26. október 2018

82. ÚR PLÖTUSKÁPNUM

SVEPPAGREIFINN hefur löngum þurft að ergja sig á þeirri undarlegu tilhneigingu útgefenda myndasagna að hafa þörf á því að láta lesendur vita hvernig bækurnar þeirra hljóma. Nákvæmlega! Teiknimyndasögur sem hægt er að hlusta á. Við fyrstu sýn hljómar þetta nefnilega ansi framandi en er þó alls ekki óþekkt. Nú minnist SVEPPAGREIFINN þess reyndar ekki að hafa séð til dæmis Tinna bækurnar gefnar út á íslensku á hljóðbók en víða erlendis tíðkaðist það alla vega áður fyrr að teiknimyndasögur voru gefnar út á hljómplötum. Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af slíkum óskapnaði komu honum svo í opna skjöldu að hann hafði ekki einu sinni rænu á að spila ósköpin. Fyrir mörgum árum hafði honum þá áskotnast góður kassi af einhverjum 150 vínylplötum þar sem kenna mátti ýmissa skemmtilegra grasa. Inn á milli Bítlanna, Simon og Garfunkel, Moody blues og Supertramp mátti finna þennan einkennilega grip.
Þarna var sem sagt um að ræða sænska LP hljómplötu með Tinna sögunni Kolafarminum (Koks i lasten) frá árinu 1982 og innihald hennar passaði engan veginn inn í vínylplötuhillur SVEPPAGREIFANS. Hann hirti það bitastæðasta úr plötukassanum og lét Tinna plötuna fara í bunka með öðrum óáhugaverðum vínyl sem hann losaði sig síðan við seinna á einu bretti ódýrt. Eitthvað var þó tilvist plötunnar lítillega velt fyrir sér áður en hún var látin fjúka og líklega hefði verið fróðlegt að henda henni á fóninn. En eins og áður segir reyndi aldrei á efni hennar því platan fór aldrei undir nálina. Sem líklega voru mistök. Eða ekki. Í það minnsta hefði það verið þess virði að eiga hana áfram til minja. Það væri fróðlegt að vita hvar blessuð platan er niðurkomin í dag og í hversu góðum höndum hún er. Tinna hljómplatan Koks i lasten fór því fyrir lítið en óneitanlega er eftirsjá af henni. En fyrir ekki svo löngu rifjaðist þessi hljómplata upp fyrir SVEPPAGREIFANUM og hann fór að velta fyrir sér tilurð hennar og því hvort að fleiri gripir úr seríunni hefðu verið aðgengilegir. Þessi eina saga innan úr seríunni um Tinna gaf nefnilega tilefni til að ætla að fleiri sögur en Koks i lasten hafi verið gefin út í plötuformi. Við nánari eftirgrennslan reyndist svo aldeilis vera því margar af Tinna bókunum höfðu verið gefnar út í Svíþjóð á þessu notalega formi. Og ekki bara það heldur voru þær líka gefnar út seinna á geisladiskum. Til marks um vinsældir Tinna á hljómplötum fékk Tinna platan Det hemliga vapnet (Leynivopnið) til að mynda gullplötu fyrir 50.000 seld eintök í Svíþjóð árið 1981. Augljóslega var því til markaður fyrir teiknimyndasögur á hljómplötum.
Áðurnefnd eftirgrennslan gróf reyndar ýmislegt fleira upp úr fortíðinni. Því svo virðist sem Tinna bækurnar hafi verið gefnar út á vínyl í nokkrum fleiri löndum. Í Danmörku voru til dæmis einar 14 Tinna sögur leiklesnar inn á plötur (og snældur) á árunum 1972-83 og auk þess, þar fyrir utan, ein jólaplata. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki alveg ljóst hvers konar efni má finna á þeirri plötu en að sögn hljómar í lok plötunnar jólalag þar sem allar sögupersónurnar syngja saman hópsöng. Sá sem fór með hlutverk Tinna á öllum þessum hljómplötum hét Bob Goldenbaum og var lengi kunnur sem rödd Tinna í Danmörku en með hlutverk Kolbeins fór leikarinn Peter Kitter.
