17. mars 2023

222. ENDURKOMA VIGGÓS VIÐUTAN?

SVEPPAGREIFINN er mikil aðdáandi Viggós viðutans og ekki síður höfundar hans André Franquin, sem var hreint frábær listamaður, eins og margoft hefur komið hér fram. Franquin teiknaði myndasögurnar um Viggó í samráði við þá Jidéhem (Jean De Mesmaeker) og Yvan Delporte en hann átti þó sjálfur mestan þátt í að skapa persónuna. Það má eiginlega segja að Franquin hafi átt Viggó þótt félagar hans hjá belgíska myndasögutímaritinu Journal de Spirou hafi líka átt þátt í að þróa hann. Franquin teiknaði Viggó alla tíð og samtals skyldi hann eftir sig um 909 brandara um kappann en sá síðasti birtist í SPIROU tímaritinu (tölublaði nr. 2776) þann 25. júní árið 1991.

Reyndar höfðu gamlir Viggó brandarar oft verið endurbirtir í myndasögublaðinu, bæði fyrir þennan tíma og seinna, en þessi brandari númer 909 var svanasöngur listamannsins með Viggó. Þess má til gamans geta að í sama tölublaði (og í einhverja mánuði á eftir) voru gamlir Viggó brandarar nýttir til enskukennslu í SPIROU tímaritinu eins og sjá má hér að neðan. Stórsniðugt auðvitað!

André Franquin lést 5. janúar árið 1997. Þá hafði hann, nokkrum sinnum í gegnum tíðina, nefnt það í viðtölum að hann vildi ekki að aðrir listamenn myndu teikna Viggó viðutan að honum látnum. Þar með fetaði hann í sömu fótspor og Hergé hafði gert með Tinna á sínum tíma. Tinni fékk að deyja með höfundi sínum. Þessi ósk Franquins hefur að mestu verið virt frá því að hann lést en þó eru undantekningar á því. Dupuis gaf til dæmis út skemmtilega bók til heiðurs Franquins í tilefni af 60 ára afmælis Viggós árið 2017 þar sem sextíu mismunandi listamenn spreyttu sig á sextíu bröndurum um kappann. Heftið hét einfaldlega La galerie des Gaffes og SVEPPAGREIFINN minntist aðeins á það í færslu hér á síðunni sinni fyrir fáeinum árum.

Það var síðan í tengslum við hina árlegu myndasöguhátíð í Angoulême, þann 17. mars árið 2022, sem Dupuis útgáfan tilkynnti, á blaðamannafundi, að fyrirhuguð væri útgáfa á nýrri Viggó bók sem áætlað væri að myndi koma út þann 19. október árið 2022. Þessi tilkynning vakti að sjálfsögðu mikla athygli enda ný Viggó bók auðvitað stórviðburður í belgíska myndasöguheiminum. Fram kom að ætlunin væri að prenta upplag upp á 1,2 milljón eintaka og kanadíski listamaðurinn Delaf (Marc Delafontaine) hefði fengið það hlutverk að teikna bókina. Delaf þessi er kunnastur hér á landi fyrir myndasögurnar um Skvísur sem Froskur útgáfa hefur verið að gefa út á undanförnum árum. Á blaðamannafundinum kom einnig fram að Delaf væri þegar búinn að teikna brandara sem fylltu fjörtíu og fjórar blaðsíður fyrir þessa nýju Viggó bók en þess utan var nafn bókarinnar, Le Retour de Lagaffe (Endurkoma Viggós), og kápa hennar gerð opinber af þessu stórmerkilega tilefni.

