29. júní 2018

65. Í TILEFNI HM - BALDVIN VEITVEL

Enn er Heimsmeistaramótið í knattspyrnu innblástur SVEPPAGREIFANS fyrir færslu dagsins og allt er það vegna þátttöku íslenska landsliðsins á mótinu sem reyndar lauk á þriðjudaginn var. Liðið stóð sig frábærlega á sínu fyrsta HM og voru í raun óheppnir að ná ekki að hala inn aðeins fleiri stigum í riðlinum. Næsta mál á dagskrá er hin nýja Þjóðardeild sem fer fram í haust með leikjum gegn Belgíu og Sviss og síðan verður dregið í riðla fyrir næstu undankeppni EM í byrjun desember. Nóg að gera alveg.

En viðfangsefni Hrakfara og heimskupara að þessu sinni er flaggskip þeirra myndasagna sem komu út á íslensku og fjölluðu um knattspyrnu. Þar er auðvitað um að ræða hið stórkostlega fyrirbæri Fótboltafélagið Falur sem SVEPPAGREIFINN fjallaði eilítið um hér. Eða öllu heldur einn af leikmönnum þess - Baldvin Veitvel. Reyndar skal það tekið fram að fagurfræðilega eru myndasögurnar um Fótboltafélagið Fal óttalegt rusl en skemmtanagildi þess er hins vegar óumdeilanlega í hæsta gæðaflokki. Ja ... eins langt og það nær.
Öll vitum við, alla vega þau okkar sem fylgjast eitthvað með knattspyrnu, að fótboltinn gengur út á meira heldur en aðeins það að hlaupa á eftir bolta, sparka í hann endrum og sinnum og að koma honum öðru hverju í þar til gert mark. En til þess að sú aðferð gangi enn betur er ekki úr vegi að innan liðsins séu einstaklingar sem hugsi eilítið. Það er þó ekki alltaf sjálfgefið. Stundum er talað um (þá líklega sérstaklega á meðal anti-sportista) að knattspyrnumenn séu yfirhöfuð ekkert sérlega gáfaðir. Það er að öllum líkindum ekki alveg rétt en jú, líkt og á öðrum vettvöngum eru þeir auðvitað til sem kalla ekki allt ömmu sína í lágmarkssöfnun greindarvísitölustiga. Við þekkjum það vandamál alls staðar í þjóðfélaginu, á meðal tónlistarfólks, fjölmiðlafólks, stjórnmálamanna og svo framvegis. Á sama hátt er líka til bráðgáfað fólk á sams konar áðurnefndum vettvöngum og það gildir auðvitað einnig um knattspyrnumenn. Allir muna til dæmis eftir hinum leggjalanga, brasilíska knattspyrnu- og stórreykingamanni Socrates sem var ekki bara menntaður barnalæknir heldur líka með doktorsgráðu í heimspeki. Hann þótti með eindæmum gáfaður af fótboltamanni að vera. En eins og áður segir ætlar SVEPPAGREIFINN að einblína aðeins á knattspyrnumanninn Baldvin Veitvel hjá Fótboltafélaginu Fal. 
Reyndar fer svolítið tvennum sögum af gáfum Baldvins Veitvel. Í bókunum virkar hann ákaflega gáfaður en líklega má að einhverju leyti rekja það til samanburðarins við aðra leikmenn liðsins. Það skín nefnilega svolítið í gegn að þeir séu fæstir neitt sérstaklega skarpir. Liðið er reyndar byggt svolítið upp á staðalímyndum og þar má til dæmis finna groddann í vörninni (Fauta fant), lata Suður Ameríska sóknarmanninn sem hugsar bara um hárið á sér (Marínó-Marínó Sólbrendó), vængmanninn (Þröst, hann er jú, með vængi) og heila liðsins (Baldvin Veitvel) sem hér er til umræðu. En bæði fremst og aftast í bókunum um Fótboltafélagið Fal má finna kynningar á helstu stjörnum og starfsmönnum félagsins. Þar má lesa eftirfarandi texta um stræðfræðinginn Baldvin Veitvel:
Sem skipuleggjandi er hann einfaldlega frábær. Eitt sinn fyrir langa löngu nánar tiltekið þegar ísöld ríkti, var hann lánaður til Knattspyrnuklúbbs Grenivíkur, og lék þar af mikilli snilld. Þessi glimrandi tvífætlingur vekur þó kvíða með mönnum vegna mikillar nákvæmni. Hann er með skegg sem fær hann til að líta út eins og lærðan vísindamann. Þótt Baldvin telji sig gáfaðan fram úr hófi verður hann líklega að teljast sá einni þeirrar skoðunar. Í hverju skrefi reiknar hann út hvað gerast muni næstu 5 mínútur leiksins.
