27. nóvember 2020

179. NOKKUR HEIMSKUPÖR RATTATA

Í færslu dagsins ætlar SVEPPAGREIFINN að kafa eilítið (reyndar ekkert mjög djúpt) ofan í frábæru aukapersónu sem kemur reglulega fyrir í bókunum um Lukku Láka. Hér er hann að sjálfsögðu að tala um hundræksnið Rattata en óhætt er að segja að kvikindið sé mjög nálægt því að vera alveg heimskur. Svo sterk aukapersóna er Rattati að hann fékk meira að segja á sínum tíma sérstaka hliðarseríu um sig (Rantanplan) sem SVEPPAGREIFANUM finnst að reyndar hefði vel verið hægt að vinna töluvert betur úr. Hugmyndin var frábær, enda heimsku hundsins engum takmörkum sett, en afraksturinn ekki jafn vel heppnaður. Bækurnar um Rantanplan urðu alls tuttugu talsins (auk fjögurra aukabóka) en þær voru gefnar út í Frakklandi á árunum 1987 - 2011 og hafa verið þýddar á nokkur önnur tungumál. Þetta efni var mest unnið og teiknað af tveimur hópum, sem að einhverju leyti voru undir eftirliti Morris, þar sem helmingurinn af bókunum var með heilum sögum en hinn helmingurinn með stuttum bröndurum. En sögupersónan Rattati birtist sem sagt fyrst í Lukku Láka sögunni Sur la piste des Dalton sem kom út í bókaformi árið 1961 en sú saga hafði birst í belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU nokkrum mánuðum áður. Rattati sjálfur sást strax á fyrstu blaðsíðu þeirrar sögu, þann 4. febrúar árið 1960, í SPIROU blaðinu og leit þá svona út.
Sagan segir að það hafi verið handritshöfundurinn René Goscinny sem hafi fyrst átt hugmyndina að Rattata og upphaflega hafi hann átt að vera einhvers konar grínútgáfa af hundinum Rin Tin Tin. Það muna þó líklega ekki mjög margir eftir hinum bráðgáfaða Rin Tin Tin en hann var ein af fyrstu dýrahetjum kvikmyndasögunnar og var eiginlega forveri sjálfrar Lassýar sem mun fleiri kannast við. Goscinny var orðinn eitthvað þreyttur á þessum hallærislegu ofurhetjum kvikmyndanna, úr dýraríkinu, svo hann ákvað að skapa einhvers konar andhetjulegt mótsvar gegn þeim. Það heppnaðist svona líka frábærlega og til varð þetta stórkostlega viðrini sem Rattati greyið er.
En verkefni dagsins er sem sagt að skoða fáein heimskupör Rattata og rifja upp nokkur augnablik úr Lukku Láka bókunum þar sem hundurinn hefur fengið að láta ljós sitt skína. Það vita eflaust allir, sem lesið hafa þessar myndasögur, að upphaflega var Rattati fangelsishundur og hafði meðal annars þann starfa að fylgjast með Dalton bræðrum við afplánanir sínar. Þegar Daldónar struku síðan úr fangelsunum fékk Lukku Láki stundum það verkefni að leita þá uppi og oftar en ekki var Rattati, af einhverjum ástæðum, einnig hafður með í för. Sjaldnast var það þó að vilja Láka og enn síður Léttfeta sem telur hundinn ein stærstu mistök náttúrunnar frá upphafi. Rattati birtist því að miklu leyti í þeim Lukku Láka sögum þar sem Dalton bræður koma við sögu en þó ekki öllum. Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að hann er til dæmis hvergi sjáanlegur í Fjársjóði Daldóna (Le Magot des Dalton - 1980) og sömu sögu má segja um bókina Daisy Town, frá árinu 1983, þar sem Dalton bræður leika einnig stórt hlutverk. Þá eru að sjálfsögðu eldri bækurnar með Daldónunum líka án Rattata enda var þá ekki búið að kynna hundinn til sögunnar. Í íslensku útgáfuröðinni var það í bókinni Sálarháski Dalton bræðra (La Guérison des Dalton - 1975) sem Rattati er fyrst kynntur fyrir íslenskum aðdáendum og þar fá lesendur svolitla innsýn í bernsku hundsins.
Af þessum æskuminningum Rattata að dæma má því ætla að kvikindið hafi alltaf verið fremur snautt að gáfum og það kemur svo sem lítið á óvart. En fyrst og fremst er hlutverk Rattata í Lukku Láka bókunum að gera sögunar fyndnari og hann fær alveg fullt af eigin bröndurum í seríunni. Þannig nýtur hann til að mynda töluvert mikillar athygli í bókinni Ríkisbubbinn Rattati (L'héritage de Rantanplan - 1973) en inni í miðri þeirri sögu (á blaðsíðum 35-39) fær hann í raun fjögurra síðna aukasögu í nokkurs konar heiðursskyni. Sú örsaga sýnir vel hve heimskur, klaufskur og ósjálfbjarga Rattati er í raun og veru. Þar sést til dæmis vel hversu bjargarlaus hann er úti í náttúrunni og síðast en ekki síst hve hundurinn er með gjörsamlega handónýtt þefskyn. Það kemur líka fram snemma í áðurnefndri Sur la piste des Dalton að Rattati glímir við króníska heymæði og af þeirri ástæðu sé lyktarskyn hans ekki eins og eðlilegt talist getur hjá hundi.