Strax í kjölfar blaðamannafundsins komu þó fram miklar efasemdir, á samfélagsmiðlum, um þessa útgáfu og fólk var ekki á eitt sátt með fréttirnar enda margir minnugir orða Franquins um að enginn annar skyldi teikna Viggó viðutan. Mörgum fannst auðvitað eðlilegast að þessar óskir listamannsins yrðu virtar. En fyrsti Viggó brandarinn í þessari fyrirhuguðu útgáfu birtist þó í SPIROU tímaritinu sem kom út þann 6. apríl árið 2022 og þar með birtist í blaðinu fyrsti Viggó brandarinn sem ekki var eftir André Franquin. Þess má til gamans geta að í bókinni La galerie des Gaffes, sem minnst er á hér aðeins ofar, er einmitt þessi sami brandari Delaf um Viggó. SVEPPAGREIFINN nefndi það einmitt í þeirri færslu að framlag Delaf til bókarinnar sé það sem honum finnist persónulega best heppnað frá listamönnunum sextíu. Það mun einmitt hafa verið í kjölfar útgáfu þessa 60 ára afmælisheftis sem Dupuis útgáfan fór fram á við Delaf að hann myndi taka að sér það hlutverk að teikna heila bók um Viggó viðutan.

En aðeins viku eftir að útgáfa hinnar nýju Viggó bókar hafði verið kynnt opinberlega fór Isabelle Franquin, dóttir listamannsins, fram á að lögbann yrði sett á útgáfuna. Þrátt fyrir það birtist fyrsti brandari nýju bókarinnar í SPIROU tímaritinu nokkrum dögum seinna og ekki einfaldaði sú ákvörðun málið. Lögfræðingar Dupuis vörðu verknaðinn með þeim orðum að SPIROU væri prentað með töluverðum fyrirvara og ekki hefði því gefist tækifæri til að fjarlægja brandarann úr tímaritinu. Líklegra má þó telja að birtingin hafi frekar verið af markaðslegum ástæðum.

Þrátt fyrir óskir Franquins sjálfs, um að Viggó yrði ekki teiknaður af öðrum eftir dauða sinn, þá virðist sem hann hafi á sínum tíma afsalað sér höfundaréttinum fyrir mistök. Dupuis hafi í raun öðlast réttinn í kjölfar yfirtöku útgáfunnar á Marsu Productions og Isabelle Franquin geti því ekki haldið óskum föður síns til streitu. Á móti má samt spyrja hvort það sé siðferðislega rétt að fara á skjön við óskir listamannsins. Bókin hefur því verið sett á bið, á meðan dómstólar taka ákvörðun um framhaldið, og birting brandaranna í SPIROU blaðinu hefur einnig verið sett á ís á meðan niðurstaðanna er beðið en þær munu væntanlega liggja fyrir í september á þessu ári. 

Og svo er kannski rétt, fyrst verið er að fjalla um Viggó viðutan hér, að franska bíómyndin Gaston Lagaffe, frá árinu 2018, verður sýnd á RÚV annað kvöld (laugardagskvöld) og hefst klukkan 21:15. Myndin hefur reyndar verið aðgengileg hjá sjónvarpi Símans um nokkurt skeið og er ekki merkileg en er samt skylduáhorf fyrir alla aðdáendur teiknimyndasagna.

3. mars 2023

221. ÍSLENSK TINNA BÓK Á BORÐUM HERGÉ

Í dag 3. mars árið 2023 eru liðin fjörtíu ár síðan Hergé, höfundur Tinna bókanna, lést. SVEPPAGREIFINN gerði því einhver skil í færslu hér fyrir margt löngu síðan og í annarri enn eldri færslu hans má einnig finna nokkuð ítarlegt æviágrip um listamanninn belgíska. Þessi tímamót (auk ábendinganna um greinarnar tvær) eru samt í sjálfu sér ekkert endalega tilefni færslu dagsins í dag, þó merkisatburður sé, heldur ljósmynd af Hergé sem síðuhafi rakst nýlega á. Á umræddri mynd, sem er frá árinu 1975, sést hvar Hergé stendur við borð þar sem verkum hans hefur verið raðað upp fyrir framan listamanninn. Þarna má meðal annars sjá nokkrar af Tinna bókunum á mismunandi tungumálum og ef glöggt er gáð má einmitt reka augu í hina íslensku Svaðilför í Surtsey (sem kom út á íslensku árið 1971) í bókaröðinni hægra megin.