Þrátt fyrir að hafa augljóslega margt fram yfir aðra leikmenn liðsins, hvað gáfur varðar, er Baldvin þó ekki endilega í uppáhaldi hjá þjálfara liðsins. Það má að einhverju leyti rekja til ákveðins skorts á gagnkvæmum skilningi beggja aðila. Í það minnsta á köflum. Baldvin notar gjarnan svolítið flókin hugtök eða jafnvel formúlur til að skýra sín sjónarmið en þolinmæði þjálfarans eða almennt skilningsleysi hans (sem er reyndar í takt við aðra leikmenn liðsins) hjálpar ekki til. Líklega má einfalda þetta með þeim útskýringum að Baldvin Veitvel sjái leikinn ekki með alveg sömu augum og aðrir og þar af leiðandi skilur þjálfarinn hann ekki. Þetta skilningsleysi kallar á, oftar en ekki, smávægilega árekstra.
En samband þeirra Baldvins og þjálfarans (sem kemur reyndar frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar) er þó oft líka þess eðlis að það ber árangur. Þar kemur að vísu heimska annara leikmanna liðsins aðeins við sögu því að Baldvin virðist á köflum vera sá eini sem skilur hvað þjálfarinn er að fara með fyrirmælum sínum. Í fyrsta leik tímabilsins (í bókinni Fótboltafélagið Falur á heimavelli), gegn Glímufélaginu Hármanni, lendir liðið illilega undir og staðan er 14-0 fyrir gestunum þegar Baldvin tekur af skarið og minnkar eilítið muninn. Ástæðan var sú eina að hann skildi hvað þjálfarinn var að meina.
Og svo er það hin einstaka skottækni Baldvins Veitvel. Þar fara reyndar saman framúrskarandi hæfileikar við að sparka í bolta annars vegar og hins vegar áðurnefndar gáfur hans. Þessir tveir eiginleikar hans nýtast augljóslega ansi vel saman. Í bókinni Falur í Argentínu (með viðkomu á Íslandi) má sjá gott dæmi um vel útfærða aukaspyrnu Baldvins í leik gegn Perú á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Þarna má sjá hvernig skottækni hans er nýtt til hins ítrasta með einföldu kvaðratrótaskoti. Það er líka gaman að sjá hvernig þýðandinn og knattspyrnuumboðsmaðurinn Ólafur Garðarsson leikur sér þarna með orðið "rótarskot." Það væri fróðlegt að sjá aðra leikmenn taka þessa skottækni Baldvins sér til fyrimyndar.
Þessa spyrnuhæfileika sína hefur Baldvin nýtt sér nokkuð í fleiri tilfellum á knattspyrnuvellinum og þeir henta augljóslega vel þar sem mjög erfiðar vallaraðstæður eru til staðar. Í undirbúningi liðsins fyrir Heimsmeistaramótið í Argentínu kemur Falur við á Íslandi og spilar til að mynda þar æfingaleik við KR. Eftir að hafa lent 0-1 undir, gegn Vesturbæjarliðinu, fá leikmenn liðsins þau óvæntu fyrirmæli í leikhléi um að fara að spila fótbolta og Baldvin Veitvel brýtur ísinn með stórkostlega hnitmiðuðu skoti. Með þessari spyrnu má sjá að hann er augljóslega einstakur skotmaður.
En þó Baldvin Veitvel virðist vera einstakur hæfileikamaður er hann þó ekki alveg fullkominn. Í bókinni Fótboltafélagið Falur á heimavelli æfir liðið vítaspyrnur en við þær framkvæmdir eru leikmönnum félagsins nokkuð mislagðar hendur (fætur) og spyrna boltum sínum ítrekað langt út fyrir leikvanginn. Svo mjög að þjálfarinn sér ekki annan kost en að láta þá æfa spyrnurnar með sérstökum bolta, áföstum snúru, til að tryggja það að hann skili sér aftur til leikmannanna. Við vítaspyrnu Baldvins má sjá að tækni hans er ekki óskeikul og ofurlítil reikniskekkja setur spyrnuna í töluvert uppnám.
Þegar rýnt er í menntun Baldvins kemur reyndar í ljós að líklega er hann ekki eins klár og af er látið. Garðyrkjuskólanám hans kemur á óvart og þessi óljósu sex ár hans í framhaldi af því gefur ekkert sérstaklega góð fyrirheit um mjög yfirgripsmikið nám. SVEPPAGREIFINN er reyndar svolítið forvitinn um hversu gamall hann var þegar hann hóf sína knattspyrnuiðkun. Annars er eiginlega eftirtektarverðast að rýna í hinn aðdáunarfulla lotningarsvip sem þeir liðsfélagar Baldvins, Fauti fantur og Þröstur, bera til hans á myndinni hér fyrir neðan.
Útlitslega minnir Baldvin auðvitað á Albert Einstein með blautt hár og hugmyndin um hinn gáfaða knattspyrnumann hefur eflaust átt að styrka þá ímynd. Og SVEPPAGREIFINN efast ekki um að margir af gáfuðustu einstaklingum seinni tíma hafi unnið í ísbúð á einhverju tímaskeiði ævi sinnar.

