27. júlí 2023

228. GAMALT AFMÆLISRIT UM LUKKU LÁKA

Margir íslenskir myndasöguunnendur muna eftir Viggó brandara sem birtist á blaðsíðu 32 í bókinni Viggó bregður á leik sem Iðunn gaf út á því herrans ári 1982. Í stuttu máli segir brandarinn frá því þegar starfsfólkið á ritstjórnarskrifstofu SVALS býr sig undir að halda upp á afmæli Roy Rogers þegar herra Seðlan stingur, eins og svo oft áður, nefinu óvænt inn. Herra Seðlan er auðvitað ekkert nema fýlan og neikvæðnin og tjáir Val að hann vilji ekki ræða við neinn annan, að þessu sinni, nema forstjóra fyrirtækisins. Í þessum brandara kemur einmitt fyrir mjög skemmtilegt móment, sem SVEPPAGREIFINN hreinlega elskar, en það er að sjálfsögðu andartakið, á næstsíðustu mynd brandarans, þegar herra Seðlan stendur augliti til auglitis við dapureygðan og undrandi hest! Þetta er auðvitað alveg hreint stórkostlegt augnablik.

En þessi frábæri Viggó brandari er þó ekki viðfangsefni færslu dagsins þótt hann tengist henni óneitanlega. Hér er nefnilega um að ræða framlag André Franquins til sérstaks tímamótablaðs, myndasögutímaritsins SPIROU, sem gefið var út í tilefni af 20 ára afmæli Lukku Láka. Þar með er ljóst að Jón Gunnarsson hefur farið heldur frjálslega með þýðingu sína á brandaranum á sínum tíma því auðvitað var starfsfólk SVALS ekki að halda upp á afmæli Roy Rogers. Skrítið að hann skuli hafa breytt þessu. Viggó hefur þarna klætt sig upp sem kúreka þó ekki hafi hann farið alla leið í litasamsetningu Láka en fyrir þá sem ekki vita samanstendur kúrekabúningur Lukku Láka alla jafna af litum belgíska þjóðfánans. En það er best að snúa sér aðeins að þessu merkilega afmælisriti SPIROU sem kom út fimmtudaginn 13. apríl árið 1967. Reyndar hafði Láki fyrst birst í tímaritinu í október árið 1946, og því voru nokkrir mánuðir liðnir frá 20 ára afmælinu, en af einhverri ástæðu hafði það dregist um hálft ár að fagna hinum merka áfanga. Þetta tiltekna afmælisblað, sem var tölublað númer 1513 og 108 blaðsíður að lengd, var því tileinkað kúrekanum knáa með innihaldi sem samanstóð auðvitað að mestu af efni er tengdist Lukku Láka.

SPIROU blaðið var því stútfullt af skemmtilegu Lukku Láka góðgæti, þennan fimmtudaginn, þar sem margir af listamönnum tímaritsins lögðu sitt á vogaskálarnar til að heiðra Láka og höfunda hans, þá Morris og Goscinny. Og það heppnaðist reyndar bara alveg prýðilega. Á meðal Lukku Láka efnis, fyrir utan þennan Viggó brandara hér að ofan, má til dæmis nefna stutta Boule og Bill sögu eftir Roba og aðra um unglingsstelpuna Sophie, sem einhverjir kannast eflaust við, eftir Jidéhem. Sophie varð með tímanum ein af ástsælustu persónum belgíska myndasöguheimsins og var raunar fyrsta kvenpersónan sem fékk aðalhlutverk í teiknimyndaseríu hjá SPIROU tímaritinu.

Þá skal geta þess að fyrsta sagan um Lukku Láka, La Mine d'or de Dick Digger sem við Íslendingar þekkjum auðvitað sem Gullnámuna, var birt í blaðinu í heild sinni í þessu afmælisriti. La Mine d'or de Dick Digger hafði þá verið ófáanleg í bókaformi í fjölda mörg ár og margir lesendur SPIROU tímaritsins voru því að sjá hana í fyrsta sinn. Þetta kom mörgum skemmtilega á óvart en sagan hafði birst fyrst í myndasögublaðinu þann 12. júní árið 1947 og henni lauk 27. nóvember sama ár.

