðina. Það var því ekki fyrr en safnútgáfa með Sval og Val (efni Nic og Cauvin - 12. bindi) var gefin út árið 2012 sem sagan kom aftur fyrir sjónir lesenda í fyrsta sinn frá því sumarið 1981. En Allez Champignac hefur, af þeim sem til þekkja, verið kölluð lélegasta Sval og Val saga sem nokkru sinni hefur verið gerð. Það er líklega best að byrja á því að renna svolítið yfir söguþráð Allez Champignac og fá grófa heildarmynd af innihaldi þessarar myndasögu. Helst hefði SVEPPAGREIFINN viljað þýða hana og birta hér í heilu lagi á síðunni en sagan er hins vegar einfaldlega of löng til þess. Kannski hann láti þó einhvern tímann verða af því og birti hana þá í nokkrum áföngum. En Allez Champignac hefst á því að þeir Svalur og Valur eru staddir heima hjá sér, að dunda sér við það að veggfóðra, þegar sendill kemur til þeirra með áríðandi símskeyti frá Sveppagreifanum. Hmmmm... bara það að Svalur og Valur séu að veggfóðra heima hjá sér gefur reyndar ekkert sérstakt tilefni til að reikna með að þessi saga sé eitthvað meistaraverk! SVALUR OG VALUR VEGGFÓÐRA EKKI! En í símskeytinu kemur fram að greifinn vilji fá þá tafarlaust til Sveppaborgar og þeir félagar henda því frá sér öllum verkefnum, pakka niður í töskur og bruna strax af stað. Það má geta þess í framhjáhlaupi að Sveppagreifinn kom yfirleitt ekki fram í Sval og Val sögum Nic og Cauvin.
Þegar þeir koma til Sveppaborgar kemur reyndar í ljós að erindi greifans var nú kannski ekki alveg jafn aðkallandi og ætla hefði mátt samkvæmt símskeytinu. Hins vegar fer hann fram á það við þá Sval og Val að þeir aðstoði sig við þjálfun fótboltaliðs Sveppaborgar sem á að fara að spila bikarúrslitaleik á næstunni gegn nágrannaliði Bitumébéton frá næstu borg. Þeir samþykkja að taka að sér verkefnið og hefjast strax handa við að hjálpa Sveppagreifanum með þjálfun liðsins en fljótlega kemur í ljós að sú vinna er ýmsum þyrnum stráð. Á sama tíma eru forráðamenn Bitumébéton liðsins í nágrannabænum að púsla saman aðgerðaáætlun til að klekkja sem allra mest á liði Sveppaborgar með hinum ýmsu bolabrögðum. Þar ræður ríkjum moldríkur athafna- og kaupsýslumaður, herra Dégling, sem hefur byggt upp hálfa bæinn þeirra í nútímalegum stórborgarstíl og stjórnar þar öllu með harðri hendi. Þeir Svalur, Valur og Sveppagreifinn uppgötva fljótlega að ekki er allt með felldu í undirbúningi liðsins og þegar þeim berst viðvörunarbréf heldur Valur til Bitumébéton til að kanna hvernig á öllum þessum vandræðum standi. Þar hittir hann Léon, gamlan kollega sinn úr blaðamannastéttinni, sem leiðir hann í allan sannleikann um hvers konar mann kaupsýslumaðurinn Dégling hefur að geyma og um leið á hvers konar brauðfótum hinar nútímalegu en illa byggðu stórhýsi bæjarins eru reistar. Dégling á sér þann draum að komast yfir afganginn af byggingarlandi bæjarins og hefur fengið vilyrði fyrir því ef hann getur lagt sitt af mörkum til að fótboltalið Bitumébéton vinni þennan bikarúrslitaleik gegn Sveppaborg. Hann leggur því allt í sölurnar og beitir öllum ráðum, flestum auðvitað óheiðarlegum, til að Sveppaborgarliðið tapi og honum gefist kostur á að eignast þessar byggingalóðir. 

