22. janúar 2021

183. SVALUR OG VALUR Í HÖNDUM YVES CHALAND

Sval og Val bækurnar þekkja auðvitað allir aðdáendur belgískra teiknimyndasagna en þær bækur eru í uppáhaldi hjá nokkuð mörgum. Íslenskir myndasögulesendur fengu fyrst að kynnast þessum bókum skömmu fyrir jól 1978, þegar Hrakfallaferð til Feluborgar kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni, og næstu fjórtán árin voru alls gefnar út tuttugu og níu sögur á Íslandi úr þessum vinsæla bókaflokki. Rúmlega tuttugu árum seinna hóf Froskur útgáfa svo að senda frá sér þessar bækur á ný og nú hafa alls verið gefnar út þrjátíu og sjö Sval og Val bækur á Íslandi. Og vonandi á enn eftir að bætast í það safn. Fyrstu bækurnar sem Iðunn gaf út á sínum tíma voru eftir belgíska listamanninn André Franquin en síðan bættust við fáeinar sögur sem Jean-Claude Fournier hafði teiknað og að síðustu komu út hjá þeim nokkrar bækur eftir tvíeykið Tome og Janry. Síðasta Sval og Val sagan sem Iðunn gaf út árið 1992, Seinheppinn syndaselur, var einmitt eftir þá félaga en Tome og Janry voru þá enn höfundar seríunnar og voru nokkur ár í viðbót áður en aðrir tóku við.
Jean-Claude Fournier gerði alls níu sögur í bókaflokknum (og af þeim komu fimm út á íslensku) en síðasta saga hans, Des haricots partout, var gefin út í bókaformi árið 1980 eftir að hafa birst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU árið á undan. Þegar sú saga hafði runnið skeið sitt á enda hóf Fournier vinnu að næstu sögu sem þegar hafði hlotið vinnuheitið La maison dans la mousse. Á svipuðum tíma vildi Dupuis útgáfufyrirtækið hins vegar koma fram nýjum áherslum varðandi sýnileika Svals og Vals í blaðinu þar sem þeim fannst sögurnar vera orðnar of stopular. Stjórnendum þess þótti Fournier ekki nægilega afkastamikill og fyrirtækið ákvað því að myndasögunum um Sval yrði skipt á milli fáeinna mismunandi höfunda eða teyma til að auka sýnileika þeirra í blaðinu. Þetta var eitthvað sem Fournier sætti sig alls ekki við og hrökklaðist því frá störfum. Hann hafði teiknað Sval og Val í tíu ár og hugnaðist ekki að deila þeim félögum með öðrum. Það varð því ekkert úr því að La maison dans la mousse birtist í SPIROU tímaritinu og þær fimm hálfkláruðu blaðsíður sem komnar voru af sögunni hafa því að mestu legið í skúffum Fourniers síðan þá. Því tók við töluvert óvissutímabil í útgáfuferli Svals og Vals en svo gerðist það, líklega í einhverri örvæntingu Dupuis útgáfunnar, að tvíeykið Nic og Cauvin tók allt í einu frekar óvænt við seríunni. Samhliða sögum þeirra vann síðan annað tvíeyki, Tome og Janry, einnig að sögum um Sval og Val og birtust þessar sögur því sitt á hvað í blaðinu á árunum 1980-83 en þær voru síðan jafnframt gefnar út í bókaformi. Með þessari tilhögun jókst viðvera þeirra Svals og Vals mikið í tímaritinu og stjórnendur Dupuis fengu því sínu framgengt. Sögur þeirra Nic og Cauvin slógu reyndar ekki í gegn, og eru jafnan taldar á meðal hinna lélegustu í allri seríunni, en Tome og Janry þóttu hins vegar standa sig nægilega vel til að hreppa hnossið til frambúðar. En mitt í þessum óvissutímum skaut einnig fram á sjónarsviðið ungum Frakka, Yves Chaland, sem bættist í hóp þeirra listamanna sem fengu að spreyta sig á því að teikna Sval og félaga í SPIROU. Þann 22. apríl 1982 birtust þeir Svalur og Valur skyndilega í tveimur myndaröðum, neðst á blaðsíðum 2 og 3, með útliti sem ungum lesendur tímaritsins á þeim tíma var nokkuð framandi.
