27. júlí 2018

69. STEINI STERKI

SVEPPAGREIFINN hefur reynt að fjalla á fjölbreytilegan hátt um sem mest af því efni sem þessi heimasíða stendur fyrir þótt óneitanlega fái vinsælustu myndasögurnar líklega alltaf mestu athyglina. Ein af þeim seríum sem svolítið hafa setið á hakanum eru sögurnar um Steina sterka, þó SVEPPAGREIFINN hafi reyndar aðeins minnst á þær myndasögur, en nú er ætlunin að gera svolitla bragabót á því með færslu vikunnar.
En það var þann 15. desember árið 1960 sem ný myndasögusería, er fjallaði um um það bil tíu ára gamlan skólastrák, hóf göngu sína í jólablaði belgíska teiknimyndatímaritsins SPIROU. Þetta var á gullaldartímabili belgísk/frönsku myndasögublaðanna og það var belgíski listamaðurinn Peyo (Pierre Culliford) sem skapaði þessa nýju teiknimyndapersónu. Peyo var þá þegar orðinn vel kunnur fyrir seríurnar um Hinrik og Hagbarð (Johan og Pirlouit) og Strumpana (Les Schtroumpfs) sem í fyrstu voru reyndar aukapersónur í sögunum um Hinrik og Hagbarð. Strákurinn í þessari nýja seríu nefndist Benoît Brisefer á frönsku en þegar bækurnar um hann hófu að koma út á íslensku fékk hann þann virðulega titil, Steini sterki. 
Steini (ætli hann heiti ekki bara Þorsteinn?) er auðvitað algjör fyrirmyndarpiltur og með sterka réttlætiskennd. Hann er duglegur í skólanum, hjálpsamur, greiðvikinn, kurteis, heiðarlegur og mikill dýravinur og svo er hann nánast óeðlilega hjálplegur við að aðstoða gamlar konur. Steini sterki er því augljóslega ákaflega vel upp alinn en samt er það mjög einkennilegt að hann virðist búa aleinn og á ekki neina fjölskyldu. Þó má í einhverjum bókanna sjá raddir í talblöðrum tjá sig við hann heima við en eigendur þeirra radda sjást þó aldrei og ekki kemur þar fram hvort að um sé að ræða föður hans, móður eða einhvern annan. Af ættmennum Steina virðist aðeins Bjössi frændi hans koma við sögu í bókunum. Steini sterki er alltaf eins klæddur og þá er alveg sama hvort það sé við hversdagslega iðju, við störf í sirkus eða til að taka við einkunum og verðlaunum á skólaviðburðum. Blái trefillinn hans og alpahúfan eru hans helstu einkenni. En að sögn Peyo má rekja húfuna til spænska leikarans og óperusöngvarans Luis Mariano sem var mjög frægur í Frakklandi upp úr miðri síðustu öld. Steini sterki býr í litla þorpinu sínu Stóru Sólvík (á frönsku heitir það Vivejoie-la-Grande) og er ósköp venjulegur strákur að öllu leyti nema því að hann býr yfir alveg óendanlegum kröftum, getur hlaupið gríðarlega hratt og stokkið ótrúlega hátt. Nema náttúrulega þegar hann kvefast.
Þá missir hann alla sína krafta og verður ekkert öðruvísi en aðrir venjulegir skólastrákar. Það er reyndar svolítið einkennandi fyrir Steina sterka að hann á það til að kvefast í hverri einustu sögu en þá gerist það iðulega á frekar óheppilegum og viðkvæmum ögurstundum. Sögurnar ganga út á baráttu Steina við ýmsa bófa og glæpamenn en oft á tíðum er hann í slagtogi með Marteini leigubílstjóra vini sínum sem þó hefur enga vitneskju um ofurkrafta Steina. Það gildir reyndar einnig um fleiri því mjög fáir fullorðnir verða nokkurn tíma vitni að kröftum hans og trúa því aldrei þegar Steini reynir að sýna styrk sinn. Það eru helst bófarnir í sögunum sem eiga kost á því að vitna um krafta hans þegar þeir verða fyrir barðinu á Steina. Í rauninni er Steini svo sterkur að stundum gleymir hann sér hreinlega við einföldustu hluti. Hann hefur nefnilega ekki alveg fullkomna stjórn á kröftum sínum og á, af þeim sökum, það því til að skemma hluti óvart.
