29. október 2021

191. RASMUS KLUMPUR Á ÍSLANDI

Í færslu þessa föstudags er ætlunin að kíkja lítilega á íslensku útgáfu bókanna um björninn vinalega Rasmus Klump og félaga hans. SVEPPAGREIFINN er nú svo íhaldssamur að í gegnum tíðina hefur hann yfirleitt ekki viðurkennt sögurnar um Rasmus Klump almennilega sem myndasögur enda eru þær mjög ólíkar bókunum um Tinna, Sval og Val, Ástrík sem síðuhafi telur alla jafna til "alvöru" myndasagna. En það er að sjálfsögðu alrangt. Bækurnar um Rasmus Klump eru auðvitað myndasögur líka þó þær eigi ekki uppruna sinn frá Belgíu eða Frakklandi.

Sögurnar um Rasmus koma reyndar frá Danmörku eins og flestir hafa líklega vitað. Það voru hjónin Carla og Vilhelm Hansen sem áttu heiðurinn að þessum myndasögum en það var Carla sem skrifaði handritið á meðan Vilhelm sá um myndskreytingarnar. Sagan segir að þau hjónin hafi verið beðin um að skapa nýja teiknimyndaseríu fyrir börn og eina skilyrðið hafi verið að aðalsöguhetjan nefndist Rasmus til heiðurs vinsælum strúti, í myndasöguformi, sem lagður hafði verið til hliðar. Rasmus fékk meðal annars það hlutverk að vera skjaldbaka á meðan þau hjónin voru að þróa þessa nýju persónu en fljótlega kom í ljós að sú dýrategund hentaði illa fyrir myndasögupersónu sem lenda skyldi í æsilegum ævintýrum. Björn hentaði miklu betur. Ættarnafnið Klumpur átti hins vegar uppruna sinn í nágrannahundi þeirra Hansen hjónanna. Fyrsta sagan birtist í Berlingske Aftenavis árið 1951 og var síðan, venju samkvæmt, gefin út í bókaformi að birtingu lokinni árið 1952 en sú útgáfa var reyndar í svart/hvítu. 
 

 
Sögurnar eru skemmtilegar en helsta afþreying Rasmusar og félaga hans virðist vera að  sigla um úthöfin, fara í rannsóknarleiðangra af margvíslegu tagi og auðvitað að borða pönnukökur. Alls urðu bækurnar um Rasmus Klump þrjátíu og níu talsins en þrjár þær síðustu komu út nokkru eftir að höfundarnir voru báðir látnir. Enn virðast vera að koma út sögur með Rasmusi Klumpi sem þó eru ekki myndasögur og eitthvað hefur meira að segja verið gefið út af þeim hérlendis. Myndasögurnar um Rasmus Klump, ásamt sambærilegum sögum um Múmínálfana, teljast vera þekktustu myndasöguseríurnar sem eiga uppruna sinn frá Norðurlöndunum en þær hafa verið gefnar út í um þrjátíu löndum víðsvegar um heiminn. Rasmus er þó vinsælastur í nágrannalöndunum en þó líklega hvergi eins og í Þýskalandi þar sem hann nefnist Petzi. Því nafni kallast hann reyndar einnig í Frakklandi, Ítalíu, Portúgal og Víetnam en af öðrum nöfnum má nefna að hann er kallaður Pol í Hollandi, Bamse í Noregi og 皮皮熊 í Kína. Höfundar sagnanna um Rasmus Klump hafa hlotið margvísleg verðlaun fyrir bækur sínar og á fimmtíu ára afmælinu sínu árið 2002 var Rasmus Klumpur til dæmis heiðraður með útgáfu frímerkis af sér.