En fleira áhugavert efni um Lukku Láka birtist í þessu afmælishefti. Flestir myndasögulesendur kannast við bókina Allt um Lukku Láka sem Fjölvaútgáfan gaf út árið 1978 en í þeirri bók er einmitt stuttur kafli sem nefnist, Þegar aðrir teikna Lukku Láka. Þar er greint frá einvígi þeirra Morris og Giraud (sem teiknaði myndasögurnar um Blástakk) og birt stutt Lukku Láka saga í spaghetti-vestra stíl eftir franska teiknarann Marcel Gottlieb. Í afmælisheftinu góða voru einmitt tvær slíkar stuttsögur eftir listamennina Salvé (Louis Salvérius) og Roba en þær birtir SVEPPAGREIFINN hér í heilu lagi og með íslenskri þýðingu. Fyrri sagan greinir frá þeirri óvenjulegu uppákomu að Lukku Láki verður sem snöggvast ástfanginn. En auðvitað kemur svo í ljós í enda sögunnar að það hefði bara verið draumur. Salvé, sá sem gerði þessa örstuttu Lukku Láka sögu, var mjög hæfileikaríkur listamaður sem lést aðeins 38 ára að aldri. Hann var svo til óþekktur þegar hann teiknaði söguna en skömmu eftir birtingu hennar hóf hann vinnu við nýja seríu í samstarfi við handritshöfundinn afkastamikla Raoul Cauvin. Þær nefndust Les Tuniques Bleues (Bláfrakkarnir) og urðu gríðarlega vinsælar en hann lést árið 1972 eftir aðeins fjórar sögur í bókaflokknum. Eftir hið sviplega fráfall hans tók Willy Lambil við keflinu og Salvé var þó alltaf í skugga eftirmanns síns þrátt fyrir að hafa lagt grunninn, ásamt Cauvin, að þessum skemmtilegu og vinsælu myndasögum. En hér er saga Salvé, um hinn "ástfangna" Lukku Láka, eftir handriti hins belgíska Maurice Tillieux sem kunnastur er fyrir sögurnar um Gil Jourdan og Tif og Tondu sem margir líklega þekkja.

Seinni myndasagan er eftir Roba, sem auðvitað er þekktastur fyrir sögurnar um tvíeykið Boule og Bill, en handrit hennar er einnig eftir Tillieux líkt og í hinni sögunni. Hér segir frá því hvernig afmælisbarnið Lukku Láki, sem að þessu sinni er óvenju þungur á brún, er ofsóttur af lúðalegum aðdáanda með gleraugu. Sá þráir ekkert heitar en að verða félagi Láka og fylgja honum í æsandi ævintýrum hans um villta vestrið. Lukku Láki er hins vegar ekki á þeim buxunum að gefa þessum drengstaula nein færi á því, enda hefur einmana kúreki ekkert við slíkan félagsskap að gera. Svo uppáþrengjandi er þessi aðdáandi aðalsöguhetjunnar að hann yrði að líkindum greindur sem eltihrellir ef hann dúkkaði einhvers staðar upp í raunveruleikanum. Glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir því að Roba hefur teiknað aðdáandann lúðalega sem Morris - skapara Lukku Láka. Þá vekur SVEPPAGREIFINN athygli á að Roba hefur teiknað plaggat af eftirlýstum Viggó viðutan (á veggnum aftan við útfarastjórann) á fyrri myndinni í annarri myndaröð á seinni blaðsíðunni. Roba var auðvitað náinn samstarfsmaður André Franquin, sem teiknaði Viggó, og vann til að mynda töluvert við hlið hans að sögunum um þá Sval og Val. En hér má því sjá söguna um kúrekann Ólukku Láka sem virðist aldrei hafa verið jafn þunglyndur og einmana á ferli sínum.


