23. febrúar 2018

47. BLAND Í POKA MEÐ PALLA OG TOGGA

Flest okkar sem voru að lesa teiknimyndasögur á Íslandi síðasta hluta 20. aldarinnar muna eftir bókunum um Palla og Togga. Alls voru gefnar út níu bækur með þeim kumpánum hjá bókaútgáfunni Fjölva en þær voru eftir höfund Tinna bókanna, sjálfan belgíumanninn Georges Remi eða Hergé eins og hann nefndi sig. Bækurnar voru þýddar af Ingunni Thorarensen, dóttur Þorsteins Thorarensen hjá Fjölva, en hún var ekki nema rétt rúmlega tvítug þegar fyrstu tvær bækurnar komu út haustið 1977. Myndasögurnar um Palla og Togga eru ekki eiginlegar sögur, heldur brandarar eða sketsar sem hver um sig telur heila opnu í bókunum.
Vinirnir Palli og Toggi eru svona hefðbundnir uppátækjasamir prakkarar sem lenda í ýmsum ævintýrum á götum Marolles hverfisins í Brüssel á millistríðsárunum en það er á einum af æskuslóðum Hergés. Helsta einkenni Palla er rauða peysan hans og svarta alpahúfan sem ávallt er dregin niður fyrir eyru en Toggi klæðist jafnan grænum jakka og sést ekki öðruvísi en með trefil. Báðir voru þeir byggðir á fyrirmyndum úr umhverfi Hergé. Fyrirmyndin að Palla var samstarfsmaður Hergé hjá dagblaðinu Le Vingtième Siècle,  Paul Kerrie, en hann var yfirmaður íþróttasviðs blaðsins. Toggi var hins vegar einn af vinum Hergé, Philippe Gerard. Þeir Palli og Toggi eru auðvitað aðalpersónur seríunnar og reyndar eru engar aðrar fastar persónur í bröndurunum utan lögregluþjóns nr. 15. Sá er þeirra helsti andstæðingur (og stundum reyndar samstarfsaðili) og á ættir sínar augljóslega að rekja til Skaftanna úr smiðju Hergés. Áðurnefnd ættartengsl gilda þar jafnt um útlit og vitsmuni.

SVEPPAGREIFINN er á því að bækurnar um Palla og Togga séu kannski ekki bestu myndasögur í heimi en af þeirri einni ástæðu að vera hugarfóstur Hergé teljast þær vera harla merkilegar. Á frummálinu nefnast þeir félagar Quick og Flupke en það var þann 23. janúar árið 1930 sem Quick (Palli) sást í fyrsta sinn á forsíðu barnatímaritsins Le Petit Vingtième (sem var vikulegt aukablað hjá dagblaðinu Le Vingtième Siècle) og fyrsti myndasögubrandarinn um hann birtist inn í þessu sama blaði. 
Le Petit Vingtième var auðvitað tímaritið sem fyrsta Tinna sagan birtist í og Tinni í Sovétríkjunum (Tintin au pays des Soviets) var raunar enn í fullum gangi þar á þessum tíma. Flupke (Toggi) birtist hins vegar ekki fyrr en í þriðja brandaranum, í blaði sem kom út þann 13. febrúar, og þar gekk hann undir nafninu Sus. Strax í næsta blaði á eftir fékk hann hins vegar sitt varanlega nafn. Saman mynduðu þeir síðan þetta þekkta tvíeyki prakkarastrika og hrekkja sem belgískur ungdómur skemmti sér yfir á næstu árum.