Nú eru liðin rúmlega sextíu ár síðan Rasmus Klumpur var fyrst kynntur til sögunnar hér á landi. Sú staðreynd minnir á að það er eiginlega ekki hjá því komist að nefna það að myndasögurnar um Rasmus Klump voru kynntar íslenskum lesendum rúmum áratug áður en Tinni kom til sögunnar. Alls hafa komið út sautján myndasögur um Rasmus Klump á íslensku en útgáfuna á þeim má skipta upp í tvö tímabil. Árið 1960 sendi bókaútgáfan Skuggsjá í Hafnarfirði frá sér tvær sögur um bangsann vinalega. Þetta voru bækurnar Rasmus Klumpur í hnattferð og Rasmus Klumpur í leit að fjársjóði en þær hlutu þó engin sérstök númer sem partur af bókaröð í seríunni hjá Skuggsjá.

Ekki áttar SVEPPAGREIFINN sig á því hversu vel kunnur Rasmus Klumpur var á meðal íslenskra barna eftir útgáfu þessara sagna eða hvort bækurnar tvær seldust eitthvað af ráði. Myndasögur á íslensku voru enn mjög sjaldséðar á þessum tíma en mikil aukning hafði þó orðið á útgáfu annarra barnabóka á árunum á undan, sérstaklega vinsælla þýddra bóka, eftir frekar magran fyrri hluta 20. aldarinnar. Í það minnsta varð ekkert af frekari útgáfu hjá Skuggsjá með fleiri bókum um Rasmus Klump. SVEPPAGREIFINN minnist hans málaðan á risastóran vegg í barnaherbergi hjá móðurbróður sínum upp úr árinu 1975 og líklegt má telja að sú mynd hafi verið gerð upp úr annarri hvorri bókar Skuggsjár. Þetta listaverk í barnaherberginu voru einmitt fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af bangsanum danska. Sennilega þekktist Rasmus Klumpur þó einnig hér úr dönskum dagblöðum og tímaritum sem seld voru í bókabúðum á Íslandi. En auk þess hafði hann birst vikulega á blaðsíðu tíu í tímaritinu Fálkanum frá árinu 1956 og fram í byrjun mars árið 1960 og árið 1966 hófu einnig göngu sína myndasögur um hann í barnablaðinu Æskunni. Þar nefndist hann reyndar Rasmus Kubbur og hann birtist þar allt til ársloka 1970.

En það var síðan árið 1981 sem Rasmus Klumpur var endurvakinn í bókaformi á íslensku og það var það bókaútgáfan Örn og Örlygur sem tók að sér það hlutverk. Í september það ár komu út sögurnar Rasmus Klumpur smíðar skip, sem var fyrsta bókin í upprunalega númeraða bókaflokknum, og Rasmus Klumpur skoðar pýramída sem var saga númer 5 í seríunni. Bækurnar voru í nokkuð minna broti en íslenskir myndasögulesendur áttu að venjast og voru til dæmis heldur minni en litlu bækurnar um Palla og Togga. Sögurnar um Rasmus Klump voru auk þess með mjúkri kápu og allar sögurnar aðeins þrjátíu og tvær blaðsíður að lengd. Þær voru því alveg tilvaldar fyrir unga og óreynda lesendur sem voru að byrja að skoða og kynnast teiknimyndasögum.

Þetta voru einfaldar, jákvæðar og saklausar myndasögur, fullar af vinalegum húmor, ætlaðar allra yngstu kynslóðunum og í þeim voru engin grimm illmenni eða annar óþjóðalýður sem söguhetjurnar þurftu að berjast við. Allur texti sagnanna kom fram undir hverjum myndaramma og í þeim voru engar talblöðrur en í textanum voru eingöngu samtöl sögupersónanna. Enginn annar skýringartexti eða lýsingar á atburðarrásinni kom fyrir í þeim orðum. 

