26. nóvember 2021

193. Á SÆNSKUM SLÓÐUM TINNA

SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum fengið pósta með fyrirspurnum um ýmislegt sem viðkemur myndasögublogginu Hrakfarir og heimskupör. Stundum hafa safnarar og áhugafólk um myndasögur haft samband og spurst fyrir um einstaka bækur, sem minnst hefur verið á í blogginu, svo eitthvað sé nefnt. En einnig hafa lesendur spurst fyrir um ýmislegt efni, sem þeim finnst forvitnilegt og birst hefur hér á síðunni. Þannig hefur hann til að mynda fengið fleiri en eina fyrirspurn frá Hollandi varðandi grein um Sigga og Viggu og einnig frá Frakklandi um færslu sem fjallar um Yoko Tsúnó svo nýleg dæmi séu tekin. Allt er þetta gott og blessað og SVEPPAGREIFINN hefur reynt eftir bestu getu að aðstoða viðkomandi en það verður þó að viðurkennast að stundum eru þessir póstar verulega "utan þjónustusvæðis". Þá er víst lítið annað í stöðunni annað en að gerast skyndilega mjög upptekinn og gleyma alveg að svara þeim. 

Svo koma einnig póstar af allt öðrum toga. Þegar Gísli Marteinn Baldursson vann að hinum stórskemmtilegu og fróðlegu þáttum sínum um ævintýri Tinna, hjá Ríkisútvarpinu, fékk hann nokkra valinkunna einstaklinga til að ræða við sig um einstaka bækur úr seríunni. Gísli Marteinn hafði þá meðal annars samband og óskaði eftir því að fá að spjalla við SVEPPAGREIFANN um einhverja bókanna í einum þáttanna en hafði ekki erindi sem erfiði. Sá síðarnefndi viðurkennir fúslega að hann er lítið fyrir athyglina og afþakkaði þetta góða boð enda taldi hann einnig að aðrir væru miklu betur til þess fallnir bæði hvað almenna vitneskju og sérfræðiálit varðar.

Stuttu fyrir síðustu jól fékk SVEPPAGREIFINN sendan nokkuð áhugaverðan tölvupóst frá Svíþjóð. Þar var á ferðinni erindi frá forseta Generation T, Björn Wahlberg sem er kunnur rithöfundur, útgefandi og myndasöguþýðandi þar í landi, en þetta munu vera einu opinberu og viðurkenndu Tinna-samtökin á Norðurlöndunum. Starfsemi Generation T er undir viðurkenndri handleiðslu Moulinsart, sem er höfundaréttareigandi að verkum Hergés eins og allir vita, svo þessi samtök eru augljóslega mjög virt. Það er skemmtileg tilviljun að fyrir ekki svo löngu síðan hafði SVEPPAGREIFINN einmitt verið að skoða vefsíðu þessa samtaka. Ekki man hann þó nákvæmlega hvernig það kom til en hugsanlega var einhver á Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur sem póstaði þar linki á þessa áhugaverðu síðu. Generation T eru, eins og áður segir, mjög virt samtök og halda úti afar fróðlegu starfi um allt sem viðkemur bókunum um Ævintýri Tinna og höfund þeirra Hergé. Þau skipuleggja ýmsa fyrirlestra og viðburði sem tengjast Tinna og eru í samstarfi við sambærileg samtök í öðrum löndum um heim allan. Sem dæmi um áhugaverða viðburði má nefna að samtökin hafa meira að segja staðið fyrir viskí-smökkun, sem væntanlega hefur þá verið til heiðurs viskí-áhugamanninum Kolbeini kafteini, en einnig má nefna regluleg Tinna-quiz og fyrirlestra með kunnum fyrirlesurum og fræðingum svo eitthvað sé nefnt. Þá má nefna að Generation T hafa jafnvel skipulagt ferðir á heimaslóðir Tinna í Belgíu. Þar hefur verið farið á Hergé safnið í Brussel og Cheverny kastalinn (sem er upphaflega fyrirmyndin að Myllusetri) verið heimsóttur svo dæmi séu tekin. Á heimasíðu Generation T má finna yfirlit yfir starf samtakanna ár hvert og á upptalningunni þar má sjá hve virkur og áhugaverður þessi félagsskapur er.

