Tinni kom til Íslands. Það er staðreynd sem ekki er víst að íslenskir lesendur Tinnabókanna átti sig almennt á. Í Dularfullu stjörnunni taka þeir félagar, Tinni, Tobbi og Kolbeinn kafteinn, sér ferð áleiðis í áttina að Norðurheimskautinu og fylgja þangað hópi vísindamanna sem ætlar sér að leita uppi risastóran loftstein sem fallið hefur í hafið á þeim slóðum. Fljótlega kemur í ljós að óvinveittir aðilar hafa einnig sett stefnu að sama markmiði og brátt hefst mikið kapphlaup, leiðangranna tveggja um Norðurhöfin, til að verða á undan á staðinn þar sem loftsteinninn kom niður.
Skip Tinna og félaga kemur við á Akureyri til að taka eldsneyti en leiðangur þeirra lendir hins vegar í nokkrum vandræðum með að útvega olíu á skipið þar sem samkeppnisaðilar þeirra gera allt hvað þeir geta til að leggja stein í götu leiðangursmanna. Af þeim sökum eyða Tinni og félagar hvorki meira né minna en heilum fjórum blaðsíðum á Akureyri og þar hittir Kolbeinn meðal annars Runólf, gamlan félaga af sjónum, sem sigldi með honum í 20 ár. Runólfur þessi kemur síðan seinna einnig fyrir í sögunni um Fjársjóð Rögnvaldar rauða.
Hergé teiknaði þessa sögu á árunum 1941-42, eða í miðri Seinni heimsstyrjöldinni, en þeirri sögulegu staðreynd er þó haldið frá atburðum þessa ævintýs. Sigling vísindaleiðangurs um Norðurhöfin hefði að sjálfsögðu þótt fráleit á þessum miklu stríðstímum og auk þess var Ísland kyrfilega hersetið af bæði Bretum og Bandaríkjamönnum á þessum árum. Svona nokkurn veginn leit Akureyri út í kringum þau ár þegar sagan var teiknuð.
Heldur frjálslega hefur Loftur Guðmundsson líka farið með íslensku þýðinguna á þeim hluta bókarinnar á meðan á dvöl þeirra á Akureyri stendur en það gerir bara söguna skemmtilegri fyrir okkur sjálfsumglöðu og athyglissjúku Íslendingana. Akureyrísku sódavatninu (líklega þá frá Sana) er gert hátt undir höfði í þýðingunni en eins og sjá má á þýðingunni hér fyrir neðan er íslenska útfærslan þeim mun álitlegri.