17. apríl 2020

163. PEYO OG KÖTTURINN POUSSY

Heldur hefur nú róast yfir Hrakförum og heimskupörum eftir að vefsíðan hafði farið hamförum í Tinna-mistökum um páskana. En næstu vikurnar og jafnvel mánuðina má hins vegar gera ráð fyrir að SVEPPAGREIFINN muni fara heldur hægar í sakirnar með myndasögubloggið sitt. Vegna aðstæðna má reikna með að hér eftir muni hin reglulega föstudagsfærsla hans fá heldur teygjanlegra hlutskipti og birtast meira eftir hentugleika frekar en venjulegu dagatali. Það var aðeins vegna hagstæðar bloggefnisstöðu á lager sem hægt var að halda uppi vikulegri birtingu síðustu mánuðina en nú er lagerinn hins vegar að miklu leyti orðinn uppurinn. Af óviðráðanlegum orsökum fækkar því færslum SVEPPAGREIFANS að minnsta kosti í bili. Í tilefni þess er algjörlega við hæfi að færsla dagsins í dag sé tileinkuð dýraríkinu!

En belgíski teiknarinn Pierre Culliford, betur þekktur sem Peyo, var afar skapandi listamaður og fær í sínu fagi þó sjálfum hafi honum alltaf þótt lítið til hæfileika sinna koma. Sem barn þótti hann mjög hæfileikaríkur og var sendur til náms í myndlistaskóla en eftir að hann útskrifaðist þaðan komst hann meðal annars í kynni við hina kornungu teiknara Morris og Franquin. Með síðarnefnda listamanninum átti hann nokkru seinna eftir að starfa náið með á belgíska myndasögutímaritinu SPIROU. Áður en hann hóf störf þar hafði hann þá þegar skapað fyrstu framhaldsmyndasöguna sína, um hann Hinrik sem síðar breyttust í Hinrik og Hagbarð (Johan og Pirlouit), en SVEPPAGREIFINN fjallaði eilítið um þær sögur hér. Sögurnar um Hinrik og Hagbarð birtust í SPIROU blaðinu og seinna komu Strumparnir (Les Schtroumpfs) einnig til sögunnar en reyndar fyrst sem aukapersónur hjá þeim Hinriki og Hagbarði. Peyo gerðist gríðarlega afkastamikill og myndasögurnar um Steina sterka (Benoît Brisefer) bættust einnig í safnið. Allar þessar myndasögur, sem við þekkjum ágætlega hér á Íslandi, birtust á síðum tímaritsins SPIROU en auk þess vann hann einnig að fullt af öðrum verkefnum hjá blaðinu. Alls skyldi hann eftir sig nítján sögur um þá Hinrik og Hagbarð, tuttugu og eina Strumpasögu og átta sögur með Steina sterka. 
Íslenskir myndasögulesendur hafa lítið fengið að kynnast öðrum verkum Peyo en mörg þeirra birtust á síðum SPIROU tímaritsins þó þau hefðu ekki endilega orðið að þekktum myndasöguseríum. Eitthvað af þeim hefur reyndar verið gefið út í bókaformi í seinni tíð, meira svona í kynningar- eða varðveisluskyni fyrir safnara en sumt hefur hvergi sést annars staðar en á síðum myndasögublaðsins. Í færslu dagsins er því alveg tilvalið að kíkja aðeins á fáeina stutta hálfsíðubrandara sem Peyo teiknaði meðal annars í SPIROU blaðið og fjölluðu um köttinn Poussy.
Brandarinn hér að ofan birtist í SPIROU blaði númer 1519 þann 25. maí árið 1967 og er nokkuð dæmigerður fyrir afrek ferfætlingsins knáa. Flestir hinna einföldu brandara samanstóðu af fjórum jafnstórum myndarömmum sem fjölluðu um hið daglega líf Poussy. Oftar en ekki voru þeir án orða en þó var það ekki algilt. En kötturinn Poussy var ekki að birtast þarna í fyrsta sinn og var reyndar töluvert eldri fígúra. Hann kom fyrst fyrir í dagblaðinu Le Soir þann 22. janúar árið 1949, þegar Peyo var aðeins rétt tvítugur að aldri, en í SPIROU tímaritinu birtist hann fyrst þann 4. nóvember árið 1965 og sást alltaf öðru hvoru í blaðinu allt til ársins 1977.
Poussy var eiginlega fyrsta alvöru sköpunarverk Peyo og var alltaf í töluverðu uppáhaldi hjá honum sjálfum. Það var nefnilega Poussy að þakka að Peyo hélt áfram að reyna að koma myndasögum sínum á framfæri eftir að blaðið Le Soir gaf honum tækifærið. Margir af þessum bröndurum sem birtust í SPIROU blaðinu voru í raun gamlir brandarar úr Le Soir en höfðu verið litaðir og endurteiknaðir fyrir nýja birtingu. Seinna tók fyrrum samstarfsmaður Peyo, Lucien De Gieter, við að teikna Poussy fyrir blaðið enda Peyo þá sjálfur orðinn önnum kafinn við vinsælustu seríurnar sínar; Hinrik og Hagbarð, Strumpana og Steina sterka.
Poussy talar ekki (ekkert frekar en önnur dýr sem Peyo teiknaði í sögum sínum) og eigandi hans var lítill ljóshærður, nafnlaus strákur. Sjálfur breyttist Poussy lítið frá því hann birtist fyrst í Le Soir og Peyo sá til þess að stíll hans héldist áfram svo til óbreyttur. Sem gerir það að verkum að Poussy er til dæmis ekkert líkur Brandi úr Strumpabókunum eða öðrum kisum sem Peyo teiknaði í sögum sínum. En Dupuis útgáfan gaf út þrjár bækur, með samansafni af bröndurum um Poussy, undir lok 8. áratugs síðustu aldar og þær voru síðan endurútgefnar fyrir fáeinum árum.
