Nú eru liðin rúmlega sextíu ár síðan Rasmus Klumpur var fyrst kynntur til sögunnar hér á landi. Sú staðreynd minnir á að það er eiginlega ekki hjá því komist að nefna
það að myndasögurnar um Rasmus Klump voru kynntar íslenskum lesendum
rúmum áratug áður en Tinni kom til sögunnar. Alls hafa komið út sautján myndasögur um Rasmus Klump á íslensku en útgáfuna á þeim má skipta upp í tvö tímabil. Árið 1960 sendi bókaútgáfan Skuggsjá í Hafnarfirði frá sér tvær sögur um bangsann vinalega. Þetta voru bækurnar Rasmus Klumpur í hnattferð og Rasmus Klumpur í leit að fjársjóði en þær hlutu þó engin sérstök númer sem partur af bókaröð í seríunni hjá Skuggsjá.
Ekki áttar SVEPPAGREIFINN sig á því hversu vel kunnur Rasmus Klumpur var á meðal íslenskra barna eftir útgáfu þessara sagna eða hvort bækurnar tvær seldust eitthvað af ráði. Myndasögur á íslensku voru enn mjög sjaldséðar á þessum tíma en mikil aukning hafði þó orðið á útgáfu annarra barnabóka á árunum á undan, sérstaklega vinsælla þýddra bóka, eftir frekar magran fyrri hluta 20. aldarinnar. Í það minnsta varð ekkert af frekari útgáfu hjá Skuggsjá með fleiri bókum um Rasmus Klump. SVEPPAGREIFINN minnist hans málaðan á risastóran vegg í barnaherbergi hjá móðurbróður sínum upp úr árinu 1975 og líklegt má telja að sú mynd hafi verið gerð upp úr annarri hvorri bókar Skuggsjár. Þetta listaverk í barnaherberginu voru einmitt fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af bangsanum danska. Sennilega þekktist Rasmus Klumpur þó einnig hér úr dönskum dagblöðum og tímaritum sem seld voru í bókabúðum á Íslandi. En auk þess hafði hann birst vikulega á blaðsíðu tíu í tímaritinu Fálkanum frá árinu 1956 og fram í byrjun mars árið 1960 og árið 1966 hófu einnig göngu sína myndasögur um hann í barnablaðinu Æskunni. Þar nefndist hann reyndar Rasmus Kubbur og hann birtist þar allt til ársloka 1970.
En það var síðan árið 1981 sem Rasmus Klumpur var endurvakinn í bókaformi á íslensku og það var það bókaútgáfan Örn og Örlygur sem tók að sér það hlutverk. Í september það ár komu út sögurnar Rasmus Klumpur smíðar skip, sem var fyrsta bókin í upprunalega númeraða bókaflokknum, og Rasmus Klumpur skoðar pýramída sem var saga númer 5 í seríunni. Bækurnar voru í nokkuð minna broti en íslenskir myndasögulesendur áttu að venjast og voru til dæmis heldur minni en litlu bækurnar um Palla og Togga. Sögurnar um Rasmus Klump voru auk þess með mjúkri kápu og allar sögurnar aðeins þrjátíu og tvær blaðsíður að lengd. Þær voru því alveg tilvaldar fyrir unga og óreynda lesendur sem voru að byrja að skoða og kynnast teiknimyndasögum.
Þetta voru einfaldar, jákvæðar og saklausar myndasögur, fullar af vinalegum húmor, ætlaðar allra yngstu kynslóðunum og í þeim voru engin grimm illmenni eða annar óþjóðalýður sem söguhetjurnar þurftu að berjast við. Allur texti sagnanna kom fram undir hverjum myndaramma og í þeim voru engar talblöðrur en í textanum voru eingöngu samtöl sögupersónanna. Enginn annar skýringartexti eða lýsingar á atburðarrásinni kom fyrir í þeim orðum.
Seinna þetta sama haust komu síðan út tvær sögur til viðbótar og þessar nýju útgáfur af Rasmusi Klumpi voru augljóslega koma til að vera. Árið 1982 komu aftur út fjórar bækur, 1983 voru gefnar út þrjár og árið 1984 bættust enn fjórar við seríuna áður en þær hættu að koma út. Í heildina virðast því hafa verið gefnar út sautján bækur á íslensku í þessu myndasöguformi en þær voru flestar númeraðar og komu héðan og þaðan úr upprunalegu útgáfuröðinni. Svo virðist sem heildarfjöldi þessara myndasögubóka hafi verið eitthvað á reiki í gegnum tíðina og hafa tölurnar 15 til 16 oftast verið nefndar en eftir svolitla rannsóknarvinnu varð talan 17 niðurstaðan. Inni í þeirri tölu skal reyndar tekið fram að bókin Rasmus Klumpur í hnattferð var gefin út tvisvar en sú staðreynd er auðvitað afar mikilvæg fyrir óða safnara bókanna! SVEPPAGREIFINN mun standa við þessa tölu þar til eitthvað annað kemur í ljós. Sögurnar sautján samanstanda því af tveimur bókum sem gefnar voru út árið 1960 og fimmtán til viðbótar sem komu út á árunum 1981-84.