Steini virðist ekki eiga neina fasta vini á svipuðum aldri í Stóru Sólvík aðra en bekkjarfélaga sína og enginn þeirra kemur reglulega fyrir í þessum bókum. Í sögunum kemur fyrir gömul og góð kona sem kallast Grímhildur en hún á líka einhvers konar tvífara sem reyndar er vélmenni og er virkilega andstæða við hina góðu Grímhildi. Það var uppfinningamaðurinn Valdimar (í upprunalegu sögunum heitir hann hvorki meira né minna en Serge Vladlavodka) sem skapaði þetta vélmenni og þau þrjú koma öll fyrir í bókunum oftar en einu sinni. Þá kemur áðurnefndur Bjössi frændi hans einnig nokkrum sinnum við sögu í sögunum en hann býr einhvers staðar úti á landi og starfar sem lífvörður hjá Vandamáladeild útlendingaeftirlitsins. Ævintýri Steina sterka tengjast einmitt oft þessu starfi Bjössa frænda.
Í einni af seinni bókum seríunnar (Le Secret d'Églantine - 1999) kemur til sögunnar rauðhærð stelpa, á svipuðum aldri og Steini, sem heitir Églantine og hefur yfir að ráða sambærilegum ofurkröftum. En þá öðlaðist hún eftir að hafa fyrir slysni gleypt blöndu af eiturefnum á verkstæði föður síns. Líkt og hjá Steina hefur hún þann galla að geta misst mátt sinn við ákveðnar aðstæður en hjá Églantine er það hvorki meira né minna en rósailmur sem veldur kraftleysinu. Aldrei hefur komið fram í sögunum hver sé ástæða þess að Steini sterki búi yfir sínum kröftum eða hvort ofurkraftar hans séu til komnir af svipuðum orsökum og hjá Églantine.
Stíllinn í myndasögunum um Steina sterka er frekar einfaldur eins og Peyo var tamt en það má einnig sjá bæði í Strumpasögunum og bókunum um Hinrik og Hagbarð. Peyo taldi sig aldrei góðan listamann og hafði reyndar góðan samanburð við þá bestu því þeir André Franquin, höfundur bókannna um Viggó og Sval og Val, voru góðir vinir. Myndasögur Peyos voru þó alltaf mjög vinsælar og þess má geta að sögurnar um Steina sterka voru sérstaklega vinsælar hjá stelpum. Og svo má líka nefna að allt frá upphafi hafa sögurnar um Steina sterka verið teiknaðar í anda 7. áratugarins alveg eins og þær birtust í fyrstu sögunni árið 1960.
Steini sterki kom fyrst til Íslands árið 1980 þegar bókin Steini sterki og Bjössi frændi (Tonton Placide - 1968) kom út hjá bókaútgáfunni Setberg í þýðingu Vilborgar Sigurðardóttur. Þarna var þó reyndar um fjórðu bókina að ræða í upprunalega bókaútgáfunni en sú næsta, Sirkusævintýrið (Le Cirque Bodoni - 1969) í íslensku röðinni var í rauninni númer fimm í þeirri belgísku. Alls komu út sex bækur um Steina sterka hjá Setberg á árunum 1980-83 og þær tilheyrðu reyndar allar fyrstu sex sögunum úr upprunalegu seríunni þó röðin væri ekki alveg eins. Í íslensku bókaröðinni voru bækurnar gefnar út í þessari röð:
  • Steini sterki og Bjössi frændi - 1980 (4. Tonton Placide - 1968)
  • Sirkusævintýrið - 1980 (5. Le Cirque Bodoni - 1969)
  • Steini sterki vinnur 12 afrek - 1980 (3. Les Douze travaux de Benoît Brisefer - 1966)
  • Steini sterki og Grímhildur góða - 1981 (2. Madame Adolphine - 1963)
  • Steini sterki og Grímhildur grimma - 1982 (6. Lady d’Olphine - 1972)
  • Rauðu leigubílarnir - 1983 (1. Les Taxis rouges - 1960
Árið 1983 lauk því útgáfu þessa bóka á íslensku en sögurnar um Steina sterka voru einu teiknimyndasögurnar sem bókaútgáfan Setberg gaf út en þau Vilborg og Hörður Haraldsson skiptu með sér þýðingunum. Þegar þarna var komið sögu voru enn tvær bækur óútgefnar úr upprunalegu bókaröðinni eftir Peyo en hann lést á aðfangadag jóla árið 1992. Ástæða þess að hann hafði ekki haldið áfram með sögurnar um Steina sterka var fyrst og fremst tímaskortur vegna velgengni Strumpanna. Árið eftir að Peyo lést tók sonur hans Thierry Culliford því við keflinu, líkt og hann gerði einnig með Strumpasögurnar, og teiknaði sjö sögur um Steina sterka í viðbót. Þær Steina sterka bækur sem komu ekki út á íslensku eru:
  • Pas de joie pour Noël (Peyo) - 1976
  • Le Fétiche (Peyo) - 1978
  • Hold-up sur pellicule (Thierry Culliford) - 1993
  • L'île de la désunion (Thierry Culliford) - 1995
  • La Route du sud (Thierry Culliford) - 1997
  • Le Secret d'Églantine (Thierry Culliford) - 1999
  • Chocolats et coups fourrés (Thierry Culliford) - 2002
  • John-John (Thierry Culliford) - 2004
  • Sur les traces du gorille blanc (Thierry Culliford) - 2015
Þarna er reyndar ein bók, Pas de joie pour Noëlsem ekki telst til opinberu Steina sterka seríunnar en hún fær þó að fljóta með hér á þessum lista. Töluvert hlé varð á útgáfu bókanna eftir 2004 en þar sem síðasta bókin um Steina sterka, Sur les traces du gorille blanc, kom út árið 2015 má reikna með að fleiri sögur eigi enn eftir að birtast í seríunni.
