28. september 2018

78. HINN TÝNDI KÁTI BROKKUR

Teiknimyndahetjur eru af margs konar tagi og aðalpersónur þeirra ekki endilega alltaf eftirtektarverðustu karakterarnir. Við þekkjum til dæmis Tinna bækurnar sem líklega væru alveg þrautleiðinlegar ef ekki væri fyrir hinar fjölbreytilegu aukapersónur sem halda uppi fjörinu í seríunni. Það sama má líka til dæmis segja um sögurnar um Ástrík. Án margra hinna skemmtilegu karaktera sem finna má í íbúum Gaulverjabæjar væru bækurnar sennilega töluvert litlausari og flatari.

Lukku Láka bækurnar eru alveg sér á parti. Í þeirri seríu er gæðingurinn Léttfeti (telst hann ekki annars örugglega gæðingur?) algjör stjarna og erfitt að ímynda sér skemmtanagildi bókanna án klársins snjalla. Reyndar kemur Rattati þar einnig sterkur inn þótt gerólíkir séu. En Léttfeti er málið. Hann er auðvitað gæddur öllum þeim hæfileikum sem góðir hestar þurfa að hafa og reyndar langt umfram það. Í rauninni er hann mannlegri en meirihluti allra þeirra persóna sem fram koma í Lukku Láka bókunum og gáfaðri en þær flestar. Léttfeti er nefnilega ekki bara reiðskjóti Lukku Láka og ferðafélagi, hann er líka sálufélagi hans og besti vinur.
Léttfeti hefur fylgt Lukku Láka frá upphafi seríunnar og í raun birtist hann strax á sömu mynd og Láki sást fyrst á í sögunni Á meðal dóna og róna í Arísóna (Arizona 1880) sem hóf göngu sína í SPIROU tímaritinu í desember árið 1946. Í fyrstu var Léttfeti bara venjulegur og virðulegur, nafnlaus hestur sem hafði ekki þá hæfileika að getað "talað" eins og seinna varð. Í íslensku útgáfuröðinni var því reyndar aldrei þannig háttað að hann væri nafnlaus. Hér komu bækurnar ekki út í réttri tímaröð en nokkrar af elstu bókunum leynast inni í miðri íslensku seríunni og í þeim er Léttfeti nefndur á nafn. En það er önnur saga. Upphaf fyrstu kynna þeirra félaga Léttfeta og Lukku Láka voru lengi óljós og kemur í raun ekki fram fyrr en í 64. sögunni (Kid Lucky - 1995) en í þeirri bók er bernskusaga þeirra krufin. Þar bjargar Láki hinn ungi Léttfeta frá úlfum og í kjölfarið bindast þeir eilífum böndum.
Hesturinn Léttfeti kemur fyrir í hverri einustu sögu bókaflokksins en gegnir þó misjafnlega veigamiklu hlutverki - allt eftir söguþræðinum auðvitað. Lukku Láki sjálfur er að sjálfsögðu aðalsöguhetjan og bækurnar fjalla fyrst og fremst um hans afrek og ævintýri en Léttfeti er þó mjög mikilvægur hluti seríunnar. Að einhverju leyti hefur hann það hlutverk að mynda jafnvægi á móti Lukku Láka til að koma í veg fyrir að sögurnar verði of einsleitar. Það er auðvitað þekkt í allri dægurmenningu að mynda þannig tvíeyki þar sem aðalpersónan fær ákveðinn stuðning. Með tímanum breyttist karakter Léttfeta smám saman og með tilkomu handritshöfundarins René Goscinny árið 1957 jókst hlutverk hestsins töluvert með auknum og áberandi húmor. Húmor sem oftar en ekki kemur fram í meinhæðnum athugasemdum hans.
Án Léttfeta væri húmor bókanna á einhverju allt öðru stigi og óvíst að skemmtanagildi þeirra næðu sömu hæðum. Í það minnsta væru sögurnar líklega töluvert öðruvísi. Léttfeti er frekar hógvær og leggur sig fram um að draga ekki athyglina of mikið frá aðalsöguhetjunni en húmorinn sem fylgir honum slær þó alltaf í gegn. Hlutverk fáksins knáa snýst einnig oft um einhvers konar uppfyllingu og tilsvör hans eru oft snilldarlega stillt upp af höfundunum á dauðum eða mikilvægum punktum í bókunum. Jafnvel svo að lesandinn taki sjaldnast eftir því. Það má því segja að Léttfeti hafi yfir ákveðnu félagslegu hlutverki að gegna, bæði gagnvart Láka og ekki síður lesandanum.
Samband þeirra Lukku Láka er nánara en gengur og gerist á milli sambærilegra tvíeykja í myndasöguheiminum. Í bókunum sjást þeir ræða saman sín á milli með hefðbundnum talblöðrum en reyndar er ekki alveg ljóst hvort þeir skilji hvorn annan. Eða ... jú, þeir gera það örugglega. En spurningin er frekar hvort þeir tjái sig virkilega við hvorn annan á þann hátt. Eða svo SVEPPAGREIFINN setji þetta upp á mannamáli - kann Léttfeti að tala? Í það minnsta eru samskipti þeirra sett upp á þann hátt að þeir virðast virkilega ræða saman sín á milli en það þykir þó frekar ótrúverðugt. Reyndar verður að viðurkenna að aðrir mannlegir hæfileikar Léttfeta eru líka mjög ótrúverðir en við verðum víst að taka fullt tillit til þess að hér er eingöngu um myndasöguskáldskap að ræða. Líklega teljast því samskipti þeirra vera einhvers konar hugsanaflutningur eða -skipti. 
Léttfeti sést fyrst tala í bókinni Sur la piste des Dalton (Í fótspor Daldóna) frá árinu 1960 en sú bók hefur reyndar ekki enn komið út hér á landi og til gamans má líka geta að hundurinn Rattati kemur fyrst fyrir í þeirri sögu. Með þessum fyrstu orðum sínum er Léttfeti einmitt að hallmæla Rattata við þeirra fyrstu kynni en samkvæmt Wikipedia er Léttfeti almennt ekki hrifinn af hundum. Karlarígur í Kveinabæli (Couverture de livre originale - 1961er elsta bókin (miðað við upprunalegu seríuna) þar sem Léttfeti talar á íslensku og í sögunni um Billa barnunga (Billy the kid - 1961) má sjá fyrstu beinu samskipti þeirra Léttfeta og Lukku Láka en það gerist á bls 30.
Greind Léttfeta nær heldur lengra en almennt gerist (eftir bestu vitund SVEPPAGREIFANS) á meðal hrossa. Af mannlegum eiginleikum eða gáfum Léttfeta má nefna að rökhugsun hans er fullkomlega á við ágætlega greinda manneskju. Hann er til dæmis vel liðtækur við taflborðið, er lunkinn í teningaspilum (jafnvel nógu lunkinn til að svindla) og er klókur í stærðfræði. En af öðrum hæfileikum hans má nefna að hann kann að renna fyrir fiski, spilar á munnhörpu, getur sjálfur tekið af sér hnakkinn og svo hefur hann auðvitað reynt fyrir sér í sirkus ásamt Láka. Þar sýndi hann meðal annars hæfileika sína við að sippa á fremur óhefðbundinn hátt. Og þetta eru bara dæmi um þá kosti sem hægt er að sjá í þeim Lukku Láka bókum sem komið hafa út á íslensku. Í þeim sögum sem ekki hafa komið út hér á landi má nefna dæmi um hæfileika hans við að laga kaffi, hann kann að blístra og getur auk þess þefað uppi og rakið slóð eins og hundur osfrv. Sjálfur segir Lukku Láki hann vera gáfaðasta hest í heimi og ef saman eru teknir allir hans bestu eiginleikar og kostir má fullkomlega færa rök fyrir því að Léttfeti sé mjög klár klár.
Af áhugasviðum Léttfeta má nefna að einhvers staðar kemur fram að hann lesi ljóð franska Nóbelverðlaunahafans Sully Prudhomme en til fróðleiks má benda á að í upprunalegu útgáfunni af sögunni um Söru Beinhörðu (Sarah Bernhardt - 1982) fer leikkonan franska reglulega með línur eftir skáldið. Í íslensku útgáfunni notast hún hinsvegar ljóðlínur eftir Steingrím Thorsteinsson, Hannes Hafstein og Kristján fjallaskáld.

