10. nóvember 2023

230. EITT AF MEISTARAVERKUM ANDRÉ FRANQUIN

SVEPPAGREIFINN hefur ekki verið neitt sérstaklega duglegur við skriftir hér á Hrakförum og heimskupörum á undanförnum vikum en ákvað, samvisku sinnar vegna, að henda í eins og eina færslu. Það er ekki laust við að svolítið ryð hafi verið byrjað að myndast á myndasöguandagift Greifans og því tók það hann nokkurn tíma að rifja upp og virkja einhvern efnilegan innblástur. En það tókst samt og að endingu varð fyrir valinu eitt af uppáhalds viðfangsefnum hans af öldum myndasöguhafsins. Hér erum við að sjálfsögðu að tala um brandara með sjálfum Viggó viðutan.

Að þessu sinni gróf SVEPPAGREIFINN upp frábæran brandara úr fyrstu Viggó bókinni á íslensku, Viggó hinn óviðjafnanlegi, sem kom út í þýðingu Jóns Gunnarssonar hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1978. Brandarinn birtist upphaflega í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 21. október árið 1971 og er skráður undir númerinu 688. Í sem allra einfaldastri skýringu segir hér frá því þegar Viggó bíður Snjólfi (sem heitir reyndar Lárus í þessari fyrstu Viggó bók á íslensku) að bragða sem snöggvast á piparsósunni sinni. Ekki undir neinum kringumstæðum ætti svo hversdagslegur og einfaldur atburður að vera tilefni til merkilegs einnar blaðsíðu myndasögubrandara en listamanninum André Franquin tekst það þó samt, svo um munar, með stórkostlegum afleiðingum.

En áður en lengra er haldið er líklega bara best að birta þennan brandara hér í heild sinni.

Það er líklega ekki ofsögum sagt að hér fari eitt af meistaraverkum Franquin í meðförum hans á Viggó viðutan. Þrátt fyrir hið meinta innihaldsleysi þá er þetta er alveg hreint stórkostlega fyndinn og vel teiknaður brandari. Nánast hver einasti myndarammi er listaverk sem gæti einnig vel sómað sér sem stök mynd. SVEPPAGREIFINN minnist þessarar blaðsíðu úr æsku og þótti hún auðvitað óstjórnlega fyndin (eins og svo margt annað með Viggó viðutan) en þegar hann var að skoða þennan brandara, í aðdraganda skrifa þessarar færslu, stóð hann sig að því að hreinlega veina af hlátri. Þrátt fyrir að brandarinn byrji strax með látum, og fyrstu fjórir myndarammarnir einkennist aðallega af mismunandi viðbrögðum Eyjólfs við hinni afgerandi framgöngu Snjólfs, þá tekst listamanninum samt sem áður að stigmagna áhrif piparsósunnar með hverri mynd. Það er óhætt að segja að Snjólfur greyjið líti vægast sagt svolítið illa út á þessum fyrri hluta brandarans.

Fyrst spólar hann á ofsafenginn hátt út um dyrnar á skrifstofunni, síðan veltir hann sér organdi um gólfið á ganginum með hendurnar krepptar um logandi hálsinn og í framhaldinu rífur hann utan af sér fötin, hoppandi og skoppandi, á meðan hann blæs másandi í allar áttir. Á þessum fyrstu augnablikum brandarans er Snjólfur eldrauður í andlitinu og allt tryllingslegt látbragð hans ber vott um hamslaust æði. Hvergi hefur þó enn komið fram hver ástæða þessa óvenjulega háttalags hans er en samt er augljóst að hann virðist kveljast illilega af einhverjum ókunnum ástæðum. Þessar teikningar Franquins af tilþrifum Snjólfs eru hreint og beint óborganlegar en þarna eru ósköpin þó bara rétt að byrja því næsta mynd er stórkostleg.

Hér er aumingja maðurinn nefnilega alveg búinn að rífa fötin utan af sér, að ofanverðu, hendist svo í einu stökki upp á skrifborðið hjá henni Sigrúnu (sem hann hefur oft dundað sér við að gera hosur sínar grænar fyrir) og grípur um leið í loftljósið fyrir ofan hana. Þaðan sveiflar hann sér síðan burtu með ægilegu frumskógaöskri en Sigrún lætur sér hins vegar fátt um finnast enda greinilega ýmsu vön af hendi Snjólfs við ástarumleitanir hans. Ætli hún sé ekki önnum kafin þarna við að æfa sig að pikka zefklop, zefklop, zefklop á ritvélina sína? Þessi myndarammi hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM í gegnum tíðina og þá er næsta mynd ekki síðri.

Á þessum tímapunkti hefur ekki enn komið fram af hverju Snjólfur fer þessum hamförum á göngum ritstjórnarskrifstofu SVALS en þó er gefin ákveðin vísbending með þessum frábæra myndaramma. Þarna sprautar hann úr slökkvitæki upp í galopinn munninn á sér og þar með virðist augljóst að eitthvað hafa þessi tilþrif með það að gera að hann hafi sett einhvern óþverra ofan í sig. Það ber auðvitað vott um stórkostlegt hugmyndaflug Franquins að láta sér detta í hug að láta hann nota slökkvitæki við verkið og þetta er alveg frábærlega vel útfærð mynd. Líklega hefði ekki neinn annar listamaður getað teiknað þessi tilþrif jafn listilega vel upp og André Franquin! SVEPPAGREIFINN elskar þennan myndaramma og hefur jafnvel velt því fyrir sér að láta prenta þessa mynd fyrir sig á stórt plaggat til að hafa uppi á vegg á góðum stað í heimili sínu.

Það er síðan á síðusta myndaramma brandarans sem loksins kemur fram ástæða þessa tryllingslega upphlaups Snjólfs þegar Viggó nefnir piparsósuna við Eyjólf. Á þessari mynd eru nokkrir frábærir punktar sem vert er að minnast á. Fyrst og fremst má auðvitað nefna hvernig Snjólfur sjálfur hefur komið sér haganlega fyrir (á hvolfi reyndar) ofan í vaskinum og lætur vatnið buna af fullum krafti upp í sig á meðan Eyjólfur fylgist með í forundran. Þetta er auðvitað alveg stórkostlegt að horfa á. Fyrir aftan þá stendur annar af hollensku bræðrunum (sá rauðhærði), sem hefur verið kallaður Guðni í íslensku þýðingunum, og virðir undrandi fyrir sér fótspor Snjólfs uppi í loftinu fyrir ofan þá. Viggó sjálfur lætur sér hins vegar fátt um finnast og kippir sér lítið upp við æðiskast Snjólfs. Hann heldur á litlum skaftpotti sem augjóslega hefur að geyma piparsósuna illræmdu og ef grannt er skoðað má sjá hvernig rótsterk sósan hefur smám saman étið sig í gegnum botninn á pottinum eins og kraumandi sýra. Af því má ráða að piparsósan hljóti að vera í sterkari kantinum og hin ofsafengnu viðbrögð Snjólfs því líklega bara nokkuð eðlileg.

23. ágúst 2023

229. Á NOKKRUM TUNGUMÁLUM

Í dag er boðið upp á frekar snöggsoðna og ódýra færslu. En SVEPPAGREIFINN hefur iðulega alla anga úti, eftir því sem tími og næði gefast til, við að reyna að hafa upp á áhugaverðu efni til birtingar hér á Hrakförum hans og heimskupörum. Hann gramsar gjarnan á hinu svokallaða Interneti, grúskar í bókum og blöðum og fylgir hinum ýmsum grúbbum á Facebook með það að markmiði að finna eitthvað til að punkta hjá sér. Stundum verður þetta grúsk hans til að færsla fæðist hér á síðunni en oftar gerist mest lítið. Og þó ... á einum ónefndum stað, á öllu þessu flakki sínu, rak hann samt nýlega augun í merkilegt myndasafn sem samanstendur af litlum myndarömmum af blaðsíðu 34 úr Tinna bókinni Svaðilför í Surtsey. Í þessu myndasafni má sjá hvar Tinni kallar reiðilega nafn Tobba enda hefur hundspottið laumast til að fá sér svolítið í staupinu. Þarna hafa sem sagt verið týndar til nokkrar útgáfur af myndinni þar sem nafn Tobba kemur fyrir á 24 mismunandi og ólíkum tungumálum. Samkvæmt Wikipedia hafa Tinna bækurnar verið þýddar á yfir 70 tungumálum svo hér er alls ekki um tæmandi lista að ræða og glöggir lesendur átta sig þó auðvitað strax á því að inn í þetta safn vantar íslensku útgáfuna af myndarammanum.

