22. febrúar 2019

99. ÞAÐ SVÍKUR ENGAN SÓDAVATNIÐ Á AKUREYRI

Það hefur verið svolítið í umræðunni undanfarna viku fréttir af hugmynd sem birtist fyrst í norðlenska vefmiðlinum Vikudagur.is. Þar kom fram að á síðasta fundi stjórnar Akureyrarstofu hefði verið ræddur sá möguleiki að reisa styttu af þeim Tinna og Tobba á Torfunesbryggju í samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands. Fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um málið síðan og gert málinu skil. Forsögu þessarar hugmyndar má rekja allt aftur til áranna 1941-42 þegar belgíski listamaðurinn Georges Remi, eða Hergé eins og hann kallaði sig, var að vinna að tíundu sögu sinni L'Étoile mystérieuse um myndasöguhetjuna Tinna. Þessa bók þekkjum við Íslendingar auðvitað undir heitinu Dularfulla stjarnan en eins og við öll vitum þá komu þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn kafteinn við á Akureyri í sögunni. SVEPPAGREIFINN skrifaði meira að segja færslu um það hér á Hrakförum og heimskupörum fyrir örfáum árum. Þeir félagar eyddu heilum fjórum blaðsíðum á Akureyri og það er því augljóslega löngu kominn tími til að heiðra minningu þeirra þar á einhvern veglegan hátt. En í fundargerð Akureyrarstofu segir orðrétt;
Sem kunnugt er kom blaðamaðurinn Tinni við á Akureyri í sögunni um Dularfullu stjörnuna. Fram hefur komið sú hugmynd að reisa styttu af Tinna og félögum við Torfunefsbryggju, í samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands, til minningar um þessa heimsókn. Stjórn Akureyrarstofu er spennt fyrir því að stytta af Tinna og félögum rísi á Torfunefsbryggju og felur starfsmönnum til að byrja með að kanna hvaða formlegu leiðir þarf að fara gagnvart höfundarrétti og senda formlegt erindi til stjórnar hafnasamlagsins.
Þeir norðanmenn hafa svo sem áður viðrað þá hugmynd að gera einhvers konar minnisvarða um heimsókn þeirra félaga til Akureyrar. Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdarstjóri Akureyrarstofu nefnir það í viðtali við vísi.is að þeir hafi áður verið í sambandi við rétthafa Tinna bókanna í Belgíu vegna hugmynda um að mála myndaramma úr Dulafullu stjörnunni á stóran vegg í miðbænum. Reyndar varð ekkert úr því en hugmyndin var samt alveg þess virði að fá hana.
SVEPPAGREIFINN hefur svo sem oft áður heyrt sambærilegarar hugmyndir um Tinna minnisvarða á Akureyri en mörg okkar sem gleyptu í sig þessar teiknimyndasögur á sínum tíma voru alltaf meðvituð um Akureyrartenginguna. Til er fólk sem ferðast um heiminn gagngert til að heimsækja þekkta staði úr Tinna bókunum og til Akureyrar hafa komið einstaklingar í þeim eina tilgangi. Á Akureyri hittir Kolbeinn kafteinn einmitt Runólf gamlan vin og samstarfsmann af sjónum og saman setjast þeir niður ásamt Tinna á einhverju kaffi- eða öldurhúsa bæjarins. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekkert sérstaklega vel kunnugt um hvort að um marga slíka staði hafi verið að ræða á Akureyri á þessum árum. En þarna ræða þeir félagar málin, fara yfir stöðuna og það er á þessum stað sem Kolbeinn kafteinn mælir hin ógleymanlegu og fleygu orð, "Aaaaaaaah!... Það svíkur engan sódavatnið á Akureyri."
Það er hreint alveg með ólíkindum að þessi snilld hafi ekki verið nýtt á einhvern hátt af akureyriskum markaðsfrömuðum eða hugmyndasmiðum. Eða hefur það kannski einhvern tímann verið gert? SVEPPAGREIFANUM er kunnugt um að báðir gosdrykkjaframleiðendurnir á Akureyri, Sanitas og Sana, hafi framleitt sódavatn á sínum tíma. Og það er í rauninni ófyrirgefanlegt ef fyrirtækin hafi ekki nýtt sér þennan stórkostlega frasa sem þeir fengu beint í hendurnar frá þýðanda Tinna bókanna - Lofti Guðmundssyni. Þessi frasi hlýtur í það minnsta að vera einhvers staðar uppi á vegg  í bænum, á Græna hattinum eða Bautanum. Þó það hafi ekki verið nema á bæjarskrifstofunni. Þetta ætti eiginlega að vera innprentað í skjaldarmerki bæjarins.