Aðeins fáeinum mánuðum eftir að Dupuis sendi frá sér þetta afmælisrit SPIROU yfirgáfu þeir Morris og Goscinny útgáfufyrirtækið og gengu til liðs við Dargaud útgáfuna frönsku og myndasögurnar um Lukku Láki hófu í kjölfarið að birtast í myndasögutímaritinu Pilote. Sögunum um Bláfrakkana, sem minnst er á hér að ofan, var þá einmitt ætlað að fylla upp í það tómarúm sem kúrekinn knái skyldi eftir sig hjá SPIROU tímaritinu. Lukku Láka sögurnar birtust hins vegar í Pilote tímaritinu fram til ársins 1973 og færðu sig þá yfir á sérstakt Lukku Láka blað, sem reyndar varð ekki langlíft, en eftir það birtust sögurnar á ýmsum ólíkum vettvöngum.

5. júlí 2023

227. SMÁ UPPFÆRSLA Í MYNDASÖGUHILLUNUM

Af ýmsum mismunandi ástæðum hefur SVEPPAGREIFINN ekki verið nægilega duglegur við að ferðast um heiminn, á undanförnum árum, til að bæta í myndasöguhillurnar sínar. Eins og einhverjir eflaust muna gerði Covid veiran nokkra skráveifu hjá mörgum en hún gerði það að verkum að utanlandsferðum landsmanna varð stórlega áfátt um skeið. Covid lokaði svo sem ekki alveg á bókakaup hans því SVEPPAGREIFINN freistaðist aðeins til að kaupa sér bækur á Netinu en það er samt ekki alveg jafn marktækt. Um þau kaup má aðeins lesa í færslu hér. Hann hefur þó verið nokkuð duglegur að versla það sem hefur verið að koma út hjá Froski útgáfu og hefur reyndar alltaf verið. En fyrr í sumar skrapp hann þó með börnunum sínum í nokkurra daga ferð á heimaslóðir móður þeirra í Sviss og eins og jafnan er á slíku flakki þá er eiginlega ekki hjá því komist að fjárfesta í nokkrum teiknimyndasögum. Ekki var þó ætlunin að standa í neinum stórinnkaupum að þessu sinni, enda fjölskyldan auðvitað í fyrirrúmi, en fáeinar bækur (og reyndar líka nokkur myndasögutímarit) fylgdu þó með í ferðatöskunum á leiðinni heim. Fyrirfram höfðu örfáar sérvaldar myndasögubækur verið settar efstar á óskalistann en eins og gerist reyndar stundum þá getur margt breyst frá upphaflegum áætlum. Ýmist næst ekki alltaf í ákveðnar bækur hverju sinni eða ekki gefst tækifæri til að nálgast þær á þeim stöðum sem upphaflega var stefnt að. Þannig verða víst sumar myndasögur að bíða betri tíma en í staðinn slæðast með fáeinar aðrar bækur sem verða á vegi SVEPPAGREIFANS. Flest kaup ferðalagsins voru einmitt í þeim dúr.

Í borginni Biel keypti hann Lukku Láka bókina Volle Fahrt voraus sem er nokkurs konar samansafn af bernskubrekum Láka og er eftir núverandi höfund seríunnar, Achdé (Hervé Darmento). Bókin er á þýsku og telst númer 98 af þýsku útgáfuröðinni en í Frakklandi tilheyrir hún bókaflokknum um Litla Lukku Láka (Kid Lucky) og telst þar ekki til hinnar opinberu Lukku Láka seríu. Bókin heitir þar Kid Lucky - Kid ou double og kom fyrst út árið 2019 en Achdé hefur þann háttinn á að teikna til skiptis, annað hver ár, bók úr upprunalegu seríunni annars vegar og svo hitt árið um Litla Láka.