22. júní 2018

64. Í TILEFNI HM - TINNI OG FLEIRA SMOTTERÍ

Þá er einum leik íslenska landsliðsins á HM lokið og óhætt er að segja að úrslitin gegn Argentínu hafi verið umfram væntingar. Frábært jafntefli og gefur vonandi góð fyrirheit um framhaldið. Næsti leikur liðsins er síðan í dag gegn Nígeríu og hefst klukkan 15:00 en reikna má með að götur borgarinnar tæmist, öll starfsemi lamist og þeir landsmenn sem ekki áttu heimangegnt sameinist allir hér heima í andlegum stuðningi með liðinu. 

Og enn ætlar SVEPPAGREIFINN að tileinka færslu dagsins þátttöku Íslands á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Að þessu sinni ætlar hann eitthvað að býsnast við að reyna að böggla saman færslu sem hugsanlega gæti fjallað bæði um Tinna og fótbolta. En eftir töluverða eftirgrennslan virðist niðurstaðan sú að ekki sé þar beint um auðugan garð að gresja. George Remi, Hergé, höfundur Tinna bókanna var nefnilega ekkert sérstaklega duglegur við að tengja Tinna eða samferðamenn hans í sögunum við knattspyrnu enda svo sem ekkert sérlega mikið um tækifæri til þess. Vettvangur eða sögusvið Tinna sagnanna snerust jafnan um mun alvarlegri atburðarásir og þær voru yfirleitt nokkuð skýrt markaðar. Tinni stundaði einhverja leikfimi og jóga en hann spilaði ekki fótbolta.
Þegar Tinna tímaritið (Journal de Tintin) hóf göngu sína í Belgíu árið 1946 fóru hins vegar að gefast betri tækifæri hjá Hergé til að víkka sjóndeildarhringinn í myndasögunum og koma meira til móts við belgíska og franska æsku. Fyrstu árin var blaðið nokkuð fast í reipunum en smám saman stækkaði það og með tímanum varð það meira en bara myndasögutímarit. Efni þess varð sífellt fjölbreyttara og meira tengt ýmiskonar unglingamenningu sem sífellt var að ryðja sér meira til rúms en myndasöguþemað var þó alltaf mest áberandi. Reynt var að höfða til áhugasviðs sem flestra og ýmislegt skemmtilegt, eins og til dæmis íþróttaefni, fór snemma að birtast á síðum blaðsins þó það hafi ekki verið í mjög miklu magni. Stuttar greinar sem fjölluðu um hnefaleika, knattspyrnu og hjólreiðar birtust í blaðinu og strax í desember árið 1948 var þessi mynd Hergés, af Tinna að sparka í bolta, höfð með til að sýna efnisinnihald þeirra greina. 
Það var þó ekki fyrr en í 613. tölublaði Tinna blaðsins, þann 21. júlí árið 1960, sem knattspyrna birtist fyrst á forsíðu tímaritsins. Þar mátti sjá teikningu af franska knattspyrnumanninum Raymond Kopa í búningi liðsins Stade de Reims-Champagne í leik gegn Real Madrid en ekki kemur þó fram um hvaða leikmann var að ræða í búningi spænska liðsins. Liðin höfðu mæst á Neckarstadion í Stuttgart í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða (sem seinna varð Meistaradeild Evrópu) vorið 1959 en þar var reyndar engan Raymond Kopa að finna. Kopa hafði hins vegar spilað með Stade de Reims í fyrsta úrslitaleik keppninnar árið 1956 þegar liðið mætti einnig Real Madrid. Síðarnefnda félagið var algjört yfirburðarlið í Evrópu á þessum árum og vann til að mynda keppnina fyrstu fimm árin sem hún var haldin.