Í desember 2014 var frumsýnd bíómynd um Steina sterka, sem gerð var eftir fyrstu sögunni Les Taxis rouges, í leikstjórn Manuel Pradal en hún er í sama 7. áratugs stíl og bækurnar. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar ekki enn orðið sér úti um eintak af þessari mynd en fjallaði aðeins um hana í færslu sem finna má hér.

20. júlí 2018

68. TINNI Á FRAMANDI TUNGUM

SVEPPAGREIFINN hefur verið að dunda sér við að uppgötva að Tinna bækurnar eru töluvert víðförlari en hann hafði grunað. Við þekkjum það hvernig Tinni barst til Íslands árið 1971 og að bækurnar hafa verið að koma út á hinum Norðurlöndunum allt frá því í byrjun sjöunda áratug síðustu aldar. En Færeyingar hafa líka gefið út Tinna. Þeir eyjaskeggjar búa svo sem ekki yfir mikilli myndasöguútgáfuhefð en af því sem við Íslendingar helst þekkjum, og þeir voru að gefa út, má nefna þá Rasmus Tøppur (Rassmus Klump), Valiant prinsur (Prins Valíant) og Valhøll (Goðheimabækurnar). Bókaforlagið Dropin var reyndar ekkert sérstaklega stórtækt með Upplivingar Tintins á færeyska myndasögumarkaðnum en gáfu þó út tvær bækur. Hin gátuføra stjørnan (Dularfulla stjarnan) kom út árið 1987 og Tignarstavur Ottokars (Veldissproti Ottokars) 1988 en bækurnar voru þýddar úr dönsku af þeim Dánjal Jákup Jørgensen og Eyðun Svabo Samuelsen.
SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekki kynnst sér það neitt rækilega en leiða má líkum að því að færeyska upplagið (bara þessi eina útgáfa) sé eitt það allra minnsta sem gefið hefur verið út af Tinna enda eru eyjaskeggjar ekki nema rétt rúmlega 50.000 talsins. Í það minnsta hljóta færeysk eintök af Tinna bókunum að vera gríðarlega eftirsótt af söfnurum út um allan heim. Og úr því að SVEPPAGREIFINN er að grúska aðeins í Skandinaviskum teiknimyndasögum er ekki úr vegi að kíkja aðeins á finnsku útgáfurnar af Tinna en þar má finna nokkuð skemmtilega og framandi tungubrjóta. Eldflaugastöðin er gott dæmi um slíkt en á finnsku heitir bókin hvorki meira né minna en Päämääränä kuu. Ansi mörg ä þarna. Það er líklega ekki á allra færi að lesa þennan titil skammlaust án tilhlýðilegrar leiðsagnar. En myndrænt lítur hann alveg hreint frábærlega út á bókarkápunni. 
Fyrir flesta er Päämääränä kuu titillinn því væntanlega gjörsamlega óskiljanlegur en samkvæmt upplýsingum SVEPPAGREIFANS mun nafn bókarinnar á finnsku þýða Ferðin til tunglsins (sem er reyndar meira í ætt við bók Jules Verne) og er miklu nær upprunalega titlinum Objectif Lune. Á sama hátt má telja líklegt að íslensku titlarnir á Tinna bókunum séu einnig afskaplega framandlegir í augum þeirra sem ekki þekkja. Annars er gaman að geta þess að Tinna bækurnar eru mjög vinsælar í Finnlandi og þar er heilmikið af vel fróðum Tinnafræðingum sem láta ljós sitt skína á hinum ýmsu spjall- og vefsíðum.

12. júlí 2018

67. UNGFRÚIN JÓKA OG VIGGÓ Í NÝJU LJÓSI

Það er kannski rétt, svona í byrjun þessarar færslu, að vara þá við fyrirfram sem kynnu að vera eitthvað viðkvæmir fyrir svolítið nöktu fólki. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekkert verið að skilgreina þessa síðu sína fyrir neina sérstaka markhópa en hann á ekki von á því að margir undir 18 ára aldri séu að villast hérna inn. En alla vega ... ef einhverjir slíkir, sem og viðkvæmir eða hneykslunargjarnir, eru að skoða Hrakfarir og heimskupör þá er búið að vara þá við.