Seinna þetta sama haust komu síðan út tvær sögur til viðbótar og þessar nýju útgáfur af Rasmusi Klumpi voru augljóslega koma til að vera. Árið 1982 komu aftur út fjórar bækur, 1983 voru gefnar út þrjár og árið 1984 bættust enn fjórar við seríuna áður en þær hættu að koma út. Í heildina virðast því hafa verið gefnar út sautján bækur á íslensku í þessu myndasöguformi en þær voru flestar númeraðar og komu héðan og þaðan úr upprunalegu útgáfuröðinni. Svo virðist sem heildarfjöldi þessara myndasögubóka hafi verið eitthvað á reiki í gegnum tíðina og hafa tölurnar 15 til 16 oftast verið nefndar en eftir svolitla rannsóknarvinnu varð talan 17 niðurstaðan. Inni í þeirri tölu skal reyndar tekið fram að bókin Rasmus Klumpur í hnattferð var gefin út tvisvar en sú staðreynd er auðvitað afar mikilvæg fyrir óða safnara bókanna! SVEPPAGREIFINN mun standa við þessa tölu þar til eitthvað annað kemur í ljós. Sögurnar sautján samanstanda því af tveimur bókum sem gefnar voru út árið 1960 og fimmtán til viðbótar sem komu út á árunum 1981-84.

Það er kannski rétt að taka það fram að löngu seinna komu út enn fleiri bækur um söguhetjuna Rasmus Klump, hjá bókaútgáfunni Eddu, en þær eru reyndar bara venjulegar barnabækur og eiga því ekkert erindi í þessa umfjöllun. En myndasögubækurnar sautján um Rasmus Klump, sem SVEPPAGREIFANUM er kunnugt um á íslensku, eru þessar:

  •    1. Rasmus Klumpur smíðar skip (1952) 1. útg. 1981
  •    3. Rasmuns Klumpur og síldarmamma (1954) 1. útg. 1983
  •    5. Rasmus Klumpur skoðar píramída (1954) 1. útg. 1981
  •    9. Rasmus Klumpur í sveitinni (1958) 1. útg. 1983
  •  10. Rasmus Klumpur og uppskeran (1959) 1. útg. 1981
  • (11.)Rasmus Klumpur í hnattferð (1960) 1. útg. 1960
  •  11. Rasmus Klumpur í hnattferð (1960) 2. útg. 1983
  •  12. Rasmus Klumpur í undirdjúpum (1961) 1. útg. 1984
  •  15. Rasmus Klumpur á pínukrílaveiðum (1964) 1. útg. 1984
  • (16.)Rasmus Klumpur í leit að fjársjóði (1954) 1. útg. 1960
  •  20. Rasmus Klumpur og kafbáturinn (1969) 1. útg. 1982
  •  21. Rasmus Klumpur og Sóti lestarstjóri (1970) 1. útg. 1984
  •  22. Rasmus Klumpur og litli bróðir (1971) 1. útg. 1982
  •  24. Rasmus Klumpur - Kappsigling í Furðuheimum (1973) 1. útg. 1981
  •  25. Rasmus Klumpur í Kynjaskógi (1974) 1. útg. 1984
  •  26. Rasmus Klumpur fer á sjóinn (1975) 1. útg. 1982
  •  27. Rasmus Klumpur í Hattalandi (1976) 1. útg 1982

