18. febrúar 2022

199. ÖRLÍTIÐ UM SKEGG Í TINNABÓKUNUM

Í dag er boðið upp á frekar stutta en áhrifamikla færslu hér á Hrakförum og heimskupörum. En skegg er fyrirbæri sem virðist hafa verið Hergé, höfundi Tinna bókanna, nokkuð hugleikið af einverri ástæðu. Kannski tengdist þetta tísku eða tíðaranda þeim sem ríkti þegar sögurnar komu út en það virðist þó töluvert meira áberandi hjá Hergé en mörgum öðrum myndasöguhöfundum. Sjálfur bar Hergé ekki skegg, enda virðist hann alla jafna hafa verið afar snyrtilegur (jafnvel pjattaður) sem er vísbending um að honum hafi verið annt um útlit sitt og hugsanlega ekki viljað skapa einhverja óreiðu á því með villimannslegri ásýnd. SVEPPAGREIFINN hefur áður minnst á skegg Skaftanna í færslu sem birtist snemma á bloggferli Hrakfara og heimskupara en auk þess þarf ekki annað en að fletta aðeins í gegnum Tinnabækurnar sjálfar til að sjá hvernig Hergé hefur skreytt sögupersónur sínar með fjölbreytilegum tegundum skeggja. Flestir bera þó aðeins snyrtilegt yfirvaraskegg. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN að fara að kafa neitt mjög djúpt ofan í þessar pælingar en bendir þó á nokkur atriði, með aukapersónum úr Tinnabókunum, til stuðnings.

Sjálfur Tinni er hins vegar ekki með skegg enda á hann að vera svo ungur að honum hefur líklega ekki enn öðlast nægjanlegur þroski til að bera almennilega skeggrót. En það er ekki hjá því komist að taka eftir því að margar af föstu aukapersónunum sagnanna eru með skegg af einhverju tagi og það er eiginlega bara Jósef (og auðvitað Vaíla Veinólínó) sem ekki skartar þessu vinsæla andlitslýti. Áður hefur verið minnst á Skaftana en einnig verður að nefna Vandráð prófessor, Flosa Fífldal, Rassópúlos, dr Muller, Alkasar hershöfðingja og auðvitað Kolbein kaftein. 

Kolbeinn ber sitt skegg með mikilli reisn og má það vel. Hann er ímynd hinnar hraustu og hugprúðu sjómannastéttar, hokinn af reynslu í baráttu sinni við óblíð náttúruöflin og markaður á lífi og sál af harðneskjulegum þrekraunum. Og reyndar líka óhóflegrar drykkju! Það er því með svolitlu samviskubiti sem SVEPPAGREIFINN ákvað að gefa lesendum Hrakfara og heimskupara kost á að sjá hvernig Kolbeinn kafteinn gæti litið út sem venjulegur, litlaus karakter án skeggs.

 Og þá vitum við það!

4. febrúar 2022

198. LÍKINDI MEÐ MYNDASÖGUPERSÓNUM

Í færslu dagsins er boðið upp á afskaplega fánýtan en um leið skemmtilegan myndasögufróðleik. Þennan föstudag er nefnilega ætlunin að skoða fáeina valinkunna og þekkta einstaklinga úr raunheimum og finna sambærilega jafningja þeirra úr heimi teiknimyndasagnanna. Það skal reyndar tekið skýrt fram að þessi fánýti fróðleikur kemur ekki beint úr hugarsmiðju SVEPPAGREIFANS heldur má þakka hann samansafni af karakterum sem bróðir hans hefur dundað sér við að safna saman á Facebook síðu sinni á undanförnum árum. Það er því hann sem ber ábyrgð á myndasögufærslu dagsins. En ef grannt er skoðað má finna marga slíka tvífara úr þessum bókum og eflaust gætu einnig fjölmargir myndasögulesendur fundið í þeim ættingja sína og vini ef þeir eru nægilega opnir fyrir hugmyndinni. Í dag er því ætlunin að birta hluta af þessum samanburði og það er líklega réttast að byrja á fáeinum kunnum, íslenskum þjóðfélagsþegnum.