Þetta fannst SVEPPAGREIFANUM auðvitað hin mesta hneisa og þótti því ekki tilhlýðilegt annað en að bæta aðeins úr þeim Tobba-skorti hið snarasta. Hann tók sér því það bessaleyfi að birta í þessari færslu hina upprunalegu íslensku útgáfu af þessum margbreytilega myndaramma.

Nokkru síðar rakst SVEPPAGREIFINN síðan á aðra sambærilega mynd sem að þessu sinni er af Kolbeini kafteini og kemur fyrir ofarlega á blaðsíðu 53 í bókinni um Fjársjóð Rögnvaldar rauða. Í þessari myndasultu allri sést kafteinninn öskra reiðilega á Skaftana, eins og hans er reyndar von og vísa, einnig á talsverðum fjölda ólíkra tungumála. Að þessu sinni er um að ræða 22 mismunandi tungumál og enn á ný hefur þeim aðila, sem safnaði þessum myndarömmum saman, láðst að hafa íslensku útgáfuna með. Þessi frammistaða er náttúrulega til háborinnar skammar.

Þessi íslensku-skortur er að sjálfsögðu fyrir neðan allar hellur (er ekki alltaf notaður sandur þar?) og SVEPPAGREIFINN birtir hér einnig myndarammann góða, á hinu ylhýra, til samanburðar.

Látum þetta gott heita í dag ...

27. júlí 2023

228. GAMALT AFMÆLISRIT UM LUKKU LÁKA

Margir íslenskir myndasöguunnendur muna eftir Viggó brandara sem birtist á blaðsíðu 32 í bókinni Viggó bregður á leik sem Iðunn gaf út á því herrans ári 1982. Í stuttu máli segir brandarinn frá því þegar starfsfólkið á ritstjórnarskrifstofu SVALS býr sig undir að halda upp á afmæli Roy Rogers þegar herra Seðlan stingur, eins og svo oft áður, nefinu óvænt inn. Herra Seðlan er auðvitað ekkert nema fýlan og neikvæðnin og tjáir Val að hann vilji ekki ræða við neinn annan, að þessu sinni, nema forstjóra fyrirtækisins. Í þessum brandara kemur einmitt fyrir mjög skemmtilegt móment, sem SVEPPAGREIFINN hreinlega elskar, en það er að sjálfsögðu andartakið, á næstsíðustu mynd brandarans, þegar herra Seðlan stendur augliti til auglitis við dapureygðan og undrandi hest! Þetta er auðvitað alveg hreint stórkostlegt augnablik.

En þessi frábæri Viggó brandari er þó ekki viðfangsefni færslu dagsins þótt hann tengist henni óneitanlega. Hér er nefnilega um að ræða framlag André Franquins til sérstaks tímamótablaðs, myndasögutímaritsins SPIROU, sem gefið var út í tilefni af 20 ára afmæli Lukku Láka. Þar með er ljóst að Jón Gunnarsson hefur farið heldur frjálslega með þýðingu sína á brandaranum á sínum tíma því auðvitað var starfsfólk SVALS ekki að halda upp á afmæli Roy Rogers. Skrítið að hann skuli hafa breytt þessu. Viggó hefur þarna klætt sig upp sem kúreka þó ekki hafi hann farið alla leið í litasamsetningu Láka en fyrir þá sem ekki vita samanstendur kúrekabúningur Lukku Láka alla jafna af litum belgíska þjóðfánans. En það er best að snúa sér aðeins að þessu merkilega afmælisriti SPIROU sem kom út fimmtudaginn 13. apríl árið 1967. Reyndar hafði Láki fyrst birst í tímaritinu í október árið 1946, og því voru nokkrir mánuðir liðnir frá 20 ára afmælinu, en af einhverri ástæðu hafði það dregist um hálft ár að fagna hinum merka áfanga. Þetta tiltekna afmælisblað, sem var tölublað númer 1513 og 108 blaðsíður að lengd, var því tileinkað kúrekanum knáa með innihaldi sem samanstóð auðvitað að mestu af efni er tengdist Lukku Láka.

SPIROU blaðið var því stútfullt af skemmtilegu Lukku Láka góðgæti, þennan fimmtudaginn, þar sem margir af listamönnum tímaritsins lögðu sitt á vogaskálarnar til að heiðra Láka og höfunda hans, þá Morris og Goscinny. Og það heppnaðist reyndar bara alveg prýðilega. Á meðal Lukku Láka efnis, fyrir utan þennan Viggó brandara hér að ofan, má til dæmis nefna stutta Boule og Bill sögu eftir Roba og aðra um unglingsstelpuna Sophie, sem einhverjir kannast eflaust við, eftir Jidéhem. Sophie varð með tímanum ein af ástsælustu persónum belgíska myndasöguheimsins og var raunar fyrsta kvenpersónan sem fékk aðalhlutverk í teiknimyndaseríu hjá SPIROU tímaritinu.

Þá skal geta þess að fyrsta sagan um Lukku Láka, La Mine d'or de Dick Digger sem við Íslendingar þekkjum auðvitað sem Gullnámuna, var birt í blaðinu í heild sinni í þessu afmælisriti. La Mine d'or de Dick Digger hafði þá verið ófáanleg í bókaformi í fjölda mörg ár og margir lesendur SPIROU tímaritsins voru því að sjá hana í fyrsta sinn. Þetta kom mörgum skemmtilega á óvart en sagan hafði birst fyrst í myndasögublaðinu þann 12. júní árið 1947 og henni lauk 27. nóvember sama ár.

En fleira áhugavert efni um Lukku Láka birtist í þessu afmælishefti. Flestir myndasögulesendur kannast við bókina Allt um Lukku Láka sem Fjölvaútgáfan gaf út árið 1978 en í þeirri bók er einmitt stuttur kafli sem nefnist, Þegar aðrir teikna Lukku Láka. Þar er greint frá einvígi þeirra Morris og Giraud (sem teiknaði myndasögurnar um Blástakk) og birt stutt Lukku Láka saga í spaghetti-vestra stíl eftir franska teiknarann Marcel Gottlieb. Í afmælisheftinu góða voru einmitt tvær slíkar stuttsögur eftir listamennina Salvé (Louis Salvérius) og Roba en þær birtir SVEPPAGREIFINN hér í heilu lagi og með íslenskri þýðingu. Fyrri sagan greinir frá þeirri óvenjulegu uppákomu að Lukku Láki verður sem snöggvast ástfanginn. En auðvitað kemur svo í ljós í enda sögunnar að það hefði bara verið draumur. Salvé, sá sem gerði þessa örstuttu Lukku Láka sögu, var mjög hæfileikaríkur listamaður sem lést aðeins 38 ára að aldri. Hann var svo til óþekktur þegar hann teiknaði söguna en skömmu eftir birtingu hennar hóf hann vinnu við nýja seríu í samstarfi við handritshöfundinn afkastamikla Raoul Cauvin. Þær nefndust Les Tuniques Bleues (Bláfrakkarnir) og urðu gríðarlega vinsælar en hann lést árið 1972 eftir aðeins fjórar sögur í bókaflokknum. Eftir hið sviplega fráfall hans tók Willy Lambil við keflinu og Salvé var þó alltaf í skugga eftirmanns síns þrátt fyrir að hafa lagt grunninn, ásamt Cauvin, að þessum skemmtilegu og vinsælu myndasögum. En hér er saga Salvé, um hinn "ástfangna" Lukku Láka, eftir handriti hins belgíska Maurice Tillieux sem kunnastur er fyrir sögurnar um Gil Jourdan og Tif og Tondu sem margir líklega þekkja.

Seinni myndasagan er eftir Roba, sem auðvitað er þekktastur fyrir sögurnar um tvíeykið Boule og Bill, en handrit hennar er einnig eftir Tillieux líkt og í hinni sögunni. Hér segir frá því hvernig afmælisbarnið Lukku Láki, sem að þessu sinni er óvenju þungur á brún, er ofsóttur af lúðalegum aðdáanda með gleraugu. Sá þráir ekkert heitar en að verða félagi Láka og fylgja honum í æsandi ævintýrum hans um villta vestrið. Lukku Láki er hins vegar ekki á þeim buxunum að gefa þessum drengstaula nein færi á því, enda hefur einmana kúreki ekkert við slíkan félagsskap að gera. Svo uppáþrengjandi er þessi aðdáandi aðalsöguhetjunnar að hann yrði að líkindum greindur sem eltihrellir ef hann dúkkaði einhvers staðar upp í raunveruleikanum. Glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir því að Roba hefur teiknað aðdáandann lúðalega sem Morris - skapara Lukku Láka. Þá vekur SVEPPAGREIFINN athygli á að Roba hefur teiknað plaggat af eftirlýstum Viggó viðutan (á veggnum aftan við útfarastjórann) á fyrri myndinni í annarri myndaröð á seinni blaðsíðunni. Roba var auðvitað náinn samstarfsmaður André Franquin, sem teiknaði Viggó, og vann til að mynda töluvert við hlið hans að sögunum um þá Sval og Val. En hér má því sjá söguna um kúrekann Ólukku Láka sem virðist aldrei hafa verið jafn þunglyndur og einmana á ferli sínum.