Frá upphafi hafa Generation T samtökin einnig sent frá sér vegleg ársrit í prentuðu formi eða öllu heldur árbækur sem nefnast Tintinism og innihalda mikið af áhugaverðu og skemmtilegu efni tengdu Ævintýrum Tinna. Árbókin Tintinism hefur undanfarin ár verið heilar 144 blaðsíður að lengd og troðfull af fróðlegum greinum, viðtölum og ýmsu öðru efni af mjög fjölbreytilegum toga. Bók þessi hefur ekki verið seld á almennum markaði og fæst því ekki í neinum bókabúðum og ekki er hægt að panta hana eina og sér beint frá samtökunum. Bókin er hins vegar innifalin í árgjaldi meðlima Generation T sem fá hana senda heim til sín í pósti ár hvert. Útgáfa Tintinism er einhvers konar hápunktur ársins hjá félagsmönnum samtakanna og kemur jafnan út um það leyti sem ársfundurinn er haldinn en það er í kringum afmælisdag Hergés sem er 22. maí. 

En aftur að hinum áðurnefnda tölvupósti Generation T. Í þessum pósti útskýrði forseti samtakanna fyrir SVEPPAGREIFANUM að í árbókinni hefðu í gegnum tíðina birst greinar sem fjalla um sögu Tinna bókanna á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi. Úr þessu vildi hann gera bragabót á. Fyrir tilviljun hefði hann rekist á gamla grein frá SVEPPAGREIFANUM, hér á Hrakförum og heimskupörum, sem fjallaði einmitt um sögu Tinna á Íslandi. Þessa færslu má einmitt lesa hér. Í kjölfarið óskaði hann eftir því að fá að endurbirta þýðingu af greininni fyrir næstu árbók og bauð SVEPPAGREIFANUM jafnframt að bæta við einhverjum viðbótarupplýsingum sem fram hefðu komið eftir að færslan var skrifuð. Þessi bón var að sjálfsögðu auðsótt og næstu vikurnar gengu tölvupóstarnir á milli þessara aðila með margvíslegum fyrirspurnum og upplýsingum. 

Það var síðan í seinni hluta maí mánaðar sem árbókin Tintinism 2021 var loksins send til allra meðlima samtakanna sænsku en þetta er í fjórtánda skiptið sem heftið kemur út. Í ár var reyndar ekkert eitt sérstakt þema sem tekið var fyrir en auk þessarar greinar SVEPPAGREIFANS inniheldur árbókin meðal annars skemmtilega grein um pílagrímsferð hins sænska Johans Marcopoulos til Akureyrar. En eins og allir vita leikur höfuðstaður Norðurlands stórt hlutverk í Tinna bókinni Dularfullu stjörnunni. Á Akureyri hitti Marcopoulos meðal annars hinn góðkunna fjölmiðlamann og upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, Svein H. Guðmarsson, en hann mun vera sérlegur áhugamaður um Tinnabækurnar eins og margir vita. Þess má geta að viðtal var tekið við Marcopoulos á sínum tíma sem birtist í fréttatíma RUV en það má sjá hér. En í ritinu Tintinism 2021 má einnig finna fróðlegar greinar um hið fjölbreytilega og skemmtilega málfar Kolbeins kafteins og vangaveltur um franska blaðamanninn Robert Sexé, sem fyrirmyndina að Tinna, svo fátt eitt sé nefnt. Alls er að finna um tuttugu skemmtilegar greinar í árbókinni að þessu sinni. SVEPPAGREIFINN fékk síðan, í byrjun júní, sent frá Svíþjóð eintak af Tintinism 2021 og er að sjálfsögðu afar stoltur af því að eiga efni í þessari árbók hinna virtu, sænsku Tinna samtaka.

SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekki mikla þörf fyrir því að lesa þessa grein sína í árbókinni góðu (hann skrifaði hana jú sjálfur og veit alveg um hvað hún fjallar) en hins vegar er fullt af öðru efni í ritinu sem án nokkurs vafa verður gaman að glugga í. Sjálfur er SVEPPAGREIFINN auðvitað algjörlega ósjálfbjarga á sænska tungu en hefur þó í gegnum tíðina látið sig hafa það að reyna að stauta sig fram úr myndasögum sem honum hefur áskotnast frá Svíaveldi. Töluvert er til af myndasögum sem ekki hafa enn komið út á íslensku og Lukku Láki á sænsku er til dæmis töluvert betri en enginn Lukku Láki. Ekki er honum kunnugt um hvort einhverjir íslenskir Tinna aðdáendur séu meðlimir í Generation T samtökunum en ef tekið er mið af þeim fjölda Íslendinga sem búsettir eru í Svíþjóð, vegna náms eða vinnu, ætti það svo sem ekki að koma mikið á óvart. Þessir helvítis Íslendingar leynast nefnilega nokkuð víða. SVEPPAGREIFINN hvetur allt áhugafólk um Ævintýri Tinna til að skoða heimasíðu Generation T og fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem eru sæmilega læsir á sænska tungu eru þessi samtök, með árbókinni sinni, algjör fjársjóður. Til að gerast félagsmaður þarf ekki annað en að fara inn á heimasíðuna þeirra og hafa samband þar í gegnum tölvupóst. Árgjaldið er 40 evrur (um 6000 kall) sem er lægri upphæð en mánuðurinn af áskrift að Stöð 2.

12. nóvember 2021

192. DALDÓNAR - ÓGN OG SKELFING VESTURSINS

Að lesa Lukku Láka bók er góð skemmtun. Heilt yfir er bókaflokkurinn um kappann nefnilega stórskemmtilegur og þar ber, að mati SVEPPAGREIFANS, að sjálfsögðu hæst sögurnar sem þeir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny gerðu saman. Lukku Láka bækurnar eru auðvitað líka uppfullar af skemmtilegum aukapersónum þar sem Daldónar hafa nokkuð oft fengið að leika stór hlutverk. Í þessari færslu er þó aðallega ætlunin að skoða aðeins tilurð hinna upprunalegu Dalton bræðra og aðkomu þeirra að Lukku Láka bókunum. En síðan er líklega ekki heldur hjá því komist að fjalla einnig svolítið um hina vitgrönnu en nokkuð skemmtilega yngri frændur þeirra. 

Þeir lesendur sem þekkja vel til Lukku Láka bókanna vita auðvitað að í sögunum koma í raun fyrir tveir hópar af Daldónum. Dalton bræður eru að nefnilega ekki bara Dalton bræður. Til frekari skýringar er þó rétt að nefna það að árið 1954 kom út sagan Hors-la-loi í bókaformi eftir listamanninn Morris einan. Þessi bók kom út hjá Fjölva útgáfunni árið 1982 í þýðingu Þorsteins Thorarensen og hét þá Eldri Daldónar. Morris bæði teiknaði og samdi sjálfur fyrstu Lukku Láka sögurnar en þessa teiknaði hann fáeinum árum áður en Goscinny kom til sögunnar sem handritshöfundur. En sagan um Eldri Daldóna hóf göngu sína í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 20. september árið 1951 og þetta voru fyrstu kynni lesenda blaðsins af einhverjum af ætt Daldóna í sögunum. Í þessari sögu voru nefnilega hinir raunverulegu Daldónar hugsaðir sem sögupersónurnar en þetta var einnig fyrsta Lukku Láka sagan sem byggð er að einhverju leyti á raunverulegum og sögulegum atburðum úr vestrinu. Þær sögur áttu þó eftir að verða fleiri.