Þeir félagar, Palli og Toggi, birtust reyndar einnig á öðrum vettvangi í Le Petit Vingtième stuttu síðar. Eða nánar tiltekið þegar Tinna saga númer tvö, Tinni í Kongó (Tintin au Congo), hóf göngu sína í blaðinu þann 5. júní árið 1930. Þar sjást þeir félagar strax á fyrstu mynd sögunnar þegar Tinni stendur á lestarstöðinni í Brüssel og er að kveðja vini sína umkringdur blaða- og fréttamönnum. Þar má líka sjá teiknimyndapersónurnaFlup, Nénesse, Poussette og Piglet sem Hergé skapaði snemma á sínum ferli, og birtust meðal annars eitthvað í Le Petit Vingtième, og skátann Totor sem hann teiknaði nokkrar sögur um á árunum 1926-28. Totor var eins konar forveri Tinna en það er önnur saga sem SVEPPAGREIFINN á örugglega eftir að þvaðra eitthvað um í framtíðinni.
Og þegar Tinni í Kongó var endurteiknaður og litaður árið 1946 fékk mannskapurinn á upphafsmyndinni einnig uppfærslu. Palli og Toggi héldu sínum stöðum og það sama gilti einnig um skátann Totor en til gamans má geta þess að þetta var í fyrsta skiptið sem Totor sást í lit. Í stað einhverra blaðamannanna eru hins vegar komnir nokkrir nýjir póstar. Þannig tók Hergé Alfred Hitchcock (sem var duglegur að birtast sjálfur í myndum sínum) sér til fyrirmyndar og teiknaði sjálfan sig á brautarpallinn. Hergé stendur við hlið fréttamannsins með hattinn en sá dökkhærði fyrir aftan hann er Edgar Pierre Jacobs og lengst til hægri með gleraugun er Jacques Van Melkebeke. Þessi þrír miklu hæfileikamenn unnu saman að því að endurvinna og lita þessa sögu (Tinna í Kongó) en helsta markmiðið með þeirri vinnu fólst þó í því að nútímavæða sögurnar og aðlaga þær að breyttum og þróuðum stíl Hergé. Þeir samstarfsfélagar birtust nokkrum sinnum til viðbótar, faldir á víð og dreif, í Tinna bókunum næstu áratugina. Í stað lestavarðanna tveggja, lengst til hægri, eru nú komnir frekar óvænt þeir Skafti og Skapti en í upprunalegu bókaröðinni birtust þeir ekki fyrr en í fjórðu sögunni, Vindlum Faraós (Les Cigares du Pharaon -1934).
Palli og Toggi urðu fastagestir á síðum Le Petit Vingtième en á árunum 1930-35 birtist tvíeykið þar í 277 bröndurum auk nokkurra mynda í viðbót á forsíðum blaðsins. Þetta voru blómatímar þeirra félaga en á árunum 1935 til 1940 dró heldur úr viðveru þeirra og þeir komu fram í aðeins 32 bröndurum til viðbótar í blaðinu. Birtingu þeirra var reyndar sjálfhætt þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Belgíu þann 8. maí árið 1940 og bæði dagblaðið Le Vingtième Siècle og Le Petit Vingtième tímaritið voru lögð niður og bönnuð af Nasistum líkt og flest önnur dagblöð í Belgíu. En ástæða þess að bröndurum Palla og Togga fækkaði í blaðinu fyrir stríð var líklega fyrst og fremst vegna velgengi Tinna sem Hergé lagði eðlilega meiri áherslu á. Palli og Toggi voru miklu fremur aukaverkefni til uppfyllingar í Le Petit Vingtième og með tímanum voru þeir því settir meira til hliðar vegna tímaskorts og áhugaleysis listamannsins. Eitthvað sáust þeir þó á síðum Le Journal de Tintin eftir að það tímarit hóf göngu sína árið 1946. Alls voru því gerðir hátt í 400 brandarar með Palla og Togga en þeir hafa reyndar ekki allir verið endurunnir og litaðir. Þeir félagar voru þó ekki alveg lagðir til hliðar því þeir komu líka fyrir á einni mynd í Tinna sögunni Dularfullu stjörnunni (L'Étoile mystérieuse - 1942) sem birtist fyrst í dagblaðinu Le Soir (sem var hliðholt Nasistum) á árunum 1941-42.
En Hergé hélt áfram að troða sjálfum sér inn í myndasögurnar sínar og Tinna sögurnar voru ekki eina skotmarkið. Hann notaði svolítið brandarana um Palla og Togga til að leika sér við að vera í einhvers konar gagnvirkum samskiptum við persónurnar þar sem hann tók sjálfur fullan þátt í brandaranum sem teiknari hans. Eða kannski var þetta bara einhvers konar aðferð hjá honum til að beina athyglinni frá skort á frumleika eða jafnvel áhugaleysi hans á seríunni. Líklega bara eins konar flótti. Palli og Toggi voru svolítið takmarkaðir við götur Brüssel en Hergé gat flakkað með Tinna út um allan heim ef svo bar undir. Tinni átti hug hans allan og Palli og Toggi þurftu svolítið að gjalda fyrir það. En einnar síðu brandarinn hér fyrir neðan sýnir þó að Hergé hafði alveg yfir meiri húmor að ráða en þeim sem tengdist bara Kolbein kafteini eða Sköftunum.
Og það eru fleiri svipaðir brandarar til. Sá sem sést hér fyrir neðan birtist upphaflega í Le Petit Vingtième þann 2. mars árið 1933 og var að sjálfsögðu upprunalega í svart/hvítu. Starfsfólk Hergé Studios litaði og endurteiknaði brandarann fyrir yngri útgáfur en opnan hér fyrir neðan kemur úr ensku þýðingunni, af bókinni Fasten Your Seatbelts (Attachez Vos Centures) - 2009, frá Egmont útgáfunni.
Og einn í viðbót sem birtist í Le Journal de Tintin þann 21. ágúst árið 1952 og er því á frönsku. Í megin dráttum fjallar brandarinn um það að Toggi er hundleiður yfir einhverju sem Palli reynir að draga upp úr honum. Að endingu fær Palli þau svör að Toggi sé fúll út í Hergé vegna þess að hann teiknar hann alltaf með trefilinn um hálsinn. Jafnvel þótt komið sé hásumar.
Og svo kemur það eiginlega svolítið á óvart hve Palli og Toggi hafa komið víða við. Þó Tinni hafi alltaf verið mest áberandi af verkum Hergé þá hafa vörur tengdar myndasögunum um Palla og Togga augljóslega líka verið markaðsettir í gegnum tíðina til að auka á vinsældir þeirra. Þetta hefðbundna eins og bækurnar, spil, dúkkur, bolir og plaggöt koma í sjálfu sér ekki á óvart en það gerir hins vegar hljómplata. Það gæti verið fróðlegt að heyra hvernig tónlistin á þessari vínilplötu hljómar.
SVEPPAGREIFINN verður að viðurkenna að það kom honum líka svolítið í opna skjöldu þegar hann uppgötvaði fyrir nokkrum árum að til væru teiknimyndir um Palla og Togga. Það þarf svo sem ekki að koma mikið á óvart miðað við þá miklu starfsemi sem fram fór í Hergé Studios. Þetta voru stuttir brandarar fyrir sjónvarp, framleiddir árið 1985, hver fyrir sig um eina mínútu að lengd og yfirleitt tengdir saman í fimm mínútna þætti. Alls voru framleiddir 260 einnar mínútna þættir um þá félaga og árið 2005 var hluti af þessum bröndurum gefnir út í Frakklandi á þremur dvd safndiskum. Þættina vann Johan De Moor (sonur Bob De Moor) og eins og með svo margt er að sjálfsögðu hægt að finna þetta allt saman á YouTube.

