29. apríl 2022

204. ÓVÆNTUR GORMS FUNDUR

Færsla dagsins þennan föstudaginn er stutt og snaggaraleg. En hún fjallar um óvæntan fund SVEPPAGREIFANS í Góða hirðinum, á myndasögutengdu efni, sem rak þar á fjörur hans. Hann reynir að kíkja þar reglulega við til að sjá hvort hann rekist ekki á eitthvað sem hann vantar en það er reyndar afskaplega misjafnt hvort eitthvað bitastætt finnist þar lengur. Svo virðist sem þessar helstu myndasögur séu alveg hættar að sjást þar en það er helst að afgangar á borð við; Alex, Frosta og Frikka, Frank og Á víðáttum vestursins villist upp í hillur þess Góða. Meira að segja bækurnar um Hin fjögur fræknu eru eiginlega alveg hættar að sjást þar. Þær fáu myndasögur um Tinna, Sval og Val og Lukku Láka sem berast til Sorpu virðast fara beint í vefverslun Góða hirðisins þar sem auðveldara er að rukka hærra verð fyrir þær. Framboðið á gömlu teiknimyndasögunum hefur því klárlega minnkað enda hafa þeir sem hafa áhuga á þessum bókum verið duglegir að safna þeim á síðustu árum. Þessar myndsögur eru einfaldlega að klárast.

En svo SVEPPAGREIFINN víki aftur að því sem hann ætlaði að fjalla um í þessari færslu þá er það ekki á hverjum degi sem hann rekst á myndbandsspólu (VHS) með Gormi, talsettri á íslensku, í Góða hirðinum. En eina slíka rak á fjörur hans á dögunum. Spólan, sem virðist aldrei hafa verið spiluð, lítur út fyrir að vera gefin út af fyrirtæki sem nefnist Medio og SVEPPAGREIFINN virðist ekki finna neinar upplýsingar um. Það skal reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN er langt frá því að vera alvitur um það myndefni sem kom út hér á landi tengdum belgísk/frönsku myndasögunum en hann er þó þokkalega meðvitaður um mjög margt af því. Sjálfur átti hann til dæmis sex til átta VHS spólur með Tinna (sem hann losaði sig við fyrir mörgum árum og dauðsér nú eftir því) og veit af bíómyndum með bæði Ástríki og Lukku Láka sem gefnar voru út á þessu sama formi. SVEPPAGREIFINN verður hins vegar að viðurkenna að hann hefur aldrei haft hugmynd um tilvist þessarar Gorms myndbandsspólu og hvað þá hvort þær gætu hugsanlega verið fleiri.

Spólan, sem kallast einfaldlega GORMUR, kom út árið 2000 og hefur að geyma þrjár sögur með íslensku tali sem nefnast Tískukóngurinn, Sirkusinn og Barnfóstran. Við nánari athugun kom reyndar í ljós að allar þessar þrjár sögur er að finna á YouTube og það er því langbest að skella þeim bara hér inn fyrir þá áhugasömu. Fyrst er það Tískukóngurinn en um hana segir aftan á spóluhulstrinu: Frægur fatahönnuður kemur til skógarins í leit að hugmyndum. Honum finnst Gormafeldurinn vel til fallinn í tískufatnað og reynir að handsama Gorminn. Leikurinn berst til borgarinnar, þar sem allt fer á annan endann.

Næst er það Sirkusinn: Síðasti sjálfstæði sirkusinn er í vandræðum. Dýrunum hefur verið stolið og sleppt lausum í skóginum. Gormurinn grípur til sinna ráða og setur upp stórkostlega sýningu til að bjarga málunum.

 

Og að lokum er Barnfóstran: Á ferð sinni um skóginn rekst gormafjölskyldan á lítinn dreng sem hefur stolist burt frá þeim sem átti að gæta hans. Gormaforeldrarnir eiga fullt í fangi með þennan ærslabelg en ungunum finnst hann frábær. Gormarnir hjálpa honum að finna foreldra sína sem hafa lent í ógöngum í skóginum.

SVEPPAGREIFINN man eftir teiknimyndaþáttunum með þeim Sval og Val sem sýndar voru á Stöð 2 um árabil og hugsanlega voru þar einnig sýndir sambærilegar þættir um Gorminn þó ekki minnist hann þess sérstaklega. Einhverjir yngri en miðaldra gætu kannski svarað þeirri spurningu betur. Þá væri einnig gaman að vita hvort myndasöguáhugafólk hafi almennt vitað af þessari vídeóspólu og um leið að reyna að átta sig á því hvort eða hversu vandfundin hún er. Í það minnsta fjárfesti SVEPPAGREIFINN í gripnum (fyrir 100 kall) og ætlar að leyfa sér að eiga hann í fórum sínum til lengri tíma þó líklega muni spólan aldrei verða sett í þar til gert tæki.

