23. desember 2022

219. JÓLAKVEÐJA SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN óskar lesendum Hrakfara og heimskupara gleðilegrar hátíðar með þökkum fyrir innlit og athugasemdir ársins sem senn er á enda. Það er Morris (Maurice de Bevere), teiknari Lukku Láka bókanna, sem á heiðurinn af þessu stórglæsilega listaverki sem fylgir færslu dagsins en það birtist í jólablaði SPIROU tímaritsins þann 14. desember árið 1967.

GLEÐILEG JÓL!

9. desember 2022

218. SVOLÍTIL JÓLAFÆRSLA

Það hefur farið frekar hljóðlega um SVEPPAGREIFANN á bloggsíðu sinni síðustu vikurnar, vegna tímaskorts og annarra anna, og líklegt er að svo verði áfram. Hann er þó ekki reiðubúinn að gefa það út að vera alveg hættur þeirri vitleysu að skrifa um teiknimyndasögur en vissulega eiga færslurnar eftir að verða óreglulegri og stopulli.

En undanfarin ár hafa verið svolítið öðruvísi hjá SVEPPAGREIFANUM líkt og hjá svo mörgum öðrum. Ein af ástæðum þess er að stórum hluta hið undarlega og fordæmalausa Covid tímabil sem tröllreið öllu hér um nokkurt skeið og heimsbyggðin er reyndar enn að súpa svolítið seiðið af. Þessi hvimleiði vágestur, sem síðuhafi sjálfur hefur reyndar ekki enn komist í náin kynni við, varð auðvitað þess valdandi að jarðarbúar lögðu um tíma flestir af þeim umhverfisspillandi ávana að ferðast til annarra landa. Þeir skyndilega breyttu lífshættir höfðu svo sem engin afgerandi áhrif á líf SVEPPAGREIFANS, enda um nóg annað að hugsa þá mánuðina, en þeir komu þó í veg fyrir að hann fengi tækifæri til að ráfa um erlenda flóamarkaði og myndasöguverslanir og dunda sér við að skoða og kaupa áhugaverðar teiknimyndasögur í rólegheitunum. En eins og svo margir tóku í staðinn upp á, í heimsfaraldrinum, fór hann því að panta sér slíkar gersemar í gegnum hið stórsniðuga og afar hentuga Internet sem allir eru að tala um. Og það var bara nokkuð gaman.

Þótt ekki hafi safnast nein ósköp í viðbót í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS með þessu móti þá verður samt að segjast að hann pantaði sér margt áhugavert og gerir reyndar enn. Langoftast var þarna um að ræða venjulegar teiknimyndasögur með efni sem hann þekkir nokkuð vel til um en inn á milli freistaðist hann einnig til að versla sér stærri og áhugaverðar bækur. Ein þeirra bóka tengist jú jólunum sem eru ekkert svo langt undan eins og flestir eru líklega farnir að átta sig á. Þessi bók, sem er á frönsku, nefnist Contes de Noël du Journal Spirou 1955 - 1969 og myndi einfaldlega þýðast á íslensku sem; Jólasögur Journal Spirou (SPIROU tímaritsins) 1955 - 1969 en hún kom út hjá hinni belgísku Dupuis útgáfu fyrir jólin árið 2021 Þetta er heilmikill doðrantur í stóru broti, upp á einhverjar 250 blaðsíður, með samansafni af skemmtilegu jólaefni í myndasöguformi sem birtust á síðum SPIROU tímaritsins á þessum áðurnefndu árum.

Mest eru þarna um að ræða jólasögur með þekktustu myndasögupersónum blaðsins en einnig ýmsan fróðleik sem segir frá sögu og tilurð þessa efnis. Þessi bók hefur því að geyma brot af því besta af sígildu myndasöguefni tengdu jólablöðum SPIROU og er eiginlega alveg stórgaman að fletta í gegnum - jafnvel fyrir þá sem ekki tala stakt orð í frönsku. Margir þekkja það auðvitað úr æsku að í teiknimyndasögum er það nefnilega þannig að það er myndmálið sem skiptir mestu máli. Það þarf ekki að taka fram að jólaefnið í þessari bók hefur að sjálfsögðu verið ófáanlegt lengi og ekki komið fyrir sjónir aðdáenda belgískra myndasögulesenda í marga áratugi. Sjálfsagt eru því tugir kynslóða sem hafa aldrei augum litið þetta efni og fæstir hafa líklega um leið engan áhuga á að skoða það. Mest eru það því sennilega bara myndsögunördar og safnarar, komnir jafnvel vel yfir miðjan aldur, sem upplifa einhvers konar nostalgíu við að fletta í gegnum bókina og skoða þetta gamla sígilda efni. Það er líklegt að SVEPPAGREIFINN teljist til þeirra hóps.

Á undanförnum árum hefur SVEPPAGREIFINN reynt að birta myndasögufærslur, í desember mánuði, hér á Hrakförum og heimskupörum sem tengjast jólunum. Mikið af því efni hefur tengst SPIROU tímaritinu og þegar vel er að gáð kemur í ljós að mest af því kemur einnig fyrir í bókinni Contes de Noël du Journal Spirou 1955 - 1969. Þarna eru til dæmis tvær stuttar jólasögur með þeim Hinrik og Hagbarði, Gorminum, Jóla litla (Le Petit Noël) og kettinum Poussy en þetta efni kemur allt úr SPIROU blaðinu og má finna hér til hliðar á síðunni undir heitinu Jólaefni

Í færslu dagsins var víst einnig ætlun SVEPPAGREIFANS að birta aðra jólamyndasöguna, af tveimur, sem hann þýddi og gerði klára til birtingar fyrir um tveimur árum en hafði þó ekki enn látið verða af að miðla hér á síðunni. Hér er um að ræða einnar síðu brandara eða sögu úr seríunni um vinina Boule og Bill en margir myndasöguaðdáendur kannast eflaust við þá félaga þó þeir hafi aldrei komið út í bókaformi hér á Íslandi. Hinn brandarinn mun hins vegar nær örugglega fylla í jólafærslu á næsta ári ef síðuhafi hefur þá ekki enn gefist upp á þessari vitleysu. Að sjálfsögðu koma þessir brandarar líka báðir fyrir í bókinni Contes de Noël du Journal Spirou 1955 - 1969. Sjálfur á SVEPPAGREIFINN líklega sex til átta bækur úr bókaflokknum um þá Boule og Bill og minnist þess að hafa einhvern tímann minnst á þá kauða, hér á bloggsíðu sinni, þó hann muni ekki af hvaða tilefni það var. Boule og Bill bækurnar eru eftir listamanninn Jean Roba, og fjalla um strákinn Boule og hundinn hans Bill, en þær eru á meðal allra þekktustu teiknimyndaseríanna sem komu út í Belgíu á sínum tíma. Þessi sería birtist, eins og áður segir, yfirleitt í einnar síðu bröndurum og er svolítið í anda Modeste og Pompon eftir André Franquin eða jafnvel Viggó viðutan eftir sama höfund. Þessi Boule og Bill jólabrandari kom fyrir í jólablaði SPIROU þann 11. desember árið 1969.