Um mitt árið 1975 höfðu tíu Tinna bækur þegar verið komnar út á íslensku og fyrir jólin þetta ár bættust við fjórar teiknimyndasögur með kappanum í viðbót. Íslenska myndasöguútgáfan á árum áður var ekki stór á evrópskan mælikvarða og SVEPPAGREIFANUM finnst því nokkuð merkilegt að íslensk Tinna bók skuli hafa ratað beint inn á borð Hergé.

Gaman að þessu.

16. febrúar 2023

220. TINNI OG HÁKARLAVATNIÐ

SVEPPAGREIFINN þurfti að bregða sér í veikindarfrí, vegna smávægilegrar aðgerðar, skömmu fyrir jólin sem gerði það að verkum að hann neyddist til að dvelja heima við í um hálfan mánuð. Fyrstu dagar sjúkralegunnar fóru að vísu fram, að stórum hluta, í einhvers konar móki enda kallinn á sterkum verkja- og bólgueyðandi lyfjum en á fáeinum dögum var hann þó orðinn nægilega hress til að gramsa svolítið í DVD safninu sínu. Þar gróf hann meðal annars fram stórmyndina Tinni og Hákarlavatnið eða Tintin et le lac aux requins eins og kvikindið heitir víst á frummálinu franska

Ekki man SVEPPAGREIFINN endilega eftir því að hafa séð þessa teiknimynd áður en hann las auðvitað oft samnefnda kvikmyndabók af tómri Tinna-skyldurækni á sínum yngri árum. Reyndar minnist hann þess ekki að hafa opnað bókina í næstum fjörtíu ár þegar hann dró eintak sitt af henni úr myndasöguhillunum sínum í kjölfar áhorfs myndarinnar. En kvikmyndabókin Tinni og Hákarlavatnið var einhvers konar myndasöguútgáfa af kvikmyndinni. Bókin var unnin upp úr teiknimyndasögu sem Bob de Moor vann og teiknaði hjá Hergé Studios og birtist í belgískum (Le Soir), frönskum (France Soir) og hollenskum dagblöðum á árunum 1972-73. Á þeim vettvangi var sagan ólituð og birtist ein ræma á dag þar til yfir lauk. Hér má sjá dæmi um hvernig þessi fyrsta myndasöguútgáfa sögunnar kom lesendum þessara dagblaða fyrir sjónir.

Nokkru seinna var sagan síðan birt í lit í hollenska myndasögutímaritinu "Pep" og einnig birtist hún í því sama litaða formi í stóru, hollensku sjónvarpstíðindatímariti árið 1974. Þessi útgáfa sögunnar hefur stundum verið nefnd hollenska útgáfan af sögunni og hún hefur meira að segja verið gefin út í bókarformi nokkrum sinnum og er að sjálfsögðu alveg kolólöglega.


Að lokum er síðan best að sjá þessar sömu myndir, líkt og við þekkjum þær, eins og þær koma endanlega fyrir í kvikmyndarbókinni um Tinna og Hákarlavatnið. Teikningarnar af sögupersónunum eru nákvæmlega þær sömu en bakgrunnsmyndirnar eru töluvert öðruvísi. Við kvikmyndarbókaútgáfuna voru málaðar bakgrunnsmyndir sjálfrar kvikmyndarinnar notaðar og því er yfirbragð þeirrar útgáfu allt annað en þeirrar upprunalegu sem birtist fyrst í dagblöðunum. Þetta var gert til að reyna að fá lesandann til að upplifa betur anda kvikmyndarinnar og fyrir vikið er blær sögunnar allt annar en hinna Tinna sagnanna eftir Hergé sjálfan. SVEPPAGREIFINN upplifir söguna svolítið óskýra og það er eins og hún hafi aldrei verið almennilega í fókus.

Myndasagan sem unnin var upp úr kvikmyndinni kom því fyrir sjónir lesenda í þremur mismunandi útfærslum. Svart/hvítu útgáfunni úr dagblöðunum, lituðu útgáfunni af sömu teikningum og síðan kvikmyndabókinni sem við Íslendingar þekkjum.