Aðeins fáeinum mánuðum eftir að Dupuis sendi frá sér þetta afmælisrit SPIROU yfirgáfu þeir Morris og Goscinny útgáfufyrirtækið og gengu til liðs við Dargaud útgáfuna frönsku og myndasögurnar um Lukku Láki hófu í kjölfarið að birtast í myndasögutímaritinu Pilote. Sögunum um Bláfrakkana, sem minnst er á hér að ofan, var þá einmitt ætlað að fylla upp í það tómarúm sem kúrekinn knái skyldi eftir sig hjá SPIROU tímaritinu. Lukku Láka sögurnar birtust hins vegar í Pilote tímaritinu fram til ársins 1973 og færðu sig þá yfir á sérstakt Lukku Láka blað, sem reyndar varð ekki langlíft, en eftir það birtust sögurnar á ýmsum ólíkum vettvöngum.

5. júlí 2023

227. SMÁ UPPFÆRSLA Í MYNDASÖGUHILLUNUM

Af ýmsum mismunandi ástæðum hefur SVEPPAGREIFINN ekki verið nægilega duglegur við að ferðast um heiminn, á undanförnum árum, til að bæta í myndasöguhillurnar sínar. Eins og einhverjir eflaust muna gerði Covid veiran nokkra skráveifu hjá mörgum en hún gerði það að verkum að utanlandsferðum landsmanna varð stórlega áfátt um skeið. Covid lokaði svo sem ekki alveg á bókakaup hans því SVEPPAGREIFINN freistaðist aðeins til að kaupa sér bækur á Netinu en það er samt ekki alveg jafn marktækt. Um þau kaup má aðeins lesa í færslu hér. Hann hefur þó verið nokkuð duglegur að versla það sem hefur verið að koma út hjá Froski útgáfu og hefur reyndar alltaf verið. En fyrr í sumar skrapp hann þó með börnunum sínum í nokkurra daga ferð á heimaslóðir móður þeirra í Sviss og eins og jafnan er á slíku flakki þá er eiginlega ekki hjá því komist að fjárfesta í nokkrum teiknimyndasögum. Ekki var þó ætlunin að standa í neinum stórinnkaupum að þessu sinni, enda fjölskyldan auðvitað í fyrirrúmi, en fáeinar bækur (og reyndar líka nokkur myndasögutímarit) fylgdu þó með í ferðatöskunum á leiðinni heim. Fyrirfram höfðu örfáar sérvaldar myndasögubækur verið settar efstar á óskalistann en eins og gerist reyndar stundum þá getur margt breyst frá upphaflegum áætlum. Ýmist næst ekki alltaf í ákveðnar bækur hverju sinni eða ekki gefst tækifæri til að nálgast þær á þeim stöðum sem upphaflega var stefnt að. Þannig verða víst sumar myndasögur að bíða betri tíma en í staðinn slæðast með fáeinar aðrar bækur sem verða á vegi SVEPPAGREIFANS. Flest kaup ferðalagsins voru einmitt í þeim dúr.

Í borginni Biel keypti hann Lukku Láka bókina Volle Fahrt voraus sem er nokkurs konar samansafn af bernskubrekum Láka og er eftir núverandi höfund seríunnar, Achdé (Hervé Darmento). Bókin er á þýsku og telst númer 98 af þýsku útgáfuröðinni en í Frakklandi tilheyrir hún bókaflokknum um Litla Lukku Láka (Kid Lucky) og telst þar ekki til hinnar opinberu Lukku Láka seríu. Bókin heitir þar Kid Lucky - Kid ou double og kom fyrst út árið 2019 en Achdé hefur þann háttinn á að teikna til skiptis, annað hver ár, bók úr upprunalegu seríunni annars vegar og svo hitt árið um Litla Láka.

Á sama stað rak SVEPPAGREIFINN augun í Sval og Val bókina Tulpen aus Istanbul (Túlipanar frá Istanbúl) eftir hinn hollenska Hanco Kolk en þessa sögu hefur GREIFINN haft augastað á síðan hún kom út árið 2017. Hér er reyndar um að ræða þýsku útgáfuna af bókinni (Tulpen uit Istanboel heitir hún á hollensku) og kom út í apríl á þessu ári hjá Carlsen comics en hefur aldrei komið út á frönsku. Upprunalega telst sagan til hinnar hollensku/flæmsku deildar Dupuis, þar sem Svalur kallast Robbedoes, en þær sögur hafa yfirleitt ekki verið að koma út í öðrum löndum - þar til núna. Carlsen hefur nefnilega nú riðið á vaðið og gefur bókina út í hinni þýsku Sval og Val hliðarseríu sinni, SPEZIAL. Sagan hefur yfirleitt fengið alveg þokkalega dóma en Dupuis útgáfan í Belgíu hefur þó verið frekar viðkvæm fyrir þessari hollensku útfærslu á þeim Sval og Val enda er almennt gert frekar lítið úr belgiskum uppruna þeirra í Robbedoes seríunni. Belgum finnst líka heldur lítið til hollenskrar myndasögugerðar koma enda er magn bókanna þar yfirleitt gæðunum yfirsterkari. Siggi og Vigga þykja til dæmis ekkert úrvalsefni eins og flestir eru líklega sammála um. En sagan Tulpen aus Istanbul gerist árið 1960 og segir frá því er Sveppagreifinn fær þá Sval og Val til að aðstoða sig við að hjálpa sovéskum kollega sínum að flýja vestur yfir járntjald og yfir til Hollands. Eins og sést á bókarkápunni er sagan ekki alveg í hefðbundnum Sval og Val stíl en hann minnir svolítið á La Grosse tête sem kemur úr hliðarseríunni Série Le Spirou de….

Skömmu síðar rak SVEPPAGREIFINN svo augun í þykkt myndasögurit, í söluturni á lestarstöðinni í Biel, sem ber einfaldlega heitið, Asterix MAX! Þarna er um að ræða tæplega 200 blaðsíðna doðrant sem tilvalið er fyrir þýskumælandi börn að taka með sér og dunda við á ferðalögum sumarsins. Það er að segja þá krakka sem ekki hafa enn misst vitið af snjallsímanotkun sinni! En ritið samanstendur af margskonar efni, fyrir börn á öllum aldri, sem tengist að mörgu leyti Ástríks bókunum eins og nafn þess (ASTERIX MAX!) gefur sterklega til kynna en efni þess er meira og minna allt tengt höfundunum Goscinny og Uderzo. Brot heftisins og efni er mjög sambærilegt við MEGA SPIROU ritin sem einhverjir kannast örugglega við og koma ennþá reglulega út. En í ASTERIX MAX! heftinu má meðal annars finna stuttar Ástríks sögur sem birtust í Pilote myndasögutímaritinu og víðar, en komu samt ekki endilega út í bókaformi, brot eða kafla úr nokkrum Ástríks bókum, stuttar fróðleiksgreinar, þrautir, uppskriftir (ekki þó með villigöltum!) og ýmislegt fleira.

Þó Ástríks þema þessa doðrants sé mest áberandi þá er þar einnig að finna 46 blaðsíðna myndasögu sem fjallar um ævintýri systkinanna Benjamin og Benjamine, 22ja blaðsíðna ævintýri um Luc Junior (ungan blaðamann sem ferðast um heiminn) og stutt ævintýri um hundinn Krílrík (í einhverjum Ástríksbókanna er hann líka kallaður Smáríkur) sem heitir Idefix und die Unbeugsamen - Ein Löwe mit heimweh (kannski þá sem Krílríkur og hinir ódrepandi - Ljón með heimþrá) og er 15 blaðsíður að lengd. Tvær fyrrnefndu sögurnar eru eftir þá Goscinny og Uderzo og koma úr löngu gleymdum hirslum þeirra en hundasagan er eftir þá Yves Coulon, Klaus Jöken og Philippe Fenech en þær sögur hafa víst verið að koma út í myndasöguformi á undanförnum árum. Ævintýri Benjamin og Benjamine voru eitt af verkefnum þeirra Uderzo og Goscinnys frá þeim tíma sem þeir voru að byrja að þróa samstarf sitt. Reyndar höfðu þessar sögupersónur verið skapaðar áður og birtust fyrst í franska unglingablaðinu Benjamin í lok árs 1952 en þeir Uderzo og Goscinny komu að þeim á árunum 1957 - '59. Alls unnu þeir saman að fjórum ævintýrum um Benjamin og Benjamine og þau voru fyrst gefin út í bókarformi árið 1991 en glæsilegt safnrit með öllum sögunum auk 30 blaðsíðna fróðleiks kom út hjá Albert René útgáfunni árið 2017. Það væri örugglega gaman að eignast það hefti. Ævintýri Luc Junior eru af svipuðum toga en voru gerð á árunum 1954 - '57 og það er bara á allra síðustu árum sem þau hafa verið grafin upp, lituð og gefin út í bókaformi. 