Svo má auðvitað geta þess að Léttfeti er ein af þeim belgísku myndasöguhetjum sem pressaður hefur verið á frímerki.
Og svo er gaman að geta þess að saga Léttfeta á Íslandi er ekki alveg sú sama og líklega flestir telja sig þekkja. Eða öllu heldur nafngift hans. Það eru nefnilega ekki allir sem vita það að þegar Lukku Láki kom fyrst til sögunnar á Íslandi, í teiknimynd sem sýnd var í Tónabíói, þá hét Léttfeti alls ekki Léttfeti. Þetta var í byrjun september mánaðar árið 1977 en teiknimynd þessi nefndist bara Lucky Luke í kvikmyndaauglýsingum dagblaðanna. Kúrekinn knái Lukku Láki var strax nefndur hinu varanlega nafni sínu í myndinni enda ekki flókið að snara Lucky Luke yfir á hið ástkæra ylhýra en það virðist hafa verið öllu örðugra með hestinn Jolly Jumper.
Káti Brokkur kallaðist hann í Tónabíói en þær upplýsingar birtust meðal annars í bíómyndafréttum Vikunnar á haustdögum 1977. Það var ekki fyrr en fyrir jólin sama ár sem fyrstu fjórar myndasögurnar komu út með kappanum hér á landi en þar nefndist hann auðvitað Léttfeti alveg eins og við þekkjum hann í dag. Reyndar verður að taka það fram að þegar Léttfeti er fyrst nefndur á nafn á blaðsíðu 13 í bókinni um Kalla keisara, sem var fyrsta Lukku Láka bókin í íslensku seríunni, þá kallar Láki hann Kát Léttfeta með stóru Kái.
Líklega er þetta hans fulla nafn en það er í eina skiptið í bókunum sem reiðskjótinn klári er nefndur eitthvað annað en bara Léttfeti. Það er kannski rétt að taka það fram að Þór Stefánsson þýddi þessar fyrstu fjórar Lukku Láka bækur og bókaútgáfan Fjölvi gaf þær út. Nafnið Káti Brokkur festist því ekki við Léttfeta og við þökkum Guði fyrir það.