Í Sur la piste des Dalton kemur líka fram, í fyrsta skipti í bókaflokknum, að hesturinn Léttfeti kann að tala. Hans fyrstu orð í allri seríunni beinast einmitt að Rattata þegar þeir hittast í fyrsta sinn og þar lýsir hann strax yfir vanþóknun sinni á hundinum. Reyndar er það skot ekkert endilega persónulegt gagnvart Rattata sjálfum, enda þekktust þeir ekkert fyrir, heldur virðist hann almennt ekki hafa mikið álit á hundum. Rattata tókst þó hins vegar mjög fljótlega að vinna sér inn persónulega óvild Léttfeta með óútreiknanlegum heimskupörum sínum. En í það minnsta er alla vega alveg óhætt að segja að Rattati hafi átt þátt í að talvæða Léttfeta til frambúðar.
Með tilkomu Rattata hefur einmitt verið talað um að marka megi upphaf gullaldartíma seríunnar. Að með hundinum heimska hafi bókaflokkurinn verið orðinn fullmannaður og því tilbúinn til að slá endanlega í gegn. Hvort Rattati hafi gert endanlega útslagið er reyndar kannski orðum aukið en vissulega leikur hann skemmtilega rullu í seríunni. Hlutverk Rattata í sögunum snýst þó ekki bara um að vera þessi skemmtilega og bráðfyndna aukapersóna, sem hann er, heldur er hann mjög mikilvægur til að fylla upp í dauða punkta í sögunum með fyndnum og jafnvel leyndum heimskupörum. Ekki á ósvipaðan hátt og Léttfeti sem kemur með skondnar athugasemdir, upp úr nánast engu, þegar brjóta þarf upp langdregnar senur eða til að brúa bilið á milli kaflaskila. Á einu slíku innslagi má til dæmis sjá hversu trúr og tryggur hann er sínu hundseðli.
Í bókinni Rex og pex í Mexíkó bregða þeir Lukku Láki, Léttfeti og Rattati sér meðal annars yfir landamærin, til Mexíkó, og hitta þar fyrir hinn moldríka landeiganda Don Dósóþeus Pinnos. Hann býður þeim að dvelja á búgarði sínum um stundarsakir og þeir félagarnir lifa þar í vellystingum um skeið. Don Dósóþeus á dvergvaxinn smáhund af mexíkósku kyni en sá er ekki aðeins algjör andstæða Rattata í stærð og útliti heldur er hann einnig óvenju greindur af smáhundi að vera. Þess má geta að á heimili SVEPPAGREIFANS eru slíkir vasadýr kölluð sunnudagshundar. Hrói heitir sá litli og þeir Rattati verða hinir mestu mátar. Fljótlega kemur þó fram að Rattati stendur honum langtum aftar hvað alla hæfileika varðar. Don Dósóþeus hefur til að mynda kennt Hróa sniðugt bragð með sykurmola og Rattati trúir því staðfastlega að hann geti leikið það eftir.
Þrátt fyrir hina óumdeilanlegu heimsku gleymir Rattati ekki svo auðveldlega þessu skemmtilega sykurmolabragði og á enn þann draum um að geta leikið þennan sama leik og Hrói. Og í lok sögunnar, þegar bæði Dalton bræður og Rattati eru komnir aftur heim í letigarðinn sinn, fær hundurinn kærkominn tíma til að æfa þetta vandasama bragð í ró og næði. Hann grípur tækifærið og notar þá stein til verksins en að sjálfsögðu enda þær æfingar með fyrirsjánlegum afleiðingum.
Þennan brandara misskildi SVEPPAGREIFINN reyndar lengi vel nokkuð illilega í æsku og fannst hann ekki alveg rökréttur. Ef tekið væri mið af sverleika hálsa hundanna þá væri sykurmoli Hróa töluvert stærri hlutfallslega en steinn Rattata og því var mjög skrítið að hann festist ekki á sama hátt í hálsinum á Hróa. Hinum unga SVEPPAGREIFA yfirsást hins vegar alveg að þetta bragð Hróa snerist aðeins um að grípa molann með kjaftinum en ekki að láta hann skella beint niður í kok líkt og gerðist hjá Rattata. En það er reyndar allt önnur saga. Brandarinn er alla vega góður. 
Í þeim sögum sem Rattati birtist er yfirleitt eitthvað ákveðið hegðunarþema í gangi hjá honum sem fylgir hundinum þó ekki endilega á milli bóka. Þannig má eiginlega segja að Rattati taki upp á nýjum og ólíkum uppátækjum í hverri sögu sem hann kemur fyrir í en öll tengjast þessi uppátæki þó heimsku hans á einn eða annan hátt. Í bókinni Batnandi englar (Les Dalton se rachètent - 1965) hefur Rattati til dæmis alveg gleymt því hver hann er þessi Lukku Láki. Í gegnum söguna er hundurinn því stöðugt að rýna í andlit Láka og reynir að rifja það upp hver hann sé.
Í bókinni birtist hann því á víð og dreif um alla söguna, aðeins til hliðar í myndarömmunum, og veltir fyrir sér hver í ósköpunum þessi kunnuglegi maður gæti eiginlega verið. Jafnt og þétt telur hann upp um tuttugu líkleg nöfn en þau eru allt frá Gvendi dúllara og Roy Rogers til Skáld-Rósu. Auðvitað er hann samt líka alltaf jafn vitlaus í bókinni sem endranær og heldur upp hefðbundinni Rattata heimsku líkt og í hinum sögunum. 
 