16. febrúar 2018

46. FRANK Í BÓKAHILLUNUM

Eftir að SVEPPAGREIFINN lét loksins verða af því að koma teiknimyndasögusafninu sínu í eðlilegar skorður hefur ekki verið hjá því komist að rýna eilítið í nýju myndasöguhillurnar og njóta gersemanna. Hann hefur í gegnum tíðina reyndar alltaf verið duglegur að fletta reglulega í gegnum helstu dýrgripi safnsins eins og Tinna bækurnar, Sval og Val, Viggó og Lukku Láka, en minna hefur farið fyrir þeim bókum sem heilluðu ekki jafn mikið í æsku. Þarna eru seríur sem töldust eilítið síðri og þar má nefna til dæmis bækurnar um Samma, Ástrík, Steina sterka og Fláráð stórvezír en margar af þeim sögum hafa hreinlega ekki fengið tækifæri í seinni tíð til að láta ljós sitt skína á ný. En nú er ljóst að eftir að myndasögurnar hafa fengið sinn sýnilega og verðskuldaða stall á heimilinu þá munu þær sannarlega fá sitt tækifæri til að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga og fá uppreist æru. Þessar teiknimyndasögur SVEPPAGREIFANS verða nú væntanlega lesnar upp til agna hver af annarri.
Og svo eru það hinar bækurnar. Þar er SVEPPAGREIFINN auðvitað að meina þær bækur sem hann las aldrei í æsku en hefur á undanförnum 25-30 árum verið að dunda sér við að safna saman í rólegheitunum. Þetta eru auðvitað annars vegar sögurnar sem komu út á þessum árum (á blómaskeiði myndasöguútgáfunnar á Íslandi) en hann átti aldrei, eins og Goðheima bækurnar, Blástakkur, Hringadróttinssaga, Mac Coy, Alex og fleira. Og hins vegar eru það svo þessar bækur sem komu út örlítið seinna eftir að SVEPPAGREIFINN missti áhugann á myndasögum tímabundið upp úr unglingsárunum. Þar er til dæmis um að ræða bækurnar um Frosta og Frikka, Frank, Yoko Tsúnó, Nordic Comic bækurnar allar og Þórgný. Aðeins hefur SVEPPAGREIFINN verið að byrja að kíkja svolítið á þessar bækur og ekki fyrir svo löngu minntist hann aðeins á seríuna um Yoko Tsúnó, hér á Hrakförum & heimskupörum, og á einu bókina sem kom út hér á landi úr seríunni um njósnarann 421.
En á árunum 1985-87 komu út á íslensku fimm myndasögur úr seríunni um franska blaðamanninn Frank eða Guy Lefranc eins og hann heitir á frummálinu. SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að lesa og rýna í þessar fimm bækur að undanförnu en eins og áður segir er þetta ein af þeim seríum sem náði aldrei almennilega inn á hans borð í æsku. Auðvitað vissi SVEPPAGREIFINN af þessum bókum, eins og af öllum þeim aragrúa af teiknimyndasögum sem hans kynslóð stóð til boða, og eitthvað var verið að glugga í þær. En einhvern veginn vöktu bækurnar um Frank aldrei áhuga hans. Sögurnar voru engan veginn samkeppnishæfar við það léttmeti sem SVEPPAGREIFNN hreifst af og bækurnar um Sval og Val, Tinna og Viggó viðutan voru auðvitað miklu skemmtilegri. Frank, Alex hinn hugdjarfi, Á víðáttum vestursins og Blástakkur voru líklega of vandaðar og efnið full alvöruþrungið eða fullorðins fyrir kæruleysis þenkjandi SVEPPAGREIFANN. Í vinahópnum féllu jafnvel orð um að sögurnar um Frank væru hundleiðinlegar og það heyrist meira að segja enn þann dag í dag. Það var kannski helst að bækurnar um Seinni heimsstyrjöldina vektu einhvern áhuga af alvarlegra efninu.
Í september árið 1948 hafði Le Journal de Tintin byrjað að birta sögurnar um Alix l’intrépide eða Alex hinn hugdjarfa eftir handritshöfundinn Jacques Martin. Fjölva útgáfan hóf að gefa þær myndasögur út árið 1974 en alls voru gefnar út 6 bækur á íslensku með Alex - sú síðasta árið 1988. Þessar sögur urðu mjög vinsælar hjá frönskumælandi lesendum Tinna tímaritsins en Martin skrifaði bæði handritið og teiknaði þær sögur. Árið 1951 var Jacques Martin á ferð með vini sínum í Frakklandi og fékk þá hugmynd að nýrri myndasöguseríu eftir að hafa heimsótt yfirgefið vopnabúr í Vosges sem Nasistar höfðu skilið eftir inni í jarðgöngum eftir stríð. Þar mátti til að mynda finna V1 eldflaug sem beint hafði verið að París í stríðinu og í kjölfarið varð til hugmynd að handriti sem passaði reyndar ekki inn í 2000 ára söguheim Alex. Þarna varð því fyrsta sagan um Frank, La grande menace, til en hún hóf göngu sína í Le Journal de Tintin þann 21. maí árið 1952 og í frönsku útgáfunni 3. júlí sama ár. La grande menace var þó ekki beint í þeim anda sem stjórnendur Le Journal de Tintin lögðu upp með stefnu tímaritsins. Þeir höfðu því orðið mjög undrandi þegar Martin greindi þeim frá hugmyndum sínum enda var handritið mjög ólíkt sögum hans um Alex hinn hugdjarfa. La grande menace sagan með Frank þótti bæði með pólítískari undirtón og ofbeldisfyllri atburðarás en lesendur tímaritsins áttu að venjast. Sagan sem kom síðan út í bókaformi árið 1954 og næstu tvær sögur, L'ouragan de feu (1961) og Le mystère Borg (1965) slógu svo allar í gegn.