Skömmu síðar rennur upp stóri dagurinn og vandamálin hlaðast upp þegar líða fer að leik. Tveir leikmanna Sveppaborgarliðsins heltast úr lestinni svo þeir Svalur og Valur þurfa sjálfir að taka fram takkaskóna og spila með. Valur fer í markið en Svalur þarf að taka að sér hlutverk framherja auk þess sem hann er gerður að fyrirliða liðsins. Herra Dégling hefur haft frjálsar hendur með að afla nýrra leikmanna fyrir lið Bitumébéton og strax í byrjun leiks er ljóst að hinir nýju leikmenn andstæðinga Sveppaborgarliðsins eru stórir, sterkir og óheiðarlegir fantar. Þeir leggja sig alla fram við fantaskapinn og með lúalegum brögðum fiska þeir vítaspyrnu snemma leiks.
Bitumébéton liðið skorar úr henni og taka síðan fljótlega að raða inn mörkunum hjá Sveppaborgarliðinu. En þess utan er Valur ekki að eiga neinn stjörnuleik í markinu. Þannig að staðan í leikhléi er hvorki meira né minna en 6 - 0 fyrir andstæðingunum. Það er ekki hátt risið á leikmönnum Sveppaborgarliðsins í búningsklefanum í hálfleik og foxillur ákveður Sveppagreifinn sjálfur að taka til sinna ráða til að stöðva þessa óheiðarlegu brjálæðinga. Hann notar gamalkunna aðferð við að skjóta með munnstykki einhverjum örvunarpillum upp í þá Sval og Val í búningsklefanum og samstundis breytast viðhorf þeirra úr vonleysilegu þunglyndi yfir í óbilandi bjartsýni, með aukinni orku, hæfileikum og hraða. Öllum til undrunar rífur Sveppaborgarliðið sig upp og þökk sé þeim Sval og Val snýst leikurinn algjörlega við í síðari hálfleiknum. Valur tekur upp á því að verja í gríð og erg og Svalur að skora mörk og staðan er fljótlega orðin 6 - 3. 
Heima situr peningamaðurinn Dégling, og fylgist örvæntingarfullur með leiknum í sjónvarpinu, þegar þeir Sveppagreifinn, borgarstjórinn og blaðamaðurinn Léon birtast skyndilega inni á stofugólfinu hjá honum, í miðjum seinni hálfleiknum, öskureiðir. Þeir gera Dégling grein fyrir að þeir hafi næg sönnunargögn til að henda kaupsýslumanninum í fangelsi en gefa honum þó kost á því að breyta öllum sínum misgjörðum til hins betra. Hann skuli leiðrétta stórborgarstefnu sína og byggja í staðinn fallegar og vistvænar byggingar með gróðri auk þess sem þær skuli vera traustlega byggðar. Herra Dégling gefst upp og samþykkir þessa skilmála og auðvitað vinnur Sveppaborg síðan leikinn með sjö mörkum gegn sex. Blablabla og svo framvegis ...
Það er ekki ofsögum sagt að þessi myndasaga sé langt frá því að vera einhver gæðavara, frekar en annað Sval og Val efni sem kom frá Nic og Cauvin, en Raoul Cauvin til varnar kom hann auðvitað ekki nálægt þessu verkefni. Töluverður byrjendabragur er á sögunni og þá sérstaklega á handritinu en slíkur viðvaningsháttur var engan veginn að skapi aðdáenda seríunnar um Sval og Val. Lesendur sagnanna höfðu um þrjátíu ára reynslu af verkum þeirra Franquins og Fourniers og voru því orðnir góðu vanir. Þeir sættu sig því ekki við að þurfa, á þessum tímapunkti, að endurstilla sig gagnvart seríunni og byrja á öllu frá núlli. En sameiginlegt reynsluleysi beggja höfundanna, örvænting og eflaust líka ósætti, þar sem de Kuyssche hafði sett sig upp á móti ráðningu Broca í teiknihlutverkinu, hefur orðið þess aðvaldandi að sagan er afskaplega tilþrifalítil og sorglega léleg. Nic hafði ekkert starfað áður við teiknimyndasögur en var með nokkuð góða reynslu af vinnu við teiknimyndir og hafði reyndar starfað við það í mörg ár. Á sama tíma hafði Alain de Kuyssche enga reynslu af neinu sem tengdist handritsgerð að teiknimyndasögum. Atburðarásin er því í heildina mjög einkennileg og tómleg og á löngum köflum er áherslan lögð meira á mismikilvæg smáatriði í stað þess að keyra á hluti sem skipta meira máli. Það er til dæmis ekki nauðsynlegt að eyða næstum því heilli blaðsíðu í að loka einni hurð eins og kemur fyrir í byrjun sögunnar. Og snemma í sögunni er púðrinu eytt í hátt í tvær blaðsíður (af tuttugu og sjö) að kynna til sögunnar nýja (og reyndar afskaplega ljóta) búninga handa liðinu. 
Allez Champignac er eiginlega fullkomlega innihaldslaus saga og það má alveg fullyrða að hér sé um að ræða allra lélegustu Sval og Val söguna. Í það minnsta virðist það hafa verið skynsamleg ákvörðun að gefa henni ekki færi á að koma út í bókarformi í upprunalegu seríunni. Lengi var óljóst hver skrifaði handritið að Allez Champignac og það var ekki fyrr en nokkuð löngu seinna sem ritstjórinn Alain de Kuyssche viðurkenndi að bera ábyrgð á sögunni. Sér til varnar greindi hann frá því að hafa verið undir pressu og þurft að rumpa sögunni af á einni nóttu en hreinskilnislega myndi SVEPPAGREIFINN treysta sér til að skrifa töluvert skárra handrit á mun skemmri tíma! Kuyssche reyndi að einhverju leyti að fylgja eftir þeirri Sval og Val formúlu sem eldri höfundarnir höfðu skapað og inn í söguna eru fléttaðar þessar helstu stöðluðu framvindur sem einkenna sögurnar almennt. Pési fær nóg og reynir að strjúka að heiman, borgarstjórinn í Sveppaborg kemur með langar ræður, Dýrfjörð á bíl sem lendir í óhappi og svo framvegis. Allt er reynt til að gera sæmilega trúverðuga Sval og Val sögu úr rýru efninu. SVEPPAGREIFANUM finnst reyndar teikningar Nic í Allez Champignac ekkert alslæmar. Þær eru þó langt frá því að vera fullkomnar og teikningar hans eru mjög einfaldar í samanburði við þá Franquin og Fournier. Sumir myndarammanna eru hálf klaufalega uppbyggðir og Valur er til dæmis illþekkjanlegur og eiginlega hálf afmyndaður á mörgum teikninganna. Venjulega lítur hann alls ekkert svona út.
Í færslu sinni um Nic og Cauvin benti SVEPPAGREIFINN á að framan á kápum bókanna þriggja væru aðalsöguhetjurnar tvær alltaf með nákvæmlega sama svipinn á andlitunum - Svalur með sinn undrunarsvip og Valur með sín uppglenntu augu. Í Allez Champignac er Valur meira eða minna alla söguna með þennan uppglennta augnasvip á andlitinu. Nic hafði sína galla en með tímanum hefði hann öðlast meiri reynslu við myndasögugerðina og ásamt góðum handritshöfundi er SVEPPAGREIFINN viss um að til hefðu getað orðið þokkalegar Sval og Val sögur.
 
En fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM fer fram á sunnudaginn (10. júlí) og hefst klukkan 16:00. Hann er að sjálfsögðu sýndur á RÚV og ÁFRAM ÍSLAND!!!