15. apríl 2022

203. GRÚSKAÐ Í GÖMLU PÁSKABLAÐI SPIROU

Þá er kominn föstudaginn langi og þar með er orðið ljóst að páskahelgin alræmda er gengin í garð. Og eins og stundum hefur gerst áður reynir SVEPPAGREIFINN að tengja færslu dagsins við einhver tilefni og í dag er því eðlilega komið að sérstakri páskatengingu. Páskablað belgíska myndasögutímaritsins SPIROU árið 1971 er því viðfangsefni dagsins en þetta blað skartaði sérstöku Franquin þema. Ekki tókst SVEPPAGREIFANUM reyndar að finna út af hvaða ástæðu var verið að heiðra Franquin einmitt á þessum tímapunkti en líklegt má þó telja að þar hafi verið að halda upp á að 25 ár voru þá liðin frá því að hann hóf að teikna þá félaga Sval og Val fyrir blaðið.

SPIROU blað þetta var númer 1721 í röðinni og kom út fimmtudaginn 8. apríl árið 1971. Tímaritið, sem að þessu sinni var hvorki fleiri né færri en 100 blaðsíður að lengd, var því troðfullt af efni helgað þessum frábæra listamanni. Og sem dæmi um það má nefna að fyrstu tuttugu blaðsíður Sval og Val sögunnar Tembo Tabou (Tembó Tabú) voru þarna birtar í fyrsta sinn í tímaritinu en þær tíu blaðsíður sem upp á vantaði var síðan dreift á næstu tvö tölublöð á eftir. Sagan hafði aðeins birst áður í dagblaðinu Le Parisien árið 1959 og var því í rauninni orðin tólf ára gömul þegar hún loksins komst á síður SPIROU tímaritsins en hún hafði þá heldur aldrei komið út í bókarformi. 

Þessi síðbúna birting gerði það að verkum að margir lesenda blaðsins, sem ekki þekktu til sögunnar, töldu Tembó Tabú glænýja og væri þar með síðasta Sval og Val sögu Franquins. Það var hún þó alls ekki. Sagan hafði bara einhvern veginn lent á milli og gleymst. En í þessu páskablaði SPIROU mátti til dæmis einnig finna tólf blaðsíðna grein um sögu og tilurð seríunnar um Sval og Val, í tíð Franquina, allt fram til þess dags sem Jean-Claude Fournier tók við honum. Þá voru í blaðinu ýmsar áhugaverðar greinar um listamanninn en auk þess var sögupersónum og tilvísunum úr myndasögum hans fléttað inn í sögur annarra höfunda blaðsins honum til heiðurs. 

En ein skemmtilegasta leiðin til að heiðra Franquin í þessu tölublaði SPIROU var sex blaðsíðna Sval og Val saga sem einmitt arftaki hans af seríunni, Fournier, hafði teiknað í tilefni tímamótanna. Sagan fjallar í stuttu máli um það að heima hjá þeim Sval og Val stendur mikið til, með töluverðum gestagangi, en tilefni er þó nokkuð óljóst til að byrja með. Ýmsar sögupersónur úr bókaflokknum flykkjast í heimsókn til þeirra félaganna og ýmislegt gengur á - enda flóra þessara persóna ansi margbreytileg. Þarna mæta auðvitað nafntogustu borgarar Sveppaborgar, helstu persónurnar sem komu fyrir í bókinni um Bretzelborg, olíufurstinn Ibn Maksúd og rússneski eðlisfræðingurinn Níkolaj Ínofskéff, svo fáeinir séu nefndir. En allar persónurnar sem koma fyrir í sögunni, fyrir utan íbúana frá Sveppaborg, komu úr sagnaheimi Franquins og birtust aldrei í þeim níu sögum sem Fournier teiknaði. Meira að segja Bitla kemur fyrir á síðustu tveimur blaðsíðunum en hana treysti Fournier sér aldrei að teikna almennilega inn í sínar sögur. Þess í stað skapaði hann nýja kvenpersónu sem kallaði Óróreu en hún kemur fyrir í nokkrum bóka hans. Það má reyndar alveg taka undir það álit Fourniers að hann hafi ekki getað teiknað Bitlu því hún er ekki vel heppnuð í þessari sögu. Og sömu sögu má einnig segja um aðrar persónur sem koma þarna fyrir. Íkorninn Pési er sögumaður myndasögunnar og birtist öðru hvoru á svart/hvítum myndarömmum þar sem hann skýrir jafnóðum frá þeim aukapersónum sem mæta og aðkomu þeirra að sögunum í seríunni. Það er ekki fyrr en á lokamyndinni sem Pési birtist síðan loks í lit.