Það er reyndar önnur saga og eins og svo oft áður er SVEPPAGREIFINN kominn langt út fyrir upphaflega efnið. Tinna tímaritið gekk í gegnum ýmsar útlits- og nafnabreytingar á þeim rúmlega 40 árum sem það var að koma út en í grunninn var þetta þó alltaf sama blaðið. Árið 1963 hófu að birtast, á síðum blaðsins, myndasögur eftir franska listamanninn Raymond Reding sem fjölluðu um knattspyrnuhetjuna Vincent Larcher. Sú hetja varð nokkuð vinsæl og birtist í nokkrum tilvikum á forsíðum blaðsins á næstu árum en alls komu líka út átta myndasögur með kappanum í bókaformi. Og undir lok 8. áratugarins skapaði Reding síðan nýja knattspyrnuhetju í myndasöguheiminn en sá nefndist Eric Castel og varð gríðarlega vinsæll. Alls komu út fimmtán sögur með Eric Castel sem allar komu einnig út í bókaformi og líklega kannast einhverjir íslenskir myndasögunördar við þessa miklu hetju þótt ekki hafi hann verið gefinn út hér á landi. Í það minnsta man SVEPPAGREIFINN, einhverra hluta vegna, eftir honum úr barnæsku. Ætli það komi ekki úr norsku Sølvpilen blöðunum eða hinum dönsku Fart og tempo sem stundum var hægt að nálgast hér á landi?
Á 8. áratugnum fór Tinna tímaritið að breytast meira í hefðbundið unglingablað og með tímanum urðu forsíður þess meira undirlagðar af ljósmyndum og helstu fótboltahetjur þeirra ára, Pele, Johan Cruyff, Gerd Müller, Franz Beckenbauer, Michel Platini og Maradona, fóru að sjást þar. Alls birtust 23 forsíður Tinna tímaritsins með myndum sem tengdust knattspyrnuíþróttinni á einhvern hátt. Sú síðasta (þann 12. júní árið 1984) var tengd EM 84 og hún var ekki af verra taginu. Þarna fékk nefnilega fótboltafélagið Falur að njóta sín í fyrsta og eina sinn.
Tinni sjálfur birtist þó ekki aftur við þá iðju að sparka í bolta í tímaritinu. Myndin sem Hergé notaði til að merkja þær greinar sem fjölluðu um íþróttir, og sjá má hér ofar í færslunni, var þó uppfærð reglulega. Á árunum 1978- 80 var Tinni nokkrum sinnum pimpaður upp í mismunandi litaða búninga og myndinni þá oftar en ekki skellt með sem aukamyndum á forsíður tímaritsins. Þær áttu augljóslega að leggja áherslu á hið sérstaka knattspyrnutengda innihald blaðsins í hvert skipti.
Svo var til ein heldur stærri og betri útgáfa af myndinni en þó var ekkert verið að eyða of miklu púðri í endurbætur - aðeins bætt við nokkrum flýjandi andstæðingum (væntanlega þá vondu köllunum) sem hlaupa í ofboði undan skothörku Tinna. Og takið eftir ... Tinni er kominn í búning Ungmannafélagsins Heklu, sambærilegum þeim sem félagið spilaði í 3. deild Íslandsmótsins árið 1978!
Og svo hafa netverjar margir hverjir verið duglegir við að lita og birta sínar eigin útfærslur af myndinni. Hér er til dæmis eitt dæmi um slíkt.
En þar sem Hergé var svo upptekinn við að láta Tinna eyða tíma sínum í eitthvað annað en að sparka í bolta, ólíkt til dæmis Franquin með Viggó viðutan, þá sér SVEPPAGREIFINN ekki annan kost í stöðunni en að leita í smiðju annara listamanna til að finna eitthvað bitastætt. Og þá liggur beinast við að kíkja aðeins á verk franska götulistamannsins Dran. Sá gaur er ansi skemmtilegur á köflum og verk hans oftar en ekki ádeila á samtíma siðmenningu þar sem hann gagnrýnir hverskyns mótsagnir í neyslusamfélagi nútímans. Dæmi um það er til dæmis frábær, kaldhæðnisleg mynd hans af Jesús Krist og Jólasveininum í slagsmálum. Dran hefur verið nokkuð duglegur við að setja Tinna inn í verk sín en þessi fótboltatengda mynd hæfir þó best viðfangsefni dagsins hér á Hrakförum og heimskupörum.
Þarna má sjá hinar hugprúðu og drenglyndu aðalpersónur Tinna bókanna, dregnar úr stöðum sínum sem helstu fyrirmyndir evrópskar æsku, og settar í hlutverk belgískra slagsmáladurga að berjast við sambærilegar enskar fótboltabullur. Kolbeinn er að sjálfsögðu með viskí flösku að vopni og meira að segja prófessor Vandráður tekur þátt í ólátunum. Aðeins Tobbi virðist sleppa við að taka þátt í vitleysunni.