Uppáhalds brandari Peyo sjálfs með Poussy var brandari númer 222 (þeir voru ekki birtir í réttri töluröð) sem var einmitt sá fyrsti sem birtist í SPIROU tímaritinu þann 4. nóvember árið 1965. Það er best að enda hina ódýru og einföldu færslu þessa föstudags með þeim uppáhalds brandara Peyo og í heimagerðri íslenskri þýðingu með aðstoð heitt elskaðrar eiginkonu SVEPPAGREIFANS.

13. apríl 2020

162. MISTÖK Í TINNA BÓKUNUM - FIMMTI HLUTI

Þá er komið að fimmtu og síðustu mistakafærslunni úr Tinna bókunum sem SVEPPAGREIFINN ætlar að birta að þessu sinni. Það er víst enn af nægu að taka.

18. KOLAFARMURINN
Bls 6. Þeir Kolbeinn og Tinni koma heim að Myllusetri eftir bíóferð og þá kemur í ljós að hinn gamalkunni Abdúlla, sonur emírsins Ben Kalís úr bókinni um Svarta gullið, er kominn í heimsókn. Abdúlla er auðvitað óþolandi og gerspillt leiðindagerpi sem leggur sig fram um að vera með vesen og gerir enga undantekningu á því þegar Kolbeinn kafteinn er nálægur. Hann tekur sig til og skýtur pípu Kolbeins úr munni hans með pílubyssu. Kafteinninn var hins vegar ekkert að reykja pípuna eða gera sig líklegan til að kveikja í henni þegar Abdúlla skaut henni úr munni hans.
Bls 13 - 14. Hrekkjalómurinn Abdúlla er ekkert hættur. Tinni kemur gangandi heim að Myllusetri (bls 13) og arkar röskum skrefum um beina kaflann frá hliðinu og að aðalinnganginum á höllinni. Inn á milli trjánna meðfram stígnum leynist hins vegar Abdúlla með vatnsbyssu sína og sprautar úr henni óvænt á Tinna (bls 14) svo hann verður holdvotur. Þessi leið eða aðkoma að Myllusetri er sígild í Tinna bókunum og sjónarhornið frá hliðinu og heim að höllinni sést í nokkrum bókum frá reyndar aðeins mismunandi sjónarhornum. Á flestum þeirra mynda sést þessi snyrtilegi stígur, umgjörð hans, trjágróðurinn og svo framvegis. Þegar Abdúlla sprautar úr vatnsbyssunni á Tinna er umhverfið fyrir aftan hann hins vegar allt annað og ekki í neinu samræmi við hin sjónarhornin sem við þekkjum. Hvar er til dæmis beina og snyrtilega grasröndin meðfram stígnum?
Bls 16. Eftir að stjórnarbylting er gerð í Kémed drífa þeir Tinni og Kolbeinn sig til höfuðborgarinnar Vadesda með flugvél. Þegar þangað er komið er þeim meinaður aðgangur inn í landið og eru sendir strax aftur til baka með sömu vél til Beirút. Þessi flugvél er í frumstæðari kantinum fyrir fólksflutninga þannig að farþegar hennar sitja í röðum sitthvoru megin með hliðum hennar. Hægra megin við Kolbein sitja bara fjórir aðrir farþegar en þegar kafteinninn fellur við, eftir að slynkur kemur á vélina, má sjá að farþegarnir þar eru að minnsta kosti orðnir fimm.
Bls 52. Þeir Tinni og Kolbeinn lenda í ýmsum ævintýrum í Kémed en undir lok sögunnar eru þeir allt í einu orðnir skipsráðendur á flutningaskipinu Ramónu á miðju Rauðahafinu. Yfir Ramónu sveimar leitarflugvél á vegum Rassópúlosar og í eitt skiptið sem hún flýgur yfir hleypur Tinni af stað út úr loftskeytaklefanum til að skoða hana nánar. Þegar Tinni stekkur af stað má sjá hvernig snúrurnar frá talstöðinni flækjast utan um hægri fót hans en þegar hann fellur við og liggur á gólfinu sést aftur á móti að vírarnir eru vafðir utan um vinstri fótinn.
Bls 56. Fljótlega eftir að flugvélin hefur verið að sniglast yfir Ramónu verður Tinni var við sjónpípu af kafbát og brátt reyna óvinirnir að hefja tundurskeytaárásir á flutningaskipið. Tinni, Kolbeinn og Úffi verða að hafa sig alla við að verjast þessum árásum og reyndar verða átök kafteinsins við vélsímann svo mikil að það stórsér á honum. Eftir að Kolbeinn er búinn að gera vélsímann að einhverju leyti óvirkann finnur hann sér stóreflis skrúfjárn sér til aðstoðar. Við þau átök sést að vélsíminn er læstur á "hálfum hraða" en örskömmu síðar sýnir hann "fullan hraða".
20. VANDRÆÐI VAÍLU VEINÓLÍNÓ
Bls 1 og 20. Í byrjun sögunnar eru þeir Tinni og Kolbeinn í göngutúr í sveitasælunni (bls 1) í námunda við Myllusetur. Það er vor í lofti, Tinni er meira að segja klæddur í mittisúlpu eða þykkan jakka og Kolbeinn syngur um vorið sem er komið og grundirnar gróa. Samkvæmt því er ekki óvarlegt að áætla að mánuðurinn sé annað hvort apríl eða maí. Aðeins tveimur dögum seinna (bls 20) sést prófessor Vandráður vera að nostra við rósirnar sínar sem virðast vera í fullum blóma. Blómstrandi rósir eru víst full snemma á ferðinni í apríl eða maí - er það ekki?