21. september 2018

77. BRÚÐKAUP VIGGÓS OG JÓKU?

Færsla dagsins er í styttri kantinum en hún er tileinkuð skötuhjúunum Viggó viðutan og ungfrú Jóku og segir frá meintu brúðkaupi þeirra. Fyrir fáeinum vikum birtist einmitt efni hér á Hrakförum og heimskupörum sem benti til töluvert dýpri kynna turtildúfanna en áður höfðu komið fram. Þar var fjallað um afar náin atlot þeirra en líklega verður að ætla að undir öllum eðlilegum kringumstæðum þá séu athafnir og tilfinningar teiknimyndapersónanna ekkert öðruvísi en hjá öðru fólki. Reyndar kom það aldrei nokkurn tímann fram að til stæði brúðkaup hjá þeim Viggó og Jóku en hér fyrir neðan má sjá hvernig listamaðurinn Jean-Marc Krings hefði getað séð slíka hugmynd verða að veruleika
Þarna má þekkja nokkra af helstu póstum sagnanna um Viggó viðutan og Sval og Val og í raun samansafn þekktra persóna úr smiðju André Franquin. Þar fara auðvitað Viggó og Jóka (hún er bókstaflega ölvuð af hamingju) fremst í flokki en af öðrum gestum má nefna þeirra helsta samstarfsfólk og aðra tengda. Ef talið er frá vinstri uppi á tröppunum má þar sjá þau Sigrúnu, Snjólf í teiknideildinni, herra Seðlan, Eyjólf, Gvend í bókhaldinu, rauðhærða gaurinn á skrifstofunni (sem bæði hefur verið kallaður Berti og Guðni), Val og Sval. Augljóslega er þetta ekki hamingjudagur hjá öllum viðstöddum því þeir Eyjólfur og herra Seðlan eru greinilega í vinnunni og því væntanlega uppteknir af hefðbundnum samningaviðræðum sem eins og svo oft áður virðast farnar um þúfur. Og herra Gvendur er eflaust að velta fyrir sér kostnaði brúðkaupsins. Ætli útgáfufyrirtækið borgi ekki herlegheitin? Neðst í tröppunum á bak við stöpulinn má sjá litla frænda Viggós, sem hlaut reyndar aldrei nafn í þeim bröndurum sem komu út með honum í íslensku útgáfunni, en hann nefndist Gastoon í hliðarbókaflokki sem gefinn var út í Belgíu. Sú "sería" taldi reyndar ekki nema tvær bækur en um hana og fleiri sambærilega bókaflokka má lesa um hér. Uppi á svölunum hægra megin á myndinni má sjá liðsmenn steinaldarhljómsveitarinnar frumstæðu Good vibrations (eða Þrumugosar) sem Viggó stofnaði en reikna má með að bandið hafi tekið lagið í brúðkaupsveislunni.
Bandið skipuðu, auk Viggós, hinn þunglyndi Berti blindi (sem heitir fullu nafni Albert Engilberts), Júlli í Skarnabæ og enskur vinur þeirra sem þó er ekki nefndur á nafn. Á svölunum á meðal hljómsveitarmeðlimanna má líka sjá Palla af skrifstofunni. En á myndinni eru auk þess viðstaddir nokkrir fulltrúar úr dýraríki Franquins. Aparnir hans Nóa, úr samnefndri sögu um Sval og Val, eru þar fremstir í flokki en bæði kötturinn hans Viggós og mávurinn eru auðvitað viðstaddir auk þess sem Gormur og Pési láta sig ekki vanta. Og svo má auðvitað alls ekki gleyma sjálfum André Franquin sem hefur komið sér makindalega fyrir í einskonar heiðurssæti myndarinnar í Túrbot bíl þeirra Svals og Val. En í kringlótta glugganum ofarlega á myndinni gægist út torkennileg vera. Þarna er um að ræða einhvers konar tegund af skrímsli sem Franquin hafði stundum ríka þörf fyrir að skapa og tengdist þunglyndi hans. Á fyrstu árum Viggós sáust stundum myndir á veggjum skrifstofu tímaritsins Svals þar sem ýmsar persónur úr heimi belgísku myndasagnanna fengu lítil hlutverk. Þar mátti sjá plaggöt með myndum af Strumpunum, Ástríki, Boule og Bill, Steina sterka og fleirum en í seinni verkum hans, þegar þunglyndið ágerðist, breyttust þessi plaggöt meira í myndir þar sem einhvers konar skrímsli af öllum stærðum og gerðum sáust.

En látum þessa hroðvirknislegu færslu duga í dag ...

14. september 2018

76. ÁHUGAVERÐUSTU DÝRGRIPIR SVEPPAGREIFANS?