24. júní 2022

208. FORVERARNIR

Það hefur margoft komið fram hér að tilgangur SVEPPAGREIFANS, með bloggsíðunni Hrakfarir og heimskupör, væri fyrst og fremst að fjalla um þær teiknimyndasögur sem gefnar voru út á íslensku á seinni hluta 20 aldarinnar og ýmsu efni sem tengdust þeim. Þar er hann að sjálfsögðu helst að tala um belgísk/frönsku myndasögurnar, sem tröllriðu hér öllu á áttunda og níunda áratug þeirrar aldar, en reyndar slæddust þar einnig með bækur frá Hollandi og Danmörku svo einhverjar séu nefndar. SVEPPAGREIFINN var nokkuð fastur í þeirri afmörkuðu umfjöllun til að byrja með en fljótlega áttaði hann sig þó á því að ýmislegt fleira efni var til sem klárlega átti heima hér á síðunni. Tarzan blöðin voru tekin til umfjöllunar og myndasögur sem hann taldi utan virðingar sína hvað varðar gæði og uppruna, eins og Bleiki pardusinn, hlutu einnig brautargengi. En þótt myndusöguáhugi SVEPPAGREIFANS hafi að mestu einskorðast við það efni sem gefið var út af Fjölva og Iðunni á áðurnefndum tíma þá áttu þessar bækur forvera frá því í (eld)gamla daga þó líklega hafi þær ekki notið jafnmikilla vinsælda og fransk/belgísku sögurnar gerðu seinna. 

Ætlunin er, í þessari færslu, að stikla aðeins á stóru um þessar helstu myndasögubækur sem komu út á árdögum myndasögumenningarinnar á Íslandi - löngu áður en stóru seríurnar tóku yfir markaðinn snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Bækurnar voru svo sem ekkert mjög margar en þessi samantekt gæti samt gefið sæmilega mynd af því sem hér var að koma út áður en Tinni, Ástríkur og félagar þeirra komu til sögunnar. Og eins og svo oft gerist í höndum SVEPPAGREIFANS vatt þetta efni svolítið upp á sig og endaði sem miklu stærri umfjöllun en upphaflega hafði verið áætlað. Færslan er því miklu lengri en hún átti að vera þegar verkið fór af stað. En það er svo sem ekkert verra. Þessi færsla var reyndar líka langt komin, og búin að standa hálfkláruð um nokkurt skeið inni á vinnslusvæði bloggsins hjá honum, þegar hið frábæra rit Skrá yfir myndasögur á íslensku - Frá 1927 - 2021 var gefið út hjá Froski útgáfu fyrir síðustu jól. SVEPPAGREIFINN var ekki seinn á sér að fjárfesta í þessu bráðnauðsynlega uppflettiriti og fékk þá staðfestingu á þeirri vinnu sem hann var þegar búinn að inna af hendi fyrir þessa færslu. En auk þess bættust líka bæði við einhverjar bækur sem farið höfðu framhjá honum og einnig vantar þar fáeinar myndasögur. 

Það hefur svo sem stundum verið eilítið deilt um hvað teljist til myndasagna og hvað ekki. Á Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur sem SVEPPAGREIFINN fylgir, ásamt tæplega 1700 öðrum myndasögu-unnendum, hafa stundum spunnist umræður um hvers konar bækur teljist til (teikni)myndasagna og hverjar ekki. Það hefur þó engin endanleg niðurstaða fengist um hvar þau mörk nákvæmlega liggja. Almennt virðast þó flestir á þeirri skoðun að myndasögur séu skilgreindar með myndaröðum/runum sem raðast upp og sýna samfellda sögu eða atburðarás. Þar getur texti og lýsing komi fram undir hverri mynd og/eða með hefðbundnum talblöðrum. Þannig teljist myndskreyttar sögur með einni mynd á hverri blaðsíðu yfirleitt ekki til hefðbundinna myndasagna heldur sem venjulegar barnasögur með myndum. Þessari skilgreiningu er SVEPPAGREIFINN nokkuð sammála og ætlar því að leyfa sér að fylgja henni í umfjöllun sinni í þessari færslu. Sem dæmi um myndskreytta barnasögu er Sagan um Dimmalimm eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson) sem fyrst var gefin út árið 1921 og sumir vilja meina að sé fyrsta íslenska teiknimyndasagan. Þeirri skoðun er SVEPPAGREIFINN til dæmis alls ekki sammála.

En þótt Íslendingar hafi löngun talið sig vera bókaþjóð voru barnabókmenntir lengi vel ekkert endilega í hávegum hafðar. Lítið kom út af barnabókum og þær þóttu jafnvel nokkur munaður, sérstaklega fyrir þau börn sem komu af fátækum heimilum. Vísirinn að myndasögunum, eins og við þekkjum þær í dag, urðu því nokkuð spennandi fjársjóður þegar þær fóru fyrst að birtast hinum ungu lesendum hérlendis. Fyrstu kynni Íslendinga af myndasögum komu reyndar úr dagblöðunum, líkt og í öðrum löndum, og nutu strax nokkurra vinsælda hjá yngstu kynslóðunum. Lengi fram eftir 20. öldinni var það jafnvel eftirsóknarvert hjá börnum og unglingum að klippa út myndasöguraðirnar úr blöðunum og líma þær síðan í þar til gerðar úrklippu- eða stílabækur svo úr varð heildarsagan. Á þann hátt gátu mörg börn notið myndasagnanna til frambúðar á meðan önnur eignuðust þessar sögur í bókaformi þegar þær fóru að koma út sem sérprent úr blöðunum.