Og það þarf svo sem ekki að koma neitt á óvart að margar af þessum sögum voru líka gefnar út á vínyl (og snældum) í Belgíu og Frakklandi á sínum tíma og einnig voru þær endurútgefnar á geisladiskum þegar það form kom til sögunnar. Náungi að nafni Maurice Sarfati fór með hlutverk Tinna í þessum útgáfum en Kolbein kaftein lék Jacques Hilling ef einhvern fýsir að fá að vita það. Þá má ekki gleyma að auðvitað voru einnig gefnar út hljómplötur með tónlistinni úr þeim bíómyndum sem gerðar hafa verið með Tinna. Tintin et le mystère de la Toison d'orTintin et les oranges bleues, og teiknimyndin Tintin et le lac aux requins fengu til dæmis allar sína kvikmyndatónlist gefna út á vínyl. Þessar hljómplötur eru eftirsóttar af söfnurum og góð og vel með farin eintök fara kaupum og sölum, dýrum dómum, á sölu- og uppboðsvefum á Netinu. Enda er það svo að þessar plötur voru gefnar út sem barnaefni og þær því, oftar en ekki, spilaðar nánast í gegn. Sem gerir það að verkum að afar lítið er til af heillegum eintökum í dag og það sem til fellur er gríðarlega eftirsótt. Af öðrum löndum sem gáfu út Tinna á hljómplötum má nefna að einnig eru til hollenskar útgáfur af sögunum.
En það voru ekki bara myndasögurnar með Tinna sem gefnar voru út á vínylplötuforminu. Við þekkjum til dæmis Strumpana ágætlega en þeir eiga reyndar 60 ára afmæli um þessar mundir. Til er aragrúi hljómplatna með tónlist tengdum þessum bláu viðrinum og við íslenskir myndasögulesendur höfum ekki farið varhluta af þeim ósköpum. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort að á einhverjum af þeim vínylplötum sé leiklesið efni sambærilegu áðurnefndum Tinnabókum. Mest af því efni er væntanlega einhverjir strumpasöngvar. Magnið er í það minnsta gríðarlegt og einhvern veginn læðist sá grunur að SVEPPAGREIFANUM að ekki sé það nú allt höfundavarið efni. En Haraldur í Skrýplalandi kom fyrst til sögunnar hér á landi árið 1979 (um það má lesa hér) sem síðar breyttist í Harald í Strumpalandi og seinna tröllriðu þeir öllu með sínum undurfögru jólasöngvum sungnum með tvöföldum háskerpuhraðatón. Strumparnir voru einu myndasöguhetjurnar sem heimsóttu Ísland í formi vínylplatna. 
Af öðrum myndasöguhetjum, sem sést hafa á vínylplötuforminu, má til dæmis nefna hljómplötur með Hinrik og Hagbarði. Þar er mest um að ræða tónlist með þeim félögum og miðað við þá sönghæfileika sem Hagbarður hefur yfir að ráða, ef tekið er mið af teiknimyndasögunum sjálfum, þá ættu hlustendur ekki að eiga von á góðu. En svo er nú reyndar ekki. Söngvar þeirra Hinriks og Hagbarðs hljóma tiltölulega eðlilega (eða svona eins eðlilega og frönsk '80s barnatónlist hljómar) og þeir sem eiga þess heiðurs aðnjótandi að fá að hlusta á þessar plötur þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af varanlegum eyrnaskemmdum.
Og hér er jafnvel hægt að nálgast tóndæmi af plötunum með þeim félögum fyrir þá sem hafa á því áhuga en fyrir þá sem ekki hafa áhuga er best að sleppa því bara alveg að hlusta.
En það sem líklega kemur mest á óvart, í þessari samantekt um myndasögur á vínyl, er hversu stórtækur Lukku Láki er á þeim vettvangi og hversu víða hann hefur komið við. Þarna er reyndar um alls konar efni að ræða. Allt frá tónlist úr kvikmyndum um Láka (sem eru orðnar nokkuð margar), þáttaseríum allskonar, leiklestri og eiginlega allt þar á milli á mörgum ólíkum tungumálum. Sumar af þessum plötum eru með sama efninu en á mismunandi tungumálum og með ólíkar útfærslur af plötuumslaginu. Flestar af þeim eru líklega með tónlistina úr kvikmyndinni La Ballade des Dalton sem við Íslendingar þekkjum úr bókinni um Þjóðráð Lukku Láka. En plöturnar skipta tugum og sýnishornin hér fyrir neðan sýna aðeins brot af því efni sem hægt er að nálgast á vínylplötum með Lukku Láka.
Og að lokum eru það Ástríks plöturnar. Þar er einnig um nokkuð auðugan garð að gresja því sögurnar voru mjög vinsælar á þessu formi á áttunda áratug síðustu aldar. Sem dæmi má nefna að til eru í kringum 30 mismunandi vínylplötur með alls konar efni tengdum Ástríki bara á þýsku. Svipaða sögu má líka segja um belgísk/frönsku útgáfurnar.