SVEPPAGREIFINN á svolítið af teiknimyndasögum en það safn samanstendur að miklu leyti af þeim bókum sem verið var að gefa út á Íslandi á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Hann hefur reyndar aldrei tekið það nákvæmlega saman en sennilega á hann yfir 95% þessara bóka og það sem upp á vantar er smám saman að fyllast inn í eyðurnar í myndasöguhillunum. Auðvitað ekki fullkomið en sjálfsagt sambærilegt og hjá öðru myndasöguáhugafólki sem er að viða að sér þessum bókum. Og kannski er rétt að taka það fram, því alls óviðkomandi, að SVEPPAGREIFINN hefur þó aldrei litið á sig sem safnara. Best að hafa það á hreinu.

Hann hefur stundum verið að gramsa svolítið þessum hillum sínum og jafnvel dundað sér við að setja inn færslur, hér á Hrakfarir og heimskupör, um það sem á vegi hans verður þar. Efnið sem kemur úr hillunum hans er auðvitað misáhugavert enda hafa, úr sumum af þessum seríum, aðeins komið út örfáar bækur á íslensku. Og SVEPPAGREIFINN hefur reynt að fjalla svolítið um þessar hálfkláruðu seríur til að þær falli ekki alveg í gleymskunar dá. Sem dæmi um það má nefna bækurnar um Frank, Fótboltafélagið Fal, Háskaþrennuna, 421 og Yoko Tsúnó. Að þessu sinni er hins vegar ætlunin að fjalla svolítið um og velta aðeins fyrir sér verðmæti þess helsta sem kemur úr þessum bókahillum, bæði fjárhags- og tilfinningalega.
Myndasögusafnið er nokkuð fjölbreytilegt en SVEPPAGREIFINN er mikill aðdáandi bókanna um Tinna, Viggó viðutan og Sval og Val og á úr þeim seríum miklu fleiri bækur en bara þær sem komið hafa út hérlendis. Sömu sögu má einnig segja af bókunum um Ástrík og Lukku Láka. Úr þessum seríum öllum á hann orðið stærstan hluta þeirra bóka sem komið hafa út í bókaflokkunum en reyndar á nokkrum mismunandi tungumálum. Undanfarin ár hefur hann einnig aðeins verið að skoða og kaupa svolítið sambærilegar myndasögur frá Belgíu sem verið var að gefa út á sama tíma og þær bækur sem við íslenskir lesendur þekkjum best. Samanlagt á hann því eitthvað í kringum 600 teiknimyndasögur á um tíu til fimmtán mismunandi tungumálum.
En þegar einhver á um 600 teiknimyndasögur þá gefur það auga leið að í þeim bunka hljóti að vera bækur sem eru áhugaverðari eða meira virði en aðrar. Eða alla vega bækur sem honum þykir í það minnsta meira vænt um. Og SVEPPAGREIFINN er svo heppinn að eiga töluvert af þeim bókum sem teljast verðmætastar úr íslensku útgáfuseríunum. Auðvitað vantar hann eitthvað af elstu upplögunum (þá aðallega af Tinna bókunum) en samt er ótrúlegt hvað mjatlast inn af þessum myndasögum án þess að hver bók hafi kostað hann um það bil andvirði smábíls. En svo er framtíðarverðmæti þessara íslensku útgáfna líklega enn meira en maður gerir sér grein fyrir því upplög þeirra á sínum tíma voru svo lítil. Sem gerir það að verkum að bækurnar verða (og kannski eru orðnar) eftirsóttar af erlendum söfnurum.
SVEPPAGREIFINN er í frábærri myndasögugrúbbu á Facebook, sem heitir einfaldlega Teiknimyndasögur, þar sem oft fer fram stórskemmtileg umræða um þetta nördalega áhugamál. Þar er fólk að pósta ýmsum áhugaverðum upplýsingum, sýna hvað það hefur verið að versla og jafnvel að gefa öðrum lesendum innsýn í hvað myndasöguhillur þeirra hafa að geyma. En grúbban (sem telur rúmlega 1000 manns) er einnig sölu- og uppboðssíða þar sem meðlimir geta keypt og selt myndasögur eftir framboði og eftirspurn. Þessi síða er því tilvalin fyrir fólk til að átta sig aðeins á því hvaða bækur eru eftirsóttar og þá um leið verðmæti allra þeirra myndasagna sem það hefur undir höndum. Sumar bókanna eru virkilega dýrar á meðan aðrar eru lítils virði. Þarna hafa einmitt, nokkrum sinnum á undanförnum mánuðum, verið boðnar upp sjaldséðar myndasögur á íslensku. Sem dæmi um það má nefna Ástríks bækurnar Ástríkur á Spáni (1976) sem seldist á 20.000 krónur og Ástrík skylmingakappa (1976) sem fór á 15.000 en reikna má með að þar hafi verið um þokkaleg eintök að ræða. Á þessari síðu er ekki óalgengt að sæmileg eintök af algengustu Ástríks bókunum séu að fara á 6 - 8000 krónur en góð eintök af fáséðari sögunum virðast þó yfirleitt ekki mikið vera að seljast. Svo sjaldgæf eru þau. Ástríkur Gallvaski (1. útg. - 1974), Ástríkur og Kleópatra (1974), Ástríkur í Bretalandi (1974) og Ástríkur ólympíukappi (1975) eru til dæmis bækur sem reglulega er spurt um en sjást sjaldan. Reyndar skal tekið fram að oft fara sölur fram í einkaskilaboðum þannig að verðið á þeim bókum kemur ekki alltaf fram. 
SVEPPAGREIFINN er óneitanlega stoltur yfir að geta fundið megnið af þessum Ástríksbókum í hillunum sínum og flestar þeirra í allgóðu ásigkomulagi þó alltaf sjái eitthvað á myndasögum sem gefnar eru út í kiljuformi. Og ef ofangreindar fjárhæðir gefa eðlilega, stígandi framtíðarmynd af verðmæti bókanna þá eru afkomendum SVEPPAGREIFANS sæmilega borgið með smá auka arfi.