En aftur að kvikmyndinni sjálfri, Tinna og Hákarlavatnið. Ekki getur SVEPPAGREIFINN sagt að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með þá mynd þar sem hann hafði nákvæmlega engar væntingar um hana. Hann gerði bara ráð fyrir að hún væri eins og bókin og það stóðst svo sem ágætlega í fyrstu. En samt ekki. Auðvitað er þetta nákvæmlega sama sagan og lesandinn hlýtur að standa í þeirri trú að bókin sé unnin beint upp úr teiknimyndinni. En svo er reyndar alls ekki. Svo virðist nefnilega sem að Bob de Moor hafi teiknað myndasöguna alveg upp á nýtt þó stillur úr myndinni séu að einhverju leyti nýttar sem fyrirmyndir. Það þarf ekki nema að horfa á myndina og hafa bókina til hliðsjónar til að sannreyna það. Þetta kom SVEPPAGREIFANUM verulega á óvart. Hérna fyrir neðan má einmitt sjá þessa sömu myndaramma, og hér fyrir ofan, eins og þeir koma fyrir í kvikmyndinni. Það þarf engan sérfræðing til að sjá að þeir eru öðruvísi.

Það er kannski ekki úr vegi að kíkja á fleiri dæmi til samanburðar.


Það var reyndar eitt sem fór svolítið í taugarnar á SVEPPAGREIFANUM varðandi Tinna og Hákarlavatnið en það var tónlistin í kvikmyndinni eða öllu heldur söngatriðin í henni. Snemma í myndinni skella systkinin Nikki og Núska nefnilega í söng og eitt andartak var síðuhafi dauðhræddur um að Tinni og Hákarlavatnið væri einhver hallærisleg dans- og söngvamynd með sýldavísku teiknimyndaívafi. SVEPPAGREIFINN beið á milli vonar og ótta um að Tinni sjálfur eða jafnvel Kolbeinn kafteinn brystu í söng með óafturkræfanlegum afleiðingum. En það slapp sem betur fer fyrir horn. Annars er tónlistin að öðru leyti dæmigerð fyrir '70s kvikmyndir.

En teiknimyndin Tintin et le lac aux requins var gerð af belgíska kvikmyndafélaginu Belvision Studios og var frumsýnd þann 13. desember árið 1972. Leikstjóri myndarinnar var Raymond Leblanc en hann var fyrst og fremst útgefandi sem kom að mörgum stórum verkefnum sem tengdust teiknimyndasöguútgáfu í Belgíu. Leblanc var til dæmis einn af þeim sem stofnuðu Le Lombard myndasöguútgáfufyrirtækið fræga sem síðan fór að gefa út Le Journal de Tintin (Tinna tímaritið) fyrir Hergé og Belvision Studios sem framleiddi auðvitað Tintin et le lac aux requins og reyndar fjölda annarra teiknimynda um Tinna. Það eru einmitt sömu Tinna teiknimyndirnar og Bergvík gaf út á sínum tíma. Þá má auðvitað líka geta þess að Belvision Studios kom einnig að gerð nokkurra mynda um Ástrík og Lukku Láka, svo einhverja séu nefndar, auk fjölda annarra mynda og þátta.