Þessi sænska hljómplata SVEPPAGREIFANS, með leiklesnu sögunni um Kolafarminn, var því líklega ekkert sérstaklega merkileg þegar allt kemur til alls. Þessar plötur eru augljóslega til í hundraðatali og þó við Íslendingar höfum ekki haft mikið af þeim að segja þá er ekki sömu sögu hægt að segja um aðra íbúa álfunnar. Markaður fyrir slíka vitleysu er greinilega til og vinsældir þeirra voru augljóslega miklu meiri en hægt er að ímynda sér. Það breytir þó ekki skoðun SVEPPAGREIFANS um tilgangsleysi slíkra afurða. Í hans augum eru þessar plötur sambærilegar við það að reyna að horfa á útvarpsþátt. En þarna er að minnsta kosti kominn nýr möguleiki fyrir þá sem hafa söfnunaráráttu að áhuga(sumir kalla það vanda-)máli.

19. október 2018

81. HIN MÖRGU ANDLIT HERRA SEÐLANS

Herra Seðlan, úr bókunum um Viggó viðutan, er SVEPPAGREIFANUM alveg sérstaklega hugleikinn. Hann á reyndar höfundi sínum André Franquin mikið að þakka en listamaðurinn var einstaklega frjór við að draga fram sterk karaktereinkenni hjá mörgum af þeim teiknimyndapersónum sem hann skapaði. Útlit herra Seðlans er algjörlega sniðið fyrir persónuna og þó höfundur hans hafi skapað manninn upp úr engu þá má auðveldlega sjá hann fyrir sér sem alvöru, líkamlega manneskju. Þó maður þekki kannski ekki nákvæmlega þá týpu sem herra Seðlan er þá veit maður samt, eða trúir alveg, að hann sé til. Í augum SVEPPAGREIFANS er karakter hans einstakur. Um herra Seðlan má lesa í þessari færslu hérna.
Heilt yfir er herra Seðlan líklega fremur dagfarsprúður maður sem þó á í einhverjum erfiðleikum með skapsveiflur sínar. Þessi geðrænu vandamál hans koma gjarnan fram í gríðarlegum reiðiköstum sem Franquin tekst með sínum einstöku hæfileikum að láta líta einkar sannfærandi út. Reyndar fáum við lesendur Viggó bókanna sjaldan að kynnast því hvort þessi vandamál hans komi fram á öðrum vettvangi en bara í heimsóknum hans á ritstjórnarskrifstofu SVALS en sína helstu útrás virðist hann fá þar. Í þessari afar myndrænu færslu er því ætlunin að skoða og rýna aðeins í nokkur af hinum fjölbreytilegu svipbrigðum herra Seðlans og skemmta sér aðeins við þessi einstöku listaverk í aðeins meiri nánd eða návígi. En það er kannski best að byrja á því að sjá hvernig maðurinn lítur út svona dags daglega í sínu eðlilega og náttúrulega umhverfi.
Þarna virkar herra Seðlan sem ósköp venjulegur og vinalegur kall. SVEPPAGREIFINN er jafnvel ekki frá því að hann minni eilítið á Pétur Thorsteinsson sendiherra sem var í framboði fyrir forsetakosningarnar árið 1980. Sá var reyndar, ef eitthvað er, heldur fýlulegri á svip en ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess þó að Pétur hafi átt við nein skapofsavandamál að etja. Blessuð sé minning hans. En eins og áður segir þá glímir herra Seðlan við skapgerðarbresti sem lýsa sér helst þannig að hann snöggreiðist, blæs og hvæsir út í loftið, gnístir tönnum og á augabragði skiptir afmyndað andlit hans um lit. Og þar kemur rauði liturinn oftar en ekki til sögunnar.
Í beinu framhaldi af því er ekki úr vegi að skoða aðeins fleiri myndir af andlitum herra Seðlans þar sem hinn áðurnefndi rauður litur kemur einnig við sögu. Á blaðsíðu 10 í hinni nafntoguðu Viggó bók Hrakfarir og heimskupör (Iðunn - 1979) er frábær brandari sem margir muna eftir. Hann byrjar frekar meinleysislega þegar herra Seðlan kemur inn á ritstjórnarskrifstofuna í hádegishléinu en þar er engin við nema Viggó - sem bíður kaupsýslumanninum upp á kaffibolla á meðan hann bíður eftir Eyjólfi. Herra Seðlan þiggur bollann, sem er reyndar í sterkara lagi, með þeim afleiðingum að kallinn spennist allur upp líkamlega, missir alla stjórn á útlimum sínum og andlit hans verður eldrautt. Á myndaröð Franquins af atvikinu, sem má sjá hér fyrir neðan, sést hvar fimm mismunandi og sterk svipbrigði herra Seðlans raðast upp á fimm mismunandi myndum. Allt þetta gerist einungis vegna hins óvenjusterka kaffibolla.