Þessar tvær myndaraðir voru með mjög óvenjulegu yfirbragði og líktust óneitanlega stíl þeirra myndasagna sem teiknaðar voru á fimmta og sjötta áratug tuttugustu aldarinnar. Útlitslega minntu þessar teikningar klárlega á árdaga Svals sjálfs sem listamaðurinn Rob-Vel hafði skapað en Franquin hafði síðan tekið við og þróað undir handleiðslu hins hæfileikaríka Jijé (Joseph Gillain). Franquin hafði einmitt tilheyrt hópi fjögurra listamanna (sem fengu síðan viðurnefnið fjórmenningagengið) sem auk þeirra Jijé hafði að geyma þá Morris (Maurice de Bevere) og Will (Willy Maltaite). En saman þróuðu þeir stílinn sem kenndur hefur verið við ligne atome og nefndur var til aðgreiningar frá ligne claire sem uppruna sinn átti að miklu leyti hjá Hergé höfundi Tinna bókanna. Jijé leiðbeindi þessum hóp sem síðar varð skilgreindur sem fyrsta kynslóð Marcinelle skólans en Dupuis fyrirtækið var einmitt staðsett í þeirri borg. Listamennirnir fjórir hafa í seinni tíð verið nefndir sem helstu frumkvöðlar evrópsku myndasöguhefðarinnar eftir stríð. Með tímanum þróaðist ligne atome enn frekar með tilkomu nýrra lærisveina sem unnu meðal annars undir handleiðslu fjórmenninganna en teiknistíll og reyndar allt yfirbragð Yves Chaland einkenndist hins vegar af bernskudögum þess stíls. Þegar sagan birtist í SPIROU tímaritinu á sínum tíma nefndist hún einfaldlega Les Aventures de Spirou en í ólöglegum útgáfum seinna hlaut sagan heitið À la recherche de Bocongo og síðar Coeurs d'acier þegar hún kom loksins löglega út.
Yves Chaland var fæddur árið 1957 og var því 25 ára gamall þegar hann þreytti þessa frumraun sína með Sval í tímaritinu en sem barn hafði hann drukkið í sig belgískar myndasögubókmenntir og hafði alla tíð verið mikill aðdáandi þeirra. Hann hafði lesið allar þær myndasögur sem hann komst yfir í æsku og sem dæmi um áhuga hans má nefna að hann fékk birt eftir sig bréf sem hann sendi SPIROU blaðinu árið 1970 þegar hann var 13 ára gamall. Chaland fór fljótlega að teikna sjálfur og tileinkaði sér á stuttum tíma þennan óvenjulega stíl og sínar fyrstu myndasögur fékk hann birtar á prenti aðeins sautján ára gamall. Alain De Kuyssche hjá SPIROU, sem er reyndar aðalritstjóri tímaritsins í dag, hitti Chaland fyrst í júlí árið 1981, þegar hann vann að öðru verkefni fyrir blaðið, og fáeinum mánuðum eftir það óskaði hann eftir því við Chaland að hann tæki að sér að teikna sögur um Sval og Val. De Kuyssche var mjög hrifinn af hinum óvenjulega teiknistíl listamannsins og það var hann sem átti hugmyndina að því að hafa myndaraðirnar í svart/hvítu þannig að þær hæfðu stílnum sem best. Yves Chaland var alltaf mjög önnum kafinn en með því að skila af sér aðeins þessum tveimur myndaröðum á viku tókst honum að halda sig innan tímarammans og samræma þetta verkefni öðrum störfum sínum. Þetta var mikill heiður fyrir listamanninn því hann hafði alltaf verið aðdáandi þeirra Svals og Vals og þarna fékk hann tækifæri til að láta gamlan draum, um að teikna átrúnaðargoð sín, rætast. Svo mikla trú hafði De Kuyssche á hæfileikum Chaland að hann veitti honum þann heiður að teikna forsíðu SPIROU blaðsins, þann 29. apríl árið 1982, aðeins viku eftir fyrstu birtinguna. En þar fyrir utan fékk Chaland jafnmikið greitt fyrir sínar tvær myndaraðir og aðrir listamenn fengu fyrir hverjar fjórar.