Handrit Tintin et le lac aux requins var hins vegar ekki skrifað af Hergé (Georges Remi) höfundi Tinna bókanna en hann kom þó að einhverju leyti að vinnu hennar við ráðgjöf og fleira. Aðalhöfundur handritsins var Michel Greg og hann er yfirleitt skrifaður fyrir því en honum til mikillar aðstoðar var Jean-Michel Charlier. Þeir félagarnir voru báðir góðir vinir Hergé og höfðu meðal annars starfað lengi með honum hjá Hergé Studios. Greg var til dæmis ritstjóri Le Journal de Tintin, á árunum 1965-74. Seinna varð hann einnig þekktur fyrir myndasögurnar um Achille Talon (Alla Kalla) og handrit að fáeinum sögum um Sval og Val og Modeste og Pompon sem hann samdi fyrir André Franquin. Jean-Michel Charlier, var auðvitað þekktastur fyrir handritsgerðina að sögunum um Blástakk liðþjálfa sem hann gerði að mestu í samstarfi við listamanninn Jean Giraud. Kvikmyndin Tintin et le lac aux requins var raunar að miklu leyti unnin hjá Hergé Studios og margir af listamönnum fyrirtækisins komu þar við sögu, bæði við teiknun og litun, þó Hergé sjálfur hefði hvorki komið neitt að teiknivinnu kvikmyndarinnar né myndasögunnar sem gerð var í kjölfar hennar. Á meðal þeirra sem komu að teiknun myndarinnar má nefna, auk Bob De Moor, Nicholas Broca (Nic) sem kom meðal annars að gerð þriggja myndasagna um þá Sval og Val ásamt handritshöfundinum Raoul Cauvin. Það má því segja að nokkuð margir af þekktustu nöfnum belgíska og franska myndasöguheimsins hafi sameinað krafta sína við þessa teiknimynd.

Sagan segir að þó Hergé hafi að miklu leyti verið sáttur með afraksturinn þá hafi hann ekki verið alveg fullkomlega ánægður með útkomuna. Það var þó ekki kvikmyndin sjálf, sem fór fyrir brjóstið á honum, heldur myndasöguútgáfan sem hóf að birtast í dagblöðunum fljótlega í kjölfar frumsýningarinnar. Hergé hafði verið í löngu fríi á sama tíma og sá því ekki afraksturinn í blöðunum á heimaslóðum fyrr en hann kom heim og varð þá fyrir miklu áfalli. Hann hafði auðvitað ekki komið neitt nálægt teiknun myndasögunnar og fannst hún alveg hræðileg. Það var því á þessum tíma sem Hergé tók þá ákvörðun að enginn annar skyldi teikna Tinna að honum látnum.

Þó handrit Gregs sé ekki byggt á neinni af Tinna sögum Hergés þá benti Greg einhvern tímann á að sagan væri að einhverju leyti byggð á sömu grunnhugmynd og Alla, Siggu og Simbó bókin Le "Manitoba" Ne Répond Plus (Manitoba svarar ekki) sem hefur reyndar ekki komið út á íslensku. Þá koma fyrir í myndinni einstaka vísanir í atburði úr nokkrum Tinna bókum. Þar má til dæmis nefna að í byrjun myndarinnar er perlu stolið af safni og fölsku eintaki komið fyrir í stað hennar en sambærilegt tilvik má finna í Skurðgoðinu með skarð í eyra/Arumbaya skurðgoðinu (L'Oreille Cassée - 1937) þar sem eintaki af sjálfu skurðgoðinu var skipt út. Þá hittir Tinni Vaílu Veinólínó á förnum vegi í Sýldavíu og fær með henni far en svipaða atburðarás má einnig finna í sögunni um Veldissprota Ottókars (Le sceptre d'Ottokar - 1939). Einnig má nefna að í myndinni kemur fyrir hákarlakafbátur Vandráðs prófessors sem birtist í bókinni Fjársjóður Rögnvaldar rauða (Le Trésor de Rackam le Rouge - 1944). Þá gerist myndin nánast að öllu leyti í Sýldavíu sem er tilbúið land sem kemur fyrir í fáeinum bóka Hergé eins og allir vita. Að endingu má einnig nefna að milljarðamæringnum Laslo Carreidas sést bregða fyrir á flugvellinum í Klow, höfuðborg Sýldavíu, í byrjun myndarinnar en hann kemur að sjálfsögðu fyrir í bókinni Flugrás 714 til Sydney (Vol 714 pour Sydney - 1968) sem hafði komið út aðeins fjórum árum fyrr. Ekki kemur neins staðar fram hvaða erindi milljarðamæringurinn á til Klow og hann er hvergi sjáanlegur í myndasöguútgáfu sögunnar.