En andlit herra Seðlans getur sýnt fleiri tilfinningaútfærslur en bara þessar rauðþrútnu sem koma reyndar oftar en ekki fyrir í bröndurum Viggó bókanna. Margar þeirra eru að vísu tengdar skapbresti hans og reiðiköstum en þó alls ekki allar. Herra Seðlan á nefnilega líka sínar mýkri hliðar. Einstaka sinnum er hægt að sjá tilfinningar hjá honum sem sýna fallega, einlæga og fölskvalausa gleði eða jafnvel allt að því hamingju og þar virkar hann sem hinn vænsti kall.
Helsta hlutverk herra Seðlans í bókunum um Viggó viðutan gengur auðvitað út á að verða fyrir barðinu á Viggó. Við þekkjum hvernig herra Seðlan á reglulega erindi á skrifstofu SVALS með samningana alræmdu og áralöng reynsla hans af athöfnum Viggós ætti að vera honum orðin löngu kunn. En þrátt fyrir að vera stöðugt með varann á sér þá tekst honum einhvern veginn alltaf að láta aðstæðurnar koma sér í opna skjöldu. Við þau tækifæri má sjá andlit hans sýna ýmis margvísleg svipbrigði í hita augnabliksins og herra Seðlan virðist því alltaf geta látið koma sér að óvörum. Hér eru nokkur dæmi um það.
Og svo eru það þessi smáatriði í teikningum Franquins sem er ekki alltaf auðvelt að átta sig á nema með því að fara að rýna í teikningarnar hans. Flestir geta séð fyrir sér andlit herra Seðlans í heild sinni en átta sig samt ekki allir á því að kallinn er með yfirvaraskegg. Margir hafa eflaust alltaf vitað af því en samt aldrei skoðað það nægilega vel til að sjá hversu rytjulegt það er. Herra Seðlan er frekar stórvaxinn á ýmsa vegu en eitthvað hefur þó almættið verið nískt á skeggvöxt hans. Þarna eru í rauninni ekki að finna nema örfá strá.
Og svona til að enda þessa færslu er tilvalið að kíkja á eins og eitt stykki af myndbandi. Það er fyrir þá sem hafa ekkert annað við tímann að gera. Á þessu myndbandi má finna um það bil 70 mismunandi útfærslur af svipbrigðum herra Seðlans á 22 sekúndum og það eru engin verðlaun í boði fyrir að nenna að horfa á það.

12. október 2018

80. HUGLEIÐINGAR UM UPPÁHALDS SVAL OG VAL BÆKURNAR

SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum áður minnst á ansi skemmtilega myndasögugrúbbu sem hann er aðili að á Facebook. Þar detta oft inn margir athyglisverðir og forvitnilegir punktar frá fróðu og skemmtilegu fólki en grúbban, sem nefnist einfaldlega Teiknimyndasögur, er einnig sölu og uppboðssíða. Mest fer þarna fram umræða um þær myndasögur sem gefnar voru út á íslensku á sínum tíma en einnig dettur þar inn margt annað skemmtilegt efni tengt teiknimyndasögum. Ekki fyrir svo löngu síðan var varpað fram þeirri spurningu, af einum aðila grúbbunnar, um hver væri uppáhalds Tinna bók meðlima hennar. Og þó svo að engin afgerandi niðurstaða hafi fengist úr þessari óformlegu könnun þá sýndu hin mörgu og fjölbreytilegu svör meðlima hópsins að fólk hefði virkilega skoðun á því.
Í framhaldinu af þessari skemmtilegu umræðu fór SVEPPAGREIFINN að velta því fyrir sér hver eða hverjar væru, að hans mati, uppáhalds Sval og Val bókin. Þessar sögur eru í alveg sérstöku uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og margar þeirra eru eftirminnilegar úr æsku hans en þó hver á sinn hátt. Í heildina eru bækurnar um Sval og Val nú orðnar 55 en svo fyllsta sanngirnis sé gætt þá kemur ekki annað til greina en að takmarka sig við þær 36 myndasögur sem komið hafa út í íslenskri þýðingu. Fáeinar af betri bókum seríunnar hafa þó ekki enn verið gefnar út hér á landi og fá því ekki aðgang að þessari óformlegu og persónulegu úttekt en vonandi þurfa íslenskir Sval og Val unnendur ekki að bíða lengi eftir þeim.