Bls 8. Kolbeinn kafteinn snýr sig um ökklann snemma í sögunni og fljótlega kemur ungfrú Vaíla Veinólínó í heimsókn með sitt fríða föruneyti. Hún birtist nokkuð snögglega og kemur kafteinum í opna skjöldu þegar hún læðist aftan að honum þegar hann er að búa sig undir að troða sér í pípu. Þegar Vaíla grípur um höfuð Kolbeins bregður honum svo mikið að hann missir bæði pípuna sína og tóbakspakkann. Hvoru tveggja fellur auðvitað á gólfið en svo hverfur það og sést ekki meir.
Bls 24. Sagan mallar áfram með frekar meinleysislegum og rólegum undirtón enda er bókin Vandræði ungfrú Vaílu Veinólínó oft nefnd Tinna sagan sem ekkert gerist í. Kolbeinn er slasaður heima á Myllusetri en situr uppi með Vaílu og reynir eftir megni að forðast næturgalann frá Mílanó eins og kostur er. Það gengur þó upp og ofan. Í eitt skiptið er Vandráður að dunda sér við rósirnar sínar í garðinum og færir Vaílu eina þeirra að gjöf. Vaíla rekur rósina hins vegar beint upp að nefinu á Kolbeini til að leyfa honum að finna af henni ilminn. Þar er þó fyrir geitungur sem stingur kafteininn og nefið á honum bólgnar strax út í kjölfarið. Vaíla aumkar sig yfir Kolbeini og dregur broddinn út úr nefinu á honum undir vökulum augum blaðamanna frá Múla og Pétri. Líffræðilega gengur þetta hins vegar ekki upp. Geitungar stinga en þeir skilja þó brodd sinn ekki eftir í viðkomandi líkt og býflugurnar gera. Í íslensku útgáfunni er þessu þó öðruvísi háttað enda gömlu Tinna bækurnar á íslensku nokkuð frjálslegar í þýðingum. Þar er viðkomandi fluga (guêpe) einmitt þýdd ranglega sem býfluga en þar með gengur þó lífræðilega atferlið fullkomlega upp. 
Bls 41 og 44. Stóru tröppurnar inn af andyrinu að Myllusetri leika nokkuð stórt hlutverk í Vandræðum ungfrú Vaílu Veinólínó en brotið marmaraþrep í þeim tröppum eru til að mynda bein afleiðing meiðsla Kolbeins. Myndarammar af tröppunum birtast því reglulega í bókinni. En það er svolítið breytilegt í sögunni hversu mörg þrep eru í stiganum þarna í anddyrinu. Við vitum að brotna þrepið er það fjórða neðan frá og því getum við lesið það út að þrepin á fyrri myndinni (Bls 41) eru fjórtán talsins. Á seinni myndinni (Bls 44) sést hins vegar greinilega að þrepin eru sextán.
21. FLUGRÁS 714 TIL SYDNEY
Bls 10. Tinni, Tobbi, Kolbeinn og Vandráður fá óvænt far með einkaþotu milljarðamæringjans Laslo Carreidas til Sydney í Ástralíu. Á leiðinni skorar Carreidas á Kolbein kaftein í sjóorrustu (þ.e. leikinn) sem þeir spila sitjandi ská á móti hvorum öðrum í vélinni. Á nokkrum myndarömmum má sjá appelsínugulan púða sem staðsettur er á hliðarsætunum tveimur hægra megin við Kolbein kaftein. Hins vegar er aðeins breytilegt hvar púðinn nákvæmlega er eða hvernig hann snýr.
Bls 20. Einkaþotu Carreidas er rænt, með aðalsöguhetjum okkar um borð, og vélinni lent á lítilli eyju í Súndíska hafinu sem nefnist Púla-púla Bompa. Þar taka á móti þeim gamalkunnir bófar, þeir Hörður stýrimaður og Robert Rassópúlos. Sá síðarnefndi er aðalglæponinn að þessu sinni en virðist þó vera orðinn að hálfgerðum trúð í þessari sögu. Það sést nokkuð vel þegar hann verður undir í baráttu við litla könguló. Á seinni myndinni sést hvar Rassópúlos ber stóran hringa á litla fingri hægra handar en á hinni myndinni, sem birtist rétt á undan, er engan hring að sjá.
Bls 21 - 22. Lendingin á Púla-púla Bompa er nokkuð harkaleg og þegar félagar okkar eru reknir út úr flugvélinni stingur Tobbi af og tekur á rás inn í skóginn. Bófarnir skjóta á eftir honum en Tinni reynir þó að aðstoða Tobba eftir mætti. Eftir slagsmálin og baráttuna við að verja Tobba eru félagarnir þó yfirbugaðir og hendur þeirra allra bundnar á bak aftur en í atganginum fer skyrtukragi Tinna allur úr skorðum. Það sést til dæmis greinilega á myndinni hér til vinstri (bls 21) en á hinni myndinni er búið að laga kragann og Tinni því orðinn jafn snyrtilegur og fyrr.