Á sama stað rak SVEPPAGREIFINN augun í Sval og Val bókina Tulpen aus Istanbul (Túlipanar frá Istanbúl) eftir hinn hollenska Hanco Kolk en þessa sögu hefur GREIFINN haft augastað á síðan hún kom út árið 2017. Hér er reyndar um að ræða þýsku útgáfuna af bókinni (Tulpen uit Istanboel heitir hún á hollensku) og kom út í apríl á þessu ári hjá Carlsen comics en hefur aldrei komið út á frönsku. Upprunalega telst sagan til hinnar hollensku/flæmsku deildar Dupuis, þar sem Svalur kallast Robbedoes, en þær sögur hafa yfirleitt ekki verið að koma út í öðrum löndum - þar til núna. Carlsen hefur nefnilega nú riðið á vaðið og gefur bókina út í hinni þýsku Sval og Val hliðarseríu sinni, SPEZIAL. Sagan hefur yfirleitt fengið alveg þokkalega dóma en Dupuis útgáfan í Belgíu hefur þó verið frekar viðkvæm fyrir þessari hollensku útfærslu á þeim Sval og Val enda er almennt gert frekar lítið úr belgiskum uppruna þeirra í Robbedoes seríunni. Belgum finnst líka heldur lítið til hollenskrar myndasögugerðar koma enda er magn bókanna þar yfirleitt gæðunum yfirsterkari. Siggi og Vigga þykja til dæmis ekkert úrvalsefni eins og flestir eru líklega sammála um. En sagan Tulpen aus Istanbul gerist árið 1960 og segir frá því er Sveppagreifinn fær þá Sval og Val til að aðstoða sig við að hjálpa sovéskum kollega sínum að flýja vestur yfir járntjald og yfir til Hollands. Eins og sést á bókarkápunni er sagan ekki alveg í hefðbundnum Sval og Val stíl en hann minnir svolítið á La Grosse tête sem kemur úr hliðarseríunni Série Le Spirou de….

Skömmu síðar rak SVEPPAGREIFINN svo augun í þykkt myndasögurit, í söluturni á lestarstöðinni í Biel, sem ber einfaldlega heitið, Asterix MAX! Þarna er um að ræða tæplega 200 blaðsíðna doðrant sem tilvalið er fyrir þýskumælandi börn að taka með sér og dunda við á ferðalögum sumarsins. Það er að segja þá krakka sem ekki hafa enn misst vitið af snjallsímanotkun sinni! En ritið samanstendur af margskonar efni, fyrir börn á öllum aldri, sem tengist að mörgu leyti Ástríks bókunum eins og nafn þess (ASTERIX MAX!) gefur sterklega til kynna en efni þess er meira og minna allt tengt höfundunum Goscinny og Uderzo. Brot heftisins og efni er mjög sambærilegt við MEGA SPIROU ritin sem einhverjir kannast örugglega við og koma ennþá reglulega út. En í ASTERIX MAX! heftinu má meðal annars finna stuttar Ástríks sögur sem birtust í Pilote myndasögutímaritinu og víðar, en komu samt ekki endilega út í bókaformi, brot eða kafla úr nokkrum Ástríks bókum, stuttar fróðleiksgreinar, þrautir, uppskriftir (ekki þó með villigöltum!) og ýmislegt fleira.

Þó Ástríks þema þessa doðrants sé mest áberandi þá er þar einnig að finna 46 blaðsíðna myndasögu sem fjallar um ævintýri systkinanna Benjamin og Benjamine, 22ja blaðsíðna ævintýri um Luc Junior (ungan blaðamann sem ferðast um heiminn) og stutt ævintýri um hundinn Krílrík (í einhverjum Ástríksbókanna er hann líka kallaður Smáríkur) sem heitir Idefix und die Unbeugsamen - Ein Löwe mit heimweh (kannski þá sem Krílríkur og hinir ódrepandi - Ljón með heimþrá) og er 15 blaðsíður að lengd. Tvær fyrrnefndu sögurnar eru eftir þá Goscinny og Uderzo og koma úr löngu gleymdum hirslum þeirra en hundasagan er eftir þá Yves Coulon, Klaus Jöken og Philippe Fenech en þær sögur hafa víst verið að koma út í myndasöguformi á undanförnum árum. Ævintýri Benjamin og Benjamine voru eitt af verkefnum þeirra Uderzo og Goscinnys frá þeim tíma sem þeir voru að byrja að þróa samstarf sitt. Reyndar höfðu þessar sögupersónur verið skapaðar áður og birtust fyrst í franska unglingablaðinu Benjamin í lok árs 1952 en þeir Uderzo og Goscinny komu að þeim á árunum 1957 - '59. Alls unnu þeir saman að fjórum ævintýrum um Benjamin og Benjamine og þau voru fyrst gefin út í bókarformi árið 1991 en glæsilegt safnrit með öllum sögunum auk 30 blaðsíðna fróðleiks kom út hjá Albert René útgáfunni árið 2017. Það væri örugglega gaman að eignast það hefti. Ævintýri Luc Junior eru af svipuðum toga en voru gerð á árunum 1954 - '57 og það er bara á allra síðustu árum sem þau hafa verið grafin upp, lituð og gefin út í bókaformi. 