Þá má til gamans geta þess að Tintin et le lac aux requins naut nokkurrar hylli meðal almennings um það leyti sem hún kom út og var um tíma í þriðja sæti yfir vinsælustu bíómyndir í kvikmyndahúsum Belgíu á eftir The Godfather og Clockwork Orange. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart því Tinni var (og er enn) gríðarlega vinsæll hjá hinum frönskumælandi þjóðum álfunnar.


Kvikmyndabókin Tinni og Hákarlavatnið var síðan gefin út í íslenskri þýðingu Lofts Guðmundssonar fyrir Fjölva útgáfuna árið 1978, en sjálfsagt hefur Þorsteinn Thorarensen einnig komið eitthvað að þýðingu sögunnar. Árið á undan höfðu síðustu venjulegu Tinna bækurnar komið út af þessari 1. útgáfu seríunnar á íslensku en árið 1978 sendi Fjölvi frá sér fáeina afgangstitla eða aukabækur úr fórum Hergé. Þar á meðal voru tvær bækur úr bókaflokknum um Alla, Siggu og Simbó, einhverjar Palla og Togga bækur og síðan tvær kvikmyndabækur um Tinna. Þetta voru Tinni og bláu appelsínurnar og að sjálfsögðu hin áðurnefnda Tinni og Hákarlavatnið. Til stóð að þriðja kvikmyndabókin, Tintin et le Mystére de la d'or, kæmi einnig út en af þeirri útgáfu varð þó aldrei af einhverjum orsökum. Líkleg ástæða er auðvitað sú að þessar kvikmyndabækur tvær hafi ekki selst nægilega vel og Fjölva því ekki fundist taka því að vera að bruðla í útgáfu á svo illseljanlegri vöru. Tinna og bláu appelsínurnar og Tinna og Hákarlavatnið er enn tiltölulega auðvelt að nálgast næstum fjörtíu og fimm árum eftir að þær voru gefnar út hér á landi. Þær voru til í tugum eintaka á þrjú eða fjögur hundruð kall, á bókamörkuðum fyrir örfáum árum, og verða hugsanlega í boði á Bókamarkaði félags bókaútgefenda sem hefst undir stúku Laugardalsvallar eftir um það bil viku. Sumir hafa verið að reyna að selja þessar bækur á fjögur til átta þúsund kall á hinum ýmsu vettvöngum en það er engin ástæða til þess að vera að borga svo mikið fyrir eintök af þessum bókum. SVEPPAGREIFINN rak til dæmis augun í tvö eintök af Tinna og bláu appelsínunum og eitt af Tinna og Hákarlavatninu í Góða hirðinum (sem er orðin algjör okurbúlla) fyrir fáeinum dögum á fimm hundruð kall stykkið. Það er nóg til af þessum bókum í fínu standi ef þolinmæðin er fyrir hendi.

Myndin Tinni og Hákarlavatnið ku víst hafa komið út á íslensku hjá Bergvík bæði á VHS (1989) og DVD formi á sínum tíma en það var Eggert Þorleifsson sem sá um að leiklesa allar raddir sögupersónanna inn á þær útgáfur. SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki svo heppinn að eiga hérlent eintak af myndinni en hugmyndin er þó að bæta úr þeim skorti í komandi framtíð ef til hennar næst. Það er jú hluti þess að vera myndasöguáhugamaður að eiga sem allra mest af því sem tengist þessu furðulega áhugamáli. Eintak SVEPPAGREIFANS er danskt og heitir því mikilúðlega nafni Tintin og Hajsøen (auðvitað með dönskum hreim) en skemmtilegra væri nú að eiga svolítið íslenskari útgáfu af myndinni. Þess má geta að Tinni og Hákarlavatnið er aðgengileg á íslensku hjá streymiþjónustunni Filmflex, sem er rekin undir sama hatti og áskriftarsjónvarp Skjás 1, en einnig er hægt að sjá hana á YouTube í upprunalegu útgáfunni í fínum gæðum. Hér er hún líka á ensku.

