20. nóvember 2016

9. FALIN ÁSTARSAGA Í TINNA BÓKUNUM

SVEPPAGREIFINN hefur löngun reynt að vera duglegur við að kynna sér það sem alvöru myndasögunördar úti í heimi hafa fram að færa og eitt af því sem hann hefur afskaplega gaman að er að skoða og fylgjast með spjallsíðum sérfræðinganna. Þar má finna gríðarlega mikinn fróðleik og þrátt fyrir áhuga SVEPPAGREIFANS á viðfangsefninu "teiknimyndasögur" þá verður samt sem áður að viðurkennast að hann veit ósköp lítið um þær, ef tekið er mið af hinum raunverulegu sérfræðingum. En hluti af þessu grúski gengur auðvitað út á það að fræðast. Og þannig nýtast þessir vettvangar til að læra og deila eða miðla því sem hann verður áskynja.

Einn af þeim skemmtilegu og athyglisverðu punktum sem SVEPPAGREIFINN hefur rekist á hjá nokkrum fræðimönnum fjallar um litla dulbúna ástarsögu úr Tinna bókunum. Þessi ástarsaga byrjar á blaðsíðu 45 í bókinni um Leynivopnið en þar eru þeir kumpánar Tinni og Kolbeinn staddir í Genf í Sviss, á leiðinni út á flugvöll í flugrútu Swissair. Kolbeinn hefur losað sig við plástur, sem hann hafði eftir að hafa slasast í sprengingu í Nyon nokkrum blaðsíðum fyrr, og farþegarnir í sætunum fyrir framan þá eru að vandræðast með þennan plástur. Þetta fólk, kona og karl á rúmlega miðjum aldri, þekkjast ekki neitt en með þessum plástravandræðum þeirra hefjast með þeim góð kynni.

Hergé hefur nefnilega ákveðið að halda áfram með þau skötuhjú í sögunni því þau birtast meira seinna í Leynivopninu. Eitthvað eru þau að fikra sig áfram turtildúfurnar því að á blaðsíðu 46 sitja þau saman, í sömu flugvél og Tinni og Kolbeinn, á leiðinni til Szóhód í Bordúríu. Þannig er augljóslega eitthvað í gangi og greinilegt að sitthvað hafi þau haft til að spjalla um.
En svona í framhjáhlaupi verður nú að segjast að ansi er nú rúmt um farþega þessa flugvélar. Á blaðsíðu 49 situr konan reyndar ein að snæðingi í matsalnum á Hótel Zsnörr í Szóhód en SVEPPAGREIFINN gerir ráð fyrir að herramaðurinn sé háttvís og kurteis og sé því ekki að færa sig of mikið upp á skaftið svona í byrjun. Það er jú ennþá árið 1955!
En eitthvað er samt í gangi því að herrann hefur augljóslega boðið henni í Szóhód-óperuhöllina á blaðsíðu 52. Þau ganga fyrir aftan Tinna og Kolbein á leiðinni út úr óperunni og það fer ekki á milli mála að þau eiga margt sameinlegt miðað við þær hrókasamræður sem þar virðast í gangi. Þetta gerist strax að kvöldi sama dags og þau hittast fyrst í flugrútunni.
En ekki hefur Hergé staðist þá freistingu að láta staðar numið þar. Í Kolafarminum frá árinu 1956, sem er næsta bók á eftir Leynivopninu, birtast þau strax á fyrstu blaðsíðu. Tinni og Kolbeinn að koma úr bíói og parið góða röltir út úr bíóhúsinu á sama tíma. Hversu löngu þetta er eftir plástursævintýrið, í rútuferðinni góðu, er erfitt að segja en SVEPPAGREIFINN reiknar þó með að þarna séu þau enn tiltölulega nýbyrjuð að rugla saman reitum sínum.
En í næstu bók þar á eftir, Tinni í Tíbet frá árinu 1958, er nokkur tími um liðinn. Tinni og Kolbeinn eyddu um mánuði í ævintýrinu um Kolafarminn og þegar sagan í Tíbet hefst eru sjálfsagt nokkrir mánuðir í viðbót liðnir. Þeir félagar eru í afslöppun á fjallahóteli í frönsku Ölpunum og grípa í skák eftir kvöldmatinn þegar stutt en fræg atburðarás úr Tinna bókunum hefst. Tinni er þreyttur eftir göngutúr með Tobba í fjöllunum og dottar yfir skákinni en dreymir þá Tsjang vin sinn í miklum hremmingum. Tinni hrópar upp yfir sig nafn hans í örvæntingu og þeytir taflborðinu upp í loftið svo öllum viðstöddum verður bilt við. Þessi stóra mynd er ein sú flottasta í öllum Tinnabókunum og reyndar ein af mörgum listaverkum úr þessari frábæru bók.
En hver önnur en skötuhjúin frægu sitja við næsta borð með sjálfum Vandráði prófessor sér við hlið. Parið er augljóslega orðið það náið að þau eru farin að eyða frítíma sínum saman á notalegu fjallahóteli í Ölpunum. Þá líklega orðin harðgift og ráðsett.
SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki alveg jafn viss og myndasögunördarnir, sem fjallað hafa um málið, um að þarna sé um sama fólk að ræða en margt bendir þó til þess.

Hergé var duglegur við að lauma vinum og kunningjum inn í sögurnar um Tinna og teikna þá inn í hin ýmsu hlutverk. Þar var helst um að ræða teiknara af vinnustofu listamannsins en þeir sjást við mörg tækifæri í bókunum. Sérfræðingarnir sem velt hafa sér upp úr þessum skötuhjúum telja margir þeirra að þarna sé um að ræða par úr vinahópi Hergés, þó ekki sé endilega neitt staðfest í þeim málum. Tilgáturnar eigi að vísa til ákveðins fólks, tengt fjölskyldu Hergés, sem á að hafa kynnst við einhvers konar sambærilegar aðstæður. En það skiptir svo sem litlu máli, aukasagan leynda er alveg jafn skemmtileg fyrir vikið.