15. febrúar 2019

98. SIGGI OG VIGGA Á ÍSLANDI

Margir kannast við teiknimyndasögur sem fjalla um systkinin Sigga og Viggu en það var bókaútgáfan Fjölvi sem gaf út nokkrar bækur  úr seríunni á árunum 1989-90. Alls komu út tíu bækur í bókaflokknum hér á landi en það var Þorsteinn Thorarensen sem þýddi þessar myndasögur, fjórar þeirra árið 1989 og sex í viðbót ári seinna. Bækurnar voru prentaðar í minna broti en gengur og gerist hér á landi og í þunnu 58 blaðsíðna kiljuformi. Þær voru því ekki ósvipaðar Ástríksbókunum að formi og þykkt en heldur minni eða í svipaðri stærð og eldri bækurnar um Palla og Togga. Þessar sögur fóru nú ekki mjög hátt hér og einhvern veginn hefur SVEPPAGREIFINN pínulítinn grun um að bækurnar tíu hafi ekki verið prentaðar í mjög stóru upplagi á Íslandi. Í það minnsta rekst hann ekki oft á þær til sölu á nytjamörkuðum eða öðrum sambærilegum sölustöðum. En þegar það gerist þá eru þær yfirleitt ekkert sérstaklega illa farnar og reyndar ekki heldur dýrar. Sem segir manni það að bækurnar hafi ekki beint verið lesnar upp til agna. Þær bækur sem Fjölvi gaf út í seríunni um Ævintýri Sigga og Viggu voru:
  • 76. Stálháfurinn stælti - 1990 (De IJzeren Schelvis - 1967)
  • 93. Ofsjónir afa gamla - 1990 (De snorrende snor - 1969)
  • 104. Hindúagröfin hættulega - 1990 (De wilde weldoener - 1970)
  • 138. Gullæðið geggjaða - 1990 (Bibbergoud - 1973)
  • 151. Fákurinn fljúgandi - 1989 (Het ros Bazhaar - 1974)
  • 157. Kynjakristallinn - 1990 (De mollige meivis - 1975)
  • 158. Víkingurinn voðalegi - 1989 (De vinnige Viking - 1976)
  • 184. Regnbogalandið - 1990 (De Regenboogprinses - 1981)
  • 199. Puti Kuti - 1989 (De tamme tumi - 1984)
  • 206. Hamagangur á hafsbotni - 1989 (De bonkige baarden - 1986)
Það er nokkuð ljóst að þetta er ekki það þekktasta sem verið var að gefa út á myndasögumarkaðnum hér landi. En Ævintýri Sigga og Viggu voru mjög ólíkar þeim bókum sem útgáfurnar voru að senda frá sér á blómatíma útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi. Flestar þeirra komu frá Belgíu og Frakklandi en bækurnar um Siggu og Viggu, sem heita reyndar Suske og Wiske á frummálinu, koma frá flæmska hluta Belgíu. Þar er töluð einhvers konar hollensk mállýska sem er einmitt kennd við svokallaða flæmsku. Bækurnar um Suske og Wiske voru því nokkurs konar mótsvar flæmska málsvæðisins í Belgíu gegn Tinna og öðrum vinsælum myndasögum sem komu frá franska hlutanum. En töluverður rígur er á milli þessara málsvæða. Suske og Wiske voru gríðarlega vinsælar þar sem og í Hollandi en Tinni var hins vegar vinsælastur í þeim franska. Sögurnar voru fyrst birtar í belgíska dagblaðinu De Nieuwe Standaard á árunum 1945 til 47 og síðan frá 1947 í dagblaðinu De Standaard og fleirum belgískum og hollenskum blöðum. Á árinu 1948 hófu sögurnar um Suske og Wiske einnig að birtast í hollensku útgáfunni af Tinna tímaritinu sem nefnist Kuifje þar í landi. Sögurnar voru gefnar út í bókaformi í Belgíu jafnóðum og birtingu þeirra lauk í De Standaard og þær eru nú alls orðnar, hvorki meira né minna, en 373 talsins og enn að koma út. Sú 374. er væntanleg um miðjan mars.
Það var listamaðurinn Willy Vandersteen sem átti heiðurinn af þessum sögum og hafði allan veg og vanda af þeim fyrstu áratugina eða allt þar til hann sneri sér að öðrum verkefnum snemma á 8. áratugnum. Hann lést síðan árið 1990. Eftir það hafa ýmsir listamenn komið að sköpun þeirra en eins og áður segir eru bækurnar enn að koma út. Sögurnar fjalla sem sagt um ævintýri þeirra Sigga og Viggu og samferðarfólk þeirra og eru einhvers konar fantasíusögur sem gerast á öllum tímum og vettvöngum. Þær koma inn á ýmsar kunnuglegar slóðir sem geta tengst þekktum ævintýrum og þjóðsögum, mannkynssögunni, goðafræðinni og jafnvel efni af trúarlegum toga. En við Íslendingar eigum líka okkar tengingu í þessum bókum og um það ætlar SVEPPAGREIFINN einmitt að röfla eitthvað um núna.