Seinna sama dag keypti SVEPPAGREIFINN í Bern Sval og Val bókina Der Wolfsmensch (Úlfsmaðurinn) eftir Belgana Charel Cambré og Marc Legendre en hún kemur einnig úr SPEZIAL seríunni þýsku. Líkt og Tulpen aus Istanbul kemur þessi saga líka úr hinum hollenska/flæmska Robbedoes ranni en hún heitir á frummálinu De Wolfman og er reyndar þriðja bókin af einhvers konar þríleik eftir þá Cambré og Legendre. SVEPPAGREIFINN á að vísu enn eftir að verða sér úti um fyrri bækurnar tvær, sem jafnframt hafa komið út í þýsku SPEZIAL seríunni, en það er þó auðvitað stefnan að nálgast þær einnig. Alls hefur Carlsen því sent frá sér fjórar bækur úr þessum hollensk/flæmska Robberdoes pakka og reikna má með að fleiri slíkar komi út á næstu árum.

Allar þessar fyrstu fjórar myndasögur voru á þýsku enda hefur SVEPPAGREIFINN lagt meiri áherslu á það tungumál þó bækur á frönsku slæðist reyndar oft með á þessum ferðalögum. Einn laugardaginn, þegar krakkarnir höfðu brugðið sér í sund og matarboð hjá vinafólki, fékk SVEPPAGREIFINN svolítið frjálsar hendur og notaði þá tækifærið til að rölta aðeins um Biel. Þar kíkti hann auðvitað á hinn hálfsmánaðalega flóamarkað sem staðsettur er nálægt aðal lestarstöðinni í borginni en þangað hefur hann oft ráfað þegar þannig stendur á. Reyndar var þar ekki úr miklu að moða, að þessu sinni, nema hvað hann rakst á góðan bunka af SPIROU og Le Journual De Tintin tímaritum sem hann borgaði aðeins 10 svissneska franka fyrir. En það munu vera um það bil rétt rúmlega 1500 kall fyrir allan pakkann ef miðað er við nýjustu verðbólgu- og gengisviðmiðanir. Þessi tímaritabunki hafði alls að geyma 18 blöð (13 af SPIROU og 5 af Tintin) sem gefin voru út á árunum 1978 til '79. Að sjálfsögðu var GREIFINN himinlifandi yfir fundinum enda fremur sjaldgæft að rekast á slíkar gersemar þó það gerist reyndar einstaka sinnum. Í það minnsta var gaman að fá þessa kærkomnu viðbót í belgíska myndasögutímaritsafn heimilisins.

Nokkru seinna rakst hann svo á gamalkunnan bás á götumarkaði, með notuðum myndasögum, í miðbænum og keypti þar fjórar áhugaverðar teiknimyndasögur sem allar voru á frönsku. Þar var um að ræða tvær bækur með Natöchu, eina með Bláfrökkunum (Les Tuniques Blues) og svo eina bók með frönsku flugkempunni Bob Morane en margir muna eftir drengjasögunum með Bob Moran sem bókaútgáfan Leiftur sendi frá sér í tugavís fyrir mörgum áratugum. Þetta er í fyrsta sinn sem GREIFINN grípur með sér Bob Morane bók en hann hefur þó oft fengið tækifæri til þess á þessu flandri sínu og hefur reyndar einhvers staðar aðeins minnst á þessar bækur á Hrakförum og heimskupörum áður. Bókin heitir L'oeil du Samouraï eða Auga Samúræjanna en sú saga mun ekki hafa komið út hjá Leiftursútgáfunni á sínum tíma. Einhverjir muna eflaust eftir hinum ógnar grimma Gula skugga úr þeim bókum en það illmenni kemur einmitt fyrir í nokkrum af þessum myndasöguútgáfum af Bob Morane. Fyrir átti SVEPPAGREIFINN hins vegar nokkrar bækur með flugfreyjunni Natöchu og einnig með hetjunum úr Bláfrakkasögunum en það er eiginlega hálfgert rannsóknarefni af hverju þær seríur komu hvorugar út í íslenskri þýðingu hér á árum áður. Svo vinsælar voru þessar sögur, bæði í Frakklandi og Belgíu sem og á Norðurlöndunum, að líklega var það bara tilviljun að þær myndasögur voru ekki valdar til útgáfu frekar en til dæmis bækurnar um Samma, Hin fjögur fræknu eða Frikka og Frosta. Íslensku bókaforlögin voru nokkuð sein að taka við sér og hefja útgáfu á myndasögum á sínum tíma en SVEPPAGREIFINN er fullviss um að ef útgáfa þessa tegunda barnabókmennta hefði hafist af fullum þunga nokkrum árum fyrr þá hefðu báðar þessar seríur einnig orðið fyrir valinu, hjá Fjölva eða Iðunni, fyrir íslensk börn og unglinga.