En nenni þessu ekki, látum þetta duga að sinni.

13. nóvember 2020

178. EIN SVEKKELSIS FÓTBOLTAFÆRSLA

Vafalaust eru einhverjir þarna úti sem enn eru að gráta úrslit gærkvöldsins en þegar allir héldu að árið 2020 gæti ekki versnað þá ... uhhh... batnaði það alla vega ekki! Íslenska knattspyrnulandsliðið kemst sem sagt ekki á EM næsta sumar og nú væri líklega bara best fyrir alla ef keppninni yrði aflýst endanlega vegna helvítis drepsóttarinnar (Afsakið orðbragðið!). Liðið á reyndar líka eftir að spila tvo leiki við Dani og Englendinga í Þjóðadeildinni á næstu dögum en líklega er öllum skítsama um hvernig þeir leikir enda. Líkt og stundum hefur gerst hér áður er færsla dagsins tileinkuð íslenska landsliðinu og af þeirrri ástæðu hefur SVEPPAGREIFINN grafið upp myndasögu sem tengist knattspyrnunni svolítið. En í einni af bókunum um Sval og Val kemur fyrir fótboltatenging sem er algjörlega tilvalið að skoða í kjölfar svekkelsis gærkvöldsins.
Fimmta saga bókaflokksins heitir Les voleurs du Marsupilami og kom fyrst út í bókarformi árið 1954 en hún hafði áður birst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU árið 1952. Sagan er eftir André Franquin og hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu en þess er þó vonandi ekki langt að bíða. Íslenskur titill þeirrar bókar yrði líklega þýddur sem Gormdýrinu rænt, Gormi stolið eða eitthvað á þá leið, en sagan gerist nokkurn veginn í beinu framhaldi af bókinni Spirou et les héritiers sem við þekkjum auðvitað sem Baráttan um arfinn og kom út hjá Iðunni árið 1980. En forsagan að þessari fótboltatengingu er sú að í byrjun sögunnar hefur Gormi verið komið fyrir í dýragarði. Svalur og Valur eru nýbúnir að heilsa upp á hann og komnir aftur heim þegar þeir fá símtal frá garðinum þar sem þeim er tjáð að Gormur sé dauður. Þeir drífa sig aftur í dýragarðinn en þegar dýralæknirinn ætlar að sýna þeim líkið af Gorminum er það horfið. Þá fer af stað ýtarleg leit í garðinum og allir útgangar eru vaktaðir en ekkert finnst. Þeir Svalur og Valur ákveða þó að vakta garðinn um nóttina, ef sá sem tók dýrið er þar enn, og þá lenda þeir í tíu blaðsíðna eltingarleik í dýragarðinum við þjófinn sem þó kemst undan. Sá er augljóslega íþróttamaður í góðu formi en þeim félögunum tekst að rekja slóð hans og koma heim til hans um morguninn. Þá kemur í ljós að hann er floginn til borgarinnar Magnana (hvar sem hún nú er) og þangað ákveða Svalur og Valur að fara líka.
Þeir Svalur og Valur eyða nokkrum vikum í Magnana án þess þó að finna neina vísbendingu um hvað gæti hafa orðið af Gorminum eða þeim sem stal honum. Þarna vita þeir raunar ekki einu sinni hvort hann er lífs eða liðinn en seinna kemur auðvitað í ljós að hann er sprelllifandi. En einn daginn rekast þeir óvænt á eiginkonu þjófsins
úti á götu, ásamt börnum þeirra, og elta hana áleiðis að stórum knattspyrnuleikvangi þar sem senn fer að hefjast leikur á milli heimaliðsins í Magnana og andstæðinga þeirra. Konan og börnin hennar eru augljóslega á leiðinni á völlinn og þeir Svalur og Valur bregða sér því þangað einnig. Það er síðan á blaðsíðu 32 sem þeir félagar gera þá óvæntu uppgötvun að þjófurinn og hlaupagikkurinn Valentin Mollet er í rauninni afar snjall knattspyrnumaður og spilar með fótboltaliðinu F.C. Magnana þarna í borginni. Og það er einmitt á þessum tímapunkti sem hin áðurnefndu og sjaldséðu knattspyrnutilþrif sjást í Sval og Val sögu.