Teiknimyndasögurnar um Viggó viðutan eru gríðarlega vinsælar og að mati SVEPPAGREIFANS líklega eitthvert allra skemmtilegasta efnið sem belgísk/franska myndasöguflóran gaf af sér. Það er ekki síst að þakka höfundinum, listamanninum frábæra, André Franquin. Þessar myndasögur skiluðu af sér ógrynni frábærra aukapersóna og SVEPPAGREIFINN fjallaði meira að segja um eina þeirra, herra Seðlan, fyrir ekki svo löngu síðan. Franquin var algjör snillingur í að skapa persónur með karaktereinkenni sem lesandinn átti auðvelt með að muna eftir. Ein þessara aukapersóna stendur aðalsöguhetjunni, Viggó sjálfum, nær en nokkur annar. Þar er að sjálfsögðu um að ræða hina aðdáunarfullu, óbilandi trúföstu, meðvirku og hrekklausu ungfrú Jóku. En eins og langflestar persónur bókanna um Viggó viðutan starfar ungfrú Jóka á tímaritinu SVAL en hefur auk þess, í tímans rás, smám saman orðið að unnustu aðalpersónunnar.
Ungfrú Jóka kom fyrst fyrir í Viggó brandara númer 224, í SPIROU blaði númer 1283, sem kom út þann 15. nóvember árið 1962. Á þeim tíma var Franquin búinn að þróa þann ákveðna kjarna starfsmanna skrifstofunnar sem starfaði hjá tímaritinu SVAL og einhverjar hinna kvenpersónanna í brandaranum höfðu birst áður. Þennan brandara teiknaði Franquin er hápunktur ferils hans var að nálgast og stíllega hafði Valur til dæmis þá þegar fengið sitt endanlega útlit. Útlit ungfrú Jóku átti hins vegar eftir að þróast töluvert næstu árin og ekki síður hlutverk hennar í myndasögunum. Margir þekkja væntanlega þennan brandara en í íslensku útgáfunum kemur hann fyrir á blaðsíðu 24 í bókinni Gengið af göflunum sem kom út hjá Froski útgáfu árið 2015.
Ungfrú Jóka þótti reyndar ekki mjög aðlaðandi í fyrstu og einnig vildu margir (þar á meðal Franquin sjálfur) meina að hún hefði jafnvel á einhvern hátt verið óþolandi. Hún var kannski ekki ófríð en ástæða þess að Franquin ákvað að hafa hana bæði rauðhærða, með gleraugu og auk þess frekar ólögulega í vextinum, var væntanlega sú að hún myndi henta brandaranum betur. Í honum valsar Viggó um ritstjórnarskrifstofuna og leitar að hentugri stúlku til að deila með hestabúningi sínum. Það eitt hljómar reyndar svolítið afbrigðilega en er reyndar fullkomlega eðlilegt þegar tillit er tekið til afreka aðalsöguhetjunnar hjá tímaritinu SVAL og í rauninni allt sem þar fer fram. Og það er ekki fyrr en ungfrú Jóka birtist sem það hýrnar yfir honum og hún hentar brandaranum ágætlega. Líklega var því ekki endilega gert ráð fyrir að hún ætti eftir að fá stærra hlutverk í seríunni.
Sjálfsagt tók það Franquin einhvern tíma að átta sig á möguleikunum með persónuna og líklega var hún upphaflega ekki hugsuð sem unnusta Viggós. En það kom tiltölulega fljótlega fram að einhverjar tilfinningar bæri hún til hans sem síðan þróuðust með tímanum í að því er virðist gagnkvæma ást. Á sama tíma breyttist hún líka í útliti og smám saman, og áður en lesendur áttuðu sig almennilega á, var hún orðin að aðlaðandi (kvenlegri en áður) kynveru. SVEPPAGREIFINN hefur jafnvel rekist á pervertskar athugasemdir netverja á erlendum spjallsíðum sem hafa játað ást sína á henni á einhvern hátt. Í bókunum virðist þó aldrei sem að um raunverulegt ástarsamband á milli þeirra sé að ræða og oftar en ekki hefur verið talað um platónska ást þeirra á milli.
Sem fyrr segir mátti fljótlega skynja einhvers konar tilfinningar sem túlka mættu sem aðdáun hennar til Viggós. Líklega áttu þær tilfinningar þó fremur að sýna karakter hennar almennt en þær einkenndust jafnan af óframfærni og feimni. Í fyrstu birtist ungfrú Jóka nefnilega ekki í myndasögunum öðruvísi en roðnandi og taugaveiklislega tvístígandi. Snemma breyttist það þó í augljósa ást hennar til Viggós og fljótlega þróast það út í að hún sér ekki sólina fyrir honum. Hún ver allar hans gjörðir og afglöp og fer engan veginn leynt með aðdáun sína og þá endalausu trú sem hún hefur á hæfileikum hans.