Aðeins bætti SVEPPAGREIFINN nú reyndar fleiru í staflann sinn í þessari lotu. Hann er vanur að gramsa í 5 franka rekkunum í verslunum stórmarkaðskeðjunnar Manor og engin breyting varð á því í þetta skiptið. Þarna greip hann með sér tvær Viggó safnbækur sem hafa að geyma þema sem tengjast ákveðnum bröndurum með kappanum. Síðuhafi á að minnsta kosti tvær bækur úr þessu safnflokki fyrir og þar sem hann er svo mikill Viggó aðdáandi sá hann sér ekki fært annað en að fjárfesta í þessum ódýru ritum. Þær fara líka svo ágætlega í myndasöguhillunum hans.

Þegar síðan heim í athvarf fjölskyldunnar var komið mættu börnin svo færandi hendi með þrjár Tinna bækur á þýsku sem vinafólkið hafði fært þeim vitandi að heimilisfaðirinn væri að safna Tinna á mörgum mismunandi tungumálum. Hér var um að ræða Reiseziel Mond (Eldflaugastöðin), König Ottokars Zepter (Veldissproti Ottókars) og Der Blaue Lotos (Blái lótusinn). Nú á hann því orðið tíu myndasögur með Tinna á þýsku. Ef einhver lesenda Hrakfara og heimskupara lumar á Tinna bókum á mjög framandi tungumálum (sem honum langar að gefa) þá er SVEPPAGREIFINN alveg til í að eignast þær. Þarna er hann auðvitað ekki að tala algengustu tungumálin í kringum okkur heldur austur evrópskum, asískum, suður amerískum eða jafnvel afrískum útgáfum.

Eins og SVEPPAGREIFINN gat um í byrjun náði hann nú ekki í þær helstu bækur sem verið höfðu á óskalistanum að þessu sinni. Enn vantar hann 7. bókina úr hinum frábæra Sval og Val safnflokki þar sem fjallað er um verk André Franquin og í framhaldinu af því er ætlunin að nálgast bækur Jean-Claude Fournier sem bera þá númerin 9 og 10 og koma í kjölfarið. Seinna er svo planið að eignast bækurnar með verkum þeirra Nic og Cauvin og svo koll af kolli. Sömuleiðis náði hann hvergi í þær tvær af þeim Sval og Val bókum Émile Bravo sem hann enn vantar (nr. 2 og 4.) og tilheyra einmitt hinni þýsku SPEZIAL seríu. Alls eru þessar bækur fjórar talsins (reyndar eru þær fimm í heildina með forsögunni SPIROU - Le Journal d'un ingénu (SVALUR - Dagbók hrekkleysingja)) og er framhaldssaga sem fjallar um baráttu Svals og Vals með andspyrnuhreyfingu Belga gegn þýsku Nasistunum í Síðari heimsstyrjöldinni. Þessar tvær bækur fann hann hvergi enda athafnasvið ferðalagsins nokkuð takmarkað af því svæði sem fjölskyldan dvaldi á, að þessu sinni, og var á hinu frönskumælandi málsvæði Sviss. En SVEPPAGREIFINN mælir eindregið með þessum bókum.

