Margir hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að mæra Þorstein heitinn Thorarensen fyrir einstakar þýðingar sínar á þeim teiknimyndasögum sem Fjölva útgáfan sendi frá sér á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Það lof á fullkomlega rétt á sér og líklegt að hinar bráðskemmtilegu þýðingar hans og Loft Guðmundssonar hafi átt stóran þátt í vinsældum þessara bókmennta á sínum tíma. Tinna bækurnar, Ástríkur og Lukku Láki voru þær helstu sem Fjölvi gaf út og sagan segir að Þorsteinn hafi gjarnan kryddað þýðingar sínar eilitið og jafnvel farið út fyrir upprunalega handritið með töluverðu skáldaleyfi á köflum. Það eitt gerir bækurnar líklega enn meira spennandi því hætt er við að í seinni útgáfum þessa bóka verði búið að ritskoða þessar skemmtilegu útfærslur. Margir vilja jafnvel meina að eitthvað af þessum bókum séu enn betri í íslensku útgáfunum heldur en frumútgáfunum á frönsku. Þetta gildir sérstaklega um Ástríks bækurnar. Og svo virðist einnig að orðbragð eða öllu heldur blótsyrði Kolbeins kafteins hafi verið sérstaklega vel útfærð hjá þeim Þorsteini og Lofti.
Orðbragð Kolbeins er svo sem ekkert sem SVEPPAGREIFINN hefur heillast neitt sérstaklega af í gegnum tíðina. Ekki eins og svo margir virðast gera. En í fáein skipti hefur hann léð máls á Tinna bókunum við ýmsa aðila og oftar en ekki hafa fyrstu viðbrögð viðkomandi verið eitthvað á þessa leið; "já, hann Kolbeinn kafteinn er alveg frábær með blótsyrðin sín!" Og í kjölfarið hefur fylgt með einhverjar beinar vísanir eða frasar úr Tinna bókum sem viðkomandi hefur lagt á sig að læra. "Kuðungar og krókbognir kolkrabbar og kolbláir krókódílar!" eða "Fari það í milljón makríla og sjö billjón sardínur!" eru dæmi um það. SVEPPAGREIFINN er greinilega svo leiðinlegur að honum hefur aldrei fundist þetta neitt fyndið. Honum fannst Tinna bækurnar skemmtilegar á allt öðrum forsendum.
Blótsyrði Kolbeins eiga auðvitað fyrst og fremst að lýsa karakter hans og óhefluðum sjómannskjafti en þar kemur einnig drykkjuskapur hans töluvert við sögu. Seinna í bókaflokknum róast reyndar kafteinninn heldur og þegar hann festir kaup á Myllusetrinu má eiginlega segja að í besta falli fækki verstu blótstilfellunum hans. Skammaryrði Kolbeins eru ein af einkennum seríunnar þó kafteinninn hafi reyndar ekki komið til sögunnar fyrr en í níundu bók hennar. Í íslensku útgáfunni fóru þeir Loftsteinn því þá leið að heimfæra þýðingar sínar upp á rammíslenskan sjávarútveg og siglingar. Á Wikipedia síðunni um Kolbein kaftein má lesa eftirfarandi texta: Þegar Kolbeinn var kynntur til sögunnar á
fimmta áratugnum var það viss áskorun fyrir Hergé að skrifa talmál persónunnar.
Þar sem Kolbeinn var sjómaður vildi Hergé að hann talaði með nokkuð skrautlegu
orðbragði en Hergé var ekki leyft að leggja kafteininum nein blótsyrði í munn
þar sem bækurnar áttu að höfða til barna. Lausnin kom þegar Hergé mundi eftir
atviki frá árinu 1933, stuttu eftir að fjögurra velda sáttmáli var undirritaður
milli Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Ítalíu. Hafði Hergé þá heyrt
kaupmann nota orðið "fjögurraveldasáttmáli" sem fúkyrði. Fékk hann
því þá hugmynd að láta Kolbein nota framandi og furðuleg orð sem væru í raun
niðrandi en hann hrópaði þó af ofsa eins og þau væru grófustu blótsyrði. Þetta
varð brátt eitt eftirminnilegasta persónueinkenni
Kolbeins. Og þar með er það þá staðfest að hin óhefluðu og grófu blótsyrði kafteinsins eru þá bara alls engin blótsyrði!