Viggó sjálfur er hins vegar öllu hægverskari í aðgerðum sínum gagnvart Jóku og ber ekki tilfinningar sínar jafn vel á borð og hún. Hans sjáanlega framlag til sambandsins byggist meira á vingjarnlegum stuðningi og smjaðri. En lesendur geta þó fylgst með innstu hugarheimum Viggós þegar draumaveröld hans nær yfirhöndinni á góðum hvíldarstundum. Í bókinni Viggó hinn ósigrandi (á blaðsíðu 38, 39 og 42) má til dæmis sjá hvernig aðalsöguhetjan bjargar draumadrottningunni Jóku úr bráðum skipsskaða, berst við hákarla henni til varnar og þau eyða að lokum saman rómantískum stundum á eyðieyju.
Í seinni tíð eru þau reyndar orðin heldur nánari en þó aldrei þannig að einhver áberandi kynferðisleg spenna sé á milli þeirra. Enda hefði slíkt aldrei þótt viðeigandi í þeim teiknimyndasögum sem voru ætlaðar börnum og komu frá belgísk/franska málsvæðinu. Auðvitað voru gefnar út eitthvað af myndasögum á þeim tíma sem höfðu að geyma erótískan boðskap en markhópurinn fyrir þær sögur voru eingöngu fullorðið fólk. Í bókum Franquins var aldrei um neitt slíkt að ræða. Í dag er ungfrú Jóka það mikilvægur hluti af Viggó og bókunum um hann að meira að segja hefur verið gefin hefur verið út sérstök útgáfa, L'amour de Lagaffe, með úrvali brandara með þeim skötuhjúunum.
En í lok ársins 2008 breyttist allt. Á síðasta degi ársins birtist í franska tímaritinu Siné Hebdo óvænt og djörf síða af ansi kunnuglegu fólki í afskaplega framandi aðstæðum. Þarna var um að ræða samtals sjö litlar myndir eða skissur af þeim turtildúfunum Viggó og ungfrú Jóku þar sem þau sjást í ýmsum vafasömum eða öllu heldur fremur óhefðbundum athöfnum. Alla vega óhefðbundnum ef allt eðlilegt mið er tekið af teiknimyndasögum um Viggó viðutan. Og neðst á síðunni mátti meira að segja sjá nafn Franquins skrifað undir með hans eigin rithönd. Eftir þessa nýju og óvæntu sýn á uppáhalds teiknimyndapersónu tugþúsunda aðdáenda um alla Evrópu varð heimurinn aldrei samur aftur.
Sagan segir frá því að Loup nokkur hafi boðið tímaritinu afrit af þessari einstöku pappírsörk til birtingar. Örkinni hafi honum áskotnast seint á 8. áratug síðustu aldar (þá væntanlega í kringum árið 1978) og Siné Hebdo birti hana síðan í 17. tölublaði sínu þann 31. desember árið 2008. Ekki er reyndar alveg staðfest um hvaða Loup var að ræða en líklega er þarna verið að tala um franska listamanninn og myndasögufræðinginn Jean-Jacques Loup. En hann var helst þekktur fyrir flóknar og skemmtilegar myndir sem helst mætti líkja við teikningar argentínska listamannsins Mordillo. Jean-Jacques Loup starfaði sjálfur eitthvað fyrir tímaritið Siné Hebdo en margir kannast eflaust við vinsælar teikningar hans sem til dæmis má finna á púsluspilum og fást meðal annars hér á landi. Siné Hebdo varð reyndar ekki langlíft blað og varð gjaldþrota stuttu seinna en Jean-Jacques Loup, sem fæddist árið 1936, lést árið 2015.

Þetta einstæða verk er í formi pappírsarkar (líklega í stærð A3) en efst á því mátti lesa þennan handskrifaða texta eftir Loup. Eða ... reyndar má reikna með að Loup hafi nú ekki tekið upp á því að skrifa hann beint á hið verðmæta blað, heldur hafi það verið fótósjoppað inn á myndina í tímaritinu, en skilaboð hans litu alla vega svona út.