Bls 48. Þegar líður á söguna tekst Tinna og félögum hans að sleppa frá bófunum og leikurinn berst inn í fornt neðanjarðarhof sem þeir finna fyrir tilviljun. Þar niðri koma þeir að innganginum að aðalhluta hofsins en hann er falinn undir styttu einni sem Tinni fær leiðbeiningar um hvernig skuli opna. Þeir komast þar inn og styttan skellur aftur niður að baki þeirra en hattur Carreidas verður hins vegar eftir og klemmist undir henni. Þeir Rassópúlos, Hörður og félagar þeirra koma síðan í humáttina á eftir og sjá hatt Carreidas fastan undir styttunni. Þegar Hörður togar hatt milljarðamæringsins undan henni sést að hann hefur úr á vinstri úlnlið sínum en einhvers konar armband eða ól á þeim hægri. Þegar hann réttir hattinn í áttina að Rassópúlos, til að sýna honum, sést að armbandið er skyndilega komið yfir á vinstri höndina.
22. TINNI OG PIKKARÓNARNIR
Bls 3 og 14. Sagan um Tinna og Pikkarónana gerist að mestu í febrúar en hefst þó hugsanlega undir lok janúar á meðan þeir Tinni og Kolbeinn eru enn staddir heima að Myllusetri. Kjötkveðjuhátíðir eru ætíð haldnar í febrúar en slík hátíð leikur einmitt stórt hlutverk í þessari sögu. Í upprunalegu frönsku útgáfunni má sjá stórt auglýsingaskilti (bls 14) þar sem dagsetning hátíðarhaldanna kemur skýrt fram en reyndar er búið að þurrka þá dagssetningu út í íslensku útgáfunni. Snemma í bókinni (bls 3) á Kolbeinn símtal við Flosa Fífldal en fyrir aftan hinn síðarnefnda má greinilega sjá dagatal á veggnum þar sem fram kemur mánuður með þrjátíu dögum. Sá mánuður er hvorki janúar né febrúar og reyndar þarf að leita fram í apríl til að finna slíkan mánuð.
Bls 9. Í skugga orðaskipta, sem ganga aðallega á milli Kolbeins kafteins og Tapíóka hershöfðingja í gegnum fjölmiðla, sitja þeir Tinni og Kolbeinn saman í borðstofu Mylluseturs einn morguninn og ráða ráðum sínum. Vandráður prófessor situr hins vegar skammt frá þeim og les í dagblaði en í bakgrunninum má einmitt sjá þá Tinna og Kolbein skrafa saman. Á næstu mynd á eftir hrekkur Vandráður svo í kút að þeir Tinni og Kolbeinn eru þeir skyndilega með öllu horfnir.
Bls 10. Hmmm... já síðan kemur í ljós að Kolbeinn sat bara alls ekkert þarna heldur sat hann (samkvæmt seinni myndinni) allan tímann fyrir framan Vandráð!
Bls 12. Eftir að Tapíóka hefur ögrað Kolbeini í nokkra daga stenst kafteinninn ekki freistinguna og ákveður að fljúga til Tapíókapólís ásamt Vandráði prófessor. Á flugvellinum tekur á móti þeim Alvares herráðsforingi. Eitthvað er breytilegt hversu háttsettur Alvares er því yfirleitt hefur hann þrjár stjörnur á rauða fletinum á kraga sínum en á einni myndanna eru stjörnurnar fjórar.
Bls 15 - 16. Þeim Kolbeini og Vandráði er fylgt á áfangastað sinn þar sem þeir fá heila lúxusíbúð til afnota með öllum þægindum. Vandráður bregður sér í bað en Kolbeinn leitar uppi vínskápinn og fer að kanna innihald hans. Þá má sjá að bækurnar í hillunni, sem er vinstra megin við vínskápinn, breyta um lit á milli myndanna en einnig fjölgar um eina bók í hillunni fyrir ofan barinn.
Bls 15 og 22. Íbúð þeirra félaganna er vöktuð með myndavélakerfi þar sem hver myndavél hefur sinn skjá í upptökuherberginu en sjónvarpsskjáirnir eru merktir hverri myndavél með númerum. Þannig sést til dæmis á fyrri myndinni (bls 15) að myndavél númer 1 beinist að vínskápnum. Af hverju sést þá á seinni myndinni (bls 22) að skjárinn sem merkur er 1 snýr að öðru sjónarhorni?
Bls 23. Þeir Tinni og Kolbeinn ráða ráðum sínum. Sá síðarnefndi hellir sér í glas og dreypir á en prófessor Vandráður sést í bakgrunninum með málverk fyrir aftan sig á veggnum. Á neðri myndinni, þegar Kolbeinn frussar út úr sér áfenginu, sést að myndin fyrir aftan Vandráð er horfin.
Bls 30. Tinni, Kolbeinn og Vandráður prófessor eru komnir inn í frumskóginn þar sem þeir hafa gengið til liðs við Alkasar hershöfðingja og skæruliða hans. Á ferð sinni um skóginn koma þeir meðal annars þangað þar sem Tapíóka hefur látið senda kassa af áfengisflöskum inn í skóginn með fallhlíf. Þar sem þeir Tinni og Alkasar hafa staldrað við má sjá að rauði runninn, fyrir aftan þá upp við stóra tréð, færist skyndilega úr stað eða snarminnkar að minnsta kosti.
Bls 32. Á ferð þeirra um skóginn hittir Tinni gamlan kunningja, Ridgewell, úr bókinni um Skurðgoðið með skarð í eyra. Ridgewell heldur alltaf um stafinn sinn í hægri hendinni nema eitt lítið andartak, þegar hann þarf að heilsa Tinna með handabandi, þá er hann allt í einu kominn með stafinn í vinstri hendina. Augnabliki síðar er stafurinn aftur kominn í hægri hendina.