Enn á ný freistast síðuhafi til að birta hroðvirkislega þýðingu af myndasögu sem hann hefur eflaust engan rétt á að birta en það er bara svo gaman að sjá gamalkunnar persónur og  umhverfi lifna við úr óskiljanlegu hrognamáli yfir í teiknimyndasögu á íslensku. Hin franska þýðing úr upprunalegu SPIROU útgáfunni vafðist að sjálfsögðu töluvert fyrir SVEPPAGREIFANUM en vonandi verður honum fyrirgefið það. Það létti því töluvert vinnuna þegar hann uppgötvaði söguna í hinni þýsku Sval og Val bók númer 0, Am anderen ende angst, sem er samansafn úr SPIROU tímaritinu af nokkrum stuttum Sval og Val sögum. Þýðingin er því unnin úr bæði frönsku og þýsku útgáfunni af sögunni, auk fáeinna frjálslegra dæma um skáldaleyfi, og endanlega niðurstaðan er því algjörlega samkvæmt því. Það er víst ekki á hverjum degi sem SVEPPAGREIFINN stelst til að birta heila sex blaðsíðna myndasögu með þeim Sval og Val á myndasögublogginu sínu en það eru nú einu sinni páskar og lesendur geta dundað sér við að skoða þetta í rólegheitunum ef þeir nenna.


Í lok sögunnar birtist síðan André Franquin sjálfur, klæddur eins og Viggó viðutan. Þar með kemur loksins skýringin á heimboði aukapersónanna til þeirra Svals og Val og þá um leið hver þessi HANN var en það þurfti nú svo sem engin geimvísindi til að átta sig á því. Franquin er hylltur sem hetja af karakterunum sem hann sjálfur skapaði og kjánahrollurinn nær hámarki, á lokamynd þessarar samhengissnauðu sögu, þegar stirðbusalegar sögupersónurnar stilla sér upp á kauðslega hátt fyrir framan hann. SVEPPAGREIFINN hefur aldrei farið í felur með dálæti sitt á hinum áreynslulausa teiknistíl Franquins og hefur því alltaf átt svolítið erfitt með sig þegar hann sér aðra listamenn teikna þær sögupersónur sem hann átti mestan hlut í að skapa. Í höndum Franquins höfðu þessar persónur allar yfir ákveðinni mýkt að bera sem aðrir teiknarar seríunnar virðast bara ekki geta leikið eftir. Það þarf ekki að nema bara að benda á Bitlu í sögunni hér fyrir ofan til að sýna fram á augljóst dæmi um það. Á meðan Franquin teiknaði hana eins og ljóshærða Birgittu Haukdal lítur hún meira út eins og dúkkan af Birgittu Haukdal hjá Fournier.


Hann vissi alveg sín takmörk þó hann hafi látið til leiðast í þetta sinn. Ef SVEPPAGREIFINN horfir framhjá þessari smámunasemi sinni þá viðurkennir hann alveg að það hafi verið skemmtileg hugmynd að heiðra Franquin með þessum hætti en saga Fourniers var þó kannski ekki alveg nógu góð. Auðvitað er hún bara sex blaðsíður að lengd en það hefði samt alveg mátt gera eitthvað töluvert betur. Þegar sagan var loksins gefin út í bókaformi (sbr. þýsku Am anderen ende angst útgáfuna sem minnst var á hér fyrir ofan) var hún pimpuð upp, endurteiknuð, hreinsuð og lituð öll upp á nýtt. Útfærslan hér fyrir ofan er hins vegar sú sem birtist í SPIROU blaðinu. En að lokum lætur SVEPPAGREIFINN fylgja með stutta sögu þar sem belgíski listamaðurinn Francis (Bertrand) heiðraði Franquin, á hæðnislegan en um leið skemmtilegan hátt, með einni blaðsíðu í tímaritinu. Hér stýrir leiðsögumaður lesendur og gesti í gegnum listasýningu þar sem helstu verk Franquins eru viðfangsefnin og meistaraverkið er að sjálfsögðu Viggó viðutan í hlutverki Mónu Lísu.


Og GLEÐILEGA PÁSKA!