Það var í byrjun nóvember árið 1987 sem sagan De edele elfen í bókaflokknum um Suske og Wiske kom út í Belgíu í fyrsta sinn. Það var flæmski listamaðurinn Paul Geerts sem átti heiðurinn að þessu ævintýri en hann tók einmitt við af Willy Vandersteen og kom að rúmlega 100 sögum um Suske og  Wiske á árunum 1971 - 2002. Á íslensku myndi titill bókarinnar líklega verið þýddur sem Eðalálfarnir eða eitthvað slíkt. Bókin var sú 212. í seríunni en sagan hafði hafið göngu sína í De Standaard þann 27. júní þetta sama ár - 1987. Síðustu blaðsíðurnar voru síðan birtar þann 31. október. Bókin kom því út aðeins örfáum dögum eftir að De Standaard birti þennan síðasta hluta en það var yfirleitt venjan með sögurnar um Suske og Wiske. De edele elfen fjallar um ferðalag þeirra til Íslands og samskipti þeirra við álfa, tröll og aðrar furðuverur sem aðallega eru í formi talandi hesta, kinda, lunda og jafnvel þorska. Þarna er víst óhætt að segja að íslenska þjóðsagnahefðin hafi verið komin alveg út að ystu velsæmismörkum og Jón Árnason eflaust farinn að bylta sér verulega í gröfinni sinni. Náttúra landsins og almenn fegurð Íslands er höfundi bókarinnar augljóslega hugleikin og hreint með ólíkindum að Íslandsvinafundvísir fjölmiðlamenn hafi ekki fyrir löngu verið búnir að vekja athygli landa sinna á þessari bók. Strax á fyrstu opnu hennar má sjá  einhvers konar kynningarmynd um efni sögunnar en þar sjást þau Suske og Wiske (Siggi og Vigga) ásamt hinu stórglæsilega skjaldarmerki Íslands sem er eftir listamanninn Tryggva Magnússon. Það er kannski líka rétt að geta þess að skjaldarmerkið átti 100 ára afmæli nú í vikunni eða nánar tiltekið þriðjudaginn 12. febrúar. Tryggvi var einmitt kunnur fyrir myndir sínar sem birtust um árabil í skopritinu Speglinum en líklega er þetta þó í fyrsta sinn sem skjaldarmerki íslenska lýðveldisins birtist í teiknimyndasögu.
Þarna hefur verið lappað lítillega upp á landvættina fjóra og skjaldarmerkið allt hefur reyndar fengið einhverja smávægilega uppfærslu. Í textanum sem fylgir segir eitthvað á þá leið að í þessari bók séu hetjurnar okkar séu nú komnar til Íslands þar sem náttúran sé rosafín eitthvað og þar er allt fullt af álfum og tröllum og svoleiðis. Eitthvað svona sem við vitum náttúrulega öll. En strax í byrjun bókarinnar fá söguhetjurnar boð um ferðalag til Íslands og þá er ekki sökum að spyrja. Siggi, Vigga, Lambi, Vambi og Stína frænka hoppa í kjölfarið upp í næstu flugvél frá Schiphol og Arnarflug sáluga flytur þau beina leið upp til landsins okkar kalda. Þarna verður auðvitað að taka tillit til þess að bókin kom út árið 1987 og flugfélagið Arnarflug því enn í fullu fjöri.
Og svo er lent í Keflavík, í morgunroðanum, þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er tiltölulega nývígð og frekar tómlegt þar um að litast allt um kring. Hvorki Þotuhreiðrið né Regnboginn hennar Rúríar nokkurs staðar sjáanleg fyrir utan. Á þessum tíma voru tiltölulega fáar lendingar á Keflavíkurflugvelli og enn 30 ár þar til heildartölur upp á níu til tíu milljónir ferðamanna á ári fóru að verða að veruleika. Þegar inn í flugstöðina er komið verður Lamba það á að detta um ferðatöskuna sína og öskuillur hrópar hann á næsta burðarmann til að bera töskuna fyrir sig. Sá er hins vegar hvorki meira né minna en sjálfur Davíð Oddsson en árið 1987 var hann borgarstjóri í Reykjavík. Það er ekki á hverjum degi sem maður er búinn að rekast á skjaldarmerki Íslands, Leifsstöð og Davíð Oddsson á blaðsíðu fjögur í einhverri teiknimyndasögu!