Af því sem vantar af Tinnabókunum í safn SVEPPAGREIFANS má helst nefna 1. útgáfuna af elstu sögunum. Þar eru um að ræða Dularfullu stjörnuna (1971), Svaðilför í Surtsey (1971) og Krabbann með gylltu klærnar (1973). Sorglegt að hugsa til þess að allar þessar sögur átti hann í bernsku en þær voru bókstaflega lesnar upp til agna. Þessar bækur detta stöku sinnum inn á Facebook grúbbuna góðu en líklega er SVEPPAGREIFINN hreinlega of nískur til að láta til skarar skríða og fjárfesta í bókunum. Auk þess sem eintök af þessum myndasögum eru sjaldnast í því standi sem hann myndi gera kröfur um. Þessar bækur eru að fara á einhverja þúsund kalla en mjög góð eintök myndu líklega seljast á tugi þúsunda ef þær stæðu til boða. Síðastliðið vor seldust tvö eintök af Tinna í Sovétríkjunum (2007) á uppboði innan grúbbunnar en þar fór önnur bókanna á 25.000 krónur en hin á 27.000. Sú myndasaga er reyndar ekki mjög gömul en hið íslenska upplag bókarinnar var víst ekkert sérstaklega stórt og gerir hana mjög verðmæta og eftirsótta fyrir vikið. En þar fyrir utan minnir SVEPPAGREIFANN að hafa heyrt einhverjar slúðursögur um að stór hluti upplagsins (eins og eitt vörubretti) hafi annað hvort týnst eða verið fargað af misgáningi eftir daga bókaútgáfunnar Fjölva. Þá sögu ber þó að taka með fyrirvara. Tinni í Sovétríkjunum sést nánast aldrei í Góða hirðinum (bestu bókabúðinni í bænum) og í Kolaportinu hefur hún sést verðlögð á 20.000 krónur. Á vefnum myndasögur.is, sem Froskur Útgáfa heldur utan um, má einnig finna gamlar notaðar teiknimyndasögur á íslensku til sölu en verðmat þeirra er breytilegt og virðist algerlega fara eftir ásigkomulagi. Þar eru þessar elstu 1. útgáfu Tinna bækur til dæmis verðlagðar á 30.000 krónur og Tinni í Sovétríkjunum á 22.000. 
SVEPPAGREIFINN er svo heppinn að eiga algjörlega óaðfinnanlegt eintak af íslensku útgáfunni af Tinna í Sovétríkjunum en í myndasöguhillunum hans má einnig finna dönsku útgáfuna af sögunni og svo lituðu útgáfu bókarinnar á hollensku. Síðastnefndu bókina keypti hann í Amsterdam síðla veturs 2017 aðeins örfáum vikum eftir að hún var gefin út í litum og af einhverjum ástæðum þykir honum voðalega vænt um þá bók. Af öðrum áhugaverðum Tinna bókum SVEPPAGREIFANS (alls eru þær rúmlega 90) úr myndasöguhillum hans má nefna 1. útgáfu sænska upplagsins af Dularfullu stjörnunni (Den mystiska stjärnan) frá árinu 1960 og arabísku útgáfuna af Tinna í Tíbet. Um hana var fjallað aðeins hér.
Sú sænska er reyndar orðin svolítið lúin en er engu að síðu merkileg myndasaga því hún, ásamt Veldissprota Ottókars konungs (Kung Ottokars spira á sænsku), voru fyrstu Tinna bækurnar sem gefnar voru út í Svíþjóð. Það var Bonniers bókaútgáfan sem gaf söguna út. Við nýlega eftirgrennslan SVEPPAGREIFANS fann hann bókina auglýsta á söluvef með notaðar myndasögur á 200 evrur en það munu vera hátt í 27.000 krónur. Den mystiska stjärnan var síðan ekki endurútgefin í Svíþjóð aftur fyrr en árið 1972 og þá af Carlsen útgáfunni. Bókin telst því, þó snjáð sé orðin, ein af dýrgripum bókahillna SVEPPAGREIFANS.