Með tímanum urðu höfundar Lukku Láka bókanna nefnilega duglegri við að finna fleiri stór hlutverk, í sögunum, fyrir raunverulegar persónur og koma þeim á kortið. Þar komu til dæmis við sögu aðrar kunnar þjóðsagnapersónur eins og Billy the kid (Billi barnungi), Jesse James (Jessi Jammojæja) og Calamity Jane (Svala Sjana) svo einhver dæmi séu nefnd. SVEPPAGREIFINN efast jafnvel um að hann hefði sjálfur nokkurn tímann vitað um eða haft hugmynd um tilvist Dalton bræðra eða annarra áðurnefndra persóna villta vestursins ef hann hefði ekki haft Lukku Láka bækurnar til fróðleiks. Lukku Láki drap auðvitað Daldónana í lok Eldri Daldóna (eða öllu heldur Morris drap þá) og þar með hefðu þeir bræður átt (og urðu reyndar) að verða endanlega úr sögunni í bókaflokknum. Morris áttaði sig hins vegar á því seinna að það hefðu verið mistök að drepa Dalton bræður. Hið myndræna hugarfóstur sem listamaðurinn skapaði af þeim átti nefnilega klárlega meira erindi við aðdáendur Lukku Láka sagnanna. En það gekk náttúrulega ekki upp í framhaldinu fyrst þeir voru dauðir. Bókin Eldri Daldónar er því EKKI fyrsta sagan um þá Dalton bræður, sem við flest þekkjum, heldur er þetta í rauninni eina Lukku Láka bókin sem fjallar um hina raunverulegu Dalton bræður. Hinir Daldónarnir voru kynntir til sögunnar í Les Cousins Dalton og birtust í fyrsta sinn á síðum SPIROU tímaritsins þann 18. apríl árið 1957 en reyndar höfðu þeir einnig birst í mýflugumynd í sögunni Lucky Luke contre Joss Jamon sem var næsta saga á undan. Les Cousins Dalton kom út í bókarformi hér á landi árið 1978, sem var fjórum árum á undan Eldri Daldónum og hún nefndist á íslensku, Daldónar - Ógn og skelfing vestursins. Og svona til réttlætingar á aðkomu hinna nýju Dalton bræðra voru þeir sagðir frændur eldri Daldónanna. 

En þótt sagan Eldri Daldónar tilheyri einni af elstu sögunum var hún þó ein af síðustu Lukku Láka bókunum sem Fjölvaútgáfan gaf út á sínum tíma. Það þýddi auðvitað að fjölmargar bækur úr íslensku útgáfuröðinni sem fjölluðu um Dalton bræður höfðu þegar komið út. Þegar sagan kom út áttu íslenskir lesendur af yngstu kynslóðinni því líklega sumir hverjir aðeins erfitt með að átta sig á því að hér voru um tvo misjafna bófaflokka að ræða. Hinn ungi SVEPPAGREIFI minnist þess einmitt sjálfur að hafa fundist undarlegt að Dalton bræður skyldu allt í einu vera komnir með önnur skírnarnöfn. En með tímanum áttaði hann sig á ástæðunni. Á íslensku Wikipedia síðunni um bókina er einmitt ýjað að því að hið séríslenska heiti bókarinnar hafi líklega verið tilkomið vegna þeirrar hættu á að lesendur hennar rugluðu saman upprunalegu Daldónunum við hina yngri frændur þeirra. Hið franska heiti sögunnar, Hors-la-loi, þýðir í raun Útlagi og bókin hefði því átt að heita það. Í bókinni koma reyndar fyrir tvær sögur og bókin er nefnd eftir aðalsögunni sem er 34 blaðsíður að lengd. En í aukasögunni, Daldónar ganga aftur (Le Retour des frères Dalton), koma bræðurnir sjálfir eðlilega ekki við sögu (enda voru þeir drepnir í fyrri sögunni) þó hún fjalli að einhverju leyti eitthvað um þá. En sagan Eldri Daldónar segir í megindráttum frá því að Lukku Láki fær það verkefni að elta uppi og handsama hina stórhættulegu Dalton bræður sem vaða um villta vestrið með ránum og gripdeildum. Hann er ráðinn af Járnbrautafélaginu enda eru farþegar lestanna hættir að þora að ferðast með þeim af ótta við lestarán Dalton bræðra. Í sögunni nefnast Daldónarnir auðvitað eftir upprunalegu bræðrunum og heita því Bob, Grant, Bill og Emmett (að sjálfsögðu eftir stærð) en í íslensku bókinni kallast þeir Búbbi, Grúbbi, Vúlli og Úmmi. 