Þessi Sval og Val saga Yves Chaland í SPIROU tímaritinu entist því miður ekki lengi. Lesendur blaðsins, sem flestir voru auðvitað bara börn og unglingar, fannst sagan einkennilega ögrandi og skrítin og vissu ekki alveg hvernig þau áttu að taka henni. Þá höfðaði hinn framandi retró-stíll hennar ekki alveg til þessa unga markhóps og að endingu var birtingu hennar hætt í miðri sögu. Þá höfðu tæplega 50 myndaraðir úr sögunni birst í tímaritinu og það síðasta sem kom fyrir sjónir lesenda þess var heil síða, sem birtist á blaðsíðu 3 þann 16. september 1982, en hún endaði á einhvers konar yfirliti með myndaröð af hugsanlegu framhaldi. Pressan stóð á Charles Dupuis úr öllum áttum og það var hann sem ákvað að binda enda á sögu Chaland í blaðinu en opinberlega var það gefið út að vinna hans hefði verið of dýr. Það þótti ekki réttlætanlegt að greiða frönskum listamanni, sem auk þess var hálfgerður nýliði, helmingi meira en belgískum kollegum hans.
Líklega var þó málið að Charles Dupuis væri hræddur um að þarna væru þeir Svalur og Valur komnir of langt frá því útliti og stefnu sem Franquin hafði mótað fyrr á árum. André Franquin hafði verið höfundur seríunnar mjög lengi og skapað ákveðið fordæmi sem Fournier hafði síðan fylgt samviskusamlega vel eftir. Sennilega fannst stjórnendum Dupuis ekki viðeigandi að nýr höfundur viki svo langt frá þeirri braut. Þær myndasögur sem höfðuðu meira til eldri lesenda, eða jafnvel fullorðna, áttu heldur ekki upp á pallborðið hjá blaðinu en í byrjun níunda áratugarins var tíðarandinn þannig að óhugsandi þótti að hugsa út fyrir ramma sem hafði svo fastmótuð og íhaldsöm gildi. Í dag er þessu sem betur fer allt öðru vísi háttað og fæstir lesendur eiga í neinum vandræðum með að njóta fjölbreytilegrar víðsýni með uppáhalds sögupersónunum sínum. Hvort sem það er Svalur og Valur, Lukku Láki, James Bond eða jafnvel uuh... Jesús. Reyndar er markhópurinn fyrir myndasögur í dag orðinn töluvert eldri en hann var árið 1982. Yves Chaland var einmitt í hópi nokkurra listamanna sem reyndu að endurreisa þennan klassíska stíl eftir að myndasögur af franska málsvæðinu höfðu að mörgu leyti staðnað um hríð. Nálgun Chaland hefur núna öðlast ákveðna viðurkenningu og í seinni tíð hefur slíkt afturhvarf einmitt verið mjög vinsælt hjá höfundum myndasagna. Skýr dæmi um það má til að mynda sjá á bókum úr hliðarseríunni Sérstökum ævintýrum Svals ... en þar fá ýmsir listamenn tækifæri til að spreyta sig á frjálslegan hátt í sjálfstæðum sögum með þeim Sval og Val. Margir þeirra hafa einmitt fetað í fótspor Chaland og í seríunni gætir einmitt töluvert áhrifa hans, bæði með vísunum í hinn fallega retro-stíl hans en einnig sögusvið. Í þeim bókum má ennfremur finna beina tengingu við Yves Chaland en handritshöfundurinn Yann Pennetier (Yann) skrifaði söguna Le Groom Vert-de-Gris (2009), á sínum tíma, upphaflega með listamanninn Chaland í huga. Hann fékk því miður aldrei tækifæri til að teikna hana en teiknarinn Oliver Schwartz, sem einmitt er einn þeirra listamanna sem hefur tekið sér stíl Chaland til fyrirmyndar, tók að sér að teikna söguna í hans anda. Margir muna það örugglega að Le Groom Vert-de-Gris birtist í myndasögutímaritinu Neo Blek árið 2011 og nefndist þá Á valdi kakkalakkanna. Yann og Schwartz gerðu síðan aðra sögu í hliðarseríunni um Sval sem hét La Femme léopard (2014) en hún er sjálfstætt framhald Le Groom Vert-de-Gris. Sú saga var reyndar ekki samin fyrir Chaland en er í sama stíl og söguþráður hennar minnir óneitanlega á einmitt hina hálfkláruðu Sval og Val sögu hans í SPIROU blaðinu. Þriðja sagan eftir tvíeykið úr þessari seríu heitir Le Maître des hosties noires en hún kom út árið 2017 og er að sjálfsögðu einnig í sama anda.