Þá má ekki gleyma tveimur sjóræningjaútgáfum af Tinna sem leynast í hillunum. Þar er annars vegar um að ræða bókina Kuifje in Zwitserland og hins vegar Kuifje in El Salvador. Báðar tvær vel kunnar sem alræmdar sögur og þarna má sjá Tinna og samferðarfólk hans í algjörlega í nýju ljósi sem samræmist ekki upphaflegum uppeldisgildum höfundarins Hergé. Gaman að segja frá því að SVEPPAGREIFINN er marg öfundaður af þessum ólöglegu en skemmtilegu dýrgripum. Hann á vafalítið eftir að fjalla betur um þessar tvær myndasögur í komandi framtíð.
En af öðrum íslensku myndasögum, sem SVEPPAGREIFINN má til með að grobba sig af, má nefna mjög gott eintak af litlu Lukku Láka bókinni Á léttum fótum - Spes tilboð (1982). Þessi bók er í öðru broti en gengur og gerist en stærð hennar samsvarar um það bil hálfri venjulegri myndasögustærð og er í mjúku kiljuformi. Þessi myndasaga er mjög eftirsótt og vegna hins mjúka brots hennar eru þokkaleg eintök af bókinni virðast vera frekar fáséð. Samkvæmt heimildum aðila í áðurnefndri Teiknimyndasögugrúbbu Facebook þá mun Kolaportsverð hennar vera um 30-35.000 og einn meðlimur kvaðst hafa borgað 12.000 krónur fyrir eintak af bókinni fyrir tæpum áratug síðan. Bókin er ekki til sölu á vefverslun myndasögur.is og þar er ekki einu sinni í boði mynd af henni. Spurning hvort að ástæða þess sé hversu sjaldgæf hún sé?
En að síðustu er ekki úr vegi að minnast einnig á Tinna fígúrurnar sem SVEPPAGREIFNN hefur verið að eignast eina og eina í senn. Þessar fígúrur hefur Greifynjan dundað sér við að kaupa og gefa hinum heittelskaða eiginmanni sínum í gegnum árin og auðvitað tilheyra þær dýrgripum myndasöguhillnanna - enda eru þær geymdar þar. Þarna má sjá þá Tinna, Tobba, Kolbein kaftein og prófessor Vandráð en einnig er þar að finna eldflaugina frægu úr tunglbókunum. Látum þetta duga að sinni.