Um miðbik sögunnar tekst Lukku Láka reyndar að ná Daldónunum og koma þeim í fangelsi í Mysugili en bræðrunum tekst þó að flýja úr varðhaldi skerfarans þar. Þeir halda til Kansas (Kannski-lands auðvitað), og vonast eftir að getað látið sig hverfa þar, en Láki hefur upp á þeim í miðju bankaráni í bænum Coffeyville (Kaffigili) eftir langan eltingarleik. Í Kaffigili handsamar hann Daldónana loksins og fangar höfuðpaurinn Búbba að endingu í tunnu á lokablaðsíðunni. Á síðasta myndaramma sögunnar má þó sjá hvar grafir þeirra bræðra eru merktar þeim á þann óyggjandi hátt að augljóst er að þeir hafi ekki lifað af þennan bardaga. Með öðrum orðum drap Lukku Láki Dalton bræður þó ekki sé það sýnt með beinum hætti í lok sögunnar eins og við þekkjum hana. Í upprunalegu frumútgáfunni eftir Morris mátti hins vegar sjá hvernig Láki drepur Búbba með skoti í gegnum höfuð hans og blóðpollurinn á gólfinu staðfestir dauða bófans. 

Það var vissulega óvenjuleg atburðarrás í Lukku Láka sögu. Dupuis útgáfunni hugnaðist þó ekki þessi lok á sögunni enda örlög Búbba (og hinna Daldónanna) í ofbeldisfyllri og grimmilegri kantinum. Sá endir hlaut því ekki náð fyrir augun útgefandans eftir þá ritskoðun og Morris þurfti að gjöra svo vel að teikna hluta af síðustu blaðsíðu sögunnar upp á nýtt. Þessi endir birtist því aldrei á síðum SPIROU tímaritsins eða endanlegu bókaútgáfunni en hefur þó verið dregin fram í sviðsljósið á seinni árum í viðhafnarútgáfum og ritum með fræðilegu efni tengt Lukku Láka bókunum. Endanlega útgáfan með Búbba Dalton í tunnunni varð því niðurstaðan og er einmitt sú útfærsla sem við íslenskir lesendur Lukku Láka bókanna þekkjum úr útgáfuröðinni frá Fjölva. 

Á Wikipedia síðunni um þessa bók er það einmitt nefnt að dauði Daldónanna í sögunni sé nokkur ráðgáta. Frá myndarammanum þar sem Láki situr ofan á tunnunni og þar til grafir Daltón bræðra eru sýndar þurfa lesendur sjálfir að geta sér til inn í eyðurnar og láta hugmyndaflugið um að ráða í örlög þeirra. Ekki sé þar nefnilega ljóst hvort Daldónarnir hafi verið sallaðir niður í bankaráninu í Kaffigili (eins og sýnt var í óútgefnu frumútgáfu Morris) eða hvort þeir hafi einfaldlega verið hengdir að ráninu loknu eins og tíðkaðist alla jafna í villta vestrinu á þeim tíma. 