Það er kannski rétt að taka það fram að löngu seinna komu út enn fleiri bækur um söguhetjuna Rasmus Klump, hjá bókaútgáfunni Eddu, en þær eru reyndar bara venjulegar barnabækur og eiga því ekkert erindi í þessa umfjöllun. En myndasögubækurnar sautján um Rasmus Klump, sem SVEPPAGREIFANUM er kunnugt um á íslensku, eru þessar:
- 1. Rasmus Klumpur smíðar skip (1952) 1. útg. 1981
- 3. Rasmuns Klumpur og síldarmamma (1954) 1. útg. 1983
- 5. Rasmus Klumpur skoðar píramída (1954) 1. útg. 1981
- 9. Rasmus Klumpur í sveitinni (1958) 1. útg. 1983
- 10. Rasmus Klumpur og uppskeran (1959) 1. útg. 1981
- (11.)Rasmus Klumpur í hnattferð (1960) 1. útg. 1960
- 11. Rasmus Klumpur í hnattferð (1960) 2. útg. 1983
- 12. Rasmus Klumpur í undirdjúpum (1961) 1. útg. 1984
- 15. Rasmus Klumpur á pínukrílaveiðum (1964) 1. útg. 1984
- (16.)Rasmus Klumpur í leit að fjársjóði (1954) 1. útg. 1960
- 20. Rasmus Klumpur og kafbáturinn (1969) 1. útg. 1982
- 21. Rasmus Klumpur og Sóti lestarstjóri (1970) 1. útg. 1984
- 22. Rasmus Klumpur og litli bróðir (1971) 1. útg. 1982
- 24. Rasmus Klumpur - Kappsigling í Furðuheimum (1973) 1. útg. 1981
- 25. Rasmus Klumpur í Kynjaskógi (1974) 1. útg. 1984
- 26. Rasmus Klumpur fer á sjóinn (1975) 1. útg. 1982
- 27. Rasmus Klumpur í Hattalandi (1976) 1. útg 1982
Bækurnar um Rasmus Klump hafa yfirleitt verið nokkuð áberandi á nytja- og flóamörkuðum í gegnum tíðina en minna virðist þó hafa farið fyrir þeim nú síðari árin heldur en áður. Rasmus Klumpur er nefnilega ekki alveg jafn sýnilegur og hann var. Sögurnar sem gefnar voru út á níunda áratugnum hafa svo sem aldrei verið neitt ófáanlegar en þær eru auðvitað löngu horfnar úr hillum venjulegra bókabúða. Hvort safnarar eru að grípa með sér þessar bækur eða hvort eðlileg afföll er um að ræða skal ósagt látið en alla vega virðast þær ekki jafn algengar og hér áður fyrr. Myndasögurnar
tvær sem Skuggsjá gaf út árið 1960 eru hins vegar afar sjaldgæfar og ef
þær bækur sjást á annað borð eru þær yfirleitt mjög illa farnar. Áhugafólk um teiknimyndasögur og venjulegir myndasögusafnarar hafa líklega yfirleitt ekki haft mikinn áhuga á þessum bókum í gegnum tíðina, enda margir sem tengja þær ekki við eiginlegar teiknimyndasögur, en kannski hefur þó orðið einhver breyting á. Einhver vitundarvakning hefur kannski orðið á söfnunargildi þeirra til framtíðar og myndasögusafnararnir eru hugsanlega búnir að vera að laumast til að grípa þessar bækur með sér þegar þær rekur á fjörur þeirra. SVEPPAGREIFINN er klárlega einn þeirra. Hann hefur reyndar aldrei litið á sig sem myndasögusafnara en hefur þó kippt með sér velmeðförnum og ódýrum eintökum af bókunum þegar hann hefur rekist á þau. Rasmus Klumpur telst þó tæplega rúmast innan myndasöguáhugasviðs hans en hann hefur meira verslað þær af skyldurækni. Og þannig er áreiðanlega einnig til komið hjá öðru áhugafólki um teiknimyndasögur.