7. september 2018

75. HINRIK OG HAGBARÐUR

Þann 11. september (kunnugleg dagsetning) árið 1952 hóf göngu sína nýr myndasöguflokkur í belgíska tímaritinu SPIROU sem nefndist einfaldlega Johan. 30 árum seinna birtust þessar sögur í fyrsta sinn á Íslandi þegar bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér sína fyrstu bók um Hinrik og Hagbarð á íslensku. Þessi saga nefndist Svarta örin eða La Flèche noire á frummálinu en hún var langt frá því að vera fyrsta sagan í upprunalegu seríunni. Þetta var saga númer 12 í bókaflokknum og þegar þarna var komið sögu (árið 1982) voru þá þegar komnar út 22 bækur í þessari vinsælu seríu. Seinna bættust við fjórar sögur en sú síðasta kom út árið 2001.
En líklega er best að byrja á byrjuninni. Þótt áðurnefndur 11. september 1952 sé almennt talinn opinber fæðingardagur seríunnar um þá Hinrik og Hagbarð þá má rekja uppruna hennar nokkur ár fram fyrir þá dagsetningu. Því þann 11. apríl árið 1946 birtist nefnilega í fyrsta sinn í belgíska dagblaðinu La Dernière Heure, sem gefið var út í Brussel, stuttur myndasögubrandari um skjaldsveininn Johan (Hinrik) og ævintýri hans. Þessi myndasaga var mjög einföld og frumstæð að allri gerð, aðeins fjórar myndir án lita og án orða.
Það var belgíski listamaðurinn Pierre Culliford, eða Peyo eins og hann var ætíð kallaður, sem átti veg og vanda að ævintýrum þessa ljóshærða unglingspilts. Myndasögurnar um Johan birtist öðru hverju næstu mánuðina í La Dernière Heure með hléum ásamt öðrum tilraunaverkefnum listamannsins. Peyo, sem hafði stundað listanám í stuttan tíma í Brussel, fékk einnig eitthvað af verkefnum tengdum auglýsingateikningum en hugur hans stóð þó ávallt til myndasögugerðar. Hann hélt áfram að móta sinn stíl og þróa ýmsar hugmyndir af sköpunarverkum sínum. Fæstar af þeim hugmyndum urðu þó að einhverju bitastæðu. Árið 1949 fór áðurnefnd myndasaga um Johan einnig að birtast í dagblaðinu Le Soir og við það fóru þær að þróast úr stuttum bröndurum og yfir í alvöru samfelldar framhaldssögur. Ýmsar persónur, sem seinna urðu hluti af þessari seríu, fóru að birtast í sögunum og sem dæmi um það má nefna að tiltölulega snemma kom Konungurinn í kastalanum við sögu. Peyo gekk þó illa að að koma sér almennilega á framfæri. Hvar sem hann reyndi fyrir sér fékk hann ávallt höfnun og fæstum þótti teikningar hans nægilega vandaðar eða þroskaðar til birtingar. Sjálfur var Peyo einnig með lítið sjálfstraust á þessum tíma og fannst hann aldrei vera nógu fær listamaður. Þó hélt hann áfram að reyna að koma sér á framfæri enda átti hann einlæga drauma um að geta lifað á þessu skemmtilega áhugamáli sínu.
Árið 1951 hitti hann gamlan vin og samstarfsfélaga, André Franquin, en þeir höfðu starfað saman við teiknimyndagerð hjá kvikmyndaveri CBA mörgum árum áður. Peyo bar sig illa og Franquin, sem fann til með þessum gamla félaga sínum, sá aumur á honum og útvegaði honum verkefni hjá myndasögutímaritinu SPIROU. Þar var Franquin sjálfur búinn að koma sér vel fyrir með velheppnaðar uppfærslu á myndasögunum um Sval og Val og vinsældir þeirrar seríu risu hratt á næstu árum. Þær kröfur sem útgefandi SPIROU, Dupuis, gerði um listamenn sína voru hins vegar enn of miklar fyrir Peyo. Franquin var Peyo því innan handar með leiðsögn varðandi tæknilega vinnu hans og með tímanun öðlaðist hann næga færni við verk sín þannig að þau teldust birtingarhæf. Franquin hjálpaði honum með ýmislegt varðandi myndasögurnar um Johan (Hinrik) og ráðlagði honum til dæmis að breyta háralit hans í svartan en hjá SPIROU birtust allar myndasögur í lit. Hjá dagblaðinu Le Soir hafði Peyo birt heila sögu um Johan sem nefndisLe Châtiment de Basenhau og fyrsta verkefni hans hjá SPIROU fólst einmitt í því að endurteikna þessa fyrstu sögu með faglegum leiðréttingum.
Nýja útgáfan af sögunni Le Châtiment de Basenhau hóf því göngu sína í SPIROU blaði númer 752 sem gefið var út þann 11. september 1952 eins og nefnt var í byrjun. Einhverjar breytingar hafði Peyo þó orðið að gera á upphaflegu sögunni utan þeirra faglegu atriða sem áður var getið. Í henni voru meðal annars atriði sem þóttu of ofbeldisfull og samræmdust ekki þeim kröfum sem gerðar voru til tímarits sem ætlað var börnum. En eftir að ofbeldið hafði verið fjarlægt samþykkti Dupuis að sagan fengist birt.
Næsta saga Le Maître de Roucybeuf hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 804 sem kom út þann 10. september 1953. Í þessari sögu breytist Johan úr skjaldsveini í riddara og í henni kemur einnig fyrir nornin Rakel (sem íslenskir lesendur ættu að muna eftir úr bókinni Stríðið um lindirnar sjö) í fyrsta sinn. Með hverri vikunni mátti greina aukin þroskamerki í teiknistíl Peyo og öll vinna hans við teikningarnar varð smám saman miklu vandaðri og faglegri. Sú vinna skilaði þeim árangri að fyrstu tvær sögurnar fengust gefnar út í bókaformi árið 1954. Þann 8. júlí 1954 hófst síðan þriðja saganLe Lutin du Bois aux Roches, í SPIROU blaði númer 847 en í þeirri sögu urðu aðal þáttaskilin í seríunni þegar villti skógardvergurinn Pirlouit (Hagbarður) kom til sögunnar. Hagbarður flutti úr skóginum ásamt geitinni sinni og yfir í kastalann til Hinriks en upp úr því urðu þeir báðir í aðalhlutverkinu. Frá og með þeirri sögu breyttist því nafnið á seríunni úr Johan í Johan og Pirlouit eða í Hinrik og Hagbarð eins og við þekkjum hana á íslensku.