 
 
Að lokum ætlar SVEPPAGREIFINN að birta eitt eftirminnilegt móment úr kvikmyndabókinni sinni en þar er um að ræða atvikið þegar Tinni stendur glæpakvendið frú Flekkan að verki ofan úr brunninum. Það verður að segjast alveg eins og er að frá fyrstu tíð hefur SVEPPAGREIFINN haldið að þarna hefði Þorsteinn hjá Fjölva ákveðið að taka sér skáldaleyfi og gefa Tinna sjálfur þessi fleygu orð. En svo var þó ekki. Orðrétt kemur þetta víst nokkurn veginn svona beint úr upprunalegu útgáfu bókarinnar og þeir Fjölva menn munu því vera alveg sárasaklausir af þessum tortryggilegu aðdróttunum SVEPPAGREIFANS.
 

23. desember 2022

219. JÓLAKVEÐJA SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN óskar lesendum Hrakfara og heimskupara gleðilegrar hátíðar með þökkum fyrir innlit og athugasemdir ársins sem senn er á enda. Það er Morris (Maurice de Bevere), teiknari Lukku Láka bókanna, sem á heiðurinn af þessu stórglæsilega listaverki sem fylgir færslu dagsins en það birtist í jólablaði SPIROU tímaritsins þann 14. desember árið 1967.

GLEÐILEG JÓL!

9. desember 2022

218. SVOLÍTIL JÓLAFÆRSLA

Það hefur farið frekar hljóðlega um SVEPPAGREIFANN á bloggsíðu sinni síðustu vikurnar, vegna tímaskorts og annarra anna, og líklegt er að svo verði áfram. Hann er þó ekki reiðubúinn að gefa það út að vera alveg hættur þeirri vitleysu að skrifa um teiknimyndasögur en vissulega eiga færslurnar eftir að verða óreglulegri og stopulli.

En undanfarin ár hafa verið svolítið öðruvísi hjá SVEPPAGREIFANUM líkt og hjá svo mörgum öðrum. Ein af ástæðum þess er að stórum hluta hið undarlega og fordæmalausa Covid tímabil sem tröllreið öllu hér um nokkurt skeið og heimsbyggðin er reyndar enn að súpa svolítið seiðið af. Þessi hvimleiði vágestur, sem síðuhafi sjálfur hefur reyndar ekki enn komist í náin kynni við, varð auðvitað þess valdandi að jarðarbúar lögðu um tíma flestir af þeim umhverfisspillandi ávana að ferðast til annarra landa. Þeir skyndilega breyttu lífshættir höfðu svo sem engin afgerandi áhrif á líf SVEPPAGREIFANS, enda um nóg annað að hugsa þá mánuðina, en þeir komu þó í veg fyrir að hann fengi tækifæri til að ráfa um erlenda flóamarkaði og myndasöguverslanir og dunda sér við að skoða og kaupa áhugaverðar teiknimyndasögur í rólegheitunum. En eins og svo margir tóku í staðinn upp á, í heimsfaraldrinum, fór hann því að panta sér slíkar gersemar í gegnum hið stórsniðuga og afar hentuga Internet sem allir eru að tala um. Og það var bara nokkuð gaman.

Þótt ekki hafi safnast nein ósköp í viðbót í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS með þessu móti þá verður samt að segjast að hann pantaði sér margt áhugavert og gerir reyndar enn. Langoftast var þarna um að ræða venjulegar teiknimyndasögur með efni sem hann þekkir nokkuð vel til um en inn á milli freistaðist hann einnig til að versla sér stærri og áhugaverðar bækur. Ein þeirra bóka tengist jú jólunum sem eru ekkert svo langt undan eins og flestir eru líklega farnir að átta sig á. Þessi bók, sem er á frönsku, nefnist Contes de Noël du Journal Spirou 1955 - 1969 og myndi einfaldlega þýðast á íslensku sem; Jólasögur Journal Spirou (SPIROU tímaritsins) 1955 - 1969 en hún kom út hjá hinni belgísku Dupuis útgáfu fyrir jólin árið 2021 Þetta er heilmikill doðrantur í stóru broti, upp á einhverjar 250 blaðsíður, með samansafni af skemmtilegu jólaefni í myndasöguformi sem birtust á síðum SPIROU tímaritsins á þessum áðurnefndu árum.