Bls 47. Ferðalangarnir koma loksins til bækistöðva skæruliðanna, lengst inni í frumskóginum, eftir langt og strangt ferðalag og hitta þar meðal annars fyrir eiginkonu Alkasars hershöfðingja. Þó aðstæður skæruliðanna í skóginum séu nokkuð frumstæðar má þó þar samt finna forláta sjónvarpstæki í híbýlum Alkasars og frú Döggu. Sjónvarpið birtist í nokkrum myndum og þar sést að myndarammi er staðsettur ofan á sjónvarpinu. Á einni myndanna vantar þó þennan ramma. Eða ... kannski gleymdist bara að lita rammann þannig að hann er í felulitunum.
Þá hefur SVEPPAGREIFINN lokið við að hrella lesendur Hrakfara og heimskupara yfir páskana með þessari mistakatörn sinni úr Tinna bókunum. Það skal reyndar tekið fram að það efni sem birst hefur hér síðustu fimm dagana hefur SVEPPAGREIFINN ekki sjálfur verið að dunda sér við að leita uppi heldur er það (óttalegur) samtíningur úr ýmsum þartilgerðum áttum. Og án nokkurs vafa er þetta samansafn af efninu alls ekki tæmandi. Sjálfsagt hafa fjölmörg mistök í viðbót, úr bókunum, farið framhjá vökulum augum Tinna fræðinga út um allan heim. Glöggir lesendur hafa auk þess örugglega tekið eftir því að engin mistök eru tiltekin úr bókunum um Svarta gullið og Tinna í Tíbet. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar enga haldbæra skýringu á því. Þá skal getið að sumar af þessum villum Hergés eru klárlega mistök en annað sem hér hefur verið tilgreint hefur sjálfsagt sínar skýringar og má eflaust túlka á alla vegu. Sem dæmi um það má til dæmis nefna þegar Ridgewell úr Tinna og Pikkarónunum (hér rétt fyrir ofan) heldur á staf sínum með hægri hendinni á öllum myndunum nema einni. Hann hefði hæglega getað skipt um hönd rétt á meðan hann var að heilsa Tinna þó það sjáist ekki endilega í sögunni. Myndasöguformið er gallað að því leyti að ýmislegt getur gerst á milli myndanna sem ekki kemur alltaf fram. En vonandi hafa einhverjir haft gaman af þessum páskafærslum og það er aldrei að vita nema SVEPPAGREIFINN tíni til fleiri svona pakka úr öðrum myndasöguseríum þegar vel liggur á honum.

12. apríl 2020

161. MISTÖK Í TINNA BÓKUNUM - FJÓRÐI HLUTI

Þá er hinn gleðilegi páskadagur runninn upp og enn á ný er komið að mistakapakka úr Tinna bókunum. Að þessu sinni er það fjórði og næstsíðasti hlutinn en undanfarna þrjá daga hefur SVEPPAGREIFINN verið að dunda sér við að birta þessar færslur fyrir þá sem leiðast þessir dagar. Fyrsta bókin sem við kíkjum á í dag er Fangarnir í Sólhofinu.

13. FANGARNIR Í SÓLHOFINU
Bls 1. Strax í upphafi sögunnar um Fangana í Sólhofinu hafa þeir Tinni og Kolbeinn flogið til hafnarborgarinnar Kallaó í Perú. Og til að sýna fram á þessa staðreynd er birt kort af Suður Ameríku strax á fyrsta myndaramma sögunnar á blaðsíðu eitt. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að Perú er bara alls ekki með alveg rétta lögun á kortinu. Einhverjum kynni að finnast að hér væri verið að gera úlfalda úr mýflugu. En án nokkurs vafa er hætt við að einhverjir Íslendingar myndu móðgast illilega ef sambærileg mistök af Íslandi finndust í einhverri teiknimyndasögu.
Bls 9. Enn á ný er Hergé í vandræðum með símana sína. Eftir að Tinni og Kolbeinn hafa staðfest grun sinn, um að prófessor Vandráður sé um borð í flutningaskipinu Pakakama, drífa þeir sig í land og Tinni skipar Kolbeini að hringja í lögreglustjórann á meðan hann stendur sjálfur á verði. Kolbeinn bregður sér því í næsta símklefa. Á tveimur myndum sjást mismunandi útgáfur af skífunni á símanum. Á fyrri myndinni sýnir skífan á símanum tíu tölur en aðeins níu á þeirri seinni.
Bls 15. Þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn fá sér far með lest til borgarinnar Júga þegar óprúttnir aðilar taka sig til og aftengja aftasta vagninn (þann sem þeir félagar sitja einir um) frá afgangnum af lestinni. Vagninn tekur að renna stjórnlaust til baka og þeir félagar bregða því á það ráð að stökkva af lestinni áður en það verður um seinan. Tinni tefst hins vegar af því að hann áttar sig á að Tobbi er enn sofandi í sætinu. Hraðinn er því orðinn of mikill svo hann neyðist til að henda sér af lestinni á brú einni yfir djúpu árglúfri. En eðlisfræðilega gengur þetta víst ekki upp. Tinni stekkur af lestinni sem er á ferð og hefði því fallið niður með sama hliðarhraða og lestin var á. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði hann því átt að lenda í klettunum handan árinnar. Ef hann ætlaði að lenda ofan í vatninu hefði hann átt að stökkva áður en lestin var komin út yfir ána.
Bls 58 - 59. Í Föngunum í Sólhofinu er að finna eitt sígildasta atvik Tinna bókanna. Þar er um að ræða atvikið þegar fórna á þeim Tinna, Kolbeini og Vandráði prófessor fyrir sólarguðinum og Tinni bjargar þeim frá bana með vitneskju sinni um sólmyrkvann. Þetta þekkja allir og í framhaldinu treystir SVEPPAGREIFINN á að hann fari ekki með neinar fleipur. En tunglið skyggir smán saman á sólina á nokkrum myndum á blaðsíðum 58 og 59 og á þeim sést hvernig það færist frá neðri hluta sólarinnar hægra megin og yfir á efri hlutann vinstra megin. Við sólmyrkva á norðurhveli jarðar færi tunglið framan við tunglið úr þessa átt. Þessi sólmyrkvi er hins vegar á suðurhvelinum.