Myndasögurnar
um Tinna eru líklega þær einu, sem komið hafa út á íslensku, þar sem
ljótt (eða ekki) orðbragð fær virkilega að njóta sín á venjulegan læsilegan hátt -
ef svo má að orði komast. Í mörgum myndasögum hafði snemma myndast sú hefð að fylla talblöðrurnar af myndefni sem hæfði viðkomandi reiðilestri og lesandinn var því laus við að þurfa að lesa ljótu orðin. André Franquin var til
dæmis algjör snillingur í slíkri myndrænni framsetningu. Í hans útfærslum má oftar
en ekki sjá hnefa á lofti, sprengingar, eldingar, hnífa, svín og
jafnvel kínversk tákn.
Hvað sem þau eiga að tákna. Þarna gat lesandinn sjálfur ímyndað sér
orðbragðið og sett sig inn í hugarheim blótandans án þess að þurfa að
lesa þau beint orð fyrir orð. Og auk þess er myndræna útfærslan miklu
heilbrigðari og skaðminni fyrir lesendahópinn sem er oftar en ekki börn
og unglingar.
Í öllum þeim sögum og bröndurum sem Franquin teiknaði voru ógrynni karaktera sem notuðu þessa hentugu útfærslu af blótsyrðum þar sem við átti. Reyndar var líka hefðbundið en mildara bölv haft í og með til uppfyllingar. Hendingar eins og "Hvert þó í hoppandi!" og "Hver þremillinn!" sem flestir kannast við voru auðvitað algengastar en í verstu tilfellunum fengu myndrænu útgáfurnar líka að fljóta með. Margar þeirra persóna sem komu fyrir í Viggó bókunum höfðu ríka þörf fyrir þessa tegund útrásar gagnvart aðalsöguhetjunni og í bókunum um Sval og Val eru einnig mörg tilefni til óheflaðs orðbragðs.
Og þeir sem tóku við keflinu af Franquin, með bækurnar um Sval og Val, voru einnig margir duglegir við að viðhalda þessari skammaryrðahefð. Fournier notaði þessa útfærslu af blótsyrðum seinna í sögunum sínum og það sama má segja um tvíeykin Nic og Cauvin annars vegar og hins vegar þá Tome og Janry. Þetta breyttist hins vegar þegar Morvan og Munuera tóku við Sval og Val seríunni. Í þeirra höndum breyttust sögurnar meira og þróuðust meira út í raunsæisstíl en listamenn sem vildu láta taka sig alvarlega teiknuðu auðvitað ekki skrípó-blótsyrði í talblöðrurnar sínar. Það sama gilti um Yoann og Wehlmann þegar þeir tóku við.
Þessi útgáfa blótsyrða er í raun stórsniðug og frávikið með sögurnar um Tinna skýrist væntanlega af því að grunnur þeirra bóka er töluvert eldri. Það var einfaldlega ekki búið að þróa eða útfæra hina sniðugu blótsyrðablöðru á þennan hátt þegar Hergé teiknaði megnið af sínum sögum. Reyndar fann SVEPPAGREIFINN eitt dæmi í bókinni um Kolafarminn þar sem Hergé notaði hið myndræna form og það dæmi kom honum algjörlega í opna skjöldu. Í því tilfelli hefur Kolbeinn líklega verið í alveg sérstaklega slæmu skapi.