Sagan heldur áfram þar sem hópurinn kemur sér fyrir í gömlu húsi einhvers staðar uppi í sveit. Ýmislegt undarlegt gerist þar eins og þessara sagna er siður. Söguhetjunum er sagt frá álfatrú landsmanna og um nóttina lendir Siggi í aðstæðum sem eru einhvers staðar mitt á milli draums og veruleika þar sem hann kemur ungri álfamær til aðstoðar. Sú álfkona er reyndar engin smá álfur því að hún heitir hvorki meira né minna en Hólmfríður Karlsdóttir en er kölluð Dotti í sögunni. Hún er reyndar ekkert sérstaklega lík Hófí enda búið að pimpa hana upp með hæfilega asnalegu álfsútliti, með álfaeyru og alles.
Í þakklætisskyni færir hún Sigga gullna skó og rauð gleraugu sem gera honum kleift að sjá álfa þegar hann setur þau upp. Allt þetta er auðvitað í anda bókanna um Sigga og Viggu. Það var svo sem ekkert ætlun SVEPPAGREIFANS að vera að velta sér mikið upp úr söguþræði bókarinnar enda var aðal tilgangurinn að skoða hina íslensku tengingu við söguna. En næsta dag fara söguhetjurnar til Reykjavíkur og fá sér meðal annars göngutúr í miðbænum. Á nokkrum myndum á blaðsíðu ellefu má sjá hvernig umhorfs var á þeim slóðum árið 1987. Lækjargata og Lækjartorg, strætó og örfáir, að því er virðist, túristar á ferli en einnig má sjá bregða fyrir íslenska fánanum og styttunni af Ingólfi gamla á Arnarhóli.
Örlitlu síðar má sjá hvar hópurinn er, á einhvern undarlegan hátt, skyndilega staddur einhvers staðar sunnan við Hallgrímskirkju en hún blasir við í bakgrunninum á mynd sem er efst á blaðsíðu tólf. Snöggt á litið virðast þau því með einhverjum óskiljanlegum hætti hafa flutt sig á einu augabragði í nágrenni við Barónsstíg eða um það bil þar sem Gamla Hringbraut er staðsett í dag.
Og enn undarlegra er að strax í kjölfarið á því eru söguhetjurnar okkar komnar alla leið út á Austurvöll. Eitthvað hefur höfundurinn Paul Geerts því verið illa áttaður við þessa vinnu sína. Í bókinni eru þau Siggi, Vigga og félagar þeirra mikið á ferðinni um álfaslóðir, í sveitum landsins og á hálendinu. Það verður að viðurkennast að landslag sögunnar er svolítið framandi fyrir okkur íslensku lesendur bókarinnar. Við vitum vel að á Íslandi er ekki mikið um gróður og hrjóstugir sandar með kuldalegum auðnum og eyðimörkum eru yfirleitt mun meira áberandi í óbyggðum landsins. Eða voru það alla vega fyrir rúmlega 30 árum. Paul Geerts hefur líklega blöskrað þessi gróðursnauða ímynd og ákveðið að bæta aðeins upp skógleysið á köflum með trjám og runnum. Myndin sem er framan á kápu bókarinnar er til dæmis ekkert sérstaklega íslensk á að líta. En reyndar fær auðnin einnig töluvert mikið að njóta sín í bókinni. Og svo hefur hann auðvitað ekki gleymt Jökulsárlóni, Geysi og Gullfossi.
Það er því margt framandi sem sést í bókinni þó augljóst sé að Geerts hafi haft nokkuð greinargóðar upplýsingar um land og þjóð. Af útliti gamalla torbæja og útihúsa, sem koma fyrir í bókinni, mætti nefnilega áætla að hann hafi haft góðar heimildir og gögn. En það er erfitt að átta sig á því hvort hann hafi komið hingað sjálfur til að vinna að og kynna sér sögusvið ævintýrisins eða hvort hann hafi eingöngu haft ljósmyndir og þær helstu upplýsingar sem til þurfti. Söguhetjurnar eru til dæmis oftast frekar fáklæddar og sjaldnast klæddar í samræmi við þær veðuraðstæður sem hér ríkja yfir skárstu mánuði ársins. Og það að aldrei skuli rigna í sögunni er líka afskaplega ótrúverðugt. Þá eru kindurnar í bókinni ekkert sérstaklega íslenskar í útliti og sömu sögu má segja um álfana og tröllin. Hins vegar virðast minna mikilvæg atriði hafa skilað sér betur því Stína frænka ríður til dæmis á hesti sínum í söðli á einni myndinni. SVEPPAGREIFANUM er ekki vel kunnugt um hvort að það hafi tíðkast í Belgíu. Sjálfsagt skiptir fæst af þessu neinu máli. Myndasögurnar um Suske og Wiske eru ennþá gríðarlega vinsælar og eflaust hefur enginn nennt að velta sér upp úr þessari einu bók sem gerist á Íslandi. Nema náttúrulega hinn tuðgjarni SVEPPAGREIFI.