Fyrsta myndasagan á Íslandi sem gefin var út í bókarformi, og fellur undir framannefnda myndasöguskilgreiningu, er því að öllum líkindum Halli hraukur en bókin kom út hér á landi árið 1927. Sögurnar voru eftir danska skopteiknarann Carl Rögind en hann var víða nokkuð kunnur fyrir teikningar sínar á þessum árum. Halli hraukur hafði reyndar áður birst íslenskum lesendum fyrst í barnablaðinu Æskunni í maí árið 1926 en þar nefndist kappinn hins vegar Halli hrúka. Í Æskunni birtust að jafnaði tvær myndaraðir með tveimur myndum hvor þar sem drengurinn Halli hrúka varð fyrir aðkasti jafnaldra sinna vegna vaxtarlags síns. Einn slíkur brandari eða saga birtist í hverju tölublaði og alltaf hafði Halli hrúka betur gegn hrekkjusvínunum að myndunum fjórum loknum. Eftir sextán slíkar sögur eða brandara lauk aðkomu Halla í barnablaðinu Æskunni og fyrir jólin 1927 kom út í bókarformi samansafn þeirra brandara hjá bókaverslun Sigurjóns Jónssonar. Og þar með var fyrsta myndasögubókin á íslensku komin út. Bókaútgáfan með Halla hrauki var með stífri kápu sem prentuð var í tveimur litum og leit þá nokkurn veginn svona út.

Eins og áður segir nefndist aðalsöguhetjan nú Halli hraukur og bókin varð nokkuð vinsæl enda myndasögubækur algjört nýmæli hjá íslenskum lesendum af yngri kynslóðinni. Það fór því svo að Halli hraukur seldist upp en bókin var ekki prentuð á ný fyrr en árið 1944, aftur 1949, 1955 og að síðustu árið 1959. Tvær af útgáfum sögunnar (1949 og 1955) voru um sentimetra lægri en hinar útgáfurnar þrjár og að minnsta kosti ein þeirra (2. útg. 1944) var prentuð með appelsínugulri kápu. En þessi fyrsta myndasaga sem gefin var út á Íslandi hefur verið afar eftirsótt af söfnurum nú á seinni árum. Sagan er mjög sjaldséð og margir hafa verið tilbúnir að borga vel fyrir góð eintök af þessari fágætu bók og þá gildir einu um hvaða útgáfu bókarinnar er um að ræða.

En önnur myndasagan sem gefin var út í bókaformi á Íslandi, á eftir Halla hrauk, telst að líkindum vera sagan um Dísu ljósálf sem margir muna eflaust eftir að hafa lesið og margoft hefur verið endurútgefin í sama forminu í gegnum tíðina síðan. Sagan, sem í fyrstu nefndist Ljósálfurinn litli, birtist fyrst í Aukablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 9. nóvember árið 1927 og það var blaðamaðurinn kunni Árni Óla sem þýddi hana úr hollensku. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem nefnd er hér að ofan telst þessi saga klárlega til myndasagna eins og hún kom fyrst fyrir á síðum Morgunblaðsins. Ljósálfurinn litli birtist á nokkurra daga fresti næstu vikurnar ýmist í aukablaði eða á baksíðu Morgunblaðsins og ávallt á heilli síðu í hvert sinn. Hver myndaröð hafði að geyma fjórar myndir með texta undir, þar sem sagan sjálf var sögð auk samtala sögupersónanna, og á hverri síðu birtust þrjár myndaraðir - alls 12 myndir í senn. Klárlega myndasaga.

Þessi myndasaga lauk göngu sinni í Morgunblaðinu þann 5. febrúar árið 1928 en þá höfðu alls birst 28 myndaraðir af Ljósálfinum litla eða samtals 112 myndir. Þann 11. febrúar birtist síðan tilkynning í blaðinu um að sagan hefði verið tekin saman og sérprentuð til bókaútgáfu sem senn kæmi fyrir augu kaupenda. En í þeirri útgáfu kvað reyndar við eilítið annan tón því að í bókarforminu var aðeins birt ein mynd á hverri blaðsíðu enda bókin í broti sem nam stærð vasabrotsbóka í dag. Og þar með hætti Dísa ljósálfur, eins og sagan hét núna, að vera skilgreind sem myndasaga. Eða hvað? Varla, því myndirnar sýndu áfram samfellda atburðarás sögunnar líkt og um hefðbundna myndasögu væri að ræða þó nú væri hún sett upp á annan hátt. Myndasagan um Dísu ljósálf hefur verið endurútgefin ótal sinnum í gegnum tíðina á Íslandi og nú síðast árið 2020. Í þessari nýjustu útgáfu hefur hún verið færð í fallega liti og þýðing sögunnar hefur einnig verið endurnýjuð.

Bókaútgáfan Leiftur gaf síðan út tvær aðrar sambærilegar myndasögubækur sem nefndust Alfinnur álfakóngur (1929) og Dvergurinn Rauðgrani og brögð hans (1930) en þær voru báðar teiknaðar af hinum hollenska G. Th. Rodman sem hafði einmitt einnig teiknað áðurnefnda Dísu ljósálf. Báðar þessar bækur eru klárlega myndasögur, á sambærilegan hátt og Dísa ljósálfur, þó þær hefðu reyndar aldrei birst í því nákvæmlega sama formi í dagblöðum eða tímaritum á Íslandi áður. Sögurnar um Alfinn álfakóng og Dverginn rauðgrana kannast líklega mjög margir við en þessar bækur hafa margsinnis verið endurútgefnar í gegnum tíðina og nú síðast í kringum aldamótin.

En hvað birtingu myndasagna í Æskunni varðar þá varð nú svolítið hlé á þeim eftir að Halli hrúka (Halli hraukur) hafði lokið göngu sinni þar. Snemma árs 1930 hófu þó að birtast aftur slíkar sögur í blaðinu. Fyrst um sinn voru þetta helst myndskreyttar útgáfur úr 1001 nótt en á næstu árum birtust þar einnig myndasögur sem nefndust Galdrakarlinn góði, sem kom síðan út í bókaformi árið 1933, Óheppni maðurinn, Æfintýrið í kastalanum, Valur vængfrái og Fóstbræður (Skytturnar þrjár) svo þær helstu séu nefndar. Það var svo haustið 1945 sem Bjössi bolla hóf göngu sína í Æskunni og ílengdist þar í áratugi en það er önnur saga. Allar þessar myndasögur birtust í heilsíðu formi í barnablaðinu en Galdrakarlinn góði var sú eina af þeim sem var að endingu gefin út í bókaformi. Þessi myndasögubók Galdrakarlinn góði, sem þýdd var af ljóðskáldinu og barnabókahöfundinum Margréti Jónsdóttur, virðist vera afar fágæt enda var sagan aðeins gefin út í þessu eina upplagi árið 1933.

