2. apríl 2021

188. TINNI OG SVALUR REITA SAMAN RUGLUM SÍNUM

Í gær var 1. apríl og í dag Föstudagurinn langi. Það er því við hæfi að bjóða upp á tengt efni í tilefni hins fyrrnefnda. En þeir Georges Prosper Remi og André Franquin, kannski betur þekktir sem myndasöguhöfundarnir Hergé og Franquin, voru miklir snillingar. Báðir voru þeir Belgar og tilheyrðu frábærum hópi listamanna sem voru í forsvari hvor svolítið fyrir sínum teiknistíl. Hergé var kunnur fyrir sinn þekkta hreinna línu stíl (ligne claire) en Franquin aðhylltist meira (ligne atome) sem bauð upp á mýkri línur og meiri hraða og læti. Þeir voru auðvitað samtímamenn, þó Franquin hafi verið talsvert yngri og Hergé hafi því verið fyrirmynd hans í upphafi ferilsins. Þeir voru reyndar báðir aðdáendur hvors annars og Hergé hafði sérstaklega miklar mætur á verkum Franquins. Og þar sem Hergé var eldri, var hann einnig nær þeim frumkvöðlum sem sköpuðu sjálfa myndasögulistina í upphafi. Franquin tilheyrði hins vegar nokkrum hópi listamanna, landa þeirra, sem sótt höfðu menntun sína, reynslu og stíl til Ameríku. Í þeim hópi voru einnig frábærir listamenn eins og Jijé, Morris og franski handritshöfundurinn Goscinny sem allir urðu frægir seinna fyrir verk sín. En í þessari færslu ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að fjalla um þá snillingana Franquin og Hergé velta sér eilítið upp úr sköpunarverkum þeirra á ýmsan hátt.
Það er eitt og annað forvitnilegt sem SVEPPAGREIFINN (og vafalaust líka einhverjir fleiri) hefur stundum velt fyrir sér varðandi þessa tvo snillinga. Hvernig hefðu til dæmis myndasögur þessara tveggja listamanna, Hergé og Franquin, þróast ef þeirra helstu afsprengi hefðu víxlast? Þá er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að meina hvernig myndasöguhetja Tinni hefði orðið í höndum Franquins og svo auðvitað á móti hvernig Svalur og Valur hefðu þróast hjá Hergé. Og úr því minnst er á sögurnar um Sval og Val þá má einnig nefna að enn áhugaverðara hefði auðvitað verið sjá Viggó viðutan í meðförum hans. Allt væri þetta að sjálfsögðu með stíl, húmor og hugmyndaflug listamannanna í huga. Það er svo sem tilgangslaust að vera að velta sér upp úr hlutum sem ekki er hægt að sannreyna en samt væri áhugavert að geta séð fyrir sér hvernig slík hlutverkaskipti hefðu gengið upp. Þó hugmyndin sé áhugaverð er SVEPPAGREIFANUM ekki kunnugt um hvort einhver lipur teiknari hafi reynt fyrir sér með þetta efni af einhverri alvöru.
Það er reyndar svolítið erfitt fyrir SVEPPAGREIFANN að sjá þá Sval og Val fyrir sér sem aðalsöguhetjur í myndasögu eftir Hergé. Þeir félagar hefðu líklega orðið ósköp flatir og óáhugaverðir í hans höndum enda var stíll Hergés heldur raunsæislegri og formfastari en Franquins. Það hefði þó ekki verið neitt við listamanninn sjálfan að sakast. Seríurnar eru einmitt mjög ólíkar og Tinna bækurnar eru svo frábærar vegna þess að það var Hergé sem teiknaði þær. En það er aftur á móti skoðun SVEPPAGREIFANS að Franquin hefði getað gert allt að gulli sem hann snerti. Tinni sjálfur væri þó væntanlega áfram frekar litlaus í höndum Franquins. Og líklega sæi maður hann frekar fyrir sér sem týpu með skapgerð Svals en með útlitið í ætt við Júlla í Skarnabæ. En margir af samferðarmönnum Tinna hefðu hins vegar getað orðið mjög áhugaverðir í meðförum Franquins. Bæði Kolbeinn kafteinn og prófessor Vandráður bjóða upp á ýmsa skemmtilega möguleika og eins hefði Vaíla Veinólínó vafalítið einnig fengið viðeigandi meðferð hjá honum. Þau eru öll nokkuð hressilegar týpur og Franquin hefði vafalítið pimpað þau, með sínum óreiðukennda stíl, enn betur upp en Hergé gerði. Þau hefðu jafnvel getað gengið upp í bröndurunum um Viggó viðutan. Hann hefði bara þurft að finna viðeigandi hlutverk fyrir þau þar.