Viðbót - 9. apríl 2019
SVEPPAGREIFINN fékk skemmtilega ábendingu, frá Inga Jenssyni í kommentakerfinu hér fyrir neðan, með viðbótarupplýsingum um þessa merkilegu bók. Þar segir hann meðal annars frá því hvernig frændi hans Þórður Tómasson safnvörður á Byggðasafninu í Skógum undir Eyjafjöllum kemur við sögu bókarinnar. Og þar sem SVEPPAGREIFINN hefur eintak af De edele elfen undir höndum (á frönsku að vísu) er tilvalið að birta mynd af þessari persónu sem Þórður er fyrirmyndin af. Enn og aftur takk fyrir ábendinguna, Ingi.

8. febrúar 2019

97. NOKKUR HEIMSKUPÖR SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN lumar á ýmsu sem tengist viðfangsefninu teiknimyndasögur og það verður nú að viðurkennast að ekki er það nú allt af hinu fagra. Hann er auðvitað mikill aðdáandi að öllu því sem snýr að belgísk/franska myndasöguheiminum, eins og lesendur Hrakfara og heimskupara hafa eflaust rekið sig á, og reynir (í hófi þó) að sanka að sér ýmiskonar áhugaverðu efni sem tengist því áhugamáli. Myndasögurnar sjálfar  eru auðvitað í fyrirrúmi en svo er einnig svolítið gaman að krydda aðeins og fegra umhverfið eftir megni af ýmsum afurðum sem hægt er að tengja við þessar myndasögur. Eitt af því sem SVEPPAGREIFINN hefur dundað sér ofurlítið við undanfarin árin er að mála (illa) á striga viðfangsefni sem finna má í áðurnefndum teiknimyndasögum. Hann hefur reyndar að mestu haldið því fyrir sjálfan sig eða alla vega innan veggja heimilisins og ekki hefur enn verið amast neitt alvarlega yfir því af öðrum fjölskyldumeðlimum.
Og jú ... hann hefur líka aðeins nýtt slíkar afurðir til jóla- og afmælisgjafa ungviðisins innan stórfjölskyldunnar. Þetta eru engin listaverk, enda SVEPPAGREIFINN með um það bil tólf þumalputta, en það eru svo sem ekki nein flókin vísindi að teikna tiltölulega einfaldar og hreinar línur og fylla síðan inn í myndina með akrílmálningu. Það er alla vega ljóst að SVEPPAGREIFINN  verður seint talinn til eins af gömlu meisturunum og eflaust ekki margir sem hafa lyst á þeirri list sem hann hefur uppá að bjóða. Tilgangurinn hefur því aldrei verið annar en sá að reyna að vekja upp áhuga yngstu kynslóða þessarar ættargreinar á teiknimyndasögum á sama hátt og hann hefur einnig reynt að dreifa til þeirra aukaeintökum af myndasögum sem hafa dagað uppi hjá honum. Þessar málverkaómyndir SVEPPAGREIFANS hlaupa nú svo ekkert á einhverjum tugum en líklega má einhverns staðar finna á bilinu milli sex og átta myndir sem hann hefur málað. Þarna er yfirleitt um að ræða stakar myndir úr Tinna bókunum en einnig minnist hann Gormafjölskyldumyndar sem hann málaði fyrir mörgum árum og gaf ungum frænda sínum.
Tvær þessara Tinna mynda má finna á heimili SVEPPAGREIFANS en ein í viðbót prýðir nokkuð áberandi vegg í sumarbústað fjölskyldunnar fyrir austan fjall. Sú mynd hefur þá sérstöðu að vera unnin upp úr nokkrum mismunandi teikningum úr Tinna bókunum og heildarmyndin af meintri atburðarás þannig fléttuð inn í næsta umhverfi sumarbústaðsins. Reyndar hafa þeir sem séð hafa myndina furðað sig nokkuð á viðveru eldflaugarinnar frægu í sælureit SVEPPAGREIFANS og jafnvel velt því fyrir sér hvort í boði séu ferðir þaðan úr sveitinni til tunglsins.
SVEPPAGREIFINN hefur að vísu aldrei verið almennilega sáttur við þetta verk sitt og hefur oft velt því fyrir sér að mála hana upp á nýtt en þó án þess að breyta heildarmynd hennar. Upphaflega hugmyndin var að reyna að fanga einfaldleika og litablæ bókanna en það hefur honum þó einhvern veginn mistekist og myndin er því ekki að njóta sín eins helst hefði verið á kosið. Þannig hefur SVEPPAGREIFANUM aldrei fundist myndin nægilega trúverðug til að geta hafa komið úr einhverri Tinna sögunni. Líklega  færi henni því best að dýpka og skyggja heildarmyndina og milda um leið litavalið með einhverjum þyngri hætti. Þannig myndi yfirbragð hennar reyndar breytast töluvert yfir í drungalegri blæ en það færi henni þó líklega betur.