Jacques Martin bæði teiknaði og skrifaði handritin að þessum fyrstu þremur sögum en samhliða þeim var hann einnig á fullu við vinnu á sögunum um Alex í Le Journal de Tintin. Auk þess sem hann starfaði með Hergé hjá Hergé Studios við að fullvinna Tinna bækurnar allt til ársins 1972. Bæði söguhandritin og teiknistíllinn á þessum fyrstu sögum um Frank þótti minna á hinar vinsælu Blake & Mortimer sögur sem einnig voru að birtast í Le Journal de Tintin á sama tíma. Höfundur þeirra myndasagna Edgar P. Jacobs, sem einnig vann mikið að Tinna sögunum fyrir Hergé, sakaði jafnvel Jacques Martin á tímabili um að stela stílnum frá sér. Hér eru þeir félagar einmitt að störfum hjá Hergé Studios, Hergé (Georges Prosper Remi) og Jacques Martin.
Eftir að fyrstu þrjár sögurnar um Frank birtust í Le Journal de Tintin varð svolítið hlé á birtingu fleiri sagna um blaðamanninn knáa og það varð ekki fyrr en árið 1970 sem sagan Le repaire du loup birtist næst í tímaritinu. Þegar þarna var komið við sögu hafði Jacques Martin lagt teiknipennann til hliðar og einbeitt sér að handritsgerðinni en hinn kunni Bob de Moor tók að sér að teikna þessa sögu. Martin hélt þó áfram að bæði teikna og skrifa sögurnar um Alex hinn hugdjarfa. Le repaire du loup kom út í bókaformi árið 1974 og sú saga varð síðan árið 1985 fyrsta bókin í seríunni um Frank sem kom út í íslenskri þýðingu. Hér nefndist hún Úlfagrenið og samhliða henni kom einnig út næsta saga í bókaflokknum sem hét Við hlið vítis (Les portes de l'enfer - 1978). Árið 1986 komu svo næstu tvær bækur í seríunni út hér á landi en þetta voru sögurnar Kafbátahættan (Opération Thor - 1979) og Flugvélaránið (L'oasis - 1981). Síðasta bókin um Frank sem gefin var út í íslenskri þýðingu hét Dómsdagur (L'apocalypse) og kom út árið 1987, sama ár og í Belgíu. Bókaútgáfan Iðunn gaf út bækurnar en þeir Jón Rúnar Gunnarsson og Bjarni Fr. Karlsson sáu um að snara þessum myndasögum yfir á íslensku. Fjórar síðastnefndu bækurnar teiknaði franski listamaðurinn Gilles Chaillet en Jacques Martin skrifaði handritið sem fyrr. Alls eru því komnar út 28 bækur í seríunni um Frank og útgáfa þeirra hefur verið nokkuð regluleg síðustu tvo áratugina enda eru þær mjög vinsælar í Belgíu.
  1. La grande menace - 1954
  2. L'ouragan de feu - 1961
  3. Le mystère Borg - 1965
  4. Le repaire du loup - 1974 (Úlfagrenið - 1985)
  5. Les portes de l'enfer - 1978 (Við hlið vítis - 1985)
  6. Opération Thor - 1979 (Kafbátahættan - 1986)
  7. L'oasis - 1981 (Flugvélaránið - 1986)
  8. L'arme absolue - 1982
  9. La crypte - 1984
  10. L'apocalypse - 1987 (Dómsdagur - 1987)
  11. La cible - 1989
  12. La Camarilla - 1997
  13. Le vol du spirit - 1998
  14. La colonne - 2001
  15. El Paradisio - 2002
  16. L'ultimatum - 2004
  17. Le maître de l'atome - 2006
  18. La momie bleue - 2007
  19. Londres en péril - 2008
  20. Noël noir - 2009
  21. Le châtiment - 2010
  22. Les enfants du bunker - 2011
  23. L'éternel shogun - 2012
  24. L'enfant Staline - 2013
  25. Cuba libre - 2014
  26. Mission Antarctique - 2015
  27. L'Homme-oiseau - 2016
  28. Le Principe d'Heisenberg - 2017
Gilles Chaillet teiknaði sögurnar allt fram til aldamótanna en eftir það hafa Christophe Simon, Francis Carin og André Taymans ásamt fleirum á seinni árum skipt með sér verkunum alveg fram til dagsins í dag. Jacques Martin lést í byrjun árs 2010. Og þar sem SVEPPAGREIFINN hefur nú loksins tekið sig til og lesið þessar 5 bækur með tiltölulega hlutlausum augum þá er líklega eðlilegt að kominn sé tími til að tjá sig aðeins um þessar teiknimyndasögur. 
En myndasögurnar fjalla sem sagt um blaðamanninn Frank Fannberg (það er til fasteignasala austur á Hellu sem heitir Fannberg!) og ungan vin hans Jón Feilan - eða Nonna eins og hann er kallaður. Þó að Frank sé aðalpersóna bókanna lenda þeir félagar saman í ýmsum ævintýrum og óhætt er að segja að þar sé fjölbreytileikinn í fyrirrúmi. Bara í þessum fimm bókum sem út komu á íslensku snúast ævintýri þeirra um baráttu við flugvélaræningja, illmenni sem hyggja á heimsyfirráð, andleg svartagaldursöfl og eiginlega allt þar á milli. Og allt með svona aðeins vísindaskáldsagnaundirtón. Bækurnar eru uppfullar af alls kyns tækni- og vísindafyrirbærum og þeim sem finnst gaman að flottum bílum í myndasögum fá þarna eitthvað fyrir snúð sinn. Eitt af aðaleinkennum bókanna um Frank eru virkilega vandaðar teikningar af bílum.