En í megindráttum er íslenska þýðingin á textanum eftirfarandi:
Fyrir 30 árum fékk ég að gista hjá Franquin í Brussel. Á teikniborðinu hans lágu þessar undraverðu skissur en ég féll fyrir þeim og sagði það við hann. Og nokkrum dögum síðar, í París, kom hann með þær til mín og sagði glettinn við mig, "Ég merkti þér þær, vegna þess að það kæmi mér á óvart ef þær yrðu einhvern tímann gefnar út." Sá dagur er kominn og þessari sérstöku gjöf deili ég nú með ykkur ...                                                                                                                                                                  Loup
Ekki eru allir á eitt sáttir um uppruna plaggsins og blendnar skoðanir eru um það bæði á meðal áhugamanna og sérfræðinga. Einhverjir þeirra vilja meina að um fölsun sé að ræða og hefur nafn franska listamannsins Roger Brunel meðal annars verið nefnt í því tilliti. Hann er kunnur fyrir hæfileika sína við að líkja eftir teiknistílum þekktra listamanna (meðal annars Franquins) en hefur auk þess líka verið duglegur við að blanda svolítilli erótík inn í þau verk. Eftir að hafa þannig rýnt eilítið í myndir af bæði Viggó og ungfrú Jóku, sem Roger Brunel hefur gert, virðist þó lítið til þeirra koma í samanburði við verk Franquins. Hann nær svo sem að elta eitthvað eða afrita stíl hans á einhvern hátt en það vantar þó alla mýkt og tilfinningar í myndir Brunels. 
Flestir þeirra sérfræðinga sem rýnt hafa í myndirnar, og borið saman við aðrar upprunalega skissur eftir Franquin, telja sig geta greint hinar næmu tilfinningar í teikningum listamannsins og líta svo á að skissurnar séu ófalsaðar. Þá hafa einhverjir rithandasérfræðingar gert rannsóknir á eiginhandarárituninni á örkinni og telja hana eftir Franquin.
Það hefur svo sem komið fram hér áður á síðunni að SVEPPAGREIFINN sé enginn sérfræðingur um teiknistíla gömlu myndasögumeistaranna en það verður að viðurkennast að óneitanlega bera skissurnar sterkan keim af stíl þessa frábæra listamanns. Og hver sem sannleikurinn er um uppruna þessara skissa þá gefa þær í það minnsta algjörlega nýja sýn á þessar frábæru teiknimyndasögur og fæstir munu líklega sjá þau Viggó viðutan og ungfrú Jóku aftur í sama ljósi.

6. júlí 2018

66. GÆTUM VIÐ FENGIÐ AÐ HEYRA EITTHVAÐ ÍSLENSKT

Viðfangsefnið í færslu dagsins er óneitanlega svolítið óvenjulegt. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem áður fjallað um innihalds- og tilgangslítil efni í færslum sínum og það er ljóst, með þessari færslu hér, að sá fánýti fróðleikur SVEPPAGREIFANS er engan veginn á undanhaldi. Í þetta skipti er nefnilega ætlunin að rýna aðeins í þær myndasögur sem komið hafa út á íslensku og skoða hvernig þýðendur bókanna hafa heimfært söngtexta, sem birst hafa í sögunum, upp á íslenskan máta. Við fyrstu sýn hljómar það reyndar fremur langsótt og fljótt á litið er erfitt að ímynda sér að þar sé um mjög auðugan garð að gresja. En því er þó öðru nær. Í þessum myndasögum eru nefnilega fjölmörg dæmi um íslenska söng- og dægurlagatexta. Greinilegt að sögupersónum teiknimyndasagnanna er fleira til lista lagt en að berjast við bófa, glæpamenn og önnur dusilmenni. Og það er einnig augljóst, ef marka má hið fjölbreytilega textaúrval, að þýðendur bókanna hafa haft ríkt hugmyndaflug við að heimfæra þá upp á íslensku. Flestir aðdáenda þessa bóka kannast auðvitað við helstu söngfugla myndasagnanna. Vaíla Veinólínó kemur fyrst upp í hugann en í fljótu bragði má einnig nefna þá Óðrík, Hagbarð (úr bókunum um Hinrik og Hagbarð) og Lukku Láka sem jafnan endar ævintýri sín á sólarlagssöngnum sínum. Ekkert þeirra hefur þó verið að syngja þekkt íslensk dægurlög. Við lauslega talningu virðist sem að hátt í 50 dægurlagatexta megi finna í þessum teiknimyndasögum hið minnsta. Um að gera að kíkja á eitthvað af þessu.

Síðastliðinn vetur fjallaði SVEPPAGREIFINN einmitt um efni sem tengist þessu viðfangsefni en Sval og Val bókin Neyðarkall frá Bretzelborg, sem gefin var út hjá Iðunni árið 1982, hefst nefnilega með þessari mynd. Um það allt saman má lesa hérÞarna "hljómar" byrjunin á Litlu flugunni eftir Sigfús Halldórsson og Gormur heldur fyrir eyrun.