Eins og áður segir eru þær orðnar 36 Sval og Val bækurnar sem komið hafa út á Íslandi en sú fyrsta, Hrakfallaferð til Feluborgar, var gefin út af bókaútgáfunni Iðunni fyrir jólin 1977. Þeir sem eignuðust þessa fyrstu bók hafa líklega fæstir haft hugmynd um vinsældir Svals og Vals í öðrum löndum Evrópu og engan veginn órað fyrir því hversu margar bækur yrðu á endanum gefnar út hér. Í kjölfarið þessarar fyrstu bókar komu þær út tvær til fjórar á ári næstu misserin og urðu með tímanum með allra vinsælustu teiknimyndasögunum sem gefnar voru út á Íslandi. Iðunn gaf alls út 29 bækur úr seríunni, þá síðustu árið 1992, en árið 2014 hóf Froskur útgáfa aftur útgáfu á þessum vinsælu sögum og síðan hafa bæst við 7 bækur í viðbót.
Fyrsta minning SVEPPAGREIFANS um Sval og Val tengist að sjálfsögðu bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar. Hann, ásamt bróður sínum, höfðu árin á undan drukkið í sig það sem komið hafði út af teiknimyndasögum á Íslandi og þar höfðu Tinna bækurnar auðvitað verið alls ráðandi. En bækurnar um Ástrík höfðu einnig hlotið nokkra athygli þeirra og voru lesnar bókstaflega upp til agna. Fyrir jólin 1977 urðu svo ákveðin straumhvörf í útgáfu myndasagna á Íslandi þegar hver nýja serían á fætur annarri hóf göngu sína. Bókaflokkurinn um Tinna var að klárast og Lukku Láki, Palli og Toggi, Hin fjögur fræknu og Svalur og Valur birtust allar í fyrsta sinn. Fjölvi hafði einokað myndasögumarkaðinn fram til þess tíma en nú kom bókaútgáfan Iðunn til sögunnar með nýtt og ferskt efni sem einnig varð meira áberandi á auglýsingamarkaðnum en hér hafði áður tíðkast. Þessar myndasögur voru jafnvel auglýstar í jólabókaflóðinu í sjónvarpinu en slíkt hafði aldrei tíðkast með bækurnar um Tinna og Ástrík.
Fyrstu tvær bækurnar með Hinum fjórum fræknu og Sval og Val bókin Hrakfallaferð til Feluborgar voru gjarnan auglýstar saman og vöktu þá nokkra athygli hins átta ára gamla SVEPPAGREIFA. Hin fjögur fræknu og vofan og Hin fjögur fræknu og kappaksturinn mikli enduðu báðar (og reyndar tvö eintök af hvorri) í jólapökkum þeirra bræðra auk einhverra af síðustu Tinna bókunum en fyrsta Sval og Val bókin rataði þó ekki inn á heimilið í það skiptið. Seinna, einhvern tímann á árinu 1978, varð Hrakfallaferð til Feluborgar þó hluti af myndasögukosti bræðranna ef minnið bregst ekki og Gormahreiðrið var einnig keypt - líklega um leið og hún kom út í októbermánuði.
Ein eftirminnilegasta minning SVEPPAGREIFANS, tengd Sval og Val bókunum, birtist þó í aðdraganda jólanna 1978. Þeir bræður voru þá að sjálfsögðu búnir að kryfja til mergjar þá myndasöguútgáfu sem bókaforlögin buðu upp á fyrir þau jólin og Svalur og Valur voru án efa orðnir efstir á óskalistanum eftir að ævintýrum Tinna lauk. SVEPPAGREIFINN var sem barn í eðli sínu forvitinn eins og gerist á meðal barna og fór reglulegar yfirferðir yfir helstu felustaði heimilisins síðustu dagana fyrir jól, ásamt bróður sínum, til að leita uppi hugsanlegar jólagjafir annarra fjölskylduaðila. Allt var þetta eflaust gert í nafni nauðsynlegrar fyrirhyggju því, jú koma þurfti í veg fyrir að þær myndasögur sem bræðurnir ætluðu sjálfir að gefa hvorum öðrum myndi stangast á við gjafir annara. Eða þannig! En alla vega ... frekar óvænt, í einum leitarleiðangrinum, birtust skyndilega tvær algjörlega óinnpakkaðar myndasögur með Sval og Val, vel faldar innan um lök og sængurverasett, í línskáp heimilisins í hjónaherberginu. Hér var um að ræða bækurnar Tembó Tabú og Svalur og górilluaparnir og á einu augabragði var þarna slökkt á allri eðlilegri eftirvæntingu jólaundirbúningsins. Í staðinn tók við skömm og nagandi samviskubit yfir að hafa látið freistinguna ná yfirhöndinni og tilhugsunin yfir að vita hvað væri í jólapökkunum náði að drepa niður mestu tilhlökkunina fyrir jólin. Eini kosturinn var sá að við vissum ekki hvor okkar fengi hvora bók en þess má þó geta að Svalur og górilluaparnir endaði hjá SVEPPAGREIFANUM.