Fyrsta bókin í íslensku seríunni, Úlfagrenið, er númer 4 í upprunalega bókaflokknum og næstu þrjár bækur í íslensku röðinni fylgja henni eftir líkt og þeirri upprunalegu. En svo vantar næstu tvær bækur inn í íslensku röðina þannig að bók númer 5 þar (Dómsdagur) er númer 10 í hinni upprunalegu. Eins og svo oft í myndasöguútgáfunni voru íslensku bókaforlögin algjörlega háð norrænu útgáfunum en það gerði það að verkum að þær seríur sem gefnar voru út á íslensku gátu margar hverjar verið ansi samhengislausar og slitróttar - að minnsta kosti í byrjun. Við þekkjum þetta allt með bækurnar um til dæmis Sval og Val og Tinna. Hið sama er einmitt lóðið með bækurnar um Frank en helsti gallinn er auðvitað sá hversu fáar bækur komu út í seríunni hér á landi. Þetta gerði það að verkum að útgáfuröðin á bókunum um Frank varð enn samhengislausari en þær þurftu að vera. Það vantar einfaldlega of mikið inn í þær og SVEPPAGREIFINN saknar þess svolítið að hafa ekki fleiri bækur til að miða við og fá fyllri mynd af bókaflokknum. Sem dæmi má nefna að í bókinni Kafbátahættan kemur fyrir bófi sem nefnist Axel Borg en hann hafði áður birtst í sögum númer 1 og 2 (La grande menace og L'ouragan de feu) sem aldrei komu út á íslensku. Hann hafði setið í fangelsi í Feneyjum eftir síðustu viðskipti sín við Frank en náð að brjótast þaðan út og vildi nú fá Frank með sér í ákveðin verkefni. Það var síðan vandamál íslenskra lesenda að reyna að átta sig á samhenginu og giska á hvers konar bófi Axel Borg var. Var hann vinur Franks eða óvinur? Átti hann skilið einhverja samúð lesenda eða var hann bara venjulegt illmenni? Axel Borg kemur síðan aftur fyrir í bókinni Dómsdagur og enn er maður litlu nær um samband þeirra.
SVEPPAGREIFINN er enginn sérfræðingur í teiknimyndasögum þó hann geri alveg einhvern greinamun á þessum þremur helstu undirstöðu-teiknistílum fransk/belgíska myndasöguheimsins. En fyrst og fremst hefur hann skoðun á því hvað honum finnst vel eða illa teiknaðar myndasögur. Sögurnar um Frank eru klárlega á köflum alveg listilega vel teiknaðar en samt finnst SVEPPAGREIFANUM eins og það vanti ákveðna mýkt í hreyfingar sögupersónanna. Þetta gildir ekki bara með bækurnar um Frank, heldur finnst honum vera hægt að sjá þetta í mörgum öðrum myndasöguseríum. Þannig virka sögupersónurnar svolítið stífar í hreyfingum og maður fær það til dæmis á tilfinninguna að þær séu ekki bara í nýstraujuðum fötum heldur virðast persónurnar sjálfar vera meira og minna nýstraujaðar.
Og í beinu framhaldi af hugleiðingum um teiknistíl finnst SVEPPAGREIFANUM ekki hjá því komist að minnast eilítið á fáránlegan klaufskap sem hann rakst á í einni af þessum bókum sem hann las. Í Úlfagreninu, í neðstu myndaröð til hægri, á blaðsíðu 10 má sjá þessa kostulega mynd sem bókstaflega æpti á SVEPPAGREIFANN. Bob De Moor er skrifaður fyrir teikningum sögunnar en reikna má með að þó nokkuð af aðstoðarfólki hans hafi einnig komið að verkinu við að teikna bakgrunna, eins og mannvirki og landslag en einnig ýmsa aukahluti eins og farartæki og ýmis tæki og tól. SVEPPAGREIFANUM finnst líklegt að einhvert af aðstoðarfólki De Moor beri ábyrgð á þessum risastóra kíki. Það er erfitt að ímynda sér hvar hægra auga Franks á að vera staðsett ef nýta á þennan kíki á réttan hátt.
Þessar bækur virðast þó heilt yfir vera ágætar myndasögur - ef hægt er að dæma heilan bókflokk eftir 5 bókum af 28. Samt finnst SVEPPAGREIFANUM eins og þær hafi skort eitthvað pínulítið til að þær hefðu náð að höfða almennilega til lesenda. Alla vega okkar, þessa íslensku krakka sem vildu gleypa í sig allar myndasögur sem komu út á þessum tíma. Að einhverju leyti er það líklega um að kenna þessum alvörudrunga sem vofir yfir öllu og það vantar allan léttleika og húmor í sögurnar. Þessar myndasögur eru reyndar hvorki flóknar né þungar en SVEPPAGREIFANUM finnst þær bara aldrei verða eins grípandi og flestar þeirra sagna sem verið var að gefa út á þeim tíma hér á landi. Sem dæmi um það má til að mynda nefna bækurnar um Sval og Val og Tinna sem íslenskir lesendur gripu strax ástfóstri við af því að þær voru miklu meira í léttari kantinum. Þeir lesendurnir sem voru af kynslóð SVEPPAGREIFANS voru sumir líklega meira fyrir skemmtanagildið og margir okkar hafa sennilega ekki verið orðnir nógu þroskaðir fyrir bækurnar um Frank. Og svo SVEPPAGREIFINN tali aðeins fyrir sjálfan sig, þá hefur hann líklega bara verið of einfaldur fyrir þessar myndasögur á sínum tíma. Bækurnar um Frank eru gríðarlega vinsælar í Belgíu og Frakklandi og hafa selst í milljónum eintaka og það segir líklega mest um almennar vinsældir þeirra. Líklegt er að munurinn felist að einhverju leyti í menningunni en hefðin fyrir vönduðum og fjölbreytilegum teiknimyndasögum er mjög rík þar. Hér á landi voru myndasögur á þessum árum fyrst og fremst ætlaðar börnum og unglingum.