Árið 1940 gaf lítil bókaútgáfa, sem kallaðist Bókasafn barnanna, frá sér myndasögu með hinu sígilda ævintýri um Ljóta andarunganum eftir H.C. Andersen. Þarna var um að ræða útgáfu frá Walt Disney og þessi myndasaga er því sú fyrsta sem kom út hér á landi frá þeirri risasamsteypu - sem var þá auðvitað ekkert í líkingu við það sem seinna varð. Reyndar hafði árið áður komið út barnabók úr smiðju Disney, frá bókaútgáfunni Leiftri, sem nefndist Búri bragðarefur en sú saga var ekki myndasaga. Búri bragðarefur var forveri sjálfs Mikka músar og alls var sú saga gefin út þrisvar sinnum á næstu árum. Ljóti andarunginn er afar sjaldgæf bók en er merkileg að því leyti að þetta var fyrsta myndasögubókin á íslensku þar sem teikningarnar voru í lit og auk þess var þetta einnig í fyrsta sinn sem talblöðrur sáust í íslenskri myndasögu. Sagan er þýdd úr dönsku en hvergi hefur SVEPPAGREIFINN fundið neinar upplýsingar um hver íslenskaði þessa merkilegu bók.

Næsta ár (1941) sendi Víkingsútgáfan frá sér myndasöguna um Mjallhvít og dvergana sjö og aftur var seilst í smiðju Walt Disney sem var augljóslega orðin afar vinsæl hjá íslenskum ungmennum. Sagan var unnin og teiknuð upp úr teiknimyndinni sígildu frá árinu 1937 og raðað á smekklegan hátt upp sem myndasögu með talblöðrum og allt. Í fyrsta myndaramma hverrar blaðsíðu voru ljóð sem Tómas Guðmundsson borgarskáld hafði ort en sá skáldskapur fylgdi þó ekki endilega þeirri atburðarás sem var í gangi hverju sinni í sögunni. Kvæðin voru meira í anda almennra heilræða þar sem helstu sögupersónunum var stillt upp, á móti hverju öðru, í heimspekilegu líkindamáli - oft á tíðum fullþungt fyrir ung börn. Þessi saga um Mjallhvíti og dvergana sjö hafði birst á síðum Sunnudagsblaðs Þjóðviljans, árin á undan, en þar var þó hvergi að finna ljóð Tómasar sem birtust í bókaútgáfunni árið 1941. En það má segja að hinar glæsilegu bækur um Mjallhvíti og dvergarnir sjö og Ljóti andarunginn hafi verið fyrstu myndasögubækurnar á íslensku sem líktust aðeins og voru í anda þeirra belgísk/frönsku sem seinna komu. Þessi bók er mjög sjaldgæf.

Myndasaga sem nefndist Æfintýrið í kastalanum, í þýðingu Guðjóns Guðjónssonar, kom síðan út í bókaformi hjá Æskunni árið 1942 og var tólf blaðsíður að lengd. Bókin er, líkt og allar þessar löngu gleymdu myndasögur, afar sjaldséð og slegist er um eintök þegar þau birtast enda var sagan ekki gefin út nema í þetta eina skipti. Bókin Æfintýrið í kastalanum var í svipaðri stærð og teiknimyndasögurnar sem Fjölvi og Iðunn gáfu út löngu seinna. Sagan birtist reyndar í lit í Æskunni en þar sem hún var ekki gefin út í bókaformi fyrr en árið 1942 þá voru Ljóti andarunginn og Mjallhvít og dvergarnir sjö fyrstu lituðu sögurnar í myndasögubók. Þess má til gamans geta að sagan Æfintýrið í kastalanum var endurbirt í Æskunni fram eftir árinu 1981 og hefur án efa slegið þar í gegn.

Árið 1942 kom fyrsta Tarzan myndasagan út í bókaformi á íslensku. Hún hét Tarzan sterki og það var bókaútgáfan Leiftur sem sendi hana frá sér í þýðingu Hersteins Pálssonar. Þessi myndasögubók var í raun mjög lítil og hver blaðsíða hafði að geyma eina mynd líkt og Dísa ljósálfur hafði gert í bókaútfærslunni sinni. Sagan var því heilar 388 blaðsíður að lengd og virðist hafa verið prentuð að minnsta kosti tvisvar því að í títtnefndri Skrá yfir myndasögur á íslensku kemur fram að bókin hafi líka verið gefin út árið 1945. Einnig var þess getið í auglýsingu í Vísi að sagan væri aftur komin í bókaverslanir en Tarzan sterki birtist aldrei í neinu af íslensku dagblöðunum áður en hún kom út í þessari litlu bók. Líkt og í svo mörgum af þeim myndasögum sem íslenskum lesendum stóð til boða á þessum árum, hvort sem þær voru í bókaformi eða í dagblöðunum, voru allar skýringar og samtöl í texta fyrir neðan myndirnar og myndirnar í þessari sögu voru án allra lita. Að útliti er þessi bók ósköp venjuleg á að líta og í fljótu bragði er erfitt að átta sig á að um myndasögu sé að ræða. Bókin virðist vera til í nokkrum litaútfærslum en ekki er þó ljóst hvaða litir tilheyri 1. útgáfu og hvaða litir tilheyri 2. útgáfu. Ein útgáfa bókarinnar er græn að lit (eins ég sést hér að neðan sem kemur af Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur) og samkvæmt mynd í Skrá yfir myndasögur á íslensku virðist sem einnig sé til rauðleit útgáfa og með brúnum kili. Eintak SVEPPAGREIFANS er hins vegar appelsínugult að lit. Ekki er hann almennt vel að sér um þessa útgáfu um Tarzan sterka en líklegt má telja að í fyrndinni hafi verið hlífðarkápa með mynd utan um bókina. Gaman væri ef einhver hefði yfir fróðleik að ráða sem stutt gæti þá kenningu.