Eftir að Svalur og Valur, í meðförum Chaland, hættu að birtast í SPIROU tímaritinu hafði hann ekki leyfi til að halda áfram með framhaldið og gefa söguna út í heild sinni. Dupuis fyrirtækið átti útgáfuréttinn af Sval og Val og opinberir höfundar seríunnar voru þá annars vegar þeir Nic og Cauvin og hins vegar Tome og Janry. Sagan lá því nokkuð lengi í gleymsku en árið 1990 var hún dregin fram og gefin út hjá Champaka útgáfunni í vandaðri þúsund eintaka viðhafnarútgáfu, undir heitinu Coeurs d'acier (hefti 1 og 2), sem öll voru árituð af Chaland. Fyrra heftið hafði að geyma söguna eins og hún birtist í SPIROU blaðinu en nú hafði hún einnig verið lituð af Isabelle eiginkonu Chaland. Seinna heftið hafði aftur á móti að geyma það framhald af sögunni sem upp á vantaði en að þessu sinni í myndskreyttu textaformi. Sá hluti sögunnar var einmitt unninn af áðurnefndum handritshöfundi Yann og í nánu samráði við Chaland en þeir tveir voru góðir vinir. Dupuis átti auðvitað réttinn af þeim Sval og Val og því sjást þeir aldrei beint í myndskreytingum seinna heftisins. Útgefendurnir fóru hins vegar lymskulega í kringum það með því að láta andlit þeirra og líkama ætíð vera hulin hlébarðaskinni en auk þess voru þeir Svalur og Valur aldrei nefndir á nafn í því hefti. Þessi útgáfa var aðeins í boði í sérhæfðum bókabúðum en árið 1997 gat almenningur loksins eignast söguna á prenti þar sem hún birtist í hluta af heildarverkum Yves Chaland. Seinna hefur sagan svo verið gefin út bæði af Champaka en einnig af Dupuis.
Í þeim bókum sem heildarverk Chaland hafa verið birt má einnig sjá töluvert af aukaefni sem hafði ekki komið áður fyrir augu almennings. Þar má til dæmis finna ýmislegt skemmtilegt efni sem kætir vafalítið aðdáendur bókanna um Sval og Val en sýnir um leið hve Svalur var listamanninum hugleikinn. Líklega um það leyti sem hann var að byrja að teikna Sval í SPIROU tímaritinu tók hann sig einnig til og útbjó fimm ímyndaðar bókakápur af safnheftum SPIROU blaðanna. Fyrir þá sem ekki þekkja var (og er hugsanlega enn) hefð fyrir því að safna saman blöðunum á um það bil tveggja mánaða fresti og gefa þau út í þykkum innbundnum heftum. Þetta hafði tíðkast alveg frá því SPIROU blöðin voru gefin fyrst út á fjórða áratuginum en þessi safnhefti eru í dag líklega orðin um 400 talsins. Reyndar er SVEPPAGREIFANUM ekki alveg kunnugt um hvort þessi innbundnu hefti komi enn út. Þessar þykku bækur eru að sjálfsögðu í sömu stærð og blöðin og framan á kápu þeirra má yfirleitt sjá einhverja vel heppnaða mynd, úr einhverju þeirra blaða sem heftið inniheldur, auk raðnúmers þeirrar bókar. Þessar fimm fölsuðu bókakápur teiknaði Chaland með stíl Franquin og lét þær líta út eins og þær væru af ímyndaðri sögu sem birst hefði í blöðunum. Hann lét jafnvel bókarkápurnar líta út fyrir að vera gamlar og slitnar. Hér má sjá eina af þessum myndum sem hann lét vera af bókarkápu númer 45 en það hefti var upprunalega frá árinu 1953. Mynd Chaland er hægra megin en upprunalega kápa Franquins, með mynd úr sögunni La corne de rhinocéros (Horn nashyrningsins), er vinstra megin til samanburðar.