Seinna sama dag keypti SVEPPAGREIFINN í Bern Sval og Val bókina Der Wolfsmensch (Úlfsmaðurinn) eftir Belgana Charel Cambré og Marc Legendre en hún kemur einnig úr SPEZIAL seríunni þýsku. Líkt og Tulpen aus Istanbul kemur þessi saga líka úr hinum hollenska/flæmska Robbedoes ranni en hún heitir á frummálinu De Wolfman og er reyndar þriðja bókin af einhvers konar þríleik eftir þá Cambré og Legendre. SVEPPAGREIFINN á að vísu enn eftir að verða sér úti um fyrri bækurnar tvær, sem jafnframt hafa komið út í þýsku SPEZIAL seríunni, en það er þó auðvitað stefnan að nálgast þær einnig. Alls hefur Carlsen því sent frá sér fjórar bækur úr þessum hollensk/flæmska Robberdoes pakka og reikna má með að fleiri slíkar komi út á næstu árum.

Allar þessar fyrstu fjórar myndasögur voru á þýsku enda hefur SVEPPAGREIFINN lagt meiri áherslu á það tungumál þó bækur á frönsku slæðist reyndar oft með á þessum ferðalögum. Einn laugardaginn, þegar krakkarnir höfðu brugðið sér í sund og matarboð hjá vinafólki, fékk SVEPPAGREIFINN svolítið frjálsar hendur og notaði þá tækifærið til að rölta aðeins um Biel. Þar kíkti hann auðvitað á hinn hálfsmánaðalega flóamarkað sem staðsettur er nálægt aðal lestarstöðinni í borginni en þangað hefur hann oft ráfað þegar þannig stendur á. Reyndar var þar ekki úr miklu að moða, að þessu sinni, nema hvað hann rakst á góðan bunka af SPIROU og Le Journual De Tintin tímaritum sem hann borgaði aðeins 10 svissneska franka fyrir. En það munu vera um það bil rétt rúmlega 1500 kall fyrir allan pakkann ef miðað er við nýjustu verðbólgu- og gengisviðmiðanir. Þessi tímaritabunki hafði alls að geyma 18 blöð (13 af SPIROU og 5 af Tintin) sem gefin voru út á árunum 1978 til '79. Að sjálfsögðu var GREIFINN himinlifandi yfir fundinum enda fremur sjaldgæft að rekast á slíkar gersemar þó það gerist reyndar einstaka sinnum. Í það minnsta var gaman að fá þessa kærkomnu viðbót í belgíska myndasögutímaritsafn heimilisins.

Nokkru seinna rakst hann svo á gamalkunnan bás á götumarkaði, með notuðum myndasögum, í miðbænum og keypti þar fjórar áhugaverðar teiknimyndasögur sem allar voru á frönsku. Þar var um að ræða tvær bækur með Natöchu, eina með Bláfrökkunum (Les Tuniques Blues) og svo eina bók með frönsku flugkempunni Bob Morane en margir muna eftir drengjasögunum með Bob Moran sem bókaútgáfan Leiftur sendi frá sér í tugavís fyrir mörgum áratugum. Þetta er í fyrsta sinn sem GREIFINN grípur með sér Bob Morane bók en hann hefur þó oft fengið tækifæri til þess á þessu flandri sínu og hefur reyndar einhvers staðar aðeins minnst á þessar bækur á Hrakförum og heimskupörum áður. Bókin heitir L'oeil du Samouraï eða Auga Samúræjanna en sú saga mun ekki hafa komið út hjá Leiftursútgáfunni á sínum tíma. Einhverjir muna eflaust eftir hinum ógnar grimma Gula skugga úr þeim bókum en það illmenni kemur einmitt fyrir í nokkrum af þessum myndasöguútgáfum af Bob Morane. Fyrir átti SVEPPAGREIFINN hins vegar nokkrar bækur með flugfreyjunni Natöchu og einnig með hetjunum úr Bláfrakkasögunum en það er eiginlega hálfgert rannsóknarefni af hverju þær seríur komu hvorugar út í íslenskri þýðingu hér á árum áður. Svo vinsælar voru þessar sögur, bæði í Frakklandi og Belgíu sem og á Norðurlöndunum, að líklega var það bara tilviljun að þær myndasögur voru ekki valdar til útgáfu frekar en til dæmis bækurnar um Samma, Hin fjögur fræknu eða Frikka og Frosta. Íslensku bókaforlögin voru nokkuð sein að taka við sér og hefja útgáfu á myndasögum á sínum tíma en SVEPPAGREIFINN er fullviss um að ef útgáfa þessa tegunda barnabókmennta hefði hafist af fullum þunga nokkrum árum fyrr þá hefðu báðar þessar seríur einnig orðið fyrir valinu, hjá Fjölva eða Iðunni, fyrir íslensk börn og unglinga.

Aðeins bætti SVEPPAGREIFINN nú reyndar fleiru í staflann sinn í þessari lotu. Hann er vanur að gramsa í 5 franka rekkunum í verslunum stórmarkaðskeðjunnar Manor og engin breyting varð á því í þetta skiptið. Þarna greip hann með sér tvær Viggó safnbækur sem hafa að geyma þema sem tengjast ákveðnum bröndurum með kappanum. Síðuhafi á að minnsta kosti tvær bækur úr þessu safnflokki fyrir og þar sem hann er svo mikill Viggó aðdáandi sá hann sér ekki fært annað en að fjárfesta í þessum ódýru ritum. Þær fara líka svo ágætlega í myndasöguhillunum hans.

Þegar síðan heim í athvarf fjölskyldunnar var komið mættu börnin svo færandi hendi með þrjár Tinna bækur á þýsku sem vinafólkið hafði fært þeim vitandi að heimilisfaðirinn væri að safna Tinna á mörgum mismunandi tungumálum. Hér var um að ræða Reiseziel Mond (Eldflaugastöðin), König Ottokars Zepter (Veldissproti Ottókars) og Der Blaue Lotos (Blái lótusinn). Nú á hann því orðið tíu myndasögur með Tinna á þýsku. Ef einhver lesenda Hrakfara og heimskupara lumar á Tinna bókum á mjög framandi tungumálum (sem honum langar að gefa) þá er SVEPPAGREIFINN alveg til í að eignast þær. Þarna er hann auðvitað ekki að tala algengustu tungumálin í kringum okkur heldur austur evrópskum, asískum, suður amerískum eða jafnvel afrískum útgáfum.

Eins og SVEPPAGREIFINN gat um í byrjun náði hann nú ekki í þær helstu bækur sem verið höfðu á óskalistanum að þessu sinni. Enn vantar hann 7. bókina úr hinum frábæra Sval og Val safnflokki þar sem fjallað er um verk André Franquin og í framhaldinu af því er ætlunin að nálgast bækur Jean-Claude Fournier sem bera þá númerin 9 og 10 og koma í kjölfarið. Seinna er svo planið að eignast bækurnar með verkum þeirra Nic og Cauvin og svo koll af kolli. Sömuleiðis náði hann hvergi í þær tvær af þeim Sval og Val bókum Émile Bravo sem hann enn vantar (nr. 2 og 4.) og tilheyra einmitt hinni þýsku SPEZIAL seríu. Alls eru þessar bækur fjórar talsins (reyndar eru þær fimm í heildina með forsögunni SPIROU - Le Journal d'un ingénu (SVALUR - Dagbók hrekkleysingja)) og er framhaldssaga sem fjallar um baráttu Svals og Vals með andspyrnuhreyfingu Belga gegn þýsku Nasistunum í Síðari heimsstyrjöldinni. Þessar tvær bækur fann hann hvergi enda athafnasvið ferðalagsins nokkuð takmarkað af því svæði sem fjölskyldan dvaldi á, að þessu sinni, og var á hinu frönskumælandi málsvæði Sviss. En SVEPPAGREIFINN mælir eindregið með þessum bókum.