1. apríl 2022

202. SMÁ FRÓÐLEIKUR UM BLÁSTAKK LIÐSFORINGJA

Í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS kennir ýmissa grasa líkt og margoft hefur komið fram í færslum hér á síðunni. Sumt af þessu efni hefur verið marglesið í gegnum tíðina af eiganda sínum (og reyndar fleirum) en annað hefur ekki fengið alveg jafn mikla athygli. Mest lesnu teiknimyndasögurnar eru að sjálfsögðu þær bækur sem voru vinsælastar á æskuárum síðuhafa en aðrar hafa fengið það hlutskipti að verða svolítið útundan. Jafnvel enn þann dag í dag. Þannig hefur SVEPPAGREIFINN frekar sökkt sér ofan í efni sem hann hefur sankað að sér á seinni árum erlendis frekar en að gefa sér tíma til að skoða hinar lítt lesnu bækur sínar frá síðustu öld. Reyndar eru alveg undantekningar á þessu. Bækurnar um Frank, Alex og Á víðáttum vestursins hafa til dæmis fengið sína augnabliks athygli en það hefur þá reyndar tengst umfjöllun um þær hér á síðunni. Því miður hafa fáar af þeim seríum, sem SVEPPAGREIFINN hefur gefið tækifæri á seinni árum, staðist væntingar og smekkur hans fyrir teiknimyndasögum telst því væntanlega jafn ófrumlegur og einhæfur og hann var í æsku. Það er því augljóslega erfitt að kenna gömlum myndasöguhundi (þ.e. SVEPPAGREIFANUM) að sitja. Ein af þeim seríum sem náðu til dæmis ekki að grípa hann eins vel, fyrir um fjörtíu árum síðan, voru bækurnar um Blástakk liðsforingja.
Reyndar komu ekki út nema þrjár sögur úr þessum bókaflokki á íslensku á sínum tíma (og ein í viðbót seinna) og líklega hefur sú rýra uppskera einnig haft eitthvað að segja. Þessar bækur þótti hinum unga SVEPPAGREIFA klárlega áhugaverðar en eitthvað varð samt þess valdandi að þær urðu útundan. Aldrei átti hann sjálfur þessar myndasögur í æsku en fletti þó í gegnum þær á þessum árum í gegnum kunningja sína. Þegar fyrstu tvær bækurnar komu út hjá Fjölva útgáfunni var hann í kringum tíu ára aldurinn og kábojleikir strákahópsins hafa því eflaust eitthvað verið litaðir af þessum sögum á tímabili. Sömu sögu má reyndar einnig segja um seríurnar Á víðáttum vestursins og MacCoy en ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess þó að Lukku Láka bækurnar hafi einnig verið tengdar þessum leikjum. Því hefur hann líklega kynnst bókunum um Blástakk liðsforingja eitthvað aðeins á undan Lukku Láka þótt ekki hafi þær þá hlotið varanlega náð fyrir augum hans. Þó hann hafi byrjað að lesa Lukku Láka frekar seint á myndasögulestrarferli sínum þá urðu þær fljótlega mjög uppáhalds. Bækurnar um Láka voru í léttari kantinum en Á víðáttum vestursins, MacCoy og Blástakkur voru hins vegar í raunsæisstílnum, með ljótum og groddalegum persónum og því töluvert drungalegri en hinar stórskemmtilegu bækur með Lukku Láka. Léttmetið var því augljóslega auðmeltanlegra fyrir hinn unga og einfalda SVEPPAGREIFA.
Í tengslum við þessa færslu dagsins tók SVEPPAGREIFINN sig til og hreinlega las þessar íslensku Blástakks bækur í fyrsta skipti síðan um 1980. Og það sem kom eiginlega skemmtilegast á óvart, við þann lestur, var það að þessar bækur voru hreint alveg ágætar - eins og hann hafði reyndar eitthvað rámað í. Auðvitað hefur hann þroskast töluvert frá því hann renndi yfir þessar teiknimyndasögur síðast, fyrir um fjörtíu árum, en það sem helst stóð upp úr við þennan lestur var hve einfaldar og léttar þær voru. Það hafði ekkert endilega orðið eftir í minningunni. Sögurnar gerast í villta vestrinu og í raun á sömu tímum og slóðum og Lukku Láka bækurnar. Og það sem kom honum einna helst á óvart var að það hefði hæglega verið hægt að gera skemmtilegar Lukku Láka bækur með handritunum upp úr þessum sögum. Það sem líklega truflaði SVEPPAGREIFANN helst í æsku var þessi alvörugefni raunsæisstíll sem hann náði aldrei neinni tengingu við.