Bækurnar um Rasmus Klump hafa yfirleitt verið nokkuð áberandi á nytja- og flóamörkuðum í gegnum tíðina en minna virðist þó hafa farið fyrir þeim nú síðari árin heldur en áður. Rasmus Klumpur er nefnilega ekki alveg jafn sýnilegur og hann var. Sögurnar sem gefnar voru út á níunda áratugnum hafa svo sem aldrei verið neitt ófáanlegar en þær eru auðvitað löngu horfnar úr hillum venjulegra bókabúða. Hvort safnarar eru að grípa með sér þessar bækur eða hvort eðlileg afföll er um að ræða skal ósagt látið en alla vega virðast þær ekki jafn algengar og hér áður fyrr. Myndasögurnar tvær sem Skuggsjá gaf út árið 1960 eru hins vegar afar sjaldgæfar og ef þær bækur sjást á annað borð eru þær yfirleitt mjög illa farnar. Áhugafólk um teiknimyndasögur og venjulegir myndasögusafnarar hafa líklega yfirleitt ekki haft mikinn áhuga á þessum bókum í gegnum tíðina, enda margir sem tengja þær ekki við eiginlegar teiknimyndasögur, en kannski hefur þó orðið einhver breyting á. Einhver vitundarvakning hefur kannski orðið á söfnunargildi þeirra til framtíðar og myndasögusafnararnir eru hugsanlega búnir að vera að laumast til að grípa þessar bækur með sér þegar þær rekur á fjörur þeirra. SVEPPAGREIFINN er klárlega einn þeirra. Hann hefur reyndar aldrei litið á sig sem myndasögusafnara en hefur þó kippt með sér velmeðförnum og ódýrum eintökum af bókunum þegar hann hefur rekist á þau. Rasmus Klumpur telst þó tæplega rúmast innan myndasöguáhugasviðs hans en hann hefur meira verslað þær af skyldurækni. Og þannig er áreiðanlega einnig til komið hjá öðru áhugafólki um teiknimyndasögur.

15. október 2021

190. VIGGÓ Á VEIÐUM

Það kemur fyrir öðru hvoru að sjaldgæfar teikningar frá helstu listamönnum belgísk/franska myndasögusvæðisins dúkki óvænt upp og eru boðnar til sölu á þartilgerðum vettvöngum. Uppruni þessara mynda er af margvíslegum toga. Stundum gerist það að teikningarnar finnast í gömlum skjalasöfnum, sumar koma úr einkaeigu þar sem viðkomandi listamaður hefur gefið gömlum vini, ættingja eða jafnvel aðdáanda einhverjar skissur á blaði og í rauninni geta þessar myndir hafa komið hvaðan sem er. Þarna eru safnarar að selja dýrgripi sína, eitthvað kemur úr dánarbúum, sumum hefur jafnvel verið stolið einhvern tímann á árum áður og svo eru þessar óvænt fundnu teikningar sem enginn virðist vita hvaðan koma og ekkert er vitað um uppruna þeirra. Sjálfsagt er einnig stór hluti þessara mynda falsaðar þar sem óvandaðir aðilar reyna að koma sviknum verkum í verð. Uppboðsvefir, sem taka að sér að selja þessa gripi, hafa yfir að ráða sérfræðingum sem starfa við að verðmeta þessar teikningar. Þá er eitt helsta hlutverk þeirra auðvitað einnig að kanna hvort um falsanir séu að ræða með því að sannreyna uppruna þeirrra. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á gamlar teikningar, í fáeinum færslum hér á síðunni, sem komið hafa fram í sviðsljósið í seinni tíð. Og þar er skemmst að minnast blaðs með skissum af Viggó viðutan og ungfrú Jóku í frekar óhefðbundnum athöfnum sem sjá má í færslu hér. En það er einmitt teikning af svipuðum toga og úr sömu átt sem SVEPPAGREIFINN ætlar að eyða færslu dagsins í.

En fyrir rúmlega þremur árum birtist einmitt á uppboðsvef einum í Frakklandi (Auction.fr) svolítið subbuleg pappírsörk, með gömlum brandara um Viggó viðutan, sem boðin var til kaups. Þessi óvenjulega örk var reyndar útklippt blaðsíða númer þrjú úr 1883. tölublaði myndasögutímaritsins SPIROU sem kom út fimmtudaginn 16. maí árið 1974 og á henni mátti meðal annars sjá kámuga bletti sem við fyrstu sýn gætu einfaldlega virst vera kaffislettur. Þessi blaðsíða hafði verið klippt út úr tímaritinu og límd á venjulega hvíta pappírsörk af stærðinni A4 og neðst á blaðinu voru handskrifuð skilaboð með penna. Þessar upplýsingar allar væru í sjálfu sér ekkert í frásögu færandi nema fyrir það að úr neðstu myndaröðinni höfðu verið klipptir út tveir af upprunalegu myndarömmunum og inn í eyður þeirra hafði verið bætt við tveimur yngri teikningum. 