Reyndar rakst hann bæði á Les amis de Spirou og nýju, lituðu endurútgáfuna af Tinna sögunni Vindlar Faraós, sem báðar voru einnig á óskalistanum góða, en fannst þær af einhverri ástæðu of dýrar að þessu sinni. Aðalástæða var þó sennilega sú að hann var þá ekki enn búinn að finna Franquin safnbókina og fannst líklega of dýrt að fara að versla þær allar. Ætli SVEPPAGREIFINN kaupi þær þá ekki bara á Netinu í vetur og þá með tilheyrandi aukakostnaði og biðtíma. Annað eins hefur nú gerst á hans heimili. Teiknimyndasögukaup sumarsins þóttu því í rýrari kantinum að þessu sinni og eiginlega óttalegur samtíningur en alls bættust þó í myndasöguhillurnar 13 bækur og 18 blöð. Þótt uppskeran hafi verið þetta rýr var GREIFINN bara nokkuð ánægður með afraksturinn og þar koma gömlu myndasögutímaritin sérstaklega sterk inn. En stefnan er þó samt sem áður að gera svolítið betur næst - alla vega hvað magn varðar. Þótt bækurnar hafi ekki verið neitt sérstaklega margar þótti SVEPPAGREIFANUM samt alveg ástæða til að færa afraksturinn í annála á Hrakfara-síðunni sinni og skila af sér skýrslu um kaupin. Það hefur hann jafnan gert í kjölfar myndasögukaupa sinna erlendis og það er engin ástæða til að breyta út af venjunni þó honum hafi fundist uppskeran svolítið fátækleg. Reyndar hefur tilurð þeirra skrifa jafnan verið til komin vegna dauðra stunda í annars kærkomnum fríum hans og það getur jafnvel verið töluvert afslappandi að dunda sér við að skrifa þessar færslur í rólegheitum einhvers staðar á góðum stað og næði. Nákvæmlega þessi orð eru til að mynda skrifuð í lest mitt á milli borganna Bern og Biel.

Að lokum verður svo eiginlega einnig að geta þess að á sama tíma og SVEPPAGREIFINN spókaði sig um í svissneskum fjallaþorpum þá bárust honum fregnir af tveimur nýjum myndasögum á íslensku hjá Froski útgáfu. Þetta eru Sval og Val bækur sem tilheyra reyndar hinni frábæru hliðarbókaseríu Série Le Spirou de... en virðast eiga að fylgja aðal bókaflokknum hér á landi ef mark er takandi á númerunum sem þeim hefur verið úthlutað í íslensku útgáfuröðnni. Síðuhafi vissi reyndar að Jean Posocco hjá Froski hefði verið að velta fyrir sér útgáfu þessara aukabóka en er einstaklega ánægður með að hann lét verða af þeim. Nú bíður SVEPPAGREIFINN bara spenntur eftir að hinar frábæru bækur Émile Bravo, úr þessari sömu hliðarseríu, komi á endanum út á íslensku. En myndasögurnar Á valdi kakkalakkanna, eftir Yann og Schwartz, og Svalur í Sovétríkjunum, eftir Tarrin og Neinhard, voru að sjálfsögðu báðar komnar upp í hinar alræmdu myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS daginn eftir heimkomu hans og Froskur á mikið hrós skilið fyrir þessa lofsverðu en um leið erfiðu útgáfu sína á myndasögum á íslensku. Til þess að möguleiki sé á áframhaldandi útgáfu á þessum frábæru teiknimyndasögum þá er mikilvægt að allir myndasögulesendur, jafnt ungir sem aldnir, flykkist nú í Nexus og kaupi sér sem mest af þessum bókum öllum. Öðruvísi getur þetta framtak Jean hjá Froski ekki gengið upp en það er meira rekið af hugsjón frekar en af efnum. Sjálfur hefur SVEPPAGREIFINN reynt að hafa það fyrir reglu að versla sér eins og eina myndasögu frá útgáfunni í hverjum mánuði og hvetur aðra að taka upp sambærilegt eða svipað kerfi. Hver bók kostar um það bil það sama og bíóferð (með nauðsynlegu meðlæti fyrir einn) eða miðlungsstór Dominos pizza án goss eða brauðstanga. Menn leyfa sér svo sem annað eins. Allir út að versla sér bækur frá Froski - þær kaupa sig ekki sjálfar!

13. júní 2023

226. TEIKNIMYNDIRNAR UM TINNA

Tinna bækurnar hafa löngun verið SVEPPAGREIFANUM hugleiknar, líkt og flestar af þeim myndasögum sem hann las sem barn, og í seinni tíð hefur hann gert sér far um að nálgast sem mest af því sem komið hefur út hér á landi um kappann. Það hefur svo sem gengið alveg ágætlega. Stærstur hluti bókanna eru í höfn, fyrir utan örfáar af allra torsóttustu gripunum, og flestar af þeim eru í vel ásættanlegu ástandi. Þá hefur síðuhafi einnig verið duglegur í seinni tíð að viða að sér Tinna bókum á sem flestum og ólíkustu tungumálum og á orðið hið ágætasta safn í þeim flokki. Enn á ný skal það þó áréttað að SVEPPAGREIFINN er alls ekki safnari!

En það eru ekki eingöngu bækurnar sem hann hefur lagt sig fram um að nálgast. Eins og flestir Tinna aðdáendur á Íslandi vita þá gaf myndbandsútgáfan Bergvík út fjölda teiknimynda um blaðamanninn knáa, fyrst í VHS formi á myndbandsspólum en seinna í DVD formi á þartilgerðum geisladiskum. Í fyrrnefndu teiknimyndunum var það Eggert Þorleifsson sem leiklas inn á þættina og gerði það með einstökum hætti. Rödd Tinna sjálfs hljómar til dæmis einhvern veginn mjög hjárænulega í meðförum Eggerts og það er alveg stórkostlegt. SVEPPAGREIFINN átti einhverjar af þessum gömlu VHS spólum á sínum tíma en þegar DVD formið kom til sögunnar skipti hann gömlu spólunum út fyrir diskana. Ef minnið bregst ekki fóru þær þá allar í Góða hirðirinn. Þó spólurnar hafi verið orðnar löngu úreltar og erfiðar viðureignar sér hann samt svolítið eftir því að hafa losað sig við þær söfnunargildisins vegna. Í fyrstu var SVEPPAGREIFANUM ekki alveg ljóst hversu margar af þessum Tinna teiknimyndaþáttum hefðu komið út á VHS formi á sínum tíma en líklegt er að þær hafi verið tíu talsins. Svo virðist sem fyrstu sex spólurnar hafi fengist í gegnum sérstakan klúbb (Íslenski myndbandsklúbburinn) til að byrja með. Þessar sex myndbandsspólur voru gefnar út árið 1988 og árið 1989 bættust við að minnsta kosti fjórar í viðbót á vegum Myndbandasafnsins en seinna fengust þær einnig keyptar í lausasölu. Hugsanlega voru þær þó fleiri. Þær spólur sem SVEPPAGREIFINN veit með vissu að komu út á sínum tíma voru eftirfarandi:

  • Svaðilför í Surtsey - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Krabbinn með gylltu klærnar - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Dularfulla stjarnan - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Leyndardómur Einhyrningsins - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Fjársjóður Rögnvaldar rauða - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Sjö kraftmiklar kristallskúlur - (Myndbandasafnið - 1989)
  • Fangarnir í Sólhofinu - (Myndbandasafnið - 1989)
  • Í myrkum mánafjöllum - (Íslenski myndbandsklúbburinn - 1988)
  • Leynivopnið - (Myndbandasafnið - 1989)
  • Tinni og Hákarlavatnið - (Myndbandasafnið - 1989)

Það má líka endilega benda á skemmtilega villu sem kemur fyrir á myndbandshulstrunum sem tilheyra framhaldssögunni um Leyndardóm Einhyrningsins og Fjársjóð Rögnvaldar rauða. Nöfnum þáttanna hefur nefnilega verið víxlað en það eitt gefur söfnunargildi spóluhulstranna, án nokkurs vafa, aukið vægi þegar fram líða stundir. Því má reikna með að allir sannir Tinna safnarar, sem ekki hafa enn eignast þessa gripi, hugsi sér gott til glóðarinnar og fari að leita uppi þessar gömlu spólur til að fullkomna enn betur söfnin sín. Villurnar má einmitt sjá á hulstrunum hér fyrir neðan.