Reyndar rakst hann bæði á Les amis de Spirou og nýju, lituðu endurútgáfuna af Tinna sögunni Vindlar Faraós, sem báðar voru einnig á óskalistanum góða, en fannst þær af einhverri ástæðu of dýrar að þessu sinni. Aðalástæða var þó sennilega sú að hann var þá ekki enn búinn að finna Franquin safnbókina og fannst líklega of dýrt að fara að versla þær allar. Ætli SVEPPAGREIFINN kaupi þær þá ekki bara á Netinu í vetur og þá með tilheyrandi aukakostnaði og biðtíma. Annað eins hefur nú gerst á hans heimili. Teiknimyndasögukaup sumarsins þóttu því í rýrari kantinum að þessu sinni og eiginlega óttalegur samtíningur en alls bættust þó í myndasöguhillurnar 13 bækur og 18 blöð. Þótt uppskeran hafi verið þetta rýr var GREIFINN bara nokkuð ánægður með afraksturinn og þar koma gömlu myndasögutímaritin sérstaklega sterk inn. En stefnan er þó samt sem áður að gera svolítið betur næst - alla vega hvað magn varðar. Þótt bækurnar hafi ekki verið neitt sérstaklega margar þótti SVEPPAGREIFANUM samt alveg ástæða til að færa afraksturinn í annála á Hrakfara-síðunni sinni og skila af sér skýrslu um kaupin. Það hefur hann jafnan gert í kjölfar myndasögukaupa sinna erlendis og það er engin ástæða til að breyta út af venjunni þó honum hafi fundist uppskeran svolítið fátækleg. Reyndar hefur tilurð þeirra skrifa jafnan verið til komin vegna dauðra stunda í annars kærkomnum fríum hans og það getur jafnvel verið töluvert afslappandi að dunda sér við að skrifa þessar færslur í rólegheitum einhvers staðar á góðum stað og næði. Nákvæmlega þessi orð eru til að mynda skrifuð í lest mitt á milli borganna Bern og Biel.

Að lokum verður svo eiginlega einnig að geta þess að á sama tíma og SVEPPAGREIFINN spókaði sig um í svissneskum fjallaþorpum þá bárust honum fregnir af tveimur nýjum myndasögum á íslensku hjá Froski útgáfu. Þetta eru Sval og Val bækur sem tilheyra reyndar hinni frábæru hliðarbókaseríu Série Le Spirou de... en virðast eiga að fylgja aðal bókaflokknum hér á landi ef mark er takandi á númerunum sem þeim hefur verið úthlutað í íslensku útgáfuröðnni. Síðuhafi vissi reyndar að Jean Posocco hjá Froski hefði verið að velta fyrir sér útgáfu þessara aukabóka en er einstaklega ánægður með að hann lét verða af þeim. Nú bíður SVEPPAGREIFINN bara spenntur eftir að hinar frábæru bækur Émile Bravo, úr þessari sömu hliðarseríu, komi á endanum út á íslensku. En myndasögurnar Á valdi kakkalakkanna, eftir Yann og Schwartz, og Svalur í Sovétríkjunum, eftir Tarrin og Neinhard, voru að sjálfsögðu báðar komnar upp í hinar alræmdu myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS daginn eftir heimkomu hans og Froskur á mikið hrós skilið fyrir þessa lofsverðu en um leið erfiðu útgáfu sína á myndasögum á íslensku. Til þess að möguleiki sé á áframhaldandi útgáfu á þessum frábæru teiknimyndasögum þá er mikilvægt að allir myndasögulesendur, jafnt ungir sem aldnir, flykkist nú í Nexus og kaupi sér sem mest af þessum bókum öllum. Öðruvísi getur þetta framtak Jean hjá Froski ekki gengið upp en það er meira rekið af hugsjón frekar en af efnum. Sjálfur hefur SVEPPAGREIFINN reynt að hafa það fyrir reglu að versla sér eins og eina myndasögu frá útgáfunni í hverjum mánuði og hvetur aðra að taka upp sambærilegt eða svipað kerfi. Hver bók kostar um það bil það sama og bíóferð (með nauðsynlegu meðlæti fyrir einn) eða miðlungsstór Dominos pizza án goss eða brauðstanga. Menn leyfa sér svo sem annað eins. Allir út að versla sér bækur frá Froski - þær kaupa sig ekki sjálfar!