Þessi sjaldséðu knattspyrnutilþrif í teikningum Franquins eru stórmerkilegar og gaman að sjá hvernig hægt er að setja sig inn í belgíska fótboltastemmningu tæplega 70 árum seinna og það meira að segja í lit! Búningatískan, fótboltaskórnir, boltinn sjálfur, fólkið á áhorfendabekkjunum og völlurinn gefa lesandanum góða mynd af því hvernig belgísk knattspyrna var árið 1952. Þá er heldur ekki úr vegi að setja þessar myndaraðir svolítið í samhengi við þá stemmningu sem ríkti í íslenskri knattspyrnu á þessum sama tíma. Íslenska 1. deildin hafði aðeins að geyma fimm lið þar sem spiluð var einföld umferð á malarvöllum en KR og ÍA voru sterkustu lið landsins á þessum árum. Á sama tíma voru hin fornfrægu lið RFC Liège og Anderlecht best í sextán liða efstu deild í Belgíu og öll umgjörð í kringum knattspyrnuna þar var mörgum klössum ofar en á Íslandi. Og svo má þess geta að Ísland og Belgía mættust í tveimur leikjum árið 1957 í undankeppni HM '58 og hér fyrir neðan má sjá nokkur merkileg myndbrot úr þeim leik. Það gerðist einmitt í þessum leik að tveir leikmenn Belganna tóku sameiginlega vítaspyrnu og skoruðu úr frægt mark en fleiri hafa reynt það síðan með reyndar afar misjöfnum árangri. Vítið má einmitt sjá í þessu myndbandi.
En hvað Sval og Val söguna Les voleurs du Marsupilami varðar þá er líklega rétt að taka það fram að knattspyrnumaðurinn Valentin Mollet var í rauninni aldrei neinn alvöru bófi. Fjárhagsvandræði fjölskyldu hans neyddu hann hins vegar til að taka að sér þetta óheiðarlega verkefni fyrir Frísk forstjóra hjá Sirkus Sabaglíóní. Frískur kom síðan seinna fyrir í sögunni Valur á tryllitækinu (La Quick super) sem við munum auðvitað eftir sem aukasögu úr bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence). Seinna í bókinni Les voleurs du Marsupilami kemur í ljós að Gormur hafði orðið hluti af sýningu sirkussins áður en þeim Sval og Val tókst að bjarga honum úr klóm Sabaglíónís. Það gerðu þeir reyndar með aðstoð Sveppagreifans sem þeir hittu óvænt á förnum vegi í Magnana. Það er hins vegar allt önnur saga og kemur þessari færslu um knattspyrnu lítið sem ekkert við.
Franquin gerði reyndar nokkra skemmtilega brandara með Viggó viðutan snemma á áttunda áratug síðustu aldar og SVEPPAGREIFINN hefur einmitt gert þeim svolítil skil í öðrum færslum tengdum fótbolta. Þær færslur má lesa hér og hér og svo er hér ein í viðbót sem einnig er fótboltatengd. En EM næsta  sumar verður því víst að vera án okkar manna en það er þó alla vega hægt að fara að láta sig hlakka til jólanna í staðinn. Annars er voðalega tilgangslaust að vera að svekkja sig á þessu. Ísland hefur oft áður ekki komist á EM!