En eins og áður segir hafa alls komið út 36 bækur hér á landi úr þessum vinsæla bókaflokki. André Franquin teiknaði 19 af þessum 36 bókum, Jean-Claude Fournier gerði 5, Tome og Janry 10 en þeir Yoann og Vehlmann eiga tvær sögur sem eru þær nýjustu í bókaflokknum. Franquin á því stærsta hluta þeirra Sval og Val bóka sem komið hafa út hér og í rauninni eru aðeins fjórar sögur frá honum eftir sem ekki hafa komið á íslensku. Útgáfa Sval og Val bókanna hér á landi einkenndist því fyrstu árin af myndasögunum eftir Franquin og Fournier en síðan var komið að röð bóka eftir Tome og Janry. Þær síðarnefndu féllu ekki alveg jafn mikið í kramið hjá SVEPPAGREIFANUM en sjálfsagt má það að einhverju leyti rekja til þess á þessum tíma var hann eilítið farinn að missa áhugann á myndasögum almennt. Eðlilegt að það gerðist á unglings- og menntaskólaárunum en sem betur fer kom sá áhugi aftur með auknum þroska. 
Hann minnist þess að á einhverju tímabili (það var frekar snemma) hafi honum bæði fundist Gormahreiðrið og þær sögur sem fjölluðu um Zorglúbb mjög skemmtilegar og lesið þær mikið. Á sama hátt minnist hann þess að bækur eins og til dæmis Vélmenni í veiðihug, Svalur í New York og Seinheppinn syndaselur hafi að miklu leyti farið fram hjá honum. Í það minnsta þekkir hann þær bækur ekki eins vel og hefur lesið miklu sjaldnar en aðrar. Það sama má auðvitað líka segja um tvær nýjustu bækurnar (Vikapiltur á vígaslóð og Hefnd Gormsins) í íslensku seríunni. Þær sögur tilheyra í raun allt öðrum heimi en þeim sem SVEPPAGREIFINN las um í Sval og Val bókunum sem krakki. Þarna á milli (frá Seinheppnum syndaseli og til Vikapilts á vígaslóð) vantar inn í seríuna 10 bækur sem ekki hafa komið út á íslensku og auk þess eitt par af höfundum (Morvan og Munuera) sem við fengum aldrei að njóta. Reyndar hefur SVEPPAGREIFINN alveg skoðað og lesið mest af þessum bókum sem inn í vantar en hefur ekki fundist þær sambærilegar eldri sögunum. Og enda stóð heldur ekki til að þær myndu tilheyra þessari úttekt um uppáhalds bækurnar.
En hvaða Sval og Val bækur skildu það þá vera sem myndu skora hæst á uppáhaldsskala seríunnar hjá SVEPPAGREIFANUM? Nú verður að taka það fram að SVEPPAGREIFINN er einlægur aðdáandi André Franquin (og hefur svo sem ekki farið neitt sérstaklega leynt með það hér á Hrakförum og heimskupörum) og var til að mynda mjög ungur vel meðvitaður um mismuninn á teiknistíl þeirra Franquins og Fourniers. Stíll Franquins höfðaði strax miklu sterkara til SVEPPAGREIFANS og bara sú staðreynd hlýtur því að benda til þess að uppáhaldssögur hans leynist í bókum þess frábæra listamanns. SVEPPAGREIFINN er reyndar alveg sáttur við sumt af því sem Tome og Janry gerðu en Fournier hefur hins vegar aldrei náð almennilega til hans. En allt þetta snýst auðvitað um smekk og sem betur fer er hann afskaplega misjafn eftir einstaklingum. Það er því ekki neitt til hjá SVEPPAGREIFANUM í þessum efnum sem myndi teljast hinn heilagi sannleikur og þetta mat hans byggist eingöngu á eigin tilfinningu og smekk. En eftir að hafa týnt saman nokkrar af þeim bókum úr seríunni sem SVEPPAGREIFANUM gæti hugnast sem uppáhalds þá ætti það ekki að koma á óvart að tíu bækur af tólf eru eftir Franquin, ein eftir Fourner og ein frá Tome og Janry. Bækurnar tólf eru eftirfarandi:
 • Hrakfallaferð til Feluborgar
 • Gormahreiðrið
 • Svalur og górilluaparnir 
 • Svaðilför til Sveppaborgar
 • Gullgerðarmaðurinn
 • Neyðarkall frá Bretzelborg 
 • Fanginn í styttunni
 • Z fyrir Zorglúbb
 • Með kveðju frá Z 
 • Svamlað í söltum sjó 
 • Sjávarborgin
 • Veiran 
Heilar tólf uppáhaldsbækur úr seríunni sýna auðvitað bara hversu mikið gæðaefni SVEPPAGREIFINN telur sig hafa undir höndum í bókunum um Sval og Val. Reyndar var upphaflega ætlunin að einangra viðfangsefnið svolítið betur og því var ekki um annað að ræða en að skanna sögurnar úr bókaflokknum ennþá meira. Og eftir að hafa grisjað myndasögubunkann enn frekar standa eftir fjórar uppáhaldsbækur og þær eru allar eftir André Franquin. Þetta eru sögurnar Gormahreiðrið (1960), Svalur og górilluaparnir (1959), Neyðarkall frá Bretzelborg (1966) og Fanginn í styttunni (1960). Bækurnar fjórar eru allar teiknaðar á blómatímabili Franquins með Sval og Val en Neyðarkall frá Bretzelborg var í raun teiknuð með hléum á árunum 1961-63 þó hún kæmi ekki út í bókarformi fyrr en 1966. Það er líklega ekki tilviljun að sögurnar fjórar eru allar teiknaðar á tiltölulega stuttu tímabili.