Á sjötta og sjöunda áratuginum var útgáfa beggja stóru myndasögutímaritanna, Le Journal de Tintin og Le Journal de Spirou, í Belgíu í gríðarlegri uppsveiflu og vinsældir þeirra á hápunkti sínum. Þetta var á blómaskeiði fransk/belgísku teiknimyndasagnanna og þótt blöðin væru svarnir keppinautar á myndasögumarkaðnum þá ríkti samt ákveðin virðing þeirra á milli. Það voru til dæmis óskráð lög hjá þeim að sömu listamennirnir væru ekki að vinna fyrir bæði blöðin í einu, þó það kæmi alveg fyrir að fólk færði sig um set yfir á hitt blaðið frá báðum aðilum. Vorið 1965 kviknaði sú hugmynd, hjá fáeinum listamönnum sem störfuðu hjá blöðunum, að brjóta aðeins upp þessa stífu keppnisímynd þeirra og koma á sameiginlegu grínverkefni í tengslum við einmitt 1. apríl þetta ár. Þessi hugmynd gekk út á það að keppinautarnir tveir breyttu forsíðum sínum á þann hátt að þeir aðlöguðu sig að stíl og skipulagi hvors annars. Með öðrum orðum, útlitslega leit Le Journal de Tintin út eins og SPIROU og SPIROU leit út eins og Le Journal de Tintin þennan dag - 1. apríl árið 1965.
Tinna tímaritið var með brandara á sinni forsíðu sem svipaði til Viggós viðutans en um þetta leyti var SPIROU blaðið venjulega með hann á forsíðu sinni. Fyrir ofan brandarann var síðan blá skuggamynd af Sval. Uppsetningin á forsíðu SPIROU blaðsins leit hins vegar út eins og þá var dæmigert fyrir Le Journal de Tintin, stór heilsíðumynd í teiknistíl blaðsins og með miklum hasar. SPIROU gekk jafnvel svo langt að að breyta blaðahaus tímaritsins (sem sýnir lógó þess) og aðlagaði það að blaðhaus keppinautanna eins og það hafði litið út fáeinum vikum fyrr.
Og að öðru þessu tengt. Í SPIROU blaði númer 4078, sem kom út í júní árið 2016, var mikið af skemmtilegu efni og meðal þess var til dæmis upprifjun á aprílgabbi tölublaðsins sem komið hafði út þann 1. apríl árið á undan. Þar hafði birst myndasaga, um Sval, sem leit út fyrir að vera eldgömul og lesendum var talin trú um að hún væri eftir Rob-Vel. Aprílgabbið gekk út á það að þessi myndasaga hefði óvænt fundist og átti aldrei að hafa birst opinberlega áður en það var franski teiknarinn Fred Neidhardt sem átti heiðurinn að þessari fölsun. Í þessu sama blaði var einnig birt gabb sem sýna átti fram á að þeir Hergé og Franquin hefðu ætlað að ganga lengra með hinu áðurnefnda aprílgabbi frá árinu 1965. Sagan átti að hafa verið á þá leið að þá hefði langað til að birta, í blöðunum tveimur, einnar blaðsíðu sameiginlegan myndasögubrandara þar sem helstu söguhetjur listamannanna rugluðu saman reitum sínum. Listamennirnir tveir hefðu í sameiningu átt að hafa verið búnir að leggja drög að þessum brandara og rissa upp í blýantsformi en ennþá hefði þó verið eftir að fullteikna hann og lita. En ritstjórar tímaritanna tveggja hefðu hins vegar gert þann draum að engu og skotið hugmyndina niður strax í fæðingu. Ekkert hefði orðið úr þessum fyrirætlunum þeirra Hergé og Franquin og blýantsskyssurnar hefðu verið lagðar til hliðar og varðveittar í skjalasöfnum Dupuis útgáfunnar sem gaf út SPIROU blaðið.
Þetta var að sjálfsögðu allt saman haugalygi og blaðið með teikningum Hergé og Franquin hafði auðvitað aldrei verið til. Áðurnefndur Fred Neidhardt (sá sem gerði Rob-Vel fölsunina) sá einnig um að teikna þessar skyssur á nokkuð sannfærandi hátt og það heppnaðist líka svona ágætlega. Helstu persónurnar eru rissaðar upp, hver með sínum upprunalega teiknistíl, og þess var jafnvel gætt að söguhetjurnar væru ekki teiknaðar með sömu ritföngunum líkt og listamennirnir hefðu skipt með sér verkum. Gulnað límband átti meira að segja að auka á trúverðugleika teikninganna.