Í sögunni er að nokkru leyti stuðst við sannsögulega atburði þó Morris hafi vissulega einnig tekið sér gott skáldaleyfi í þágu listagyðjunnar og farið um leið nokkuð frjálslega með staðreyndir á köflum. Þar ber auðvitað hæst aðkoma Lukku Láka en einnig er nauðsynlegt að geta þess að í raun voru þeir Dalton bræðurnir, sem tóku þátt í þessum helstu atburðum, aðeins þrír. Fjórði Daldónanna (Bill) tók ekki beinan þátt í ránunum í Coffeyville en auk þess hafði bófaflokkurinn einnig að geyma nokkra aðra meðlimi sem ekki höfðu nein ættartengsl við þá bræður. Þeir aðilar koma þó hvergi við sögu í Lukku Láka sögunni. Þá skal það tekið fram að þó Bill Dalton hafi ekki tekið þátt í þessum ránum þá var hann samt alls enginn engill. Eftir að bræður hans höfðu verið vegnir í Coffeyville tók Bill meðal þátt í hefndaraðgerðum vegna þeirra og seinna stofnaði hann sitt eigið Dalton gengi. Sá glæpaflokkur náði reyndar bara einu giggi á afreksskrána sína og Bill Dalton var sjálfur drepinn í umsátri gegn hópnum þann 8. júní árið 1894. Af þessu öllu að dæma er ljóst að myndasöguútgáfa Morris af glæpaverkum (eldri) Dalton bræðra er töluvert einfölduð og um leið færð skemmtilega í stílinn. Það þarf til dæmis ekki að taka það fram að hinir raunverulegu Daldónar fóru aldrei nokkurn tímann til lýtalæknis! Þessi frjálslega myndasaga um hina merku atburði þótti því nokkuð óvenjuleg á sínum tíma og bókmenntafræðingar, sem sérhæft hafa sig í Lukku Láka bókunum, hafa á henni sérstakt dálæti. Og sem dæmi um sérstöðu sögunnar hafa verið skrifaðar um hana margar lærðar greinar og jafnvel þó nokkrar doktorsritgerðir.

Heilmikið er til af skráðum heimildum um þessa atburði sem sagan nær yfir og gerðust á árunum 1890-92. Hinn raunverulegi glæpaflokkur, sem kenndur er við Dalton bræður í Eldri Daldónum, var jafnan skipaður átta til níu útlögum sem sérhæfðu sig í banka- og lestaránum. Klíkan var almennt þekkt undir nafninu Dalton bræður, enda þrír til fjórir þeirra meðlimir hópsins, en misjafnt var þó hverjir tóku þátt í ránunum sem þeir stóðu fyrir. Þeir Bob, Grat og Emmett Dalton stofnuðu bófaflokkinn en Bill bróðir þeirra var aldrei beinn aðili að honum. Hann tilheyrði á þessum tíma öðrum glæpahópi. Bill hjálpaði þó til með ýmis viðvik tengdum glæpunum þótt hann tæki aldrei beinan þátt í ránum hópsins sem kenndur var við bræður hans. Þess má geta að alls voru Dalton systkinin tólf talsins og eitt þeirra, Leona Randolph Dalton, lést í hárri elli árið 1964 en til að setja það í samhengi við nútímann er það sama ár og systir SVEPPAGREIFANS fæddist. Bob fór fyrir glæpahópnum en auk áðurnefndra bræðra hans voru í klíkunni einnig þeir Bill Doolin, Charlie Pearce, "Bitter Creek", Bill Powers og Dick Broadwell. Eftir að bófaflokkurinn hafði valdið ógn og skelfingu um héruð willta westursins um tveggja ára skeið kom að skuldadögum þann 5. október árið 1892 eins og réttilega er greint frá í Eldri Daldónum. Þá tóku fimm glæpamannanna þátt í verkefni í smábænum Coffeyville í Kansas. Þetta voru þeir Bob, Grat og Emmett Dalton og með þeim voru einnig þeir Bill Powers og Dick Broadwell. Í Coffeyville ákvað hópurinn að taka sér Jesse James til fyrirmyndar og ræna tvo banka bæjarins á sama deginum. En þarna varð græðgin þeim þó að falli. Í öðrum bankanna tókst sniðugum gjaldkera nefnilega að telja glæpaflokknum trú um að í rauninni væri tímastillir á peningakassa bankans. Með því tókst honum að tefja atburðarásina á þann veg að bæjarbúum gafst tími til að safna liði, vopnvæðast og gera þeim fyrirsát. Í öllum þeim átökum sem þar urðu féllu fjórir af fimm meðlimum bófaflokksins.