9. febrúar 2018

45.TINNI OG GÍSLI MARTEINN

SVEPPAGREIFINN vill endilega benda á þætti á Rás 1 um teiknimyndahetjuna Tinna sem eiga að hefjast laugardaginn 10. febrúar. Aðallega er um að ræða fjóra þætti, sem nefnast einfaldlega Ævintýri Tinna, í umsjón Gísla Marteins Baldurssonar. En ætlunin er líka að þeim muni fylgja nokkrir styttri þættir sem verði líklega einnig fluttir á Rás 1 eða í það minnsta aðgengilegir á Hlaðvarpinu. Í þessum styttri þáttum er hugmyndin að Gísli Marteinn fái til sín góða gesti að spjalla við og einstakar bækur eða dúlógíur úr seríunni verði umræðuefnið í þeim þáttum. 
Á vef Ríkisútvarpsins má lesa eftirfarandi kynningu: Fjórir þættir um belgísku teiknimyndahetjuna Tinna. Hverjar eru pólitískar skoðanir hans? Er Tinni rasisti? Eða mannvinur sem vill öllum vel? Af hverju er miðaldra drykkfelldur sjómaður besti vinur hans? Í þessum þáttum mun Gísli Marteinn Baldursson kafa ofan í sköpunarverk Hergés og velta fyrir sér hvaða straumar og stefnur tuttugustu aldarinnar leynast á bakvið þroskasögu Tinna.
SVEPPAGREIFINN er fullur tilhlökkunar og það er enginn vafi á að Tinna sérfræðingurinn Gísli Marteinn muni ná að gera sér mat úr þessu skemmtilega og áhugaverða efni. Þættirnir verða á dagskrá á laugardagsmorgnum klukkan 10:15 á Rás 1 eins og áður segir og fyrsti þátturinn verður þann 10. febrúar.