Og það er alveg kjörið að hefja leikinn á hæstvirtum forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Það er nefnilega ekki víst að margir hafi áttað sig á að Katrín á sér nokkuð kunnuglegan tvífara úr bókunum um Viggó viðutan. Þar er að sjálfsögðu um að ræða ritara, á hinni stórkostlega vel mönnuðu ritstjórnarskrifstofu teiknimyndablaðsins SVALS, sem hefur verið nefnd Sigrún í áðurnefndum myndasögum en hún er reyndar nafnlaus í upprunalegu bröndurunum úr SPIROU tímaritinu. Þær Katrín og Sigrún eru svo sem ekkert sláandi líkar en það er samt einhver ákveðinn svipur sem sjá má á mörgum af þeim augnablikum sem Sigrúnu bregður fyrir í bókunum.

Og úr því að SVEPPAGREIFINN er byrjaður að seilast inn í helstu innanstokksmuni ríkisstjórnarinnar er ekki úr vegi að grípa næst til Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra og skoða hvaða myndasögupersónu hann hefur að geyma. Tvífari Bjarna fannst í Lukku Láka bókinni Einhenta bandíttanum og heitir Dolli Dobbl en sá náungi ku ekki vera á meðal þeirra allra skörpustu í skúffunni. Dolli Dobbl er skósveinn fjárhættuspilara nokkurs (sá er reyndar aldrei nefndur á nafn í sögunni) sem hann þjónar dyggilega sem afar undirgefinn og hraðskreiður reiðskjóti. Jafnvel svo hraðskreiður að sjálfur Léttfeti þarf að játa sig sigraðan gegn honum. Þeir tvífararnir Bjarni Ben og Dolli Dobbl eiga reyndar fátt sameiginlegt annað en útlitið.

Það er best að halda aðeins áfram með Íslendingana. Sá næsti kemur að vísu ekki úr Stjórnarráðinu en hann átti sér þó lengi drauma um frama og starfsvettvang á þeim slóðum. Og á kannski enn. Þetta er að sjálfsögðu vörubílstjórinn snaggaralegi Sturla Jónsson en hann á sér tvífara, líkt og Katrín Jakobsdóttir, úr myndasögunum um Viggó viðutan. Tvífari Sturlu er að sjálfsögðu ein af lykilpersónunum úr þeim bókum og þar er auðvitað um að ræða hinn eldrauðhærða Júlla í Skarnabæ. SVEPPAGREIFINN verður reyndar að viðurkenna, af því að hann er svo ómannglöggur, að hann áttar sig ekki vel á hvort Sturla sé eða hafi verið rauðhærður í gegnum tíðina. En í það minnsta er hárgreiðsla þeirra Sturlu og Júlla mjög sambærileg.

Sá sem er næstur á blaði hyggur ekki á frama í stjórnmálum eftir því sem SVEPPAGREIFINN best veit en hann hefur á undanförnum árum og jafnvel áratugum helst verið viðriðinn fjölmiðla en einnig sprell ýmiskonar og nú síðast kvikmyndaleik. Auðunn Blöndal á sér tvífara úr Sval og Val bókinni Sprengisveppnum en sá náungi tilheyrir glæpasamtökunum alræmdu - Þríhyrningnum. Tvífari Audda er svo sem ekkert mjög hátt settur innan samtakanna, ef marka má einkennisnúmer hans innan þeirra, en hann gengur jafnan undir nafninu Nr. 18. Náunginn er nokkuð vel hærður en sömu sögu er víst ekki hægt að segja um Auðunn þó hann hafi haft þokkalegan hárlubba á þessari gömlu mynd hér fyrir neðan. Það er kannski rétt að geta þess að Nr. 18 var sprengdur í loft upp, á lokablaðsíðu bókarinnar, ásamt meginþorra meðlima glæpasamtakanna Þríhyrningsins.