Á ljósmyndinni hér fyrir ofan má sjá hvar líkum bófanna fjögurra hefur verið stillt upp fyrir myndtöku en talið frá vinstri eru þetta Bill Powers, Bob Dalton, Grat Dalton og Dick Broadwell. Emmett Dalton lifði einn af og náðist en hlaut hvorki meira né minna en tuttugu og þrjú skotsár. Nokkrir bæjarbúa Coffeyville létust einnig og særðust í þessum blóðuga bardaga en bæjarbúar, sem nú telja rúmlega tíu þúsund manns, þakka í dag Dalton genginu fyrir að hafa komið plássinu á ferðamannaheimskortið. Þar er haldin einhvers konar þjóðhátíð í október ár hvert til að minnast þessara atburða og þeirra borgara sem létust í árásinni. Emmett Dalton hlaut lífstíðarfangelsi fyrir sinn hlut í ofbeldisverkunum en var náðaður árið 1906 eftir að hafa afplánað fjórtán ár af dómnum. Ári seinna flutti hann til Kaliforníu og lést í Hollywood, árið 1937, 66 ára að aldri. 

Þá má þess geta að fyrir nokkrum árum (2014) kom út Lukku Láka bókin Les Tontons Dalton (Frændi Daldóna) eftir Achdé núverandi teiknara Lukku Láka bókanna. Sú saga er nokkuð á skjön við hugmyndir Morris því hún skekkir verulega myndina um dauða allra bræðranna í myndasögunni um Eldri Daldóna. Í Les Tontons Dalton kemur það nefnilega fram að sá stærsti, Úmmi (Emmett Dalton), hafi seinna eignast son með dansmær og þar með leiðréttist augljóslega að hann hafi lifað af skotbardagann í Kaffigili. Ja, eins og hann reyndar gerði auðvitað einnig í raunveruleikanum. 

En þetta var útúrdúr. Það kom fljótlega í ljós að eldri Daldónarnir þeir Búbbi, Grúbbi, Vúlli og Úmmi áttu fátt sameiginlegt með frændum sínum, Jobba, Kobba, Vibba og Ibba, þegar þeir höfðu verið kynntir til sögunnar í seríunni. Eldri Daldónar eru á engan hátt eins heimskir og frændur þeirra og heilt yfir eru þeir bara nokkuð eðlilegir að vitsmunum í sögunni. Þó er Búbbi reyndar talinn hættulegastur þeirra, líkt og Jobbi frændi hans, og klárlega forsprakki hópsins þó allir bræðranna hafi eitthvað til málanna að leggja þegar á reynir. Úmmi, sá stærsti í hópnum, á til að mynda ekki neitt sameiginlegt með hinum hávaxna frænda sínum, honum Ibba, annað en hæðina. Ibbi hefði til dæmis aldrei farið að vitna í Njálu eins og Úmmi gerir í íslensku útgáfu sögunnar.

Með tilkomu Goscinnys breyttist auðvitað ýmislegt. Sögurnar urðu fyndnari og léttari og um leið minnkaði einnig ofbeldið og manndrápin smám saman. Goscinny var mjög hrifinn af því hvernig Morris hafði unnið úr útliti Dalton bræðra í sögunni Eldri Daldónar og listamaðurinn átti ekki í erfiðleikum með að sannfæra hann um að endurvekja þá bræður á einhvern hátt. Enda hafði Morris alltaf séð eftir að hafa látið Lukku Láka drepa þá eins og áður hefur verið nefnt. Niðurstaðan varð því sú að til sögunnar voru kynntir þessir fjórir frændur þeirra sem þeim Morris og Goscinny tókst síðan að gera ódauðlega í bókaflokknum. Eins og fram hefur komið birtust þeir fyrst í bókinni Daldónar - Ógn og skelfing vestursins, sem var aðeins þriðja saga Goscinnys sem handritshöfundar, og samtals koma þeir fyrir í á þriðja tug bóka seríunnar um Lukku Láka