15. ELDFLAUGASTÖÐIN
Framan í bókarkápu Eldflaugastöðvarinnar er einföld villa sem hefur sennilega farð framhjá ansi mörgum í gegnum tíðina. Þetta er líklega ein þekktasta kápa Tinna bókanna og sýnir frá mjög eftirminnilegu atviki úr sögunni þegar Vandráður tók bláa jeppann ófrjálsri hendi. Fæstir hafa þó líklega tekið eftir því að við bílstjórasætið, þar sem Vandráður prófessor situr, vantar alveg stýrið!
Bls 1 - 2. Kolbeinn og Tinni koma heim að Myllusetri eftir langa dvöl erlendis og staldra aðeins við í anddyrinu við tröppurnar þar. Þessar tröppur sjást nokkuð oft í Tinna bókunum og skemmst er að minnast þeirra í bókinni um Vandræði Vaílu Veinólínó þar sem Magnsteinn nokkur múrarameistari kemur töluvert við sögu. Fyrsta þrepið byrjar eilítið fyrir innan háa stólpann (bls 1) við enda handriðsins vinstra megin. Hægra megin (bls 2) má hins vegar sjá hvar allur stólpinn kemur nokkuð framan við tröppuna. Það er því ljóst að töluvert ósamræmi er á staðsetningu stöplanna.
Bls 2 - 3. Um leið og Tinni og Kolbeinn koma heim fá þeir símskeyti frá Vandráði prófessor um að koma tafarlaust til Sýldavíu þar sem hann óskar eftir liðsinni þeirra. Tveimur dögum síðar eru þeir komnir upp í flugvél og halda af stað til hinnar sýldavísku höfuðborgar Klow. Þessi flugvél (sem er frá hinu margrómaða flugfélagi Syldair) breytir hins vegar svolítið um útlit uppi í háloftunum. Á fyrri myndinni (bls 2) sést að hluti hlífanna yfir hreyflunum er með gulum lit en ekki á þeirri seinni (bls 3) og auk þess virðast bæði litasamsetningin og merkingarnar á stélinu hafa breyst.
Bls 27. Vandráður er að undirbúa ferð til tunglsins og í fyrstu vinnur hann að lítilli tilraunaeldflaug sem nefnist X-FLR 6. Eldflaugin er kunnugleg í útliti og allir kannast við rauð/hvít köflóttu útfærsluna sem er svo áberandi í tunglbókunum tveimur. Litla eldflaugin er með fimm bil af rauðu og hvítu reitunum á öllum stöðum í bókinni og það sést til dæmis vel á myndinni hér til vinstri. Á einum myndaramma í bókinni (bls 27) er flaugin þó með sex bil en það sést á myndinni til hægri.
Bls 50 - 51. Undirbúningur geimfaranna er í fullum gangi og að ýmsu þarf að huga í aðdraganda tunglferðarinnar enda af nægum verkefnum að taka. Á fundi með herra Baxter greinir prófessor Vandráður frá því (bls 51) að Tobbi sé, á nákvæmlega þeirri stundu, staddur í prófun á geimbúningi sínum sem verið er að ljúka við. Samt er Tobbi (bls 50) með þeim á þessum fundi!
Bls 55 - 56. Þeir Tinni og Kolbeinn er á leiðinni til geimskotsins og sitja saman í bíl sem ekur þeim þangað. Aftan frá sést að Kolbeinn situr vinstra megin í aftursæti bílsins (bls 55) og Tinni hægra megin. En séð innan úr bílnum (bls 56) situr Kolbeinn hins vegar í sætinu hans Tinna og öfugt.
16. Í MYRKUM MÁNAFJÖLLUM
Þegar byrjað er að fjalla um mistök í bókinni Í myrkum mánafjöllum þá er kannski rétt að skoða fyrst aðeins eldflaugina sjálfa eins og hana leggur sig. Aðallitur flaugarinnar er rauður en á efri hluta hennar er hins vegar rauð og hvít köflóttur partur sem gefur henni þetta einkennandi útlit sem allir kannast auðvitað mjög vel við. Litirnir raðast upp á þann hátt að á milli hverra fóta flaugarinnar komast fyrir tvær raðir af reitum. Neðstu reitirnir tveir skiptast því yfirleitt þannig að vinstra megin er reiturinn hvítur en hægra megin er hann rauður. Þetta sést til dæmis greinilega framan á kápu bókarinnar. Litauppröðunin á eldflauginni er þó ekki alls staðar eins og hefur víxlast á nokkrum stöðum í bókinni þar sem rauði liturinn er vinstra megin. Dæmi um það eru eiginlega út um alla bókina og raunar má deila um hvort sé rétt og hvort er rangt.
Bls 2. Í tunglferðabókunum tveimur fá starfsfólk eldflaugastöðvarinnar úthlutað samfestingum í aðeins mismunandi litum. Hver starfsmaður fær sitt eigið númer, með svörtum stöfum á rauðum hring, merkt á vinstri brjóstvasa vinnusamfestings síns. Kolbeinn hefur ávallt númerið 56 framan á brjóstvasa sínum en á einni mynd í upphafi bókarinnar er hann hins vegar með númer 57.
Bls 3. Aftur eru númersmerkingar samfestinga starfsmanna eldflaugastöðvarinnar til umfjöllunar. Á myndinni sem er hægra megin ætti merkið á brjóstvasa Skapta að vera rautt á litinn.