En svo SVEPPAGREIFINN komi sér að aðalefni þessarar færslu þá var tilgangur hennar fyrst og fremst að reyna að koma út eða losna við mynd sem hann málaði að mestu fyrir löngu síðan. 
Forsagan er sú að einhvern tímann fékk hann þá undarlegu hugmynd að mála upp á nýtt hina kunnu mynd Gunnlaugs Blöndals Stúlku með greiðu, frá árinu 1937, þar sem í stað andlits stúlkunnar væri kominn haus af strumpi. Á þessum tíma bjó SVEPPAGREIFINN mjög ódýrt, í litlu stúdíórými í kjallara á Álfhólsveginum í Kópavogi, í kjölfar Efnahagshrunsins sem margir kannast eflaust eitthvað við. Hann keypti ódýrasta og ómerkilegasta málverkið sem hann gat fundið á striga í Góða hirðinum á 300 kall og hóf að sletta einhverri málningu yfir þá mynd sem þar var fyrir. SVEPPAGREIFINN var auðvitað blankur, eins og svo margir á árunum upp úr hruni, og nýr strigi í sambærilegri stærð hefði líklega kostað hann 3-4000 kall. En fljótlega fór ásýnd Stúlkunnar með greiðuna að myndast á strigagarminum og varð á tiltölulega skömmum tíma nokkuð endanlegs útlits. En reyndar þó án hauss. Þannig á sig komið lá málverkið óklárað í nokkur ár og upplifði meðal annars tvenna flutninga, giftingu og fjölgun mannkynsins um einn. Á meðan beið hið hauslausa stúlkugrey örlaga sinna annars vegar inni í dimmri geymslukompu og hins vegar, nú síðustu árin, í stórum kassa út í bílskúr. Einhverja hluta vegna var ókláraðri myndinni þó aldrei hent.

Í byrjun ársins 2019 poppaði upp heit umræða vegna hinnar upprunalegu myndar Gunnlaugs og stúlkunnar góðu. Sú umræða var tilkomin vegna nektar hennar og annarra sambærilegra verka á veggjum Seðlabankans en viðkvæmri starfskonu stofnunarinnar var eitthvað misboðið berbrjósta ásýnd listaverkanna þar. SVEPPAGREIFINN ætlar sér svo sem ekkert að vera að velta sér upp úr þeirri umræðu en í kjölfar hennar mundi hann eftir blessaðri myndinni út í skúr. Hún var því dregin inn í hús eftir kvöldmat einn daginn í síðustu viku og á hana skellt svolitlum strumpahaus eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Eftir líklega um tíu ára ferli er myndin því loksins tilbúin og það sem meira er þá hefur SVEPPAGREIFINN engan áhuga, pláss eða nein not fyrir ósköpin. Strumpur með greiðu óskar því eftir nýjum eiganda sem mætti gjarnan hafa áhuga á myndasögum og ekki síður að hafa svolítið óþroskaðan smekk fyrir myndlist.
Myndin er því ekki beint til sölu en væntanlegur eigandi hennar mætti þó gjarnan vera aflögufær um frjálst framlag sem færi þá í sjóð (sem samanstendur að mestu af andvirði dósa og flaskna) til kaupa á nýju gróðurhúsi eiginkonu SVEPPAGREIFANS. Myndin er 60x80cm að stærð og er reyndar svo illa gerð að "listamaðurinn" fékk snert af málverk við vinnslu hennar. Verkið er ómerkt en SVEPPAGREIFINN er tilbúinn til að árita myndina ef væntanlegur eigandi hennar telur það ekki rýra verðgildi hennar. SVEPPAGREIFINN gerir því ekki ráð fyrir að slegist verði um verkið en áhugasömum aðilum er þó bent á glorzubb@gmail.com.