Nú skal reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN hafði aldrei horft á Tinna þættina með íslenska talinu að neinu marki. Hann var kominn nokkuð vel á þrítugsaldurinn þegar Ríkissjónvarpið hóf sýningar á Tinna þáttum (árið 1993), þar sem þeir Þorsteinn Backmann og Felix Bergsson skiptu með sér leikröddunum, en á þeim tíma hafði GREIFINN tekið sér nokkurra ára pásu frá þessu myndasögutengda áhugamáli sínu. Tinna þættirnir í Ríkissjónvarpinu entust í nokkra mánuði en ekki minnist SVEPPAGREIFINN samt þess að hafa séð einn þátt af þessari 39 þátta seríu á RÚV. Líklega hefur hann þá talið sig fyrir löngu vera alveg lausan við myndasögubakteríuna en sú þaulsetna nostalgíu-veira náði honum þó aftur fáeinum árum seinna og ekki hefur hann losnað við hana síðan. Þótt teiknimyndirnar hafi ekki endilega vera fremstar í forgangsröð þessa áhugamáls síns minnist hann þess að hafa horft á þættina um tunglferð Tinna á einhverri franskri sjónvarpsstöð á hótelherbergi í Genf fyrir fáeinum árum. Það fannst honum reyndar nokkuð viðeigandi því Hótel Cornavin (úr Tinnabókinni Leynivopninu) var í aðeins nokkurra tuga metra fjarlægð og andi Tinna bókanna sveif þar augljóslega yfir vötnum (væntanlega Genfar-vatni þá).

En það var síðan árið 2006 sem Bergvík hóf að gefa Tinna þættina út á DVD formi sem þá var búið að ryðja VHS spólunum út af markaðnum. SVEPPAGREIFINN stóð alltaf í þeirri meiningu að um væru að ræða sömu þættina og þá sem Eggert Þorleifsson hafði leiklesið inn á VHS hálfum öðrum áratug áður. Þeir hefðu aðeins verið talsettir upp á nýtt og fleiri sögum bætt inn í seríuna. En svo var þó alls ekki. Hér var um að ræða tiltölulega nýja seríu sem framleidd hafði verið á árunum 1991-92 og voru einmitt sömu þættirnir og sýndir höfðu verið á RÚV þrettán árum áður með þeim Þorsteini og Felix. Sú sería var framleidd af Ellipse Program í Frakklandi og Nelvana Limited í Kanada og hafði einmitt að geyma samtals þessa 39 þætti, sem sýndir höfðu verið á RÚV, en hver diskur innihélt ýmist einn eða tvo þætti eftir umfangi hverrar sögu. Alls voru 21 saga framleidd í þessari yngri útgáfu en aðeins Tinni í Sovétríkjunum og Tinni í Kongó voru aldrei búnar til. Svo virðist sem allar þær teiknimyndir hafi komið út hjá Bergvík en í safni SVEPPAGREIFANS má hins vegar finna 23 diska. Þegar hann fór að skoða betur þá diska komst hann að raun um að suma þættina mátti finna með tveimur mismunandi útlítandi hulstrum. Þannig uppgötvaði hann að gömlu þættina, sem Eggert Þorleifs hafði leiklesið inn á VHS spólurnar, mátti einnig finna í DVD formi. Bergvík hafði því endurútgefið þá þætti samhliða hinum en þær útgáfur má þekkja af gulum kili, hulstranna utan af þeim, auk þess sem grár rammi er utan um forsíðumynd þeirra. Samtals eru því til 30 diskar með Tinna sem komið höfðu út hjá Bergvík en auk gömlu þáttanna 8 má þar einnig finna Tinna og Hákarlavatnið. Og líkt og með VHS útgáfuna á eldri þáttunum hefur nöfnum Leyndardóms Einhyrningsins og Fjársjóð Rögnvaldar rauða verið víxlað en á þeim yngri eru titlarnir hins vegar réttir. SVEPPAGREIFINN ráfar eitthvað í að þessir diskar hafi jafnvel fylgt með frægum pylsupökkum frá Sláturfélagi Suðurlands á sínum tíma? Eða kannski misminnir hann.

En ástæðu þess að SVEPPAGREIFINN ákvað að skrifa færslu um þessar gömlu Tinna teiknimyndir má rekja til þess að undanfarnar vikur hefur níu ára dóttir hans verið að dunda sér við að lesa Tinna bækur gamla mannsins og sýnt auk þess einnig áhuga á að horfa á teiknimyndirnar í gömlum DVD spilara heimilisins. Tinna diskunum hefur þannig verið skellt nokkuð reglulega í spilarann að undanförnu og síðuhafi hefur því ekki komist hjá því að gjóa augunum stöku sinnum á skjáinn til að fylgjast með spennandi atburðarásinni. Um leið hefur hann auðvitað notað tækifærið til að fræða dótturina svolítið, með bráðnauðsynlegum og föðurlegum upplýsingum, um þessar sígildu og um leið merkilegu myndasögur. Það verður að viðurkennast að sú litla er furðulega móttækileg fyrir þeirri upplýsingagjöf, þannig að SVEPPAGREIFINN er augljóslega að gera eitthvað rétt í uppeldinu. Það sem hefur þó helst komið honum á óvart, með þessu öðru auga glápi, er hve sumir þættirnir sem hann hefur rekist á, úr eldri seríunni, eru langt frá upprunalegu sögunum. Sumar þeirra eru nánast óþekkjanlegir. Hann tók eftir því að söguþráðurinn til dæmis bæði í Leynivopninu og Dularfullu stjörnunni eru allt annars eðlis en í bókunum sjálfum. Er einhver sem kannast til dæmis við þá atburðarás sem kemur fyrir í sýnishorninu hér að neðan?

Í þessum þætti af Dularfullu stjörnunni er það prófessor Vandráður en ekki prófessor Viðutan sem fer með þeim Tinna og Kolbeini í loftsteinaleiðangurinn á norðurslóðir auk þess sem Skaftarnir eru einnig með í för. Skip leiðangursins heitir Sirius (sem kemur þá úr sögunni um Fjársjóð Rögnvaldar rauða) en ekki Aurora og kafbátur reynir að sökkva því með tundurskeytum. Vandráður stekkur í fallhlíf úr flugvél (með Tobba í fanginu) niður á loftsteininn á meðan Tinni stendur í stórræðum á öðrum vettvangi og Kolbeinn kafteinn bjargar þeim öllum að endingu úr annarri flugvél. Heildarmyndin af sögunni heldur sér reyndar að mestu leyti en er krydduð með margvíslegum hætti. Í eldri þáttunum minna stíll og hreyfingar sögupersónanna um margt á þann takt sem fylgdi teiknimyndunum um Bleika pardusinn, sem margir muna eftir úr Ríkissjónvarpinu, og voru gerðir á svipuðum tíma. Hvað varðar fleiri dæmi um frjálslegar atburðarásir í þessum Tinna þáttum má einnig nefna að í Í Myrkum mánafjöllum (sem hefur reyndar að geyma báðr sögurnar úr tunglferðabókunum) lendir Tobbi í þeim óheppilegu aðstæðum að lokast óvart inni í tilraunaeldflaug, sem fer síðan með hann til tunglsins, en Tinni og félagar hans ákveða í skyndi að fara einnig til tunglsins að bjarga honum! Það er ansi ólíkt upprunalegu sögunni.

Þessir eldri Tinna þættir voru framleiddir á árunum 1957 til 1964 af Belvision Studios sem var stofnað af Raymond Leblanc og tveimur félögum hans. Leblanc var einmitt einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Tinna tímaritsins eins og margir líklega vita. Alls voru þessir þættir átta talsins og þeir voru því allir hluti af VHS útgáfu Bergvíkur sem Eggert Þorleifsson las inn á á sínum tíma. Bergvík notaði reyndar tækifærið og gaf einnig út bíómyndina Tinna og Hákarlavatnið með þessum þáttum, þar sem Raymond Leblanc var sjálfur leikstjóri, en um þá mynd fjallaði SVEPPAGREIFINN um fyrir ekki svo löngu og má lesa hér. En þar að auki fylgdi með, þessari VHS útgáfu Bergvíkur, kvikmyndin Tintin et le temple du soleil (Fangarnir í Sólhofinu) sem Belvision framleiddi árið 1969 og var leikstýrð af Eddie Lateste. Þá mynd skipti Bergvík reyndar í tvennt og gaf út á tveimur spólum sem Sjö kraftmiklar kristallskúlur og Fangarnir í Sólhofinu. En þegar þessir Tinna þættir (8 stk) voru sýndir vikulega í sjónvarpi í Belgíu á sínum tíma voru þeir klipptir niður í 5 mínútna langa framhaldsþætti og urðu þannig að 104 þáttum. Þar var lopinn teygður allsvakalega þar sem þeir hófust á tveggja mínútna upprifjun úr þættinum á undan og í kjölfarið komu síðan heilar þrjár mínútur af nýju efni. Það er ólíklegt að seinni tíma áhorfendur hefðu látið bjóða sér upp á slíkt fyrirkomulag. Í síðari útfærslum höfðu þættirnir verið klipptir saman svo þeir mynda eðlilega heild eins og við þekkjum af fjölföldun Bergvíkur.