Uppfært.
Eitthvað hefur dagskrá Ríkisútvarpsins riðlast frá upphaflega auglýstri dagskrá því nú er gert ráð fyrir fyrsta þætti laugardaginn 17. febrúar. Þá er bara enn meiri ástæða til að hlakka til.

2. febrúar 2018

44. SITT LÍTIÐ AF HVERJU UM KOLAFARMINN

SVEPPAGREIFINN fjallaði fyrir nokkrum mánuðum um aukasíðuna í Tinna og Pikkarónunum en í þeirri færslu sagði frá einni blaðsíðu sem var ofaukið þegar að búa átti söguna undir prentun í bókarformi. Í ljós kom að blaðsíðurnar sem birtust í myndasögublaðinu Le Journal de Tintin voru í raun orðnar 63 en bókaformið bauð aðeins upp á 62 síður. Því þurfti að stytta söguna um eina blaðsíðu. Um það og margt fleira tengt Tinna og Pikkarónunum má lesa hér

En Tinni og Pikkarónarnir er alls ekki eina sagan úr bókaflokknum sem hefur þurft að ganga í gegnum einhvers konar yfirhalmingar. Fyrstu níu sögurnar sem birtust upphaflega fyrst í myndasögutímaritinu Le Petit Vingtième og dagblaðinu Le Soir voru á bilinu rúmlega 100 blaðsíður og allt upp í tæplega 140 og í því formi voru þær einnig gefnar út í fyrstu bókaútgáfunum. Þær voru síðan allar endurteiknaðar og litaðar með tímanum (eftir að Hergé Studios var stofnað um 1950) fyrir nýja bókarútgáfu sem miðaðist við 62 síður. Þessar fyrstu sögur gengu því í gegnum töluvert miklar breytingar. En frá og með 10. bókinni (Dularfullu stjörnunni) fóru sögurnar að birtast í þessum blöðum og tímaritum að miklu leyti í því endanlega formi sem við þekkjum í dag. Með fyrirhugaða bókaútgáfu í huga voru þær hafðar rúmlega 60 blaðsíður að lengd en voru þó enn að birtast í svart/hvítu. Með stofnun myndasögutímaritsins Le Journal de Tintin árið 1946 fóru upprunalegu sögurnar loksins að birtast í lit og voru þá orðnar nánast alveg eins og seinna varð í bókunum. En þó ekki alveg. Til eru nokkur dæmi um smávægilegar breytingar á sögunum en einnig um stakar myndaraðir sem rötuðu ekki í endanlegu bókaútgáfuna, líkt og í Tinna og Pikkarónunum eins og nefnt var hér fyrir ofan. SVEPPAGREIFANUM finnst vera kominn tími til kominn að skoða aðeins Kolafarminn í því tilliti.