Bls 4. Tunglfararnir eru lagðir af stað út í geiminn og Vandráður kallar á þá Tinna og Wolf til að sýna þeim jörðina, í spegilsjónauka hans, úr 9500 kílómetra fjarlægð. Þarna sést jörðin í allri sinni dýrð utan úr geimnum en það er hins vegar ekki eitt einasta ský sjáanlegt á öllum hnettinum.
Bls 7. Enn á ný eru númeramerkingar söguhetjanna komnar eitthvað á flakk. Tinni er alltaf með númerið 57 á brjóstvasa sínum í bókunum nema á einni mynd í þriðju myndaröð á blaðsíðu sjö. Þar hefur hann verið merktur númerinu 56 sem ku reyndar vera talan hans Kolbeins kafteins.
Bls 11. Snemma í bókinni fær Kolbeinn sér aðeins í glas, bregður sér í geimbúninginn og tilkynnir ferðafélögum sínum að hann ætli að fljúga heim aftur. Eldflaugin stöðvast þá sjálfkrafa og Tinni bregður sér líka út fyrir til að reyna að hafa vit fyrir kafteininum en það tekst að lokum eftir töluvert japl, jaml og fuður. Tinni hundskammar Kolbein fyrir tiltækið og saman rölta þeir (bls 11) aftur inn í flaugina. Þar sem þeir ganga ofan á eldflauginni sjást hinar innfelldu stigagrindur utan á skrokk hennar en hvernig í ósköpunum stendur á því að stiginn er fyrir ofan dyrnar á flauginni?
Bls 12. Skaftarnir fá kast af blú-blú-veikinni í eldflauginni og Tobbi bregður á það ráð að hanga í skegginu á þeim af hæðinni fyrir neðan. Tinni stekkur til að sækja skæri og þá er greinilegt að hann er kominn í segulklossana sína. En af hverju sést þá í hvítu sokkana hans á fyrri myndinni?
Bls 14. Þeir Tinni og Kolbeinn skiptast á að klippa hár Skaftanna og á einum stað sést að Tinni hefur rétt Kolbein kafteini skærin. Á næstu mynd á eftir heldur Tinni samt ennþá á skærunum.
Bls 16. Á tveimur myndarömmum á blaðsíðu sextán er prófessor Vandráður í vandræðum með númerið sitt á samfestingnum. Efst á síðunni er mynd þar sem ekkert númer er á rauða hringnum á gallanum hans og nokkru neðar á blaðsíðunni hefur gallinn ekki einu sinni rauðan hring.
Bls 17. Hér eru tæknileg mistök í gangi. Það er verið að snúa eldflauginni og hafa á henni endaskipti en til þess er notaður sérstakur hliðarhreyfill sem sér um að snúa flauginni um sjálfa sig í þyngdarleysinu. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum myndi eldflaugin halda áfram að snúast eftir að slökkt er á hliðarhreyflinum nema annar hreyfill hinum megin myndi vinna á móti.
Bls 19. Eftir að Kolbeinn fór í geimgönguna sína, snemma í bókinni, hefur hann ekki klæðst samfestingnum sínum aftur heldur verið í gömlu, bláu sjómannspeysunni sinni. Á einum myndaramma hefur hann þó klæðst samfestingnum eitt augnablik og sú mynd er hér til hægri.
Bls 33. Eftir að eldflaugin er lent á tunglinu taka við ýmis verkefni hjá ferðalöngunum og rannsóknarleiðangrar á tungldreka einum er hluti af þeim vinnu. Þeir Tinni og Kolbeinn eru duglegir að nota þann notadrjúga fararskjóta og hann sést á mörgum myndarömmum um miðbik bókarinnar. Tungldrekinn er vel búinn verkfærum og á myndunum sést hvar haki nokkur er festur á hægri hlið hans. Hakann vantar hins vegar á einni mynd sem birtist á blaðsíðu þrjátíu og þrjú.
Bls 43 og 45. Boris kemur til sögunnar og þeir Wolf ætla að stinga af með eldflaugina en Tinni tekur þá málin í sínar hendur. Allt þetta gerist á fáeinum blaðsíðum. Tinna tekst að stöðva hreyfilinn, flaugin skellur niður og bófarnir eru yfirbugaðir. Samkvæmt fyrri myndunum (bls 43) stöðvar Tinni vélina klukkan 2:05 eða 14:05 og Kolbeinn, Vandráður og Skaftarnir koma þá strax í kjölfarið inn til að kanna hvað gengur á. Þeir fara strax að yfirheyra bófana en klukkan á veggnum (bls 45) er samt orðin 10:00 og þetta er bara fáum mínútum eftir að flaugin skellur niður aftur.
17. LEYNIVOPNIÐ
Bls 6. Sagan um Leynivopnið hefst á því að þrumveður skellur á við Myllusetur og snemma í bókinni kemur tryggingasalinn Flosi Fífldal í heimsókn í fyrsta sinn í seríunni. Kolbeinn fær sér viskí og gefur Flosa einnig í glas en á meðan þeir spjalla saman, í stofunni að Myllusetri, brotna glös þeirra beggja í höndunum á þeim. Á tveimur myndarömmum (bls 6) sjást þeir standa hlið við hlið með landslagsmálverk upp á vegg í bakgrunninum. Á málverkinu má sjá hús til hægri en á seinni myndarammanum er einnig komið tré fyrir aftan húsið en það var ekki á fyrri myndinni.