Myndasögur um Tarzan höfðu þá þegar birst um nokkurt skeið í íslensku dagblöðunum. Tarzan - tvíburarnir hóf göngu sína í Sunnudagsblaði Vísis í byrjun febrúar árið 1939 þar sem heil síða með þremur myndaröðum var helguð hetjunni fáklæddu. Og þann 7. maí árið 1942 hófst myndasagan Tarzan apabróðir í hefðbundnu útgáfunni af Vísi þar sem ein myndaröð birtist daglega neðst á baksíðu blaðsins. Tarzan - tvíburarnir kom aldrei út í bókaformi en nokkru seinna var Tarzan apabróðir gefin út af bókaútgáfunni Leiftri og sú myndasögubók var að öllum líkindum endurútgefin þrisvar sinnum eftir það. Það hefur verið svolítið óljóst hvenær sagan var fyrst gefin út í bókaformi því til eru útgáfur af sögunni sem ekki eru merktar með ártali á meðan einnig virðast vera til eintök sem sagðar eru útgefnar árið 1945. Sjálfur á SVEPPAGREIFINN útgáfu af sögunni sem ekki er með ártali en hún er græn að lit með appelsínugulum kili. Í tilkynningu í Vísi í lok júlí árið 1943 segir að Tarzan apabróðir sé nýkomin út í sérprentun og því er líklegt að þar sé um að ræða sömu útgáfu. 1. útgáfan sé því líklega frá árinu 1943, 2. útgáfa 1945, 3. útgáfa 1962 og sú 4. kom út árið 1983. Í Skrá yfir myndasögur á íslensku eru aðeins tilgreindar tvær útgáfur af sögunni og að 1. útgáfa bókarinnar hafi komið út árið 1949. Upplýsingar um útgáfur bókarinnar eru því nokkuð misvísandi.

Um svipað leyti hafði Leiftur sent frá sér myndasögurnar Tarzan í borg leyndardómanna (1943) og Tarzan og fílamennirnir (1944) en þær sögur höfðu þó birst í Vísi á eftir Tarzan apabróður. Árið 1945 komu einnig út hjá Leiftri Tarzan og eldar Þórsborgar, Tarzan og ljónamaðurinn var gefin út hjá Blaðaútgáfunni Vísi og Vínlandsútgáfan sendi frá sér Tarzan og sjóræningjarnir. Allt voru þetta myndasögur sem birtust í Vísi á þessum árum. Allar þessar bækur eru í dag mjög eftirsóttar og þá sérstaklega af erlendum söfnurum sem hafa sérhæft sig í ýmiskonar efni um Tarzan. Margir þeirra eru jafnvel tilbúnir að borga fúlgur fjár fyrir góð eintök af þessum sjaldgæfu útgáfum. Upplögin sem gefin voru út hér á landi voru ekki stór og íslensku Tarzan bækurnar eru því mikið fágæti.

Árið 1948 kom út myndasagan Sagan af honum krumma og fleiri ævintýri eftir þýska skopteiknarann Wilhelm Busch en það var Ingólfur Jónsson sem þýddi hið bundna mál sem einkennir söguna. Hér er um að ræða eina aðalsögu sem ber titil bókarinnar en auk hennar eru í henni tvö önnur og styttri ævintýri sem nefnast Blásturspípan og Laugardagskvöldið. Undirtitill bókarinnar er; Með 75 teiknimyndum en teikningar Busch eru án lita og textinn er staðsettur undir myndunum. Þessi bók var gefin út að minnsta kosti tvisvar sinnum í viðbót (2. útg. 1963 og 3. útg. 1975) og það var að öllum líkindum bókaútgáfan Norðri sem kom að öllum þeim útgáfum. SVEPPAGREIFINN á tvö eintök af þessari myndasögu og líklegt má telja að þar sé um 3. útgáfuna að ræða þó ártal þeirra komi hvergi fram. Þess má einnig til gamans geta að árið 1981 kom út bókin Max og Mórits - Strákasaga í sjö strikum, eftir sama höfund, í þýðingu Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta og þjóðminjavarðar. Sú bók er byggð upp á sama forminu, myndasaga með undirtexta í bundnu máli, og hefur verið ófáanleg í mörg ár en hún var endurútgefin árið 2006. En þetta var útúrdúr.

Næst segir frá bók í myndasöguformi sem nefnist Óli segir sjálfur frá en hún var gefin út af bókaútgáfunni Norðra árið 1949. Þessi saga kom frá Svíþjóð og var eftir listamanninn Marcus Hentzel en það var Hlíf Árnadóttir sem þýddi bókina úr frummálinu sænska. Bókin Óli segir sjálfur frá var í nokkuð stóru broti og 48 blaðsíður að lengd og stærð hennar var því í samræmi við þær stöðluðu stærðir á myndasögunum sem íslenskar kynslóðir kynntust löngu seinna. Teikningar sögunnar voru ólitaðar og ekki var notast við talblöðrur í henni. Bókin er afar sjaldgæf líkt og svo margar af þeim myndasögum sem gefnar voru út bernskudögum þeirra á íslensku.