Þessi myndasaga var fyrst kynnt fyrir lesendum Le Journal de Tintin, á síðustu vikunum fyrir birtingu hennar, með nokkrum auglýsingum á sama stíl og sést hér fyrir neðan. KOLAFARMURINN - Í næstu viku. Og Tinni, aldrei þessu vant í rauðri peysu, segir; "Kolafarmurinn?... Það er titill á nýrri sögu eftir Hergé, sem hefur göngu sína í næsta blaði."
Og það var síðan þann 31. október árið 1956 sem þessi glænýja Tinna saga byrjaði í belgísku útgáfunni af Le Journal de Tintin (blaði nr. 44/1956). En í frönsku útgáfunni af tímaritinu hóf sagan göngu sína (í blaði nr. 425) fáeinum vikum seinna eða þann 13. desember. Sagan nefndist Coke en stock á frummálinu eða Kolafarmurinn eins og við þekkjum hana á íslensku. Coke en stock kom síðan fyrst út í bókaformi hjá Casterman í Belgíu árið 1958 en Kolafarmurinn hjá Fjölvaútgáfunni, í þýðingu Lofts Guðmundssonar, árið 1975.
Nú er það þannig að byrjun Kolafarmsins, eins við þekkjum hana í íslenskri þýðingu, er í huga SVEPPAGREIFANS sveipuð dálítilli nostalgíu af svolítið sérstakri ástæðu. Það var nefnilega þannig að fyrir um 40 árum, þegar SVEPPAGREIFINN var um það bil jafn mörgum árum yngri, þá kunni hann þessa byrjun utan að ásamt bróður sínum og gátu farið með nánast fyrstu blaðsíðuna, á milli sín, orðrétt eftir minni. "Hvernig fannst þér myndin..?" spyr Tinni. Kolbeinn svarar, "Hún var bara nokkuð góð!" um leið og hann kveikir sér í pípunni. "Sá sem lék aðalhlutverkið er aldeilis karl í krapinu!", osfrv. Þetta þekkjum við allt ágætlega.
Og nú kemur sem sagt í ljós að þessi byrjun Kolafarmsins, sem við flest kunnum svo vel við með myndinni af bíótjaldinu góða, er bara alls ekkert byrjunin á sögunni. Með öðrum orðum, byrjunin sem hefst á myndinni með "Endinum" er hreint ekki byrjunin. Í upprunalegu útgáfunni í Le Journal de Tintin frá árinu 1956 hefst sagan nefnilega á þann hátt sem við sjáum hér fyrir neðan.
Þarna er kjaftaskurinn og tryggingasölumaðurinn uppáþrengjandi Flosi Fífldal (frábært nafn hjá þeim Lofti Guðmundssyni og Þorsteini Thorarensen) í aðalhlutverki í fyrstu myndaröð sögunnar og kannski rétt að snara blaðrinu í honum yfir á okkar ylhýru íslensku. Það var að sjálfsögðu gert með dyggri aðstoð hins ástkæra betri helmings SVEPPAGREIFANS og hafi hún bestu þakkir fyrir en hér er þýðingin á eintali Flosa.
  1. mynd. Halló, Myllusetur?... Sæll, gamli sjóari! Flosi Fífldal hérna ... Ha, hvað segirðu? Aaah! Ert þetta þú, Jósep? Sæll, kallinn!... Hvar er bossinn?... Í bænum með Tinna?... Í bíó?... Hvað fóru þeir að sjá?
  2. mynd. "Le Justicier de la Pampa"... (bíómyndin) Ah já! Með Douglas Mac Arthur, nei, Mac Carthy ... alla vega, Mac eitthvað ... Hún virðist vera allt í lagi en ég kýs frekar gamanmyndir. Á meðan ég man ...
  3. mynd. ... gamanmyndir, einn sem myndi slá í gegn í bíómyndum væri frændi minn, hann Anatole ... (Í Leynivopninu hét hann Reginvaldur rakari) Þú hefðir átt að sjá hann í brúðkaupinu hjá systur minni!... Þú veist að hann er rakari. Alla vega, hann missti hárkolluna ...
  4. ... í súpuna sína!... Við misstum okkur alveg!... Þú getur örugglega séð fyrir þér andlitin á gestunum!... Nei eða! Þú getur alveg ímyndað þér þannig atriði í gamanmynd!...
Flosi Fífldal er á fullu í símanum og lætur dæluna ganga eins og honum einum er lagið. En hinn háttvísi ráðsmaður Jósep lætur sér fátt um finnast og það er ekkert sem raskar ró hans.
Þarna fáum við svolítið nýja hlið á Jósep og sú sýn hefði alveg mátt skila sér áfram inn í bókaflokkinn. En þarna tekur hann þvaðrinu í Flosa með hinni mestu rósemd og gluggar á meðan í 17. aldar ritgerðina Pensées (Hugsanir) eftir franska heimspekinginn Blaise Pascal. Þessi óvænta hlið á Jósep sýnir heimspekilega þenkjandi mann sem er svolítið langt frá þeirri ímynd sem flestir lesendur Tinna bókanna þekkja. Sérstaklega með fortíð hins hins meinta glæpamanns, Jóseps, í huga. Í það minnsta er brandarinn nokkuð góður og gaman að geta stolist til að setja frumgerð Hergé af þessari mynd hér þó hún hafi ekki endað í bókaútgáfunni.
Það voru gerðar fleiri breytingar í sögunni um Kolafarminn á milli upprunalegu útgáfunnar í Le Journal de Tintin og endanlegu bókaútgáfunnar sem flestir þekkja. Þær breytingar sem tengdust teikningunum sjálfum voru þó smávægilegar og snerust mest um að bætt var við reyk úr pípu Kolbeins á ýmsum stöðum, einhverjum svitadropum og aukalínum bætt við eða litlum smáatriðum var ýmist bætt við eða þau fjarlægð. Aðrar breytingar eru eingöngu textalegs eðlis og tengdust aðallega uppfærslum á orðalagi sem þóttu vísa til kynþáttafordóma. Þessar textabreytingar voru gerðar löngu fyrir útgáfu Kolafarmsins á íslensku og því engin ástæða til að tíunda þær neitt nánar hér.

SVEPPAGREIFINN á örugglega eftir að grafa upp fleiri breytingar sem Tinna sögurnar hafa gengið í gegnum og birta hér með tíð og tíma.