18. febrúar 2016

4. STEINI STERKI Í SVAL OG VAL BÓK

Þeir sem gluggað hafa í Sval og Val bókina Tora Torapa eftir Fournier, (hún hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu) hafa vafalaust tekið eftir því að Steina sterka bregður fyrir snemma í bókinni. Þarna sitja saman í biðsal á flugvelli þeir félagar Svalur og Valur, auk Ító Kata og Sveppagreifans, þegar íðilfögur flugfreyja leiðir Steina sterka þar fram hjá en flugfreyja þessi er ekki heldur einhver aukvisi í belgísk/franska myndasögubransanum.
Þarna er á ferðinni flugfreyjan Natasha sem var nokkuð vinsæl myndasögupersóna í Belgíu á sínum tíma en fyrstu ævintýrin um hana komu út snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Sögurnar eru enn að koma út og eru nú orðnar 22 talsins en höfundur þeirra er belgíski teiknarinn Franqois Walthéry. Steina sterka þekkja íslenskir teiknimyndasöguaðdáendur miklu betur en alls hafa 14 sögur komið út með þeim kappa og þar af 6 bækur á íslensku. Höfundur þeirra bóka var snillingurinn Peyo (Pierre Culliford) sem þekktastur var fyrir Strumpasögurnar sívinsælu en hann skapaði einnig þá Hinrik og Hagbarð sem við Íslendingar könnumst líka nokkuð vel við. Reyndar voru sögurnar um Hinrik og Hagbarð frumraun Peyo á myndasögumarkaðnum og Strumparnir aðeins aukapersónur sem komu fyrir í einni sögunni en eftir að hann teiknaði fyrstu sjálfstæðu Strumpasöguna slógu þeir í gegn og eftir það var ekki aftur snúið. Peyo lést á aðfangadag jóla árið 1992, 64ra ára gamall, en sonur hans Thierry Culliford tók þá við keflinu og hefur séð um að teikna Strumpasögurnar áfram allt til dagsins í dag. Peyo kom eitthvað að handritsgerð bókanna um Natöshu og vann til dæmis einnig með Franquin að Sval og Val bókinni Svaðilför til Sveppaborgar en þeir höfðu báðir unnið saman hjá SPIROU blaðinu. Þessi belgísk/franski myndasöguheimur er því allur meira og minna samtengdur og samofinn á einhvern hátt.