Myndasögur nutu nú orðið nokkurra vinsælda á Íslandi og ýmsir reyndu jafnvel að notfæra sér þær til að koma boðskap sínum, til ungra lesenda, á framfæri. Hjarðsveinninn sem varð konungur er til dæmis bók í myndasöguformi með kristilegu ívafi sem gefin var út af Fíladelfíu árið 1951. Þessi bók var þýdd úr finnsku af Ásmundi Eiríkssyni en sagan er eftir Eino Ahonen og teikningarnar gerði Inga Lagerström. SVEPPAGREIFINN gerir ráð fyrir að þessi útgáfa sé byggð á sömu sögu og Hjarðsveinn og konungur, myndasaga um Davíð konung, sem minnst er á hér aðeins neðar.

En á árunum 1953-56 sendi Bókagerðin Lilja einmitt frá sér að minnsta kosti fjórar litlar myndasögur með kristilegu yfirbragði. Þær nefndust Ging Lin - myndasaga frá Kína (1953), Hjarðsveinn og konungur - Myndasaga um Davíð konung (1954), Jóhannes Markús (1956) og Á meðal villtra indíána - Myndasaga um Davíð Zeisberger (1956) en allt voru það sögur sem áður höfðu birst í hinu kristilega barnatímariti Ljósberanum. Sögurnar voru allar með texta og samtöl undir myndunum en fleiri slíkar birtust einnig í blaðinu sem aldrei voru þó gefnar út í bókaformi. Fæstar þessara sagna þættu merkilegar í dag en þær eru engu að síður skilgreindar sem myndasögur og teljast því með.

Í Skrá yfir myndasögur á íslensku má sjá bók sem nefnist Ævintýri Kalla og Palla og var gefin út 1957 en SVEPPAGREIFINN fann ekki neina nothæfa mynd eða upplýsingar af neinu gagni um þá myndasögubók. Árið 1959 sendi Bókaútgáfan Snæfell síðan frá sér myndasöguna Róbinson sem var byggð á hinni kunnu sögu um Robinson Crusoe eftir Daniel Defoe. Þessi útgáfa sögunnar var unnin nokkuð frjálslega af sænska skopteiknaranum Kjeld Simonsen en það var Vilbergur Júlíusson, skólastjóri í barnaskóla Garðahrepps, sem þýddi þessa myndasögu. Bókin er í svipari stærð og litlu bækurnar um Palla og Togga, 64 blaðsíður að lengd, ólituð og án textablaðra en með skýringartexta undir hverri myndaröð. Þessi bók Róbinson virðist ekki vera alveg jafn sjaldgæf og margar af þeim myndasögum sem áður hefur verið minnst á hér því þó nokkur þokkaleg eintök af sögunni virðast vera í umferð ef marka má þann fjölda mynda sem SVEPPAGREIFINN hefur séð af bókinni á Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur.

Árið 1960 sendi bókaútgáfan Skuggsjá frá sér tvær myndasögubækur um Rasmus Klump en þessar sögur hétu Rasmus Klumpur í hnattferð og Rasmus Klumpur í leit að fjársjóðum. Rasmus Klumpur hafði árið 1956 birst á síðum vikuritsins Fálkans í heilsíðuformi en þá nefndist hann reyndar Bangsi Klumpur. Sú saga kallaðist einfaldlega Bangsi Klumpur og vinir hans í Fálkanum en þarna var um að ræða söguna Rasmus Klumpur smíðar skip sem kom síðan út í bókaformi árið 1981 og var raunar fyrsta sagan í bókaflokknum. Það ár hóf bókaútgáfan Örn og Örlygur að gefa reglulega út fleiri bækur um Rasmus Klump í þýðingu Andrésar Indriðasonar og þá var Rasmus Klumpur í hnattferð meðal annars endurútgefin. Bækurnar tvær sem komu út árið 1960 eru frekar sjaldgæfar.

Árið 1962 kom út lítil bók um Hróa Hött en svo virðist sem nokkur fleiri sambærileg hefti eða blöð um kappann hafi einnig verið gefin út á svipuðum tíma. SVEPPAGREIFINN hefur rekist á nokkur af þeim heftum undir heitinu "Hetjusögur" en hefur annars ekki miklar upplýsingar um þá útgáfu nema að hugsanlega hafi þær á tímabili komið út á um hálfs mánaða fresti. Það virðist sem að Nesútgáfan frá Neskaupstað hafi sent frá sér þessar sögur í þýðingu Haraldar Guðmundssonar og að komið hafi út að minnsta kosti tíu slík hefti. Líklega var þessum "Hetjusögum" Nesútgáfunnar seinna safnað saman og þær endurútgefnar í einni þykkri bók árið 1976 og það er þá hugsanlega Hróa Hött bókin sem er lengst til vinstri hér fyrir neðan.

Strákarnir í Stóradal heitir myndasaga sem Bókaforlag Odds Björnssonar á Akureyri gaf út, fyrir jólin árið 1967, í þýðingu Sigurðar Gunnarssonar úr dönsku. Þessi saga er teiknuð af norska listamanninn Ivar Pettersen, eftir sögu Leif Halse, og er sextán blaðsíður að lengd. Hver blaðsíða hefur að geyma sex jafnstórar, litaðar myndir án talblaðra en allur skýringartexti, auk samtala persóna sögunnar, er birtur undir hverri mynd. Strákarnir í Stóradal er svolítið í anda Bjössa bollu úr Æskunni, sem áður hefur verið minnst á, en þær eiga þó fátt annað sameiginlegt nema það að vera ættaðar frá frændum okkar í Noregi. Þessi bók er frekar sjaldgæf og erfitt að nálgast.

Árið 1968 gaf Æskan út myndasögubókina 15 ævintýri litla og stóra eftir danska skopteiknarann Carl Rögind en sá hinn sami hafði einnig teiknað sögurnar um Halla hrauk (Halla hrúku) sem minnst er á hér efst í færslunni og telst fyrsta myndasagan sem gefin var út á Íslandi. Bókin er þýdd úr dönsku en ekki virðist koma fram hver annaðist íslensku þýðinguna á þessari myndasögubók.