Það er óhætt að segja að Daldónarnir, sem þeir Morris og Goscinny sköpuðu sem frændur eldri bræðranna, séu einstaklega vel heppnaðir. Morris hélt áfram að nýta sér hina myndrænu ásýnd eldri frændur þeirra sem helst felst í stighækkandi líkamshæð þeirra. Að öðru leyti er enginn munur á útliti bræðranna og stærðarmunurinn er því oft eina leiðin til að þekkja þá í sundur. Eða að mestu leyti, því Ibbi er reyndar sjaldan eins grimmdarlegur á svipinn og bræður hans. En þessi hæðarmunur er óspart sýndur í öllum þeirra athöfnum þar sem taktbundnar hreyfingar þeirra sýna þá á afar kómískan hátt. Dalton bræður ganga og hlaupa í takt, munda byssurnar í takt og skjóta í takt, svo dæmi séu tekin. Á öllum þeim myndarömmum sem sýna Daldónana í hlutlausum og eðlilegum hreyfingum (eins og á göngu) eru þeir sýndir sem einn maður sem fjórfaldaður er í mismunandi stærðum. Frávikin frá þessum taktbundnu hreyfingum þeirra riðlast þó oftast þegar eitthvað óvænt gerist. Og þá erum við auðvitað  helst að tala um þegar þeim Jobba og Ibba verður eitthvað sundurorða. Það er einnig gaman að geta þess að þegar Lukku Láki var fyrst festur á hvíta tjaldið lentu listamennirnir, sem unnu að því að teikna Dalton bræður, í nokkrum vandræðum til að byrja með. Það reyndist nefnilega þrautinni þyngri að fá þá bræður til að ganga í takt enda töluvert erfiðara að samræma fótalengd þeirra við skrefin á hreyfimyndunum. 

En það var fyrst og fremst handritshöfundurinn Goscinny sem gæddi bræðurna karaktereinkennum sínum og bætti við húmornum sem einkennir allar þeirra athafnir. Þau karaktereinkenni eru svo sem ekki flókin því að heilt yfir er það treggáfan sem þar ræður ríkjum. Sá minnsti, Jobbi, er sá sem stjórnar og er skapstyggastur og Ibbi er áberandi heimskastur. Vibbi og Kobbi eru svo einhvers staðar þarna á milli og eru heldur litlausari enda lenda þeir svolítið útundan. Það er helst í fyrstu sögunni um þá (Daldónar - Ógn og skelfing vestursins) þar sem aðeins er hægt að lesa meira í karakter þeirra miðbræðranna og einkenni, enda fá þeir þar töluvert sjálfstæðari hlutverk eða verkefni. En það er óhætt að segja að Dalton bræður sýni strax sína "bestu" hliðar í þessari bók. Þeir eru kynntir til sögunnar sem óttalegir aular sem ekkert þrá heitara en að verða jafnokar hinna eldri frænda sinna og um leið að ná fram hefndum á Lukku Láka sem drap þá. Í bókinni L´Évasion des Dalton (Flótti Daldóna - hún kemur vonandi fljótlega út á íslensku), frá árinu 1960, koma þeir næst fyrir en í henni er lagður grunnurinn að endurtekinni aðkomu þeirra bræðra að bókaflokknum. Í framhaldinu þróast þessi barátta á milli þeirra í allsherjar skrípaleik. Hefndarhugur Daldónanna breytist í einhvers konar þráhyggju og sögurnar verða flestar að farsakenndum eltingarleikjum þar sem þeir flýja úr fangelsi og Lukku Láki er sendur til að ná þeim. Og oftar en ekki þá með vafasamri aðstoð hundsins Rattata. Láki verður því með tímanum afskaplega pirraður á þeim bræðrum en fyrst og fremst er hann ósáttur við það hve fangelsisyfirvöld eiga erfitt með að halda Daldónunum innan sinna veggja. Út á þetta gengur sagan endalausa um Lukku Láka og Dalton bræður.

SVEPPAGREIFINN á án nokkurs vafa eftir að fjalla meira um yngri Dalton bræður hér á síðunni, þegar fram líða stundir, enda ógrynni til af skemmtilegu efni tengdu þeim.