Mest eru þarna um að ræða jólasögur með þekktustu myndasögupersónum blaðsins en einnig ýmsan fróðleik sem segir frá sögu og tilurð þessa efnis. Þessi bók hefur því að geyma brot af því besta af sígildu myndasöguefni tengdu jólablöðum SPIROU og er eiginlega alveg stórgaman að fletta í gegnum - jafnvel fyrir þá sem ekki tala stakt orð í frönsku. Margir þekkja það auðvitað úr æsku að í teiknimyndasögum er það nefnilega þannig að það er myndmálið sem skiptir mestu máli. Það þarf ekki að taka fram að jólaefnið í þessari bók hefur að sjálfsögðu verið ófáanlegt lengi og ekki komið fyrir sjónir aðdáenda belgískra myndasögulesenda í marga áratugi. Sjálfsagt eru því tugir kynslóða sem hafa aldrei augum litið þetta efni og fæstir hafa líklega um leið engan áhuga á að skoða það. Mest eru það því sennilega bara myndsögunördar og safnarar, komnir jafnvel vel yfir miðjan aldur, sem upplifa einhvers konar nostalgíu við að fletta í gegnum bókina og skoða þetta gamla sígilda efni. Það er líklegt að SVEPPAGREIFINN teljist til þeirra hóps.

Á undanförnum árum hefur SVEPPAGREIFINN reynt að birta myndasögufærslur, í desember mánuði, hér á Hrakförum og heimskupörum sem tengjast jólunum. Mikið af því efni hefur tengst SPIROU tímaritinu og þegar vel er að gáð kemur í ljós að mest af því kemur einnig fyrir í bókinni Contes de Noël du Journal Spirou 1955 - 1969. Þarna eru til dæmis tvær stuttar jólasögur með þeim Hinrik og Hagbarði, Gorminum, Jóla litla (Le Petit Noël) og kettinum Poussy en þetta efni kemur allt úr SPIROU blaðinu og má finna hér til hliðar á síðunni undir heitinu Jólaefni

Í færslu dagsins var víst einnig ætlun SVEPPAGREIFANS að birta aðra jólamyndasöguna, af tveimur, sem hann þýddi og gerði klára til birtingar fyrir um tveimur árum en hafði þó ekki enn látið verða af að miðla hér á síðunni. Hér er um að ræða einnar síðu brandara eða sögu úr seríunni um vinina Boule og Bill en margir myndasöguaðdáendur kannast eflaust við þá félaga þó þeir hafi aldrei komið út í bókaformi hér á Íslandi. Hinn brandarinn mun hins vegar nær örugglega fylla í jólafærslu á næsta ári ef síðuhafi hefur þá ekki enn gefist upp á þessari vitleysu. Að sjálfsögðu koma þessir brandarar líka báðir fyrir í bókinni Contes de Noël du Journal Spirou 1955 - 1969. Sjálfur á SVEPPAGREIFINN líklega sex til átta bækur úr bókaflokknum um þá Boule og Bill og minnist þess að hafa einhvern tímann minnst á þá kauða, hér á bloggsíðu sinni, þó hann muni ekki af hvaða tilefni það var. Boule og Bill bækurnar eru eftir listamanninn Jean Roba, og fjalla um strákinn Boule og hundinn hans Bill, en þær eru á meðal allra þekktustu teiknimyndaseríanna sem komu út í Belgíu á sínum tíma. Þessi sería birtist, eins og áður segir, yfirleitt í einnar síðu bröndurum og er svolítið í anda Modeste og Pompon eftir André Franquin eða jafnvel Viggó viðutan eftir sama höfund. Þessi Boule og Bill jólabrandari kom fyrir í jólablaði SPIROU þann 11. desember árið 1969.