Þá má auðvitað nefna myndasögubókina Gulleyjuna, sem er byggð á hinni frægu sögu Robert Louis Stevenson, en það var Bókaver sem gaf þetta hefti út árið 1969. Listamaðurinn Peter Jackson teiknaði myndirnar í bókinni en hvergi kemur fram hver þýddi þessa útgáfu yfir á íslensku. Þó þessi bók sé auðvitað frekar sjaldgæf þá er hún tiltölulega algeng miðað við margar af þessum gömlu myndasöguútgáfum. Í það minnsta hefur SVEPPAGREIFINN það oft rekist á hana að hann hefur látið sér eitt gott eintak af bókinni duga. Þessi útgáfa af Gulleyjunni er ólituð myndasaga, með þremur til sjö myndarömmum í hverri myndaröð, og texta fyrir neðan. Á gagna- og leitarvefnum Gegni kemur fram að þetta sé ný útgáfa af Gulleyjunni og þar er sérstaklega tekið fram að 1. útgáfan hafi verið gefin út árið 1906. Sú útgáfa var þó klárlega skáldsaga, gefin út sem hluti af bókasafni Lögbergs í Winnipeg, og er því ekki fyrsta myndasagan sem kom út á íslensku.

Þetta er að sjálfsögðu engan veginn tæmandi samantekt og ýmsar fleiri bækur komu út á þessum árum sem skilgreina mætti sem teiknimyndasögur. Árið 1949 virðist Steindórsprent til dæmis hafa sent frá sér myndasögu með ævintýrum um Buffalo Bill og er merkt sem 1. hefti og árið 1943 kom út eins konar áróðursrit í myndasöguformi sem nefndist Líf Franklin Roosevelt.

Þá komu út tvö myndasöguhefti um Hans Klaufa og Svínahirðinn hjá Ævintýraútgáfunni árið 1946 og á árunum 1957-59 komu út að minnsta kosti sex sögur með Dodda litla eftir Enid Blyton, frá Myndabókaútgáfunni, en hugsanlega voru þær allt að tíu talsins. Þær bækur voru í mjög litlu broti (10x10 cm), með einni mynd á hverri blaðsíðu, en voru um 40 blaðsíður að lengd og með texta undir myndunum líkt og í svo mörgum af þessum eldri sögum. Til viðbótar má nefna H.C. Andersen Ævintýri sem kom út árið 1970 og Grallarastjörnuna eftir Inger og Lasse Sandberg sem kom út í þýðingu Guðrúnu Svövu Svavarsdóttur árið 1971. Myndir af báðum þessum myndasögubókum er að finna í heftinu Skrá yfir myndasögur á Íslandi. Voðalega litlar upplýsingar er annars að finna um margar þessara bóka utan þess fróðleiks sem meðlimir myndasögugrúbbunnar Teiknimyndasögur hafa deilt á Facebook. Einhverjum bókum er SVEPPAGREIFINN sjálfsagt að gleyma og einnig er eflaust til fullt af efni sem ekki hefur verið nefnt í þessari færslu og mun verða grafið upp af alvöru myndasögunördum á komandi misserum. 

En svo má alls ekki gleyma að myndasögublöð voru einnig gefin út hér á landi til skamms tíma. Sem dæmi um slíkt má auðvitað helst nefna 26 tölublöð af Sígildum sögum með myndum sem komu út á árunum 1956-57.

Sígildar sögur voru erlend blöð úr breska myndasagnaflokkinum Classics International sem voru þýdd og gefin út hér á landi og nutu mikilla vinsælda. Á árunum 1987-89 voru blöðin síðan endurútgefin af bókaútgáfunni Tákn og þá komu út 23 tölublöð úr þessum flokki en þau voru þó ekki gefin út í alveg sömu útgáfuröð og eldri blöðin. Hugsanlega voru blöðin einnig endurútgefin á árunum 1963-64, því á þeim tíma voru þessi blöð rækilega auglýst til sölu í dagblöðum líkt og um nýja útgáfu væri að ræða, en líklegra má þó telja að þar hafi aðeins gamlir lagerar frekar verið dregnir fram í dagsljósið og seldir á ný. En árið 1966 var gerð tilraun til að gefa út mánaðarlegt myndasögublað hér á landi að erlendri fyrirmynd en svo virðist að aðeins hafi komið út tvö tölublöð áður en útgáfa þeirra lognaðist út af. Þetta blað nefndist Smári - Barnablað og var reyndar frekar fátæklegt til fara en útgefandinn nefndist Komix. Líklega höfðu þessi blöð fyrst og fremst verið ætluð allra yngstu lesendunum en þau höfðu einnig að geyma ýmsa leiki og þrautir. SVEPPAGREIFINN mun eflaust fjalla seinna um bæði myndasögublöðin Sígildar sögur með myndum og Smára þegar fram líða stundir.

SVEPPAGREIFINN gerðist svo ósvífinn, eins og svo oft áður, að fá lánaðar myndir af mörgum af þessum ófáanlegu myndasögum af Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur en aðrar myndir eru úr hans eigin safni. Upplýsingar um margar af þessum bókum koma einnig úr áðurnefndri grúbbu og þakkar síðuhafi kærlega fyrir stuldinn á þeim en annað hefur verið grafið upp með grúski og gramsi af margvíslegum toga. Margir myndasögusafnarar hugsa SVEPPAGREIFANUM sjálfsagt þegjandi þörfina fyrir að vera að gaspra svona um og upplýsa um sjaldgæfar bækur, í þessari samantekt, sem þeir vildu helst getað setið einir um. En það er víst ekki hægt að gera öllum til geðs og nú bætast eflaust margir safnóðir í hópinn sem vilja bítast um þessi fáu eintök sem sleppa í umferð.