1. febrúar 2019

96. SÓLARLAG LUKKU LÁKA

Lukku Láka bækurnar eru í uppáhaldi hjá mörgum og öll eigum við okkar uppáhalds sögur úr þessum vinsæla bókaflokki. Þeir félagar Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny áttu mestan heiðurinn að vinsældum seríunnar og Morris teiknaði í raun fyrstu 72 sögurnar í bókaflokknum áður en hann lést sumarið 2001. Handritshöfundurinn Goscinny hafði hins vegar látist langt fyrir aldur fram árið 1977. Alls eru bækurnar nú orðnar 80 talsins og sú nýjasta, Un cow-boy à Paris, kom út síðastliðið haust. Bókaútgáfan Fjölvi hóf að gefa út Lukku Láka bækurnar árið 1977 í íslenskri þýðingu og bókstaflega dritaði sögunum frá sér af færibandi - svo ör var útgáfan. Alls sendi Fjölvi frá sér 33 bækur úr seríunni, flestar í þýðingu Þorsteins Thorarensens, til ársins 1983 þegar smávægilegt hlé var gert á útgáfu þeirra. Sú pása stóð yfir í 33 ár eða allt þar til Froskur útgáfa hóf síðan að senda frá sér bækurnar á ný á íslensku. Froskur hefur reyndar tekið því heldur rólegar en Fjölvi heitinn gerði og bækurnar hafa nú verið að koma út ein á ári síðan 2016 og sú síðasta, Stórfurstinn (Le Grand Duc - 1973), kom út nú fyrir jólin.
Sögurnar 80 eru eins ólíkar og þær eru margar enda rétt tæplega 70 ár á milli þeirra elstu (La Mine d'or de Dick Digger) frá árinu 1949 og áðurnefndar Un cow-boy à Paris sem gefin var út árið 2018. Stór hluti Lukku Láka bókanna eiga það þó sameiginlegt að enda á þann hátt að Lukku Láki ríður á Léttfeta inn í rauðleitt sólarlagið. Þarna var um að ræða beina vísun í kúrekamyndir úr villta vestrinu en þær voru mjög vinsælar upp úr miðri 20. öldinni. Þar mátti oft sjá einmana söguhetju ríða inn í sólarlagið í lok myndanna. Í fyrstu þremur Lukku Láka sögunum komu þessar sólarlagsmyndir strax við sögu. Þarna var um að ræða sögurnar Arísóna frá árinu 1951 og Gullnáman frá 1949, sem komu út á íslensku í sömu bókinni árið 1979, og Rodéo (í bókinni Allt um Lukku Láka er hún nefnd Hroðreið) einnig frá árinu 1949 en hún hefur ekki enn verið gefin út á Íslandi. Á öllum þessum þremur lokamyndum sést hið sígilda sólarlag en eitthvað voru þó útfærslur Morris á myndunum mismunandi.
Augljóslega var þó ekki komin nein ákveðin regla með þessa tilhögun svo snemma bókaflokksins. Næstu sjö sögur voru til dæmis ekki með þessum endi þó að í sumum þeirra megi finna einhvern samhljóm með þeirri útfærslu. Í sögunum Spilafantinum (Lucky Luke contre Pat Poker  - 1953), Eldri Daldónar (Hors la loi  - 1954) og Þverálfujárnbrautin (Des rails sur la Prairie  - 1957) má finna sambærilegar myndir þar sem Láki ríður á brott, jafnvel syngjandi, en þó án sólarlagsins. Aðrar sögur á þessu tímabili enduðu, að því er virðist, bara einhvern veginn. En frá og með sögunni Lucky Luke contre Joss Jamon Allt um Lukku Láka er hún nefnd Óaldarflokkur Jússa Júmm), frá árinu 1958, verður sú breyting á að sólarlagsmyndin sígilda er komin til að vera. Og það hefur haldist. Hver einasta Lukku Láka bók sem komið hefur út síðan, í opinberu seríunni, hefur endað á þennan hátt. Alls 69 bækur í röð.
Útfærslurnar á sólarlagsmyndunum eru nánast alltaf eins í grunninn en þó eru í einstaka tilfellum gerðar smávægilegar tilfæringar eða breytingar. Lukku Láki ríður yfirleitt Léttfeta í áttina að sólinni, sem er komin hálfa leið niður fyrir sjóndeildarhringinn, og snýr baki að lesandanum. Í bókinni Kid Lucky frá árinu 1995 er þessu þó aðeins öðruvísi farið. Í þeirri sögu er skyggst bak við bernsku Lukku Láka og meðal annars sýnt hvernig leiðir þeirra Léttfeta lágu saman. Hugmyndin með sögunni var að reyna að koma til móts við yngri lesendur teiknimyndasagnanna og seinna hafa verið gefnar út nokkrar bækur í sérstakri seríu sem fjallar um Lukku Láka hinn unga. Í lok Kid Lucky er þessari hefðbundnu sólarlagsmynd stillt þannig upp að hinn ungi Láki og Léttfeti fylgja í fótspor veiðimannsins og gullgrafarans Old Timer sem leikur stórt hlutverk í sögunni. Old Timer sönglar hinn sígilda söng og eflaust á Lukku Láki að hafa lært lagið og textann við þetta tækifæri.