Yves Chaland er kannski ekki mjög kunnur á Íslandi, enda hafa því miður engar af sögum hans komið út hér á landi, en þeir sem til þekkja eru yfir sig hrifnir af stílnum og telja þennan listamann mikinn snilling. Margir þekkja auðvitað tilurð þessarar hálfkláruðu sögu hans um Sval og Val en hann á reyndar nokkrar aðrar myndasögur einnig að baki auk teiknivinnu sem hann vann fyrir aðra handritshöfunda. Þekktustu sköpunarverk hans eru þó án efa sögurnar um ævintýramanninn Freddy Lombard. Alls komu út fimm bækur um þann kappa en margir vilja meina að aðalsöguhetjan sé einhvers konar blanda af Tinna og Val. Sögurnar eru þó engar barnabækur, enda í frekar grófari kantinum, þar sem ofbeldi og nekt eru nokkuð áberandi. Þarna hefur jafnvel verið talað um Tinna fyrir fullorðna. Fyrsta saga Chaland um Freddy Lombard kom út árið 1981 og sú síðasta árið 1989 en því miður entist listamanninum ekki aldur til að gera fleiri sögur. Hann lést í hörmulegu bílslysi árið 1990, ásamt dóttur sinni, aðeins 33ja ára að aldri. Þessar fimm bækur eru mjög flottar og sýna vel þá snilli sem Chaland hafði yfir að ráða en í þeim er hægt að greina stigvaxandi þroska hans og framfarir með hverri bók. Í fimmtu og síðustu sögunni má segja að retró-stíllinn hans sé orðinn fullkominn og svipaða sögu má segja um uppbyggingu hennar og frásagnarmáta. Til að byrja með höfðuðu sögurnar um Freddy Lombard mest til samtíðamanna Chaland úr röðum myndasöguhöfunda, enda listamaðurinn einn helsti áhrifavaldur þeirra, en í seinni tíð hafa fleiri lesendur myndasagna uppgötvað þær og sögurnar eru í dag töluvert vinsælar. SVEPPAGREIFINN hefur svolítið flett þessum bókum þegar hann hefur komist í tæri við þær en á því miður aðeins eina þeirra (bók númer 2 Le cimetière des éléphants) og hún er á spænsku! Bækurnar um Freddy Lombard fást því miður ekki á dönsku en það er ekki mjög langt síðan sögurnar fimm voru gefnar út á ensku af Humanoids útgáfunni í vönduðu safni í einni bók. 
 
Nú þarf SVEPPAGREIFINN víst að fara að finna sér meira efni eftir þenna frábæra teiknara. 

8. janúar 2021

182. JÓLABÓKIN 2021

Jólin búin, áramótin búin og næsta mál á dagskrá er færsla í letilegri kantinum sem einkennist reyndar af heiftarlegri eftirjólaþynnku. Fram undan er bólusetningarárið mikla 2021, sem er bara hið besta mál, þó sú staðreynd muni líklega leysa fæst af þeim verkefnum sem SVEPPAGREIFINN þarf að vinna í um þessar mundir. En það breytir þó ekki því að hann er strax farinn að huga að helstu jólabók næstu jóla. Nú er alla vega orðið ljóst að það stórvirki verður hin eitursvala Lukku Láka saga Bardaginn við Kórónuveiruna og stærsta spurningin er bara hver mun taka það að sér að semja þetta meistaraverk. Bara verst að þegar hún loksins verður gerð þá verða allir orðnir dauðleiðir (eða bara dauðir) á þessum pínulitla vágest sem búinn er að hrella okkur síðasta árið.

Megi nýtt ár færa lesendum Hrakfara og heimskupara óskir um frelsi og farsæld á Fróni og um leið óendanlega nýtingu á líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, sýningarsölum og kirkjum - fyrir þá sem þurfa svo nauðsynlega á því að halda ...

Gleðilegt nýtt ár!