Sjálfsagt þýðir lítið að fara að ætla sér að reyna að þrengja þennan ramma enn frekar. Þessar fjórar bækur eru allar í miklu uppáhaldi og það er engin ein af þeim sem stendur upp úr öðrum fremur. Það væri líklega eins og að ætla að fara að velja eitthvað eitt uppáhalds Bítlalag. Það er einfaldlega ekki hægt. Nú skal það tekið fram að SVEPPAGREIFINN hefur aldrei áður velt fyrir sér neitt sérstaklega eða markvisst hver sé hans uppáhalds Sval og Val bók. Nema það eitt að hann minnist þess að hafa alltaf verið mjög hrifinn af bókinni Neyðarkalli frá Bretzelborg. Þessar vangaveltur eru því kannski meira svona augnabliksins- eða stemmningsmiðaðar og þá sérstaklega í ljósi þess hversu margar bækur hann setti á listann við fyrsta val. Það eru því töluverðar líkur á að eftir hálft ár eða fimm ár verði bækurnar í efstu sætunum einhverjar allt aðrar. SVEPPAGREIFINN er því miður ekki stöðugt að glugga í Sval og Val bækurnar eins og hann gerði í gamla daga. Nú á gamalsaldri eru þær hins vegar dregnar fram úr myndasöguhillunum nokkuð reglulega á fárra ára fresti og þá lesnar spjaldanna á milli.

5. október 2018

79. TINNI OG TATTÚ AF ÝMSUM GERÐUM

Aðdáendur Tinna bókanna leynast víða. Flestir þeirra láta sér líklega nægja að eiga bækurnar í hæfilegu magni, vera með eins og eina eða tvær myndir af honum upp á vegg eða kaupa minjagripi tengdum söguhetjunni, honum til heiðurs. Svo eru það líka nördarnir eða Tinna fræðingarnir sem eru sumir hverjir tilbúnir til að ganga aðeins lengra en við hin. Margir þeirra hafa yfirgengilega söfnunaráráttu með einhvers konar þráhyggjuívafi og hreinlega verða að eignast virkilega ALLT sem hægt er að nálgast með Tinna. Þessi aðilar fórna jafnvel háum fjármunum í eins konar Tinna lífsstíl. Allt er það sjálfsagt gott og blessað. En svo eru það þau sem hafa virkilega fyrir því að leggja sig fram um að votta Tinna virðingu sína. Þau sem eru tilbúin að marka líf sitt varanlegri minningu um þessa vinsælu teiknimyndafígúru. Þarna erum við að sjálfsögðu að tala um þá sem fá sér Tinna tattú.
Og auðvitað fór SVEPPAGREIFINN af stað í ferðalag um netheima til að leita að slíkum listaverkum. Reyndar verður að taka það fram að vandvirkni eða gæði þessara húðflúra (jú, það heitir þetta víst á íslensku) eru ákaflega misjöfn. Og það má setja spurningarmerki við hversu mikla virðingu eigendur þeirra bera fyrir hetjunni þegar gæðin eru ekki meiri en þau sem sjást á myndinni hér fyrir ofan. SVEPPAGREIFINN er alla vega á þeirri skoðun að þarna hefði alveg mátt vanda betur til verka á ýmsum sviðum myndarinnar. Þetta er þó reyndar alls ekki versta Tinna tattúið sem SVEPPAGREIFINN fann á ferðum sínum um víðáttur Internetsins. En þegar svo varanleg mynd er sett á áberandi stað þá hljóta menn þó að gera eilitla kröfu um vandvirkni. Hér er annað dæmi um tattú af frekar óvandaðri gerðinni.