Úr listaheiminum kemur píanóleikarinn og tónlistargagnrýnandinn Jónas Sen sem margir kannast eflaust eitthvað við. Jónas á sér austurlenskan tvífara sem birtist einnig í Sval og Val bókinni Sprengisveppnum líkt og vinur okkar hér fyrir ofan. Þessi náungi, sem reyndar skartar ekki gleraugum líkt og Jónas, kemur aðeins fyrir á einum myndaramma snemma í sögunni þar sem hann tjáir sig við tollstarfsmann flughafnarinnar í Kotyo í Japan um vestræna ósiði.

Eftir að hafa krufið nokkrar íslenskar eftirlíkingar til mergjar er kominn tími til að sjá hvað stjörnur af erlendu kyni hafa fram að færa í þessa fánýtu myndasöguumfjöllun. Fyrstan úr þeim hópi skal auðvitað nefna breska tónlistarmanninn Robbie Williams en margir telja hann bera sterkan ættarsvip hinna alræmdu Dalton bræðra úr Lukku Láka bókunum og þá sérstaklega Jobba litla. Reyndar eru þeir Daldónar ekki alltaf jafnlíkir sjálfum sér og hin mismunandi útlit þeirra fara svolítið eftir grimmd þeirra hverju sinni eða heimsku. Í Lukku Láka bókinni Mömmu Döggu rakar Jobbi af sér yfirvaraskeggið og á einni myndanna, þannig útlits, nær hann Robbie Williams alveg sérstaklega vel. Það má eiginlega vart sjá hvor þeirra er líkari, Robbie eða Jobbi!

Og síðan eru auðvitað fáeinir knattspyrnumenn sem eiga einnig tilkall til nokkurra sögupersóna teinimyndasagnanna. Úrúgvæski fótboltakallinn Edinsons Cavani á sér heldur betur tvífara í Lukku Láka bókinni Apasagjánni þar sem hann og Patrónímó höfðingi Kímikúrrí-Apasa eiga sér töluverða útlitslega samsvörun. Strangt til tekið er þetta algjörlega sami maðurinn.

Næstur á blaði er enski knattspyrnumaðurinn Harry Kane. Hans hliðarsjálf kemur frá símaverkfræðingnum bjartsýna Toggi Tól sem margir þekkja auðvitað úr Lukku Láka bókinni Söngvírnum en hann leikur eitt af aðalhlutverkum þeirrar sögu. Kane mætti kannski tileinka sér aðeins meira hina óhóflegu jákvæðni og bjartsýni Togga en útlitslegu líkindin með þeim félögunum eru töluverð þó ekki séu þeir reyndar neitt nauðalíkir. Myndirnar af þeim hér fyrir neðan hafa þó töluverða samsvörun þar sem þeir eru báðir að klóra sér í hausnum yfir einhverju.

Og sá síðasti í þessari upptalningu er senegalski knattspyrnumaðurinn Sadio Mane sem einhverjir muna eflaust eftir af fótboltavöllunum í Englandi. Í Tinna bókinni Kolafarminum kemur fyrir svartur náungi sem þeir Tinni og Kolbeinn hafa nýverið bjargað úr lest í skipinu Ramónu sem þeir hafa náð völdum á. Þessi náungi, sem reyndar er ekki nefndur á nafn í Kolafarminum, tilheyrir hópi frelsaða þræla en hann þykir lifandi eftirmynd knattspyrnumannsins afríska. Af útliti hans að dæma er ekki nokkur vafi á því að hér sé mættur nákominn forfaðir Mane eða frændi.

Það er aldrei að vita nema SVEPPAGREIFINN gefi sér tíma, einhvern tímann í framtíðinni, til að finna fleiri myndasögupersónur sem eiga sér hliðstæðar eftirprentanir úr raunheimum. Þetta snýst víst aðallega um að hafa augun hjá sér.