Eins og var reyndar nokkuð algengt með þessar myndasögur, sem verið var að gefa út á Íslandi á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar, þá var það einn helsti gallinn á mörgum af þeim seríum hve fáar af bókum þeirra komu út hér. SVEPPAGREIFINN hefur margoft komið inn á það hér á síðunni hvað honum hefur fundist hvimleitt að reyna að komast inn í seríur þar sem aðeins örfáar bækur innan úr miðjum bókaflokknum voru í boði. Þannig voru litlir möguleikar á að byrja á áhugaverðum bókaflokki á sínum tíma án þess að verða sér úti um fleiri bækur úr seríunni á öðrum tungumálum. Sem fyrr segir voru aðeins þrjár af þessum Blástakks bókum gefnar út, á þeim árum á Íslandi, en í kringum 1980 taldi upprunalegi bókaflokkurinn orðið í kringum tuttugu bækur. Með texta aftan á þessum íslensku útgáfum mátti sjá afar villandi bókalista yfir þær Blástakks sögur sem Fjölvi var að gefa út en sá listi gaf einnig upp þrjár aðrar bækur í viðbót sem enn voru ekki komnar út á Íslensku. Þetta hefur án efa valdið einhverjum misskilningi hjá lesendum sem leituðu þessara þriggja bóka og SVEPPAGREIFINN minnist þess einnig sjálfur að hafa kíkt eftir þeim þegar hann hóf að eltast við Blástakks bækurnar í kringum aldamótin síðustu. Svo því sé komið á hreint þá voru þessar fyrstu þrjár bækur á listanum aldrei gefnar út á íslensku.
Fyrstu tvær Blástakks sögurnar, Týndi riddarinn og Á slóð Navajóa, komu út árið 1978 en síðan liðu fjögur ár áður en Stúlkan í Mexíkó var gefin út. Líklega hafa fyrrnefndu sögurnar tvær ekki selst vel, þrátt fyrir að myndasögur væru gríðarlega vinsælar á þessum árum, og því leið nokkur tími áður en Fjölva útgáfan réðst til útgáfu á næstu bók. Sú saga, Stúlkan í Mexíkó, náði líklega ekki heldur að heilla íslenska myndasögulesendur og því voru ekki fleiri Blástakks bækur gefnar út á vegum Fjölva. Aftan á Stúlkunni í Mexíkó var búið að breyta uppröðuninni á útgáfulistanum og í þetta sinn var bókunum raðað upp eftir nýrri séríslenskri útgáfuröð þar sem Týndi riddarinn var nú hafður efstur á blaði. Hinar þrjár óútgefnu sögur sem verið höfðu verið á lista bókanna sem gefnar voru út árið 1978 voru því alveg horfnar. Stúlkan í Mexíkó var í um sentimetra hærra broti, en hinar bækurnar tvær, en allar voru þær í vönduðum harðspjalda útgáfum. Það var að sjálfsögðu Þorsteinn heitinn Thorarensen sem hafði veg og vanda að þessum sögum líkt og svo mörgum af þeim vinsælu myndasöguseríum sem Fjölvi sendi frá sér en hann þýddi einnig þessar bækur.
En árið 2002 kom síðan út lítið, fimmtíu og tveggja blaðsíðna, hefti frá Nordic Comic útgáfunni sem hafði að geyma Blástakks söguna Gullnámu Þjóðverjans (Le mine de l'allemand perdu) í heild sinni í íslenskri þýðingu þeirra Hildar Bjarnason og Jean Posocco. Þetta hefti var í rauninni 9. tölublað hins skammvinna Myndasögublaðs Zeta, sem gefið var út af Nordic Comic, og var reyndar svanasöngur þess. Tæknilega myndi heftið Gullnáma Þjóðverjans þannig ekki skilgreinast sem teiknimyndasaga í bókarformi heldur sem hluti af tímaritsútgáfu. Heftið hafði að auki að geyma nokkrar auglýsingar og stutta tveggja síðna myndasögu um Lárus lánlausa (L'Élève Ducobu) sem einnig hafði birst reglulega í Zeta blöðunum þegar þeirra naut við. Þess má til gamans geta að blaðsíða úr þessari sögu var birt í Lukku Láka bókinni Allt um Lukku Láka, sem Fjölvi sendi frá sér árið 1978, en þar léku höfundar bókaflokkanna tveggja sér við að teikna hvor sína blaðsíðuna, úr seríunum hvors annars, með sínum eigin sögupersónum. Um það má lesa hér. Gullnáma Þjóðverjans mun vera heilmikið fágæti í dag þótt útgáfa heftsins sé ekki eldri en það er. Ekki er alveg ljóst hve upplagið af  Gullnámu Þjóðverjans var stórt en Zeta blöðin sjálf voru gefin út í þrjú til sex þúsund eintökum. Einhverjar slúðursögur segja að afgangnum af upplaginu hafi verið hent en slíkar samsæriskenningar virðast vera afar vinsælar þegar kemur að því að gráta glataðar myndasögur.
Þá verður að geta þess að fyrstu sextán blaðsíðurnar úr Gullnámu Þjóðverjans höfðu áður birst í 8. tölublaði Zetu tímaritsins árið 2001 en það var í raun síðasta tölublað hins eiginlega myndasögublaðs áður en það hætti útgáfu sinni. Útgáfa Gullnámu Þjóðverjans, sem var í töluvert minna broti en myndasögublaðið hafði verið, hefur því kannski verið hugsuð sem einhvers konar sárabót fyrir aðdáendur Blástakks þar sem það var orðið ljóst að sagan myndi ekki birtast frekar í Zeta blaðinu. Og svo má ekki gleyma að Blástakks sagan Arnarnef (Nez Cassé) birtist í íslenskri þýðingu í myndasögublaðinu NeoBlek árið 2014. Ekki hefur SVEPPAGREIFINN nægilega mörg tölublöð af því tímariti undir höndum til að geta sagt til um í hversu mörgum blöðum sú saga birtist eða hvort hún náði yfir höfuð að klárast þar. En í heildina er ekki ósanngjarnt að segja að fimm sögur, úr upprunalegu seríunni með Blástakki, hafi komið út á einhvern hátt hérlendis. 
 