Þetta er líklega ein sú allra innihaldslausasta færsla sem birst hefur hér á Hrakförum og heimskupörum frá upphafi og þó er af mörgu að taka.

15. júní 2018

63. Í TILEFNI HM - AÐEINS MEIRA UM VIGGÓ

Færsla dagsins er í styttri kantinum en aðra vikuna í röð er hún tileinkuð þátttöku íslenska landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hófst í gær. Fyrsti leikur Íslands á mótinu fer einmitt fram á morgun þegar sjálfir Argentínumenn, með Lionel Messi í broddi fylkingar, mæta til leiks í Moskvu. Og líkt og í síðustu viku leitast SVEPPAGREIFINN við að finna fótboltatengda myndasögubrandara í bókunum um Viggó viðutan. En SVEPPAGREIFINN var sem sagt, einu sinni sem oftar, að fletta í gegnum bókina Viggó hinn óviðjafnanlegi (Le Géant de la gaffe - 1972) og fann þar einn af þessum bröndurum Franquins á blaðsíðu 41. Einn myndarammi brandarans bauð hreinlega upp á að verða birtur hér en á honum hoppar knattspyrnuáhugamaðurinn Viggó hæð sína í loft upp, með viðeigandi öskrum, eftir að mark hafði verið skorað í leik sem hann var að hlusta á. Í talblöðrunni í upprunalegu útgáfunni öskrar Viggó reyndar að Gulli hafi skorað en í ljósi þeirra séríslensku aðstæðna, sem þjóðin er að njóta um þessar mundir, sá SVEPPAGREIFINN sér ekki annað fært en að breyta nafni Gulla í Gylfa! Vonandi fyrirgefur bókaútgáfan Iðunn það.
Viggó hinn óviðjafnanlegi var einmitt gefin út hjá Iðunni árið 1978 í þýðingu Jóns Gunnarssonar og á þeim árum var enginn Gulli að gera einhverjar rósir í íslenskum fótbolta, hvorki með landsliðinu né félagsliðunum. Þetta Gulla-nafn er því væntanlega skáldskapur alveg frá grunni en gæti líka hugsanlega hafa verið einhver vinur eða ættingi þýðandans sem hann hefur viljað stríða eða heiðra. Í dag hefði Jón alveg pottþétt sett nafn Gylfa í brandarann.

En afgangur færslunnar er heill brandari úr bókinni Viggó á ferð og flugi (Un Gaffeur Sachant Gaffer - 1969), sem Iðunn gaf út á árinu 1982, þar sem þeir Viggó og Snjólfur sinna áhugamálum sínum á lymskulegan hátt í vinnutímanum. ÁFRAM ÍSLAND!