Kolbeinn kafteinn er einmitt frekar vinsæll hjá þeim sem fá sér tattú úr Tinna bókunum og því má líklega helst þakka hið groddalega yfirbragð hans. Það er líklega alltaf svolítið töff að vera á einhvern hátt sjómannstengdur. Hér áður fyrr var það kannski aðallega sjóarastéttin sem var helst kunnust fyrir að vera með tattú og þeir voru ófáir íslensku sjómennirnir sem þeir létu flúra einhverja vitleysu á upphandleggsvöðva sína í fjarlægum höfnum. Og þar kemur auðvitað kafteinninn sterkur til leiks.
En tattúin með Kolbeini eru reyndar misjafnlega harðneskju- eða groddaleg enda, oft á tíðum, bæði myndavalið og gæði þeirra misjöfn. Það er því stundum svolítið óvíst hversu alvarlega beri að taka hreysti eigenda þeirra. Menn hafa nefnilega ekki alltaf tilfinningu fyrir slíku. Myndin hér fyrir neðan á til dæmis augljóslega frekar lítið erindi á harðneskjulegan mótorhjólatöffara en ætti eiginlega betur heima á dollu utan af ódýrum bjór.
Sem betur fer eru þó sumir sem eru betur meðvitaðir um að groddaleg tattú eigi ekki alltaf við þá sem þau bera. Þá er eðlilegra að finna mynd sem hæfir eiganda sínum. Litlar, einfaldar og krúttlegar myndir eru nefnilega líka tiltölulega algengar. Þar á ferðinni er líklega fólk sem ekki er fyrir mjög sársaukafull viðfangsefni og óskar frekar eftir því að fá eitthvað lítið og sætt sem hæfir frekar persónuleika þeirra. Og þá er oftar en ekki Tobbi tilvalinn í aðalhlutverkið.
Tobbi er einmitt tilvalinn fyrir þá aðdáendur Tinna bókanna sem vilja heiðra hetjurnar sínar en vill gera það á sem látlausastan hátt og á sem minnst áberandi stað. Þar eru krúttlegheitin náttúrulega algjörlega allsráðandi.
En oftast eru þeir félagar, Tinni og Tobbi, samt saman á mynd þar sem þeir hafa komið sér fyrir á góðum stað. Staðaval tattúanna er þó ekki alltaf vel heppnað. Stundum er þeim skellt niður á tiltölulega látlausan og lítt áberandi stað og stundum ekki. Staðsetningin á þessu tattúi hér fyrir neðan er til dæmis ekkert sérstaklega að gera sig. Ja, hreinskilnislega er hún reyndar alveg ömurleg!
En Tinni, Tobbi og Kolbeinn kafteinn eru ekki alveg einir um hituna hjá aðdáendum myndasagnanna um Tinna. Prófessor Vandráður, Skaftarnir, skurðgoðið og jafnvel heilu framhliðarnar af Tinna bókunum dúkka upp í tattúformi á Netinu ef vel er að gáð. Eldflaugin úr tunglbókunum er til dæmis líka frekar vinsæl og á Vefnum má finna hinar ýmsu útfærslur af henni. 
SVEPPAGREIFINN hefur svo sem aldrei velt því fyrir sér að fá sér tattú og enn síður eitthvað tengt Tinna bókunum. En við vinnslu þessarar færslu hvarflaði þó að honum að það gæti verið húmor í því að fá sér tattúið af merki hins alþjóðlega glæpafélags Kih-Oskh Faraós sem Rassópúlos er með á vinstri handleggnum og sést í bókinni um Bláa lótusinn.
En auðvitað var einhver fyrir löngu búinn að fá þessa sömu hugmynd.
Og ekki nóg með það. Þessi færsla var búin að vera tilbúin í nokkrar vikur þegar SVEPPAGREIFINN rak augun í samtal um sambærilegt efni á hinni stórskemmtilegu Facebook grúbbu, Teiknimyndasögur, sem hann hefur áður minnst á hér. Þar, í færslu sem reyndar tengist uppáhalds Tinna bókinni, mátti meðal annars finna fróðlegar upplýsingar um ofanvert Kih-Oskh Faraós tattú. Þarna sýnir einn alvöru Tinna maður áðurnefnt tattú á handlegg sínum og í kjölfarið upplýsti Stefán Pálsson, sagn- og myndasögufræðingur, að hann þekki persónulega tvo aðila sem beri slíkt merki. Algjör snilld og frábært að sjá að SVEPPAGREIFINN er ekki einn með slíkar hugleiðingar tengdar myndasögum.