Á þessum tíma var Peyo búinn að þróa stíl sinn á þann hátt að sögurnur runnu út á færibandi hjá tímaritinu SPIROU. Hinrik og Hagbarður slógu í gegn, sögurnar urðu gríðarlega vinsælar og þær voru jafnharðan gefnar út í bókaformi. Peyo gerðist afkastamikill með eindæmum en frá árunum 1952 til 1961 sendi hann frá sér 19 sögur um þá félaga. La Pierre de lune, Le Serment des Vikings (Með víkingum - Iðunn 1984) og Le Dragon vert komu allar út árið 1955. Enguerran le preux, Sortilèges au château, A l'auberge du pendu, La Source des dieux (Goðalindin - Iðunn 1982) og Veillée de Noël komu allar út árið 1956 en reyndar verður að taka það fram að eitthvað af þessum sögum eru styttri en gengur og gerist. Árið 1957 komu út sögurnar La Flèche noire (Svarta örin - Iðunn 1982), Les Mille écus, Le Sire de Montrésor og Les Anges en árið 1958 kom aðeins út ein saga með Hinrik og Hagbarði en sú var reyndar svolítið merkileg. Sagan hét La Flûte à six trous og í henni voru sjálfir Strumparnir kynntir til sögunnar. Þeir voru þó aðeins aukapersónur í sögunum um Hinrik og Hagbarð og birtust nokkrum sinnum þar en árið 1959 fengu þeir sína eigin seríu í SPIROU og slógu þá virkilega í gegn. Um Strumpana sögu hefur SVEPPAGREIFINN eitthvað aðeins röflað og lesa má um hér.
Afköst Peyo á þessum árum voru gríðarleg því að um svipað leyti hóf að birtast enn ein ný sería í SPIROU eftir listamanninn. Þar var á ferðinni myndasaga um Steina sterka (Benoît Brisefer) og það var ekki hjá því komið að sögunum um þá Hinrik og Hagbarð færi fækkandi. Sagan La Guerre des sept fontaines (Stríðið um lindirnar sjö - Iðunn 1983) hóf göngu sína árið í blaðinu í 1959, L’Anneau des Castellac birtist 1960 og Le Pays maudit (Landið týnda - Iðunn 1983) árið 1961. Peyo viðurkenndi að hann hefði orðið fullmikið á sinni könnu og birting á sögunum um Hinrik og Hagbarð voru að miklu leyti lagðar til hliðar á næstu árum enda beindust nú allar áherslur listamannsins að vinsældum Strumpanna. Smásagan Qu’est ce qu’il dit mais qu’est ce qu’il dit? birtist þó í páskablaði SPIROU árið 1964 en síðasta sagan sem Peyo gerði um þá félaga Hinrik og Hagbarð, Le Sortilège de Maltrochu, hóf göngu sína í jólablaðinu árið 1967. Þeirri sögu lauk síðan í febrúar 1970 og kom út í bókaformi seinna sama ár.
Peyo lést árið 1992 en ný saga um þá Hinrik og Hagbarð kom út árið 1994. Hún nefndist La Horde du corbeau og var eftir þá Alain Maury og Yvan Delporte en það var sonur Peyo, Thierry Culliford, sem hafði frumkvæði að því að fá þá félaga til að endurlífga seríuna. Þess má geta að sagan La Horde du corbeau birtist í nokkrum hlutum í Myndasögublaðinu Zeta á árunum 2000-2001. Sagan Les Troubadours de Roc-à-Pic kom út árið 1995, La Nuit des sorciers árið 1998 og La Rose des sables árið 2001. Allar þessar myndasögur voru eftir áðurnefnda höfunda nema sú síðasta þar sem Luc Parthoens sá um handritsgerð. Endurkoma þeirra Hinriks og Hagbarðs þótti reyndar nokkuð misheppnuð og innihald nýju sagnanna frekar þunnt. Þannig að ekki þótti tilefni til að halda útgáfu seríunnar áfram og síðan árið 2001 hafa því ekki komið út fleiri sögur úr bókaflokknum um þá Hinrik og Hagbarð.
En þegar Hinrik og Hagbarður komu til Íslands árið 1982 voru bókaútgáfurnar Iðunn og Setberg þegar byrjaðar að gefa út þekktustu seríur Peyo. Lesendur hér á landi þekktu því bæði Strumpana og Steina sterka en margir þeirra áttuðu sig strax á því að stíllinn á hinum nýju Hinrik og Hagbarðs sögum væri kunnuglegur og eitthvað tengdur fyrrnefndu bókunum. Fyrsta bókin var Svarta örin (La Flèche noire) og það var Bjarni Fr. Karlsson sem þýddi en hann þýddi reyndar allar bækurnar sem komu út á Íslandi í bókaflokknum. Svarta örin kemur úr miðri upprunalegu seríunni, eins og svo oft var með teiknimyndasögur sem út komu á Íslandi á þessum árum, og þannig var í raun með allar fimm bækurnar úr íslenska Hinrik og Hagbarðs bókaflokknum. Síðasta bókin í íslensku útgáfunni, Með Víkingum, er til dæmis sú elsta. En annars voru það þessar fimm sögur sem út komu hér á landi:
  1. Svarta örin - 1982 (La Flèche noire - 1957)
  2. Goðalindin - 1982 (La Source des dieux - 1956)
  3. Stríðið um lindirnar  sjö - 1983 (La Guerre des sept fontaines - 1959)
  4. Landið týnda - 1983  (Le Pays maudit - 1961)
  5. Með víkingum - 1984 (Le Serment des Vikings - 1955)
Bækurnar um Hinrik og Hagbarð eru í töluverðu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og eru í raun þær teiknimyndasögur, sem út komu á íslensku, sem honum fannst einna skemmtilegast að lesa sem krakki. Hinar sögurnar eftir Peyo fannst honum ekki jafn áhugaverðar og alveg sérstaklega var SVEPPAGREIFANUM í nöp við bækurnar um Strumpana. Peyo sjálfur hafði reyndar svipaða sögu að segja. Einhvern tímann lét hann alla vega hafa það eftir sér að Hinrik og Hagbarður hefðu verið hans helsta stolt en vinsældir Strumpanna hefðu hins vegar stýrt forgangsröðinni enda sögurnar margfalt mikilvægari tekjulind.

Ókei bæ ...