Seinna hefur Hergé líklega þótt of mikil stílbreyting að láta persónurnar í Tinna bókunum allt í einu að fara að bölva á myndmáli. Auk þess sem karakter Kolbeins kafteins gekk hreinlega út á það að blóta á almennilegu mannamáli. En það er ekki bara í myndasögunum um Tinna og Sval og Val sem sögupersónurnar blóta. Í mörgum þeirra bóka, sem við þekkjum hér uppi á Íslandi, er þessi mannlegi ósiður daglegt brauð og í flestum þeirra tilfella hafa höfundarnir tileinkað sér hina myndrænu framsetningu. Hver listamaður hefur auðvitað sín einkenni og persónulega stíl við sköpun blótsyrðanna og svo nota þeir þau ekki allir á sama hátt. Ef
maður hefði alveg sérstaklega mikinn áhuga á myndrænum stílbrögðum í
blótsyrðum þá væri tæknilega hægt að leggja sig fram við að þekkja útfærslur
viðkomandi listamanna. Það verður reyndar að taka það fram að SVEPPAGREIFINN er ekki einn af þeim.
Af öðrum myndasöguseríum sem við þekkjum má nefna að Berck
og Cauvin (sá hinn sami og samdi örfá handrit að Sval og Val fyrir
teiknaranum Nic) notuðu þetta myndræna bölvunarform í Samma bókunum og
Peyo kryddaði einnig allar sínar seríur með þeim. Þó lítur ekki út fyrir að hann hafa notað þessi blótsyrði á sama hátt í öllum seríunum. Í bókunum um Steina sterka virðist sem að gamla konan Grímhildur (sú grimma) sé sú eina sem blóti almennilega í seríunni. En víst verður að taka tillit til þess að hún er jú vélmenni og svolítið óheflaðri í framkomu heldur en fyrirmynd hennar - Grímhildur góða. Og sé rýnt aðeins í hina myndrænu blótútfærslu Peyo er athyglisvert að sjá að hann virðist hafa verið svo djarfur að nota sjálfan hakakrossinn í þessum fyrrnefndu sögum.
Og bæði í Ástríks og Lukku Láka bókunum blóta menn (og konur) á þennan hátt. Þeir Aðalríkur og Óðríkur er mest áberandi úr fyrrnefnda bókaflokknum en það er helst Jobbi Daltón sem lætur til sín taka í villta vestrinu. Reyndar er Léttfeti líka svolítið að bölva í myndaformi og í flestum tilfellum tengist það hundinum Rattata. Annars virðast allir vera svolítið óheflaðir í Lukku Láka seríunni en í bókinni um Vagnlestina fær ein af eftirminnilegustu aukapersónunum, Skralli Skrölts, að bölva og blóta um alla söguna eins og enginn sé morgundagurinn.
Aðrir listamenn eru öllu hógværari í aðgerðum sínum með þessa myndrænu framsetningu. Líklega er blótað í öllum myndasögum en í sumum þeirra, líklega helst þeim sem höfundarnir vilja láta taka sig alvarlega, láta aðalsöguhetjurnar sér nægja að bölva á venjulegu mannamáli. Hinar dönsku Goðheima bækur eru til að mynda algjörlega lausar við þessar útfærslu, einnig sögurnar um Yoko Tsúnó og hið sama má segja bæði um blaðamanninn Frank og Alex hinn hugdjarfa. Þá kemur það skemmtilega á óvart að franski listamaðurinn Tabary virðist ekki hafa tileinkað sér þessa tækni í bókunum sínum um stórvezírinn Fláráð. En eins og flestir ættu að vita er Fláráður líklega sú persóna myndasagnanna sem á við hvað mesta skapgerðarbresti að etja og er um leið líklega bæði sú illgjarnasta og hvað verst innrætt. Þetta er skapvondur og undirförull náungi sem heldur reglulega reiðilestra, fulla af illgirnislegum hótunum með sadísku ívafi, yfir samferðamönnum sínum. SVEPPAGREIFINN renndi snögglega í gegnum þær bækur sem hann á með hinum illa innrætta stórvezir en eins ólíkt það hljómar þá blótar hann aldrei.
Jæja, nóg komið af fánýtum fróðleik ...