Áður en lengra er haldið er þó líklega rétt að staldra eilítið við og sýna fyrst upprunalegu blaðsíðuna í heild sinni eins og hún birtist í SPIROU tímaritinu þennan vordag árið 1974.

Í stuttu máli fjallar þessi brandari um það að vinur okkar Viggó viðutan fær lánaða gamla myndavél frá Snjólfi samstarfsmanni sínum. Hann ætlar að fara með ungfrú Jóku að veiða og fær örugglega tækifæri til að smella þar af nokkrum myndum á vélina. Í veiðiferðinni vill Jóka að Viggó taki mynd af þeim saman og hann kemur því myndavélinni fyrir á gömlum trjábol og setur tímastilli hennar á tíu sekúndur. Síðan hraðar hann sér aftur til Jóku en á leiðinni kemur eitthvað fát á hann sem endar með því að hann steypist á hausinn í þann mund sem vélin smellir af. Myndirnar tala auðvitað sínu máli en á síðasta myndarammanum sést Snjólfur hrósa ungfrú Jóku fyrir hinn stæðilega afla og vísar þar í ljósmyndina framkallaða fyrir aftan sig. SVEPPAGREIFINN var reyndar alveg með það á hreinu að þennan brandara væri að finna í einhverjum af íslensku bókunum um Viggó viðutan - svo kunnuglegur var hann. En svo reyndist þó ekki vera. Hins vegar komst hann að því að brandarann væri að finna á frummálinu í Viggó bókinni Lagafe mérite des baffes, sem einmitt er að finna í bókahillum hans, og auðvitað hafði SVEPPAGREIFINN margoft flett þeirri bók. Íslenskir myndasögulesendur verða því að bíða í nokkur ár eftir að 13. bindið í seríunni um Viggó viðutan komi út hjá Froski útgáfu. 

En snúum okkur aftur að hinni merkilegu pappírsörk af uppboðsvefnum.

Eins og sést á þessari mynd eru hinir áðurnefndu rammar úr neðstu myndaröðinni í óvenjulegri kantinum. Í stað þess að Viggó standi á haus, á því augnabliki sem vélin smellir af, grípur hann óvart utan um Jóku og flettir hana óviljandi klæðum í sömu mund svo eftir stendur hún allsnakin!

Ungfrú Jóka er svo sem ekkert að kippa sér mikið upp við þessu óvænta slysi og virðist meira að segja láta sér það í nokkuð léttu rúmi liggja. Hún hrópar jafnvel upp yfir sig, "AAAHHH ... HERRA VIGGÓ!" og er bara nokkuð kát á svipinn. En Viggó bregst aftur á móti frekar vandræðalegur við með hefðbundinni upphrópun sem samsvarar, "ÚPS! HANANÚ?!" Á seinni myndinni, sem skipt hafði verið út, er Viggó hins vegar mættur í framköllunarþjónustu í ljósmyndavöruverslun þar sem glaðhlakkalegur afgreiðslumaðurinn lýsir yfir ánægju sinni yfir veiði dagsins á svipaðan hátt og Snjólfur á upprunalega brandaranum. Viggó sjálfur er aftur á móti hálf skömmustulegur á svipinn.

Á uppboðsvefnum kom það fram að umræddar tvær viðbætur væru teiknaðar með penna og trélitum og að þær væru eftir André Franquin sjálfan. Vakin var athygli á hinum handskrifaða texta fyrir neðan en hann var sagður eftir listamanninn sjálfan og skýrir sögu þessa plaggs. Samkvæmt samanburði á rithöndum eru sterk líkindi til þess að textinn sé frá Franquin kominn. 