En það var þann 31. október árið 1963 sem Blueberry birtist fyrst á sjónarsviðinu í sögunni Fort Navajo í franska myndasögutímaritinu Pilote. Heiðurinn af þessari nýju seríu áttu franski listamaðurinn Jean Giraud og belgíski handritshöfundurinn Jean-Michel Charlier en sá síðarnefndi hafði stungið upp á nýrri vestraseríu í raunsæisstíl, við René Goscinny aðalritstjóra Pilote til birtingar í blaðinu. Þegar Charlier hóf leit að listamanni til að teikna seríuna sína hafði hann fyrst samband við sjálfan Jijé (Joseph Gillain) en hann var einn fárra listamanna sem var jafnvígur á hina ýmsu teiknistíla og var þekktastur fyrir að skapa þá Sval og Val auk þess sem hann teiknaði Jerry Spring sem margir þekkja. Jijé var hins vegar skuldbundinn keppinautunum hjá SPIROU tímaritinu og stakk upp á Giraud, sem var reyndar sömu hæfileikum gæddur, og saman gerðu þeir Charlier síðan tuttugu og þrjár Blueberry sögur allt til ársins 1989 þegar Charlier lést. Giraud tók sér nokkurra ára hlé frá Blueberry, eftir lát Charlier, en hélt síðan áfram að teikna seríuna og hóf þá sjálfur einnig að semja handritin að sögunum. Hann reyndist mjög frambærilegur handritshöfundur, þegar til kom, þótt ekki næði hann alveg sömu hæðum og Charlier hafði gert. 
Þess má geta að Jijé kom reyndar aðeins að vinnu Blueberry sagnanna seinna og sýndi þar hversu mikill snillingur hann var. Jijé teiknaði bókarkápuna að fyrstu sögunni (Fort Navajo) og síðan sá hann einnig um, í fjarveru Giraud, að teikna blaðsíður 28-36 í 2. sögunni (Tonerre á l'Ouest) og blaðsíður 17-32 í 4. sögunni (Le Cavalier perdu) sem við þekkjum auðvitað sem Týnda riddarann á íslensku. Jijé var snillingur í að breyta til og tileinka sér nýjan stíl og nú er alveg tilvalið fyrir eigendur Blástakks bókarinnar Týnda riddarans að kíkja aðeins í hana og skoða hvort þeir sjái einhvern mun á þessum blaðsíðum sem minnst var á. Nokkrir fleiri listamenn komu einnig að ýmsum verkefnum að sögunum um Blueberry og þess má til gamans geta að franski listamaðurinn Yves Chaland sá um að lita Nez Cassé (Arnarnef) sem var sú 18. í útgáfuröðinni.
Fort Navajo sögunni lauk í Pilote þann 2. apríl árið 1964 og í september árið 1965 gaf Dargaud söguna fyrst út í bókaformi. Þann 30. apríl 1964 hóf því næst önnur sagan, Tonerre á l'Ouest, göngu sína í Pilote og hún kom síðan út sem bók í ársbyrjun 1966. L'Aigle solitaire hófst undir lok október '64 og þannig gekk þetta reglulega koll af kolli næstu árin þar sem yfirleitt kom út ein saga á ári. Upp úr árinu 1973 fór að teygjast svolítið meira úr útgáfunni þó sögurnar kæmu reyndar nokkuð reglulega út. Næstu árin einkenndust af útgáfuhrókeringum af ýmsu tagi, auk þess sem inn í söguna blandast einnig flókin og ruglingsleg réttindamál, sem eflaust höfðu einnig áhrif á útgáfusöguna. Síðasta eiginlega Blueberry sagan Apaches kom síðan út árið 2007 en hún er í raun nokkurs konar forsaga að hinum bókunum og gerist í Þrælastríðinu. Þó hún sé yngsta sagan hafa margir myndasöguútgefendur þó freistast til að færa hana fremst í útgáfuröð sína þannig að bækurnar raðist upp í tímaröð. Þannig er því til dæmis háttað í dönsku útgáfuröðinni, sem samanstendur reyndar af mörgum útgáfufyrirtækjum, þar sem Apaches var troðið fremst í bókaröðina og telst því Blueberry saga númer 0. Þegar Giraud lést árið 2012 hafði ekki komið út bók úr seríunni í fimm ár en lengi voru uppi sögusagnir um að hann hefði verið að vinna að sögu í tveimur bindum þrátt fyrir að sjónin hafi verið farin að svíkja hann síðustu árin. Lítið hefur þó verið upplýst opinberlega um þessa vinnu og aðdáendur bókaflokksins geta því aðeins lifað í voninni.
En myndasögurnar um Blástakk fjalla sem sagt um ameríska liðsforinginn Mike Steve Donovan, sem í daglegu lífi er kallaður Blueberry, en upphaflegu fyrirmyndina að honum sótti Giraud í franska kvikmyndaleikarann Jean-Paul Belmondo. Blueberry var aldrei til í raunveruleikanum en Charlier hafði þó, í einhverju flippi, skrifað grein um ímyndað æviskeið hans og birt með henni myndir sem gerði það að verkum að í áratugi töldu margir lesendur teiknimyndasagna að Blueberry hefði verið til í raun og veru. Blueberry sögurnar gerast að sjálfsögðu í villta vestrinu og Charlier fékk hugmyndir sínar og innblástur meðal annars úr bandarískri sögu og vestrakvikmyndum. Upphaflega hugmyndin var reyndar sú að skapa myndasöguseríu sem fjallaði almennt um virkið í Navajo og ýmis ævintýri tengdum því. En fljótlega þróaðist hún út í að Blueberry fékk þar einhvers konar aðalhlutverk og eftir fyrstu tvær sögurnar var ákveðið að nefna bókaflokkinn sjálfan eftir hans nafni. Lengi vel voru myndasögurnar um Blueberry þó merktar með undirtitlinum Fort Navajo, une Aventure du Lieutenant Blueberry hjá Pilote tímaritinu. 