Belvision hóf starfsemi sína reyndar árið 1954 og fyrsta tilraun fyrirtækisins til að festa Tinna á filmu í teiknimyndaformi fólst í tveimur svart/hvítum þáttum sem framleiddir voru á 16 millimetra filmur. Þeir þættir voru byggðir á sögunum um Veldisprota Ottókars og Skurðgoðinu með skarð í eyra og er ekki að finna í því safni teiknimyndaþátta á VHS sem Bergvík gaf út á sínum tíma. Hergé sjálfur kom persónulega ekkert að þessum þáttagerðum, enda þá önnum kafinn við söguna Kolafarminn (Coke en stock), og óskaði því eftir að Bob de Moor hefði yfirumsjón með þeim. Þessir tveir svart/hvítu þættir þóttu mjög frumstæðir. Þeir voru í einhvers konar hreyfimyndastíl og því engan veginn sambærilegar við það efni sem best kom frá Ameríku á sama tíma. Þættirnir voru viðvaningslega gerðir og metnaðarlausir og því þótti ekki réttlætanlegt að halda áfram þessari teiknimyndagerð í sama formi. Reyndar skal það tekið fram að þessa þætti er almennt mjög erfitt að nálgast og svo vandfundnir eru þeir að þá er til dæmis hvergi að finna í heild sinni á Netinu. 

 

Hér að neðan má sjá dæmi um frumstæða vinnu þessara svart/hvítu þátta. Á þessum tveimur myndarömmum sést hvernig einungis framhandleggir Tinna færast en að öðru leyti er enginn annar munur á myndunum. Þessi tilfærsla á höndunum gerir það að verkum að önnur hendi hans skyggir aðeins á öxl Múskars XII konungs Sýldavíu þrátt fyrir að þeir standi hvor á móti öðrum. 

Eftir nokkra uppstokkun á framleiðslunni litu hinir frönskumælandi sjónvarpsáhorfendur því augum nýja þætti sem þeir voru heldur sáttari með þó ekki yrðu þeir þó fleiri en átta talsins í það skiptið eins og áður sagði. Þessir þættir voru heldur nútímalegri, enda í lit og festir á 36 millimetra filmu, en auk þess voru þeir að einhverju leyti aðlagaðir fyrir amerískan markað. Almennt séð er heimili Tinna til dæmis staðsett í New York í þáttunum en ekki Brussel. Í þessum átta þáttum drekkur Kolbeinn kafteinn kaffi og lætur Viskíið alveg eiga sig en reykir þó pípu. Prófessor Vandráður heyrir eðlilega, Skaftarnir eru bræður og hafa nákvæmlega eins yfirvaraskegg og í sumum þáttanna er Tobbi með rauða hálsól. Hergé hafði sjálfur ekki komið beint að framleiðslu þessa þátta og varð eðlilega mjög ósáttur þegar hann uppgötvaði hve langt þeir voru komnir frá upprunalegu sögunum hans. Yngri þættirnir, sem framleiddir voru á árunum 1991-92, voru hins vegar alveg í anda upprunalegu sagnanna og almennt þykja þeir þættir hafa heppnast nokkuð vel. Að endingu má geta þess að Hergé sjálfur kemur fyrir og er teiknaður inn í alla þættina 21 í jafn mörgum mismunandi hlutverkum.

24. maí 2023

225. EITT OG ANNAÐ UM STEINA STERKA

 
Steina sterka þekkja auðvitað allir af þeirri kynslóð sem lásu teiknimyndasögur, hér á landi, á áratugunum fyrir síðustu aldamót. Þessum bókum voru gerð svolítil skil í færslu hér á Hrakförum og heimskupörum, fyrir nokkrum árum, en alls komu út sex sögur á íslensku með kappanum á sínum tíma. Síðast kom út Steina sterka bók hérlendis árið 1983 en ólíklegt er að fleiri myndasögur með honum eigi eftir að líta hér dagsins ljós - í það minnsta alveg á næstunni. Þetta voru einu teiknimyndasögurnar sem bókaútgáfan Setberg gaf út og þær voru eiginlega þekktastar fyrir það hversu léleg límingin var á bókunum. Með tímanum losnuðu blaðsíðurnar úr og líklega eru fá eintök eftir af þessum bókum sem enn eru sæmilega heil. Myndasögurnar um Steina sterka þóttu reyndar ekkert sérlega merkilegar í samanburði við margar af þeim teiknimyndasögum sem gefnar voru út á fransk/belgíska málsvæðinu. En þó var ekki hjá því komist að taka eftir vinsældum þeirra - sérstaklega á meðal ungra stelpna sem yfirleitt voru þó ekki endilega markhópur myndasögutímaritsins SPIROU sem sögurnar birtust í. En það var belgíski listamaðurinn Pierre Culliford, eða Peyo eins og hann kallaði sig, sem átti veg og vanda að þessum sögum en eftir að hann lést tók sonur hans Thierry við keflinu. Alls komu út fimmtán myndasögur með Steina sterka (Benoît Brisefer) á frummálinu og þar af voru átta þeirra eftir Peyo en nýjasta sagan er frá árinu 2015. Þær sex bækur sem komu út á íslensku voru allar eftir hann.
 
 
Peyo teiknaði einnig sögurnar um Hinrik og Hagbarð og Strumpana og SVEPPAGREIFINN stóð lengi í þeirri meiningu að hann hefði alfarið teiknað Steina sterka bækurnar sjálfur en svo var þó alls ekki. Þó Peyo hefði verið skrifaður fyrir sögunum þá kom hann bara að teiknun fjögurra þeirra og af þeim teiknaði hann aðeins söguna Steini sterki vinnur 12 afrek (Les Douze travaux de Benoît Brisefer) einn. Listamaðurinn Will (Willy Maltaite) vann með honum að Rauðu leigubílunum (Les Taxis rouges) og Grímhildi góðu (Madame Adolphine) en François Walthéry aðstoðaði hann við Steina sterka og Bjössa frænda (Tonton Placide). Walthéry tók síðan við keflinu og teiknaði alveg næstu tvær sögur, Sirkusævintýrið (Le Cirque Bodoni) og Grímhildi grimmu (Lady d'Olphine), en Peyo sá þó að mestu um handritsgerð þeirra. Einhverjir kannast eflaust við François Walthéry en hann vann einnig töluvert með Peyo, að Strumpunum og sögunum um Hinrik og Hagbarð, en þekktastur er hann auðvitað fyrir hinar geysivinsælu myndasögur um flugfreyjuna Natöchu. Í þeim Steina sterka bókum sem hann kom að má glögglega sjá hversu áberandi hans stíll er. Það er til dæmis ótrúlega mikill munur á teikningunum í bókunum um Grímhildi góðu (Peyo/Will) og Grímhildi grimmu (Walthéry). Stíll Walthérys er áberandi kraftmikill og þegar grannt er skoðað eru Natöchu áhrifin augljós.
 
 
Þótt nokkuð margir hafi komið að seríunni átti Peyo átti hana samt alveg sjálfur og skapaði auðvitað aðalpersónuna en ástæða þess að hann hætti að teikna sögurnar var einfaldlega tímaskortur. Á þessum árum höfðu vinsældir Strumpanna aukist svo mikið að önnur verkefni sátu alveg á hakanum og þeir bláu áttu því hug hans allan. Peyo þótti aldrei á meðal þeirra bestu, og hann vissi það vel sjálfur, en með Strumpasögunum fékk hann tækifæri til að skapa sér vinsælda á meðal yngstu lesendanna. Sömu sögu má reyndar alveg líka segja um Steina sterka en sögurnar um hann urðu þó aldrei jafn vinsælar og Strumpabækurnar. Steina sterka sögurnar urðu því að hálfgerðu samvinnuverkefni, sem nokkrir aðilar komu að, en voru unnin á vinnustofu Peyo og birtust svo í myndasögutímaritinu SPIROU. Margir af vinum og kunningjum Peyo heimsóttu hann reglulega á vinnustofuna og listamennirnir Jidéhem, Jean Roba og Franquin áttu til dæmis margar hugmyndir sem síðan birtust í sögunum - jafnt að bröndurum sem og söguþræði þeirra. 
 