8. júní 2018

62. Í TILEFNI HM - MARKVÖRÐURINN VIGGÓ

Það er hvorki meira né minna en HM sumar framundan. Og það sem meira er, veislan er bara rétt handan við hornið og hefst núna eftir aðeins tæplega viku. Fimmtudaginn 14. júní hefjast nefnilega fyrstu leikirnir (og vonandi enda þeir líka!) en á laugardaginn þann 16. er komið að einni stærstu stund íslenskrar íþróttasögu þegar landslið Íslands í fótbolta spilar sinn fyrsta leik á lokakeppni HM sem að þessu sinni fer fram í Rússlandi. Það eitt að komast á HM er virkilega RISASTÓRT. Liðið spilaði síðasta æfingaleikinn fyrir HM í gærkvöldi og leggja svo af stað til Rússlands á morgun. Algjör veisla yfirvofandi með leikjum gegn Argentínu, Króatíu og Nígeríu en draumurinn væri að þetta yrðu bara fyrstu þrír leikir Íslands á mótinu. Og af því að SVEPPAGREIFINN, sem er fullur tilhlökkunar eins og væntanlega 99% þjóðarinnnar, er bæði mikill áhugamaður um bæði myndasögur og fótbolta ætlar hann í tilefni tímamótanna að láta myndasögufærslur næstu vikna snúast um þessa frábæru íþrótt.
Og þetta er ekki flókið. Þó ekki sé reyndar um mjög auðugan garð að gresja um fótboltatengdar myndasögur þá var belgíski listamaðurinn og snillingurinn André Franquin einna duglegastur við það, í bókunum með Viggó viðutan, af þeim seríum sem voru að koma út á íslensku. Það verður því Viggó viðutan sem heldur uppi heiðri íslenska landsliðsins að þessu sinni með nokkuð eftirtektarverðu framlagi sínu til knattspyrnuíþróttarinnar.
Reyndar hefur SVEPPAGREIFINN aðeins komið inn á fótboltatengda teiknimyndasögu áður en þá fjallaði hann lítillega um eina staka uppáhaldsmynd úr bókinni Viggó hinn óviðjafnanlegi og um það má lesa hér. En byrjum á að kíkja á brandara um fótbolta á blaðsíðu 28 í bókinni Hrakförum og heimskupörum (Gaffes Bevues et Bou Lettes) sem kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1979. Hann kom upphaflega fram í tímariti SPIROU númer 1802 þann 26. október árið 1972 og telst vera Viggó brandari númer 740.
Þó það komi hvergi nákvæmlega fram má geta sér til um að þarna sé á ferðinni einhvers konar áhugamanna- eða bumbuboltalið sem að miklum hluta er skipað starfsmönnum tímaritsins SVALS. Sjálfsagt þekkja einhverjir lesendur til sambærilegra fótboltaliða hér á landi sem hafa verið að leika sér í neðstu deild Íslandsmótsins eða Utandeildinni og að hafa lent í vandræðum vegna manneklu. Þannig hefst brandarinn á ritstjórnarskrifstofunni þegar markvarðarforföll liðsins uppgötvast og samstarfsfélagarnir eru að vandræðast með hvernig leysi eigi vandamálið. Viggó er strax nefndur sem eini kosturinn og þeir Eyjólfur og Snjólfur fara ekki leynt með skoðanir sínar eða áhyggjur af hæfileikaskorti hans í markinu. Fyrirfram virðist liðstyrkur Viggós í markinu afar takmarkaður og ákvörðun félaganna um markvarðavalið er því augljóslega ekki tekin af faglegri getu hans!
Til gamans má kannski geta að SVEPPAGREIFINN minnist þess að hafa einmitt tilheyrt sambærilegu fótboltaliði (það hét Stjörnulið Ingvars) í kringum aldamótin síðustu en það lið var einmitt að dunda sér í Utandeildarkeppninni snemma á laugardagsmorgnum. Einhverju sinni var liðið vængbrotið eftir djamm kvöldsins á undan og tilfinnanlegur leikmannaskortur gerði það að verkum að aðeins voru 8 liðsmenn Stjörnuliðsins mættir þegar dómarinn flautaði til leiks. Á meðan andstæðingarnir voru önnum kafnir við raða inn mörkum, hjá fáliðaðri vörn Stjörnuliðsins í upphafi leiks, þá voru tveir eða þrír leikmanna liðsins með farsíma sína við að hringja inn mannskap til að reyna fullmanna liðið. Og það var auðvitað á sama tíma og þeir voru á fullu við að reyna að verjast miklu fjölmennari andstæðingunum inni á vellinum. En þetta var útúrdúr.

Þessi brandari með Viggó er hins vegar frábær eins og Franquin er von og vísa. Fyrir leikinn reyna kvíðafullir liðsfélagar Viggós að gefa honum honum góð ráð en í rauninni reynir aldrei almennilega á markmannshæfileika Viggós á vellinum. Eftir að leikurinn er byrjaður hefur hann sjálfur mestar áhyggjur af því að verða of kalt. Þá kemur sér vel að hafa tekið með sér svolítinn nestisbita. Og einu mistökin sem hann gerir inni á vellinum tengjast því eiginlega eldamennskunni!
Hugmyndin um markvörð sem hefur með sér þrjár kókflöskur í poka og þorsk í ananas til að hita á prímus við hliðina á markinu er eiginlega of fyndin til að láta sér detta það í hug. Líklega hefði enginn annar en snillingurinn Franquin getað fengið slíka hugmynd og hvað þá að geta komið henni svona listilega vel á framfæri á myndasöguforminu. Og brandarinn er engan veginn fyrirsjáanlegur. Þessar frábæru teikningar gera það líka að verkum að það er tiltölulega auðvelt að setja sig í spor Viggós og upplifa kringumstæðurnar. Hann stendur í markinu, er hrollkalt og líklega er alveg hægt að setja sig í þau spor hans að langa í eitthvað heitt og gott til að ná úr sér hrollinum. Þó að upphitaður þorskur í ananas væri reyndar ekki alveg það fyrsta sem kæmi upp í hugann. SVEPPAGREIFINN hefði til dæmis alveg látið sér nægja kaffibolla og ristað brauð með osti. Aðstæðurnar minna á vorleiki á gamla Melavellinum sáluga með grindverkinu í kring og fáeinir áhorfendur sjást hnappast þar saman í skjóli fyrir aftan markið hans. SVEPPAGREIFINN man þó ekki að hafa heyrt á það minnst að einhver hafi reynt að fela markið í reyk á Melavellinum í gamla daga. En það er alla vega hægt að fullyrða að Viggó hafi þarna farið hamförum í markinu.