Dæmin eru fjölmörg og það er ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að gera neina tæmandi úttekt á þessu skemmtilega efni. Til þess þyrfti töluvert meira pláss en svo að það rúmist í einni eðlilegri færslu. En það væri gaman að týna til það helsta. Og það er vel við hæfi að byrja einmitt þessa samantekt á öðru lagi eftir Sigfús Halldórsson. Í Tinna bókinni Skurðgoðið með skarð í eyra má, strax á fyrstu blaðsíðu, sjá starfsmann Þjóðfræðisafnsins syngja hástöfum línur úr lagi laginu Tondeleyó eftir Fúsa við texta borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Sagan endar reyndar einnig með sama hætti þar sem safnvörðurinn söngglaði er enn að kyrja sama lagið. Þýðanda bókarinnar Lofti Guðmundssyni (með diggri aðstoð Þorsteins Thorarensen) hefur þótt mest við hæfi að heimafæra textann "Toréador, en ga - a - a - arde! Toréador! Toréador!" osfrv. upp á "Tondeleyó! Tondeleyó!" Algjörlega frábær lausn hjá þeim félögum. 
Það er reyndar ekki hægt að finna mörg dæmi um íslenska dægurlagatexta í Tinna bókunum. Í þeim sögum heldur Vaíla Veinólínó helst upp heiðri hinna syngjandi stétta og boðar fagnaðarerindi sitt með frekar óþolandi óperusöng en aðrar sögupersónur fá lítið að njóta sín á söngsviðinu. Í bókinni Vindlar Faraós er þó undantekning frá því. Þar verður fornleifafræðingurinn, prófessor Fílímon Flanósa fyrir eiturör sem gerir hann brjálaðan og í kjölfarið fær hann þá undarlega þörf að þurfa helst að tjá sig í bundnu máli. Reyndar mest í ástarljóðum og sálmum. En þegar rithöfundurinn, herra Kúlúpennó verður fyrir samskonar eitrun (bls. 43) leiðist hann út á þá vafasömu braut að fara að syngja lagið Vakna Dísa með Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar (Steina spil) frá Selfossi. Þar fer ekkert á milli mála að örin er augljóslega baneitruð.
SVEPPAGREIFINN minntist aðeins á Sval og Val bókina Neyðarkall frá Bretzelborg í byrjun færslunnar og nefndi í því samhengi lagið Litlu fluguna. En það koma fyrir fleiri lög í þeirri bók. Söguþráð hennar þekkja líklega flestir en bókin hefst á því að Gormur gleypir lítið vasaútvarp og á fyrstu blaðsíðum sögunnar má fylgjast með ferðalagi hans um bæinn þar sem mörg mismunandi söng- og dægurlög óma úr nefi hans. Af nokkrum þeirra má til dæmis nefna Tvær úr Tungunum með Halla og Ladda, Af litlum neista með Pálma Gunnarssyni, Sandalar með Ladda og Brunaliðinu (það lag syngur líka sá brúnhærði á skrifstofunni í bókinni Hrakfarir og heimskupör) og að lokum lagið Heim í Búðardal með Ðe Lónlí blú bojs. Síðastnefnda lagið kemur einnig fyrir í Viggó bókinni Viggó bregður á leik á blaðsíðu 22. 
Myndasögurnar um Viggó viðutan, flestar í þýðingu Jóns Gunnarssonar og Bjarna Fr. Karlssonar, eru einmitt þær bækur sem oftast hafa að geyma dæmi um íslenska dægurlagatexta. Það er reyndar misjafnt hvernig söngvarnir koma fram. Í flestum tilfellum eru þeir sungnir af einhverjum sögupersónum bókanna og þá oftast af Viggó sjálfum en í nokkrum tilvika eru þeir einnig spilaðir af hljómplötum. Í Glennum og glappaskotum (bls. 18) má sjá staka mynd af Viggó þar sem hann hefur líklega verið hálfdottandi við hliðina á plötuspilaranum þegar hann áttar sig allt í einu á því að rispa á vínylnum er að trufla Gaggó Vest með Eiríki Haukssyni.
Plötuspilari kemur einnig fyrir í bókinni Viggó hinn óviðjafnanlegi en í því tilviki (bls. 42) hefur hann tekið að sér að lagfæra þetta dásamlega heimilistæki fyrir Hortensu frænku sína. Og á meðan þarf hann auðvitað keyra græjuna í botn með tónlist af mismunandi áhugaverðum vínylplötum. Þar má meðal annars finna lag eins og Ég er kominn heim (Hér stóð bær) sem varð fyrst frægt í flutningi Hauks Morthens en í Viggó bókinni er þýðandinn Jón Gunnarsson líklega innblásinn af útgáfu Lummanna sem kom út á svipuðum tíma og bókin.