 
Sögurnar um Steina gerast snemma á sjöunda áratug 20 aldarinnar og eru fastar innan þess tímaramma þannig að allt ytra útlit þeirra, tækni og tíðarandi litast af því. Litli franski bærinn sem Steini sterki býr í heitir Vivejoie-la-Grande en í íslensku útgáfunum nefnist hann Stóra Sólvík. Aldur Steina er nokkuð ljós, þó það komi aldrei beint fram í sögunum, en í bókinni Steini sterki og Bjössi frændi má sjá hvar hann fær verðlaun í skólanum fyrir leikfimi og hegðun og þar er hann sagður í 3. bekk. Af því má auðvitað ráða að Steini sé átta eða níu ára gamall og líklega telst það vera aldur hans gegnum allar sögurnar. En annars er Steini sjálfur mjög undarlegt fyrirbæri. Fyrst og fremst koma þar upp í hugann ofurhæfileikar hans þar sem hann er auðvitað óstjórnlega sterkur, getur stokkið gríðarlega hátt og er mjög fljótur að hlaupa. Það er því ljóst að Steini er töluvert yfir meðallagi hæfileikaríkur og sem dæmi um það má nefna að venjulegar myndasöguhetjur á borð við Tinna eða Lukku Láka virðast vera hreinir aumingjar við hlið hans. Auk þess er það athyglisvert að hann missir alla þessa krafta sína þegar hann kvefast. Og það einkennilegasta við þetta allt er að þrátt fyrir að vera hreystin uppmáluð, holdgervingur heilbrigðs lífsstíls, ávallt vel klæddur og með trefil um hálsinn, þá kvefast hann samt í hverri einustu bók!
 
 
Hinir óvenjulegu hæfileikar Steina sterka, eða ástæða þeirra, hafa þó aldrei verið útskýrðir á neinn hátt í sögunum um hann. Ýmsar kenningar eru þó á lofti á meðal Steina sterka sérfræðinga (sem SVEPPAGREIFINN getur nú varla ímyndað sér að sé neitt sérstaklega stór hópur) en einhverjir þeirra telja hann vera stökkbreyttan og líklega sé hann því sá eini sinnar tegundar í heiminum. Önnur athyglisverð hugmynd snýr að því að Steini sé afleiðing leynilegra tilrauna á rannsóknarstofu og þetta munaðarlausa barn hafi því, af einhverjum illskeyttum vísindamönnum, þótt heppilegt til slíkra prófana. Reyndar skal það tekið fram að í einni af seinni bókunum Le Secret d'Églantine, eftir Thierry son Peyos, kemur fyrir lítil stelpa sem hefur yfir að ráða mjög svo sambærilegum eiginleikum en nýtir þá reyndar á öllu neikvæðari hátt. Hún heitir Églantine en hæfileika hennar má rekja til þess að hún innbyrti óvart eiturblöndu á verkstæði föður síns. 

 
Allt er þetta að sjálfsögðu mjög óvenjulegt fyrir Steina sterka en þessir hæfileikar hans virðast þó nánast eðlilegir í samanburði við allar uppeldisaðstæður hans og heimilislíf. Steini býr nefnilega, að því er virðist, aleinn í stórri íbúð eða húsi og aldrei hafa foreldrar hans eða forráðamenn komið fyrir í neinni sagnanna eða nokkuð verið á þá minnst. Engar vísbendingar hafa komið fram, í neinum af bókunum, að þau séu yfirhöfuð til. Þessi níu ára drengur virðist því búa einn og vera algjörlega sjálf síns herra. Það er nokkuð alvarlegt mál - meira að segja upp úr árinu 1960. Það skal reyndar tekið fram að í einni bókanna, Sirkusævintýrinu, tjáir sirkusstjórinn Ingólfur blaðamönnum, meðal annars það, að pabbi Steina hafi verið Tyrki og að Steini sjálfur sé elstur tíu systkina og að hann hafi fundist á meðal hafnarverkamanna í Antwerpen í Belgíu. Flestir hafa þó túlkað það svo að hér sé um auglýsingarbrellu Ingólfs fyrir sirkusinn að ræða.

 
Þessi forráðamannaskortur Steina sterka er sérstaklega alvarlegur í ljósi þess að hann er löngum stundum í slagtogi með annars vegar; gömlum leigubílstjóra (Marteini) og hins vegar föðurbróðir sínum (Bjössa frænda) sem starfar fyrir leyniþjónustuna. Félagsskapur Steina við þessa tvo fullorðnu einstaklinga myndi líklega í flestum tilfellum teljast nægilega grunsamlegur til að kalla á rannsókn viðeigandi yfirvalda. En í bókunum um Steina sterka er engin athugasemd gerð við þetta óeðlilega samneyti. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ættu barnaverndaryfirvöld að vera með puttana í málinu og Steini hefði fyrir löngu átt að vera kominn undir umsjón þess konar aðila. Þó ekki væri nema bara vegna hins tilfinnanlega skort á foreldrum. Því er þó fjarri lagi. Það virðist enginn á nokkurn hátt vera að skipta sér af eða velta fyrir sér aðstæðum Steina. Í sögunni Le Fétiche frá árinu 1978, sem var síðasta sagan um Steina sterka sem Peyo kom sjálfur að, kemur reyndar fram að kona ein (frú Minou) sjái um húsið heima hjá honum og útbúi fyrir hann morgunmat. Frú Minou þessi býr þó í öðrum hluta bæjarins og í sögunni koma engar frekari upplýsingar fram um skyldleika þeirra eða önnur tengsl. Þess má geta í framhjáhlaupi að sú bók þykir afar slök og það þarf ekki að taka það fram að sagan hefur ekki komið út á íslensku.
 
 
Svo er nú best að vaða úr einu í annað. Það er víst nefnilega ekki hjá því komist að minnast einnig aðeins á að herra Seðlan (úr Viggó bókunum) kemur fyrir í sögunni Steini sterki og Bjössi frændi en ekki er ólíklegt að ástæðu þess inngrips megi rekja til einnar af heimsóknum André Franquins á vinnustofu Peyos sem minnst er á hér svolítið ofar í færslunni. Myndaramma þennan þekkja eflaust flestir íslenskir myndasögulesendur, enda hugmyndin bráðskemmtileg, en hann kemur einmitt einnig fyrir í færslu sem SVEPPAGREIFINN skrifaði hér á Hrakförum og heimskupörum um herra Seðlan fyrir allnokkrum árum síðan. Að sjálfsögðu snýst brandarinn um samningana hans.

 
En það eru líklega færri sem vita af tilvist Kolbeins kafteins, úr Tinna bókunum, í einni af sögunum um Steina sterka. Ef vel er að gáð má sjá kafteininum blótgjarna nefnilega bregða fyrir, í hálfgerðri mýflugumynd, á blaðsíðu 18 í bókinni L'île de la désunion eftir Thierry Culliford.
 
 
Og að lokum er það ekki úr vegi að enda þetta einnig á Tinna nótunum. Í sögunni Steini sterki vinnur 12 afrek er sá stutti á leiðinni með lest til Dúría Nagúla í Súala Kúmpúr, ásamt Marteini gamla, þegar illmennin aftengja fremsta vagninn sem þeir félagar ferðast í. Lestarstjórunum er hent frá borði og eimreiðin er kynt í botn þannig að lestin æðir stjórnlaus áfram með þá Steina og Martein eina um borð. Hér kemur auðvitað upp í hugann svipað atvik úr Tinna bókinni Fangarnir í Sólhofinu, þar sem þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn eru á þvælingi um Perú. Þar grípa þeir til þess ráðs að stökkva af lestinni og af viðbrögðum Steina hér fyrir neðan má ráða að hann hafi lesið þá bók.
 
 
Það er alla vega ljóst að þýðandi sögunnar, Vilborg Sigurðardóttir, hafi ekkert verið að láta leiða sig í þá freistni að reyna að forðast að vekja athygli á myndasögum keppinauta sinna hjá Fjölva. SVEPPAGREIFINN er nokkurn veginn viss um að kollegi hennar hjá Fjölva, Þorsteinn Thorarensen, hefði farið aðra leið og tekið sér gott skáldaleyfi til að forðast slíkan árekstur.