Og ef við kíkjum á annan fótboltatengdan brandara, er Viggó aftur mættur í markið hjá knattspyrnuliði vinnufélaganna á ritstjórnarskrifstofunni. Þessi Viggó brandari er númer 789 og birtist fyrst í SPIROU blaði númer 1863 sem gefið var út þann 27. desember árið 1973 en kom út í íslenskri þýðingu í bókinni Viggó hinn ósigrandi (Le gang des gaffeurs) árið 1979. Að þessu sinni fer litlum sögum af áhyggjum liðsfélaganna vegna meintra takmarka Viggós inn á milli stanganna en þeim mun meira eru þeir að velta sér upp úr vallaraðstæðunum sem virðast ekki upp á marga fiska.
Óhætt er að segja að aðstæður til knattspyrnuiðkana séu af afskaplega skornum skammti á vellinum að þessu sinni og hæðnislegar athugasemdir Viggós séu því fyllilega verðskuldaðar. Augljóslega er búið að rigna vel dagana á undan og pollurinn í markteignum fyrir framan mark Viggós kæmi líklega að betri notum við fiskeldi. Og þótt félagar hans reyni að beina athygli hans að leiknum með góðum ráðum þá er augljóslega erfitt að einbeita sér að því að spila fótbolta þegar vallaraðstæður eru slíkar.
Enn fær hugmyndaflug Franquins að njóta sín. Og það er ekki bara að gerast með þessum ótrúlega fyndnu teikningum sem draga fram mjög framandi kringumstæður við ómögulegar aðstæður. Heldur eru það þessi litlu smáatriði í teikningum listamannsins sem SVEPPAGREIFINN er svo hrifinn af. Við þekkjum hreyfingarnar og svipbrigðin hjá persónunum en það eru líka litlu aukahlutirnir sem fylla upp í myndina sem einkenna svo stíl Franquins. Rennblautur völlurinn bíður að sjálfsögðu upp á hið augljósa, þ.e. froska og endur!
Það eru til fleiri fótboltatengdir Viggó brandarar en Franquin teiknaði einnig fullt af stökum myndum/bröndurum sem voru að birtast á víð og dreif í SPIROU tímaritinu á þessum árum. Eins og við höfum séð gegndi Viggó iðulega hlutverki markvarðar í þessu liði vinnufélaganna og það er einkennandi hversu oft veður eða veðurtengdar aðstæður hafa haft áhrif á afrek hans á knattspyrnuvellinum. Veðrið hefur þó ekki endilega alltaf áhrif á völlinn sjálfan í bröndurunum þó oft verði aðstæðurnar augljóslega erfiðar. Hér fyrir neðan má sjá tvær stakar myndir úr SPIROU blaði númer 1808 sem kom út þann 7. desember árið 1972. Á fyrri myndinni má sjá hvernig vindurinn sér um að grípa húfu Viggós og beinir um leið athygli hans, í hita augnabliksins, eilítið frá mikilvægari málefnum. Reyndar verður að viðurkennast að tilþrif Viggós, við að skutla sér á eftir húfuræflinum, eru í hæsta gæðaflokki og í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til bestu markvarða heimsins. 
En þar með eru kostir augnabliksins upptaldir. Lipurlegar hreyfingar Viggós eru nefnilega ekki í neinu samræmi við þá atburðarás sem er í gangi í nágrenni marksins. Þessi mynd hefur ekki birtst í bók um Viggó sem komið hefur út í íslenskri þýðingu.