Það er víst til lítils að rýna í óskiljanlega, handskrifaða frönsku en þegar þessum texta er snarað sem snöggvast upp á íslensku væri þýðingin á honum í megindráttum eitthvað á þessa leið:

Kæri Jean. Hérna er þessi Viggó brandari eins og hann átti alltaf að vera. Vegna SPIROU varð þó að ... milda hann aðeins. Nú ert þú hinn eini raunverulegi eigandi að Viggó brandara númer 806 eins og hann átti upphaflega að vera. Með bestu kveðjum.

Samkvæmt þessum skilaboðum átti 806. Viggó brandari Franquins því upphaflega að líta svona út. Útgefandi SPIROU tímaritsins, sem var Dupuis, hafi þó komið í veg fyrir að hann birtist í þessu formi í tímaritinu og óskaði eftir því við Franquin að hann breytti honum. Það gerði hann og endanlega útgáfan, eins og við sjáum hana hér ofar í færslunni, birtist að lokum í blaðinu. Einhvern tímann seinna hefur listamaðurinn svo útbúið þessa útgáfu af brandaranum með því að líma myndirnar tvær inn í úrklippu af SPIROU blaðinu og gefið þessum Jean. Nafn eða undirskrift André Franquin kemur þó hvergi fram á þessu plaggi og engin gögn þar eru með staðfestingu á því að hann hafi sjálfur skrifað þessi skilaboð. Sjálfsagt eru þó allar nauðsynlegar upplýsingar og staðreyndir um uppruna skjalsins á hreinu þó þær séu ekki lengur aðgengilegar á sjálfum uppboðsvefnum. Uppruni arkarinnar hlýtur alla vega hafa verið staðfestur með einhverjum hætti því að öðrum kosti hefði hún varla verið boðin upp á þeim vettvangi. Í það minnsta er hvergi minnst á þann möguleika að blaðið gæti verið falsað og einnig virðast að minnsta kosti tveir fyrrum samstarfsmenn Franquins staðfesta upprunalegu útgáfu þessa brandara hans. Ekki kemur fram hvað varð um þessa pappírsörk eða hvort hún yfirhöfuð seldist á uppboðsvefnum. Hvenær Franquin útbjó plaggið er einnig óljóst en tæknilega gæti hann hafa gert það frá því stuttu eftir að þetta 1883. tölublað kom út árið 1974 og allt til þess dag sem hann lést í byrjun árs 1997. Og þá er líka spurningin hver þessi Jean var (er?). Það er reyndar mjög óljóst en einhverjar kenningar eru um að Jean þessi gæti hugsanlega hafa verið listamaðurinn Jean Roba sem þekktastur var fyrir myndasögurnar um Boule og Bill. Þeir Franquin og Roba voru góðir vinir, störfuðu báðir hjá SPIROU og unnu meðal annars saman að nokkrum sögum um Sval og Val. Roba lést árið 2006.

Það er alla vega ljóst að André Franquin hefur verið mjög gamansamur og kannski ekki alveg við eina fjölina felldur í fjölbreytilegri listsköpun sinni. Þessi ljósblái Viggó brandari og hinar erótísku myndir hans af þeim Viggó og ungfrú Jóku bera alla vega vott um töluverðan neðanbeltis-húmor. Eflaust hefur fleirum slíkum listaverkum verið kastað á milli hinna frjóu listamanna sem störfuðu þarna á SPIROU tímaritinu á sínum tíma þó þær kæmu auðvitað aldrei fyrir augu lesenda blaðsins. Það er svo sem ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að fara að dæma Franquin sem einhvern perra eftir þessum brandara og jafnframt frábiður hann sér sjálfur allar ásakanir um kvenfyrirlitningu, klámþörf eða öðru því sem viðkvæmum lesendum gæti dottið í hug við birtingu þessa efnis. Þessa útgáfu af brandararnum ber eingöngu að líta á sem skemmtilega viðbót, við persónuna Franquin, sem vekur mann til umhugsunar að hann hafi þrátt fyrir allt verið mannlegur.