Aðra óhefðbundna sólarlagsmynd má einnig finna í lok sögunnar Le Klondike frá árinu 1996 en sú bók hefur aldrei verið gefin út á íslensku. Þar er reyndar allt algjörlega eftir uppskriftinni nema hvað að það er óvenjulegt að Lukku Láki ríður inn í sólarlagið í snæviþöktu landslagi. Skýringin á því felst í því að sagan gerist að öllu leyti í norðvesturhluta Kanada þar sem Láki endurnýjar meðal annars kynni sín við hina bresku Baldur Badmington og Jósep úr bókinni um Grænjaxlinn (Le Pied-tendre - 1967). Það er ekki langt síðan SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um þá bók. Le Klondike er eina Lukku Láka bókin sem gerist eingöngu í snjó.
Þá má nefna lokamyndina í sögunni L'Artiste peintre frá árinu 2001 en þó sólarlagsmyndin þar sé frekar hefðbundin er hún samt mjög óvenjuleg. Þar sést hvar ein af persónum bókarinnar, listmálarinn Frederic Remington, málar mynd af Lukku Láka þar sem hann ríður sönglandi sína hefðbundnu leið inn í sólarlagið.
Léttfeti gerir athugasemd við að Remington hefði átt að finna betur viðeigandi sjónarhorn en það var ekki ólíkt honum að tjá sig við þessi tækifæri. Léttfeti hafði oft eitthvað gáfulegt fram að færa á þessum augnablikum. Í íslensku útgáfunum tengjast þessar aðfinnslur oftar en ekki söng Lukku Láka.
Lagið sem Lukku Láki sönglar er aðdáendum bókanna vel kunnugt, I'm a poor lonesome cowboy and a long way from home. Sú útfærsla var ævinlega höfð með sólarlagsmyndinni, í upprunalegu bókunum, á frummálinu franska. SVEPPAGREIFINN á gott úrval Lukku Láka bóka á nokkrum öðrum mismunandi tungumálum og undantekningalaust er þessum áðurnefnda frumtexta leyft að halda sér. Þannig virðist textinn alla jafna ekki vera þýddur eða breytt á neinn hátt á öðrum tungumálum. Við Íslendingar höfum þó nokkra sérstöðu með það. Fáeinum sinnum fékk hinn upprunalegi texti þó reyndar að standa en Þorsteinn Thorarensen, þýðandi og eigandi Fjölva útgáfunnar, fór einnig nokkuð frjálslega með þýðingu sína á textabrotinu. Hér eru allnokkur dæmi um það:
Ég er bláfátæk beljublók og á ekki bót fyrir brók ...
Ég er barasta beljublók sem á ekki bót fyrir brók ...
Ég er skítblönk beljublók, á ekki bót fyrir brók!
Ég er einn kátur kúasveinn á klárnum ferðast einn ...
Æma púr lúnsúm beljurek, faravei frúm húm ...
Fyrir bakhlutann vantar mig bót! En ég hirði ekki um það hót!
Æm a púr lúnsómm kúsmal!
Ég er kærulaus kúasmali ...
Ég er blásnauður kúasmali, berst svo rótlaus um fjöll og dali!
Æma púrr lónsumm kúbein. Long vei frum Bárðardal ...
Ég er kátur kúasmali kyrjandi um beljudali ...
Ég er bláfátækur beljusmali, best er að fara að róla um dali! 
Ég er vesæll vegfarandi vafrandi langt frá heimalandi ...
Ég er kúrekablók, les ekki bók, en drekk bara kók ...
Æm a púrr lúnsúmm kúsmal ...
Þessar útfærslur Þorsteins munu eflaust lifa um aldur og ævi og veita  íslensku Lukku Láka bókunum ómetanlega sérstöðu þegar fram líða stundir en óvíst er að þær hafi fallið í kramið hjá frönsku útgefendunum. Líklega fengu þeir aldrei neitt veður af því enda íslenska upplagið alveg pínulítið. En lagið, I'm a poor lonesome cowcay and a long way from home, kom fyrst fram í sögunni Rodéo (Hroðreið) frá árinu 1949. Lagið er til í raun og veru og leikarinn Gary Cooper hafði sungið það í bandaríska vestranum Along Came Jones fjórum árum fyrr. Og svona hljómar það.
Og til að ljúka þessari tilgangslausu færslu er ekki úr vegi að birta síðustu fimm myndarammana úr stuttri sögu sem birtist í bókinni Allt um Lukku Láka sem aðeins hefur verið minnst á hér fyrir ofan. Sagan nefnist Hringrás lífsins og segir á tveimur blaðsíðum frá því þegar Daltón bræður flýja úr fangelsi og reyna á einum sólarhring að koma sér sem lengst í burtu frá allri siðmenningu. Í lok sögunnar telja þeir sig hólpna, langt frá öllum mannabyggðum. Það er aðeins Ibbi sem áttar sig á því hvar þeir eru staddir og Lukku Láki er því ekki lengi að góma bræðurna.