Og ef við skoðum hina myndina er það enn veðrið sem er að hafa áhrif. Hér rignir heldur betur á viðstadda og að sjálfsögðu hefur Viggó orðið sér úti um regnhlíf til að verjast verstu atlögunum. Undir flestum eðlilegum kringumstæðum myndi hún þó líklega teljast fremur óvenjulegur og óhefðbundinn markmannsbúnaður. Varúðarráðstafanir hans með regnhlífina eru þó fyrst og fremst hugsaðar sem fyrirbyggjandi, því eins og hinn Viggó hugsar með sér, "... Ef ég kvefast, hver á þá að verja markið fyrir þá?" Þarna er nokkuð athyglisverður punktur á ferðinni hjá Viggó. Hann spyr, hver eigi að verja markið fyrir þá. Sem bendir til þessa að hann líti fyrst og fremst á liðið sem lið félaga sinna. Að hann sé ekki hluti af því sjálfur og sé þarna eingöngu til redda þeim í markvarðahallærinu. Fyrirliðinn Eyjólfur er þó lítið að velta fyrir sér þann möguleika að Viggó gæti kvefast en hefur einhverra hluta vegna meiri áhyggjur af meintu áhugaleysi og athyglisbrest hans og öskrar hástöfum varnaðaröskur.

Og það virðist alveg sama hversu mikið rignir - Eyjólfur er alltaf með gleraugun.

1. júní 2018

61. GEORGE RE-MI

SVEPPAGREIFINN er alltaf jafn forvitinn en það gerir það auðvitað að verkum að hann er alltaf öðru hvoru að grúska í spjallsíðum alvöru myndasögunörda. Og þar kennir ýmissa grasa. Tinnafræðingarnir eru ansi margir og fróðleikurinn sem veltur upp úr mörgum þeirra getur verið býsna áhugaverður og skemmtilegur á köflum.

Allir þeir sem áhuga hafa á Tinna bókunum þekkja söguna um Vandræði Vaílu Veinólínó. Í grófum dráttum er söguþráðurinn á þá leið, að Kolbeinn kafteinn snýr sig illa um ökklann rétt um það leyti sem Næturgalinn frá Mílanó, Vaíla Veinólínó, kemur í heimsókn að Myllusetri ásamt fríðu föruneyti sínu. Meiðsli kafteinsins gera það að verkum að þeir Tinni geta ekki flúið af vettvangi og stungið af til að forðast yfirgang Vaílu. Kolbeinn situr því uppi með gesti sína, algjörlega þvert gegn vilja sínum. Á meðan á heimsókn Vaílu og fylgifiska hennar stendur þarf píanóleikari hennar Ívar Eltiskinn að æfa sig löngum stundum á flygilinn sem Vaíla hefur látið flytja tímabundið að Myllusetrinu. Og á þeim stundum sem Ívar er að æfa sig geta lesendur bókarinnar fylgst með hljómum píanósins með þar til gerðum nótum efst á hverri mynd.
En alla vega á nokkrum stöðum í bókinni Vandræði Vaílu Veinólínó (á blaðsíðum 43 til 44 og 50 til 53) er hægt að sjá þessar nótur Ívars. Megin tilgangurinn er auðvitað sá að sýna lesendum hvernig píanóleikarinn þarf að eyða mörgum tímum á dag við misáhugaverðar fingraæfingar á nótnaborðinu en það er ekki auðvelt að túlka tónlist á annan hátt í teiknimyndasögu. Þannig liggur auðvitað beinast við að sýna bara nóturnar til skýringar. En þessar nótur hafa reyndar mun meiri merkingu en hægt var að sjá fyrirfram í fljótu bragði. Einn af sérfræðingum teiknimyndasagnanna hefur bent á skemmtilegan og leyndan orðaleik sem höfundur Tinna bókanna, Hergé, virðist hafa laumað inn í söguna. Kannski er rétt að minna lesendur fyrst á hið rétta nafn Hergés en hann hét í rauninni Georges Remi. Listamannsnafnið Hergé stóð sem sagt fyrir fangamarki hans RG sem borið er fram á franska vísu sem Hergé.
Þessi áðurnefndi Tinna fræðingar hefur bent á að svo virðist sem Hergé hafi laumað ættarnafni sínu, Remi, inn í nóturnar við fingraæfingarnar á afskaplega lúmskan hátt sem Re-Mi. Það er svo sem ekki flókið. Ívar spilar einfaldlega tónstigann við æfingarnar og auðvitað kemur Re Mi þar við sögu.
Snjallt eða kannski bara tilviljun og sennilega einnig svolítið langsótt en líklegt er að fæstir unnendur Tinna bókanna séu að velta sér upp úr því að fara að lesa nótur í teiknimyndasögu. Flestir sjá þetta bara sem aðferð höfundarins við að túlka tónlist á myndrænan hátt.
Þetta sést á þó nokkuð mörgum myndum í Vandráðum Vaílu Veinólínó en hér eru bara fáein dæmi...
En í það minnsta má alla vega hafa gaman að hugmyndinni.