Bls 20 - 21. Tinni og Kolbeinn eru komnir til Sviss og freistast til að hafa uppi á Vandráði prófessor sem hefur skráð sig á Hótel Cornavin í Genf. Þeir fara á mis við hann á hótelinu og missa síðan af lestinni til borgarinnar Nyon þegar þeir ætla að elta hann þangað. Þeir bregða því á það ráð að taka leigubíl til Nyon en á leiðinni þangað er bílnum þröngvað út af veginum, af svörtum Citroen, svo hann lendir ofan á Genfarvatninu. Leigubílstjórinn er í gráum jakka (bls 20) við stýrið á bílnum þegar svarti Citroeninn bolar þeim út í vatnið en þegar vegfarendurnir eru að draga þá félagana alla upp úr vatninu (bls 21) er jakkinn hins vegar brúnn á litinn.
Bls 25 - 26. Í Nyon rekja Tinni og Kolbeinn slóðina að heimili prófessors Toppólínó, sem býr að Gróugötu 57, en þeir byrja reyndar á því að frelsa hann úr kjallara húss síns. Síðan setjast þeir allir saman að spjalli uppi þar sem vínflaska á borðinu freistar Kolbein meira en góðu hófi gegnir. Sitthvoru megin við flöskuna standa einnig tvö vínglös og þegar Toppólínó rekur sig óvart í flöskuna (bls 25) fellur hún um koll ásamt vínglösunum tveimur. Kolbeinn bregst snögg við og grípur fallandi vínflöskuna en þá eru glösin tvö hins vegar orðin óhult annars staðar á borðinu.
Bls 28. Skaftarnir eru mættir til Nyon og til að reyna að falla inn í fjöldann dulbúa þeir sig í svissneska þjóðbúninga. Þeir vekja hins vegar, þvert á móti, svo mikla eftirtekt að þeir eru handteknir fyrir grunsamlega hegðun í grennd við hús Toppólínó. Á blaðsíðu 28 sjást þeir klæddir hinum svissnesku þjóðbúningum en eyrnalokkar virðast vera hluti þeirrar þjóðlegu múnderingar. Á að minnsta kosti einni myndanna af þeim vantar annan eyrnalokkinn á annan þeirra.
Bls 30. Þeir Tinni og Kolbeinn rekja slóð prófessors Vandráðs að bordúríska sendiráðinu, sem er skammt frá Nyon, og leggja leið sína þangað í rannsóknarleiðangur í skjóli nætur. Þar verða þeir vitni að því þegar sýldavískir stigamenn ræna Vandráði frá bordúrískum kollegum sínum og hlaupa með hann út í bát sem bíður þeirra á bakka Genfarvatnsins. Tinni eltir þá að bátnum og á fyrri myndinni sjást þeir koma hlaupandi út á bryggjuna en á hinni seinni eru þeir enn á grasinu.
Bls 31 - 32. Tinni og Kolbeinn bregða á það ráð að stela þyrlu (auðvitað!) frá Bordúríumönnunum til að elta Sýldavíumennina á bátnum. Tobbi er alltaf með regnhlíf prófessors Vandráðs í kjaftinum, frá því hann fann hana í rústum húss Toppólínós, og passar vel upp á hana í þyrlunni. Hann gerir ýmsar æfingar með regnhlífina, líklega af spenningi yfir eltingarleiknum, og snýr handfanginu á henni ýmist upp eða niður eftir því í hvaða myndaramma hann er staddur.
Bls 32. Í Nyon höfðu þeir Tinni og Kolbeinn einmitt lent í sprengingu í húsi prófessors Toppólínó og Kolbeinn kafteinn var búinn að vera með nokkra plástra á sér síðan. Einn þeirra var á var á litla fingri hægri handar hans og sést til dæmis nokkuð greinilega á mynd sem er efst á blaðsíðu 32. Augnabliki síðar er þessi plástur á fingri kafteinsins horfinn og sést ekki meira í sögunni.
Bls 49. Aftur halda Tinni og Kolbeinn til Genfar þar sem þeim gefst kostur á að taka næstu flugvél til borgarinnar Szóhód í Bordúríu. Þegar þeir koma þangað er tekið á móti þeim með virktum og tveir aðstoðarmenn sjá um að fylgja þeim eftir hvert sem er. Tinni og Kolbeinn gista á Hótel Zsnôrr og bregða á það ráð að bjóða fylgdarmönnunum upp á kampavín og hella þá haugfulla til að losna við þá. Við borð þeirra í veitingasal hótelsins sést hvar annar fylgdarmannanna er óvænt allt í einu búinn að týna servíettunni sem hann hafði haft um hálsinn. En hún kemur aftur.
Bls 53 - 54. Á flótta undan öryggislögreglu Bordúríu álpast Tinni og Kolbeinn inn á óperuhöllina í Szóhód og þar hitta þeir óvænt fyrir sjálfa Vaílu Veinólínó. Hún bíður þeim til búningsherbergis síns og á nokkrum myndum má sjá að það er misjafnt hversu marga hringa Vaíla Veinólínó er með á fingrum sínum en einnig virðist vera nokkuð breytilegt á hvaða fingrum þeir eru.
Bls 54. Í búningsherbergi Vaílu kemur yfirlögregluforinginn Sponzs offursti óvænt í heimsókn til að votta henni virðingu sína. Á veggnum fyrir aftan ofurstann sést græn auglýsingamynd eða plaggat með einhverjum bordúrískum texta á tveimur myndarömmum á blaðsíðunni. Táknið fyrir ofan "o-ið" í textanum er hins vegar ekki lengur til staðar á seinni myndinni.
Þá er enn einni færslunni úr páskaþema SVEPPAGREIFANS lokið og því er bara eftir ein slík sem mun birtast í fyrramálið en það ku vera að morgni annars dags páska.