Það er rétt að taka það fram að þessi útfærsla af myndasögunni hér fyrir ofan hefur verið uppfærð með enskum texta og kemur af hinni frábæru vefsíðu spiroureporter.net. Sú síða hefur einmitt sérhæft sig í gegnum tíðina með fréttum af Sval á ensku. En eins og sjá má á hinum meinta brandara byrjar hann á því að óðamála Sveppagreifinn er í símanum að tala við Sval og segja honum frá því að stórhættulegum sveppum hafi verið stolið frá honum. Í miðjum klíðum hringir dyrabjallan hjá Sval og þar er sjálfur Tinni mættur og tjáir honum að þeir Rassópúlos og Zorglúbb hafi sameinað krafta sína með heimsyfirráð í huga. Þeir Svalur og Tinni þjóta þegar af stað til bjargar en er strax ljóst að þeir eru of seinir þegar risastór blaðra, með táknum þeirra Zorglúbbs og Rassópúlosar, blasir við þeim úti á götu. Skyndilega birtist hið ógnvænlega glæpapar fyrir aftan þá og hóta þeim því að blaðran muni springa og dreifa um andrúmsloftið gasi sem gerir alla jarðarbúa að hlýðnum þrælum þeirra. Hins vegar eiga báðir glæpamennirnir að vera svo uppfullir af mikilmennskubrjálæði að þeir fara að rífast og síðan slást yfir metingi um það hvor þeirra sé nú meiri glæpon! En ekki hvað?! Tinni og Svalur eiga því nokkuð hæg heimatökin við að afvopna félagana á fljótlega hátt en þá kemur auðvitað í ljós að þarna er um að ræða þá Flosa Fífldal og Viggó viðutan með grímur. Þá voru þeir með svona ansi líka skemmtilegt aprílgabb.
Þegar grannt er að gáð sést að þessi fölsun er svo sem ekkert stórkostlegt myndlistaafrek og augljóslega hefur ekki verið kafað mjög djúpt í metnað þess sem það innti af hendi. Fred Neidhardt hefur eflaust nýtt eitthvað af listhæfileikum sínum við verkið en skyssurnar eru þó að mestu byggðar á afritum af stökum myndum af sögupersónunum úr bókunum um þær. Sem dæmi um það ku myndin af Sval, þessi sem er lengst til vinstri í þriðju röð, vera byggð á myndaramma af blaðsíðu 20 úr hinni frábæru bók Neyðarkalli frá Bretzelborg. Úr sömu sögu eru einnig myndirnar tvær lengst til hægri úr efstu röð. Fyrri myndin, þar sem Svalur og Pési drífa sig til dyra, er byggð á ramma sem er efst á blaðsíðu 3 í áðurnefndri bók en hin myndin kemur af blaðsíðu 4 úr sömu sögu. Nú geta lesendur dundað sér við að leita uppi þessa myndaramma til að bera þá saman. Og ef þeir hafa nákvæmlega ekkert annað að gera geta þeir einnig dundað sér við að fletta í gegnum allar Sval og Val bækur Franquins og leitað að afgangum af myndunum. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar grun um að þær komi flestar úr þessari sömu bók - Neyðarkalli frá Bretzelborg. Þessi hugmynd er raunar stórskemmtileg en mest gaman væri þó ef einhver handlaginn teiknari tæki sig til og lyki hinu hálfkláraða verki. Það ætti varla að vera mikið mál að ljúka þessa vinnu sómasamlega þó þetta sé ekki alvöru Tinna eða Sval saga. Það breytir því ekki að það er gaman að sjá þá Tinna og Sval rugla saman reitum sínum jafnvel þó þurft hafi falsanir til.
 
En SVEPPAGREIFINN ætlar að ljúka þessari færslu með því að birta skemmtilegan brandara, eftir náunga sem kallar sig Ferrandez, þar sem hann sameinar hvorki meira né minna en þá Viggó viðutan og Tinna í stuttum myndasögubrandara í anda Viggós.
Þessi brandari kemur reyndar úr þekktri bók sem nefnist Baston, la ballades des baffes og fjallar um einhvers konar hliðarsjálf Viggós (Gaston) sem heitir Baston. Margir hafa eflaust heyrt talað um hina frægu Viggó bók númer 5 (R5) sem aldrei kom þó út hjá Dupuis vegna mistaka hjá útgáfufélaginu. Og í Sval og Val bókinni Furðulegar uppljóstranir (La jeunesse de Spirou), eftir þá Tome og Janry, er meira að segja stutt saga þar sem þetta týnda hefti kemur við sögu. En árið 1983 gaf Jacques Goupil útgáfan út grínútgáfuna um Baston sem átti að fylla í skarðið fyrir þessa týndu bók. Fjöldi kunnra teiknara komu að þessu verkefni en ýmsar skemmtilegar útfærslur af Viggó/Gaston (Baston) má finna í þessari safnbók. Baston, la ballades des baffes er einmitt í anda bókar, sem SVEPPAGREIFINN varð sér út um fyrir nokkrum árum í Sviss og segir frá andhetjunni Rocky Luke, og nefnist Banlieue West. Sú stórskemmtilega bók fjallar um hliðarsjálf Lukku Láka og var aðeins minnst á hana í þessari færslu hér. Kannski á SVEPPAGREIFINN eftir að kryfja þá bók aðeins við tækifæri seinna.
 
Já og gleðilega páska.