Annars er Haukur Morthens nokkuð vinsæll hjá Viggó því að í bókinni Viggó hinn ósigrandi (bls. 4) finnst honum viðeigandi að kyrja lagið Sextán tonn á meðan hann erfiðar við hina óvenjulegu iðju skápamokstur.
Ansi mörg íslensk dægurlög koma við sögu Viggó bókanna. Úr bókinni Hrakfarir og heimskupör er hægt að nefna Gvend á framköllunardeildinni syngja Tunglið, tunglið taktu mig, sem líklega er þekktast í flutningi Diddúar og Ljósanna í Bænum, í bókinni Viggó bregður á leik (bls. 41) fara þeir Valur og Viggó báðir með þuluna Stebbi stóð á ströndu (sem hljómsveitin Haukar gerði vinsælt lag við), Viggó syngur lag Ómars Ragnarssonar Sumar og sól í bókinni Glennur og glappaskot (bls. 47) og í Vandræðum og veisluspjöllum (bls. 4) kyrjar hann Horfðu til himins með hljómsveitinni Nýdönsk.
Í síðastnefndu bókinni (bls. 27) má einnig sjá hvar Viggó syngur lagið Er nauðsynlegt að skjóta þá  með Bubba Morthens. Sami brandari birtist hins vegar líka í bókinni Skyssur og skammarstrik (bls. 33) en þar er hann með öðrum söngtexta. Þrátt fyrir töluverða eftirgrennslan hefur SVEPPAGREIFANUM ekki enn tekist að finna uppruna þess texta.
En nóg af Viggó og vippum okkur núna augnablik aftur yfir í Sval og Val. Í bókinni Með kveðju frá Z (bls. 18) söngla þeir Sveppaborgarfélagarnir, bæjarróninn herra Þamban og herra Dýrfjörð (það er sá sem lendir alltaf í vandræðum með bílana sína) saman lag sem Skagakvartettinn söng meðal annars inn á hljómplötu fyrir mörgum, mörgum árum.
Og svo má ekki gleyma sjálfum Sveppagreifanum. Í sögunni Svamlað í söltum sjó (bls. 10) syngur hann hástöfum gamla slagarann Sigling (Hafið, bláa hafið) eftir að hafa fengið sér góðan skammt af X4 líkjörnum sínum áhrifaríka. Sá drykkur skerpir aldeilis á heilafrumum þess sem dreypir á en hin snarhífandi aukaáhrif líkjörsins vara þó aðeins strax í byrjun. Það var einmitt á því augnabliki sem Sveppagreifinn brast í söng og leyfði lesendum bókanna um Sval og Val að kynnast þessari nýju hlið á sér.
Lukku Láka bækurnar hafa einnig upp á ýmislegt að bjóða. Þar er reyndar ekki jafn mikið úrval af dægurlagatextum í boði heldur er þar meira um söng-, þjóðlaga- eða jafnvel sálmatexta að ræða. Enda kannski ekki eðlilegt að bjóða upp á 20. aldar dægurlagatexta í villta vestrinu. Sálmurinn um blómið eftir Hallgrím Pétursson kemur fyrir í bókinni Einhenta bandíttinn (bls. 45) og það er líklega vel viðeigandi að útfarastjóri söngli ljóðið.
Og meira um kvæðagerð gömlu meistaranna úr Lukku Láka bókunum. Afar rómantískur trúbador (einhverjir vilja meina að þetta sé André Franquin), með tveggja strengja kassagítar, kemur sér vel fyrir uppi á stigapalli í Lukku Láka bókinni Á meðal dóna og róna í Arisóna (bls. 11) og sönglar vögguljóðið Bí bí og blaka
Í Lukku Láka bókinni Sara Beinharða (stórfengleg þýðing á Sarah Bernhardt) má sjá hina guðdómlegu frönsku leikkonu fara með hinar ýmsu textahendingar á hádramatískan hátt. En það er hins vegar matreiðslumaður hennar sem stelur senunni (bls. 12) á söngsviðinu með gamla leirburðinum Rúgbrauð með rjóma á.
Líkt og Heim í Búðardal kemur Rúgbrauð með rjóma á kemur fyrir í fleiri en einni myndasögu. Í bókinni Hin fjögur fræknu og Búkolla (bls. 36) kyrjar hinn matarþurfi Búffi nefnilega þennan sama söng. 
Og að lokum má nefna bókina Harðjaxlar í hættuför (bls. 25) með Samma og félögum en þar kyrjar einn af glæpamönnum bókarinnar hinn undursamlega Sjómannavals. Lagið er líklega þekktast í flutningi Þorvaldar Halldórssonar með Hljómsveit Ingimars Eydal en í seinni tíð er það helst frábær útgáfa hljómsveitarinnar Hjaltalín sem fólk þekkir og notuð var á ákaflega dramatískri auglýsingu með verðsamráðsfyrirtækinu Eimspik.