Nafn Blueberry hafði komið til á þann hátt að handritshöfundurinn Jean-Michel Charlier hafði verið á ferðalagi um vestrið þar sem amerískur blaðamaður hafði verið honum samferða. Sá var afar hrifinn af bláberjasultu og lét það óspart í ljós þannig að handritshöfundurinn fór að lokum að kalla hann "Blueberry" í gríni. Charlier ákvað síðan löngu síðar að endurnýta þetta gælunafn sitt frá ferðafélaga sínum á hina nýju sögupersónu sína. Hann hafði þá enga hugmynd um að þetta kjánalega nafn myndi festast á einni af vinsælustu myndasögupersónum veraldar. Jean Giraud teiknaði Blueberry á þann hátt að hann varð eldri eftir því sem leið á bókaflokkinn en það var mjög óvenjulegt í myndasögum á þeim árum. Ástríkur, Svalur og Lukku Láki eru til dæmis búnir að vera jafngamlir allan sinn feril og Tinni eltist ekkert þau ár sem hans naut við. Sögurnar og hasarinn urðu einnig harðsoðnari eftir að Pilote tímaritið uppfærði sig árið 1968 og fór að einbeita sér að þroskaðri lesendahóp. Sögupersónurnar þroskuðust einnig og þróuðust, sem og teiknistíll Giraud, og áberandi útlitsbreytingar mátti greina á Blueberry sjálfum eftir því sem leið á bókaflokkinn. Serían náði fullum þroska í þeim sögum sem komu út á árunum 1970-75 en innan þeirra rúmast til dæmis bókin Stúlkan frá Mexíkó. Hverja Blueberry sögu má alveg lesa sem sjálfstæða en serían er samt þannig uppbyggð að fáeinar bækur mynda nokkrar sjálfstæðar heildir. Bókaflokkurinn hýsir því framhaldssögur en einnig eru inn á milli styttri eða stakar sögur. 
Um miðjan áttunda áratuginn komu einnig út nokkrar sögur í einhvers konar hliðarseríum um Blueberry. Þeir Charlier og Giraud unnu í fyrstu báðir að seríu sem fjallaði um Blueberry ungan (La Jeunesse de Blueberry) og aðra seríu með svipuðu efni skrifaði Giraud handritin að fyrir nýsjálenska listamanninn Colin Wilson. Aðrir tóku síðan seinna við keflinu af þeirri seríu og síðasta sagan í þeim bókaflokki kom út árið 2015. Og til frekari fróðleiks verður auðvitað einnig nefna að Giraud vann að fleirum sköpunarverkum en bara þeim sem tengjast Blueberry og þá undir dulnefninu Moebius. Af verkum Moebius má til dæmis nefna Inkal seríuna, sem Froskur útgáfa gaf út á árunum 2016-17, og margir þekkja. Þá má ekki gleyma Blueberry kvikmyndinni, Renegade frá árinu 2004, sem fékk víst alveg hræðilega dóma. Svo slæm þótti Renegade að erfingjar Jean-Michel Charlier kröfðust þess að nafn hans yrði fjarlægt úr henni og enginn virðist jafnvel amast við því þótt myndina megi finna í fullri lengd á YouTube. SVEPPAGREIFINN hefur ekki ómakað sig við að skoða þau ósköp en ætlar að láta trailer úr henni duga hér.
Alls eru sögurnar, úr upprunalegu bókaröðinni um Blueberry, tuttugu og níu en eins og áður var minnst á hefur engin bók í seríunni komið út síðan árið 2007. Það má því reikna með að síðasta sagan í Blueberry sagnaflokkinum hafi þegar verið gefin út. Hér má sjá allar bækurnar úr upprunalegu útgáfuröðinni og íslensku Blástakks sögurnar eru merktar innan sviga á listanum:
  1. Fort Navajo - 1963
  2. Tonerre á l'Ouest - 1964
  3. L'Aigle solitaire - 1964
  4. Le Cavalier perdu (Týndi riddarinn, Fjölvi - 1978) - 1965
  5. La Piste des Navajos (Á slóð Navajóa, Fjölvi - 1978) - 1965)
  6. L'Homme á l'etoile d'argent - 1966
  7. Le Cheval de fer - 1966
  8. L'Homme aux poing d'acier - 1967
  9. La Piste des Sioux - 1967
  10. Générale Téte Jaune - 1968
  11. Le mine de l'allemand perdu (Gullnáma þjóðverjans, Nordic Comic - 2002) - 1969
  12. Le Spectre aux balles d'or - 1969
  13. Chihuahua Pearl (Stúlkan í Mexíkó, Fjölvi - 1982) - 1970
  14. L'Homme qui valait 500.000 $ - 1971
  15. Ballade pour un cercueil - 1972
  16. Le Hors-la-loi - 1973
  17. Angel Face - 1975
  18. Nez Cassé (Arnarnef, NeoBlek - 2014) - 1980
  19. La Longue marche - 1980
  20. La Tribu Fantôme - 1982
  21. La Dernière carte - 1983
  22. Le Bout de la piste - 1986
  23. Arizona Love - 1990
  24. Mister Blueberry - 1995
  25. Ombres sur Tombstone - 1997
  26. Géronimo l'Apache - 1999
  27. OK Corral - 2003
  28. Dust - 2005
  29. Apaches - 2007
Þótt Blástakks bækurnar frá Fjölva hefðu aldrei selst í bílförmum á Íslandi og ekki virst mjög vinsælar, miðað við aðrar teiknimyndasögur sem hér voru í boði, þá áttu sögurnar sér aðdáendur hér á landi sem héldu tryggð sinni við kappann. Seinna, þegar yngstu myndasögulesendurnir voru vaxnir úr grasi, fóru margir af þeim að forvitnast betur um þessar bækur og urðu sér jafnvel úti um erlendar útgáfur af þeim og þá helst frá Danmörku. Þar í landi hafa Blueberry sögurnar alltaf verið mjög vinsælar og allar bækurnar úr upprunalegu seríunni hafa verið gefnar þar út en einnig fjöldi bóka úr hliðarseríunni um hinn unga Blueberry (Den unge Blueberry). Blueberry bækurnar hafa þannig verið endurútgefnar nokkrum sinnum í gegnum tíðina í Danmörku og sögurnar birtust auk þess, á árum áður, í vinsælustu myndasögublöðunum þar Fart og tempo, Jonah Hex og Zack. Hérlendis varð því seinna til nokkur aðdáendahópur sem heillaðist af þessum bókum og fleiri hafa stokkið á lestina eftir að hafa uppgötvað bókaflokkinn upp á nýtt með auknu aðgengi og þroska. En Blástakks bækurnar þrjár frá Fjölva er enn tiltölulega auðvelt að nálgast og með bara sæmilegri þolinmæði er ekkert mál að eignast mjög góð eintök fyrir nokkra hundrað kalla á nytjamörkuðum. Sumir, sem reynt hafa að selja þessar bækur á Facebook, hafa reyndar talið þessar myndasögur sjaldgæfar og reynt að selja þær dýrum dómum sem fágæti en svo er þó alls ekki. Nóg framboð er af þeim og SVEPPAGREIFINN rekst til dæmis reglulega á bækurnar í Góða hirðinum þar sem stykkið af þeim kosta einmitt aðeins nokkur hundrað krónur.