12. ágúst 2016

7. TINNI Í HINUM FJÓRU FRÆKNU

Einhverjir lesenda hérna hafa eflaust einhvern tímann haft eitthvað um Hin fjögur fræknu bækurnar að segja. En bókaútgáfan Iðunn gaf út þessar bækur undir lok áttunda áratugar síðustu aldar og fram undir þann tíunda. Ekki er SVEPPAGREIFINN reyndar neitt sérlega hrifinn af þeirri bókaseríu og heilt yfir finnst honum reyndar varla hægt að finna þynnri eða bragðdaufari súpu á myndasögumatseðlinum. En það geta hreinlega ekki allar myndasögur verið skemmtilegar og svo er smekkur fólks víst jafn misjafn eins og það er margt. Þrátt fyrir allt hefur SVEPPAGREIFINN þó lagt sig fram um að nálgast þessar bækur á jafnréttisgrundvelli við aðrar myndasögur sem komið hafa út á Íslandi. Hann á því stærstan hluta þess bókaflokks, einhversstaðar uppí myndasöguhillunum, af hreinni skyldurækni en enn vantar þó einhverjar bækur upp á.

Þessar sögur voru eftir teiknarann Francois Craenhals og handritshöfundinn Georges Chaulet sem báðir voru franskir en áður höfðu þó sögur Chaulets verið gefnar út af Casterman útgáfunni nokkrum árum fyrr. Fyrsta sagan í myndasöguflokknum hét Les 4 As et le Serpent de mer (Hin fjögur fræknu og sæslangan) og kom út árið 1964 en sama ár komu einnig út bækurnar Les 4 As et l'Aéroglisseur (Hin fjögur fræknu og loftfarið) og Les 4 As et la Vache sacrée (Hin fjögur fræknu og Búkolla). Íslenska útgáfuröðin er þó allt öðruvísi. Um síðastnefndu bókina ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að nöldra um að þessu sinni.
Bók þessi kom út í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar árið 1981 og skilur nú ekki mikið eftir sig. Þó hafa bæði áhugafólk og sérfræðingar bent á, að um það bil tíu fyrstu bækurnar í seríunni séu alls ekki svo slæmar. Þessi saga er númer 3 í röðinni en alls komu út 43 bækur út með Hinum fjórum fræknum og sú síðasta árið 2007.

En á blaðsíðu 36 í bókinni um Hin fjögur fræknu og Búkollu dregur til tíðinda í þessum undarlegu ævintýrum Hinna fjögurra frækna. Þar er Búffi reyndar einn á ferðinni um sveitavegi Frakklands, með "heilaga" kýr á röltinu, þegar grænleitur bíll, augljóslega í æðisgengnum bílaeltingarleik, með nokkrum þungvopnuðum bófum og misindismönnum brunar framhjá honum.
Það er víst alveg óhætt að segja að þessi illmenni kalli ekki allt ömmu sína, eins glæpamannslega sem þeir líta út. Og augljóslega við öllu búnir, þar sem þeir allir, fyrir utan bílstjórann, eru vopnaðir hríðskotabyssum í viðbragðstöðu og með allan vara á sér. Búffi hneykslast eitthvað á aksturslagi glæpamannanna og augnabliki seinna birtist sjálfur Tinni, á rauðum sportbíl, í alveg kolvitlausum bókaflokki. Og auðvitað er Tobbi ekki langt undan. Eftir að SVEPPAGREIFINN hafði rýnt í myndirnar af Tinna, fór hann að velta fyrir sér hvort höfundar bókarinnar hefðu ekki örugglega fengið leyfi Hergés eða útgáfufélags Tinnabókanna um að fá að nota hann í sögunni. 
Tinni er teiknaður í bókinni á óaðfinnanlegan og lítarlausan hátt og SVEPPAGREIFINN fannst jafnvel ástæða til að hrósa teiknaranum Francois Craenhals fyrir hve vel hefði tekist til með að teikna hann. Það er nefnilega ekki á hvers manns færi að geta stælt teiknistíl annarra listamanna. Það kom því SVEPPAGREIFANUM skemmtilega á óvart að Francois og Georges hefðu ekki aðeins fengið leyfi Hergés fyrir Tinna í sögunni heldur sá Hergé, í eigin persónu, sjálfur um að teikna hann. Hergé sá reyndar aðeins um að teikna Tinna og Tobba á þeim myndum sem þeir birtast en Craenhals teiknaði afganginn af myndunum - þ.e. bílinn, bakgrunnana og auðvitað Búffa. Francois Craenhals og Hergé voru góðir vinir en Craenhals var alltaf mikill aðdáandi hans og var alla tíð mjög stoltur yfir því að hafa fengið tækifæri til að hafa þetta flaggskip myndasagnanna á 20. öldinni, Tinna, sem gest. 

Og svo má kannski til gamans geta þess, fyrir þá sem hafa áhuga á bílum, að bifreiðin glæsilega sem Tinni þeysist um á í þessum æsispennandi eltingarleik, er hvorki meira né minna en Alfa Romeo Giulietta Spider.
Einhvern tímann ætlar SVEPPAGREIFINN að velta sér eitthvað upp úr bílum í Tinnabókunum og henda hér inn færslu um þá. En það er seinni tíma vandamál.